2022

Dómur Héraðsdóms Reykjaness, 23. mars 2022, í máli S-601/2021

23.3.2022

Ákæruvaldið
(Finnur Þór Vilhjálmsson saksóknari)

gegn

Magnúsi Scheving Thorsteinssyni
(Jón Elvar Guðmundsson lögmaður)

Dómur

I

Mál þetta, sem dómtekið var 7. Mars sl., að lokinni aðalmeðferð, er höfðað af héraðssaksóknara með ákæru útgefinni 11. Mars 2021 á hendur Magnúsi Scheving Thorsteinssyni, kt. 000000-0000, [...].

Málið er höfðað á hendur ákærða fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum með því að hafa staðið skil á efnislega röngum skattframtölum gjaldárin 2017 og 2018, vegna tekjuáranna 2016 og 2017, þar sem ekki voru taldar fram tekjur ákærða vegna greiðslna til hans, samanlagt bæði árin að fjárhæð (nettó) 57.700.000 krónur, frá einkahlutafélaginu Pólstjörnunni, kt. 000000-0000, þar sem ákærði var eini stjórnarmaðurinn, framkvæmdastjóri og eigandi alls hlutafjár. Tekjurnar voru skattskyldar samkvæmt 4. tölulið A-liðar 1. mgr. 7. gr., sbr. 2. mgr. 11. gr., laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. einnig 19. og 21. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, eða til vara samkvæmt 4. tölulið C-liðar 1. mgr. 7. gr., sbr. 1. mgr. 11. gr., laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Með þessu komst ákærði undan greiðslu tekjuskatts og útsvars að fjárhæð samtals 26.253.500 krónur, eða til vara fjármagnstekjuskatts að fjárhæð samtals 11.540.000 krónur, sem hvort tveggja sundurliðast nánar svo:

Tekjuár 2016    Aðalkrafa  Varakrafa 
Framtalinn skattstofn  kr.   55.704.946  0
Vantaldar tekjur frá Pólstjörnunni ehf. kr.  5.500.000  5.500.000
       
Tekjuskattur, skattprósenta 31,80%  kr.  1.749.000   
 Útsvar, útsvarsprósenta 13,70% kr.  753.500   
 (Tekjur af stofni yfir 10.043.880 kr.)      
       
Fjármagnstekjuskattur, skattprósenta 20%  kr.     1.100.000
       
Vangr. tekjuskattur og útsvar 2016 kr.   2.502.500  
Vangr. fjármagnstekjuskattur 2016 kr.     1.100.000

 

Tekjuár 2017    Aðalkrafa   Varakrafa
 Framtalinn skattstofn kr.   42.821.312  9.636.939
 Vantaldar tekjur frá Pólstjörnunni ehf.  kr.   52.200.000  52.200.000
       
 Tekjuskattur, skattprósenta 31,80% kr.  16.599.600  
 Útsvar, útsvarsprósenta 13,70% kr.  7.151.400  
 (Tekjur af stofni yfir 10.016.488 kr.)      
       
 Fjármagnstekjuskattur, skattprósenta 20% kr.     10.440.000
       
 Vangr. tekjuskattur og útsvar 2017 kr.  23.751.000  
 Vangr. fjármagnstekjuskattur 2017 kr.    10.440.000

 

Samtals    Aðalkrafa   Varakrafa
 Vanframtaldar tekjur samtals kr.   57.700.000  57.700.000
 Vangr. tekjuskattur og útsvar samtals kr.   26.253.500  
 Vangr. fjármagnstekjuskattur samtals kr.     11.540.000

Brot ákærða samkvæmt aðalkröfu teljast varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga.

Brot ákærða samkvæmt varakröfu teljast varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Ákærði gerði þá kröfu að málinu yrði vísað frá dómi en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði dómsins 21. febrúar 2022.

Verjandi ákærða gerir þá kröfu að hann verði sýknaður af refsikröfu og að allur sakarkostnaður verði lagður á ríkissjóð þ.m.t málsvarnarlaun verjandans samkvæmt mati dómsins. Verjandinn gerir ekki kröfu um málsvarnarlaun verði ákærði sakfelldur.

II

Málavextir:

Skattrannsóknarstjóri ríkisins hóf 20. nóvember 2018 rannsókn á tekjum og skattskilum ákærða vegna tekjuáranna 2014 til og með 2017. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru þær að ákærði hafi skilað efnislega röngum skattframtölum gjaldárin 2015 til og með 2018 vegna tekjuáranna 2014 til og með 2017. Tekjur hafi verið vanframtaldar tekjuárið 2015 vegna greiðslna í tengslum við vinnu í þágu slitastjórnar Glitnis. Greiðslur frá Pólstjörnunni ehf. hafi verið vanframtaldar og við úthlutun fjármuna úr félaginu til ákærða hafi ekki verið fylgt reglum um úthlutun arðs. Tölulegar niðurstöður rannsóknarinnar voru þær að vanframtaldar launatekjur ákærða hafi verið 33.480.000 kr. og vanframtaldar tekur frá Pólstjörnunni ehf. hafi verið 95.000.000 kr.

Skattrannsóknarstjóri ríkisins sendi málið til héraðssaksóknara með bréfi dags. 17. febrúar 2020 og með bréfi sama dag var málið framsent til Skattsins. Með bréfi Skattsins dags. 7. september 2020 var ákærða tilkynnt um fyrirhugaða endurákvörðun opinberra gjalda tekjuárin 2014 til og með 2017 á grundvelli rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins. Vegna tekjuársins 2014 var fyrirhugað að hækka stofn til tekjuskatts og útsvars um 25.000.000 kr. og stofninn yrði 69.806.318 kr. í stað 44.806.318 kr. og afdreginn fjármagnstekjuskattur yrði 5.014.176 kr. í stað 14.176 kr. Vegna tekjuársins 2015 var fyrirhugað að hækka stofn til tekjuskatts og útsvars um 46.499.142 kr. og hann yrði þá 90.235.601 kr. í stað 43.736.459. kr. Afdreginn fjármagnstekjuskattur yrði 2.724.021 kr. í stað 24.021 kr. Vegna tekjuársins 2016 var fyrirhugað að hækka stofn til tekjuskatts og útsvars um 9.500.000 kr. og hann yrði þá 65.077.274 kr. í stað 55.577.274 kr. Afdreginn fjármagnstekjuskattur yrði 1.910.423 kr. í stað 10.423 kr. Vegna tekjuársins 2017 var fyrirhugað að hækka stofn til tekjuskatts og útsvars um 47.000.000 kr. og hann yrði þá 89.761.812 kr. í stað 42.761.812 kr. Afdreginn fjármagnstekjuskattur yrði 9.417.326 kr. í stað 17.326 kr.

Með úrskurði ríkisskattstjóra 1. desember 2020 voru opinber gjöld ákærða endurákvörðuð í samræmi við ofanritað og reiknað 2,5% verðbótaálag á mismun á álögðum sköttum og staðgreiðslu samkvæmt 122. gr. laga nr. 90/2003.

Ákærði gaf skýrslu hjá héraðssaksóknara 17. apríl 2020. Þar sagði hann að það hafi dregist að skila inn ársreikningum fyrir Pólstjörnuna ehf. og hann hafi ekki þegið laun frá öðrum en skattframtöl hans segðu til um. Ákærði hafi verið einn eigandi að Pólstjörnunni ehf. og framkvæmdastjóri félagsins en lítil starfsemi hafi verið hjá því. Ákærði sagði að tekjur, sem hann hafi fengið fyrir ráðgjafarstörf, hafi að einhverju leyti runnið inn í Pólstjörnuna ehf. og félagið hafi verið í fjárfestingarstarfsemi en áður hafi það verið eignarhaldsfélag. Félagið hafi m.a. gefið út reikninga á Polygon ehf. fyrir hluta af ráðgjafarstörfum ákærða fyrir Glitni hf. en ákærði hafi á sama tíma verið í fullu starfi annars staðar. Aðspurður sagði ákærði að greiðslur að fjárhæð 79.258.950 kr. á árunum 2014 - 2017 frá Pólstjörnunni ehf. til ákærða hafi verið arðgreiðslur fyrir umrætt tímabil. Ákærði sagði að skattframtölum og ársreikningum fyrir Pólstjörnuna ehf. fyrir árin 2016 og 2017 hafi verið skilað eftir að rannsókn hófst á skattskilum ákærða en það hafi alltaf legið fyrir að þessum gögnum yrði skilað og skattur greiddur. Ákærði kvaðst vera búinn að greiða skatt af arðgreiðslunum auk dráttarvaxta og álags. Ákærði sagði að Pólstjarnan ehf. hafi verið sterkt félag fjárhagslega og átt umtalsverðan uppsafnaðan hagnað fyrri ára þannig að rými hafi verið til þess að greiða út arð. Ákærði hafi því getað ákveðið hvað hann hafi viljað greiða sér mikinn arð eftir þörfum eða vilja. Hann kvað það óheppilegt að skattframtölum Pólstjörnunnar hafi ekki verið skilað á réttum tíma og hann hafi ekki haft ásetning til annars en að greiða skatta af arðgreiðslunum.

III

Framburður ákærða og vitnis fyrir dómi:

Ákærði kvaðst hafa verið fyrirsvarsmaður Pólstjörnunnar ehf. á árunum 2016 og 2017 þ.e. eigandi, stjórnarmaður og prókúruhafi félagsins. Hann hafi einnig notað heimabanka félagsins en eiginkona hans hafi verið í varastjórn. Ákærði kvaðst hafa fengið þær greiðslur frá Pólstjörnunni sem um ræðir í málinu á árunum 2016 og 2017 en um hafi verið að ræða arðgreiðslur og endurgreiðslu á láni. Ákærði kvaðst hafa skilað skattframtölum sínum fyrir árin 2016 og 2017 og hann hélt að hann hafi skilað þeim rafrænt og á tilskildum tíma. Ákærði sagði að það hafi dregist að skila ársreikningum fyrir Pólstjörnuna ehf. fyrir árin 2016 og 2017 en hann hafi vitað að þegar þeim yrði skilað myndi það leiðréttast að hann hafi ekki staðið skil á skatti af arðgreiðslunum. Pólstjarnan ehf. myndi halda eftir hluta af arðgreiðslunum og standa skil á skatti af þeim.

Ákærði sagði að skattframtölum og ársreikningum félagsins hafi verið skilað seint af ýmsum ástæðum þar sem önnur mál hafi verið í forgangi. Það hafi hins vegar alltaf staðið til að skila þessum gögnum. Bókhald fyrir Pólstjörnuna ehf. hafi verið fært en rekstur félagsins hafi verið einfaldur og auðvelt að sjá eiginfjárstöðu félagsins á hverjum tíma. Í lok hvers árs hafi verið gerð greinargerð um rekstur félagsins. Ákærði sagði að hluthafafundir í Pólstjörnunni ehf. hafi verið haldnir 15. maí 2016 og 5. janúar 2017 eins og gögn málsins bera með sér og á þessum fundum hafi verið teknar ákvarðanir um arðgreiðslur félagsins.

Ákærði kvaðst ekki muna hvernig fjárhæðir arðgreiðslna þ.e. 9.500.000 króna og 47.000.000 króna hafi verið fundnar út en hærri greiðslan hafi m.a. tekið mið af því að hann og eiginkona hans hafi verið að kaupa sér nýtt hús og vant að fjármagn í það. Ákærði sagði að greiðsla til hans 28. apríl 2017 að fjárhæð 50.000.000 króna hafi ekki aðeins verið arðgreiðsla heldur einnig endurgreiðsla á láni. Ákærði hafi persónulega tekið lán og síðan lánað Pólstjörnunni ehf. og skattayfirvöld hafi litið þannig á málið þ.e. enginn ágreiningur hafi verið við skattayfirvöld um það að ákærði hafi lánað Pólstjörnunni ehf. Lánið hafi ákærði tekið í febrúar 2017 og fengið það endurgreitt í apríl sama ár og því hafi aldrei verið tilgreind krafa í ársreikningi Pólstjörnunnar ehf. vegna lánsins. Ákærði kvaðst einnig hafa lagt út fyrir kostnaði tilheyrandi félaginu. Ef allur arður hafi ekki greiddur í árslok hafi það verið fært sem skuld hjá Pólstjörnunni ehf.

Vitnið, A eiginkona ákærða, kvaðst hafa verið í varastjórn Pólstjörnunnar ehf. á árunum 2016 og 2017 en engin afskipti haft af rekstri félagsins. Hún og ákærði hafi hins vegar oft rætt málefni félagsins enda ákærði verið eini eigandi þess. Vitnið sagði að hluthafafundir hafi verið haldnir 15. maí 2016 og 5. janúar 2017 þar sem ákvarðanir um arðgreiðslur Pólstjörnunnar ehf. hafi verið teknar en vitnið mundi ekki hvernig fjárhæðir þeirra hafi verið fundnar út.

IV

Sjónarmið ákærða:

Verjandi ákærða skilaði greinargerð og þar kemur fram að krafa ákærða um sýknu byggir á því að brot hans sé ósannað og saknæmisskilyrði 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt séu ekki uppfyllt.

Í ákæru sé annars vegar tekið fram að um vangreiddan tekjuskatt og útsvar sé að ræða að fjárhæð 26.253.500 króna en hins vegar vangreiddan fjármagnstekjuskatt að fjárhæð 11.540.000 króna. En hvort heldur sem er hafi greiðsla fyrir löngu átt sér stað. Þá sé í ákæru ekki tekið fram hvernig framtal ákærða vegna nefndra ára hafi verið þannig að varði refsingu né heldur hvernig það hefði átt að vera. Ákærði segist hafa annast skil fyrir Pólstjörnuna ehf. og hann hafi vitað fyrir víst og haft af því reynslu að við skil félagsins myndi framtal hans leiðréttast og þá kæmi jafnframt til greiðslu álags. Það hafi hvoru tveggja gerst varðandi þær arðgreiðslur sem ákært er vegna. Þrátt fyrir að skil hafi dregist þá hafi allar arðgreiðslur ratað inn á framtal ákærða og allur skattur verið greiddur auk álags. Því hafi aldrei verið um það að ræða að huglæg refsinæmisskilyrði 109. gr. laga um tekjuskatt væru uppfyllt. Ekki verði refsað fyrir meint brot nema huglæg refsinæmisskilyrði séu uppfyllt og þar breyti engu þó meint brot teljist stórfelld. Annað hvort verði að vera til staðar ásetningur eða stórfellt gáleysi, eða stórfellt hirðuleysi, af hálfu ákærða svo háttsemi hans teljist refsiverð. Til að um ásetning sé að ræða þurfi ákærði að hafa viljandi skýrt villandi eða rangt frá einhverju sem skiptir máli varðandi tekjuskatt eða þá að hann telji það óhjákvæmilega afleiðingu, yfirgnæfandi líkur eða að háttsemi hans kunni að hafa þá afleiðingu að skýrt sé villandi eða rangt frá einhverju sem skipti máli varðandi tekjuskatt hans. Um það sé ekki að ræða í máli þessu þar sem ákærði hafi verið í fullri vissu um að öllu yrði skilað réttilega og um það sé ekki deilt. Til þess að um stórfellt gáleysi sé að ræða þurfi ákærði að hafa haft hugboð, skoðun eða grun um að háttsemi hans myndi leiða til þess að skýrt yrði villandi eða rangt frá einhverju sem skipti máli varðandi tekjuskatt hans.

Ákærði hafi skilað inn öllum gögnum og gengið frá greiðslu skatta og álags löngu áður en rannsókn héraðssaksóknara hafi byrjað til samræmis við fyrri framkvæmd.

Arðgreiðslur úr Pólstjörnunni ehf. hafi verið gerðar á grundvelli 74. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög og falist í yfirfærðum hagnaði fyrri ára. Efnisleg skilyrði fyrir arðgreiðslunum hafi verið fyrir hendi og því sé aðalkrafa í ákæru ekki efnislega tæk.

Ákært sé fyrir vantaldar tekjur að fjárhæð 52.200.000 kr. en sú fjárhæð sé röng og í ósamræmi við niðurstöður skattyfirvalda og arðsákvarðanir ákærða sem hluthafa í Pólstjörnunni ehf. Fjárhæðir í ákærunni virðist fundnar með því að leggja saman millifærslur frá félaginu til ákærða og draga frá millifærslur frá ákærða til félagsins. Millifærslurnar séu einar og sér ekki tekjur og því séu fjárhæðir í ákærunni rangar. Í því sambandi nefnir ákærði að ein af þessum millifærslum sé endurgreiðsla á láni ákærða að fjárhæð 17.500.000 króna til Pólstjörnunnar ehf. Ákærði hafi persónulega tekið lán og lánað félaginu til hlutafjáraukningar í Hestamiðstöðinni Gáska hf. Þrátt fyrir þetta sé talið að endurgreiðslan myndi tekjur hjá ákærða. Ákæran sé þannig úr garði gerð hvað fjárhæðir varðar að hún sé röng og ákærði hafi ekki fengið þær tekjur sem þar séu tilgreindar. Þá komi ekki fram í ákæru hvaða arðgreiðslur ákærði sé í raun ákærður fyrir og því verði hann ekki talinn sekur um það sem honum er gefið að sök.

Ákærði segir að hann verði ekki sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 262. gr. hegningarlaganna nema það teljist meiri háttar. Verknaður teljist ekki meiri háttar nema brot lúti að verulegum fjárhæðum eða verknaður sé framinn með sérstaklega vítaverðum hætti eða við aðstæður sem auki mjög saknæmi brotsins, svo og ef maður, hefur áður verið dæmdur fyrir sambærilegt brot, sbr. 3. mgr. 262. gr. hegningarlaganna. Í skilgreiningu á meiri háttar broti komi aðeins fram að meint brot varði verulegar fjárhæðir. En samkvæmt lögum nr. 29/2021 sé stjórnvöldum nú heimilt að ljúka málum með allt að 100.000.000 króna í sekt auk þess að lækka það sem ella væru lágmarkssektir í málum þar sem málsbætur eru miklar líkt og í máli ákærða. Því verði ekki annað séð með tilliti til allra atvika að ákærði hafi ekki framið meiri háttar brot enda sé löggjafinn búinn að ákveða að máli eins og þessu megi ljúka án ákæru. 

Þá bendir ákærði á að skv. 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar skuli allir vera jafnir fyrir lögum og öllum beri réttur til úrlausnar um ákæru á hendur sér um refsiverða háttsemi með réttlátri málsmeðferð, sbr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Í dómaframkvæmd séu engin dæmi þess að dráttur á skilum vegna arðgreiðslna úr félögum valdi ákæru fyrir hegningarlagabrot eins og um ræðir í þessu máli. Það liggi fyrir að ákærði hafi greitt umræddan skatt, alla vega einu sinni, sem og álag. Fjöldi félaga skili framtölum of seint og alla jafna hafi það ekki þau áhrif að ákært sé og því síður refsað enda sé um að ræða tilvik þar sem skattalög kveða á um álag og viðurlög við drætti á skilum. Röng framtöl valdi í yfirgnæfandi fjölda tilfella ekki refsingu fyrir framteljanda. Síðbúin skil eigi ekki að leiða til ákæru og sakfellingar fyrir brot gegn hegningarlögum heldur álagsbeitingu eins og varð í máli ákærða. 

Ákærði tekur fram að hann hafi nú þegar hlotið refsingu fyrir meint brot í formi álags sem hafi verið lagt á af ríkisskattstjóra við staðgreiðsluskil Pólstjörnunnar ehf. Félagið sé að fullu í eigu ákærða sem leiði til þess að álagsgreiðslan komi að fullu til frádráttar frá verðmæti eigna hans þ.e. að hann beri allan kostnað af álagsbeitingu. Ekki verði séð að heimild sé fyrir frekari málsmeðferð fyrir dómstólum eins og krafist sé í ákæru, sbr. 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Búið sé að refsa ákærða með því að beita við álagningu um tvöfalt hærra skatthlutfalli en ella. Það sé mun þyngri refsing heldur en sú sem felst í því að leggja 25% álag ofan á skattstofn. Ákvörðun ríkisskattstjóra um þá niðurstöðu feli þannig í sér raunverulega refsingu byggða á mati ríkisskattstjóra á atvikum máls. Samkvæmt aðalkröfu í ákæru sé lagt upp með endurtekningu á þeirri málsmeðferð sem og refsingu fyrir sömu atvik. Ekki verði séð að heimild sé fyrir slíkri málsmeðferð fyrir dómstólum. Þar sem búið sé að afgreiða mál ákærða hjá skattyfirvöldum með viðurlögum beri að sýkna hann í máli þessu.

V

Niðurstaða:

Samkvæmt 108. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála hvílir sönnunarbyrði um sekt ákærða og atvik sem telja má honum í óhag á ákæruvaldinu og verður hann því aðeins sakfelldur að nægileg sönnun, sem ekki verði véfengd með skynsamlegum rökum, teljist fram komin um hvert það atriði er varðar sekt, sbr. 1. mgr. 109. gr. laganna. Þá gildir og sú meginregla að dómur skuli reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi, sbr. 1. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008. Ákærða er gefið að sök að hafa skilað efnislega röngum skattframtölum gjaldárin 2017 og 2018 þar sem hann hafi ekki talið fram greiðslur frá Pólstjörnunni ehf. samtals að fjárhæð 57.700.000 króna. Það liggur fyrir að ákærði skilaði skattframtölum sínum án þess að geta um þessar greiðslur og það var ekki heldur getið um arðgreiðslur á innsendum hlutafjármiðum fyrir Pólstjörnuna ehf. vegna áranna 2016 og 2017. Ákærði var einn eigandi eigandi félagsins, stjórnarmaður og prókúruhafi og hann annaðist daglegan rekstur þess. Eiginkona hans var í varastjórn. Meðal gagna málsins eru fundargerðir hluthafafundar Pólstjörnunnar ehf. frá 15. maí 2016 og 5. janúar 2017. Bæði ákærði og eiginkona hans halda því fram að þessir fundir hafi verið haldnir á nefndum dögum en miðað við önnur gögn málsins má réttilega velta því fyrir sér hvort þessir fundir hafi verið bókaðir töluvert seinna en þeir eru sagðir hafa verið haldnir. Samkvæmt fundargerðinni frá 15. maí 2016 var ákveðið að greiða arð til hluthafa að fjáræð 9.500.000 krónur og samkvæmt fundargerðinni frá 5. janúar 2017 var ákveðið að greiða arð til hluthafa að fjárhæð 47.000.000 króna. Með hliðsjón af því hvenær skylt hefur verið að skila skattframtölum einstaklinga um árabil hefur alla vega ákvörðunin um arðgreiðsluna, sem tekin var á fundinum 5. janúar 2017, legið fyrir þegar ákærði skilaði skattframtali sínu vegna gjaldársins 2017 (tekjuárið 2016). Jafnvel hefur sama aðstaða verið uppi þegar ákvörðun um arðgreiðsluna að fjárhæð 9.500.000 krónur var tekin 15. maí 2016 þ.e. ákvörðunin hafi verið tekin áður en ákærði skilaði skattframtali sínu. Það hefur alla vega ekki verið langt um liðið frá því að ákærði skilaði skattframtali sínu og þar til þessi ákvörðun var tekin. Það gat því ekkert verið því í vegi að ákærði myndi geta um arðgreiðsluna að fjárhæð 47.000.000 krónur á skattframtali sínu þegar hann skilaði því og líklega gildir það sama um arðgreiðsluna að fjárhæð 9.500.000 krónur eða alla vega hefði ákærði getað sent inn leiðréttingu á skattframtali sínu skömmu eftir að hann hafði skilað því varðandi síðargreindu greiðsluna. Um þetta sinnti ákærði ekki. 

Ekki verður séð að ákærði hafi aðhafst eitthvað til að leiðrétta skattframtöl sín hvað umræddar arðgreiðslur varðar fyrr en skattframtölum Pólstjörnunnar ehf. fyrir rekstrarárin 2016 og 2017 var skilað 6. desember 2018 en það var eftir að rannsókn skattrannsóknarstjóra á málum ákærða hófst en það var 20. nóvember 2018. Það er ekkert hald í þeirri mótbáru ákærða að hann hafi vitað að skattframtöl hans myndu breytast þegar gerð yrðu skil á ársreikningum og skattframtölum fyrir Pólstjörnuna ehf. þar sem að þá yrði gerð grein fyrir greiðslum félagsins til ákærða. Enda voru þá liðin um tvö og hálft ár frá því að tekin var ákvörðun um arðgreiðsluna í maí 2016 og tæplega tvö ár frá því að tekin var ákvörðun um arðgreiðsluna í janúar 2017 ef marka má gögn málsins og framburð ákærða sjálfs. Það gat undir engum kringumstæðum verið réttlætanlegt af hálfu ákærða að láta efnislega röng skattframtöl sín standa óbreytt í svo langan tíma og það þrátt fyrir að réttar og nauðsynlegar upplýsingar hafi fyrir löngu legið fyrir og líklega áður en ákærði skilaði umræddum skattframtölum sínum, sbr. framanritað. 

 Þá breytir það heldur engu að ákærði hafi áður en rannsókn málsins hófst hjá héraðssaksóknara greitt þau gjöld sem voru endurákvörðuð á hann í kjölfar rannsóknar skattyfirvalda. Einstaklingum ber að tilgreina á skattframtölum sínum allar tekjur í hvaða formi sem þær eru og ákærði gat ekki velkst í vafa um það en hann gerði ekki einu sinni athugasemd á skattframtöl sín hvað þetta varðar.

Með vísan til ofanritaðs telst sannað að ákærði hafi vanframtalið tekjur sínar tekjuárin 2016 og 2017 (gjaldárin 2017 og 2018) og skilað efnislega röngum skattframtölum. Í þessu sambandi skal tekið fram að um leið og ákærði hafði skilað skattframtölum sínum með ófullnægjandi upplýsingum um tekjur hans var brot hans fullframið. Í þessu sambandi skal einnig haft í huga að ekkert virðist hafa staðið því í vegi að ákærði hefði skattframtöl sín rétt hvað umræddar arðgreiðslur varðar enda var það alfarið í hans höndum að hafa þessi mál í réttu horfi.

Í greinargerð verjanda ákærða er fullyrt að fjárhæðir í ákæru séu rangar þar sem þær séu aðeins fundnar út með því að leggja saman millifærslur frá Pólstjörnunni ehf. til ákærða og draga frá millifærslur frá ákærða til félagsins. Þetta standist ekki því m.a. sé um að ræða 17.500.000 króna lán ákærða til Pólstjörnunnar ehf. sem félagið hafi síðan endurgreitt ákærða. Ráða má af gögnum málsins að ákærði hafi persónulega tekið lán að fjárhæð 17.500.000 krónur og lánað það Pólstjörnunni ehf. til að auka hlutafé félagsins í Hestamiðstöðinni Gáska ehf., kt. 000000-0000. Ákærði tók þetta ekki sérstaklega fram í skýrslum sínum hjá skattyfirvöldum og héraðssaksóknara en ekki verður annað séð en skattyfirvöld hafi við meðferð málsins talið að um lán hafi verið að ræða. Þykir því ekki annað fært í refsimáli heldur en að lækka vanframtaldar tekjur ákærða samkvæmt ákæru um 17.500.000 krónur og teljast þær því vera 40.200.000 krónur í stað 57.700.000 krónur eins og talið er í ákæru. Að öðru leyti þykir ekkert fram komið sem gefur tilefni til þess að miða ekki við fjárhæðir í ákæru. 

Samkvæmt ákæru er ákærða gefið að sök að hafa vanframtalið tekjur sínar um 57.700.000 kr. og þannig aðallega komið sér hjá greiðslu tekjuskatts og útsvars að fjárhæð 26.253.500 kr. en til vara komið sér hjá greiðslu fjármagnstekjuskatts að fjárhæð 11.540.000 kr. Þrátt fyrir að ákærði hafi ekki farið í einu og öllu að fyrirmælum XII. kafla laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 um arðsúthlutun úr Pólstjörnunni ehf. þykir varhugavert í refsimáli að slá því föstu að ákærði hafi þar með komið sér hjá greiðslu tekjuskatts og útsvars. Sérstaklega í því ljósi að samkvæmt rannsóknargögnum málsins voru skilyrði til þess hjá Pólstjörnunni ehf. að greiða þá fjárhæð, sem ákærði vanframtaldi, í arð en ákærði var eini eigandi félagsins. Eins og fram er komið er talið sannað að ákærði hafi vanframtalið 40.200.000 krónur og þykir hafið yfir skynsamlegan vafa að hann hafi með því komið sér hjá greiðslu fjármagnstekjuskatts að fjárhæð 8.040.000 krónur og þar með er miðað við varakröfu ákæruvaldsins við sakfellingu ákærða.

Brot ákærða samkvæmt varakröfu er talið varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. En ef brot gegn tilvitnuðu ákvæði tekjuskattslaganna telst meiri háttar varðar það einnig við 1. mgr. 262. gr. hegningarlaganna, sbr. síðasta málslið 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003. Samkvæmt 3. mgr. 262. gr. hegningarlaganna telst brot meiri háttar ef það lýtur að verulegum fjárhæðum, ef verknaður er framinn með sérstaklega vítaverðum hætti eða að aðstæður auka mjög á saknæmi brotsins, svo og ef maður, hefur áður verið dæmdur sekur fyrir sambærileg brot. Samkvæmt 2. mgr. 121. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 11. gr. laga nr. 29/2021, skal ríkissaksóknari setja nánari fyrirmæli um hvaða málum skuli vísað til rannóknar lögreglu. Samkvæmt fyrirmælum ríkissaksóknara nr. 6/2021 frá 25. ágúst 2021 skal skattrannsóknarstjóri vísa málum til lögreglu ef rökstuddur grunur er um að fjárhæð samanlagðra vangreiddra og/eða undandreginna skatta og/eða gjalda vegna refsiverðra skattalagabrota nemi hærri fjárhæð en samtals 50.000.000 króna. Einnig skal vísa málum til rannsóknar lögreglu ef rökstuddur grunur er um að verknaður hafi verið framinn með sérstaklega vítaverðum hætti, eða við aðstæður sem auka mjög á saknæmi brotsins, enda þótt fjárhæðin sé lægri en 50.000.000 króna. Í athugasemdum með frumvarpi, sem varð að lögum nr. 29/2021, segir m.a. að í fyrirmælum ríkissaksóknara felist mat á því hvaða brot teljist meiri háttar í skilningi 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þannig að þeim verði vísað strax til rannsóknar og ákærumeðferðar. Af þessu þykir mega draga þá ályktun að brot teljist ekki meiri háttar nema undandregnir skattar og gjöld nemi hærri fjárhæð en 50.000.000 króna. Við úrlausn þessa máls þykir rétt að taka tillit til þessa þó atvik hafi orðið áður en lög nr. 29/2021 tóku gildi enda er það ákærða í hag. Í þessu sambandi má hafa hliðsjón af 1. mgr. 2. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. 

Samkvæmt ofanrituðu er undandreginn skattur ákærða töluvert lægri en sú fjárhæð sem miða skal við þegar skattyfirvöld vísa málum til rannsóknar hjá lögreglu. Þá eru ekki aðrar ástæður fyrir hendi sem auka mjög á saknæmi brotsins þannig að það verði talið varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga Verður því talið að brot ákærða varði aðeins við 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og hefur hann unnið sér til refsingar samkvæmt því.

Við ákvörðun á refsingu ákærða verður litið til þess að hann hefur greitt að fullu endurákvörðuð gjöld skattayfirvalda og hefur hann þær málsbætur. Með hliðsjón af þessu og atvikum málsins að öðru leyti þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin sekt til ríkissjóðs sem ákveðst tvöföld sú fjárhæð sem hann stóð ríkissjóði ekki skil á á réttum tíma eða 16.100.000 krónur en greiðist sektin ekki innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa að telja sæti ákærði fangelsi í átta mánuði.

Verjandi ákærða, Jón Elvar Guðmundsson lögmaður, gerði ekki kröfu til málsvarnarlauna yrði ákærði sakfelldur og því dæmast þau ekki.
Ingi Tryggvason héraðsdómari kveður upp dóm þennan en hann fékk málið til meðferðar 22. júní 2021 en hafði engin afskipti af því fyrir þann tíma. Aðalmeðferð málsins var

frestað í tvígang annars vegar vegna forfalla sækjanda og hins vegar vegna forfalla vegna Covid-19.

D ó m s o r ð:

Ákærði, Magnús Scheving Thorsteinsson, greiði 16.100.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa að telja en sæti ella fangelsi í átta mánuði.

Ingi Tryggvason 

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum