2020

Dómur héraðsdóms Reykjaness 23. október 2020 í máli nr. S-1818/2020

27.10.2020

Héraðsdómur Reykjaness 

Dómur 23. október 2020 

Mál nr. S-1818/2020: 

Héraðssaksóknari
(Kristín Ingileifsdóttir aðstoðarsaksóknari)
gegn
Öldu Björg Guðjónsdóttur
(Ingólfur Vignir Guðmundsson lögmaður) 

Dómur 

Mál þetta, sem dómtekið var 19. október sl., er höfðað af héraðssaksóknara með ákæru útgefinni 9. júlí 2020 á hendur Öldu Björg Guðjónsdóttur, kt. […]:
,,Fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum og fyrir peningaþvætti í rekstri einkahlutafélagsins Snyrtilegur, kt. 461014-2080, nú afskráð, með því að hafa: 

1. Staðið skil á efnislega rangri virðisaukaskattsskýrslu félagsins vegna uppgjörstímabilsins janúar – febrúar rekstrarárið 2015 og eigi staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum uppgjörstímabilanna september – október og nóvember – desember rekstrarárið 2014 og mars – apríl til og með nóvember – desember rekstrarárið 2015 og fyrir að hafa eigi staðið skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri einkahlutafélagsins vegna framangreindra uppgjörstímabila, í samræmi við IX. kafla laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, samtals að fjárhæð 14.470.920 krónur, sem sundurliðast sem hér greinir: 

1818_1
2. Fyrir að hafa eigi fært tilskilið bókhald fyrir Snyrtilegan ehf. í samræmi við kröfur laga nr. 145/1994 um bókhald og vanrækt að varðveita fylgiskjöl og önnur bókhaldsgögn vegna starfsemi félagsins rekstrarárin 2014 og 2015. 

3. Fyrir peningaþvætti með því að hafa aflað Snyrtilegum ehf. ávinnings af brotum samkvæmt 1. tölulið ákæru samtals að fjárhæð 14.470.920 og ráðstafað ávinningnum í þágu rekstrar einkahlutafélagsins, og eftir atvikum í eigin þágu. 

________________________________ 

Framangreind brot samkvæmt 1. tölulið teljast varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. einnig 1. mgr. 40. gr laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
Framangreind brot samkvæmt 2. tölulið ákæru teljast varða við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 36. gr. og 1. og 2. tölulið 1. mgr. 37. gr. laga nr. 145/1994, um bókhald.
Framangreind brot samkvæmt 3. tölulið ákæru teljast varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“ 

II 

Farið var með málið samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákærða hefur skýlaust játað sakargiftir og var málið tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu eftir að sakarflytjendum hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga. 

Verjandi ákærðu krefst vægustu refsingar sem lög frekast heimila og þá krefst hann málsvarnalauna sér til handa. 

Samkvæmt framlögðu sakavottorði ákærðu dags. 7. júlí 2020 hefur hún ekki áður sætt refsingu. 

Háttsemi ákærðu er rétt færð til refsiákvæða í ákæru. Refsing ákærðu verður ákveðin með vísan til 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en tekið verður tillit til þess að hún játaði brot sín greiðlega. Með vísan til þessa þykir refsing ákærðu hæfilega ákveðin fangelsi í átta mánuði. Nokkuð er um liðið síðan ákærða framdi brot sín og sá dráttur sem varð á rannsókn málsins er ekki á hennar ábyrgð. Með vísan til þess þykir mega skilorðsbinda refsinguna og falli hún niður að liðnum þremur árum haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Samkvæmt dómaframkvæmd í sambærilegum málum hafa sektir verið ákveðnar þreföld sú fjárhæð sem skattþegi hefur komið sér hjá að greiða. Ákærða telur að dæma megi lægri fjárhæð í máli þessu þar sem bókhaldsgögn skattaðila hafi glatast en hefðu þau verið tiltæk hefði verði hægt að koma á framfæri leiðréttingum við skattayfirvöld sem hefði dregið stórlega úr fjárhæð álagðs virðisaukaskatts vegna áhrifa innskatts. Þá vísar ákærða til þess að í vörslu sýslumanns séu 27.500.000 kr. sem komi til fullnustu kröfum á hendur ákærðu vegna ætlaðra brota. Vegna þessa skal tekið fram að það var á ábyrgð ákærðu að varðveita bókhaldsgögn lögum samkvæmt og að hún skyldi ekki gera það getur ekki verið henni til refsilækkunar. Þá breytir engu þó líkur standi til þess að greiðsla komi upp í kröfur á hendur ákærða vegna brotanna þegar kemur að ákvörðun refsingar. Ákærða skal greiða 43.000.000 kr. í sekt að viðlagðri vararefsingu eins og í dómsorði greinir. 

Ákærða greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ingólfs Vignis Guðmundssonar lögmanns, 310.000 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti. Annan sakarkostnað leiddi ekki af málinu. 

Ingi Tryggvason héraðsdómari kveður upp dóm þennan. 

D ó m s o r ð: 

Ákærða, Alda Björg Guðjónsdóttir, sæti fangelsi í átta mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum þremur árum frá birtingu dómsins að telja, haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærða greiði 43.000.000 kr. í sekt til ríkissjóðs og komi 360 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja. Ákærða greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ingólfs Vignis Guðmundssonar lögmanns, 310.000 krónur.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum