Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 8/2011

Athugasemdir við framkomu tollvarðar og útreikning álagðra gjalda

29.6.2011

Í dag var hjá Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi sem barst Tollstjóra þann 4. janúar 2011, hefur M, kært skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun Tollstjóra um álagningu aðflutningsgjalda á vörur, fatnað og raftæki, sem hún hafði meðferðis við komu til landsins með flugi. Kærandi gerir auk þess athugasemdir við framkomu og útreikning tollvarðar, sem hún telur ekki hafa verið til samræmis við góða stjórnsýsluhætti. Kærandi krefst þess að aðflutningsgjöld verði leiðrétt samkvæmt heimild í XIV. kafla tollalaga.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi kom til landsins með flugi frá Boston þann 14. ágúst 2010. Kærandi var stöðvuð við grænt hlið af tollverði á Keflavíkurflugvelli við almennt tolleftirlit. Við skoðun farangurs varð strax ljóst að kærandi hafði meðferðis tollskyldan varning að verðmæti sem fór framúr lögbundnum tollfríðindum. Kærandi upplýsti aðspurð að í farangri væri verslunarvara að fjárhæð um það bil kr. 100.000.- Tollvörður spurði kæranda einnig hvort kvittanir væru fyrir varningi sem fannst í farangri. Kærandi neitaði því en fjöldi kvittana fannst hins vegar við leit tollgæslu. Heildarverslun tollskylds varnings samkvæmt kvittunum að lokinni yfirferð var kr. 210.768.-. Að frádregnum tollfríðindum, að fjárhæð kr. 65.000.-, var álagningarstofn ákveðinn kr. 145.768.-. Andlag aðflutningsgjalda skv. sundurliðun reiknings var kjólar, pils og buxur auk stafrænnar myndavélar. Innheimtur var 25% virðisaukaskattur af öllum álagningarstofni. Engin tollur var lagður á myndavél en 15% tollur var lagður á fatnað. Kærandi var viðstödd yfirverð varnings sem var andlag álagningarinnar. Að útreikningum loknum greiddi kærandi álögð gjöld, alls kr. 56.184.-, án athugasemda eða fyrirvara.

Kærandi sendi bréf til embættis Tollstjóra þann 24. ágúst 2010 þar sem kvartað var yfir ókurteisi tollvarðar og óskað eftir upplýsingum um álagningu þá er fram fór. Við upplýsingaöflun embættisins var fengin skýrsla frá tollgæslunni á Keflavíkurflugvelli. Embætti Tollstjóra svaraði erindi kæranda með bréfi þann 30. nóvember 2010 þar sem farið var yfir málavexti og upplýst um þær lagareglur sem unnið hafði verið eftir auk þess að kærandi hefði fengið ívilnandi meðferð við val á úrlausnarleiðum við töku stjórnsýsluákvörðunar. Jafnframt var bent á kæruheimild tollalaga. Kæra barst embættinu þann 4. janúar 2011. Í kjölfar kæru var málið rannsakað að nýju og tollverði m.a. gert að gera stuttar athugasemdir um efni kæru, s.s. er varðaði kvittanir og útreikninga.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi heldur því fram að útreikningur aðflutningsgjalda af hálfu tollvarðar hafi verið rangur og í ósamræmi við tollalög. Kærandi ber því við að tollvörður hafi ekki gert greinarmun á vörum eftir tollflokkum, heldur lagt saman allar upphæðir á kvittunum og fellt þær undir ákveðinn tollflokk, 6204-4900 kjólar, pils og buxur kvenna. Að lokum gerir kærandi aðfinnslur við framkomu, verklag og viðmót tollvarðar sem hún telur hafa verið í ósamræmi við góða stjórnsýsluhætti.

IV. Niðurstöður 

Í 3. gr. tollalaga nr. 88/2005 er mælt fyrir um almenna tollskyldu á öllum varningi sem berst til landsins nema slík skylda sé sérstaklega undanþegin með lögum. Undanþágu frá almennri tollskyldu er að finna í b-lið 2. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga, sbr. og 1. og 2. gr. reglugerðar nr. 630/2008 um tollfríðindi. Þar segir að ferðamönnum búsettum hérlendis sé heimilt að hafa meðferðis hingað til lands eða kaupa í tollfrjálsri verslun hér á landi, umfram almennan farangur og ferðabúnað, að verðmæti allt að 65.000 kr., miðað við smásöluverð á innkaupsstað. Verðmæti einstaks hlutar skal þó að hámarki vera 32.500 kr. Þá telst það til ólöglegs innflutnings, sem varðar sektum og fangelsi allt að tveimur árum í alvarlegri tilfellum, þegar vara er flutt til landsins án þess að tollyfirvöldum sé gerð grein fyrir henni samkvæmt fyrirmælum tollalaga, sbr. ofangreint og einkum 1. mgr. 170. gr. laganna. Brot á tollalögum eru refsiverð óháð því hvort þau er framin af gáleysi eða ásetningi nema annað sé sérstaklega tekið fram, sbr. 169. gr. laganna. Engin lögbundin frávik eiga við hér.

Samkvæmt 1. og 2. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 630/2008 skulu þeir sem koma til landsins ótilkvaddir gera Tollstjóra grein fyrir tollskyldum vörum sem þeir hafa meðferðis svo og þeim hlutum sem eru háðir sérstökum innflutningstakmörkunum eða innflutningsbanni. Vandlega auðkennd rauð og græn hlið eru notuð við tollafgreiðslu komufarþega úr flugi. Komufarþegar sem eru með tollskyldar vörur skulu fara um rautt hlið og framvísa þar varningnum til tollskoðunar. Þeir farþegar sem ekki eru með neinn slíkan varning er heimilt að fara um grænt hlið. Farþegar sem velja grænt hlið teljast með því gefa til kynna að þeir hafi engan varning meðferðis sem þeim ber að gera grein fyrir, sbr. 2. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 630/2008. Komufarþegi gefur þannig tollgæslu og embætti Tollstjóra ranga yfirlýsingu með því að fara í gegnum grænt hlið með farangur sem inniheldur verslunarvöru umfram heimildir en svo var ástatt í því máli sem hér um ræðir.

Tollvörður stöðvaði kæranda við hefðbundið tolleftirlit á grænu hliði. Eftir gegnumlýsingu farangurs var ýmislegt sem benti til þess að kærandi hefði meðferðis verslunarvöru að hærra verðmæti en hún hafði upprunaleg látið í ljós. Samkvæmt 1. mgr. 156. gr. tollalaga. er tollvörðum heimilt að rannsaka allar þær vörur sem fluttar eru inn til landsins. Í skýrslu tollvarðar, frá 27. ágúst 2010, kemur fram að á meðan rannsókn stóð hafi kæranda verið leiðbeint um rétt sinn og um þau lög sem við áttu. Tollvörður hafi innt kæranda eftir aðstoð við útreikning. Kærandi hafi til að byrja með veitt tollverði umbeðna aðstoð en síðar látið tollvörð alfarið sjá um útreikning aðflutningsgjaldanna. Kærandi reyndi margsinnis meðan á rannsókn stóð að hafa áhrif á afstöðu tollvarðar, án árangurs. Ekki voru gerðar aðfinnslur við símanotkun kæranda né tilraunir hennar til að fá tollverði til að láta málið niður falla. Tollvörður reyndi auk þess eftir fremsta megni að viðhafa vinsamleg og fagleg samskipti við kæranda. Ekki verður annað séð en að tollvörður hafi rækt skyldur sínar af kostgæfni og samviskusemi, með hlutlægni og réttsýni að leiðarljósi. Aðgerðir tollvarðar voru því í samræmi við 148. gr. tollalaga og góða stjórnsýsluhætti. 

Álögð gjöld voru reiknuð út á staðnum að kæranda viðstaddri. Kærandi hafði tök á að hafa áhrif á hvaða kostnaðarliðir á kvittunum og annað kæmi til álagningar við ákvörðun tollverðs og álagningar aðflutningsgjalda. Kærandi lagði áherslu á frádráttarliði og varning á kvittunum sem voru málinu óviðkomandi og voru þær athugasemdir teknar til greina. Tollvörður hefur í skýrslu sinni fullyrt að hafa látið kæranda njóta vafans þegar við átti og að fullt tillit hafi verið tekið til allra ábendinga kæranda til frádráttar. Kostnaðarliðir á kreditnótum sem ekki áttu við, bensín, matvara og fl., voru því ekki teknir með í reikninginn.

Í seinni skýrslu tollvarðar, frá 9. janúar 2011, er upplýst að tollvörður geti ekki fullyrt að allar þær kvittanir sem kærandi lagði fram með kæru séu þær sömu og voru grundvöllur álagningarinnar. Fyrir lá að embætti Tollstjóra tók ekki afrit af þeim kvittunum sem útreikningar byggðu á. Tollvörður upplýsti hins vegar að hafa glögglega tekið eftir tilteknum kvittunum frá tilteknum söluaðilum sem ekki fylgdu kæru. Í skýrslunni kom fram að eftir að tollvörður hafði lokið útreikningum sínum, fór málið til varðstjóra á vakt sem tók við greiðslu aðflutningsgjalda frá kæranda. Kærandi kvaðst aðspurð vera að greiða aðflutningsgjöld vegna fatnaðar. Eins og fram kom að ofan greiddi kærandi útreiknuð gjöld án nokkura athugasemda eða fyrirvara.

Ekki var um að ræða hefðbundna tollafgreiðslu í skilningi tollalaga þar sem kærandi varð uppvís að broti á 170. gr. laganna, þ.e. ólöglegum innflutningi. Kærandi veitti auk þess tollverði rangar upplýsingar varðandi magn og verðmæti þeirrar vöru sem hún hafði í farangri sínum og braut með því gegn 172. gr. laganna. Ljóst er að meðalhófsreglu hafi verið beitt til hins ítrasta með þeim hætti að valið var allra vægasta úrræði sem völ var á til að ná fram markmiðum laganna. Ekkert af þeim varningi sem kærandi hafði í farangri var gerður upptækur og kærandi var ekki sektuð, þrátt fyrir ákvæði 169. gr. tollalaga. Þá var kærandi látin njóta vafans með annan varning í farangri, sem kvittanir náðu ekki til.

Með vísan til ofangreinds er niðurstaðan óhjákvæmilega sú að embætti tollstjóra hafnar því að endurreikna eða endurgreiða ætluð ofreiknuð aðflutningsgjöld með þeim hætti sem krafist er af hálfu kæranda.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Embætti tollstjóra úrskurðar, skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með vísan til þess sem rakið er hér að framan að ákvörðun um álagningu aðflutningsgjalda á fatnað og raftæki í fórum kæranda dags. 14. ágúst 2010 er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum