2020

Dómur héraðsdóms Reykjavíkur 2. desember 2020 í máli nr. S-1658/2020

14.12.2020

Héraðsdómur Reykjavíkur

Dómur 2. desember 2020 Mál nr. S-1658/2020:

Héraðssaksóknari

(Finnur Þór Vilhjálmsson saksóknari)

gegn

Armando Luis Rodriguez

(Sveinn Andri Sveinsson lögmaður)

Dómur I

Mál þetta, sem dómtekið var 12. nóvember síðastliðinn, var höfðað með ákæru héraðssaksóknara, útgefinni 26. febrúar síðastliðinn, á hendur Armando Luis Rodriguez, kt. [...], [...]í [...], „fyrir eftirtalin meiri háttar brot gegn skatta- og bókhaldslögum og peningaþvætti:

A

Fyrir meiri háttar brot gegn lögum um virðisaukaskatt með því að hafa í sjálfstæðum atvinnurekstri sínum rekstrarárið 2016 ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum vegna uppgjörstímabilanna janúar – febrúar, mars – apríl, júlí – ágúst og september – október það rekstrarár, að auki staðið skil á efnislega rangri virðisaukaskattsskýrslu vegna uppgjörstímabilsins maí – júní sama rekstrarár og jafnframt ekki á lögmæltum tíma staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var eða innheimta bar vegna sömu uppgjörstímabila í samræmi við fyrirmæli IX. kafla laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, samtals að fjárhæð 2.279.886 krónur, sem sundurliðast svo:

 Uppgjörstímabil Vangoldinn VSK 
 janúar – febrúar kr.    120.629
 mars – apríl kr.    161.369
 maí – júní  kr.    595.742
 júlí – ágúst kr. 1.151.259
 september – október kr.    250.887
  kr. 2.279.886

B

Fyrir meiri háttar brot gegn lögum um tekjuskatt með því að hafa vanrækt að standa skil á skattframtölum gjaldárin 2017 og 2018, vegna tekjuáranna 2016 og 2017 og þannig ekki talið fram til skatts skattskyldar og útsvarsskyldar tekjur sem hér fara á eftir. Gjaldárið 2017: (1) tekjur af fyrrgreindum sjálfstæðum atvinnurekstri sínum að fjárhæð samtals 9.499.524 krónur sem skattskyldar voru samkvæmt B-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, en þar var um að ræða greiðslur frá Múr- og málningarþjónustunni Höfn ehf. og frá K.C. Málun ehf. á grundvelli sölureikninga ákærða til sömu félaga og (2) greiðslu frá Menn og verk ehf. að fjárhæð 636.000 krónur sem var skattskyld samkvæmt 1. tölulið A-liðar eða 9. tölulið C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003. Gjaldárið 2018: greiðslur frá Mönnum og verkum ehf. að fjárhæð samtals 69.513.155 krónur sem skattskyldar voru samkvæmt síðastnefndum ákvæðum laga nr. 90/2003. Allar tekjurnar voru að auki útsvarsskyldar, sbr. 19. og

21. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga. Með þessu vanframtaldi ákærði tekjuskatts- og útsvarsstofn sinn um samtals 65.963.679 krónur framangreind gjaldár og komst þannig hjá greiðslu tekjuskatts og útsvars að fjárhæð 29.988.670 krónur. Þær fjárhæðir sundurliðast svo:

Tekjuár 2016
Framtalinn tekjuskattsstofn:
Áætlaður tekjuskattsstofn með álagi
Vanframtaldar tekjur frá Menn og verk ehf.
Vanframtaldar tekjur af sjálfst. atv.rekstri
Möguleg rekstrargjöld
Vanframtalinn tekjuskattsstofn

kr.
kr.
kr.
kr.
kr.
kr.
0

6.325.000
636.000
9.499.524
0
3.810.524 

Tekjuskattur, skattprósenta 23,9%
Útsvar, útsvarsprósenta HFJ 14,52%
(Tekjuskattsstofn 4.032.421 - 10.043.880)
kr.
kr.
888.812
539.981
Tekjuskattur, skattprósenta 31,80%
Útsvar, útsvarsprósenta HFJ 14,52%
(Tekjuskattsstofn umfram 10.043.880)
kr.
kr.
29.143
13.307
Vangreiddur tekjuskattur og útsvar samt.
kr.
1.471.243


Tekjuár 2017
Framtalinn tekjuskattsstofn:
Áætlaður tekjuskattsstofn með álagi

Vanframtaldar tekjur frá Menn og verk ehf. 
Möguleg rekstrargjöld  
Vanframtalinn tekjuskattsstofn

kr.
kr. 
kr.
kr.
kr.    
0
7.360.000
69.513.155
0
62.153.155
Tekjuskattur, skattprósenta 22,50%

(Tekjuskattsstofn 0 - 10.016.488)
Útsvar, útsvarsprósenta HFJ 14,48%

kr.

kr.
597.710

384.659

Tekjuskattur, skattprósenta 31,80%
(Tekjuskattsstofn umfram 10.016.488)
Útsvar, útsvarsprósenta HFJ 14,48%

kr.

kr.

18.919.940

8.615.117

Vangreiddur tekjuskattur og útsvar samt.
kr. 28.517.427
Vanframtalinn tekjuskattsstofn alls kr. 65.963.679
Vangreiddur tekjuskattur og útsvar alls kr. 29.988.670

C

Fyrir meiri háttar brot gegn lögum um bókhald með því að hafa vanrækt að færa bókhald í fyrrnefndum sjálfstæðum atvinnurekstri sínum rekstrarárið 2016 þannig að uppfyllti kröfur laga í meginatriðum og ekki varðveitt bókhaldsgögn með fullnægjandi hætti.

D

Fyrir peningaþvætti með því að hafa nýtt, ráðstafað og/eða geymt ávinning af brotum samkvæmt ákæruliðum A og B, samtals 32.268.556 krónur, í eigin þágu.

Brot ákærða samkvæmt ákæruliðum A og B teljast varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt að því er varðar A lið, og 2. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, að því er varðar B lið. Brot ákærða samkvæmt ákærulið C telst varða við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 36. og 1. og 2. tölulið 37. gr. laga nr. 145/1994, um bókhald. Brot ákærða samkvæmt ákærulið D telst varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr., 264. gr. almennra hegningarlaga.


Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Ákærði neitar sök varðandi ákærulið D en játar sök að öðru leyti. Hann krefst vægustu refsingar og að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun verjanda hans, verði greiddur úr ríkissjóði.

II

Með vísun til 4. mgr. 183. gr. laga nr. 88/2008 verða málavextir aðeins reifaðir hvað varðar D lið ákæru en að öðru leyti er vísað um þá til ákærunnar.

Mál þetta var til rannsóknar hjá skattrannsóknarstjóra sem framsendi málið síðan til héraðssaksóknara. Rannsókn skattrannsóknarstjóra leiddi í ljós vanskil þau er í ákæru greinir og ákærði hefur játað sök varðandi þau. Við yfirheyrslu hjá skattrannsóknarstjóra var ákærði spurður hvað hefði orðið um þessa peninga og kvað hann þá hafa farið í rekstur, þar á meðal til að greiða laun „svart“. Eins hefðu peningar runnið til hans sjálfs. Við yfirheyrslur hjá héraðssaksóknara kvaðst ákærði hafa ráðstafað þessum peningum til jafns í einkaneyslu og rekstur.

Við aðalmeðferð ítrekaði ákærði neitun sín varðandi ákærulið D en játaði sök að öðru leyti. Hann kvaðst hafa unnið við verktakastarfsemi og vörðuðu ákæruefnin þá starfsemi. Undir ákærða voru bornir reikningar frá maí og ágúst 2016, samtals að fjárhæð 7.831.921 króna, og kvaðst hann telja að andvirði þeirra hefði runnið inn á hans bankareikning. Hann var spurður hvað hefði orðið um þessa peninga og kvað hann þá hafa farið í starfsmannakostnað og rekstur en kvaðst ekki hafa gögn um það. Þá kannaðist ákærði við að hafa millifært af reikningi fyrirtækis, sem hann stýrði, inn á eigin reikning samtals 17.251.365 krónur frá desember 2016 til desember 2017. Hann kvað eitthvað lítið hafa runnið til sín en afgangurinn hefði farið í rekstur en hann hefði ekki gögn um það, enda hefði hann til dæmis verið að greiða laun „svart“. Þá kannaðist ákærði við að hafa tekið út af reikningi fyrirtækisins í reiðufé 52.897.790 krónur á árinu 2017. Allt þetta fé hefði runnið til reksturs fyrirtækisins, en hann kvaðst ekki hafa gögn um það. Hann kvaðst hafa borið á annan hátt hjá skattrannsóknarstjóra og lögreglu en ekki geta útskýrt af hverju. Hann taldi þó að þessar fjárhæðir væru ekki háar þegar litið væri til þess hversu dýr reksturinn væri.

III

Með játningu ákærða, sem styðst við gögn málsins, er sannað að hann hafi gerst sekur um það sem honum er gefið að sök í ákæruliðum A, B og C. Brot hans eru rétt færð til refsiákvæða í ákærunni.

Í D lið ákæru er ákærða gefið að sök peningaþvætti með því að hafa nýtt, ráðstafað og/eða geymt ávinning af brotum samkvæmt ákæruliðum A og B, eins og rakið var. Brot ákærða er talið varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga. Í 1. mgr. segir að hver sem taki við, nýti eða afli sér ávinnings af broti á lögunum eða með refsiverðu broti á öðrum lögum skuli sæta refsingu. Í 2. mgr. segir að sá sem framið hefur frumbrot og fremji jafnframt brot samkvæmt 1. mgr.

Hér að framan var það rakið að ákærði bar við rannsókn málsins að ávinningur af skattalagabrotum hans hefði runnið til reksturs fyrirtækis hans og hans sjálfs. Kvað hann allt að helmingi hefði runnið til hans sjálfs. Fyrir dómi dró hann úr þessu, eins og rakið var og kvað mun minna hafa runnið til sín. Aðallega hefðu fjármunirnir runnið til reksturs fyrirtækisins.

Með gögnum málsins úr rannsókn skattrannsóknarstjóra og lögreglu er sannað að ákærði aflaði sér ávinnings með brotum eins og lýst hefur verið. Ákærði hefur játað sök, eins og rakið var. Hann aflaði sér þannig ávinnings með því að brjóta gegn framangreindum lögum. Þennan ávinning nýtti hann sér, bæði til einkanota og til reksturs fyrirtækis síns. Skiptir ekki máli hversu stór hlutur ávinningsins rann til hvors, ákærða eða fyrirtækisins. Samkvæmt þessu verður ákærði sakfelldur fyrir peningaþvætti eins og honum er gefið að sök og er brot hans rétt fært til refsiákvæðis í ákærunni.

Ákærði var dæmdur í þriggja mánaða fangelsi 2019 fyrir brot gegn lögum um einkahlutafélög og í febrúar á þessu ári var hann dæmdur í fimm mánaða fangelsi, þar af fjóra skilorðsbundna í tvö ár, fyrir brot gegn fíkniefna-, áfengis-, lyfja-, lyfsölu, tolla- og umferðarlögum. Auk þess var hann dæmdur fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt og 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr. lög um bókhald.

Samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga verður skilorðshluti framangreinds dóms tekinn upp og dæmdur með þessu máli. Refsing ákærða verður ákveðin samkvæmt 77. gr. almennra hegningarlaga auk þess sem honum verður dæmdur hegningarauki samkvæmt 78. gr. sömu laga. Samkvæmt öllu framansögðu er refsing ákærða hæfilega ákveðin 14 mánaða fangelsi. Þá verður ákærði dæmdur til að greiða 96.000.000 króna í sekt til ríkissjóðs að viðlagðri vararefsingu eins og í dómsorði greinir.

Loks verður ákærði dæmdur til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákvörðuð eru að meðtöldum virðisaukaskatti í dómsorði, en annan kostnað leiddi ekki af rekstri málsins.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kveður upp dóminn.


D ó m s o r ð :

Ákærði, Armando Luis Rodriguez, sæti fangelsi í 14 mánuði.

Ákærði greiði 96.000.000 króna sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins en sæti ella fangelsi í 360 daga.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar lögmanns, 1.376.400 krónur.

Arngrímur Ísberg

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum