Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 7/2014

Álagning olíugjalds og úrvinnslugjalds

12.8.2014

Reifun

Málið snéri að því hvort kæranda, N, bæri að greiða olíugjald og úrvinnslugjald af tilteknum olíusendingum. Við meðferð málsins kom í ljós að kærandi hafði flokkað olíuna í rangan tollflokk. Réttur tollflokkur bar ekki olíugjald. Voru gjöld því endurreiknum miðað við það og ofgreidd gjöld endurgreidd. Var af þeim sökum ekki tekin afstaða til þess hluta kærunnar er snéri að olíugjaldi. Hvað varðar úrvinnslugjaldið hafði kærandi byggt á því að samkvæmt fjárfestingarsamningi fyrirtækisins við íslenska ríkið væri fyrirtækið undanþegið íslenskum vörugjöldum og innflutningsgjöldum. Byggði kærandi á því að innheimta úrvinnslugjalds færi að ýmsu leiti eftir lögum um vörugjald auk þess sem að úrvinnslugjald væri lagt á við innflutning og hlyti því að vera innflutningsgjald.

Niðurstöður: Tollstjóri hafnaði kröfu kæranda með þeim rökum að þrátt fyrir að innheimta gjaldsins færi að einhverju leiti eftir lögum um vörugjald væri ekki þar með sagt að gjaldið sem slíkt væri vörugjald. Þá væri úrvinnslugjald ekki heldur innflutningsgjald, heldur væri einungis lagt á við innflutning. Fleiri dæmi um slík gjöld væri t.d. rafmagnseftirlitsgjald og fóðureftirlitsgjald. Þá hefði ákvæði það sem kærandi byggði á í fjárfestingarsamningnum ekki að geyma fyrirvara um sambærileg gjöld sem síðar kynnu að vera lögð á, þrátt fyrir að slíkan fyrirvara væri að finna í öðru ákvæði. Af þeim sökum, auk þess að gjaldið væri ekki sambærilegt vörugjaldi eða tollum, var kröfu kæranda hafnað.


Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, dags. 14. janúar 2014, hefur Y, fyrir hönd X, kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, ákvörðun Tollstjóra um álagningu opinberra gjalda á félagið. Um er að ræða annars vegar olíugjald og hins vegar úrvinnslugjald sem lagt var á olíu sem félagið flutti til landsins. Krafðist kærandi þess að álagningu yrði hætt og ofgreidd gjöld endurgreidd í samræmi við lög nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda.

II. Málsmeðferð

Líkt og fram kemur í kæru flutti X olíu til landsins í júlí 2013 og tollflokkaði hana í tollskrárnúmer 2710.1919. Tilskilin gjöld voru lögð á umrædda sendingu við komu hingað til lands. Ákvörðun Tollstjóra um álagningu aðflutningsgjalda var kærð með bréfi, dags 14. janúar 2014 þar sem kærandi gerði athugasemd við álagningu opinberra gjalda á félagið. Óskaði Tollstjóri eftir frekari gögnum er vörðuðu málið og bárust þau þann 30. janúar 2014. Við meðferð málsins kom í ljós að kærandi hafði ranglega tollflokkað umrædda olíu í tollskrárnúmer 2710.1919, en rétt hefði verið að tollflokka hana í tollskrárnúmer 2710.1959. Olía í síðarnefndu tollskrárnúmeri ber ekki olíugjald og var kærandi því beðinn um að senda Tollstjóra leiðrétta aðflutningsskýrslu þann 22. maí 2014. Leiðrétt skýrsla barst 25. júní 2014 og voru gjöld endurreiknuð þann 26. júní 2014. Voru ofgreidd gjöld endurgreidd þann 21. júlí 2014.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi telur að félaginu beri ekki að greiða umrædd gjöld þar sem félagið sé undanþegið greiðslu vöru- og innflutningsgjalda samkvæmt fjárfestingarsamningi milli ríkisstjórnar Íslands og Columbia Ventures Corporation og Norðuráls hf. dags. 7. ágúst 1997. Kærandi vísar til 1. mgr. 1. gr. laga nr. 87/2004 um olíugjald þar sem fram kemur að vörugjald á olíu sé nefnt olíugjald. Kærandi vísar því næst til 3. mgr. 10. gr. fyrrnefnds fjárfestingarsamnings frá 7. ágúst 1997, þar sem fram kemur að innflutningur eða innkaup innanlands af hálfu eða fyrir hönd félagsins á hráefni og aðföngum til framleiðslu, sem nauðsynlegar eru til reksturs bræðslunnar og hafnarmannvirkja, skuli ekki bera vörugjöld eða íslensk innflutningsgjöld. Af þessum sökum þykir kæranda ljóst að félagið sé undanþegið greiðslu olíugjalds.

Hvað varðar úrvinnslugjald vísar kærandi til 4. mgr. 9. gr. laga um úrvinnslugjald þar sem fram kemur að ákvæði laga um vörugjald skuli eiga við um álagningu, innheimtu, gjaldskyldu og fleira er við kemur framkvæmd gjaldtöku. Úrvinnslugjald sé skv. 3. gr. lagt á vörur sem fluttar eru til landsins sem og þær sem framleiddar eru hér á landi. Telur kærandi innheimtu gjaldsins því að verulegu leyti sambærilega innheimtu olíugjalds. Vísar kærandi aftur til 3. mgr. 10. gr. fjárfestingarsamningsins að því er varðar undanþágu félagsins frá greiðslu vörugjalda og íslenskra innflutningsgjalda. Kærandi bendir jafnframt á að úrvinnslugjald sé lagt á við innflutning. Verði því að telja að úrvinnslugjald sé innflutningsgjald og því sé ljóst að félagið sé undanþegið greiðslu úrvinnslugjalds við innflutning samkvæmt framangreindu ákvæði fjárfestingarsamningsins.

IV. Niðurstöður

Ágreiningur í máli þessu snýr að því hvort leggja skuli olíugjald og úrvinnslugjald á olíu þá sem kærandi flytur inn. Fram hefur komið að umrædd olía hafi verið ranglega tollflokkuð af kæranda. Leiðrétt skýrsla hefur borist og er olían nú tollflokkuð í tollskrárnúmer 2710.1959, en tollskrárnúmerið ber ekki olíugjald. Verður af þeim sökum ekki tekin afstaða til þess hluta kröfu kæranda er snýr að álagningu olíugjalds.

Líkt og kærandi bendir á og kemur fram í lögum um olíugjald nr. 87/2004, er vörugjald á olíu nefnt olíugjald. Slíku ákvæði er ekki til að dreifa um úrvinnslugjald. Hvergi kemur fram að úrvinnslugjald sé vörugjald, heldur aðeins að tiltekin ákvæði er varða innheimtu úrvinnslugjalds skuli fara eftir lögum um vörugjald, sbr. 4. mgr. 9. gr. laga um úrvinnslugjald. Á það aðeins við ef ekki er þegar kveðið á um framkvæmdina í lögum um úrvinnslugjald. Þrátt fyrir að innheimta gjaldsins fari að mörgu leyti eftir reglum laga um vörugjald er ekki mögulegt að draga þá ályktun að úrvinnslugjaldið sem slíkt sé vörugjald.

Kærandi byggir jafnframt á því að fyrirtækið sé undanþegið greiðslu innflutningsgjalda. Úrvinnslugjaldið er ekki aðflutningsgjald sem slíkt heldur er gjaldið einungis innheimt við innflutning. Dæmi eru um fleiri gjöld sem innheimt eru við innflutning en eru þó ekki innflutningsgjöld og má þar nefna fóðureftirlitsgjald, rafmagnseftirlitsgjald og skilagjald. Úrvinnslugjaldi er ætla að standa straum af kostnaði vegna endurvinnslu og viðeigandi förgunar tiltekinna vara og er ekki liður í tekjuöflun ríkisins líkt og t.d. tollar, sem renna í ríkissjóð. Tekjur af úrvinnslugjaldi renna jafnframt óskiptar til úrvinnslusjóðs, sbr. 1. mgr. 19. gr. laga um úrvinnslugjald. Úrvinnslugjald er því ekki hægt að setja í sama flokk og vörugjöld eða tolla.

Þá vill Tollstjóri benda á að úrvinnslugjald kom til sögunnar eftir að fjárfestingarsamningurinn tók gildi. Ákvæði 10.3. gr. fjárfestingarsamningsins hefur ekki til að dreifa undanþágu frá sams konar eða efnislega svipuðum sköttum eða gjöldum sem síðar kynnu að verða á lögð á við innflutning, líkt og finna má í 10.1. gr. samningsins. Þar sem úrvinnslugjald kom til eftir gerð samningsins auk þess sem úrvinnslugjald getur ekki talist samskonar eða efnislega svipað gjald og vörugjald og tollar, getur gjaldið ekki fallið undir undanþáguákvæði fjárfestingarsamningsins.

Með vísan til ofangreinds telur Tollstjóri ekki mögulegt að endurgreiða álögð úrvinnslugjöld af sendingum til kæranda.

ÚRSKURÐARORÐ

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, að ákvörðun Tollstjóra um innheimtu úrvinnslugjalds af sendingum kæranda er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Bríetartúni 7, 105 Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum