2021

Dómur Héraðsdóms Suðurlands, 13. janúar 2021 í máli nr. S-304/2019

13.1.2021

Héraðsdómur Suðurlands

Dómur 13. janúar 2021 Mál nr. S-304/2019:

Héraðssaksóknari

(Ásmunda Björg Baldursdóttir saksóknari)

gegn

Sigurði Ívari Mássyni
(Óskar Sigurðsson lögmaður)

og Sigurði Erni Sigurðssyni
(Pétur Fannar Gíslason lögmaður)

Dómur

Mál þetta er höfðað með ákæru Héraðssaksóknara, 27. júní 2019, á hendur Sigurði Ívari Mássyni, […] og Sigurði Erni Sigurðssyni, […]

„fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum, Sigurði Ívari sem framkvæmdastjóra og Sigurði Erni sem daglegum stjórnanda og stjórnarmanni einkahlutafélagsins Byggingafélagið Grettir, [..], nú afskráð, með því að hafa:

1. Eigi staðið skil á skattframtölum einkahlutafélagsins á lögmæltum tíma rekstrarárin 2008 og 2009, vegna gjaldáranna 2009 og 2010.

2. Eigi staðið skil á staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts að fjárhæð kr. 16.653.037, en um var að ræða fjármagnstekjuskatt af kr. 166.530.373 arðsúthlutun úr einkahlutafélaginu til ákærðu á rekstrarárinu 2008.

Framangreind brot ákærðu samkvæmt 1. og 2. tölulið ákæru teljast varða við 1. mgr.

262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig:

a) 2. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, að því er varðar 1. tölulið ákæru.

b) 2. mgr. 19. gr. laga nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, að því er varðar 2. tölulið ákæru.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Málið var þingfest 22. ágúst 2019. Ákærðu neita báðir sök.

Upphaflega gerðu báðir ákærðu kröfu um að málinu yrði vísað frá dómi og var fallist á það með úrskurði dómsins 31. janúar 2020, en með úrskurði Landsréttar 7. maí 2020 var úrskurður héraðsdóms felldur út gildi.

Aðalmeðferð fór fram 20. nóvember 2020 og var málið tekið til dóms að henni lokinni.

Af hálfu ákæruvalds eru gerðar þær dómkröfur sem að ofan greinir.

Af hálfu ákærða Sigurðar Ívars er þess aðallega krafist að ákærði verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvalds. Til vara er þess krafist að ákærða verði ekki gerð refsing og til þrautavara að ákærða verði gerð lægsta mögulega refsing sem lög leyfa og að hún verði að fullu skilorðsbundin. Þá er þess krafist að allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Af hálfu ákærða Sigurðar Arnar er aðallega krafist sýknu af öllum kröfum ákæruvalds. Til vara er þess krafist að ákærða verði ekki gerð refsing en til þrautavara að ákærða verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa og hún verði þá að fullu skilorðsbundin. Þá er þess krafist að allur sakarkostnaður verði lagður á ríkissjóð, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Fyrir uppkvaðningu dóms var gætt 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008.

Málavextir

Með bréfi, dags. 27. október 2015, vísaði Skattrannsóknarstjóri máli þessu til Héraðssaksóknara, sem þá hét Embætti sérstaks saksóknara, vegna meintra brota á ákvæðum laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og eftir atvikum almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Var málið aðeins sent til saksóknara að því er varðaði ákærða Sigurð Ívar, en málið var ekki sent sérstaklega til saksóknara vegna ákærða Sigurðar Arnar, en með bréfi Skattrannsóknarstjóra til hans, dags. 27. október 2015, var honum kynnt að málið yrði sent til rannsóknar lögreglu, en jafnframt að hann væri ekki kærður í málinu af hálfu Skattrannsóknarstjóra, en forræði málsins og allar ákvarðanir um áframhaldandi refsimeðferð á hendur honum yrðu hér eftir í höndum embættis sérstaks saksóknara. Þá er tekið sérstaklega fram í bréfinu að staða ákærða Sigurðar Arnar sem sakbornings í málinu væri felld niður.

Í bréfi Skattrannsóknarstjóra segir að málið sé sent á grundvelli fyrirliggjandi gagna um rannsókn á bókhaldi og skattskilum Byggingafélagsins Grettis ehf., sem nú sé afskráð, sbr. skýrslu Skattrannsóknarstjóra, dags. 27. nóvember 2014.

Segir í bréfinu að rannsókn Skattrannsóknarstjóra á bókhaldi og skattskilum Byggingafélagsins Grettis ehf. hafi leitt m.a. í ljós að vanrækt hafi verið að standa skil á skattframtölum og ársreikningum vegna rekstraráranna 2008 og 2009 og að skilað hefði verið hlutafjármiða of seint. Þá hafi rannsóknin leitt í ljós að fjármagnstekjuskattur af arðgreiðslu til skráðra fyrirsvarsmanna félagsins, sem greiddur hafi verið, hafi ekki verið skilað til ríkissjóðs. Samtals hafi greiddar arðgreiðslur numið kr. 166.530.373, þar af kr. 86.845.236 til ákærða Sigurðar Arnar og kr. 79.685.137 til ákærða Sigurðar Ívars. Vangreiddur fjármagnstekjuskattur vegna arðgreiðslu hafi numið alls kr. 16.653.037, nánar tiltekið kr. 8.864.524 vegna ákærða Sigurðar Ívars. Þá hafi fært bókhald og bókhaldsgögn ekki verið afhent.

Þá sé það niðurstaða rannsóknarinnar að skilaskylda afdregins fjármagnstekjuskatts vegna arðgreiðslunnar hafi hvílt á skattaðila og að gjalddagi greiðslu hans hafi verið 15. janúar 2009. Enn fremur sé það niðurstaða Skattrannsóknarstjóra að á gjalddaga hins afdregna fjármagnstekjuskatts hafi ákærði Sigurður Ívar verið eigandi skattaðila og prókúruhafi og verið ábyrgur fyrir skattskilum félagsins sem fyrirsvarsmaður þess. Auk þess hafi hann verið eigandi hlutafjár í skattaðila fram að afskráningu félagsins. Háttsemi ákærða Sigurðar Ívars kunni að varða hann refsingu skv. 2. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 og 2. mgr. 19. gr. laga nr. 94/1996 um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, sbr. og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá segir að með bréfi Skattrannsóknarstjóra, dags. 8. desember 2014, hafi ákærða Sigurði Ívari verið tilkynnt um fyrirhugaða töku ákvörðunar um refsimeðferð í málinu og honum gefinn frestur til að tjá sig um hana, en það hafi hann ekki gert.

Í niðurstöðukafla skýrslu Skattrannsóknarstjóra segir að helstu niðurstöður rannsóknar á tekjum og skattskilum skattaðila, sem er Byggingafélagið Grettir ehf., vegna rekstraráranna 2008 og 2009 séu að ársreikningum hafi ekki verið skilað, skattframtölum hafi ekki verið skilað, hlutafjármiða hafi verið skilað of seint, bókhald hafi ekki fengist afhent, fylgiskjöl hafi ekki fengist afhent, skilaskylda vegna afdregins fjármagnstekjuskatts vegna arðgreiðslunnar hafi hvílt á skattaðila, gjalddagi greiðslu fjármagnstekjuskatts vegna arðsúthlutunarinnar hafi verið 15. janúar 2009, á gjalddaga afdregins fjármagnstekjuskatts hafi ákærðu báðir verið eigendur skattaðila og prókúruhafar. Ákærði Sigurður Örn hafi að auki verið stjórnarformaður og ákærði Sigurður Ívar framkvæmdastjóri. Á þeim hafi því hvílt þær skyldur að fara með stjórn félagsins sem kveðið sé á um í 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Hafi þeir í samræmi við það borið ábyrgð að lögum á skattskilum vegna rekstrarins. Þá hafi þeir báðir verið eigendur hlutafjár í skattaðila uns skattaðili hafi verið afskráður. Tölulegar niðurstöður séu þær að árið 2008 hafi greiðslur til ákærða Sigurðar Arnar numið kr. 25.051.177 og til ákærða Sigurðar Ívars kr. 24.235.137, en árið 2009 kr. 61.794.059 til ákærða Sigurðar Arnar og kr. 55.450.000 til ákærða Sigurðar Ívars. Vangreiddur fjármagnstekjuskattur vegna ársins 2009 hafi numið samtals kr. 16.653.037.

Í skýrslu Skattrannsóknarstjóra er tiltekið að skattaðili sé Byggingafélagið Grettir ehf., áður Byggingafélagið Geysir ehf. Félagið hafi verið úrskurðað gjaldþrota 16. febrúar 2011 og hafi skiptum lokið 9. nóvember 2012 og félagið verið afskráð 14. nóvember 2012. Í stjórn félagsins frá stofnun 28. janúar 2004 og til 11. júní 2009 hafi báðir ákærðu setið, ákærði Sigurður Örn sem stjórnarmaður og ákærði Sigurður Ívar sem varamaður en sá síðarnefndi hafi jafnframt verið skráður framkvæmdastjóri og hafi þeir báðir haft prókúru. Samkvæmt fundi 11. júní 2009 hafi A komið inn í stjórnina sem stjórnarmaður í stað ákærða Sigurðar Arnar, sem einnig hafi afsalað sér prókúru. Þá segir að samkvæmt fundi 1. júlí 2009 hafi stjórn skattaðila verið þannig skipuð að stjórnarmaður hafi verið B, en C varamaður. Hafi C jafnframt verið skráð sem framkvæmdastjóri og hafi þær báðar haft prókúru. Breytingar á stjórninni, þar sem Bog C hafi verið skráðar í stjórn, hafi borist ríkisskattstjóra 16. október 2009.

Um eignarhald félagsins segir í skýrslu Skattrannsóknarstjóra að frá stofnun félagsins hafi ákærðu verið eigendur þess og hvor fyrir sig átt 50% hlut. Þann 1. júlí 2009 hafi verið undirritaður kaupsamningur um allt hlutafé í félaginu og nýjir eigendur skráðir þær B og C en í kaupsamningi sé ekki tekið sérstaklega fram neitt um eignarhlutföll á milli þeirra.

Fram kemur að skýrsla hafi verið tekin af B og hafi hún skýrt frá því að hún hafi ekki undirritað neitt varðandi inngöngu í stjórn félagsins, ekki keypt neitt hlutafé og ekki haft neina aðkomu að félaginu. Kvað hún að undirskrift á kaupsamningi væri ekki hennar og að hún kannaðist ekkert við seljendurna. C skýrði frá því í skýrslutöku hjá Skattrannsóknarstjóra að upplýsingar í vottorði um aðkomu hennar væru rangar og að hún hafi aldrei setið í stjórn í þessu félagi. Undirskrift á kaupsamningi væri ekki hennar og að hún hefði hvorki heyrt um félag þetta né heldur hina ákærðu. Kvaðst C hafa talað við A á þessum tíma og teldi að A hafi staðið í þeirri trú að C væri raunverulegur kaupandi að félaginu, en að C hafi sagt A að hún vissi ekkert um félagið og hefði ekki keypt það. Þá kemur fram að ákærði Sigurður Ívar hafi borið að hann hafi aldrei hitt C eða B, en hann hafi hitt D sem hafi sýnt áhuga á að kaupa félagið. Hann hafi farið með samninginn, sem A hefði gert, til D og sótt hann undirritaðan af hálfu kaupenda en hann hefði ekki sjálfur verið viðstaddur undirritunina. Þá kemur fram að A hafi borið um að hún hafi ekki séð B eða C rita undir kaupsamning og að hún hafi aldrei hitt þær. Hún hafi talað við C og D í síma á þessum tíma. Ákærði Sigurður Örn kvaðst ekki hafa hitt kaupendur og ekki komið að samningsgerðinni.

Hjá Héraðssaksóknara voru teknar skýrslur af ákærðu 1. október 2018 af ákærða Sigurði Ívari og þann 12. október 2018 af ákærða Sigurði Erni, auk þess að 7. nóvember 2018 var tekin þar skýrsla af A, […] ákærða Sigurðar Arnar, sem kvaðst hafa séð um bókhald félagsins. Ekki fór fram nein lögreglurannsókn á ætluðum eigenda- og stjórnendaskiptum í félaginu.

Framburður við aðalmeðferð

Ákærði Sigurður Ívar skýrði frá því við aðalmeðferð að hafa verið eigandi félagsins um tíma. Kvaðst hafa haft bakgrunn í smíðum og hafa unnið við húsbyggingar félagsins. Hann hafi alltaf verið í fullri vinnu utan félagsins þannig að félagið hafi ekki verið hans aðalstarf. Starfsemi félagsins hafi verið að byggja sumarhús og selja sumarbústaðalóðir. Kvaðst halda að A hafi verið eini starfsmaðurinn, en verktakar hafi séð um reisingu húsanna.

Ákærði kvaðst ekki hafa gert sér grein fyrir að hann hafi verið framkvæmdastjóri félagsins og hafi ekki áttað sig á því fyrr en í skýrslutökum, en ákærði kannaðist þó við undirritun sína á tilkynningu um það til fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra. Hann hafi hins vegar ekki komið nálægt neinu í félaginu í sambandi við laun, greiðslu reikninga eða neinu sem viðkemur bókhaldi og hafi ekki haft aðgang að því. A hafi séð um þetta allt saman. Aðspurður kvaðst ákærði hafa komið fram sem fyrirsvarsmaður félagsins þegar þeir hafi verið búnir að semja við verktaka og þeir komnir að þá hafi hann komið fram sem fyrirsvarsmaður og verktökum verið ljóst að hann væri eigandi.

Aðspurður um hlutverk meðákærða, Sigurðar Arnar, hjá félaginu kvað ákærði að það hafi verið mjög svipað og hlutverk ákærða. Meðákærði hafi kannski verið meira að sýna þegar hafi verið að selja og komið að þeim hlutum, en hann hafi kannski ekki verið með sambærilega þekkingu varðandi smíðar og ákærði. Um það hver hafi borið mesta ábyrgð í sambandi við rekstur félagsins kvað ákærði að allt í sambandi við bókhaldsskil og þess háttar hafi A séð um. Kvaðst ákærði þó ekki geta sagt til um hvort A hafi verið starfsmaður, enda gerði hann sér ekki grein fyrir því og allt í einu hafi hún verið tekin við af meðákærða og orðin meðeigandi ákærða. Á þeim tíma sem A hafi komið í stjórnina á árinu 2009 hafi þeir ákærði og meðákærði ekki talast við. Allt bókhald og allt saman hafi verið heima hjá A og meðákærða. Ákærði kvaðst hafa verið að takmörkuðu leyti í samskiptum við A, en svo hafi þau flutt burt úr sveitinni. Á þessum tíma hafi ákærði líka sjálfur verið að skilja og orðið gjaldþrota, auk þess að bankahrunið hafi orðið á þessum sama tíma. Kvaðst vera sekur um að hafa ekki fylgst nægilega vel með þessum hlutum, en hafi ekki gert sér grein fyrir þeirri skyldu sinni á þessum tíma. Kvaðst ekki hafa gert sér grein fyrir því fyrr en eftir á að A hafi tekið við af meðákærða Sigurði Erni. Kvaðst ekki hafa haft aðgang að heimabanka félagsins eða neinu slíku. Aðspurður kvað ákærði að A hafi borið ábyrgð á skattskilum félagsins og séð um þau alla tíð. Kvaðst ekki vita hvers vegna ekki hafi verið staðin skil á skattframtölum félagsins fyrir rekstrarárin 2008 og 2009.

Aðspurður um hlutafjármiða félagsins þar sem fram komi að félagið hafi greitt 190 milljónir króna í arð, 95 milljónir á hvorn ákærðu, kvað ákærði að þeir hafi aldrei fengið svona upphæðir. Hann hafi vitað að skilað hafi verið hlutafjármiða, en þeir hafi fengið lóðir og eitthvað sem hafi verið metnar á himinháu verði. Eðlilegt hefði verið að kanna raunvirði þessara eigna. A hafi ákveðið verð þessara eigna.

Aðspurður vegna bréfs 19. ágúst 2011 vegna meðákærða þar sem fram komi verðlagning á framangreindum lóðum vegna arðgreiðslunnar kvað ákærði að rétt verð hafi kannski verið um fjórðungur hins tilgreinda verðs á lóðum. Einfalt ætti að vera að sjá hvert hafi verið raunvirði slíkra lóða á þessum tíma. Kvaðst ákærði ekki gera sér neina grein fyrir því hvers vegna lóðirnar hafi verið verðlagðar svo hátt. Kvaðst hvorki hafa fengið á því útskýringar né leitað eftir slíkum skýringum.

Aðspurður kvaðst ákærði ekki muna eftir því að í september 2008 hafi verið tekin ákvörðun í stjórn félagsins um greiðslu arðs til ákærðu. Það geti vel verið en hann muni ekki eftir því.

Aðspurður um greiðslur sem hafi runnið til ákærða skv. samantekt Skattrannsóknastjóra, samtals arður kr. 79.685.137, kvað ákærði að hann hefði ekki sérstakar athugasemdir við það nema verðlagið á lóðunum sem hafi verið allt of hátt metið. Tók ákærði fram að engar athugasemdir hafi verið gerðar við sitt persónulega bókhald og hann hafi haldið að málinu væri lokið þegar honum hafi verið tilkynnt um niðurfellingu á hans persónulega máli.

Aðspurður um kaupsamning, dags. 1. júlí 2009, þar sem ákærði og meðákærði hafi selt allt hlutafé í félaginu til B og C, kvað ákærði að þetta hafi komið til þannig að þeir hafi verið hættir að starfa saman. Þeir hafi viljað selja félagið. Ákærði kvaðst ekki hafa verið í samskiptum við nefnda kaupendur, en hann hafi verið í samskiptum við konu sem hann myndi ekki hvað héti og hafi komið henni í samband við A, sem hafi svo gengið frá þessu og gert kaupsamninginn. Þetta muni trúlega hafa verið D, sem hafi verið að leita eftir félagi til kaups. Kvaðst þó ekki þekkja hana að neinu ráði. Kvaðst aldrei hafa hitt B og C. Ákærði kvaðst ekki hafa undirritað kaupsamninginn og kvað A hafa gert hann.

Aðspurður um hvers vegna eignir hafi verið færðar í félagið Hornás sem ákærði og meðákærði hafi báðir átt, úr því að samkomulag milli þeirra hafi verið orðið slæmt, kvað ákærði að A hafi séð um þetta og kvaðst ekki vita hvers vegna hún hafi gert það.

Aðspurður um tilkynningar um breytingar á stjórn félagsins 1. júlí 2009, móttekið hjá Ríkisskattstjóra 16. október 2009, þar sem B og C taka við, kvaðst ákærði ekki hafa séð þetta áður. Hann hafi ekki komið að því þegar þær hafi tekið við.

Aðspurður um kaupsamning um […] í Bláskógabyggð, dags. 22. júlí 2009, kvaðst ákærði kannast við undirskrift sína f.h. félagsins sem seljanda. Kvaðst ákærði ekki geta skýrt hvers vegna hann hafi undirritað þetta, eftir að félagið hafi verið selt og hann farinn úr stjórn. Kannaðist ekki við að hafa komið nálægt neinu eftir að félagið hafi verið selt.

Aðspurður ítrekaði ákærði að allar ákvarðanir um greiðslu reikninga og slíkt hafi verið í höndum A. Þá kvað ákærði að hann hafi aldrei gefið A nein fyrirmæli um að standa ekki skil á sköttum. Hann hafi heldur ekki gefið henni fyrirmæli um að greiða. Hann hafi í raun ekki verið framkvæmdastjóri félagsins.

Þá lýsti ákærði því að mál þetta, sem og dráttur þess, hafi tekið mikið á sig.

Ákærði Sigurður Örn Sigurðsson kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og kvaðst hafa haft ámóta tengsl og hlutverk hjá félaginu og meðákærði Sigurður Ívar hafði lýst. Hann hafi verið að redda efni og lyftaravinnu og ýmsu verklegu. Hann hafi verið helmingseigandi á móti meðákærða. Kvað rétt að hann hafi verið stofnandi félagsins ásamt meðákærða, stjórnarformaður og prókúruhafi félagsins eins og fram komi í gögnum. Kannaðist við undirritun sína um það. Dagleg aðkoma ákærða hafi verið við smíðar og útvegun efnis og þess háttar. Ákærðu hafi saman tekið ákvarðanir um hvaða verkefni ætti að vinna, í sambandi við smíðavinnu. A […] ákærða, hafi séð um bókhaldsvinnu félagsins. Hún hafi líka séð um skattskil félagsins og séð alfarið um öll bókhaldsmál. Ákærði tók fram að hann væri með athyglisbrest og lesblindu og vissi ekkert um bókhald og honum hafi verið bent á að skipta sér ekki af bókhaldi, sem hann hafi ekki gert. Hann hafi bara skrifað undir það sem A hafi sagt sér að skrifa undir. Hann hafi bara treyst henni og skrifað undir án þess að lesa. Meðákærði Sigurður Ívar viti ekki heldur nokkurn hlut um bókhald. A hafi séð um þetta allt saman að ósk ákærðu beggja.

Aðspurður um tilkynningu um úrsögn ákærða úr stjórn félagsins, móttekin hjá Ríkisskattstjóra 11. júní 2009 og tilkynningu um breytingu á stjórn, móttekin hjá Ríkisskattstjóra 8. júlí 2009, þar sem A tekur sæti í stjórn, kvaðst ákærði ekki vita hvernig þetta hafi komið til. Allt hafi þarna verið í upplausn og hvorki samstarfið né hjónabandið hafi gengið upp og hann sjálfur verið að flytja í burtu. Væntanlega hafi A séð um að útbúa þessi gögn, enda hafi hún gert öll gögn.

Aðspurður hvort ákærði hafi haft aðgang að bankareikningum félagsins kvað ákærði að A hafi séð alfarið um þetta allt. Kvaðst ekki hafa hugmynd um hvers vegna ekki hafi verið staðin skil á skattframtölum félagsins fyrir rekstrarárin 2008 og 2009.

Aðspurður um hlutafjármiða vegna tekjuársins 2009 þar sem fram kemur að félagið hafi greitt 190 milljónir króna í arð, þ.e. 95 milljónir til hvors ákærða, kvað ákærði að fyrir sér væri þetta bara eitthvað fjölskyldulíf með konunni sem hafi séð um bókhaldið. Kvaðst ekki geta sagt neitt um þetta. Aðspurður um ákvörðun í stjórn félagsins í september 2008 um arðgreiðslurnar kvaðst ákærði ekki muna neitt eftir því og ekki muna neitt eftir umræðu um það. A hafi bent honum á að skipta sér ekki af þessum málum.

Aðspurður um bréf frá PWC til Ríkisskattstjóra, dags. 19. ágúst 2011, sem svar við bréfi Ríkisskattstjóra til ákærða, kvaðst ákærði ekki muna eftir því bréfi. Tók ákærði fram að verðmat á lóðum sem þar er getið um hafi markast af því að á lóðunum hafi hvílt 350 milljónir króna frá fyrri eigendum, en þeim hafi einhvern vegin tekist að fá himinhátt fasteignamat á lóðirnar vegna lánveitinga. Væntanlega hafi bréfritari PWC þannig byggt á fasteignamatinu, sem hafi verið óeðlilega hátt, enda sé núna verið að lækka fasteignamatið um helming, enda sé þetta bara mói og hvorki sé þar rafmagn né hiti.

Aðspurður um samantekt Skattrannsóknarstjóra á greiðslum til ákærða, en skv. skjalinu var greiddur arður til ákærða kr. 86.845.23, kvaðst ákærði aldrei hafa séð neinar stórar greiðslur koma til sín, en tók enn fram að hann hefði ekki vit á bókhaldi. Kvaðst aukin heldur ekki geta munað þetta enda langt um liðið.

Aðspurður um kaupsamning, dags. 1. júlí 2009, þar sem ákærði og meðákærði selja allt hlutafé í félaginu til B og C, kvað ákærði að á þessum tíma hafi allt verið í steik. Ákærði hafi verið farinn burt og ekki komið nálægt þessu. Hann hafi verið fluttur burt og bæði hjónabandið og samstarfið verið í kalda koli. Kvaðst ákærði aldrei hafa hitt þessar […] og A varla talað við hann. A hafi séð um að gera þennan samning. Ákærði hafi aldrei hitt B og C og ekki vitað hverjar þær væru. Kvaðst ekki hafa verið í sambandi við neinn vegna þessa samnings og ekki heldur meðákærða. Eftir 1. júlí 2009 hafi ákærði ekki haft neina aðkomu að félaginu.

Aðspurður kvaðst ákærði vera með öllu ómenntaður. Þá lýsti ákærði óánægju sinni með þann langa tíma sem málið hafi tekið. Kvaðst jafnframt aðspurður aldrei hafa gefið nein fyrirmæli um að skatturinn yrði ekki greiddur eða framtölum ekki skilað og ekki skipt sér af skilagreinum eða neinu slíku í sambandi við skattamál. Hvorugur þeirra hafi haft neitt vit á bókhaldi, enda hafi A bara verið í þessu.

Vitnið A, […] ákærða Sigurðar Arnar, gaf skýrslu við aðalmeðferð og skýrði frá því hafa verið […] ákærða Sigurðar Arnar. Hún hafi séð um bókhald félagsins og daglegan rekstur, s.s. að greiða reikninga o.þ.h. Þetta hafi hún gert að beiðni þeirra ákærðu. Hún hafi séð um bókhald, en endurskoðandi eða annar aðili hafi séð um skattskil félagsins. Hún hafi ekki komið fram fyrir hönd félagsins sem fyrirsvarsmaður. Aðspurð kvað vitnið að það hafi verið tímabundin ráðstöfun að hún kæmi inn sem stjórnarmaður í félaginu 11. júní 2009. Þetta hafi verið vegna þess að upp hafi verið komið ósætti milli hinna ákærðu og ákærði Sigurður Örn hafi sagt sig úr félaginu og því hafi hún þurft að koma inn tímabundið. Allt hafi verið komið í óefni á þessum tíma. Hún hafi aldrei verið eigandi félagsins. Hún hafi haft aðgang að bankareikningum félagsins í gegnum netbanka. Hún hafi haft aðgang að reikningum fyrir hönd ákærðu. Um það hvers vegna ekki hafi verið staðin skil á skattframtölum félagsins fyrir rekstarárin 2008 og 2009 kvað vitnið að hún myndi það ekki.

Aðspurð um hlutafjármiða félagsins þar sem fram kemur að félagið hafi greitt ákærðu 190 milljónir króna í arð kvað vitnið að arðgreiðslan hafi væntanlega verið gerð í framhaldi af skattframtali í samráði við endurskoðanda. Væntanlega hafi PWC skilað þessu inn fyrir hönd félagsins. Aðspurð kvaðst vitnið minna að ákvörðun um arðgreiðslu hafi verið tekin á aðalfundi félagsins, en kvaðst ekki muna hvort hún hafi verið viðstödd. Kvaðst ekki muna eftir sérstakri umræðu um þetta, en það hafi væntanlega verið að ráði endurskoðanda þar sem svigrúm hafi verið til þess. Ákærðu hafi að sjálfsögðu báðir verið meðvitaðir um þetta.

Aðspurð um kaupsamning 1. júlí 2009 þar sem B og C kaupa allt hlutafé félagsins af ákærðu kvað vitnið að hún kannaðist við hann. Vitnið hafi útbúið skjalið en ákærðu hafi sagt henni hvað ætti að vera í því efnislega. Hún hafi bara skrifað það upp að þeirra ósk. Á þessum tíma hafi hún ekki verið í samskiptum við kaupendurna, en hún hafi reynt að hafa samband við þær eftir þetta til að ganga frá lausum endum. Vitnið hafi líka fengið símanúmer hjá konu að nafni D sem hafi átt að vera einhver tengiliður við þessar […] Hafi vitnið talað við hana í síma eftir gerð samningsins. Vitnið hafi ekki verið viðstödd undirritun kaupendanna. Vitnið hafi útbúið skjalið og látið ákærða Sigurð Ívar hafa það og hann hafi farið með það til undirritunar. Kvaðst ekki muna hvort skjalið hafi komið aftur til hennar eftir undirritun. Ákærðu hafi ákveðið söluverð hlutafjárins.

Aðspurð um breytingar á stjórn félagsins mótteknar hjá Ríkisskattsjóra 16. október 2009, kvaðst vitnið kannast við skjalið og að hafa undirritað það og tilkynningu um það til Ríkisskattstjóra. Kvaðst þó ekki geta fullyrt hver hefði skilað skjalinu inn til Ríkisskattstjóra. Kvaðst heldur ekki muna hver hafi falið henni að senda tilkynningu inn til Ríkisskattstjóra, en væntanlega hafi það verið annar hvor ákærðu. Aðspurð kvaðst vitnið hvorki hafa hitt B né C þegar þessar tilkynningar hafi verið gerðar. Kvaðst hafa útbúið tilkynningu um breytingu á stjórn þar sem B og C voru tilkynntar sem nýir stjórnarmenn og látið ákærða Sigurð Ívar hafa til að klára málið. Þá hafi tilkynningin ekki verið undirrituð af B og C.

Aðspurð um afsal, dags. 1. september 2009, þar sem félagið afsalar […] í Bláskógabyggð til E, kannaðist vitnið við að hafa undirritað það fyrir hönd félagsins. Það hafi hún gert fyrir hönd ákærðu. Hún hafi ekki haft frekari aðkomu að félaginu eftir að það hafi verið selt. Um aðkomu ákærða Sigurðar Ívars að félaginu kvað vitnið það hafa verið eins og venjulegt sé með eigendur. Þeir báðir hafi átt félagið og hafi verið að ljúka við að selja það og ganga frá því. Þeir hafi haft svipaða aðkomu að félaginu og hún hafi verið starfsmaður þeirra.

Aðspurð kvaðst vitnið ekki persónulega hafa þekkt kaupendur félagsins, þ.e. B og C. Hún hafi aldrei hitt þær í sambandi við sölu á félaginu.

Aðspurð um bréf PWC til Ríkisskattsjóra fyrir hönd ákærða Sigurðar Arnar, dags. 19. ágúst 2011, þar sem koma m.a. fram verð á lóðum, kvað vitnið að hún hafi ekki persónulega ákveðið þar greint verð á lóðunum, heldur hafi það verið fengið úr bókhaldi félagsins. Þetta muni væntanlega hafa verið bókfært verð lóðanna. Báðir ákærðu hafi klárlega verið meðvitaðir um þessi verð.

Aðspurð kvaðst vitnið hafa séð um að greiða reikninga félagsins, en ef hún hafi ekki vitað fyrir hvað reikningur var eða hvað var að baki honum, þá hafi hún þurft að fá samþykki frá ákærðu fyrir greiðslu reiknings. Það hafi ekki verið á hennar forræði að ákveða hvaða reikningar væru greiddir, heldur hafi hún séð um framkvæmdina í bankanum, að þeirra ósk og með þeirra blessun um hvaða reikninga skyldi greiða. Hún hafi aldrei verið í samskiptum við aðila utan félagsins varðandi ákvarðanir í félaginu.

Þá lýsti vitnið því að hafa séð um daglega færslu á bókhaldi í félaginu og stemma af hlaupareikninga og svo hafi hún sent bókhaldið til endurskoðanda. Hún hafi séð um samskiptin við endurskoðanda. Kvaðst ekki muna hvort ákærðu hafi sjálfir verið í sambandi við endurskoðanda vegna skattamála eða slíks.

Kvað vitnið aðspurð að ákærðu hefðu séð um daglegan rekstur félagsins um hvað skipti máli, s.s. hvaða ákvarðanir voru teknar, hvaða framkvæmdir var farið í og hvernig, hvað var greitt fyrir þær o.s.frv. Vitnið kvaðst ekki muna hvort ákærðu hafi sjálfir farið í netbanka félagsins og greitt þar reikninga eða tekið þar út. Þeir hafi vitað hvaða reikningar voru til staðar hjá félaginu.

Vitnið kvað að við sölu félagsins hafi ákærðu báðir tekið um það ákvarðanir hvernig félagið yrði selt og hvaða eignir fylgdu því og hvað væri látið af hendi. Hún hafi komið hugmyndum þeirra um það niður á blað og útbúið kaupsamninginn. Allar eignir hafi átt að fylgja með. Mögulega hafi eitthvað átt að vera undanskilið en það kvaðst hún ekki muna. Það hafi hins vegar ekki verið á hennar valdi að ákveða hvað fylgdi með og hvað ekki. Kvaðst ekki geta útskýrt hvers vegna séu færslur á reikningi félagsins eftir að það hafi verið selt.

Aðspurð um hvort ákærðu hafi beðið um eitthvað í sambandi við staðgreiðslu af fjármagnstekjuskattinum og hvort þeir hafi verið inni í því, kvað vitnið að þeir hafi ekki verið inni í því hvernig haga skyldi uppgjöri og skilum vegna þess. Það hafi verið á hendi endurskoðanda. Ákærðu hafi ekki gefið fyrirmæli um að greiða þetta ekki.

Aðspurð um hvernig salan á félaginu hafi komið til kvaðst vitnið ekki geta sagt til um það, enda hafi hún ekki komið að því. Ákærðu hafi ákveðið hvað þeir vildu gera við félagið og sagt henni hvað þeir hafi verið búnir að ákveða með það. Hún hafi bara reynt að aðstoða við það. Hún hafi ekki haft samband við neina af þessum konum vegna sölunnar fyrr en eftir á þegar hún hafi haft samband við D til að ýta á eftir því að málið yrði klárað. Enga þeirra hafi hún hitt.

Vitnið B gaf skýrslu gegnum síma við aðalmeðferð og skýrði frá því að hún kannaðist við félagið þannig að hún hafi verið beðin um að vera einhvers konar stjórnarformaður eða eitthvað í félaginu. Það hafi komið til í gegnum D […] vitnisins, en sér vitanlega hafi hún aldrei verið gerð að stjórnarmanni. Það muni ekki hafa gengið eftir. Aðspurð um skjöl í málinu þar sem fram komi að hún hafi verið skráð sem stjórnarmaður í félaginu frá 1. júlí 2009 kvaðst vitnið ekki muna eftir að hafa skrifað undir skjöl þess efnis. Aðspurð um kaupsamning þar sem vitnið er annar kaupenda að öllu hlutafé í félaginu kvað vitnið að hún kannaðist ekki við þetta. Það hafi verið einhver umræða í gangi um þetta, en vitnið hafi ekki verið stjórnarmaður í þessu félagi eða átt að því neina aðild og viti ekkert út á hvað þetta hafi gengið. Kvaðst ekki hafa skrifað undir neinn kaupsamning um þetta. Kvaðst ekki þekkja ákærðu eða A. Kvaðst þekkja C þannig að þær sé […]. Séu einhverjar undirskriftir í gögnum málsins um þetta þá séu þær ekki vitnisins. Hún hafi ekki keypt þetta félag. Vitnið hafi ekki haft aðgang að bankareikningum félagsins eða komið að einhverjum viðskiptum. Hafi vitnið einfaldlega ekki komið að neinu varðandi þetta félag.

Aðspurð um skjöl í málinu frá Kaupþingi banka þar sem vitnið hafi undirritað og veitt umboð til F kvaðst vitnið ekki kannast við neinn F, en kannaðist við að vita hver G er. Vitnið kvaðst ekki minnast þess að hafa undirritað skjöl í þessu sambandi, þrátt fyrir að þau séu vottuð af starfsmönnum Kaupþings banka. Vitnið kvaðst hafa samþykkt að taka við bíl og fá greitt fyrir það og í framhaldi hafi farið af stað atburðarás sem hún botni ekkert í. Bílinn hafi hún fengið frá D og hafi verið beðin um að vera í stjórn félagsins. Þetta hafi verið á árinu 2009. Þetta hafi mest verið í síma. Kvaðst vitnið ekki vita hvort einhver geti hafa haft aðgang að persónuskilríkjum vitnisins á þessum tíma. Nánar aðspurð um kynni vitnisins af G kvað vitnið það hafa verið í tengslum við þessi bílakaup og svo hafi vitnið vitað til þess eftir á að G hafi tekið út alls kyns vörur á nafni vitnisins og sett íbúðir á nafn vitnisins. Vitnið kvaðst ekki vita hvort G hafi notað reikninga sem hún hafi veitt honum umboð á skv. gögnunum.

Aðspurð kvaðst vitnið ekki muna sérstaklega eftir framburði sínum hjá Skattrannsóknastjóra, en aðspurð um framburð sinn þar um að gruna ákveðna manneskju í þessu sambandi kvaðst vitnið þar hafa átt við D. Vitnið kvaðst aldrei hafa verið í samskiptum við A. Vitnið hafi ekki verið í samskiptum við aðra um þetta en D. Vitnið kvaðst ekki muna hvort hún hafi játað eða neitað beiðni D um að vera í stjórn félagsins. Vel geti verið að hún hafi samþykkt þetta munnlega en hún muni það ekki. Kvaðst eiginlega viss um að hafa ekki undirritað nein skjöl í sambandi við þetta. Vitnið kannaðist við að hafa fengið bíl fyrir þetta og líka peninga að því er hana minnti kr. 300.000 frá eiganda bílsins, en kvaðst ekki vita hver það hafi verið en það hafi verið einhver á vegum D. Hún hafi ekki látið annað á móti en að losa þá sem áttu bílinn undan kröfum frá Lýsingu eða öðru slíku fyrirtæki. Ekki hafi verið rætt um meira endurgjald, en mögulega hafi verið tengsl milli hinnar umbeðnu stjórnarsetu og bílsins. Vitnið kvaðst ekki hafa hugmynd um hvort C hafi komið að þessu. Þær hafi ekki verið í sambandi í mörg ár, en þær hafi verið í sambandi á árinu 2009. Þær hafi ekki rætt um þetta félag á þeim tíma eða síðar. Kvaðst ekki vita hvort C hafi fengið sambærilega beiðni og vitnið. Vitnið kvaðst ekki hafa skýringu á undirritun með nafni vitnisins í skjölum málsins, aðra en að einhver hafi notað nafnið hennar, en kvaðst ekki vita hver það myndi hafa verið.

Vitnið D gaf skýrslu gegnum síma við aðalmeðferð og kvaðst ekki kannast við umrætt félag og ekki hafa haft neina aðkomu að því. Hún hafi veikst illa og muni ekki nokkurn hlut að gagni eftir það, auk þess að hafa verið í ofbeldissambandi. Aðspurð kvaðst vitnið ekkert kannast við nöfn hinna ákærðu eða A. Kvaðst ekki muna til þess að hafa komið að kaupum C og D á umræddu félagi. Kvaðst ekki þekkja D og ekki vita hver það er. Kvaðst þekkja C, sem sé […] vitnisins, en þær séu ekki sambandi og hafi sambandi vitnisins og […] B lokið á árinu 1999. Kvaðst ekki muna hvort hún hafi verið í sambandi við B á árinu 2009. Vitnið kannaðist ekkert við að hafa óskað eftir því við B að taka að sér stjórnarmennsku í félaginu. Enn síður að hafa komið að bílaviðskiptum B á árinu 2009. Vitnið kvaðst ekkert muna frá árinu 2004 til 2015.

Vitnið H gaf skýrslu gegnum síma við aðalmeðferð. Vitnið kvaðst hafa gert upp fyrir félagið til ársins 2008. Vitnið kvaðst hafa fengið bókhaldið fært frá félaginu og gert lokaafstemmingar og gert svo skattframtal. A hafi fært bókhaldið hjá félaginu. Vitnið kvaðst hafa gert og séð um skattamálefni, ársreikninga og slíkt fyrir félagið. Kvað vitnið að A hafi séð alfarið um þetta þangað til hún hafi komið með þetta til uppgjörs hjá vitninu, þ.m.t. skilagreinar. Vitnið kvaðst ekki muna til þess að hafa verið í samskiptum við eigendur félagsins vegna þessara mála, en þó hafi annar ákærðu komið stundum. Aðalsamskipti vitnisins hafi verið við A. Aðspurð kvaðst vitnið ekki muna til þess að hafa vitað af arðgreiðslu upp á 190 milljónir króna til ákærðu á árinu 2008 og kvaðst telja að hún hafi ekki séð um það. Hún hafi ekki haft vitneskju um þetta.

Vitnið C gaf skýrslu gegnum síma við aðalmeðferð og kvaðst ekki þekkja neitt til umrædds einkahlutafélags. Kannaðist alls ekki við að hafa tekið að sér að vera varamaður í stjórn, framkvæmdastjóri og prókúruhafi umrædds félags. Kvaðst ekki hafa ritað undir nein skjöl varðandi slíkt. Þá kvaðst vitnið ekki kannast neitt við kaupsamning um að hún og B hafi keypt hlutafé þessa félags af ákærðu og kvaðst bara ekki skilja þetta. Kvaðst ekki þekkja ákærðu neitt og ekki heldur A. Kvaðst þekkja B og kannaðist við að þær hafi verið og séu vinkonur. Vitnið kvaðst ekki hafa fengið neinar beiðnir um að taka þátt í þessu félagi með stjórnarmennsku eða öðru slíku. Kvaðst ekki þekkja D en hún væri […] B. Kvað vitnið að D hafi aldrei verið í samskiptum við sig. Fullyrti vitnið að hún hefði engin tengsl við þá sem komu að félaginu og þekkti þá ekkert. Kvaðst aldrei hafa átt í neinum viðskiptum fyrir þetta félag. Kvaðst ekki vita neitt hvernig hennar nafn hefði þvælst inn í þetta, nema ef það tengdist kannski D ef hún skyldi hafa notað nafn vitnisins. Vitnið hafi ekki veitt neinum leyfi til að nota nafn sitt. Vitnið neitaði því að hafa haft samskipti við A varðandi félagið. Vitnið kvaðst minna að hafa gefið skýrslu hjá Skattrannsóknastjóra og aðspurð vegna þeirrar skýrslu þar sem vitnið skýrði frá því að A hafi talað við sig um þetta kvaðst vitnið ekki muna þetta. Vitnið kannaðist ekki við þann framburð sinn hjá Skattrannsóknastjóra að A hafi haldið að vitnið hafi keypt félagið eða ætti það. Þetta sé ekki rétt og kvaðst vitnið ekki skilja þetta. Vitnið kvað að B hafi rætt þetta við sig og vitnið hafi ætlað að setja sína kennitölu við þetta, en guggnað á því. Vitnið kvaðst ekki kannast við G. Aðspurð um þann framburð sinn hjá Skattrannsóknastjóra að hafa verið í samskiptum við G og D um þetta kvað vitnið það vera rétt, en hún hafi samt ekki verið í samskiptum við G og hafi þetta allt komið frá B. Vitnið kvað hafa verið lofað greiðslu fyrir þetta og hafi það komið í gegnum B, en vitnið hafi aldrei farið út í þetta. Vitnið kvaðst ekki hafa haft vitneskju um að hún væri skráð sem framkvæmdastjóri í félaginu. Aðspurð um þann framburð sinn hjá Skattrannsóknastjóra að hafa ekki vitað um þetta fyrirfram en svo hafi hún farið að fá póst þá kvað vitnið það vera rétt. Ítrekaði vitnið að hún hefði aldrei tekið þátt í þessu. Vitnið kvaðst ekki muna eftir neinum tilkynningum til fyrirtækjaskrár Ríkisskattstjóra um prókúru eða framkvæmdastjórn. Vitnið var spurt hvort það hafi einhvern tíma týnt vegabréfi sínu og neitaði vitnið því. Ekki gat vitnið þó skýrt hvers vegna í skjölum málsins er afrit af samningi um aðgang að netbanka fyrir lögaðilann Byggingafélagið Grettir með undirritun vitnisins og vottað af starfsmanni Kaupþings banka, þar sem fram kemur að framvísað hafi verið skilríkjum, nánar tiltekið passa.

Forsendur og niðurstaða

Ákæra í máli þessu er í 2 liðum eins og að ofan greinir.

Í fyrri lið ákærunnar er báðum ákærðu, ákærða Sigurði Ívari sem framkvæmdastjóra og ákærða Sigurði Erni sem daglegum stjórnanda og stjórnarmanni einkahlutafélagsins Byggingafélagi Grettir, gefið að sök að hafa ekki staðið skil á skattframtölum umrædds einkahlutafélags á lögmæltum tíma rekstrarárin 2008 og 2009, vegna gjaldáranna 2009 og 2010. Þetta er í ákæru talið varða við þau lagaákvæði sem þar er vísað til.

Af hálfu ákærðu er því ekki haldið fram að staðin hafi verið skil á umræddum skattframtölum á lögmæltum tíma.

Samkvæmt 3. mgr. 90. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt hvílir á lögaðila skylda til að skila skattframtali og sé um að ræða bókhaldsskyldan aðila þá ber að skila ársreikningi með framtalinu.

Samkvæmt auglýsingu Ríkisskattstjóra, dags. 5. janúar 2009, sbr. 1. mgr. 93. gr. laga nr. 90/2003, sem birt var í Lögbirtingablaði 6. janúar 2009, bar að skila skattframtali lögaðila vegna tekna ársins 2008 eigi síðar en 31. maí 2009. Fyrir liggur að skattframtali fyrir umrætt einkahlutafélag var ekki skilað fyrir þennan tíma.

Samkvæmt auglýsingu Ríkisskattstjóra, dags. 29. janúar 2010, sbr. 1. mgr. 93. gr. laga nr. 90/2003, sem birt var í Lögbirtingablaði 19. febrúar 2010, bar að skila skattframtali lögaðila vegna tekna ársins 2009 eigi síðar en 31. maí 2010. Fyrir liggur að skattframtali fyrir umrætt einkahlutafélag var ekki skilað fyrir þann tíma.

Þannig liggur fyrir að skattframtölum var ekki skilað á lögmæltum tíma fyrir félagið fyrir þau ár sem getið er um í ákæru. Breytir hér engu þó að unnt hefði verið að fá framtalsfrestinn framlengdan, en ljóst er að það gerist ekki sjálfkrafa heldur þarf að sækja um slíka framlengingu og var það ekki gert í þessu tilviki.

Samkvæmt 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 hvílir sú skylda á stjórnarmönnum og framkvæmdastjórum einkahlutafélaga að annast um að skipulag félags og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi. Undir þetta fellur sú skylda að sjá til þess að skattframtölum sé skilað á lögmæltum tíma og skattar greiddir.

Fyrir liggur að félagið var stofnað á árinu 2004 og voru ákærðu stofnendur þess. Samkvæmt tilkynningu um stofnun félagsins var ákærði Sigurður Örn formaður stjórnar og ákærði Sigurður Ívar varamaður í stjórn og var hann jafnframt framkvæmdastjóri. Báðir ákærðu höfðu prókúruumboð. Undir þetta rituðu báðir ákærðu. Þetta hélst óbreytt allt til 11. júní 2009.

Þann 11. júní 2009 barst Ríkisskattstjóra tilkynning, dagsett sama dag, um að ákærði Sigurður Örn hefði sagt sig úr stjórn félagsins og jafnframt afsalað sér prókúru fyrir það. Þann 8. júlí 2009 barst Ríkisskattstjóra tilkynning, dagsett 11. júní 2009, um að A væri nú formaður stjórnar eða stjórnarmaður í eins manns stjórn í félaginu og að ákærði Sigurður Ívar væri varamaður í stjórn. Þann 16. október 2009 barst Ríkisskattstjóra tilkynning, dagsett 1. júlí 2009, um að formaður stjórnar eða stjórnarmaður í eins manns stjórn væri B og varamaður C. Sama dag barst jafnframt tilkynning, einnig dagsett 1. júlí 2009, um að A og ákærði Sigurður Ívar hefðu sagt sig úr stjórn, varastjórn, prókúra þeirra væri afturkölluð og að ákærði Sigurður Ívar væri ekki framkvæmdastjóri. Er ekki að sjá að skv. opinberri skráningu hafi ákærðu átt sæti í stjórn eða framkvæmdastjórn félagsins eftir þetta, hvað sem líður því hvort eigendaskipti að félaginu voru til málamynda eða raunveruleg. Þannig liggur fyrir að þegar bar að skila inn hinu fyrra skattframtali, þ.e. vegna tekna ársins 2008, voru ákærðu báðir stjórnendur félagsins, ákærði Sigurður Örn sem formaður stjórnar og ákærði Sigurður Ívar sem varamaður í stjórn og jafnframt framkvæmdastjóri. Báru þeir þannig ábyrgð sem stjórnendur félagsins, sbr. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Báðir ákærðu hafa borið því við að A hafi í rauninni haft hlutverk þeirra með höndum og hafa báðir ákærðu nánast lýst sjálfum sér eins og óvitum þegar kemur að þessari hlið rekstrarins. Ekki er unnt að fallast á það með ákærðu að ætluð vanþekking þeirra geti leyst þá undan þeirri ábyrgð sem á þá var lögð með framangreindum lagaákvæðum og sem þeir höfðu undirgengist með stjórnarsetu sinni og framkvæmdastjórn í félaginu. Hvort sem ákærðu gáfu fyrirmæli um að skattframtalinu yrði ekki skilað eða fylgdust ekki með því, þá báru þeir ábyrgð á því að það yrði gert á réttum tíma og með réttum hætti og bera ábyrgð skv. 2. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003.

Fyrir liggur hins vegar að þegar skila bar hinu seinna skattframtali, þ.e. vegna tekna ársins 2009, að þá voru ákærðu ekki skráðir sem stjórnendur félagsins. Þeir höfðu þannig báðir verið afskráðir sem stjórnendur. Vera kann að þeir hafi áfram verið raunverulegir stjórnendur og er ýmislegt komið fram í málinu sem bendir til þess, en á hinn bóginn er ekki að öllu leyti trúverðugur framburður vitnanna B og C um að þær hafi ekki tekið að sér stjórnarmennsku í félaginu og ekkert vitað um þetta. Er ekki unnt að telja hafið yfir skynsamlegan vafa að staða ákærðu, á þeim tíma sem skila bar hinu seinna skattframtali, hafi verið slík að þeir geti borið refsiábyrgð sem stjórnendur félagsins og verða þeir ekki sakfelldir vegna framtalsins fyrir tekjur ársins 2009.

Í seinni lið ákærunnar er ákærðu gefið að sök að hafa ekki staðið skil á staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts að fjárhæð kr. 16.653.037 af kr. 166.530.373 arðsúthlutun úr félaginu til ákærðu á rekstrarárinu 2008.

Fyrir liggur samkvæmt gögnum málsins að á aðalfundi félagsins 5. september 2008 var tekin ákvörðun um greiðslu arðs kr. 190.000.000, þ.e. 95 milljónir fyrir hvorn ákærðu. Samkvæmt innsendum hlutafjármiða var dagsetning arðgreiðslunnar þann 30. apríl 2009. Samkvæmt niðurstöðu Skattrannsóknastjóra varð niðurstaðan hins vegar sú að arðgreiðslan nam kr. 166.530.373, þ.e. fyrir ákærða Sigurð Örn kr. 86.845.236 og fyrir ákærða Sigurð Ívar kr. 79.685.137. Hluti arðgreiðslunnar var greiddur út á árinu 2008, eða samtals kr. 25.051.177 fyrir ákærða Sigurð Örn og kr. 24.235.137 fyrir Sigurð Ívar, en á árinu 2009 voru greiddar kr. 61.794.059 fyrir ákærða Sigurð Örn og kr. 55.450.000 fyrir ákærða Sigurð Ívar. Framburður ákærðu um að kannast ekki við að hafa fengið greiddar slíkar fjárhæðir breytir ekki því að skv. gögnum málsins voru fjárhæðirnar greiddar, að hluta til með eignayfirfærslum. Hafa ákærðu haldið því fram að verð þeirra eigna hafi verið ofmetið. Þetta hafa þeir þó ekki stutt haldbærum rökum, en fyrir liggur m.a. í framburði A að verðið á eignunum var byggt á bókfærðu verði í bókhaldi félags ákærðu sjálfra. Hefur ekki verið rennt undir það viðhlítandi stoðum að ekki megi byggja á þessum verðum. Þá liggur fyrir skv. framburði A, sem studdur er við gögn málsins, að ákærðu vissu um arðgreiðsluna.

Í 4. mgr. 5. gr. laga um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur nr. 94/1996 segir að afdráttur staðgreiðslu af arði skal fara fram þegar hlutafélag greiðir arðinn eða eigi síðar en í lok þess árs þegar ákvörðun um úthlutun er tekin. Á þeim tíma sem umrædd ákvörðun um arðgreiðsluna var tekin í september 2008 var ákvæði þetta á þann veg að afdráttur staðgreiðslu af arði skal fara fram þegar hlutafélag greiðir eða úthlutar arði til hluthafa, en ákvæðinu var breytt með 25. gr. laga nr. 165/2010 sem tók gildi 1. janúar 2011 og kom til framkvæmda við álagningu 2012 og á staðgreiðsluárinu 2011. Af hálfu ákæruvalds er vísað til þess að skv. orðsendingu Ríkisskattstjóra nr. 1/2009 hafi gjalddagi afdreginnar staðgreiðslu skatts af fjármagnstekjum ársins 2008 verið 15. janúar 2009 en eindagi 30. janúar 2009. Samkvæmt 7. gr. nefndra laga nr. 94/1996, eins og hún var þegar tekin var ákvörðun um arðgreiðsluna, var greiðslutímabil skatts samkvæmt lögunum almanaksárið. Gjalddagi var tiltekinn 15. janúar árlega og eindagi 15 dögum síðar.

Samkvæmt framansögðu gilti sú regla þegar arðgreiðslan var ákveðin, að afdráttur staðgreiðslunnar skyldi fara fram þegar félagið greiddi eða úthlutaði arðinum, en var ekki bundinn við ákvörðunina eins og nú er. Fyrir liggur að minni hluti arðsins var greiddur út á árinu 2008, en meiri hlutinn á árinu 2009. Í báðum tilfellum var gjalddaginn 15. janúar árið eftir, þ.e. annars vegar 15. janúar 2009 vegna arðgreiðslunnar á árinu 2008 og 15. janúar 2010 vegna arðgreiðslunnar á árinu 2009.

Eins og áður segir verða skyldur stjórnenda einkahlutafélagsins ekki lagðar á ákærðu eftir að þeir voru skráðir úr stjórn og framkvæmdastjórn félagsins, en ekki er hafið yfir skynsamlegan vafa að þeir hafi í raun og veru gegnt þeim störfum eftir að þeir voru skráðir úr stjórn og framkvæmdastjórn.

Eins og áður segir hafa ákærðu borið fyrir sig að þeir hafi ekkert vitað um þetta og ekkert skilið í þessu og bent ítrekað á A í þessum efnum. Líkt og um skil á skattframtölum þá stoðar þessi málsvörn ekki. Ákærðu tókust á hendur stjórnarstörf og framkvæmdastjórn í félaginu og því fylgir ábyrgð samkvæmt lögum, en undan henni verður ekki vikist með því að vísa á aðra og með því að segjast ekki skilja þær skyldur sem ákærðu tóku á sig.

Verður skv. framansögðu miðað við að fjárhæð þeirrar afdregnu staðgreiðslu sem félaginu bar að standa skil á í stjórnartíð ákærða Sigurðar Arnar og framkvæmdastjóratíð ákærða Sigurðar Ívars hafi verið kr. 4.928.631, eða tíundi hluti af kr. 49.286.314 sem er sú arðgreiðsla sem var greidd út á árinu 2008 og var skatturinn á gjalddaga 15. janúar 2009.

Ákærðu hafa borið fyrir sig að meintar sakir þeirra séu allar fyrndar.

Samkvæmt 8. mgr. 110. gr. laga nr. 90/2003 fyrnist sök skv. 109. gr. laganna á sex árum miðað við upphaf rannsóknar á vegum Skattrannsóknarstjóra, enda verði ekki óeðlilegar tafir á rannsókn máls eða ákvörðun refsingar. Sama máli gegnir um brot gegn

19. gr. laga nr. 94/1996, sbr. 7. mgr. 20. gr. þeirra laga. Upphaf rannsóknar Skattrannsóknastjóra verður rakið allt aftur til 11. apríl 2013 þegar þáverandi skráðum fyrirsvarsmönnum félagsins, þeim B og C, var send tilkynning um að hafin væri rannsókn á bókhaldi og skattskilum félagsins. Ákæra í málinu var gefin út þann 27. júní 2019, eða röskum 6 árum eftir upphaf rannsóknarinnar.

Fyrir liggur að rannsókn og meðferð málsins hefur frá upphafi ekki verið samfelld, en allt að einu verður ekki talið að hún hafi legið niðri svo lengi og samfellt að 5. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eigi hér við. Verður hér sérstaklega tekið fram að ekki er fallist á það með ákærðu að ekki hafi verið sýnilegur tilgangur með rannsókn á vegum Héraðssaksóknara, annar en að rjúfa fyrningu. Verður því hafnað að ætlaðar sakir ákærðu séu fyrndar.

Samkvæmt framansögðu er ekki fallist á að ákærðu geti borið refsiábyrgð á því að skattframtali vegna rekstrarársins 2009 hafi ekki verið skilað á réttum tíma. Um skattframtal vegna rekstrarársins gegnir öðru máli, en þá var staða ákærðu hjá félaginu þannig að þeir báru ábyrgð á réttum skilum á skattframtali eins og áður er lýst. Um tekjur og það hvað hefði átt að koma fram á skattframtali nýtur hins vegar einskis við. Ekki hefur komið fram hversu miklar eignir og hversu miklar tekjur voru þannig ekki taldar fram. Við þessar aðstæður er ekki unnt að fallast á það með ákæruvaldinu að það brot eitt og sér, að eigi hafi verið staðin skil á skattframtalinu á lögmæltum tíma, geti falið í sér meiri háttar brot gegn 2. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Verður því háttsemi ákærðu skv. ákærulið 1 aðeins heimfærð undir 2. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003.

Að því er varðar ákærulið 2 hefur því hér að framan verið slegið föstu að ákærðu geti ekki borið refsiábyrgð vegna fjármagnstekjuskatts af þeim hluta arðsins sem greiddur var á árinu 2009, enda ekki hafið yfir skynsamlegan vafa að þeir hafi verið í stjórnunarstöðum hjá félaginu þegar sá skattur var í eindaga í janúar 2010. Hins vegar voru ákærðu í þeim stjórnunarstöðum í janúar 2009 þegar bar að greiða fjármagnstekjuskatt af þeim hluta arðsins sem greiddur var á árinu 2008, en eins og áður greinir nam sá hluti kr. 49.286.314 og tíundi hluti hans, sem bar að greiða í fjármagnstekjuskatt nam þannig kr. 4.928.631. Varðar þetta við 2. mgr. 19. gr. laga nr. 94/1996 og bera ákærðu refsiábyrgð á því sem stjórnendur félagsins á þeim tíma, en undan þeirri ábyrgð verður ekki vikist með því að benda á aðra eða bera fyrir sig lesblindu og vankunnáttu. Skyldan hvíldi á ákærðu sjálfum og það getur ekki leyst þá undan henni að hafa falið kunnáttumönnum á þessu sviði um framkvæmd hennar. Í ákæru er þessi háttsemi heimfærð undir nefnt ákvæði laga nr. 94/1996, en jafnframt undir 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í síðast nefndu lagaákvæði er hins vegar hvergi minnst á að brot gegn ákvæðum laga nr. 94/1996 varði refsingu skv. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Verulegur munur er á refsimörkum umræddra ákvæða, en þannig mælir 2. mgr. 19. gr. laga nr. 94/1996 einungis fyrir um fésektarrefsingar, en refsingar skv. 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 geta verið fangelsi allt að 6 árum, auk fésektarrefsinga skv. viðeigandi ákvæðum skattalaga. Það er álit dómsins að samkvæmt grundvallarreglum um skýrleika refsiheimilda verði að gera þá kröfu til refsiákvæða, í þessu tilviki 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, að í refsiákvæðinu sjálfu sé gerð skýr grein fyrir því hvaða háttsemi eigi undir refsiákvæðið og að ekki dugi að vísa til þess í öðru refsiákvæði eins og gert er í 2. mgr. 19. gr. laga nr. 94/1996. Verður ákærðu samkvæmt þessu ekki gerð refsing eftir fyrirmælum 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þrátt fyrir að brotið sé meiri háttar að mati dómsins.

Samkvæmt framansögðu hafa báðir ákærðu gerst sekir um verulegan hluta þeirrar háttsemi sem greinir í ákæru, þannig að báðir eru sakfelldir fyrir að hafa eigi staðið skil á skattframtölum einkahlutafélagsins á lögmæltum tíma fyrir rekstrarárið 2008 og varðar háttsemin við 2. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003. Þá eru báðir ákærðu jafnframt sakfelldir fyrir að hafa eigi staðið skil á staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts að fjárhæð kr. 4.928.631 vegna arðsúthlutunar á rekstrarárinu 2008. Varðar þessi háttsemi við 2. mgr. 19. gr. laga nr. 94/1996.

Báðir ákærðu hafa þannig unnið sér til refsingar. Samkvæmt framlögðum sakavottorðum ákærðu hefur ákærði Sigurður Ívar einu sinni verið sakfelldur fyrir brot gegn umferðarlögum og hefur það engin áhrif á ákvörðun refsingar hans, en ákærði Sigurður Örn hefur ekki sakaferil.

Ákærðu bera báðir fulla refsiábyrgð á framangreindum brotum, þ. á m. því að ekki voru staðin skil á umræddum skatti og ber til samræmis við það að gera þeim hvorum um sig fésekt sem getur ekki verið lægri en tvöföld sú fjárhæð sem ekki var staðin skil á. Ber að dæma hvorn ákærðu fyrir sig til að greiða fésekt í ríkissjóð, kr. 9.857.262, en sæta ella fangelsi í 150 daga hvor. Eru ekki efni til að skilorðsbinda refsinguna.

Með hliðsjón af því að ákærðu eru ekki sakfelldir að fullu samkvæmt ákæru og samkvæmt heimfærslu til refsiákvæða í ákæru er rétt, sbr. 1. mgr. 235. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, að gera þeim að greiða helming sakarkostnaðar, en hinn helmingurinn greiðist úr ríkissjóði. Ekki liggur fyrir að um hafi verið að ræða útlagðan kostnað við rannsókn og er þá aðeins um að tefla málsvarnarlaun skipaðra verjenda ákærðu. Eru málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða Sigurðar Arnar sig ákveðin kr. 4.200.000 og hefur þá verið litið til virðisaukaskatts, en málsvarnarlaun skipaðs verjanda Sigurðar Ívars eru ákveðin kr. 3.900.000. Ber ákærðu að greiða helming þeirra, en jafnframt verður ákærða Sigurði Erni gert að greiða helming aksturskostnaðar skipaðs verjanda síns, en alls er aksturskostnaðurinn kr. 99.000.

Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:

Ákærði, Sigurður Ívar Másson, greiði fésekt í ríkissjóð, kr. 9.857.262, innan 4 vikna en sæti ella fangelsi í 150 daga.

Ákærði, Sigurður Örn Sigurðsson, greiði fésekt í ríkissjóð, kr. 9.857.262, innan 4 vikna en sæti ella fangelsi í 150 daga.

Ákærði Sigurður Ívar greiði sakarkostnað alls kr. 1.950.000, þar með talinn helmingur málsvarnarlauna skipaðs verjanda hans, Óskars Sigurðssonar lögmanns, sem alls eru kr. 3.900.000 að virðisaukaskatti meðtöldum.

Ákærði Sigurður Örn greiði sakarkostnað alls kr. 2.149.500, þar með talinn helmingur málsvarnarlauna skipaðs verjanda hans, Péturs F. Gíslasonar lögmanns, sem alls nema kr. 4.200.000 að virðisaukaskatti meðtöldum, og einnig þar með talinn helmingur aksturskostnaðar verjandans sem alls nemur kr. 99.000.

Sigurður G. Gíslason

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum