2019

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. júní 2019 í máli nr. S-613/2018

21.6.2019


Dómur 19. júní 2019

Mál nr. S-613/2018:

Héraðssaksóknari

Kristín Ingileifsdóttir aðstoðarsaksóknari
gegn
A
Ingólfur Vignir Guðmundsson lögmaður

Dómur

Árið 2019, miðvikudaginn 19. júní, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Guðjóni St. Marteinssyni héraðsdómara, kveðinn upp dómur í málinu nr. S-613/2018: Ákæruvaldið gegn A, en málið var dómtekið 22. f.m.

Málið er höfðað með ákæru Héraðssaksóknara dagsettri 11. október 2019 á hendur A.

A

Á hendur ákærða fyrir meiri háttar brot gegn skatta- og bókhaldslögum, sem framkvæmdastjóra og stjórnarmanni einkahlutafélagsins X, með því að hafa:

1. Staðið skil á efnislega röngum skattframtölum einkahlutafélagsins gjaldárin 2008, 2009 og 2014 vegna rekstraráranna 2007, 2008 og 2013 með því að vanframtelja rekstrartekjur og vaxtatekjur félagsins, sem skattskyldar eru samkvæmt l . tölulið A-liðar 7. gr. og 3. tölul. C-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003. Með þessum hætti vanframtaldi ákærði tekjuskattsstofn félagsins framangreind rekstrarár um samtals 31.125.266 krónur og kom félaginu undan greiðslu tekjuskatts að fjárhæð samtals 5.268.851 krónur sem sundurliðast sem hér greinir:

Rekstrarárið 2007

Vanframtaldar rekstrartekjurkr.19.830.880
Möguleg rekstrargjöldkr.1.039.235

kr.18.791.645

Vanframtalinn tekjuskattur 18%

Rekstrarárið 2008

kr.3.382.496
Vanframtaldar rekstrartekjurkr.10.698.749
Vanframtaldar vaxtatekjurkr.2.640.375
Möguleg rekstrargjöldkr.651.435
Möguleg vaxtagjöldkr.1.080.303

kr.11.607.386

Vanframtalinn tekjuskattur 15%

Rekstrarárið 2013

kr.1.741.108
Vanframtaldar rekstrartekjurkr.1.334.181
Vanframtaldar vaxtatekjurkr.1.032.313
Möguleg rekstrargjöldkr.1.131.695
Möguleg vaxtagjöldkr.508.564

kr.726.235
Vangoldinn tekjuskattur 20%kr.145.247
Samtals vanframtaldar tekjurkr.31.125.266
Samtals vanframtalinn tekjuskatturkr.5.268.851

2. Staðið skil á efnislega röngum virðisaukaskattsskýrslum einkahlutafélagsins uppgjörstímabilin janúar — febrúar, september — október og nóvember — desember rekstrarárið 2007, mars — apríl, maí — júní, júlí — ágúst og nóvember — desember rekstrarárið 2008, nóvember — desember rekstarárið 2009, janúar — febrúar, mars — apríl, maí —júní og nóvember — desember rekstrarárið 2010, mars — apríl, maí —júní, september — október og nóvember — desember rekstrarárið 2011, janúar — febrúar, maí — júní, júlí — ágúst, september — október og nóvember — desember rekstrarárið 2012, mars — apríl, maí —júní og nóvember — desember rekstrarárið 2013 með því að hafa vanframtalið útskatt, og í ákveðnum tilvikum offramtalið innskatt, félagsins, og fyrir að hafa eigi staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í starfseminni, vegna sömu uppgjörstímabila, í samræmi við fyrirmæli IX. kafla laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, samtals að fjárhæð kr. 13.621.708, sem sundurliðast sem hér greinir:

2007
janúar — febrúarkr.153.935
september — októberkr.188.910
nóvember — desemberkr.4.515.722

2008kr.4.858.567
mars — aprílkr.77.717
maí —júníkr.2.205
júlí — ágústkr.415.881
nóvember — desemberkr.2.125.791

2009kr.2.621.194

nóvember — desember

2010

kr.3.883.115
janúar — febrúarkr.147.271
mars — aprílkr.237.378
maí —júníkr.94.652
nóvember — desemberkr.224.094

2011kr.703.395
mars — aprílkr.4.157
maí —júníkr.17.850
september — októberkr.28.955
nóvember — desemberkr.453.478

2012kr.504.440
janúar — febrúarkr.5.231
maí —júníkr.5.893
júlí — ágústkr.488
september — októberkr.62.237
nóvember — desemberkr. 636.932

kr. 710.791

2013

mars — apríl



kr.

122.354

maí — júníkr.54.978
nóvember — desemberkr.162.884

kr.340.216
Vanframtalinn VSK allskr. 13.621.708

3. Vanrækt að varðveita fylgiskjöl úr bókhaldi einkahlutafélagsins með fullnægjandi hætti rekstrarárin 2007 til og með 2013 og að rangfæra bókhald félagsins á þann hátt að hluti af tekjum þess var ekki færður í bókhaldið og skuldir félagsins við eigendur voru oftaldar í bókhaldinu framangreind rekstrarár. Þá var staða lánardrottna félagsins rangfærð rekstrarárin 2012 og 2013.

B.

Framangreind brot samkvæmt l . tölulið A — liðar ákæru teljast varða við l . mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. l . gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig l . mgr. 109. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003 með áorðnum breytingum.

Framangreind brot samkvæmt 2. tölulið A - liðar ákæru teljast varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. l . gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995 og 3. gr. laga nr. 134/2005.

Framangreind brot samkvæmt 3. tölulið A - liðar teljast varða við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig 2. og 3. töluliður 1. mgr. 37. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 145/1994, um bókhald, sbr. l . gr. laga nr.

37/1995.

Þess er krafist að ákærði verði daemdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar."

Verjandi ákærða krefst sýknu af l . og 2. tl. ákæru en til vara vægustu refsingar og einnig vegna sakargifta í 3. tl. Málvarnarlauna er krafist úr ríkissjóði samkvæmt framlagðri tímaskýrslu.

Hinn 28. október 2016 vísaði Skattrannsóknarstjóri ríkisins skattamálum ákærða vegna X til rannsóknar hjá Héraðssaksóknara. Tekin var skýrsla af ákærða hjá lögreglunni 19. febrúar 2018 og verður sá framburður ákærða rakinn síðar eins og ástæða þykir.

Nú verður rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.

Ákæruliður A-1

Ákærði neitar sök. Hann kvaðst hafa verið framkvæmdastjóri og stjórnarmaður X á þeim tíma sem ákæran tekur til og hann hafi einn annast rekstur félagsins. Hann kvað bókhaldsstofuna Z hafa annast bókhaldsgerð félagsins og skattskil á grundvelli gagna sem ákærði léti té. Ákærði kvaðst aldrei hafa verið beðinn um bankareikninga félagsins vegna einstakra mánaða sem ákæran tekur til. Hann hafi ekki vitað að slík yfirlit hefðu átt að fylgja gögnum til bókhaldsstofunnar. Hins vegar skilaði hann yfirliti bankareikninga í lok árs. Ákærði kvaðst hafa borið ábyrgð á ráðstöfun fjármuna félagsins. Hann kvað félagið stundum hafa fengið greitt í reiðufé og þær tekjur hefðu verið gefnar upp til skatts eins og aðrar tekjur.

Skattframtöl félagsins rekstrarárin 2007, 2008 og 2013 voru borin undir ákærða. Spurður um það hvort ákærði staðfesti að framtölin væru framtöl X árin sem ákæran tekur til kvaðst hann ekki geta staðfest það þótt svo hlyti að vera og hann drægi það ekki í efa að þetta væru framtölin sem um ræðir. Hann kvað skattframtölin hafa verið borin undir sig áður en þeim var skilað. Skattframtölin hafi verið byggð á gögnum sem ákærði lagði fram. Hann kvað skattframtölin eiga að gefa rétt mynd af tekjum X árin sem um ræðir.

Fyrir liggur yfirlit yfir útgefna sölureikninga sem ekki voru færðir í bókhald X árin 2008–2013. Yfirlitið var borið undir ákærða og staðfesti hann reikninga sem hann mundi eftir. Hann kvaðst ekki geta skýrt hvers vegna reikningarnir voru ekki tekjufærðir í bókhald X, en hann taldi sig hafa afhent bókhaldsþjónustunni afrit þessara reikninga.

Fyrir liggur í gögnum málsins yfirlit yfir greiðslur sem X greiddi með reiðufé á árunum 2007–2013, samtals 5.130.917 krónur, sem ekki sést af gögnum málsins að hafi verið teknar afbankareikningi félagsins. Ákærði var spurður hvaðan félagið hefði fengið reiðufé til þess að greiða þessar greiðslur og kvaðst ákærði ekki geta svarað þessu, en hann kvað ekki hafa verið selda vöru eða þjónustu afhálfu félagsins án þess að gefinn væri út sölureikningur er greitt var með reiðufé.

Fyrir liggur yfirlit sem sýnir reikninga sem færðir voru í bókhaldið á árunum 2009— 2012 þar sem hafnað var greiðslu innskatts vegna þess að greiðslurnar sem um ræðir vörðuðu persónuleg útgjöld ákærða. Ákærði taldi reikningana sem um ræðir ekki hafa verið persónulega heldur tengdust þeir vinnu hans hjá félaginu.

Gögn málsins sýna að bankainnstæða félagsins hækkaði um 24,5 milljónir á árinu 2007 samkvæmt leiðréttum ársreikningi. Spurður um skýringu þessa kvaðst ákærði ekki geta skýrt þetta og heldur ekki hvers vegna viðskiptaskuld við eigendur félagsins hækkaði um sömu fjárhæð. Hann kvaðst ekki hafa lagt félaginu til 24,5 milljónir í fjármunum, þótt hann kynni að hafa lagt til vinnu. Ákærði kvaðst ekki geta skýrt hækkunina.

Fyrir liggur yfirlit um vangoldnar rekstrartekjur og rekstrargjöld og vangoldnar vaxtatekjur X árin 2007—2013. Ákærði gerði ekki athugasemdir við niðurstöður samantektarinnar þótt hann gæti ekki gert athugasemdir þar sem hann skorti þekkingu um þessi efni, að sögn.

Ákæruliður A-2

Ákærði neitar sök. Hann kvað bókhaldsþjónustuna Z hafa annast gerð virðisaukaskattsskýrslna og skil þeirra, en það hefði verið byggt á gögnum sem ákærði færði bókhaldsstofunni.

Fyrir liggur yfirlit Héraðssaksóknara yfir vangoldinn virðisaukaskatt tímabilin sem ákæran tekur til og oftalinn innskatt félagsins. Gögnin sem byggt er á liggja fyrir. Ákærði var spurður um athugasemdir við yfirlitin eða gögnin sem byggt er á og kvaðst hann ekki hafa þekkingu til þess.

Ákæruliður A-3

Sannað er með skýlausri játningu ákærða fyrir dómi og með öðrum gögnum málsins að hann hafi gerst sekur um háttsemina sem í þessum ákærulið greinir og eru brot hans rétt færð til refsiákvæða í ákærunni.

Skírskotað er til ákærunnar um lýsingu málavaxta.

Vitnið B viðskiptafræðingur kvaðst reka fyrirtæki sem annist bókhald, skatta og reikningsskil og hafi félag hans annast skattskil og bókhald fyrir X frá stofnun. Hann kvaðst hafa annast bókhald og uppgjör félagsins á grundvelli gagna sem ákærði lagði fram, en í ljós hafi komið að þau reyndust ekki fullnægjandi. Ástæðan hafi verið þekkingarleysi ákærða, því bankayfirlit hafi vantað í gögnin sem hann skilaði og því ekki verið hægt að stemma félagið endanlega af. Hann taldi ákærða hafa haldið að þessi gögn skiptu ekki máli. Síðar, þegar bankareikningarnir komu fram, hafi bókhald félagsins breyst til betri vegar. Er í ljós kom að bankareikningana vantaði hefði verið kallað eftir þeim, að því er hann taldi. Síðan hafi komið fyrirspurn frá Ríkisskattstjóra sem varð til þess að bankareikningarnir voru lagðir fram. Hann staðfesti að skattframtal félagsins fyrir tekjuárið 2007 væri frá sér komið. Framtalið hefði verið unnið á grundvelli gagna sem ákærði lagði fram. Spurður hvort framtalið gæfi rétta mynd af tekjum og eignum félagsins kvaðst hann telja framtalið gefa rétta mynd af rekstrarreikningi félagsins, en hann setji hins vegar fyrirvara um efnahagsreikninginn á þeim forsendum að inn í framtalið vanti upplýsingar af bankareikningi, sem hafi orðið til þess að sú tala sem út af stóð hafi verið kölluð skuld félagsins við eiganda vegna þess að upplýsingar af bankareikningi hafi vantað og þar með hafi vantað eignir inn í félagið. Þetta hefði verið leiðrétt síðar. Hann staðfesti skattframtal fyrir rekstrarárið 2008, að það hefði verið unnið úr bókhaldsgögnum X, og framtalið gæfi rétta mynd af tekjum félagsins en hann gerði fyrirvara um efnahagsreikning. Hann kannaðist við að hafa unnið skattframtalið vegna rekstrarársins 2013 og kvað framtalið gefa rétta mynd af tekjum félagsins en sem fyrr setti hann fyrirvara um efnahagsreikning.

Meðal gagna málsins er yfirlit yfir útgefna sölureikninga sem ekki voru tekjufærðir í bókhald X á árunum 2008–2013. Hann kvað sér ekki hafa verið kunnugt um þessa reikninga og þá hefði vantað í bókhaldið. Vitnið kvaðst hafa verið í sambandi við ákærða vegna félagsins. Hann vissi ekki um útgjöld félagsins sem höfðu verið greidd í reiðufé og hann hefði ekki séð merki í bókhaldinu um að félagið hefði fengið greiðslur í reiðufé.

Meðal gagna málsins er svarbréf vitnisins vegna fyrirspurnar Ríkisskattstjóra. Vitnið staðfesti bréfið og lýsti tilganginum. Er þarna var komið hefðu allir bankareikningar X verið komnir fram og því unnt að leiðrétta bókhaldið til samræmis. Ríkisskattstjóri sendi fyrirspurnina 3. október 2013 og hann hefði fengið bankareikninga X í hendur einhvern tímann eftir það. Viðbrögð sín hefðu verið þau að færa gögnin af bankareikningum inn í bókhald félagsins. Við þessar ráðstafanir leiðréttist staðan sem áður var kölluð viðskiptaskuld félagsins við eiganda og gjörbreyttist þar með.

Ársreikningi 2007 var skilað með skattframtalinu, en hins vegar gerð leiðrétting síðar. Hann staðfesti að hafa unnið ársreikningana. Spurður um ástæðu þess að í leiðréttum ársreikningi hefði innstæða félagsins hækkað um 24,5 milljónir kvað hann ástæðuna þá að nýr bankareikningur hefði komið fram eftir að kallað var eftir reikningnum og það skýrði mismuninn. Skuldir félagsins við eiganda hefðu hækkað um sömu fjárhæð og kvaðst vitnið ekki geta skýrt það fyllilega en skýrði þó að þessi fjárhæð hefði átt að fara í gegnum eigið fé félagsins. Aðspurður kvað hann ekki hafa verið rétt að færa þessa fjárhæð til tekna í ársreikningi félagsins án þess að hafa reikninga eða gögn fyrir fjárhæðinni.

Vitnið bar að hann hefði ekki haft upplýsingar um alla bankareikninga félagsins og ekki haft vitneskju um alla sölureikninga. Eftir á að hyggja hafl hann ekki haft fullnægjandi gögn til gerðar bókhalds og skattskila fyrir X árin sem ákæran tekur til. Vitnið kvað hinn kostinn hafa verið þann að skila ekki gögnum fyrir félagið, sem hann hefði talið andstætt lögum. Hann hefði því skilað með það í huga að leiðrétta mætti þetta síðar. Þetta hefði verið hugsun sín þar sem þetta hefði ekki gengið alveg, en með það í huga að leiðrétta mætti þetta síðar er gögn lægju fyrir og senda þá leiðréttingu til Ríkisskattstjóra í formi erindis.

Niðurstaða ákæruliðar A-1

Ákærði neitar sök. Meðal gagna málsins eru skattframtöl einkahlutafélagsins gjaldaárin 2008, 2009 og 2014 vegna rekstraráranna 2007, 2008 og 2013. Samkvæmt þeim var vanframtalinn tekjuskattsstofn félagsins framangreind rekstrarár 31.125.266 krónur sem sundurliðast eins og lýst er í ákæru. Ákærði kvað skattframtölin hafa verið borin undir sig áður en þeim var skilað og þau hefðu verið byggð á gögnum sem hann lagði fram. Vitnið B kvað upplýsingar hafa vantað frá ákærða til að unnt hefði verið að Skila réttum skattframtölum og vísast til vitnisburðarins um þetta. Fram kom hjá ákærða að hann hefði litla þekkingu á því sviði sem hér um ræðir og hefði hann talið að gögnin sem hann skilaði endurskoðandanum væru fullnægjandi. Það reyndist ekki vera, eins og rakið var, og ber ákærði refsiábyrgð á því að réttu framtali Sé skilað og getur ekki borið fyrir sig vanþekkingu eða að hafa falið öðrum gerð skattframtalanna. Saknæmisskilyrði samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt eru ásetningur eða stórfellt hirðuleysi. Sömu saknæmisskilyrði eru samkvæmt 262. gr. almennra hegningarlaga. Eins og rakið var bar ákærða, sem framkvæmdastjóra og stjórnarmanni einkahlutafélagsins X, að sjá um að fullnægjandi gögn lægju fyrir við gerð skattframtala félagsins árin sem um ræðir, en enginn annar var í aðstöðu til þess, enda annaðist ákærði allan rekstur félagsins eins og lýst var. Eins og lýst var reyndist þetta ekki raunin. Þótt ekki hafi verið sýnt fram á ásetning ákærða í þessum efnum verður að telja að hann hafi sýnt af Sér stórfellt hirðuleysi, eins og lýst er í l. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003. Er samkvæmt þessu sannað með gögnum sem rakin voru, framburði ákærða sjálfs að hluta og með vitnisburði B, að ákærði hafi gerst sekur um háttsemina sem í þessum ákærulið greinir og eru brotin rétt færð til refsiákvæða í ákærunni.

Niðurstaða ákæruliðar A-2

Samkvæmt gögnum málsins voru staðin Skil á efnislega röngum virðisaukaskattsskýrslum einkahlutafélagsins uppgjörstímabilin sem lýst er í ákærunni og vantalinn útskattur og í ákveðnum tilvikum offramtalinn innskattur félagsins. Þá er sannað með sömu gögnum að eigi voru staðin Skil á innheimtum virðisaukaskatti vegna sömu uppgjörstímabila, í samræmi við IX. kafla laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, samtals að fjárhæð 13.621.708 krónur. Fjárhæðir samkvæmt þessum ákærulið byggjast á fyrirliggjandi gögnum sem sanna að fjárhæðirnar í ákærunni eru réttar. Ákærða bar sem fyrirsvarsmanni einkahlutafélagsins að annast starfsemi félagsins og fylgjast með og tryggja að félagið innti af hendi lögboðin gjöld og stæði Skil á skýrslum og skilagreinum til skattyfirvalda og er í þessu sambandi vísað til 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Þótt ekki hafi verið sýnt fram á ásetning ákærða í þessum efnum verður að telja að hann hafi sýnt af sér stórkostlegt hirðuleysi eins og lýst er í l. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Með því sem nú hefur verið rakið og með vísan til gagna málsins er sannað, gegn neitun ákærða, að hann hafi gerst sekur um háttsemina sem í þessum ákærulið greinir og eru brot hans þar rétt færð til refsiákvæða.

Ákærði hefur ekki áður gerst brotlegur við lög. Hann hefur játað brot sín að hluta og er það virt til refsilækkunar. Refsing ákærða þykir, með vísan til 77. gr. almennra hegningarlaga, hæfilega ákvörðuð fangelsi í sex mánuði sem skilorðsbinda skal eins og nánar greinir í dómsorði. Auk refsivistar ber að gera ákærða sektarrefsingu. Að teknu tilliti til saknæmisstigsins sem rakið var og til málavaxta að öðru leyti og greiðslna sem inntar hafa verið af hendi og tengjast sakarefninu og að teknu tilliti til álags og skatts af álagi þykir sektarrefsing ákærða hæfilega ákvörðuð 34,5 milljónir króna í ríkissjóð og komi 360 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá uppsögu dómsins að telja.

Ákærði greiði 1.791.800 króna málsvarnarlaun Ingólfs Vignis Guðmundssonar lögmanns að meðtöldum virðisaukaskatti. Þóknunin er fyrir vinnu lögmannsins undir rannsókn málsins og dómsmeðferð.

Kristín Ingileifsdóttir aðstoðarsaksóknari flutti málið fyrir ákæruvaldið.

Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð:

Ákærði, A, sæti fangelsi í sex mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar skilorðsbundið í tvö ár frá birtingu dómsins að telja og skal hún falla niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði 34,5 milljónir króna í sekt í ríkissjóð og komi 360 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá uppsögu dómsins að telja.

Ákærði greiði 1.791.800 króna málsvarnarlaun Ingólfs Vignis Guðmundssonar lögmanns.

Guðjón St. Marteinsson

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum