2022

Dómur Héraðsdóms Reykjaness, 15. febrúar 2022, í máli nr. S-1827/2021

15.2.2022

Ákæruvaldið

(Halldór Rósmundur Guðjónsson saksóknarfulltrúi)
gegn
Hauki Sigurðssyni
(Almar Þór Möller lögmaður)

Dómur

Mál þetta, sem dómtekið var 21. desember, er höfðað með ákæru héraðssaksóknara, útgefinni 5. nóvember 2021, á hendur Hauki Sigurðssyni, kt. 000000-0000, [...], „fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum og fyrir peningaþvætti í rekstri einkahlutafélagsins Erka ehf., kt. 000000-0000, nú afskráð, sem daglegum stjórnanda, stjórnarmanni og prókúruhafa félagsins, með því að hafa:

1.Eigi staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimta bar í starfseminni, uppgjörstímabilin júlí-ágúst og nóvember-desember rekstrarárið 2017, sem standa bar ríkissjóði skil á innan lögbundins frests, í samræmi við IX. kafla laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, samtals að fjárhæð kr. 6.055.217, sem sundurliðast sem hér greinir:

 ÁrTímabil  Fjárhæð 
 2017 Júlí - ágústkr.  3.590.554
 November - desember kr. 2.464.663
  kr. 6.055.217 

2. Eigi staðið ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda innan lögboðins frests, í samræmi við fyrirmæli III. kafla laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sem haldið var eftir af launum starfsmanna einkahlutafélagsins, greiðslutímabilin desember rekstrarárið 2016, janúar, febrúar, apríl, maí, júní og ágúst til og með desember rekstrarárið 2017, og janúar rekstrarárið 2018, samtals að fjárhæð kr. 10.940.217 sem sundurliðast sem hér greinir:

Ár Tímabil  Fjárhæð 
2016 Desember kr. 1.096.150
  kr. 1.096.150
 2017 Janúarkr. 934.795
  Febrúarkr. 696.599
  Aprílkr. 536.299
 Maíkr. 745.531
  Júníkr. 991.679
  Ágústkr. 840.571
 Septemberkr. 840.639
 Októberkr. 831.684
 Nóvemberkr. 1.400.804
  Desemberkr.924.429 
  kr. 8.742.960 
 2018Janúar kr.  1.101.107
  kr.   1.101.107
  SAMTALSkr.  10.940.217

3. Fyrir peningaþvætti með því að hafa aflað einkahlutafélaginu ávinnings af brotum samkvæmt 1. og 2. tölulið ákæru, samtals að fjárhæð 16.995.434 krónur, og nýtt ávinninginn í þágu rekstrar félagsins og eftir atvikum í eigin þágu.

Framangreind brot ákærða samkvæmt 1. tölulið ákæru teljast varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Framangreind brot ákærða samkvæmt 2. tölulið ákæru teljast varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. einnig 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Framangreind brot ákærða samkvæmt 3. tölulið ákæru teljast varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Fyrir dómi játaði ákærði sök samkvæmt fyrsta og öðrum ákærulið en neitaði sök samkvæmt þriðja ákærulið. Ákærði krefst vægustu refsingar sem lög leyfi, sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði. Ákærði telur að háttsemi sín samkvæmt fyrsta og öðrum ákærulið teljist ekki meiriháttar brot í skilningi 262. gr. laga nr. 19/1940og vísar í því sambandi til laga nr. 29/2021.

Bú félagsins Erku ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 18. 10. 2018. Hinn 27. 2. 2019 hóf skattrannsóknarstjóri rannsókn á skilum félagsins á afdreginni staðgreiðslu vegna tímabila á árunum 2016, 2017 og 2018 og innheimtum virðisaukaskatti vegna tímabila á árinu 2017. Á umræddum tíma var ákærði, Haukur Sigurðsson, skráður stjórnarformaður félagsins með prókúru. Í skýrslu skattrannsóknarstjóra um niðurstöður rannsóknarinnar kemur fram að ákærði hafi borið að hann hefði stýrt daglegum rekstri og fjármálum félagsins.

Í málinu er óumdeilt að ákærði hafi viðhaft þá háttsemi er greinir í fyrsta og öðrum ákærulið. Þykir óþarft að rekja málavexti vegna þeirra sérstaklega hér.

Við aðalmeðferð málsins voru ákæruvald og ákærði á einu máli um að óþarft væri að ákærði gæfi skýrslu og vitni leidd. Fóru ekki fram skýrslutökur.

Ákærði játar þá háttsemi er honum er gefin að sök í fyrsta og öðrum ákærulið. Fær játning hans stoð í gögnum málsins og þykir ekki ástæða til að draga hana í efa. Er ákærði sannur að sök samkvæmt ákæruliðunum og hefur unnið sér til refsingar.

Í ákæru er háttsemi ákærða skv. fyrsta ákærulið heimfærð til 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, en háttsemi ákærða samkvæmt öðrum ákærulið er heimfærð til sömu hegningarlagagreinar sbr. 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Við mat á heimfærslunni er til þess að líta að með lögum nr. 29/2021 gerði löggjafinn breytingar á fyrirkomulagi skattrannsókna, meðal annars í þá veru að skattrannsóknarstjóri rannsaki skattalagabrot og að rannsókn hans geti lokið með því að hann leggi á sektir eftir ákvæðum viðkomandi laga hverju sinni, en jafnframt er gert ráð fyrir því að sektarákvarðanir skattrannsóknarstjóra séu kæranlegar til yfirskattanefndar. Þannig skulu skatteftirlit, rannsóknir og sektarheimildir vegna skattalagabrota vera innan skattkerfisins en jafnframt er gert ráð fyrir að alvarlegri brotum sé vísað til lögreglu ef um meiri háttar mál er að ræða. Er í lögunum miðað við að hámark sekta skattrannsóknarstjóra sé 100 milljónir króna og er þar miðað sektarfjárhæðina sjálfa en ekki skattundanskotsfjárhæð. Auk þess er miðað við fjárhæð sektar miðað við öll þau skattalagabrot í heild sinni sem eru til rannsóknar séu í tilteknu máli, svo sem brot gegn lögum um virðisaukaskatt og staðgreiðslu opinberra gjalda. Með lögunum var meðal annars bætt nýrri málsgrein í lög nr. 90/2003um tekjuskatt,sbr. 2. mgr. 121. gr. laganna,þess efnis að ríkissaksóknari skuli setja nánari fyrirmæli um hvaða málum skuli vísað til rannsóknar lögreglu. Í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 29/2021 segir meðal annars að lagt sé til að „ríkissaksóknari gefi fyrirmæli á grundvelli laga um meðferð sakamála um hvaða málum skuli vísað til lögreglu. Í þeim fyrirmælum felist mat á hvaða brot teljist meiri háttar brot í skilningi 262. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, þannig að þeim verði vísað strax til rannsóknar og ákærumeðferðar. Við útgáfu slíkra fyrirmæla mætti líta til þeirra breytinga sem gerðar eru í frumvarpinu á sektarheimildum skattrannsóknarstjóra auk þess sem eðlilegt er að taka jafnframt tillit til alvarleika brota, stigs ásetnings og hvort um ítrekun eða, eftir atvikum, brotasamsteypu sé að ræða.“ Hinn 25. ágúst 2021gaf ríkissaksóknari út fyrirmæli nr. 6/2021 um meðferð skattalagabrota, á grundvelli 2. mgr. 103 gr. og 2. mgr. 121. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, sbr. 5. og 511. gr. laga nr. 29/2021. Segir þar meðal annars að máli skuli vísað til rannsóknar lögreglu að lokinni fram rannsókn skattrannsóknarstjóra þegar rökstuddur grunur sé um að fjárhæð samanlagðra vangreiddra og eða undandreginna skatta og eða gjalda vegna refsiverðra skattalagabrota nemi hærri fjárhæð en samtals 50 milljónum króna. Þá skuli það gert ef rökstuddur grunur er um að verknaður hafi verið framinn með sérstaklega vítaverðum hætti, eða við aðstæður sem auka mjög saknæmi brotsins, enda þótt fjárhæðin sé lægri en fimmtíu milljónir króna. Loks skal það einnig gert ef fyrir liggur að aðili hafi áður verið dæmdur sekur fyrir sams konar brot, þrátt fyrir að fjárhæð sú er málið varði sé lægri en fimmtíu milljónir króna, enda séu ítrekunaráhrif ekki fallin niður samkvæmt 3. mgr. 71. gr. laga nr. 19/1940. Það sama eigi við ef aðilanum hefur innan fimm ára frá því að ætlað brot er framið verið úrskurðuð sekt af yfirskattanefnd eða ákvörðuð sekt af skattrannsóknarstjóra vegna slíkra brota.

Þegar horft er á þær breytingar sem gerðar voru með lögum nr. 29/2021 og þá einnig það að í athugasemdum með lögunum kemur fram að gert er ráð fyrir að ríkissaksóknari gefi út fyrirmæli um hvaða málum skuli vísað til lögreglu og að í þeim fyrirmælum felist mat á því hvaða brot teljist meiriháttar í skilningi 262. gr. laga nr. 19/1940 og að ríkissaksóknari megi við útgáfu slíkra fyrirmæla líta til þeirra breytinga sem með lögunum séu gerðar á sektarheimildum skattrannsóknarstjóra, þykir mega draga þá ályktun að fyrir liggi það mat löggjafans,að brot teljist ekki meiriháttar í skilningi 262. gr. laga nr. 19/1940 vegna fjárhæðar samanlagðra vangreiddra og eða undandreginna skatta og eða gjalda refsiverðra skattalagabrota, nema fjárhæðin sé hærri en samtals 50 milljónir króna. Við meðferð þess frumvarps,er varð að lögum nr. 29/2021,á alþingi var meðal annars fjallað um hvort með frumvarpinu hefði átt að taka af skarið um að mál sem þá voru til meðferðar fyrir dómstólum eða hjá héraðssaksóknara og varða sömu tilvik og skattaðilar hafa þegar sætt álagi á skattstofna vegna skyldu látin niður falla.Niðurstaðan varð sú, svo sem gert hafði verið ráð fyrir í frumvarpinu, að svo skyldi ekki vera. Fram kom í nefndaráliti meirihluta efnahags-og viðskiptanefndar alþingis að meirihlutinn féllist á sjónarmið héraðssaksóknara um að óskynsamlegt væri að löggjafinn hlutaðist til um meðferð mála hjá ákæruvaldi eða fyrir dómstólum með afturvirkri lagasetningu. Telja verður að þetta sjónarmið eigi sérstaklega við um það atriði, hvort lagabreytingin ætti að taka til mála sem á umræddum tíma voru til meðferðar og vörðuðu þau tilvik þar sem skattaðilar höfðu þegar sætt álagi á skattstofna. Verður ekki talið að viðhorf löggjafans til þess hvaða tilvik skyldu varða við 262. gr. laga nr. 19/1940, sem ráðin verða af lögunum, skuli takmarkast við þau mál þar sem rannsókn hefst eftir gildistöku laganna. Engin ástæða er til, við meðferð málanna fyrir dómi, að sérstakar afleiðingar hafi að héraðssaksóknari hafi á rannsóknarstigi komið að rannsókn þeirra, í samræmi við þágildandi lög, en við heimfærslu til refsiákvæða þykir verða að horfa til þess vilja löggjafans sem kemur fram í lögum nr. 29/2021, svo lengi sem það er ekki gert afturvirkt ákærðum manni í óhag. Að því leyti sem lagabreyting þykir til marks um breytt mat löggjafans verður horft til þess, ákærðum manni í hag, og má hér hafa hliðsjón af 1. mgr. 2. gr. laga nr. 19/1940.Ákærða hefur samkvæmt sakavottorði ekki verið gerð refsing áður. Ekki eru í málinu fyrir hendi önnur atriði en fjárhæð brotanna sem geti valdið því að brotin teljist meiriháttar í skilningi 262. gr. laga nr. 19/1940 og þegar horft er til fjárhæðarinnar og þess sem rakið hefur verið um lög nr. 29/2021 verður ekki talið að háttsemi ákærða í fyrsta og öðrum ákærulið verði felld undir 1. mgr. 262. gr. laga nr. 19/1940. Háttsemi ákærða samkvæmt fyrri ákærulið varðar við 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 og háttsemi hans samkvæmt síðar ákærulið varðar við 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987.

Í þriðja ákærulið er ákærða gefið að sök peningaþvætti sem hann hafi framið með því að afla einkahlutafélaginu ávinnings af brotum samkvæmt fyrstu tveimur ákæruliðunum, samtals 16.995.434 króna, og nýtt ávinninginn í þágu rekstrar félagsins og eftir atvikum í eigin þágu. Er þetta talið varða við 1. sbr. 2. mgr. 262. gr. laga nr. 19/1940.

Ákærði gaf skýrslu hjá skattrannsóknarstjóra 6. 3. 2019. Í samantekt um skýrslutökuna segir meðal annars að ákærði hafi verið spurður hvers vegna peningum vegna staðgreiðslu hafi ekki verið skilað á lögmæltum tíma, og hafi hann svarað „að það hafi ekki verið að koma inn peningur sem átti að koma inn.“ Hann hafi verið spurður „hvert peningar vegna staðgreiðslunnar hafi farið“ og haft er eftir ákærða að „peningurinn hafi ekki komið inn“. Samkvæmt samantektinni var ákærði spurður hvert fé vegna virðisaukaskatts hefði runnið og eftir honum haft að féð „hafi ekki komið inn“. Ákærði var spurður hvers vegna peningum vegna virðisaukaskatts hafi ekki verið skilað inn á lögmæltum tíma og haft er eftir honum að það hafi verið „vegna þess að hann hafi ekki fengið greitt fyrir hlutina sem hann var að vinna í.“ Í samantektinni segir að ákærði hafi verið spurður hvort útgefnir sölureikningar hafi verið greiddir að fullu og er haft eftir ákærða að það hafi þeir ekki verið. Eitthvað „sé útistandandi vegna viðskipta við félög sem er búið að afskrifa.“ Haft er eftir ákærða „að það hafi verið töluvert af aðilum sem ekki hafi greitt reikninga, einhverjir hafi verið í veitingageiranum, hann segist hafa unnið fyrir veitingamenn og einhver slatti félaga hafi farið á hausinn.“ Eftir ákærða er haft að hann hafi gert skiptastjóra grein fyrir þessu og skiptastjóri hafi tekið ákvörðun um að ljúka skiptum en hafi ekki reynt að innheimta útistandandi kröfur.

Ákærði gaf skýrslu hjá héraðssaksóknara 20. 4. 2021. Í samantekt um skýrslutökuna kemur fram að ákærði hafi verið spurður hver bæri ábyrgð á því af hálfu félagsins að innheimtum virðisaukaskatti hafi ekki verið skilað. Eftir ákærða er haft að það sé hann og einnig að „það hafi ekki verið til peningur til að borga.“ Ákærði var samkvæmt samantektinni spurður á hvaða hátt innheimtum virðisaukaskatti, sem ekki hafi verið skilað inn, hafi verið ráðstafað, og skráð er: „[Ákærði] sagði að það hafi ekki verið neinn peningur til að ráðstafa. Hann hafi ekki nýtt peninginn í eigin þágu.“ Ákærði var í skýrslutökunni jafnframt spurður hvernig afdreginni staðgreiðslu, sem hafi verið skilað til innheimtumanns, hafi verið ráðstafað, og skráð er í samantektina: „[Ákærði]sagði að þetta hafi ekki verið greitt þar sem ekki [hafi] verið til peningar fyrir þessu.“

Í gögnum málsins er að finna bréf verjanda ákærða til héraðssaksóknara. dags. 24. 6. 2021, þar sem taldar eru upp tólf kröfur, alls að fjárhæð 14.765.278 krónur, sem ógreiddar séu af skuldalista úr bókhaldi félagsins. Aðrar kröfur á skuldalistanum hafi verið greiddar fyrir gjaldþrot félagsins. Í bréfinu segir að ákærði segir að ýmsar skýringar hafi verið á því að kröfurnar hafi ekki verið greiddar, „t.d. ágreiningur um greiðsluskyldu, fjárhæðir, hvað var innifalið í tilboðum og hvað taldist vera aukaverk og loks ágreiningur um gæði verka.“

Erka ehf. var úrskurðað gjaldþrota 18. 10.2018. Í málinu liggur tölvubréf skiptastjóra til héraðssaksóknara, skráð sent 10. 3.2021. Þar segir meðal annars að skiptastjóri hafi talið mjög ólíklegt að margar ógreiddar kröfur væru í búinu. Félagið hafi ekki gert marga reikninga, að jafnaði einn eða tvo á mánuði, og hafi félagið oft sinnt smáverkum þar sem hönd selur hendi. Skiptastjóri hafi talið afar ósennilegt að kröfuhafar settu frekari tryggingar fyrir aðgerðum til að afla bókhalds og rannsaka. Hafi hann því lokað búinu.

Svo sem hér hefur verið rakið byggði ákærði á því við rannsókn málsins að hann hefði ekki skilað til ríkissjóðs þeim fjármunum sem félaginu bar að skila inn, og hefði það verið vegna þess að fjármunirnir hefðu ekki verið til í félaginu. Hefðu ekki komið inn til félagsins þeir fjármunir sem gert hafi verið ráð fyrir, útistandandi reikningar hafi ekki verið greiddir.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra segir meðal annars að greiddar hafi verið „samtals 30.167.762 krónur inn á skattaskuldir skattaðila frá því að vanskil byrjuðu að myndast 17. janúar 2017 til og með 26. febrúar 2019. Þar af var ráðstafað 28.045.739 krónum inn á höfuðstól, álag og dráttarvexti vegna tímabila í staðgreiðslu og virðisaukaskatti sem ekki eru hér til rannsóknar.“Verður að miða við að þetta sé rétt. Ekki verður hins vegar slegið föstu hvenær umrætt fé barst félaginu og hvernig farið var með það áður en það var greitt inn á skuldina.

Samkvæmt 108. gr. laga nr. 88/2008 hvílir sönnunarbyrði um sekt ákærða og allt annað sem telja má ákærða í óhag, á ákæruvaldinu. Eins og málið liggur fyrir þykir, þegar á allt framanritað er horft, sem gögn málsins hnekki ekki því sem ákærði hefur borið, að hann hafi ekki fengið inn og haft undir höndum það fé sem hann hefði þurft til að standa ríkissjóði skil á virðisaukaskatti innan lögbundins frests, sbr. fyrsta ákærulið. Þykir í ljósi meginreglna sakamálaréttarfars um sönnunarbyrði sem hvíli á ákæruvaldinu og um vafa sem skylt er að skýra ákærða í hag, sem ekki hafi verið færð lögfull sönnun fyrir því í sakamáli þessu að ákærði hafi meðhöndlað það fé, sem fyrsti ákæruliður tekur til, þannig að heimfært verði til 1. mgr. 264. gr. laga nr. 19/1940.

Að því er varðar annan ákærulið tekur hann til staðgreiðslu opinberra gjalda sem ákærði hélt eftir af launum starfsmanna félagsins á nánar greindum greiðslutímabilum. Taka þau til desember 2016, allra mánaða ársins 2017 nema júlí og loks janúar 2018. Á þeim tíma hélt starfsemi félagsins áfram með einhverjum hætti. Er óhjákvæmilegt að líta svo á að það fé, sem ákærði hélt eftir af launum starfsmannanna og átti að skila inn, hafi ákærði í framhaldinu nýtt í starfsemi félagsins. Með þeirri hagnýtingu hefur ákærði brotið gegn 1. sbr. 2. mgr. 264. gr. laga nr. 19/1940 svo sem honum er gefið að sök í öðrum ákærulið. Verður ekki talið að 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 tæmi hér sök gagnvart 264. gr. laga nr. 19/1940.

Af hálfu ákærða er byggt á því að hann hafi staðið skil á verulegum hluta skattfjárhæðar og eigi sér miklar málsbætur. Hann hafi skilað öllum skýrslum á réttum tíma og málið snúist því um vanskil fjármuna. Ástæðu vanskilanna sé að rekja til greiðsluerfiðleika. Félagið hafi einkum sinnt sérsmíði innanstokksmuna fyrir veitingastaði og skemmtistaði en vegna atvika sem ýmist hafi varðað ákærða eða eða viðsemjendur hans hafi reksturinn ekki gengið sem skyldi, en meðal annars hafi tap orðið af verkefnum, verkefni ekki verið greidd og gallar komið upp. Í andmælabréfi til skattrannsóknarstjóra, dags. 23. 9. 2019 segir auk þess sem hér hefur verið rakið, að ákærði hafi greitt „umtalsverða fjármuni inn á skuldina. Greiðsla að fjárhæð 14,1 [,milljón króna] var greidd þegar ljóst mátti vera að félagið myndi enda í gjaldþrotaskiptum. Greiðsluna innti [ákærði] af hendi þegar ljóst mátti vera að félagið myndi enda í gjaldþrotaskiptum. Greiðsluna innti [ákærði] af hendi með persónulegum fjármunum sem hann fékk í kjölfar sölu á fasteign sem hann átti og var dvalarstaður fjölskyldu hans og tryggingafjármunum sem hann fékk í kjölfar bílslyss.“ Fyrir dómi var af hálfu ákærða byggt á þessum atriðum. Í skýrslu skattrannsóknarstjóra, dags. 22. 8. 2019, segir meðal annars að ákærði hafi farið fram að á litið verði á tvær greiðslur, samtals að fjárhæða 14.100.000 krónur sem greiðslur inn á höfuðstól staðgreiðslu og virðisaukaskatts. Hafi önnur greiðslan, 2.700.000 krónur, verið innt af hendi 29. 7. 2017 og hin, 11.400.000 krónur, hinn 5. 4. 2018. Í skýrslunni segir að greiðslurnar séu samkvæmt tveimur greiðsluáætlunum, dags. 20. 7. 2017 og 4. 4. 2018, sem hefðu verið útbúnar hjá tollstjóra. Innifalið í þeim greiðsluáætlunum séu skuldir höfuðstóls og vaxta vegna tryggingagjalds, staðgreiðslu og virðisaukaskatts. Þá skuli þess einnig getið að einnig hafi verið greiddar 2.700.000 krónur hinn 17. 8. 2017, 3.702.935 krónur hinn 14. 9. 2017 og 2.700.000 krónur hinn 31. 10. 2017 samkvæmt greiðsluáætluninni dags. 20. 7. 2017. Skattrannsóknarstjóri geti engu breytt um ráðstöfun innborgana. Eftir að rannsókn ljúki taki við ferli þar sem ákvörðun verði tekin um hvort málið muni sæta refsimeðferð. Í því ferli verði horft til innborgana inn á vexti og höfuðstól.

Af því sem rakið hefur verið þykir verða að leggja til grundvallar að af hálfu ákærða haft talsvert fé verið greitt inn á skuldina við ríkissjóð. Hefur því ekki verið hnekkt í málinu að ákærði hafi meðal annars lagt til þess fé sem komið hafi af sölu fasteignar hans og tryggingafé sem honum hafi verið greitt vegna slyss. Þegar á framanritað er horft þykir verða að líta svo á að ákærði hafi miklar málsbætur í skilningi 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987. Þykir því ekki eiga við í málinu almennt refsilágmark umræddra greina. Gera ber ákærða sekt vegna þeirra brota sem fjallað er um í fyrstu tveimur ákæruliðunum, fjársekt sem ákveðst tvöföld sú fjárhæð sem hann stóð ríkissjóði ekki skil á á réttum tíma, að frádregnum þeim 14.100.000 krónum sem leggja má til grundvallar að hann hafi greitt á þeim tíma sem rakið hefur verið, og ekki hefur verið hnekkt að komið sé til með þeim hætti sem rakið var. Með hliðsjón af því sem hér hefur verið rakið er ákærði sakfellur fyrir þá háttsemi sem rakin er í fyrstu tveimur ákæruliðunum og að í þriðja ákærulið að því er varðar 10.940.217 krónur. Refsing ákærða ákveðst fangelsi í tvo mánuði og 19.890.868 króna sekt í ríkissjóð. Fresta ber fullnustu fangelsisrefsingarinnar og niður falli hún að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð. Greiði ákærði ekki sektina innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins sæti hann fangelsi í 270 daga. Allnokkur tími er liðinn frá því málið kom upp en þegar horft er til eðlis málsins og þess sem fyrir liggur um rannsókn þess þykja ekki hafa orðið á rannsókninni óeðlilegar tafir sem orðið geti til þess að fésektarrefsingu ákærða verði frestað skilorðsbundið. Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Almars Möller lögmanns, ákveðast 1.148.550krónur með virðisaukaskatti, en málsvarnarlaunin eru ákveðin með hliðsjón af tímaskýrslu verjanda og leiðbeinandi reglum dómstólasýslunnar nr. 2/2021. Annar sakarkostnaður mun ekki hafa fallið til. Með hliðsjón af málsúrslitum þykir rétt að málsvarnarlaunin greiðist úr ríkissjóði. Gætt var 1 mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008. Af hálfu ákæruvaldsins fór Halldór Rósmundur Guðjónsson saksóknarfulltrúi með málið. Þorsteinn Davíðsson kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð :

Ákærði, Haukur Sigurðsson, sæti fangelsi í tvo mánuði. Fullnustu refsingarinnar skal frestað og niður skal hún falla að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940.

Ákærði greiði 19.890.868 króna sekt í ríkissjóð en 270 daga fangelsi komi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins.

Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Almars Möller lögmanns, 1.148.550 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Þorsteinn Davíðsson

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum