2019

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. mars 2019 í máli nr. S-598/2018

17.4.2019

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 21. mars 2019 í máli nr. S-598/2018:

Ákæruvaldið

(Finnur Þór Vilhjálmsson saksóknari)

gegn

Birgi S. Bjarnasyni

(Sveinn Jónatansson lögmaður)

I

Mál þetta, sem dómtekið var 6. mars síðastliðinn, var höfðað með ákæru héraðssaksóknara, útgefinni 25. september 2018, á hendur Birgi S. Bjarnasyni, kt. 000000-0000, [...] á [...], „fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum sem framkvæmdastjóri Íslensku umboðssölunnar hf., kt. 000000-0000, (nú afskráð) með því að hafa ekki staðið ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, í samræmi við fyrirmæli III. kafla laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sem haldið var eftir af launum starfsmanna hlutafélagsins vegna greiðslutímabilanna september, október, nóvember og desember rekstrarárið 2015, febrúar til og með desember rekstrarárið 2016 og janúar rekstrarárið 2017, samtals að fjárhæð 24.669.819 krónur, sem sundurliðast svo:

Árið 2015

september     kr. 2.383.758
október           kr. 2.354.252
nóvember      kr. 2.551.619
desember      kr. 2.351.523

                         kr. 9.641.152

Árið 2016

febrúar            kr. 2.353.433
mars                kr. 2.024.691
apríl                 kr. 1.180.745
maí                  kr. 1.172.187
júní                  kr. 1.029.561
júlí                   kr. 1.036.704
ágúst               kr. 1.110.731
september     kr.     909.859
október           kr.     942.054
nóvember       kr. 1.223.027
desember       kr.    762.376      

                          kr. 13.745.368

Árið 2017

janúar kr. 1.283.299

Samtals kr. 24.669.819.

Þetta telst varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Ákærði neitar sök og krefst sýknu. Hann krefst þess að málsvarnarlaun og annar sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði.

II

Málavextir eru þeir að skattrannsóknarstjóri rannsakaði skil framangreinds hlutafélags á afdreginni staðgreiðslu. Niðurstaða rannsóknarinnar var að ekki hefði verið skilað þeim fjárhæðum sem í ákæru greinir og eru vegna þeirra tímabila er þar eru greind.

Tekin var skýrsla af ákærða, bæði hjá skattrannsóknarstjóra og héraðssaksóknara, og bar hann þar efnislega á sama veg og fyrir dómi.

Við aðalmeðferð bar ákærði að hafa verið framkvæmdastjóri nefnds hlutafélags á þeim tíma sem í ákæru getur. Hann hefði gegnt stöðunni og þeim skyldum sem því voru samfara, þar á meðal að stýra daglegum rekstri félagsins og skattskilum. Hann kvað tölurnar í ákæru vera réttar, enda væru þær byggðar á gögnum sem hann gerði ekki athugasemdir við. Tölurnar gæfu rétta mynd af reiknuðum launagreiðslum félagsins, en ekki hefði náðst að greiða þau öll. Hann kvað rekstur félagsins eftir Hrun hafa verið mjög brösóttan og félagið ekki ráðið sínum fjármálum að öllu leyti. Ákærði kvað enga meðvitaða ákvörðun hafa verið tekna um að greiða ekki staðgreiðsluna til ríkissjóðs. Félagið hafi greitt til ríkissjóðs það sem það hefði getað greitt. Aldrei hefði verið óskað eftir því að greiðslur, sem greiddar voru til ríkissjóðs, myndu renna til greiðslu á tilteknum skuldum. Hann kvaðst hafa talið að greiðslum til tollstjóra væri ráðstafað lögum samkvæmt en hann hefði ekki fylgst með því. Honum hefði þó aldrei dottið í hug að ráðstöfun á greiðslum félagsins myndi valda sér refsiábyrgð. Þá kvaðst hann alltaf hafa talið að félagið myndi ná að rétta úr kútnum og verða gjaldfært.

III

Ákærði neitar sök en hefur viðurkennt að hafa verið framkvæmdastjóri framangreinds hlutafélags á þeim tíma sem í ákæru greinir. Þá hefur hann kannast við að rétt sé farið með tölur í ákærunni. Þessum fjárhæðum hafi verið haldið eftir hjá félaginu og á því hafi hann borið ábyrgð. Sýknukrafa ákærða byggir á því að til innheimtumanns ríkissjóðs hafi runnið greiðslur sem hafi tilheyrt félaginu og ekki hafi verið tiltekið til hvers hafi átt að ráðstafa. Gera verði ráð fyrir að þeim hefði átt að ráðstafa til að skila peningum sem félagið hafi haldið eftir og ekki átt, í þessu tilfelli afdreginni staðgreiðslu. Með vísun til meðalhófsreglunnar verði að leggja þá skyldu á innheimtumann ríkissjóðs að ráðstafa greiðslum fyrst inn á þær skuldir sem hafi alvarlegustu afleiðingar að greiða ekki. Þessi túlkun eigi sér einnig stoð í reglum nr. 797/2016 um greiðsluforgang og skuldajöfnun skatta og gjalda. Í greinargerð ákærða er gerð grein fyrir því að hefði innheimtumaður ráðstafað þessum fjármunum til að gera upp staðgreiðsluskuldir félagsins hefðu allir vörsluskattar þess verði greiddir að fullu á árinu 2016.

Ákæruvaldið byggir á því að ákærði hafi allt frá upphafi rannsóknar borið á sama hátt um að starfsmenn hafi fengið greidd laun, nema ef vera skyldi síðasta mánuðinn. Staðgreiðslan hafi verið dregin af laununum og hafi borið að skila henni til innheimtumanns hvað svo sem liðið hefði inneign félagsins vegna annarra greiðslna.

Brot ákærða er talið varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga sem leggur refsingu við meiri háttar broti gegn, meðal annars, 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Í síðarnefndu greininni er það lýst refsivert ef launagreiðandi, af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi, innir ekki af hendi þær greiðslur vegna launamanna sem hann hefur haldið eftir eða honum bar að halda eftir. Samkvæmt framburði ákærða, sem fær stuðning í gögnum málsins, er sannað að framangreindum fjárhæðum var haldið eftir af launagreiðslum til starfsmanna en þeim ekki skilað til innheimtumanns. Á þessu bar ákærði ábyrgð sem framkvæmdastjóri félagsins. Hann verður því sakfelldur samkvæmt ákærunni og er brot hans þar rétt fært til refsiákvæða. Önnur viðskipti félagsins við innheimtumann, svo sem vegna inneignar virðisaukaskatts, fá ekki breytt þeirri skyldu að skila afdreginni staðgreiðslu í samræmi við nefnt ákvæði laga nr. 45/1987.

Ákærði á ekki sakaferil og er refsing hans hæfilega ákveðin 6 mánaða fangelsi sem bundin skal skilorði eins og í dómsorði segir. Þá verður hann dæmdur til að greiða 49.000.000 króna í sekt að viðlagðri vararefsingu eins og í dómsorði segir.

Loks verður ákærði dæmdur til að greiða málsvarnarþóknun verjanda síns sem ákveðin er með virðisaukaskatti í dómsorði.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kveður upp dóminn.

D ó m s o r ð:

Ákærði, Birgir S. Bjarnason, sæti fangelsi í 6 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveim árum frá deginum í dag að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði 49.000.000 króna sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa en sæti ella fangelsi í 360 daga.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Jónatanssonar lögmanns, 843.200 krónur.

Arngrímur Ísberg

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum