Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 7/2018

Niðurfelling á vörugjaldi vegna leigubifreiðar

11.7.2018

Reifun

R,E, I og K kærður til úrskurðar ákvörðun Tollstjóra um kröfu um endurgreiðslu eftirgefins vörugjalds af bifreiðinni X, fyrir hönd dánarbús G. Óskað var endurskoðunar á ákvörðuninni og endurgreiðslu gjaldanna sem innheimt voru og til vara að greiðslan miðist við lokadag þess tíma sem bifreiðin var í leigubílaakstri.

Niðurstaða: Við mat á því hvort að skilyrðum fyrir lækkun vörugjalds af leigubifreið skv. 15. gr. reglugerðar nr. 331/2000 sé fullnægt er litið til ákvæðisins í heild sinni, þ.m.t. 3. tl. ákvæðisins. Um er að ræða sérstaka undanþágu frá skattskyldu og er hún því túlkuð þröngt líkt og aðrar undanþágur frá meginreglum um skattskyldu. Tilgangur þessarar undanþágu er að íþyngja ekki aðila, sem ekki hefur getað afla sér tekna, t.d. vegna alvarlegra veikinda sem krefjast langvarandi meðferðar og verða til þess að viðkomandi verði tímabundið óvinnufær, s.s. vegna hjartaveikinda, krabbameins eða svipaðra sjúkdóma eða ef bifreið ónýtist í slysi. Því verður að telja rétt að einvörðungu sé hægt að líta til ófyrirséðra atvika sem gera rétthafa lækkaðs vörugjalds ókleift að afla sér tekna með akstri leigubifreiðarinnar, svo undanþáguheimild þessi eigi við. Ríkistollanefnd staðfestir þessa túlkun Tollstjóra í úrskurði nefndarinnar nr. 3/2012. Við tilfærslu leyfisins verður að líta til kæranda sem leyfishafa. Ekki hafa verið lögð fram gögn sem sýna fram á að kæranda hafi verið ófært að afla tekna við akstur bifreiðarinnar. Bifreiðin var einnig í ökuhæfu ástandi enda heimilaði kærandi akstur ökutækisins af öðrum leigubílstjórum á sínum leyfistíma. Að gættu meðalhófi var tekin ákvörðun að í stað þess að innheimta eftirgefið vörugjald að fullu, eins og kveðið er á um í 3. tl. 15. gr. reglugerðarinnar, var litið til undanþágureglu greinarinnar og einungis miðað við dánardag G og fram að lokum kvaðar á ökutækinu. Er því innheimta gjaldanna í samræmi við heimild Tollstjóra til að fallast á lægra endurgjald í þeim tilvikum sem um ræðir í 15. gr. Ákvörðun um innheimtu gjaldsins var staðfest.


Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, dags. 7. ágúst sl., hafa R, E, I og K, kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun Tollstjóra, dags. 15. febrúar 2018, ákvörðun um kröfu um endurgreiðslu eftirgefins vörugjalds af bifreiðinni X, fyrir hönd dánarbús G.

Kærendur óska eftir því að Tollstjóri endurskoði ofangreinda ákvörðun og endurgreiði vörugjöld þau er innheimt voru í kjölfar ákvörðunar Tollstjóra og til vara að greiðslan miðist við lokadag þess tíma sem bifreiðin var í leigubílaakstri.

II. Málsmeðferð

Málsatvik eru með þeim hætti að G fékk lækkuð vörugjöld, þann 28. júní 2016, af bifreiðinni X vegna þess að bifreiðin var notuð til leigubílaaksturs á árinu 2016. Í lok árs 2017 lést G og færðist atvinnuleyfi hans yfir á eftirlifandi maka, sem er kærandi þessa máls. Í janúar árið 2018 hafði K, dóttir kæranda, samband við Tollstjóra þar sem óskað var eftir leiðbeiningum um það hvernig sala á ökutækinu færi fram þar sem leyfi kæranda væri útrunnið og ekki væri hægt að keyra hann lengur. Óskaði Tollstjóri eftir staðfestingu frá Samgöngustofu á því að leyfið hefði verið fært yfir á eftirlifandi maka og barst hún með tölvupósti þann 8. febrúar sama ár. Í framhaldi af þeim tölvupósti óskaði Tollstjóri eftir staðfestingu á að leyfishafi uppfyllti skilyrði um 70% tekjur af reiknuðu endurgjaldi af bifreiðinni. Í svari kæranda kom fram að bifreiðinni hefði verið ekið af öðrum aðilum en leyfishafa og hefði kærandi því ekki haft neinar tekjur af ökutækinu á þeim tíma. Þann 15. febrúar 2018 var kæranda gert að endurgreiða umrædd gjöld, frá dánardegi Guðmundar, þar sem Tollstjóri taldi kæranda ekki uppfylla skilyrði 3. tl. 15. gr. reglugerðar nr. 331/2000. Var kærandi því krafinn um endurgreiðslu vörugjalds, að fjárhæð kr. 347.130, sem eru eftirstöðvar eftirgefins vörugjalds frá dánardegi til loka kvaðar.. Gjaldið var greitt þann 28. mars 2018.

Ofangreind ákvörðun Tollstjóra var kærð af hálfu dánarbús G þann 10. júní 2018. Með fyrri kærunni fylgdi umboð frá R þar sem börnum hennar er veitt fullt umboð til að sjá um mál hennar gagnvart Tollstjóra. Þar sem Tollstjóri taldi vafa á því að dánarbú G gæti verið málsaðili í málinu, var sent bréf til kæranda, dagsett 20. júlí 2018, þar sem veitt var tækifæri á því að gera R að kæranda í málinu og koma fram með röksemdir og andmæli sem snúa að R sem málsaðila. Þann 7. ágúst barst ný kæra til Tollstjóra þar sem kærandi er R í stað dánarbúsins.

III. Meginröksemdir kæranda

Í kærunni kemur fram að ekki verði séð að tveggja ára skilyrði 15. gr. reglugerðar nr. 331/2000, um vörugjald af ökutækjum, eigi sér stoð í lögum. Bent er á að ákvæði 15. gr. segi í nútíð að skilyrði lækkunar vörugjalds af leigubifreiðum séu að kaupandi hennar hafi atvinnuleyfi til leiguaksturs fólksbifreiða og hafi akstur hennar að aðalatvinnu. Fram kemur að G heitinn hafi uppfyllt þessi skilyrði á þeim degi sem niðurfellingin fékkst.

Ennfremur er bent á ákvæði í ofangreindri reglugerð þar sem Tollstjóra er heimilt að fallast á lægra endurgjald en viðmiðunarreglur fjármálaráðherra kveði á um, enda liggi fyrir viðhlítandi gögn og rökstuðningur rétthafa sem réttlætt getur slíka ákvörðun, t.d. vegna alvarlegra veikinda eða ef bifreið ónýtist. Kærandi tekur fram að taka hefði átt tillit til þess ákvæðis reglugerðarinnar, enda óvænt atvik sem kemur upp sem orsakar að rétthafi gat ekki aflað sér tekna á tímabilinu. G hafi látist á tímabilinu og hafi því verið óvinnufær og andlát hans borið að eftir að hann fékk niðurfellinguna. Er það því alveg ljóst af hálfu kæranda að öll skilyrði séu uppfyllt.

Kærandi tekur fram að í málinu hafi meðalhófsregla stjórnsýslulaga verið brotin þar sem Tollstjóri hafi ekki athugað hvort vægari valkostur hefði staðið til boða. Fram kemur að leiðbeiningarskylda hafi einnig verið brotin, þar sem Tollstjóri hafi reynt að draga málið á langinn og svarað tölvupóstum seint. Þegar svör hafi loks borist hafi verið gefið til kynna að það kæmi börnum kæranda ekki við og að kærandi væri sú eina sem farið gæti með málið. Er því hafnað af hálfu kæranda enda verði málið ekki mál kæranda fyrr en búið var að endurgreiða vörugjaldið og ökutækið fært á nafn kæranda.

Í kærunni er tekið fram að kærandi hafi fengið leyfið óvænt og hún hafi ekki tekið þau námskeið sem þarf til að hafa réttindi til að aka leigubifreið í atvinnuskyni. Var hún því háð því að fá aðra til að keyra ökutækinu fyrir sig. Fram kemur að ekki sé hægt að ætlast til þess að kærandi setjist aftur á skólabekk til þess að sækja slík réttindi, þar sem leyfið gildi aðeins í eitt ár eftir dauðsfall maka. Einnig væri það óeðlilegur aukakostnaður fyrir stuttan tíma sem ætlaður er eftirlifandi mökum leigubílstjóra til að aðlaga sig að minni tekjum.

IV. Niðurstöður

Í málinu liggur fyrir að akstursleyfi G var fært á eftirlifandi maka, kæranda, við andlát hans. Ljóst er af hálfu Tollstjóra að frá þeim tíma hefði kærandi þurft að uppfylla öll þau skilyrði sem fram koma í 15. gr. reglugerðarinnar, fram að lokum kvaðarinnar á bifreiðina. Álagning lægra vörugjalds á leigubifreiðar er m.a. háð því skilyrði að rétthafi lækkunar vörugjalds hafi í tekjur að lágmarki 70% af reiknuðu endurgjaldi í staðgreiðslu eins og það er ákvarðað af ráðherra árlega, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, næsta heila almanaksár eftir að eftirgjöf var veitt, sbr. 3. tölul. 2. mgr. 15. gr. reglugerðarinnar. Miðað er við flokk E2 í reglum nr. 1261/2016 um reiknað endurgjald fyrir tekjuárið 2017. Undir flokk E fellur ýmis starfsemi einyrkja, ófaglærðra og vélstjórnenda. Fyrir tekjuárið 2017 skulu tekjur að lágmarksupphæð kr. 4.512.000 kr. taldar fram í tekjur í flokki E2. Rétthafi lækkunar skal því reikna sér til tekna ekki lægra endurgjald en 3.158.400 kr. Tekjur sem átt er við í ofangreindu ákvæði skulu koma til vegna aksturs leyfishafa á leigubifreið þeirri sem lækkun vörugjaldsins lítur að, sbr. einnig 5. gr. laga nr. 29/1993 og 2. tl. 15. gr. reglugerðar nr. 331/2000. Ljóst er að kærandi, sem leyfishafi, hafði engar skráðar tekjur af akstri bifreiðarinnar á umræddum tíma og uppfyllir þ.a.l. ekki ofangreint skilyrði. Samkvæmt 3. tl. 15. gr. reglugerðarinnar ber Tollstjóra að innheimta eftirgefið vörugjald að fullu uppfylli leyfishafi ekki umrædd skilyrði.

Ein undantekning er til staðar, sem bent er á í kærunni, en skv. 3. tl. 2. mgr. 15. gr. reglugerðarinnar er Tollstjóra gert heimilt að fallast á lægra endurgjald en viðmiðunarreglur fjármálaráðherra kveði á um, enda liggi fyrir viðhlítandi gögn og rökstuðningur rétthafa sem réttlætt getur slíka ákvörðun, t.d. vegna alvarlegra veikinda eða ef bifreið ónýtist.

Við mat á því hvort að skilyrðum fyrir lækkun vörugjalds af leigubifreið skv. 15. gr. reglugerðar nr. 331/2000 sé fullnægt er litið til ákvæðisins í heild sinni, þ.m.t. 3. tl. ákvæðisins. Um er að ræða sérstaka undanþágu frá skattskyldu og er hún því túlkuð þröngt líkt og aðrar undanþágur frá meginreglum um skattskyldu. Tilgangur þessarar undanþágu er að íþyngja ekki aðila, sem ekki hefur getað afla sér tekna, t.d. vegna alvarlegra veikinda sem krefjast langvarandi meðferðar og verða til þess að viðkomandi verði tímabundið óvinnufær, s.s. vegna hjartaveikinda, krabbameins eða svipaðra sjúkdóma eða ef bifreið ónýtist í slysi. Því verður að telja rétt að einvörðungu sé hægt að líta til ófyrirséðra atvika sem gera rétthafa lækkaðs vörugjalds ókleift að afla sér tekna með akstri leigubifreiðarinnar, svo undanþáguheimild þessi eigi við. Ríkistollanefnd staðfestir þessa túlkun Tollstjóra í úrskurði nefndarinnar nr. 3/2012. Við tilfærslu leyfisins verður að líta til kæranda sem leyfishafa. Ekki hafa verið lögð fram gögn sem sýna fram á að kæranda hafi verið ófært að afla tekna við akstur bifreiðarinnar. Bifreiðin var einnig í ökuhæfu ástandi enda heimilaði kærandi akstur ökutækisins af öðrum leigubílstjórum á sínum leyfistíma. Að gættu meðalhófi var tekin ákvörðun að í stað þess að innheimta eftirgefið vörugjald að fullu, eins og kveðið er á um í 3. tl. 15. gr. reglugerðarinnar, var litið til undanþágureglu greinarinnar og einungis miðað við dánardag G og fram að lokum kvaðar á ökutækinu. Er því innheimta gjaldanna í samræmi við heimild Tollstjóra til að fallast á lægra endurgjald í þeim tilvikum sem um ræðir í 15. gr. Ekki er þó hægt að fallast á að Tollstjóri geti litið til undanþágunnar þegar þau rök eiga ekki lengur við, þ.e. eftir að leyfi hefur verið fært til kæranda.

Hvað varðar rök kæranda um að leyfið hafi færst óvænt á kæranda er það þó þannig að kærandi þarf að bera sig sjálfur eftir því að leyfi makans sé fært á eftirlifandi maka. Slíkt verklag hefur verið staðfest af Samgöngustofu.

Heimilt er skv. 5. gr. laga nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., að fella leigubifreiðar í undanþáguflokk skv. 3. gr. sömu laga. Í ákvæði segir að skilyrði lækkunar vörugjalds séu að kaupandi bifreiðar hafi atvinnuleyfi til leiguaksturs fólksbifreiða og hafi akstur hennar að aðalatvinnu. Í lokamálsgrein sömu greinar er ráðherra heimilað að setja í reglugerð nánari skilyrði um niðurfellingu vörugjalda á þessi ökutæki. Ráðherra hefur á grundvelli ákvæðisins sett reglugerð nr. 331/2000, um vörugjald á ökutæki. Ekki er því vafi um lagagrundvöll þeirra skilyrða sem fram koma í umræddri reglugerð. Í 2. mgr. 15. greinar reglugerðarinnar segir að lækkun vörugjalds sé háð því skilyrði að næstu tvö ár eftir nýskráningu bifreiðar verði skilyrði sömu málsgreinar að vera uppfyllt. Hafnað er því þeirri fullyrðingu kæranda að tveggja ára skilyrði reglugerðarinnar eigi sér ekki lagastoð.

ÚRSKURÐARORÐ

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, að ákvörðun Tollstjóra um innheimtu eftirgefins vörugjalds vegna bifreiðarinnar X að fjárhæð kr. 347.130, er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Yfirskattanefndar, Borgartúni 21, 105 Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum