2022

Dómur Héraðsdóms Reykjaness, 5. apríl 2022, í máli nr. S-1737/2021

25.4.2022

Ákæruvaldið 
(Halldór Rósmundur Guðjónsson saksóknarfulltrúi)

gegn

Sigurði Aðalsteinssyni, 
(Sigmundur Hannesson lögmaður)
og Theodóri Kristni Erlingssyni 
(Ragnar Guðmundsson lögmaður)

 

Dómur:

I

Mál þetta, sem dómtekið var 16. mars sl., að lokinni aðalmeðferð, er höfðað af héraðssaksóknara með ákæru útgefinni 2. september 2021á hendur ákærðu Sigurði Aðalsteinssyni, kt. 000000-0000, [...], og Theodóri Kristni Erlingssyni, kt. 000000-0000, [...]. 

Málið er höfðað á hendur ákærðu fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum og peningaþvætti, Sigurði Aðalsteinssyni, sem skráðum framkvæmdastjóra, stjórnarmanni og prókúruhafa einkahlutafélagsins Sate ehf, kt. 000000-0000, nú afskráð, og Theodóri Kristni Erlingssyni, sem starfandi stjórnanda ásamt meðákærða, skráðum stjórnarmanni og prókúruhafa félagsins, með því að hafa:

  1. Eigi staðið skil á skattframtali einkahlutafélagsins gjaldárið 2014 vegna rekstrarársins 2013. Með því var vanrækt að gera grein fyrir söluhagnaðifélagsins vegna sölu á aflaheimildum á rekstrarárinu 2013, vegna kaupa og sölu aflaheimilda þegar Sate ehf., keypti þann 19. júlí 2013, aflaheimildir fyrir kr. 270.000.000 af Keili ehf. kt. 000000-0000, og seldi sama dag fyrir kr. 312.000.000 til Hraðfrystihúss Hellissands hf.,kt. 000000-0000. Með framangreindum hættitöldu ákærðufyrir hönd félagsins ekki fram til skatts tekjur sem skattskyldar eru samkvæmt B-lið, sbr. 8. tölulið C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, sbr. 5. og 6. mgr. 15. gr. sömu laga, samtals að fjárhæð kr. 42.000.000 og komuþar með félaginu undan greiðslu tekjuskatts samtals að fjárhæð kr. 8.170.000, sbr. neðangreint:
Gjaldárið 2014       
Vandramtaldur söluhagnaður  kr.    42.000.000  
Áætlun ríkisskattstjóra með álagi kr.  1.150.000   
 Vanframtalinn tekjuskattsstofn kr.   40.850.000   
       
Vangreiddur tekjuskattur, skattprósenta 20% kr.  8.170.000  

 

2. Fyrir peningaþvætti með því að hafa aflað Sate ehf. ávinnings af brotum samkvæmt 1. tölulið ákæru, samtals að fjárhæð 8.170.000krónur, og nýtt ávinninginn í þágu rekstrar félagsins og/eða eftir atvikum í eigin þágu.

Framangreint brot ákærðu samkvæmt 1. tölulið ákæru teljast varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. einnig 2. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. 

Framangreind brot ákærðu samkvæmt 2. tölulið ákæru teljast varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þess er krafist að ákærðu verði dæmdirtil refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Undir rekstri málsins féll ákæruvaldið frá 2. tölulið ákæru. 

Verjendur beggja ákærðu gera aðallega þá kröfu að þeir verði sýknaðir af refsikröfu og að allur sakarkostnaður verði lagður á ríkissjóð þ.m.t málsvarnarlaun verjendanna samkvæmt mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi. Til vara gerir verjandi ákærða Theodórs þá kröfu, komi til sakfellingar, að ákærði verði dæmdur til þeirrar vægustu refsingar sem lög frekast heimila og hún verði skilorðsbundin að öllu leyti.

II

Málavextir:

Skattrannsóknarstjóri ríkisins hóf 10. ágúst 2018 formlega rannsókn á bókhaldi og skattskilum Sate ehf., kt. 000000-0000, en bú félagsins hafði verið tekið til gjaldþrotaskipta 19. janúar 2017 og skiptum á því lauk 11. apríl sama ár. En tilefni rannsóknarinnar var sjálfstæð athugun skattrannsóknarstjóra á skattskilum Sate ehf. í kjölfar ábendingar frá Tollstjóra. Niðurstaða rannsóknarinnar var sú að vanrækt hafði verið að standa skil á skattframtali og ársreikningi Sate ehf. vegna rekstrarársins 2013, bókhald hafi ekki legið fyrir og bókhaldsgögn hafi ekki verið varðveitt og loks að Sate ehf. hafi átt í viðskiptum með aflaheimildir á rekstrarárinu 2013 sem skattayfirvöldum hafi ekki verið gerð grein fyrir. Sate ehf. hafi vanframtalið söluhagnað vegna kaupa og sölu aflaheimilda en um hafi verið að ræða sölu atvinnurekstrareigna sem færa hafi átt Sate ehf. til tekna. 

Ákærðu voru skráðir fyrirsvarsmenn Sate ehf. á árinu 2013 og með bréfi skattrannsóknarstjóra dags. 14. ágúst 2019 var þeim tilkynnt um lok rannsóknar skattrannsóknarstjóra og um fyrirhugaða ákvörðunartöku um refsimeðferð í málinu. Var þeim gefinn kostur á að tjá sig um fyrirhugaða refsimeðferð en engar athugasemdir bárust frá ákærðu. Tölulegar niðurstöður skattrannsóknarstjóra voru að vanframtalinnsöluhagnaður vegna kaupa og sölu á aflaheimildum væri samtals 42.000.000 króna vegna rekstrarársins 2013. Með bréfi skattrannsóknarstjóra dags. 12. september 2019 var ákærðu tilkynnt að málinu hefði verið vísað til rannsóknar héraðssaksóknara. 

Samkvæmt skýrslu skattrannsóknarstjóra var skattframtali og ársreikningi rekstrarárið 2013 fyrir Sate ehf. ekki skilað. Tekjuskattsstofn félagsins var áætlaður 1.150.000 krónur vegna rekstrarársins 2013. Ekkert bókhald fékkst afhent og ákærði Theodór Kristinn Erlingsson kvaðst ekki hafa komið að varðveislu bókhaldsgagna og ákærði Sigurður Aðalsteinsson kvaðst ekki hafa vitað hvernig tekjuskráningu hafi verið háttað. Í skýrslunni segir síðan að Sate ehf. hafi keypt aflaheimildir fyrir 270.000.000 króna á rekstrarárinu 2013 en selt þær aftur samdægurs fyrir 312.000.000 króna. Skattyfirvöldum hafi ekki verið gerð grein fyrir hagnaði af umræddri sölu enda hafi engum gögnum verið skilað þar um.

Meðal gagna málsins er óundirritaður kaupsamningur/afsal dags. 17. júlí 2013 þar sem Sate ehf. kaupir alla aflahlutdeild bátsins Keilis II AK fyrir 270.000.000 króna og skyldi kaupverðið greitt við undirskrift og afhendingu. Með kaupsamningi dags. 19. júlí 2013 keypti Blikaberg ehf. bátinn Keili II AK fyrir 55.000.000 króna og skyldi kaupverðið greitt við undirskrift og afhendingu. Sá kaupsamningur er undirritaður og honum var þinglýst. Í báðum tilfellum var seljandinn Keilir ehf. Kaupverðið var því samtals 325.000.000 krónur. Eigandi og forsvarsmaður Blikabergs ehf. var ákærði Sigurður. 

Sate ehf. greiddi 19. júlí 2013 258.872.607 krónur inn á bankareikning Keilis ehf. og 66.127.393 krónur inn á bankareikning Aflamarks ehf. eða samtals 325.000.000 krónur. 

Hraðfrystihús Hellissands hf. greiddi inn á bankareikning Sate ehf. 312.000.000 króna 19. júlí 2013 vegna kaupa á aflaheimildum.

Samkvæmt ársreikningi Sate ehf. fyrir árið 2012 var hagnaður félagsins á því ári um 20.600.000 krónur og eigið fé í árslok var rúmlega 29.300.000 krónur. 

Samkvæmt gögnum málsins varð ákærði Theodór stjórnarformaður í Sate ehf. (áður Óli Guðnýjar) og ákærði Sigurður meðstjórnandi og framkvæmdastjóri 22. maí 2012. Ákærðu voru báðir frá þeim degi prókúruhafar fyrir félagið. Ákærði Sigurður sagði sig úr stjórn félagsins 20. nóvember 2014 og ákærði Theodór sagði sig úr stjórn félagsins 29. maí 2015. Ákærðu voru því báðir í forsvari fyrir félagið þegar þau atvik urðu sem ákært er vegna. 

Ákærði Sigurður gaf skýrslu hjá héraðssaksóknara 30. janúar 2020. Hann kvaðst ekki hafa hugmynd um hvers vegna hann væri í yfirheyrslu vegna málsins því hann bæri ekki ábyrgð á bókhaldsgögnum sem framkvæmdastjóri Sate ehf., hann hafi ekkert haft með skil á skattframtali að gera né öðru heldur aðeins verið framkvæmdastjóri félagsins. Ákærði sagði að kaup félagsins á aflaheimildum væri aðeins eitt af mörgu hjá því og það væri ekki hægt að taka bara eitt út en ekki annað því það væru plúsar og mínusar í þessu eins og í rekstri fyrirtækja almennt. Ákærði kvaðst ekki hafa annast bókhald fyrir Sate ehf. og í raun aldrei komið nálægt rekstri þess. Ákærði kvaðst halda að skattframtali hafi verið skilað fyrir félagið. Hann kvaðst hafa verið framkvæmdastjóri Sate ehf. frá miðju ári 2012 til 2013 og einnig verið í stjórn um tíma en það hafi aðallega verið til að skrifa nafnið sitt því einhver þurfi að vera skráður í stjórn félags. Daglegur rekstur félagsins hafi verið lítill en hann hafi aðallega verið í höndum ákærða Theodórs. 

Varðandi skýrslu skattrannsóknarstjóri sagði ákærði að tölur þar væru bara vitleysa þ.e. kaup aflaheimilda fyrir 270.000.000 krónur og sala þeirra á 312.000.000 krónur og þar með 42.000.000 krónur í hagnað. Það væri ekki hægt að taka svona eitt atriði út úr rekstri félags á einu ári og hann fullyrti að það hafi ekki verið 42.000.000 króna hagnaður af umræddum viðskiptum. Aflaheimildir hafi verði seldar á 312.000.000 krónur en það þýði ekki að hagnaðurinn hafi verið 42.000.000 krónur. Þetta þýði að aflaheimildir hafi verið seldar á meiri pening en þær hafi verið keyptar á. Verðið á aflaheimildunum hafi verið fært niður en verðið á bátnum hafi verið hækkað upp við kaupin að beiðni seljanda. Þetta séu bara tilbúnar tölur og kaupverðið á aflaheimildinni hafi verið mikið hærra en fært yfir á bátinn. Kaupverðið á bátnum og aflaheimild hafi verið samtals 325.000.000 króna, báturinn 55.000.000 króna og aflaheimildir 270.000.000 króna. Aflaheimildirnar hafi síðan verið seldar á 312.000.000 króna og þá hafi báturinn staðið eftir í 13.000.000 króna sem félag í eigu ákærða hafi keypt og greitt fyrir með alls kyns lausafé. Þá eigi einnig eftir að taka tillit til sölulauna um 7.000.000 króna. 

Ákærði Theodór gaf skýrslu hjá héraðssaksóknara 24. janúar 2020. Hann kvaðst hafa verið með ákærða Sigurði í Sate ehf. árin 2012 og 2013 og verið fenginn til að vera stjórnarformaður í félaginu og það hafi verði eina aðkoma hans að því. Ákærði mundi ekki hvort haldið hafi verið bókhald fyrir félagið, hann vissi ekki hvar það þá væri og hann mundi ekki hvort gerður hafi verið ársreikningur. Ákærði kvaðst ekki hafa gert skattframtal fyrir Sate ehf. og hann mundi ekki hvers vegna skattframtali og ársreikningi fyrir Sate ehf. árið 2013 hafi ekki verið skilað. Ákærði kvaðst ekki hafa komið nálægt viðskiptum með aflaheimildir og ekki getað tjáð sig um það að vanframtaldar skattskyldar tekjur Sate árið 2013 væru 42.000.000 króna. Hann hafi ekki getað rengt þessa niðurstöðu vegna þess að hann vissi ekkert um þetta. Ákærði kvaðst ekki vita hvers vegna sala á bátnum Keili og aflahlutdeild hafi verið í tveimur samningum þ.e. báturinn annars vegar á 55.000.000 króna og aflahlutdeildin hins vegar á 270.000.000 króna enda hefði ákærði ekki komið nálægt þessum viðskiptum. Þetta væri hins vegar ekki raunverulegt verð fyrir bátinn kvótalausan heldur væri það 10.000.000 til 20.000.000 króna. 

Ákærði kvaðst efast um að 42.000.000 króna vegna söluhagnaðar hafi einhvern tímann verið til. Hann taldi að viðskiptin með bátinn Keili hafi komið út á núlli. 

 III

Framburður ákærða og vitnafyrir dómi:

Ákærði, Sigurður Aðalsteinsson, kvaðst hafa átt Sate ehf. til helminga á móti ákærða Theodóri og verið framkvæmdastjóri félagsins en ákærði Theodór hafi verið stjórnarformaður. Ákærði Sigurður taldi að þeir hafi keypt félagið og um hafi verið að ræða lítið útgerðarfyrirtæki með lítinn rekstur. Sate ehf. hafi keypt bátinn Keili með aflaheimildum í gegnum skipasöluna Aflamark. Sate ehf. hafi aðallega haft áhuga á aflaheimildum bátsins en ekki bátnum sjálfum. Það hafi orðið úr að Sate ehf. hafi keypt bátinn með aflaheimildum á 325.000.000 króna og þá hafi verið búið að tryggja sölu á aflaheimildunum fyrir 312.000.000 króna. Það hafi hins vegar verið ósk seljandans að söluverð bátsins yrði 55.000.000 króna og það hafi verið vegna forkaupsréttar sveitarfélags á bátnum og með því að hafa verðið svona hátt væru minni líkur á því að forkaupsrétturinn yrði nýttur. Samningurinn um kaup Blikabergs ehf. á bátnum hafi í raun verið málamyndagerningur og Blikaberg ehf. hafi ekki verði aðili að málinu og aldrei greitt neitt. Ætlunin hafi verið sú að Sate ehf. keypti bátinn og myndi síðan selja Blikabergi ehf. hann á líklega um 20.000.000 króna. Ákærði sagði að það hafi aldrei verið rætt um skiptingu á kaupverðinu á milli aflaheimildar og báts fyrr en kaupin hafi verið afráðin á 325.000.000 króna. Þegar það hafi hins vegar orðið ljóst að báturinn yrði keyptur á 55.000.000 króna hafi ákærðu reynt að bjarga sér út úr stöðunni með þeim aðgerðum sem gripið hafi verið til í framhaldinu.

Ákærði Sigurður sagði að Blikaberg ehf. hafi haft áhuga á bátnum til að breyta honum í krókabát með línubeitningarvél og það hafi verið gert og einnig hafi verið byggt yfir bátinn. Blikaberg ehf. hafi síðan selt bátinn og þá hafi gangverðið verið 45.000.000-50.000.000 króna. 

Ákærði Sigurður kvaðst hafa haldið að ákærði Theodór hafi skilað skattframtali fyrir Sate ehf. vegna ársins 2013 en ákærði Sigurður vissi ekki hver hefði skilað skattframtali fyrir félagið vegna ársins 2012 en það hafi líklega verið fyrri eigandi félagsins. Ákærðu hafi sameiginlega tekið fjárhagslegar ákvarðanir fyrir Sate ehf. Ákærði fullyrti að það hafi enginn söluhagnaður orðið til við kaup og sölu á aflaheimildum og bátnum Keili en m.a. hafi þurft að greiða sölulaun. Ákærði taldi að það hafi líklega ekki verið skrifað undir kaupsamninginn um aflaheimildirnar fyrir 270.000.000 króna. 

Ákærði, Theodór Kristinn Erlingssson, kvaðst hafa átt Sate ehf. með ákærða Sigurði og ákærði Theodór verið stjórnarformaður og prókúruhafi. Hann mundi ekki hvernig þeir eignuðust félagið né hvað varð um það. Félagið hafi keypt og selt báta og kvóta í gegnum skipasölu. Ákærðu hafi stundum rætt saman um kaup og sölu en ákærði Theodór mundi ekki hvort þeir hafi rætt saman um sölu á aflaheimildum til Hraðfrystihúss Hellissands. Ákærði sagði að Sate ehf. hafi keypt bát og aflaheimildir fyrir 325.000.000 króni en hann mundi ekki eftir að báturinn hafi verið keyptur fyrir 55.000.000 króna og verðmæti hans hafi verið lítið. Hann mundi ekki heldur hver hafi borið ábyrgð á skattskilum Sate ehf. né hver hafi gert skattframtal fyrir félagið vegna ársins 2012. 

Vitnið, A skipasali, sagði að eigandi bátsins Keilis hafi beðið vitnið að selja bát og aflaheimildir. Vitnið hafi þá haft samband við líklega kaupendur og ákærðu hafi gert tilboð. Vitnið sagði að þá hafi bátar yfir 11 metra að lengd ekki komist í krókakerfið og því hafi slíkir bátar verið ódýrir en verðmæti bátsins Keilis hafi líklega verið um 30.000.000 króna. Vitni sagði að seljandi bátsins hafi viljað hafa söluverð hans hærra en raunverð hans hafi verið. Báturinn hafi verið háður forkaupsrétti sveitarfélags og til að einfalda málið hafi báturinn verið í einum kaupsamningi en aflaheimildarnar í öðrum samningi. Vitnið sagði að verð á aflaheimildum á þessum tíma hafi verði hærra ef aðeins hafi verið að selja þær en ekki einnig bát. Sundurliðun á kaupverðinu á sínum tíma hafi í raun verið leikur að tölum og vitnið vissi ekki hvers vegna seljandinn hafi viljað hafa söluverðið á bátnum eins hátt og raunber vitni. Raunvirðið á aflaheimildunum hafi verið um 312.000.000 króna á þessum tíma. Vitnið kvaðst gera ráð fyrir að það hafi verið skrifað undir kaupsamninginn um aflaheimildirnar en frumritið hafi bara ekki fundist. 

Vitnið, B starfsmaður Hraðfrystihúss Hellissands, sagði að aflaheimildir hafi verið boðnar á ákveðnu verði og það hafi verið samþykkt enda hafi verið um eðlilegt verð að ræða þ.e. markaðsverð á þeim tíma eða 312.000.000 króna. 

Vitnið, C, kvaðst hafa átt bátinn Keili á sínum tíma en Aflamark hafi selt hann fyrir vitnið. Það hafi komið tilboð upp á 325.000.000 króna og þar af hafi báturinn verið á 55.000.000 króna. Báturinn hafi verið smíðaður árið 2004 og smíðakostnaður verið 40.000.000-45.000.000 króna og því hafi vitnið talið söluverð hans eðlilegt. Blikaberg ehf. hafi keypt bátinn en grásleppuleyfi hafi fylgt honum. Vitnið kvaðst ekki hafa viljað bara selja aflaheimildirnar því það hafi ekki viljað eiga svona dýran bát.

IV

Niðurstaða:

Ákærðu er gefið að sök meiri háttar brot gegn skattalögum með því að hafa sem forsvarsmenn Sate ehf. ekki staðið skil á skattframtali félagsins rekstrarárið 2013 og ekki gert grein fyrir söluhagnaði félagsins vegna kaupa og sölu á aflaheimildum. Félagið hafi keypt aflaheimildir fyrir 270.000.000 krónaen selt aftur sama dag 19. júlí 2013 fyrir 312.000.000 krónur. Með því að gera ekki grein fyrir söluhagnaðinum að fjárhæð 42.000.000 króna hafi ákærðu komið Sate ehf. undan því að greiða 8.170.000 krónur í tekjuskatt. 

Ákærðu neita báðir sök og telja að ekki hafi verið hagnaður af viðskiptum með bátinn Keili ásamt aflaheimildum. 

Meðal gagna málsins er sölutilboð frá því í júní 2013 þar sem hið selda er tilgreint báturinn Keilir AK og aflahlutdeild hans. Kaupverðið er sagt 325.000.000 króna án sundurliðunar á milli báts og aflaheimilda. Seljandi er Keilir ehf. en nafn kaupanda hefur fyrst verið prentað Blikaberg ehf. en síðan strokað yfir það og í stað þess handskrifað nafn Sate ehf. sem kaupanda og fyrir hönd félagsins skrifar ákærði Theodór undir sölutilboðið. Ekki liggur fyrir hver breytti nafni kaupandans né hvers vegna viðskiptin samkvæmt sölutilboðinu gengu ekki eftir eins og þar er tilgreint. Ekki er því hægt að byggja niðurstöðu þessa máls á sölutilboði þessu þó ákærðu virðist líta þannig á að viðskiptin hafi orðið með þeim hætti sem sölutilboðið kveður á um enda varð framhald viðskiptanna ekki í samræmi við sölutilboðið. 

Eins og fram er komið keypti Sate ehf. samkvæmt óundirrituðum kaupsamningi aflaheimildir afKeili ehf. fyrir 270.000.000 króna 17. júlí 2017 og 19. sama mánaðar keypti Blikaberg ehf. bátinn Keili AK II af Keili ehf. fyrir 55.000.000 króna. Keilir ehf. seldi því bátinn og aflaheimildir samtals fyrir 325.000.000 króna og samkvæmt kvittunum, sem eru á meðal gagna málsins, greiddi Sate ehf. 19. júlí 2013 258.872.607 krónur til Keilis ehf. og 66.127.393 krónur til skipasölunnar Aflamarks ehf. eða samtals 325.000.000 krónur.

Meðal gagna málsins eru gögn sem ákærði Sigurður afhenti skattrannsóknarstjóra í september 2018. Þar kemur fram að Blikaberg ehf. hafi keypt bátinn Keili AK II af Keili ehf. og báturinn hafi verið eignfærður í bókhaldi Blikabergs ehf. á 55.000.000 króna. Kaupin hafi verið hluti af öðrum viðskiptum á milli Sate ehf. og Keilis ehf. og fyrrnefnda félagið hafi haft milligöngu um viðskiptin á milli Keilis ehf. og Blikabergs ehf. Síðan er það útlistað hvernig Blikaberg ehf. á að hafa greitt söluverðið til Sate ehf. Það er hins vegar ekki alveg ljóst hvernig það sé samrýmanlegt að Blikaberg ehf. hafi keypt bátinn af Keili ehf. en kaupverðið hafi verið greitt til Sate ehf. Fullyrðing ákærða Sigurðar um að Blikaberg ehf. hafi keypt bátinn er í samræmi við þinglýstan kaupsamning en ekki í samræmi við framburð hans fyrir dómi þar sem hann fullyrti að kaupsamningurinn um bátinn, þegar Keilir ehf. seldi hann, hafi verið málamyndagerningur sem ekki ætti að byggja á. 

Ákærðu halda því fram að Sate ehf. hafi keypt bæði aflaheimildirnar og bátinn Keili AK II fyrir samtals 325.000.000 króna. Það er hins vegar ekki í samræmi við gögn málsins því Blikaberg ehf. keypti bátinn fyrir 55.000.000 króna og kaupsamningi/afsali þar um var þinglýst og er það í samræmi við gögn sem ákærði Sigurður afhenti skattrannsóknarstjóra, sbr. framanritað. Sé það rétt hjá ákærðu að Sate ehf. hafi einnig keypt bátinn verður að draga þá ályktun að kaupsamningurinn um bátinn við Keili ehf. hafi verið málamyndagerningur sem ákærðu telja að eigi ekki að líta til í máli þessu. Ákærði Sigurður viðurkenndi reyndar fyrir dómi að kaupsamningurinn um bátinn hafi verið málamyndagerningur og samkvæmt gögnum málsins á Blikaberg ehf. að hafa greitt Sate ehf. fyrir bátinni og fyrrnefnda félagið gerði grein fyrir þeim viðskiptum á ákveðinn hátt en ekki verður séð að Sate ehf. hafi gert það. Dómurinn getur ekki fallist á það að kaupsamningurinn þar sem Blikaberg ehf. kaupir bátinn Keili AK II af Keili ehf. sé málamyndagerningur og miða eigi við það þegar komist verður að niðurstöðu í máli þessu. Umræddur kaupsamningur hefur þau réttaráhrif semhann kveður á um enda hefur honum ekki verið hnekkt og honum var þinglýst eins og fyrr greinir. Í þessu sambandi er einnig að líta til þess að í samskiptum við forkaupsréttarhafa var því lýst að kaupandi bátsins væri Blikaberg ehf. og söluverðið væri 55.000.000 króna. Hvað þetta varðar skal það áréttað að það er ekki hlutverk dómstóla að liðsinna þeim sem gera málamyndagerninga. Þá getur hér engu breytt þó Sate ehf. hafi greitt hvoru tveggja kaupverð aflaheimildanna og bátsins enda hlýtur það þá að vera mál á milli Sate ehf. og Blikabergs ehf. sem var samkvæmt opinberum gögnum kaupandi bátsins. 

Samkvæmt gögnum málsins keypti Hraðfrystihús Hellissands hf. aflaheimildir af Sate ehf. fyrir 312.000.000 króna og greiddi þá fjárhæð 19. júlí 2013 til félagsins. Ekki liggur annað fyrir en að um sé að ræða þær aflaheimildir sem Sate ehf. keypti af Keili ehf. fyrir 270.000.000 króna enda er það í samræmi við framburð ákærðu, sbr. framanritað. Samkvæmt því var söluhagnaður vegna þessa 42.000.000 króna eins og tilgreint er í ákæru. Ekkert þykir fram komið í málinu sem getur orðið til þess að þannig verði ekki litið á málið. 

Ákærðu halda því m.a. fram að önnur atriði í rekstri Sate ehf. geti hafa orðið til þess að umræddur söluhagnaður hafi ekki verið 42.000.000 króna og m.a. hafi sölulaun verið greidd. Eflaust getur málum verið þannig fyrir komið en ákærðu, sem voru forsvarsmenn Sate ehf. á árinu 2013, skiluðu hvorki skattframtali né ársreikningi fyrir félagið vegna rekstrarársins 2013. Það var þeirra skylda og á þeirra ábyrgð m.a. að bókhald og skil á skattframtali og ársreikningi væri í réttu horfi. Þeir verða því að bera hallann af því að málum Sate ehf. var ekki hagað lögum samkvæmt. Þá liggja engin gögn fyrir um það að Sate ehf. hafi greitt sölulaun sem geti haft áhrif á umræddan söluhagnað. 

Ákærðu hafa einnig leitast við að sýna fram á að verðmæti bátsins Keilis II AK hafi ekki verið 55.000.000 króna og til þess verði að líta í málinu. Ákærði Sigurður hefur einnig haldið því fram að þegar aflaheimildirnar og báturinn hafi verið keypt hafi verðið á aflaheimildunum verið haft lægra en það raunverulega hafi verið en verðið á bátnum hafi verið haft hærra en það hafi raunverulegaverið. Þetta hafi verið gert að ósk seljanda. Af þessum sökum hafi söluverð aflaheimildanna þegar Sate ehf. seldi þær aftur verið hærra en kaupverðið. Eins og fram er komið var Sate ehf. ekki kaupandi bátsins Keilis II AK og því verður ekki litið til viðskipta með bátinn í máli þessu. Jafnvel þó litið yrði þannig á að Sate ehf. hafi verið kaupandi bátsins yrði ekki hægt að fallast á að kaupverð hans hafi verið hærra en raunverulegt verðmæti hans hafi verið á sínum tíma og þar með ætti að miða við að kaupverðið hafi verið lægra en um getur m.a. í þinglýstum kaupsamningi. Ef fallist yrði á slíkt væri dómstóll að fallast á að aðilar að kaupsamningi um bátinn hafi verið að hliðra til tölum og þá væntanlega í þeim tilgangi að einhver hefði hag af því á einhvern hátt. Það er ekki hlutverk dómstóla að taka þátt í slíkum leik frekar en að liðsinna þeim sem gera málamyndagerninga.

Ákærði Theodór varð stjórnarformaður með prókúru og ákærði Sigurður meðstjórnandi og framkvæmdastjóri með prókúru samkvæmt fundi í Sate ehf. 22. maí 2012 en nafni félagsins var breytt á sama fundi. Ákærði Sigurður sagði sig úr stjórninni 20. nóvember 2014 og ákærði Theodór sagði sig úr stjórninni 29. maí 2015. Ákærði Theodór, sem stjórnarformaður, og ákærði Sigurður, sem framkvæmdastjóri, báru samkvæmt þessu ábyrgð á því að skattframtali fyrir Sate ehf. vegna rekstrarársins 2013 væri skilað. Með því að skila ekki skattframtali fyrir félagið gerðust þeir sekir um alvarlegt hirðuleysi. 

Með vísan til ofanritaðs telst hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærðu hafi gerst sekir um þá háttsemi sem þeim er gefin að sök í ákæru þ.e. að hafa ekki staðið skil á skattframtali Sate ehf. rekstrarárið 2013 og vanrækt að gera grein fyrir söluhagnaði vegna sölu á aflaheimildum að fjárhæð 42.000.000 króna og þannig komið félaginu undan því að greiða 8.170.000 króna í tekjuskatt. 

Brot ákærðu er í ákæru talið varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. einnig 2. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. En ef brot gegn tilvitnuðu ákvæði tekjuskattslaganna telst meiri háttar varðar það einnig við 1. mgr. 262. gr. hegningarlaganna, sbr. síðari málslið 2. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003. Samkvæmt 3. mgr. 262. gr. hegningarlaganna telst brot meiriháttar ef það lýtur að verulegum fjárhæðum, ef verknaður er framinn með sérstaklega vítaverðum hætti eða að aðstæður auka mjög á saknæmi brotsins, svo og ef maður, hefur áður verið dæmdur sekur fyrir sambærileg brot. Samkvæmt 2. mgr. 121. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 11. gr. laga nr. 29/2021, skal ríkissaksóknari setja nánari fyrirmæli um hvaða málum skuli vísað til rannsóknar lögreglu. Samkvæmt fyrirmælum ríkissaksóknara nr. 6/2021 frá 25. ágúst 2021 skal skattrannsóknarstjóri vísa málum til lögreglu ef rökstuddur grunur er um að fjárhæð samanlagðra vangreiddra og/eða undandreginna skatta og/eða gjalda vegna refsiverðra skattalagabrota nemi hærri fjárhæð en samtals 50.000.000 króna. Einnig skal vísa málum til rannsóknar lögreglu ef rökstuddur grunur er um að verknaður hafi verið framinn með sérstaklega vítaverðum hætti, eða við aðstæður sem auka mjög á saknæmi brotsins, enda þótt fjárhæðin sé lægri en 50.000.000 króna. Í athugasemdum með frumvarpi, sem varð að lögum nr. 29/2021, segir m.a. að í fyrirmælum ríkissaksóknara felist mat á því hvaða brot teljist meiri háttar í skilningi 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þannig að þeim verði vísað strax til rannsóknar og ákærumeðferðar. Af þessu þykir mega draga þá ályktun að brot teljist ekki meiri háttar nema undandregnir skattar og gjöld nemi hærri fjárhæð en 50.000.000 króna. Við úrlausn þessa máls þykir rétt að taka tillit til þessa þó atvik hafi orðið áður en lög nr. 29/2021 tóku gildi enda er það ákærðu í hag. Í þessu sambandi má hafa hliðsjón af 1. mgr. 2. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. 

Samkvæmt ofanrituðu er undandreginn skattur Sate ehf., sem ákærðu bera ábyrgð á, töluvert lægri en sú fjárhæð sem miða skal við þegar skattayfirvöld vísa málum til rannsóknar hjá lögreglu. Þá eru ekki aðrar ástæður fyrir hendi sem auka mjög á saknæmi brotsins þannig að það verði talið varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Verður því talið að brot ákærðu varði aðeins við 2. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og hafa þeir unnið sér til refsingar samkvæmt því.

Ákærðu hafa verið sakfelldir fyrir brot sem voru framin árið 2014 og því er mjög langt um liðið síðan þá. Með hliðsjón af því og atvikum málsins að öðru leyti þykir refsing beggja ákærðu hæfilega ákveðin sekt til ríkissjóðs sem ákveðst samtalsþví sem næst tvöföld sú fjárhæð sem ríkissjóði var ekki staðin skil á á réttum tíma eða 16.400.000 krónur. Þannig að hvor hinna ákærðu skal greiða 8.200.000 krónur í sekt til ríkissjóðs en greiðist sektin ekki innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa að telja skal hvor ákærða sæta fangelsi í fimm mánuði. 

Ákærði, Sigurður Aðalsteinsson, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigmundar Hannessonar lögmanns, sem telst hæfilega ákveðin með hliðsjón af tímaskýrslu lögmannsins og umfangi málsins, 1.805.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, sem tekur einnig til starfa verjandans á rannsóknarstigi málsins. 

Ákærði, Theodór Kristinn Erlingsson, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ragnars Guðmundssonar lögmanns, sem telst hæfilega ákveðin með hliðsjón af tímaskýrslu lögmannsins og umfangi málsins, 2.600.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, sem tekur einnig til starfa verjandans á rannsóknarstigi málsins. 

Ingi Tryggvason héraðsdómari kveður upp dóm þennanen hann fékk málið til meðferðar 22. júní 2021 en hafði engin afskipti af því fyrir þann tíma. Aðalmeðferð málsins var tvívegis frestað annars vegar vegna forfalla sækjanda og hins vegar vegna forfalla vegna Covid-19. 

D ó m s o r ð:

Ákærðu, Sigurður Aðalsteinsson og Theodór Kristinn Erlingsson, greiði hvor um sig 8.200.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa að telja en sæti ella hvor um sig fangelsi í fimm mánuði. 

Ákærði, Sigurður Aðalsteinsson, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigmundar Hannessonar lögmanns, 1.805.000 krónur. 

Ákærði, Theodór Kristinn Erlingsson, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ragnars Guðmundssonar lögmanns, 2.600.000 krónur. 

Ingi Tryggvason

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum