2021

Dómur Héraðsdóms Reykjaness, 4. febrúar 2021 í máli nr. S-2526/2020

4.2.2021

Dómur 4. febrúar 2021 Mál nr. S-2526/2020:

Héraðssaksóknari

(Björn Þorvaldsson saksóknari)

gegn

Gísla G. Sveinbjörnssyni

(Marteinn Másson lögmaður)

Dómur:

I.

Mál þetta, sem dómtekið var 27. janúar sl., að lokinni aðalmeðferð, er höfðað af héraðssaksóknara með ákæru útgefinni 15. september 2020 á hendur Gísla G. Sveinbjörnssyni, kt. 000000-0000, [...]:

,,fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum og peningaþvætti:

1. Með því að hafa staðið skil á efnislega röngum skattframtölum gjaldárin 2015 til og með 2018, vegna tekjuáranna 2014 til og með 2017, með því að láta undir höfuð leggjast að telja fram á skattframtölum sínum, tekjur að fjárhæð kr. 41.422.083 frá einkahlutafélaginu GT verktökum, sem skattskyldar eru samkvæmt 1. tl. og 4. tl. A- liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, sbr. einnig 19. og 21. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, en með framangreindu komst ákærði undan greiðslu tekjuskatts og útsvars að fjárhæð kr. 17.919.906 sem sundurliðast sem hér greinir:

Tekjuárið 2014
Tekjuskattur og útsvar
Framtaldar tekjur4.608.000 kr.
Vanframtaldar tekjur13.212.553kr.
Tekjuskattur, 2. þrep1.216.279 kr.
Tekjuskattur, 3. þrep2.672.830 kr.
Útsvar1.913.178 kr.
Ónýttur persónuafsláttur0 kr.
Vangreiddur tekjuskattur og útsvar


Tekjuárið 2015
Tekjuskattur og útsvar
Framtaldar tekjur4.032.000 kr.
Vanframtaldar tekjur3.412.469 kr.
Tekjuskattur, 2. þrep863.355 kr.
Útsvar494.126 kr.
Ónýttur persónuafsláttur0 kr.
Vangreiddur tekjuskattur og útsvar1.357.480 kr.
Tekjuárið 2016
Tekjuskattur og útsvar
Framtaldar tekjur5.130.720 kr.
Vanframtaldar tekjur7.499.584 kr.
Tekjuskattur, 2. þrep1.174.245 kr.
Tekjuskattur, 3. þrep822.483 kr.
Útsvar1.085.940 kr.
Ónýttur persónuafsláttur0 kr.
Vangreiddur tekjuskattur og útsvar3.082.668 kr.
Tekjuárið 2017
Tekjuskattur og útsvar
Framtaldar tekjur6.491.749 kr.
 Vanframtaldar tekjur 17.297.477 kr.
Tekjuskattur, 1. þrep793.066 kr.
Tekjuskattur, 2. þrep4.379.731 kr.
Útsvar2.504.675 kr.


Ónýttur persónuafsláttur0 kr.
Vangreiddur tekjuskattur og útsvar7.677.472 kr.
Vanframtaldar tekjur alls

41.422.083 kr.

Vangreiddur tekjuskattur og útsvar alls

17.919.906 kr.

2. Með því að hafa nýtt ávinning af brotum skv. 1. tölulið ákæru, samtals að fjárhæð kr. 17.919.906 í eigin þágu.

Framangreint brot ákærða skv. 1. tölulið ákæru telst varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. einnig 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt,og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga.

Framangreint brot ákærða skv. 2. tölulið ákæru telst varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Ákærði gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins en engin vitni.

Verjandi ákærða krefst þess aðallega að ákærði verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög frekast heimila fyrir brot skv. 1. ákærulið en aðallega er krafist sýknu af 2. ákærulið en til vara, komi til sakfellingar, er krafist vægustu refsingar sem lög frekast heimila. Verjandinn krefst þess að málsvarnarlaun hans skv. mati dómsins verði greidd úr ríkissjóði.

II.

Hinn 30. janúar 2019 tilkynnti skattrannsóknarstjóri ríkisins ákærða að hafin væri rannsókn á skattskilum hans vegna tekjuáranna 2014 til og með 2017. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru þær að ákærði hefði skilað efnislega röngum skattframtölum vegna fyrrgreindra ára og hann hefði vanframtalið tekjur vegna greiðslna frá GT verktökum ehf. umfram framtalin laun. Um væri að ræða tekjur ákærða sem skattleggja ætti skv. 1. tl. A-liðar 7. gr. laga nr. 92/2003 um tekjuskatt, sbr. 2. mgr. 11. gr. sömu laga. Töluleg niðurstaða var sú að vanframtaldar tekjur væru samtals 41.422.083 kr. vegna tekjuáranna 2014 til og með 2017.

Með bréfi dags. 21. febrúar 2020 var skýrsla skattrannsóknarstjóra ríkisins send Skattinum til endurákvörðunar opinberra gjalda og sama dag var málinu vísað til héraðssaksóknara vegna meintra skatta- og hegningarlagabrota ákærða.

Með bréfi dags. 10. júlí 2020 tilkynnti Skatturinn ákærða um fyrirhugaða endurákvörðun gjalda gjaldárin 2015 til og með 2018. Samtals var fyrirhuguð hækkun á stofni ákærða til tekjuskatts og útsvars 41.422.083 kr. sem er sama fjárhæðin og tilgreind er sem vanframtaldar tekjur ákærða í ákæru. Verjandi ákærða andmælti fyrirhugaðri endurákvörðun gjalda með bréfi dags. 26. ágúst 2020 og taldi að færa ætti hluta af greiðslum til ákærða frá GT verktökum ehf. sem dagpeninga og 15.000.000 kr. væri arðgreiðsla sem tekin hafi verið ákvörðun um árið 2017. Með úrskurði Skattsins dags. 10. nóvember 2020 var komist að þeirri niðurstöðu að stofn ákærða til tekjuskatts og útsvars tekjuárin 2014 til og með 2017 skyldi hækka um samtals 41.422.083 kr. Var því hafnað af hálfu Skattsins að hluta af greiðslum frá GT verktökum ehf. til ákærða á fyrrgreindu tímabili gætu talist dagpeningar eða arður. Við endurákvörðun tekjuskatts og útsvars ákærða hækkuðu gjöld þessi um 18.188.319 kr. þ.m.t. álag/verðbæur á nefnd gjöld.

III.

Framburður ákærða fyrir dómi:

Ákærði játaði þá háttsemi sem honum er gefin að sök í 1. ákærulið en telur þó að lækka eigi vanframtaldar tekjur hans vegna tekjuáranna 2014-2017 vegna þess að þar eigi að koma til lækkunar dagpeningar og arðgreiðsla frá GT verktökum ehf. sem ekki hafi verið rétt fært í bókhaldi á sínum tíma. Ákærði segir að mistök hafi verið gerð við færslu bókhalds hjá GT verktökum ehf. og láðst hafi að færa hluta af greiðslum til hans sem dagpeninga. Nú sé hins vegar búið að leggja fram þau gögn sem til eru varðandi dagpeningagreiðslurnar. Þá hafi hluti af greiðslum til hans frá félaginu verið arður en ekki hafi verið tekin formleg ákvörðun um arðgreiðsluna á sínum tíma. Ákærði segir að fjárhæðin sem tilgreind er í 2. tölulið ákæru hafi gengið til hans og hann nýtt fjármunina í eigin þágu. Ákærði kvaðst hafa verið stjórnarformaður og helmingseigandi í GT verktökum ehf. þegar umræddar greiðslur fóru fram. Hann hafi hins vegar ekki annast bókhald hvorki fyrir sig né félagið og hann hafi sjálfur hvorki gert né skilað skattframtali sínu.

IV.

Niðurstaða:

Ákærði hefur játað sök skv. 1. tölulið ákæru en telur þó að það beri að lækka fjárhæð vanframtalinna tekna hans þar sem hluti af greiðslum GT verktaka ehf. til ákærða hafi verið dagpeningar og arður.

Það liggur fyrir að skattalega séð var á sínum tíma ekki farið með hluta af umræddum greiðslum sem dagpeninga og skilyrði hvað það varðar voru ekki uppfyllt, sbr. 1. tölulið A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Fullnægjandi gögnum og skýringum hvað dagpeningana varðar hefur ekki verið skilað til skattayfirvalda.

Ákærði telur að 15.000.000 kr. sem GT verktakar greiddu til hans hafi verið arðgreiðsla vegna ársins 2017 en samkvæmt fjárhagsstöðu félagsins hafi verði svigrúm fyrir arðgreiðslu á þeim tíma. Strangar reglur gilda um úthlutun arðs til hluthafa, sbr. XII. kafla laga 138/1994 um einkahlutafélög. Ef þessum reglum, sem er ætlað að tryggja að löglega sé staðið að úthlutun fjármuna til hluthafa, er ekki fylgt þá telst úthlutun fjármuna til hluthafa óheimil. Ef um óheimila úthlutun er að ræða fer samkvæmt því sem segir í 2. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003 og úthlutunin telst laun. Það var hvorki getið um arðgreiðslu í ársreikningi GT verktaka ehf. fyrir árið 2017 né í skattframtali ákærða.

Þá skal það áréttað hvað þetta varðar að eins og fram er komið að Skatturinn hefur hafnað því að hluti af umræddum greiðslum geti verið dagpeningar eða arður. Ákærði hefur ekki lagt fram nein gögn sem geta orðið til þess að dómurinn komist að annarri niðurstöðu en Skatturinn hvað þetta varðar.

Þá verður í þessu sambandi að hafa í huga að brot ákærða hvað vanframtaldar tekjur varðar var í sjálfu sér fullframið um leið og hann skilaði efnislega röngum skattframtölum þar sem ekki var gerð grein fyrir öllum greiðslum frá GT verktökum ehf. til ákærða. Það var á ábyrgð ákærða að skila réttum skattframtölum hvort sem hann gerði þau persónulega sjálfur eða annar annaðist það í hans umboði. Þá verður og að hafa hér í huga að ákærði var einnig forsvarsmaður GT verktaka ehf. á þeim tíma sem umræddar greiðslur áttu sér stað og því bar hann einnig ábyrgð á því að skattskil þess félags væru í réttu horfi þ.m.t. að greiðslur félagsins til annarra aðila væru rétt tilgreindar og grein gerð fyrir þeim lögum samkvæmt.

Með vísan til ofanritaðs er ekkert fram komið í málinu sem getur orðið til þess að vanframtaldar tekjur ákærða samkvæmt 1. tölulið ákæru verði taldar lægri en þar er tilgreint. Samkvæmt þessu telst sannað að ákærði hafi vanframtalið tekjur sínar tekjuárin 2014 til og með 2017 um 41.422.083 kr. og vangreiddur tekjuskattur og útsvar vegna þess sé 17.919.906 kr. Telst þessi háttsemi ákærða varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga.

Í 2. tölulið ákæru er ákærða gefið að sök að hafa nýtt ávinning af brotum samkvæmt 1. tölulið ákærunnar eða 17.919.906 kr. í eigin þágu og með því gerst sekur um brot gegn 1. sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þ.e. peningaþvætti. Ákærði telur að 1. mgr. 262. gr. hegningarlaganna, sbr. 1. tölulið ákæru, tæmi sök gagnvart 1. og 2. mgr. 264. gr. laganna. En ákærði telur að 264. gr. eigi við þegar uppruni fjár sé falinn en umræddar greiðslur til hans hafi verið færðar í bókhald GT verktaka ehf. og því hafi uppruni fjármunanna ekki verið falinn. Þar sem engin leynd sé til staðar og það vanti ásetning hjá ákærða til að brjóta gegn 264. gr. hegningarlaganna sé ekki um brot á lagagreininni að ræða.

Í sakartæmingu felst það að tvö brot, sem almennt teljast sjálfstæð brot hvort um sig, skarast þannig að annað ákvæðið tæmir sök gagnvart hinu. Það er ekkert sem útilokar það að sakartæming geti verið til staðar þótt peningaþvætti hafi með lögum verið gert að sjálfstæðu refsiverðu broti. Í 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga er hins vegar vísað til 77. gr. laganna um brotasamsteypu og leiðir sú tilvísun til þess að í ákveðnum tilvikum er unnt að sakfella samhliða fyrir bæði frumbrot og peningaþvætti án þess að til sakartæmingar komi. Hins vegar er ekki hægt að útiloka sakartæmingu í öllum tilvikum enda myndi slík lögskýring gera orð ákvæðisins um beitingu 77. gr. laganna ,,eftir því sem við á“ að engu og myndi auk þess ganga gegn þeirri meginreglu íslensk réttar að allan vafa um túlkun refsiákvæða skuli skýra ákærða í hag.

Í 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga segir m.a. að hver sem nýti sér ávinning af broti á lögunum, eða refsiverðu broti á öðrum lögum, skuli sæta fangelsi allt að sex árum. Í dæmaskyni er m.a. nefnt í ákvæðinu að maður umbreyti ávinningi, flytji hann, sendi, geymi eða aðstoði við afhendingu hans. Í 2. mgr. sömu greinar segir svo m.a. að sá sem framið hefur frumbrot og fremur jafnframt brot samkvæmt 1. mgr. skuli sæta sömu refsingu og þar greinir. Þetta ákvæði er afar rúmt og m.a. ekki gerð krafa um að verk sé unnið með leynd. Verður ekki annað séð en í raun eigi að skilja ákvæðið þannig að hver sem fremur brot eins og það sem lýst er í 1. tölulið ákæru og hefur af því ávinning hafi jafnframt brotið gegn 1. sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga a.m.k. ef það liggur fyrir að viðkomandi hafi meðhöndlað ávinninginn. Það telst sannað í málinu að ákærði hafi komist hjá skattgreiðslum, sem honum bar að inna af hendi, með refsiverðum hætti og hann hefur viðurkennt að hafa nýtt ávinninginn af brotinu í eigin þágu. Með því hefur hann brotið gegn 1. sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga eins og honum er gefið að sök í 2. tölulið ákæru. Eins og atvikum málsins er háttað, sbr. framanritað, verður ekki fallist á það sjónarmið ákærða að 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga tæmi sök gagnvart 1. sbr. 2. mgr. 264. gr. laganna. Ákærði verður því sakfelldur fyrir brot gegn 1. sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 2. tölulið ákæru.

Með hliðsjón af öllu framanrituðu telst ákærði sannur að sök samkvæmt ákæru og hefur því unnið sér til refsingar samkvæmt því. Samkvæmt sakavottorði ákærða gekkst hann undir sektargreiðslu og sviptingu ökuréttar í september 2019 fyrir ölvunarakstur sem hefur ekki þýðingu við ákvörðun refsingar í þessu máli og verður tekið tillit til þess. Refsing ákærða verður einnig ákveðin með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga og þá verður tekið tillit til þess að ákærði játaði að hluta til sök. Með vísan til þessa þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í níu mánuði en skal sá hluti refsingarinnar bundin skilorði eins og nánar greinir í dómsorði. Samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, sbr. 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga skal skattskyldur maður sem skýrir af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi rangt eða villandi frá einhverju því sem máli skiptir um tekjuskatt sinn greiða fésekt allt að tífaldri skattfjárhæð af þeim skattstofni sem undan var dreginn og aldrei lægri en nemur tvöfaldri skattfjárhæðinni. Í málum sem þessum hefur myndast sú dómvenja að fésekt nemi þrefaldri þeirri fjárhæð sem undan var dregin, sbr. dóma Hæstaréttar í málum nr. 475/2005 og 724/2009 og dóm Landsréttar í máli nr. 69/2018. Brot ákærða eru stórfelld og þykir því ekki unnt að takmarka sektarfjárhæð við lágmörk viðeigandi laga. Verður ákærða því gert að greiða sekt að fjárhæð 53.000.000 kr. innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa að telja ella sæti hann fangelsi í 360 daga.

Ákærði greiði málsvarnarlaun verjanda síns, Marteins Mássonar lögmanns, 1.178.000 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti. Annan sakarkostnað leiddi ekki af málinu.

Ingi Tryggvason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð:

Ákærði, Gísli G. Sveinbjörnsson, sæti fangelsi í níu mánuði en fresta skal þeim hluta refsingarinnar í þrjú ár frá birtingu dóms þessa að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði 53.000.000 kr. í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa að telja en sæti ella fangelsi í 360 daga.

Ákærði greiði málsvarnarlaun verjanda síns, Marteins Mássonar lögmanns, 1.178.000 kr.

Ingi Tryggvason

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum