Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 9/2012

Álagning aðflutningsgjalda á búslóð

12.3.2012

Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, dags. 17. febrúar 2012, hefur A, kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, álagningu aðflutningsgjalda vegna sendingar nr. E GOD 14 02 2 DK AAR S002.

Kærandi krefst þess að reglur um tollfrjálsan varning taki til umræddrar sendingar.

II. Málsmeðferð

Þann 14. febrúar 2012 kom hingað til lands með Eimskip sending nr. E GOD 14 02 2 DK AAR S002 frá Danmörku. Sendingin innihélt búslóð kæranda. Tilskilin gjöld voru lögð á sendinguna við komu hingað til lands. Ákvörðun Tollstjóra um álagningu aðflutningsgjalda var kærð með bréfi kæranda dags. 17. febrúar 2012.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi tekur fram að upphaflega hafi staðið til að hann og fjölskylda hans myndu flytja tímabundið í 6 mánuði hingað til lands frá Danmörku. Þau plön hafi hins vegar breyst, svo úr varð varanleg búseta hér á landi. Þann 2. febrúar sl. fór kærandi til Danmerkur til að tæma geymslu sem hann hafði þar á leigu. Kærandi tekur fram að hann hafi selt öll húsgögn og heimilistæki áður en hann hélt til Íslands og hafi þess vegna þurft að kaupa þau öll aftur. Því sé um að ræða ný heimilistæki sem Tollstjóri leggur á aðflutningsgjöld sem hann nú kærir.

Kærandi telur, eftir að hafa kynnt sér reglur 16. gr. reglugerðar nr. 630/2008 um ýmis tollfríðindi, að hann eigi rétt á að versla muni úti sem hann gæti tekið með sér heim svo framarlega sem verðmæti þeirra fari ekki yfir tilgreind mörk. Þá vill kærandi vekja athygli á því að hvergi er tekið fram að þessir hlutir yrðu að hafa verið keyptir áður en skráning inn í landið ætti sér stað. Telur kærandi að með ákvörðun Tollstjóra sé verið að hafa af honum réttinn til að taka með sér heimilismuni að ákveðinni upphæð, réttur sem allir hafa þegar þeir flytjast búferlum til landsins.

IV. Niðurstöður

Almenn tollskylda hvílir á hverjum þeim sem flytur inn vöru til landsins til endursölu, afhendingar án endurgjalds eða eigin nota eða verður ábyrgur fyrir greiðslu tolla, sbr. 3. gr. tollalaga nr. 88/2005. Undantekningar frá meginreglunni er m.a. að finna í 1. mgr. 6. gr. laganna. Allar undantekningar frá almennri toll- og skattskyldu ber að túlka þröngt og verða því ríkar kröfur gerðar um að skilyrðum þeirra sé fullnægt.

Búslóð manna sem flytjast búferlum hingað til lands eru tollfrjálsar að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Viðkomandi þarf til að mynda að hafa átt fasta búsetu erlendis í a.m.k. eitt ár áður en hann fluttist til landsins, sbr. 4. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga nr. 88/2005. Ráðherra getur með reglugerð takmarkað niðurfellingu samkvæmt þessum lið við notkun, vöruflokka eða hámarksverð að teknu tilliti til dvalartíma erlendis, fjölskyldustærðar og annarra aðstæðna.

Í II. kafla reglugerðar nr. 630/2008 um ýmis tollfríðindi er hugtakið búslóð skilgreint og fram koma upplýsingar um almenn skilyrði sem innflytjandi búslóðar þarf að uppfylla til að njóta tollfrelsis. Samkvæmt 15. gr. reglugerðarinnar teljast til búslóða í þessu sambandi heimilismunir, t.d. húsgögn, búsáhöld og aðrir persónulegir munir, sem eru tollfrjálsir við búferlaflutning.

Almenn skilyrði tollfrelsis búslóða eru listuð í 16. gr. reglugerðar nr. 630/2008. Þar kemur fram að undanþága frá greiðslu gjalda af búslóð sé m.a. háð þeim skilyrðum að innflytjandi hafi haft fasta búsetu erlendis a.m.k. samfellt í eitt ár næstliðið ár fyrir búferlaflutning til landsins. Jafnframt er sett það skilyrði að búslóðarmunir séu notaðir, í eigu innflytjanda og fjölskyldu hans eigi skemur en eitt ár og að þeir séu eingöngu ætlaðir til nota við heimilishald viðkomandi hérlendis. Undanþágan tekur þó til ónotaðra búslóðarmuna og búslóðarmuna sem viðkomandi hefur átt í skemmri tíma og ætlar að nota hér á landi, enda sé verðmæti þeirra eigi meira en kr. 140.000.- miðað við smásöluverð á innkaupsstað, sbr. 3. tl. 1. mgr. 16. gr. reglugerðarinnar. Þá segir að viðkomandi eigi að hafa búslóðina með sér er hann flytur búferlum til landsins eða flytji hana til landsins eigi síðar en 6 mánuðum frá því að hann tók sér bólfestu hér á landi eða öðlast hér lögheimili. Tollstjóri getur þó veitt undanþágu frá þessu ákvæði ef sérstaklega stendur á, svo sem ef dvöl manns hér hefur upphaflega verið ákveðin um skemmri tíma en framlengist síðan til varanlegrar búsetu, sbr. 4. tl. ákvæðisins.

Embætti Tollstjóra telur það ekki samræmast tilgangi ofangreindra ákvæða um tollfríðindi búslóða að einstaklingur geti nýtt sér þau til að versla nýja muni á þeim tíma þegar lögheimilsflutningur hingað til lands hefur farið fram. Ljóst er að kærandi öðlaðist lögheimili hér á landi þann 16. júlí 2011. Sé miðað við að innflutningur á hinum tollfrjálsu heimilismunum verði að hafa átt sér stað innan sex mánaða frá þeim degi sem kærandi öðlaðist hér lögheimili, hefði frestur til að nýta tollfríðindi skv. 16. gr. reglugerðar nr. 630/2008 verið til 16. janúar 2012. Tollstjóri getur veitt undanþágu frá ofangreindum tímamörkum þegar sérstaklega stendur á, en í tölvupósti kæranda til Tollstjóra dags. 13. janúar sl. var óskað eftir fresti. Ekkert hefði orðið því til fyrirstöðu að embætti Tollstjóra veitti umbeðin frest öllu jafna. Mál þetta lítur hins vegar að þeim munum sem keyptir voru eftir þessa dagsetningu. Samkvæmt reikningum sem embættið hefur undir höndum eru þeir munir sem ágreiningur stendur um varðandi álagningu aðflutningsgjalda allir keyptir á tímabilinu 3. og 4. febrúar 2012. Embætti Tollstjóra getur því ekki fallist á að umræddir munir falli undir ákvæði 4. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga nr. 88/2005, sbr. 16. gr. reglugerðar nr. 630/2008.

ÚRSKURÐARORÐ

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með vísan til þess sem rakið er hér að framan að ákvörðun um álagningu aðflutningsgjalda á sendingu nr. E GOD 14 02 2 DK AAR S002, er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum