2020

Dómur héraðsdóms Reykjaness 22. apríl 2020 í máli númer S-642/2020

28.4.2020

D Ó M U R
Héraðsdóms Reykjaness 22. apríl 2020 í máli nr. S-642/2020:


Ákæruvaldið 
(Ásmunda B. Baldursdóttir saksóknari) 
gegn 
Gísla Rúnari Sævarssyni 
(Jón Örn Árnason lögmaður)


Mál þetta, sem dómtekið var 7. apríl sl., höfðaði héraðssaksóknari með ákæru 13. febrúar sl. á hendur ákærða, Gísla Rúnari Sævarssyni, kt. [...], [...]: „fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum og fyrir peningaþvætti sem daglegur stjórnandi og stjórnarmaður samlagsfélagsins [...], nú gjaldþrota, með því að hafa:

1. Eigi staðið skil á skilagreinum félagsins vegna staðgreiðslu opinberra gjalda á lögmæltum tíma vegna greiðslutímabilanna júní til og með nóvember rekstrarárið 2016, janúar til og með október og desember rekstrarárið 2017 og janúar rekstrarárið 2018, og eigi staðið ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, í samræmi við fyrirmæli III. kafla laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sem haldið var eftir af launum starfsmanna félagsins vegna greiðslutímabilanna júní rekstrarárið 2016 til og með febrúar rekstrarárið 2018, samtals að fjárhæð kr. 31.008.683, sem sundurliðast sem hér greinir:

642_1642_2
2. Eigi staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum félagsins á lögmæltum tíma fyrir uppgjörstímabilin nóvember og desember rekstrarárið 2016, og janúar til og með október rekstrarárið 2017, og fyrir að hafa eigi staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimta bar í starfseminni framangreind uppgjörstímabil, sem bar að standa ríkissjóði skil á, í samræmi við IX. kafla laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, samtals að fjárhæð kr. 22.928.548, sem sundurliðast sem hér greinir:
642_3

3. Fyrir að hafa nýtt ávinning af brotum skv. 1. og 2. tölulið ákæru, samtals kr. 53.937.231, í þágu samlagsfélagsins [...]. 
Framangreind brot ákærða samkvæmt 1. tölulið ákæru teljast varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Framangreind brot ákærða samkvæmt 2. tölulið ákæru teljast varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Framangreind brot ákærða samkvæmt 3. tölulið ákæru teljast varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“ Ákærði krefst sýknu af kröfum ákæruvaldsins samkvæmt 3. tölulið ákæru, eins og hún stendur nú, en ákæruvaldið féll undir rekstri málsins frá þeim hluta 3. töluliðar sem sneri að að því að ákærði hefði eftir atvikum nýtt ávinning „í eigin þágu“. Að öðru leyti krefst ákærði vægustu refsingar er lög leyfa. Þá er þess krafist að allur sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda. 

Málsatvik eru ágreiningslaus og fóru engar skýrslutökur fram fyrir dómi. Ákærði starfrækti samlagsfélagið [...], sem nú er gjaldþrota. Samkvæmt samþykktum félagsins var tilgangur þess bónun gólfa og almenn þrif bygginga. 

Með bréfi, dags. 20. mars 2018, tilkynnti skattrannsóknarstjóri félaginu um að embættið hefði hafið rannsókn á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda og innheimtum virðisaukaskatti. 

Með bréfi, dags. 5. september 2018, tilkynnti skattrannsóknarstjóri félaginu um lok rannsóknar embættisins. Upplýst hefði verið við rannsóknina um brot sem hefðu varðað annars vegar vanskil staðgreiðslu opinberra gjalda og hins vegar vanskil virðisaukaskatts. Fór svo að skattrannsóknarstjóri vísaði málinu til rannsóknar hjá héraðssaksóknara með bréfi, dags. 16. maí 2019. Eins og áður segir var ákæra gefin út í málinu 13. febrúar sl.

 

II

Ákærði hefur skýlaust játað brot sín samkvæmt 1. og 2. tölulið ákæru, en í 1. tölulið er honum gefið að sök að hafa eigi staðið skil á skilagreinum fyrrgreinds samlagsfélags, sem nú er gjaldþrota, vegna staðgreiðslu opinberra gjalda á lögmæltum tíma vegna tiltekinna greiðslutímabila og að hafa á nánar tilgreindum tíma eigi staðið ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda. Í 2. tölulið ákæru er ákærða gefið að sök að hafa eigi staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum félagsins á lögmæltum tíma fyrir tiltekin uppgjörstímabil og fyrir að hafa eigi staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimta bar í starfseminni vegna þeirra uppgjörstímabila. 

Eins og áður segir hefur ákærði skýlaust játað brot sín samkvæmt töluliðum 1 og 2 í ákæru. Sannað er með skýlausri játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í umræddum ákæruliðum og þar er rétt heimfærð til refsiákvæða. 
Hvað varðar tölulið 3 í ákæru þá neitar ákærði sök. Í þeim efnum var einnig fært til bókar eftir ákærða í þinghaldi 3. apríl sl. að háttsemin í þeim ákærulið væri viðurkennd, þ.e. að fjármunir sem ekki hefðu verið greiddir ríkissjóði hefði verið ráðstafað í rekstur samlagsfélagsins, en ákærði neitaði eigi að síður sök varðandi þann ákærulið. Háttsemin teldist einfaldlega ekki peningaþvætti að hans mati. Af hálfu verjanda ákærða var áréttað við sama tækifæri að einungis væri hér um lögfræðilegan ágreining að ræða sem flytja mætti málið um án þess að skýrslutökur færu fram. Sækjandi tók undir að málið færi í þann farveg og fór aðalmeðferð málsins fram 7. apríl sl. 

Ákæruvaldið byggir á því að peningaþvætti samkvæmt 1. mgr., sbr. 2., mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga sé rúmt hugtak í kjölfar þeirra breytinga sem gerðar hafi verið á orðalagi ákvæðisins með lögum nr. 149/2009. Af 2. mgr. 264. gr. leiði að sá sem fremur frumbrot, þ.e. í þessu tilviki þau brot sem ákærði hafi játað samkvæmt töluliðum 1 og 2 í ákæru, en nýtir síðan ávinninginn gerist þannig jafnframt sekur um peningaþvætti. Ágreiningslaust sé í málinu að ákærði hafi nýtt umrædda fjármuni í þágu samlagsfélagsins. Virða beri brot ákærða gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr., 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem sjálfstætt brot. Sakartæming komi þannig ekki til greina. 

Ákærði leggur áherslu á að peningaþvætti sé í megindráttum hver sú starfsemi sem lúti að því að fela uppruna og eiganda fjár sem sé ávinningur af brotastarfsemi. Ákveðin dulúð eða leynd sé þar með hugtaksskilyrði. Engri slíkri dulúð sé til að dreifa af hálfu ákærða í málinu. Fjármunirnir hafi verið notaðir í rekstur samlagsfélagsins sem nú sé gjaldþrota. Óneitanlega geti skattalagabrot verið frumbrot peningaþvættis, en meta verði tengsl refsiákvæða hverju sinni. Í þessu tilviki sé rétt að skattalagabrotið tæmi sök gagnvart peningaþvætti.

III 

Eins og áður segir hefur ákærði játað að hafa meðal annars vanrækt að standa ríkissjóði skil á virðisaukaskatti og opinberum gjöldum sem haldið var eftir í starfsemi [...] slf. Hefur dómurinn þegar rakið að með þeirri háttsemi og annarri sem greinir í töluliðum 1 og 2 í ákæru braut ákærði gegn 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda og 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Eftir stendur það álitaefni hvort ákærði hafi jafnframt gerst sekur um peningaþvætti með vísan til 1. mgr., sbr. 2. mgr., 264. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa nýtt ávinning af brotum samkvæmt fyrrnefndum ákæruliðum í þágu samlagsfélagsins. 

Ákvæði 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga gerir meðal annars refsivert að nýta, flytja eða geyma ávinning af refsiverðu broti. Í 2. mgr. 264. gr. er síðan tekið fram að sá sem framið hefur frumbrot og fremji jafnframt brot samkvæmt 1. mgr. 264. gr. skuli sæta sömu refsingu og þar greinir. Einnig greinir þar að ákvæði 77. gr. gildi þá eftir því sem við á. 

Ákærði nýtti eins og áður segir umrædda fjármuni, sem voru ávinningur af broti gegn 1. mgr 262. gr. almennra hegningarlaga, í þágu [...] slf. Þegar af þessari ástæðu er ljóst að hlutrænt séð féll háttsemi ákærða undir 1. mgr., sbr. 2. mgr., 264. gr. almennra hegningarlaga. Vaknar þá sú spurning hvort ákærði skuli jafnframt sakfelldur fyrir brot gegn því ákvæði eða að 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga tæmi sök eins og hér háttar til gagnvart 1. mgr., sbr. 2. mgr., 264. gr. almennra hegningarlaga, sbr. til nokkurrar hliðsjónar úr tíð eldri laga dóm Hæstaréttar frá 31. október 2013 í máli nr. 135/2013. Í þeim efnum verður ekki fram hjá því litið að orðalag 1. mgr. 264. gr. er rúmt og gerir meðal annars refsivert að nýta, flytja eða geyma ávinning af refsiverðu broti. Þegar orðalagið er virt heildstætt kemur í ljós að í reynd er ekki unnt að fremja brot gegn 1. mgr. 262. gr., sem felst í vanskilum félags á virðisaukaskatti eða staðgreiðslu opinberra gjalda, án þess að að háttsemin falli undir einhvern af þremur fyrrgreindum efnisþáttum 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga. 

Gegn sjónarmiðum um sakartæmingu hefur ákæruvaldið teflt fram þeim röksemdum að 1. mgr. 264. gr. sé sjálfstætt brot og að það leiði auk þess af 2. mgr. 264. gr. að ávallt beri að beita 77. gr. laganna þannig að sá sem fremur frumbrot skuli jafnframt sakfelldur fyrir peningaþvætti. Sá skilningur fái einnig stoð í lögskýringargögnum. Sakartæming komi því ekki til greina í málinu. Við málflutning innti dómari sækjanda eftir frekari dæmum til samanburðar. Var þá nefnt að gerist maður sekur um þjófnað á reiðhjóli, en nýti sér síðan reiðhjólið í kjölfar frumbrotsins, þá gerist maður jafnframt sekur um peningaþvætti með þeirri nýtingu ávinningsins. 

Ekki er unnt að fallast á framangreinda röksemdafærslu ákæruvaldsins. Í fyrsta lagi felst það í eðli sakartæmingar að tvö brot, sem almennt teljast sjálfstæð brot hvort um sig, skarast þannig að annað ákvæðið sé látið tæma sök gagnvart hinu. Má hér til hliðsjónar nefna að húsbrot samkvæmt 231. gr. almennra hegningarlaga er sjálfstætt brot sem þannig er unnt að ákæra fyrir eitt og sér. Standi slíkur verknaður aftur á móti í tengslum við þjófnað sem framinn hefur verið með innbroti í hús annars manns þá tæmir 244. gr. almennra hegningarlaga yfirleitt sök gagnvart 231. gr. almennra hegningarlaga. Þegar af þessari ástæðu útilokar það eitt og sér ekki sakartæmingu þótt peningaþvætti hafi með lögum verið gert að sjálfstæðu refsiverðu broti. 

Hvað varðar málatilbúnað ákæruvaldsins um túlkun á ákvæði 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga, þar sem vísað er til 77. gr. laganna um brotasamsteypu, þá má fallast á það með ákæruvaldinu að sú tilvísun leiðir í vissum tilvikum til þess að unnt verður að sakfella samhliða fyrir bæði frumbrot og peningaþvætti án þess að til sakartæmingar komi. Athugasemdir með frumvarpi því er varð að lögum nr. 149/2009, sem breyttu eins og áður segir ákvæði 264. gr. almennra hegningarlaga, renna einnig stoðum undir þá niðurstöðu. 

Í 2. mgr. 264. gr. er þó berum orðum tekið fram að 77. gr. laganna gildi „eftir því sem við á“. Ganga verður út frá því við lögskýringuna að tilvitnað orðalag lagaákvæðisins hafi einhverja raunhæfa þýðingu. Jafnframt er ljóst að þessi orð geta einungis haft þýðingu ákærða til hagsbóta, þ.e. á þann veg að í einhverjum tilvikum komi til sakartæmingar í stað þess að refsað verði samhliða eftir tveimur refsiákvæðum á grundvelli brotasamsteypu. Þannig er ekki unnt að líta svo á að orðalagið tengist tilvikum þar sem frumbrot er óþekkt eða fyrnt, enda koma álitaefni um sambeitingu refsiákvæða ekki til skoðunar við þær aðstæður. Hin tilvitnuðu orð lagaákvæðisins gætu þannig ekki haft nokkra raunhæfa þýðingu í slíkum tilvikum. 

Að mati dómsins er þar með ekki unnt að útiloka sakartæmingu fyrir fram í öllum tilvikum, enda myndi slíkur lagaskilningur gera orð ákvæðisins um beitingu 77. gr. laganna „eftir því sem við á“ að engu og gengi auk þess gegn meginreglu íslensks réttar um að vafa um túlkun refsiákvæða skuli skýra ákærða í hag. Sjónarmið ákæruvaldsins um að athugasemdir með frumvarpi til laganna styðji túlkun þess á 2. mgr. 264. gr. hrófla ekki við framangreindri ályktun dómsins, enda verður ekki fram hjá því litið að í athugasemdunum er einnig að finna tilvísun til þess að 77. gr. gildi „eftir því sem við á“ auk þess sem orðalag lagaákvæðisins gengur framar ummælum í lögskýringargögnum sem gætu gefið til kynna annan skilning sem væri óhagfelldur ákærða. 

Við mat á því hvenær beita ber 77. gr. almennra hegningarlaga og sakfella samhliða fyrir bæði frumbrot og peningaþvætti verður þannig að mati dómsins að líta til þeirra sjónarmiða sem birtast í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 149/2009, sem breyttu eins og áður segir ákvæði 264. gr. almennra hegningarlaga. Þar er þess getið að peningaþvætti sé „í megindráttum hver sú starfsemi sem [lúti] að því að fela uppruna og eiganda fjár sem [sé] ávinningur af brotastarfsemi“. Beri brot hins ákærða, eins og því er lýst í ákæru, skýrlega með sér að hann hafi í kjölfar frumbrots síns gripið til aðgerða beinlínis til að fela uppruna og eiganda ávinnings þá standa að mati dómsins rök til þess að 77. gr. verði beitt við úrlausn mála. Svo háttar aftur á móti ekki til í þessu máli. 

Þegar öll framangreind atriði eru virt heildstætt verður að álykta sem svo að brot ákærða gegn 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. og 2. tölulið ákæru, tæmi sök eins og hér háttar til gagnvart 1. mgr., sbr. 2. mgr., 264. gr. laganna. 


IV 

Ákærði er fæddur árið 1975. Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann ekki áður verið fundinn sekur um refsiverða háttsemi. Við ákvörðun refsingar ber að líta til þess að brot ákærða varða verulegum fjárhæðum. Aftur á móti ber að virða skýlausa játningu ákærða honum til málsbóta. 

Að öllu framangreindu virtu og með vísan til 77. gr. almennra hegningarlaga þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði, sem verður skilorðsbundin eins og í dómsorði greinir.  

Einnig ber að dæma ákærða til greiðslu fésektar. Ákærði byggir á því að uppfyllt séu skilyrði fyrir því að dæma sekt sem sé lægri en samkvæmt fésektarlágmarki 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987. Vísar hann í þeim efnum til samskipta sinna við embætti skattrannsóknarstjóra og sjónarmiða um réttmætar væntingar. Ekki er unnt að fallast á það með ákærða að hann hafi öðlast réttmætar væntingar undir rannsókn málsins til þess að hljóta vægari fésekt en almennt leiðir af dómaframkvæmd í málum sem þessum. Ákærði byggir á því að óháð framangreindum sjónarmiðum þá séu uppfyllt skilyrði fyrir því að dæma sekt sem sé lægri en samkvæmt fyrrgreindu fésektarlágmarki 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 vegna tímabilanna september, október, nóvember og desember árið 2016, enda hafi ákærði greitt verulegar innborganir vegna greiðsluskyldu umræddra tímabila. Af hálfu ákæruvaldsins er tekið undir það að færa megi sekt niður í 0,10% vegna desember 2016, en ekki fyrir fyrri tímabilin þrjú, enda hafi skýrslum ekki verið skilað á réttum tíma vegna þeirra tímabila. Eigi fyrrgreint fésektarlágmark þannig við um öll tímabil í málinu að undanskildu því sem varðaði staðgreiðslu opinberra gjalda vegna desember 2016. Að mati dómsins ber að fallast á þennan skilning ákæruvaldsins, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 3. mars 2011 í máli nr. 71/2010. Að öllu framangreindu virtu ber að dæma ákærða til greiðslu fésektar sem verður ákveðin 107.400.000 krónur. Um vararefsingu fer eins og í dómsorði segir. 

Við þingfestingu málsins játaði ákærði skýlaust sök að öðru leyti en varðandi 3. tölulið ákæru. Voru varnir ákærða tengdar peningaþvætti þar með eina ástæða þess að aðalmeðferð fór fram í málinu. Dómurinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að meiri háttar skattalagabrot ákærða tæmi sök eins og hér háttar til gagnvart peningaþvætti. Því þykir hæfilegt að ákærða verði gert að greiða helming sakarkostnaðar, þ.e. málsvarnarþóknun verjanda hans sem er ákveðin með virðisaukaskatti í dómsorði. 

Dóm þennan kveður upp Arnaldur Hjartarson héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð: 

Ákærði, Gísli Rúnar Sævarsson, sæti fangelsi í 12 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá greiði ákærði 107.400.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í 360 daga.  

Ákærði greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Jóns Arnar Árnasonar lögmanns, 737.800 krónur, að hálfu en að hálfu skal hún greidd úr ríkissjóði. 

Arnaldur Hjartarson

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum