2019

Dómur Landsréttar 13. september 2019 nr. 813/2019

16.9.2019

Dómur föstudaginn 13. september 2019.

Mál nr. 813/2018:
Ákæruvaldið 
(Einar Tryggvason saksóknari)
gegn
Óskari Óskarssyni 
(Víðir Smári Petersen lögmaður)

Lykilorð
Virðisaukaskattur. Staðgreiðsla opinberra gjalda.

Útdráttur
Ó var sakfelldur fyrir meiri háttar brot gegn 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda með því að hafa í starfi sínu sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður V ehf. á tilteknum tímabilum á árunum 2014 til 2016 látið hjá líða að standa skil á virðisaukaskatti og skila staðgreiðsluskilagreinum félagsins á lögmæltum tíma og standa skil á slíkum gjöldum. Var refsing Ó ákveðin fangelsi í fjóra mánuði en fullnustu hennar frestað og skyldi hún falla niður að liðnum tveimur árum héldi hann almennt skilorð. Þá var Ó dæmdur til að greiða 14.250.000 króna sekt í ríkissjóð og skyldi fimm mánaða fangelsi koma í stað sektarinnar yrði hún ekki greidd.

Dómur Landsréttar

Mál þetta dæma landsréttardómararnir Davíð Þór Björgvinsson, Jóhannes Sigurðsson og Þorgeir Ingi Njálsson.

Málsmeðferð og dómkröfur aðila
1
Ríkissaksóknari skaut málinu til Landsréttar 22. október 2018 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjaness 21. september 2018 í málinu nr. S-95/2018.

2
Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

3
Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara að refsing verði milduð.

Málsatvik og sönnunarfærsla
4
Málsatvik eru rakin í hinum áfrýjaða dómi sem og framburðir ákærða og meðákærða, sem er faðir ákærða, við meðferð málsins fyrir héraðsdómi. Við aðalmeðferð málsins fyrir Landsrétti var tekin viðbótarskýrsla af ákærða. Þá var áformað að taka skýrslu af föður ákærða en ekki kom til þess þar sem hann skoraðist undan skýrslugjöf.

Niðurstaða
5
Í framburði ákærða fyrir Landsrétti kom fram að þrátt fyrir að hafa verið skráður framkvæmdastjóri Vatnsafls – Pípulagna ehf. hefði hann á því tímabili sem ákæran tekur til fyrst og fremst sinnt verkefnastjórn hjá félaginu og annast samskipti við birgja. Faðir hans hefði séð um fjármál og bókhald og einnig séð um að greiða út laun og standa skil á virðisaukaskatti og staðgreiðslu. Hann kvaðst hafa fengið upplýsingar um vanskil á gjöldunum þegar honum var birt boðun í fjárnám 15. apríl 2015. Framburður ákærða fyrir Landsrétti verður ekki skilinn á annan veg en að hann hefði tekið ákvarðanir um að setja í forgang greiðslu launa og skulda við birgja þegar peninga skorti. Þá hefði hann samið við sýslumann um greiðsludreifingu á vanskilum og talið að unnt yrði að gera upp skattskuldirnar þegar greiðslur bærust úr dómsmáli félagsins gegn Atafli ehf., sem síðar hefði tapast. Framburður ákærða fyrir héraðsdómi og í skýrslutöku hjá héraðssaksóknara var í meginatriðum á sama veg og fyrir Landsrétti. Í samantekt af skýrslu sem tekin var af ákærða hjá skattrannsóknarstjóra 19. ágúst 2016 eftir upphafsrannsókn málsins kemur fram að hann hafi annast fjármál félagsins með smá hjálp frá föður sínum og tekið ákvörðun um að skila ekki afdreginni staðgreiðslu og innheimtum virðisaukaskatti. Í andmælabréfi lögmanns ákærða 28. september 2016 við skýrslu skattrannsóknarstjóra kemur fram að ákærði hafi tekið ákvörðun um forgangsröðun á greiðslum hjá félaginu.

6
Í framburði föður ákærða fyrir héraðsdómi og hjá héraðssaksóknara kom fram að hann og ákærði hefðu í sameiningu tekið ákvarðanir um skattskil félagsins.

7
Með vísan til þess sem að framan er rakið er fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að ákærði hafi sem stjórnarmaður og framkvæmdastjóri Vatnsafls – Pípulagna ehf. borið ábyrgð á rekstri félagsins og tekið ákvarðanir um skattskil þess ásamt föður sínum á tímabilinu sem ákæran tekur til. Að þessu gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða og heimfærslu brota hans til refsiákvæða.

8
Varakröfu sína byggir ákærði meðal annars á því að greiðslum sem hafi verið inntar af hendi til lækkunar á höfuðstól þeirra vanskila á staðgreiðslu og virðisaukaskatti sem í ákæru greinir hafi í andstöðu við reglur nr. 797/2016 um greiðsluforgang og skuldajöfnun skatta og gjalda verið ráðstafað upp í álag vegna staðgreiðslu og virðisaukaskatts og skuld vegna opinberra gjalda. Ekkert í þeim gögnum málsins sem liggja ákæru til grundvallar rennir stoðum undir þessa málsvörn ákærða og af hans hálfu hafa ekki verið lögð fram gögn henni til stuðnings. Verður henni því hafnað.

9
Þá byggir ákærði varakröfu sína á því að hluti af þeim vanskilum á sköttum sem ákæran lýtur að stafi af kröfum sem hafi tapast, þar á meðal kröfum á hendur Atafli ehf. Ákærði hefur ekki lagt fram gögn eða með öðrum hætti fært sönnur á að kröfur félagsins hafi tapast. Fyrir liggur að kröfur í dómsmáli sem félagið höfðaði á hendur Atafli ehf. fengust ekki greiddar vegna gagnkrafna sökum tafa á verkinu.

10
Samkvæmt framangreindu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verða ákvæði hans um refsingu ákærða og sakarkostnað staðfest.

11
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins eins og greinir í dómsorði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti.

msorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Óskar Óskarsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 882.663 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Víðis Smára Petersen lögmanns, 843.200 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness föstudaginn 21. september 2018

Mál þetta, sem dómtekið var 7. september 2018, höfðaði héraðssaksóknari með ákæru 16. febrúar 2018 á hendur Óskari Óskarssyni, kt. […], og X, kt. […],

„fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum, ákærða Óskars Óskarssonar sem stjórnarmanns og frá 25. febrúar 2015 framkvæmdastjóra einkahlutafélagsins Vatnsafls–Pípulagna, kt. 471013-0210, nú afskráð, og ákærða X sem varastjórnarmanns félagsins og framkvæmdastjóra til 25. febrúar 2015 en daglegs stjórnanda eftir þann dag, með því að hafa:

1
Ekki staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem var innheimtur í rekstri einkahlutahlutafélagsins, vegna uppgjörstímabilanna nóvember – desember rekstrarárið 2014, janúar – febrúar, mars – apríl, september – október og nóvember – desember rekstrarárið 2015 og mars – apríl 2016, í samræmi við fyrirmæli IX. kafla laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, samtals að fjárhæð 6.695.286 krónur, sem sundurliðast svo:

Árið 2014:
nóvember–desember kr. 1.667.603

Árið 2015:
janúar–febrúar              kr. 1.379.575
mars–apríl                      kr. 2.141.294
september–október     kr. 529.110
nóvember–desember  kr. 811.313
                                         kr. 4.861.292

Árið 2016:
mars–apríl                       kr. 166.391

Samtals kr. 6.695.286 

2
Ekki staðið skil á staðgreiðsluskilagrein einkahlutafélagsins vegna staðgreiðslu opinberra gjalda á lögmæltum tíma vegna greiðslutímabilsins ágúst rekstrarárið 2015 og ekki staðið ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, í samræmi við fyrirmæli III. kafla laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sem haldið var eftir af launum starfsmanna einkahlutafélagsins vegna greiðslutímabilanna desember rekstrarárið 2014 og janúar til og með desember rekstrarárið 2015, samtals að fjárhæð 8.465.191 króna hvað varðar ákærða Óskar Óskarsson og 9.211.178 krónur hvað varðar ákærða X, en þær fjárhæðir vangoldinnar staðgreiðslu sundurliðast svo:

Ákærði Óskar Óskarsson           Ákærði X 

Árið 2014
desember   kr. 996.274               kr. 991.183

Árið 2015
janúar          kr. 778.387                kr. 778.387
febrúar        kr. 1.107.625             kr. 1.083.127
mars            kr. 990.870                 kr. 1.127.866
apríl             kr. 1.278.508             kr. 1.336.545
júlí                kr. 987.636                kr. 1.140.366
ágúst           kr. 867.285                kr. 1.044.210
september kr. 689.122                kr. 876.555
október       kr. 769.484                kr. 769.484
nóvember   kr. 0                            kr. 27.252
desember   kr. 0                            kr. 36.203
                      kr. 7.468.917            kr. 8.219.995

Samtals       kr. 8.465.191          kr. 9.211.178 

Brot ákærðu teljast varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, fyrir brot samkvæmt fyrsta lið ákæru, og sbr. 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, fyrir brot samkvæmt öðrum lið ákæru.“ Er þess krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Ákærðu neita báðir sök og krefjast aðallega sýknu, en til vara vægustu refsingar sem lög heimila og að refsing verði þá bundin skilorði. Þá krefjast þeir þess að allur sakarkostnaður verði lagður á ríkissjóð.

Málsatvik Með bréfi 12. maí 2017 sendi skattrannsóknarstjóri ríkisins héraðssaksóknara til rannsóknar mál er varðaði meint brot ákærða Óskars Óskarssonar á lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988 með áorðnum breytingum og lögum nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda með áorðnum breytingum. Samkvæmt bréfinu var ákærði fyrrverandi fyrirsvarsmaður einkahlutafélagsins Vatnsafls – Pípulagna, en félagið var tekið til gjaldþrotaskipta 22. mars 2017. Skiptum búsins lauk 13. júní 2017 og var félagið afskráð 20. júní það ár. Samkvæmt skráningu í fyrirtækjaskrá RSK var tilgangur félagsins byggingarstarfsemi á sviði pípulagna. Tilefni rannsóknar skattrannsóknarstjóra var athugun embættisins á skilum afdreginnar staðgreiðslu opinberra gjalda og innheimts virðisaukaskatts. Rannsókn embættisins hófst 12. ágúst 2016 með því að tilkynning var send á lögheimili skattaðilans þess efnis að rannsókn væri hafin á uppgjörstímabilum á rekstrarárunum 2014, 2015 og 2016. Í skýrslu sinni hjá skattrannsóknarstjóra kvaðst ákærði Óskar Óskarsson vera framkvæmdastjóri félagsins og annast daglegan rekstur þess. Einnig kvaðst hann annast um fjármál félagsins með smá hjálp frá föður sínum, X. Þá kvaðst hann aðspurður sjálfur hafa tekið ákvörðun um að skila ekki afdreginni staðgreiðslu né innheimtum virðisaukaskatti vegna rekstrarerfiðleika félagsins, og sagði ástæðu þess miklar útistandandi kröfur félagsins sem hann taldi að myndu greiðast innan tíðar. Með bréfi 11. október 2016 var ákærða Óskari Óskarssyni tilkynnt um lok rannsóknar skattrannsóknarstjóra og fyrirhugaða ákvörðunartöku um refsimeðferð, um leið og leitað var eftir afstöðu hans til refsimeðferðar. Svar barst frá tilnefndum verjanda hans, þar sem upplýst var um málflutning fyrir héraðsdómi í máli skattaðila gegn Atafli ehf. Rannsókn skattrannsóknarstjóra leiddi í ljós að ákærði Óskar Óskarsson, sem fyrrverandi stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi Vatnsafls – Pípulagna ehf., hefði vanrækt að standa innheimtumanni ríkissjóðs skil á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda launamanna skattaðilans vegna greiðslutímabilsins desember rekstrarárið 2014 og tímabilanna janúar, febrúar, mars, apríl, júlí, ágúst, september og október rekstrarárið 2015, samtals að fjárhæð 9.507.552 krónur. Afdregin staðgreiðsla af launum ákærða næmi 1.042.361 krónu. Þá taldi skattrannsóknarstjóri ljóst að 10. ágúst 2016 hafi sami ákærði vanrækt að standa innheimtumanni ríkissjóðs að fullu skil á innheimtum virðisaukaskatti í starfsemi félagsins vegna uppgjörstímabilanna nóvember – desember rekstrarárið 2014, janúar – febrúar, mars – apríl, september – október og nóvember – desember rekstrarárið 2015 og mars – apríl rekstrarárið 2016, samtals að fjárhæð 6.695.286 krónur. Var það mat skattrannsóknarstjóra, byggt á gögnum málsins, að þessu hefði ákærði komið til leiðar á saknæman hátt, að því er frekast yrði séð af ásetningi eða í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi.

Samkvæmt gögnum fyrirtækjaskrár RSK var ákærði X framkvæmdastjóri Vatnsafls – Pípulagna ehf., prókúruhafi þess og í varastjórn frá stofnun félagsins, 18. september 2013, til 31. janúar 2015. Ákærði Óskar Óskarsson var stjórnarformaður og prókúruhafi félagsins frá 18. september 2013 til 31. janúar 2015, en eftir það framkvæmdastjóri, aðalmaður í stjórn og prókúruhafi. Ákærði X var þá áfram varamaður í stjórn.

Rannsókn héraðssaksóknara hófst með yfirheyrslu yfir ákærða Óskari Óskarssyni 22. júní 2017. Þar sagðist ákærði sjálfur hafa annast daglegan rekstur félagsins, þ.e. verkefnastjórn og slíkt, en að faðir hans, ákærði X, hefði allan þann tíma sem rannsókn lyti að annast fjármál og skattskil félagsins og í raun haft með framkvæmdastjórn og daglegan rekstur þess að gera. Aðspurður kvaðst hann hafa verið meðvitaður um vanskil vörsluskatta, en þó allt of seint. Þá sagðist ákærði hafa verið nokkuð viss um að dómsmál félagsins á hendur Atafli ehf. myndi vinnast og gæti félagið þá greitt allar skuldir sínar. Málið hafi hins vegar tapast. Þegar ákærði var spurður um tilkynningu til RSK 31. janúar 2015, þar sem hann var skráður framkvæmdastjóri og formaður stjórnar, sagðist hann hafa verið „notaður sem leppur“ og hafa gert þetta fyrir föður sinn, ákærða X. Daglegur rekstur hafi þó haldið áfram eins og verið hafði fyrir þann tíma. Það eina sem hafi breyst var að hann hafi fengið nýjan titil, en faðir hans hafi eftir sem áður séð um hina eiginlegu framkvæmdastjórn, allt þar til í september 2016. Í ljósi framburðar ákærða var einnig tekin skýrsla af ákærða X 28. júní 2017. Var hann fyrst að því spurður hvort framangreind skráning RSK á stjórn félagsins og framkvæmdastjórn væri rétt og játaði hann því. Þá sagði hann: „Sko, framkvæmdastjóri sá náttúrulega um stjórnun á fyrirtækinu. Ég sá um að greiða reikningana og standa skil á launatengdum gjöldum þegar peningur var til.“ Hann var þá að því spurður hvort umsjón hans með greiðslum hafi falið í sér að ákveða hvað skyldi greitt og hvað ekki hverju sinni, og svaraði hann því til að þá ákvörðun hafi þeir feðgar tekið í sameiningu, og bætti við: „...ef að ekki var til peningur þá var ekki hægt að greiða.“ Fram kom einnig í máli hans að báðum hafi þeim feðgum verið kunnugt um greiðslustöðu félagsins gagnvart staðgreiðslu og virðisaukaskatti og væri ábyrgð á fjármálum félagsins þeirra beggja á öllu því tímabili sem um ræðir. Þó kvaðst hann telja að áður en Óskar, sonur hans, varð framkvæmdastjóri hafi hann sjálfur borið meiri ábyrgð.

Framburður fyrir dómi Ákærði Óskar Óskarsson tók fram í upphafi að alltaf hafi verið vilji til að greiða þær skuldir sem mál þetta varðar og hafi það verið reynt af fremsta megni, svo sem peningar hrukku til. Hann kvaðst hafa verið framkvæmdastjóri félagsins og því borið ábyrgð á því sem daglegur stjórnandi í þeim skilningi að hann annaðist verkefnastjórnun, efniskaup o.fl. Hins vegar kvaðst hann ekki hafa annast daglegan rekstur, „bókhaldslega séð“, eins og hann orðaði það, og bætti við að hann hafi ekki verið fróður um fjármál félagsins. Faðir hans og meðákærði, X, hafi séð um að senda út og rukka inn reikninga, svo og að greiða þá reikninga sem þurfti. Einnig hafi hann séð um launaútreikninga, greiðslu launa og opinberra gjalda, en bókhaldsþjónusta hafi annast gerð skilagreina vegna opinberra gjalda, bæði staðgreiðslu og virðisaukaskatts, eftir upplýsingum frá föður hans. Aðspurður sagðist ákærði hafa vitað um vanskil félagsins á sköttum allt það tímabil sem ákæra lýtur að og hafi hann tekið að sér að semja við sýslumann um að greiða vanskilin niður eins og hægt var. Hins vegar hafi hann sjálfur tekið ákvörðun um að láta laun starfsmanna og greiðslur til birgja ganga fyrir. Spurður um ástæðu fyrir rekstrarerfiðleikum félagsins sagðist ákærði rekja þá til lélegs samnings við einn aðalverktaka, Atafl ehf., en félagið hefði tapað um 20 milljóna króna kröfu vegna viðskipta við það fyrirtæki. Ákærði var einnig að því spurður hvort faðir hans hafi í hans huga áfram verið daglegur stjórnandi félagsins eftir þá breytingu sem gerð var á stjórn félagsins í janúar 2015, og svaraði hann því þannig: „Ja, við vorum saman í þessu, en ábyrgðin, auðvitað tæknilega sem framkvæmdastjóra, var alfarið mín.“ Ekki kvaðst ákærði gera neinar athugasemdir við þær fjárhæðir sem fram kæmu í ákæru.

Ákærði X sagðist hafa verið framkvæmdastjóri félagsins á árinu 2014 og fram í janúar 2015, en þá hafi Óskar, sonur hans, tekið við þeirri stöðu. Eftir það hafi sonur hans stýrt fyrirtækinu, en þeir tveir að hluta til unnið sameiginlega að verkefnum félagsins. Hlutverk sitt hafi verið að taka saman dagskýrslur, senda út reikninga og reyna að innheimta þá. Óskar, sonur hans, hefði þó líka komið að þessu. Spurður um hvor þeirra hefði tekið ákvarðanir um skattskil sagði ákærði að Óskar yngri hefði borið ábyrgð á því, en þeir hafi þó að mestu leyti unnið að þessu í sameiningu. Ákvarðanir hafi þó verið teknar af framkvæmdastjóra, Óskari, syni hans. Hins vegar sagðist ákærði hafa tekið þátt í umræðunni þegar tekin var ákvörðun um að forgangsraða greiðslum þannig að fyrst skyldi greiða laun og reikninga birgja, en láta skattskuldir sitja á hakanum. Sú ákvörðun hefði þó einnig að mestu leyti verið sameiginleg. Þá sagði ákærði að skilagreinar vegna staðgreiðslu og virðisaukaskatts hafi verið unnar af bókhaldsstofu, en að fengnum upplýsingum frá honum sjálfum. Jafnframt sagðist hann hafa vitað af vanskilum á sköttum og gjöldum til ríkissjóðs, svo og að gerður hefði verið samningur við sýslumann um greiðslu vanskila, og bætti við að við hann hefði verið staðið eins og kostur var. Spurður um ástæðu þess að breyting var gerð á stjórn félagsins og framkvæmdastjóra í janúar 2015 sagði ákærði að þá hafi hann verið orðinn mjög heilsulaus og því ekki getað einbeitt sér sem skyldi að rekstrinum. Hafi orðið að samkomulagi milli þeirra feðga að sonur hans tæki við rekstrinum. Ekki kvaðst hann fallast á að eftir þá breytingu hafi hann engu að síður verið daglegur stjórnandi, en tók fram að þeir feðgar hefðu stjórnað félaginu í sameiningu. Ekkert hefði þó verið gert án þess að það hefði áður verið borið undir framkvæmdastjórann, Óskar Óskarsson. Ákærði kvaðst engar athugasemdir gera við fjárhæðir í ákæru. Þá sagði hann að skýringu þess að staðgreiðsluskilagrein vegna ágúst 2015 hafi verið skilað of seint mætti líklega rekja til veikinda hans.

Niðurstaða Báðir ákærðu hafa neitað sök og krefjast aðallega sýknu, en til vara vægustu refsingar sem lög heimila og að refsing verði þá bundin skilorði. Í greinargerð ákærða Óskars Óskarssonar er aðallega á því byggt að hann hafi ekki gerst sekur um vanrækslu í skilningi 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 og 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 1. mgr. 262. gr. laga nr. 19/1940. Huglæg afstaða hans hafi ekki náð til þeirra brota sem ákært er fyrir og því beri að sýkna hann af kröfum ákæruvaldsins. Ákærði hafi greint frá því að hann hafi séð um verkefnastjórn og slíkt hjá félaginu, en treyst öðrum fyrir bókhaldinu. Faðir hans og meðákærði, X, hafi séð um daglegan rekstur félagsins í þeim skilningi að hann hafi skilað öllum skýrslum til bókara og farið með fjármálastjórn og skattskil allan þann tíma sem málið lýtur að. Þá hafi ákærði fengið upplýsingar um stöðu mála allt of seint. Jafnframt telur hann sig hafa verið notaðan sem „lepp“, því að meðákærði hafi allan tímann séð um að stýra fjármálum félagsins þótt hann hafi sjálfur verið skráður sem framkvæmdastjóri. Meðákærði hafi þannig séð um eiginlega fjármála- og framkvæmdastjórn félagsins. Í greinargerð meðákærða, X, er einnig á því byggt hann hafi ekki gerst sekur um vanrækslu í skilningi 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 og 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 1. mgr. 262. gr. laga nr. 19/1940. Því beri að sýkna hann af kröfum ákæruvaldsins í málinu. Jafnframt er því alfarið mótmælt að hann hafi verið daglegur stjórnandi félagsins eða komið að starfsemi þess eftir 23. janúar 2015. Af þeirri ástæðu hljóti hann að verða sýknaður af þeim ákæruatriðum sem taki til starfsemi félagsins eftir þann dag, enda bendi ekkert til þess að hann hafi þá verið daglegur stjórnandi félagsins, hann hafi hvorki haft formlegt stöðuumboð né komið að rekstri þess á óformlegan hátt. Þá hafi hann ekki verið í aðstöðu til þess að taka ákvarðanir um fjármál félagsins eða um forgangsröðun greiðslna á reikningum þess.

Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 fer félagsstjórn með málefni félagsins og skal annast um að skipulag félags og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi. Sé framkvæmdastjóri ráðinn fara félagsstjórn og framkvæmdastjóri með stjórn félagsins. Í 3. mgr. sömu greinar segir síðan: „Félagsstjórn skal annast um að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna félagsins. Ef ráðinn er framkvæmdastjóri skal hann sjá um að bókhald félagsins sé fært í samræmi við lög og venjur og meðferð eigna félagsins sé með tryggilegum hætti.“ Í þessu felst meðal annars að framkvæmdastjóra, og eftir atvikum stjórnarmönnum, ber að sjá til þess að staðin séu skil á innheimtum virðisaukaskatti og afdreginni staðgreiðslu í samræmi við lög, og breyta erfiðleikar í rekstri engu um þá ótvíræðu skyldu.

Af framburði ákærðu fyrir dómi verður ekki annað ályktað en að þeir hafi í sameiningu borið ábyrgð á rekstri Vatnsafls – Pípulagna ehf., sem daglegir stjórnendur fyrirtækisins, og sameiginlega tekið ákvarðanir um fjárhagsmálefni félagsins allan þann tíma sem ákæra tekur til, án tillits til skráðrar stöðu hvors um sig innan félagsins. Fyrir liggur einnig að báðum var þeim fullkunnugt um vanskil á virðisaukaskatti og afdreginni staðgreiðslu og tóku þeir sameiginlega ákvörðun um að láta þær greiðslur sitja á hakanum fyrir launagreiðslum og greiðslum til birgja. Er því fullnægt saknæmisskilyrðum samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda. Þegar litið er til fjárhæðar vanskila verða brotin jafnframt talin meiri háttar í skilningi 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Samkvæmt því verða ákærðu sakfelldir fyrir þá háttsemi sem í ákæru greinir.

Ákærðu hafa haldið því fram að fullur vilji hafi staðið til þess að standa í skilum með greiðslu virðisaukaskatts og staðgreiðslu opinberra gjalda, en rekstrarerfiðleikar fyrirtækisins og óvænt áföll hafi komið í veg fyrir það. Benda þeir þannig á að alls hafi 19.888.387 krónur verið greiddar inn á skattaskuldir félagsins frá því að vanskil byrjuðu að myndast 16. janúar 2015 til og með 10. ágúst 2016. Af gögnum málsins má sjá að eftir eindaga virðisaukaskatts vegna uppgjörstímabilsins nóvember – desember 2014 greiddu ákærðu 482.167 krónur inn á höfuðstólsfjárhæðina, 1.667.603 krónur. Einnig greiddu þeir að fullu, en eftir eindaga, frádregna staðgreiðslu launþega vegna greiðslutímabilsins desember 2014. Að öðru leyti verður ekki séð að frekar hafi verið greitt inn á þær fjárhæðir sem í ákæru greinir og eru óumdeildar af hálfu ákærðu. Greiðslur þessar hafa þó engin áhrif til lækkunar fjárhæða í ákæru, enda voru brot ákærðu fullframin þegar greiðslum var ekki skilað á lögmæltum tíma, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987. Á hinn bóginn er heimilt að taka tillit til þessa við ákvörðun refsingar. Með hliðsjón af því og í samræmi við málflutning ákæruvaldsins verður fallist á að undanþága frá fésektarlágmarki 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 eigi við um vanskil á staðgreiðslu opinberra gjalda vegna desembermánaðar 2014. Hins vegar getur dómurinn ekki fallist á að með greiðslu að fjárhæð 482.167 krónur inn á höfuðstólsfjárhæð virðisaukaskatts vegna uppgjörstímabilsins desember 2014 hafi verulegur hluti skattfjárhæðarinnar verið inntur af hendi. Kemur því ekki til álita að beita undanþáguákvæði 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 til að fara niður úr fésektarlágmarki vegna þess tímabils.

Samkvæmt framanrituðu þykir sannað að ákærðu hafi gerst sekir um þá háttsemi sem í ákæru greinir og er þar rétt heimfærð til refsiákvæða. Ákærði Óskar Óskarsson er fæddur í júlí árið 1981 og hefur ekki áður sætt refsingum. Við ákvörðun refsingar verður til þess litið, en einnig til þess að hann var samvinnuþýður við rannsókn málsins og skýrði af hreinskilni frá atvikum. Að því virtu og með hliðsjón af 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í fjóra mánuði, sem bundin verður skilorði á þann veg sem í dómsorði greinir. Samkvæmt framlögðu sakavottorði ákærða X var hann með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 23. janúar 2015 fundinn sekur um brot gegn sömu lagaákvæðum og hann er nú sakfelldur fyrir. Var honum gert að sæta fangelsi í fjóra mánuði, skilorðsbundið til tveggja ára, svo og að greiða 27.000.000 króna í sekt til ríkissjóðs. Ekki hefur hann sætt öðrum refsingum. Áður er þess getið að ákærði X var fyrst yfirheyrður sem sakborningur af héraðssaksóknara 28. júní 2017, og því nokkru eftir lok skilorðstíma samkvæmt áðurnefndum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur. Var því ekki um skilorðsrof að ræða af hans hálfu. Á hinn bóginn hefur hann nú á ný verið fundinn sekur um brot gegn sömu lagaákvæðum og hann var þá sakfelldur fyrir, og ber að líta til þess við ákvörðun refsingar. Til málsbóta horfir þó að ákærði var samvinnuþýður við rannsókn málsins og skýrði hreinskilnislega frá atvikum og þætti sínum í þeim brotum sem hann er sakfelldur fyrir. Þá þykir rétt að taka tillit til aldurs ákærða og heilsufars hans, en samkvæmt framlögðu læknabréfi hefur ákærði verið mikill sjúklingur til margra ára og gengist undir ýmsar rannsóknir og aðgerðir. Að þessu virtu þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í átta mánuði, sem bundin verður skilorði eins og í dómsorði greinir. Samhliða skilorðsbundinni refsivist verða ákærðu í samræmi við fyrirmæli 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 dæmdir til greiðslu fésektar. Verður hún ákveðin tvöföld sú fjárhæð sem vangoldin var, en þó þannig að fallist er á að fara niður úr fésektarlágmarki vegna vanskila á staðgreiðslu opinberra gjalda desembermánaðar 2014. Að því gættu verður ákærða Óskari Óskarssyni gert að greiða 14.250.000 krónur innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa, en sæta ella fangelsi í fimm mánuði, en ákærða X 15.750.000 krónur, sem einnig skulu greiddar innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins, en sæta ella fangelsi í sex mánuði. Með vísan til 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 verður ákærðu gert að greiða málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna, svo og þóknun verjanda á rannsóknarstigi, allt eins og nánar greinir í dómsorði. Við ákvörðun málsvarnarlauna og þóknunar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Ingimundur Einarsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

D ó m s o r ð: 

Ákærði Óskar Óskarsson sæti fangelsi í fjóra mánuði, en fullnustu refsingarinnar skal frestað og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá greiði ákærði 14.250.000 krónur í fésekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja, en sæti ella fangelsi í fimm mánuði. Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir dómi, Daníels Reynissonar lögmanns, 527.000 krónur, auk ferðakostnaðar lögmannsins, 27.840 krónur. Einnig greiði ákærði þóknun skipaðs verjanda síns á rannsóknarstigi málsins, Theodórs Kjartanssonar lögmanns, 255.000 krónur, svo og ferðakostnað lögmannsins, 22.200 krónur. Ákærði X sæti fangelsi í átta mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá greiði ákærði 15.750.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja, en sæti ella fangelsi í sex mánuði. Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Unnars Steins Bjarndal lögmanns, 527.000 krónur.


Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum