2019

Dómur Landsréttar 1. mars 2019 í máli nr. 504/2019

4.3.2019

Ákæruvaldið

(Jón H. B. Snorrason saksóknari)

gegn

Gunnari Rúnari Gunnarssyni

(Kristján Stefánsson lögmaður)

Lykilorð

Virðisaukaskattur. Bókhaldsbrot. Hegningarauki. Sekt.

Útdráttur

G var sakfelldur fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum í rekstri tveggja einkahlutafélaga á nánar tilgreindum tímabilum. Jafnframt var hann sakfelldur fyrir bókhaldsbrot í rekstri annars félagsins. Við ákvörðun refsingar var litið til sakaferils G og tekið tillit til 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, auk þess sem refsing hans var tiltekin sem hegningarauki. Var refsing G ákveðin fangelsi í sex mánuði og honum gert að greiða 13.600.000 króna sekt í ríkissjóð.

Dómur Landsréttar

Mál þetta dæma landsréttardómararnir Aðalsteinn E. Jónasson, Ásmundur Helgason og Ragnheiður Harðardóttir.

Málsmeðferð og dómkröfur aðila

1
Ríkissaksóknari skaut málinu til Landsréttar 15. júní 2018 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Suðurlands 22. maí 2018 í málinu nr. S-33/2017.

2
Af hálfu ákæruvaldsins er krafist staðfestingar hins áfrýjaða dóms.

3
Ákærði krefst sýknu af ákærulið A. Þá krefst hann þess aðallega að ákærulið B verði vísað frá dómi en til vara að hann verði sýknaður af sakargiftum í þeim ákærulið. Að því frágengnu krefst hann mildunar refsingar.

Málsatvik og sönnunarfærsla

4
Ákæra í máli þessu, sem var gefin út 8. mars 2017, er í tveimur stafliðum. Í A-lið hennar er ákærði borinn sökum um meiri háttar brot gegn skattalögum með því að hafa sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður í Listflísum ehf. staðið skil á efnislega rangri virðisaukaskattsskýrslu félagsins fyrir uppgjörstímabilið september-október rekstrarárið 2008 og fyrir að hafa ekki staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur hafi verið vegna sama uppgjörstímabils að fjárhæð 3.185.000 krónur. Í B-lið ákærunnar er ákærði annars vegar sakaður um meiri háttar brot gegn skattalögum með því að hafa sem daglegur stjórnandi 36 ehf. ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum félagsins á nánar tilgreindum uppgjörstímabilum rekstrarárið 2014 og fyrir að hafa ekki staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti, sem innheimtur hafi verið í rekstri félagsins vegna sömu uppgjörstímabila, samtals að fjárhæð 1.371.519 krónur. Hins vegar er ákærði í þessum ákærulið borinn sökum um að hafa látið undir höfuð leggjast að færa tilskilið bókhald sama félags í samræmi við kröfur laga nr. 145/1994, um bókhald, vegna starfsemi þess rekstrarárið 2014.

5
Í tilefni af atvikum sem lýst er í A-lið ákærunnar og lúta að rekstri Listflísa ehf. ber að geta þess að ákærði var með dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra 15. desember 2010 sakfelldur fyrir meiri háttar skattalagabrot í rekstri sama félags með því að hafa staðið skil á efnislega rangri virðisaukaskattsskýrslu vegna uppgjörstímabilsins janúar-febrúar 2008 og að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti að fjárhæð 614.950 krónur sem og fyrir meiri háttar bókhaldsbrot vegna starfsemi félagsins á rekstrarárinu 2008. Þá var ákærði jafnframt sakfelldur fyrir meiri háttar skattalaga- og bókhaldsbrot í sjálfstæðri atvinnustarfsemi sinni á árinu 2007. Ákæran í því máli, sem gefin var út 21. október 2010, átti rætur að rekja til rannsóknar skattrannsóknarstjóra sem hófst 16. desember 2008 en fram kemur í dóminum að ákærði hafi verið yfirheyrður vegna þeirrar rannsóknar 4. febrúar 2009.

6
Með bréfi til ríkisskattstjóra 28. júlí 2008 óskaði maður að nafni A eftir endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu á byggingarstað við íbúðarhúsnæði í Reykjanesbæ. Með erindinu fylgdi sölureikningur 28. október 2008 sem ónafngreint félag með kennitölu Listflísa ehf. gerði á hendur A. Krafan samkvæmt reikningnum var til komin vegna ásetningar járnaklæðningar, vinnu við „breytingar [á] efri hæð" og við ásetningu „gólfefna og fl." eins og þar segir. Fjárhæð reikningsins nam samtals 16.185.000 krónum en þar af nam virðisaukaskattur 3.185.000 krónum. Reikningurinn bar með sér að vera greiddur með peningum og kvittaði ákærði fyrir greiðslu hans með áritun sinni á hann.

7
Með bréfi 17. mars 2010 hafnaði ríkisskattstjóri beiðni um endurgreiðslu virðisaukaskattsins þar sem reikningurinn uppfyllti ekki formkröfur. Þar var meðal annars vísað til þess að ekki yrði ráðið af reikningnum hver seljandi vinnuframlagsins hefði verið. Með bréfi lögmanns 23. febrúar 2012 voru veittar ítarlegri upplýsingar um tilefni reikningsins og þess getið að verkið hefði verið unnið af hálfu Listflísa ehf. eins og kennitala á reikningnum hefði gefið til kynna. Í bréfinu var meðal annars vísað til tilboðs félagsins í vinnu við tiltekin verk í húsnæðinu. Meðal málsgagna er sundurliðað tilboð sem gert var fyrir hönd þess félags en það er dagsett 1. september 2008. Nam heildarfjárhæð tilboðsins 12.989.195 krónum án virðisaukaskatts. Í ljósi þessara upplýsinga féllst ríkisskattstjóri á að endurgreiða 60% af virðisaukaskatti vegna vinnu á byggingarstað í samræmi við reglur sem giltu á útgáfudegi reikningsins.

8
Með bréfi ríkisskattstjóra 14. apríl 2010 barst skattrannsóknarstjóra afrit framangreinds reiknings Listflísa ehf. 28. október 2008. Var athygli jafnframt vakin á því að félagið hefði skilað „núllskýrslu" fyrir tímabilið september-október 2008, ekki greitt laun á árinu 2008 samkvæmt staðgreiðsluskrá og engum launamiðum skilað. Á grundvelli þessarar tilkynningar hóf skattrannsóknarstjóri 4. mars 2013 rannsókn á virðisaukaskattsskilum Listflísa ehf. en þá var tekin skýrsla af ákærða hjá embætti skattrannsóknarstjóra. Þar staðfesti ákærði að hafa skipað stjórn Listflísa ehf. og verið framkvæmdastjóri félagsins með prókúru frá 20. febrúar 2008, eins og vottorð fyrirtækjaskrár bæri með sér. Þá kannaðist hann við reikninginn 28. október 2008 og að hafa unnið umrætt verk. Kvaðst hann hafa fengið einhvern hluta reikningsins greiddan en um helmingur hans hafi verið fyrir vinnu en afgangurinn verið vegna efniskostnaðar. Ákærði gat ekki afhent bókhaldsgögn félagsins. Niðurstaða rannsóknar skattrannsóknarstjóra var að ákærði hefði staðið skil á rangri virðisaukaskattsskýrslu fyrir uppgjörstímabilið september-október 2008, að vantalin skattskyld velta Listflísa ehf. næmi 13.000.000 króna og vantalinn útskattur 3.185.000 krónum. Með bréfi 13. nóvember 2013 var málið sent embætti sérstaks saksóknara.

9
Ákærði var yfirheyrður hjá embætti sérstaks saksóknara 12. júní og 11. júlí 2014. Í fyrri skýrslunni kannaðist hann við að hafa unnið umrætt verk og verið með tvo „stráka" með sér. Kvað hann A hafa útbúið reikninginn en að ákærði hafi síðan kvittað undir og fengið 500.000 krónur greiddar á staðnum í reiðufé. Þá kvaðst hann hafa fengið „eitthvað" greitt í peningum og „eitthvað" í úttektum á veitingastað og í víni. Spurður um skýrslu um virðisaukaskatt fyrir umrætt uppgjörstímabil kvaðst hann hafa sett hana „þarna inn sjálfur". Í síðari skýrslunni kvaðst ákærði hafa verið að vinna „heilmikið" fyrir A og annan nafngreindan félaga hans og þá fengið greitt í „víni og ýmsum öðrum hlutum" sem hann vildi ekki útskýra nánar. Þá hafi hann fengið greidda peninga af og til á sex mánaða tímabili, samtals um tvær milljónir króna.

10
A var yfirheyrður tvívegis við rannsókn málsins hjá sérstökum saksóknara og hafði þá réttarstöðu sakbornings. Í fyrri skýrslutökunni, 21. júlí 2014, kvað hann ákærða hafa unnið umrætt verk á grundvelli tilboðs, verið með útlendinga í vinnu hjá sér og fengið greitt í peningum eftir framgangi verksins. Enginn efniskostnaður hefði verið inni í reikningsfjárhæðinni. Í síðari skýrslutökunni 25. september 2014 var farið yfir bankagögn og aðrar fjárhagsupplýsingar frá A en rannsakendur töldu þessi gögn ekki skýra greiðslurnar sem reikningurinn bæri með sér. Var A gefinn frestur í tvær vikur til þess að leggja fram frekari gögn. Í málsgögnum eru ekki fleiri gögn um téðar greiðslur.

11
Eins og rakið er í héraðsdómi bar ákærði þar fyrir dómi að hann hefði verið í neyslu á þeim tíma sem reikningurinn var gerður. Enginn rekstur hafi verið í Listflísum ehf. og kvað hann reikninginn, sem hann skrifaði undir, hafa verið tilbúning. Hafi hann fengið 300.000 krónur greiddar „af honum". Fyrrgreindur A gaf einnig símaskýrslu fyrir héraðsdómi. Þar var honum meðal annars leiðbeint um að honum væri óskylt að svara spurningum ef ætla mætti að í svarinu gæti falist játning um refsiverðan verknað. Kvað vitnið ákærða hafa unnið umrætt verk og að reikningurinn hefði verið greiddur. Þegar verjandi ákærða spurði hann um tilboðið í verkið og hver hefði „sett upp" reikninginn kaus vitnið að tjá sig ekki frekar um málið.

12
Rannsókn skattrannsóknarstjóra vegna atvika sem lýst er í B-lið ákærunnar hófst 27. maí 2015 þegar ákærða var tilkynnt símleiðis að rannsókn á bókhaldi og virðisaukaskattsskilum 36 ehf. væri hafin. Af því tilefni var tekin skýrsla af ákærða hjá skattrannsóknarstjóra 13. ágúst 2015. Þar kvaðst ákærði hafa verið eigandi félagsins á þeim tíma sem um ræðir og hafi hann einn stýrt því. Við skýrslutökuna voru bornir undir hann níu reikningar 36 ehf. sem gefnir voru út á tímabilinu júní til desember 2014 á hendur E ehf. að fjárhæð samtals 20.437.200 krónur þar af 4.152.579 krónur í virðisaukaskatt. Kannaðist hann við reikningana og þá vinnu sem að baki þeim lá en kvaðst einungis hafa fengið óverulegan hluta þeirra greiddan. Þá kannaðist hann einnig við fimm reikninga félagsins á hendur B, samtals að fjárhæð 2.677.200 krónur og 682.687 krónur í virðisaukaskatt. Kvaðst hann hafa innt umrædda vinnu af hendi og fengið reikningana greidda að hluta í peningum og að hluta í vörum. Að lokum var borið undir hann tilboð 36 ehf. í málningarvinnu á húsnæði við [...] í Reykjavík að fjárhæð 897.200 krónur. Bar ákærði að hann hefði unnið verkið með þremur félögum sínum og fengið greitt inn á reikning sinn.

13
Í skýrslu skattrannsóknarstjóra 29. desember 2015 var komist að þeirri niðurstöðu að skattaðila hafi borið að gera grein fyrir skattskyldri veltu að fjárhæð 5.425.918 krónur á skýrslum fyrir uppgjörstímabilin maí-júní, júlí-ágúst, september-október og nóvember-desember 2014 og standa skil á útskatti að fjárhæð samtals 1.383.609 krónum. Um sölureikninga sem gefnir voru út á hendur E ehf. var talið að þeir væru að mestu tilhæfulausir, en þar sem 36 ehf. hefði sannanlega fengið 2.552.500 krónur greiddar hafi að minnsta kosti átt að gera grein fyrir því og standa skil á skattskyldri veltu og útskatti vegna þeirrar fjárhæðar.

14
Með bréfi skattrannsóknarstjóra 13. júní 2016 var málinu er laut að skattskilum fyrir 36 ehf. vísað til embættis héraðssaksóknara. Ákærði gaf skýrslu við rannsókn málsins hjá héraðssaksóknara 30. janúar 2017. Þar áréttaði ákærði að hann hefði stýrt félaginu og borið ábyrgð á rekstri þess. Ekkert bókhald hefði verið haldið í rekstri félagsins. Staðfesti hann að hann hefði tekið við fjórum greiðslum, samtals að fjárhæð 897.200 krónur, frá húsfélaginu [...]. Spurður um greiðslur frá E ehf. kvaðst hann hafa fengið 200.000 krónur greiddar í reiðufé frá félaginu en hann hefði einnig fengið greitt með ýmsum verkfærum og fíkniefnum, enda hafi hann verið í mikilli neyslu fíkniefna á þessum tíma. Bar hann að sölureikningarnir væru tilhæfulausir utan mögulega einn reikningur. Um reikninga 36 ehf. á hendur B sagði ákærði að hann hefði ekki fengið greitt nema um 150 til 400 þúsund krónur í peningum, en hluti reikninganna hafi verið tilhæfulaus.

15
Fyrir héraðsdómi bar ákærði að hann hefði tekið við rekstri 36 ehf. í október eða nóvember 2014 og enginn rekstur verið í félaginu frá þeim tíma. Kvaðst hann hafa verið „útfararstjóri" félagsins og ekkert annað. Hann kannaðist hins vegar við að hafa gefið út eitthvað af þeim reikningum félagsins sem fyrir liggi en það hafi allt verið „svona eiginlega eiturlyfjatengt … skipti á nótum og lyfjum". Hann kannaðist þó við tilboð í málningarvinnu á húsi við [...] og greiðslu 897.200 króna inn á sinn reikning af því tilefni. Þá bar hann að hann hefði aðeins fengið 200 til 300 þúsund krónur greiddar af reikningum sem gefnir voru út á hendur E ehf. auk fíkniefna. Að lokum kannaðist hann við útgáfu reikninga á hendur B og kvaðst hann hafa fengið hluta þeirra greiddan í peningum og hluta í vörum. Þá rak hann ekki minni til þess að hafa skilað virðisaukaskattsskýrslum fyrir félagið á árinu 2014.

16
Vitnið B gaf símaskýrslu í héraði en símasambandið rofnaði í miðri skýrslutöku. Áður en það gerðist hafði vitnið greint frá því að hann kannaðist við þá fimm reikninga sem 36 ehf. hafði gefið út á hendur honum og staðfesti þá vinnu sem legið hafi til grundvallar útgáfu reikninganna. Við meðferð málsins fyrir Landsrétti gaf vitnið viðbótarskýrslu. Þar bar hann að um raunverulega vinnu hefði verið að ræða og að reikningarnir hefðu verið greiddir með peningum. Þó kunni að vera að þeir hafi einnig verið greiddir í sápu eða vél til að þrífa sæti í bifreiðum. Hafi fjórir til fimm menn unnið að verkinu og hafi hann í fyrstu verið í sambandi við „D" vegna verksins, en kannaðist einnig við að hafa verið í samskiptum við ákærða.

Niðurstaða

Ákæruliður A

17
Eins og rakið hefur verið er ákærði meðal annars borinn sökum um að hafa skilað rangri virðisaukaskattsskýrslu fyrir hönd Listflísa ehf. fyrir uppgjörstímabilið september-október 2008. Samkvæmt vottorði fyrirtækjaskrár var ákærði einn stjórnarmaður og framkvæmdastjóri félagsins á þeim tíma er skila bar virðisaukaskattsskýrslu fyrir umrætt uppgjörstímabil 5. desember 2008, sbr. 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Ákærði hefur mótmælt því að hafa skilað virðisaukaskattsskýrslum fyrir þetta félag.

18
Í málinu liggur fyrir skjal þar sem heiti félagsins er tilgreint auk skráningarnúmers en skjalið ber með sér að lúta að uppgjörstímabili „40" árið 2008. Þar hefur verið merkt við „0" í alla reiti á skjalinu. Hvergi kemur þar fram frá hverjum það stafi en ætla verður að það sé fengið úr tölvukerfi skattyfirvalda. Ekki verður af því ráðið hvort fyrirsvarsmaður Listflísa ehf. hafi fyllt út í reitina eða veitt skattyfirvöldum þær upplýsingar sem þangað rötuðu. Ber skjalið því ekki með sér að ákærði hafi skilað rangri skýrslu um innheimtan virðisaukaskatt á umræddu tímabili, eins og hann er borinn sökum um. Ákæruvaldið ber sönnunarbyrðina um að svo hafi verið, sbr. 108. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Í ljósi andmæla ákærða og þess sem hér hefur verið rakið er ekki hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um framangreinda háttsemi. Gögn sem ákæruvaldið lagði fram við upphaf aðalmeðferðar málsins fyrir Landsrétti, eftir að frestur samkvæmt 3. mgr. 203. gr. laga nr. 88/2008 var liðinn, breyta ekki þeirri niðurstöðu. Ekki er ákært fyrir að hafa látið hjá líða að skila virðisaukaskattsskýrslu á lögmæltum tíma. Því ber að sýkna ákærða af þessum þætti ákæruliðar A.

19
Ákærði er í ákærulið A einnig borinn sökum um að hafa vanrækt að standa ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur hafi verið í rekstri Listflísa ehf. vegna uppgjörstímabilsins september-október 2008 samtals að fjárhæð 3.185.000 krónur. Í málinu liggur fyrir reikningur Listflísa ehf. að fjárhæð 16.185.000 krónur, en þar af nam virðisaukaskattur 3.185.000 krónur, á hendur A frá 28. október 2008 vegna vinnu við húsbyggingu í Reykjanesbæ. Hér fyrir dómi hefur ákærði borið því við að reikningurinn sé tilhæfulaus og gerður af verkkaupa í óheiðarlegum tilgangi gegn tiltekinni greiðslu.

20
Í málinu liggur fyrir tilboð 1. september 2008 sem verkkaupi lagði fram til stuðnings kröfu sinni um endurgreiðslu virðisaukaskatts. Tilboðið ber með sér að stafa frá Listflísum ehf. en er óundirritað af hálfu fyrirsvarsmanns félagsins. Það er í fimm liðum er snúa að mismunandi verkþáttum en ekki er þar gert ráð fyrir efniskostnaði. Í fjórum liðum tekur verð mið af einingarverði og magni í fermetrum en tímafjölda í einum lið. Fram kemur í tilboðinu að áætlaður verktími sé einn til tveir mánuðir en tæplega tveir mánuðir liðu frá dagsetningu tilboðs þar til reikningur vegna vinnunnar var gefinn út. Eins og áður segir nam heildartilboðsverð 12.989.195 krónum án virðisaukaskatts. Um einn fimmti hluti þeirrar fjárhæðar laut að uppsetningu á hurðum og innréttingum. Áætlaðar voru 505 klukkustundir í þá vinnu en það svarar til tæplega þriggja mánaða dagvinnu eins manns.

21
Gögn málsins bera með sér að við rannsókn þess hafi vaknað grunur um að reikningurinn væri ekki réttur meðal annars í ljósi fjárhæðar hans og verktíma. Af því tilefni var verkkaupa, A, sem þá hafði stöðu sakbornings, gert að leggja fram gögn um greiðslur til Listflísa ehf., eins og rakið hefur verið. Ekki er að sjá að nein gögn um greiðslur verkkaupa til félagsins hafi borist þeim sem höfðu rannsóknina með höndum. Þess ber þó að geta að ekkert liggur fyrir um að verkkaupa hafi verið skylt að lögum að halda bókhald.

22
Ákærði hefur verið óskýr í framburði sínum um vinnuframlag Listflísa ehf. og um greiðslur fyrir verkið sem og um það hverjir hafi unnið að því fyrir félagið. Við rannsókn málsins bar hann þó að vinnan hefði verið innt af hendi eins og reikningurinn bæri með sér þó að greiðslu hafi ekki verið hagað á þann veg sem þar segi og Listflísar ehf. ekki fengið reikninginn greiddan nema að hluta. Það var fyrst við aðalmeðferð málsins í héraði sem ákærði kvað reikninginn tilbúning án þess þó að hann skýrði það frekar.

23
Gögn málsins bera með sér að Listflísar ehf. hafi verið skattskyldur aðili í skilningi II. kafla laga nr. 50/1988. Samkvæmt 7. gr. laganna er skattverð það verð sem virðisaukaskattur er reiknaður af við sölu á vörum og verðmætum og skattskyldri vinnu og þjónustu. Miðast skattverð við heildarendurgjald eða heildarandvirði hins selda án virðisaukaskatts. Heildarskattverð allrar vinnu og þjónustu, sem innt hefur verið af hendi á uppgjörstímabili, telst til skattskyldrar veltu samkvæmt 11. og 13. gr. laga nr. 50/1988. Samkvæmt 15. gr. laganna ber skattskyldum aðila að greiða í ríkissjóð mismun útskatts og innskatts hvers uppgjörstímabils sem nánar er lýst í 24. gr. laganna. Með útskatti er þá átt við þann virðisaukaskatt sem fellur á skattskylda sölu eða afhendingu skattaðila á tímabilinu. Innskattur er hins vegar sá virðisaukaskattur sem fellur á sama tíma á kaup skattaðila á skattskyldum vörum og þjónustu til nota í rekstrinum. Þá eru í VIII. kafla laganna lagðar sérstakar skyldur á skattskylda aðila til að haga bókhaldi sínu á ákveðinn hátt. Telst sala skattskyldra aðila samkvæmt lögunum skattskyld að því marki sem þeir geta ekki sýnt fram á með bókhaldi og gögnum sem þeim er skylt að halda að salan sé undanþegin virðisaukaskatti, sbr. 19. gr. laganna. Þar segir enn fremur að vanræki aðili að taka virðisaukaskatt af vöru eða þjónustu sem skattskyld er samkvæmt lögunum beri honum engu að síður að standa skil á skattinum. Skal við sérhverja sölu eða afhendingu á vöru eða skattskyldri þjónustu gefa út reikning, eins og mælt er fyrir um í 1. mgr. 20. gr. laganna. Þá segir í 1. mgr. 24 .gr. laganna að sú skylda hvíli á skráningarskyldum aðilum að greiða ótilkvaddir eftir lok hvers uppgjörstímabils það sem þeim ber að standa skil á samkvæmt lögunum.

24
Af framangreindum fyrirmælum laga nr. 50/1988 leiðir að skattskyldum aðila ber við uppgjör á skattskyldri veltu að taka mið af innheimtum eða eftir atvikum lögmæltum virðisaukaskatti, hafi hann ekki verið innheimtur, við sölu á vöru og þjónustu óháð því hvort útgefinn reikningur vegna viðskiptanna hafi fengist greiddur og með hverju. Við uppgjörið er aðeins unnt að draga frá tapaðar útistandandi viðskiptaskuldir auk endurgreiðslu og afslátt eftir fyrirmælum 5. mgr. 13. gr. laga nr. 50/1988, sbr. enn fremur VII. og VIII. kafla sömu laga. Þegar efni standa til þess verður skattaðili að gera grein fyrir þeim viðskiptaskuldum sem tapast hafa með skýrslugjöf til ríkisskattstjóra samkvæmt 6. gr. reglugerðar nr. 667/1997, um framtal og skil á virðisaukaskatti, með síðari breytingum.

25
Ákærði gaf sem fyrirsvarsmaður Listflísa ehf. út fyrrgreindan reikning vegna sölu á þjónustu og innheimti við það virðisaukaskatt. Ófært er að draga þá ályktun af því sem fyrir liggur í málinu að sú þjónusta hafi ekki verið veitt eins og reikningurinn ber með sér. Bar ákærði ábyrgð á því að Listflísar ehf. stæði á lögmæltum tíma skil á þeim virðisaukaskatti sem þannig var innheimtur í rekstri félagsins en rannsókn málsins hefur ekki leitt í ljós neinn innskatt hjá því á uppgjörstímabilinu sem unnt var að draga frá útskatti. Getur ákærði ekki borið við vanþekkingu á skyldum sínum að þessu leyti. Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 er refsing lögð við vanrækslu eins og hér er lýst og var brot ákærða fullframið þegar greiðsla var ekki innt af hendi á réttum tíma 5. desember 2008.

26
Í ljósi þeirrar fjárhæðar sem um er að tefla og að teknu tilliti til þess að ákærði hefur áður gerst sekur um skattalaga- og bókhaldsbrot ber að virða framangreint brot hans í A-lið ákæru sem meiri háttar brot gegn 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 í skilningi 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 3. mgr. sömu lagagreinar. Brot gegn ákvæðinu varðar allt að sex ára fangelsi. Því fyrnist sök ákærða á 10 árum, sbr. 3. tölulið 1. mgr. og 4. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga. Fyrningarfrestur var hvorki liðinn þegar rannsókn málsins hófst né þegar hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp. Ber samkvæmt framansögðu að staðfesta niðurstöðu hans um að sakfella ákærða fyrir þennan þátt í ákærulið A og um heimfærslu brotsins.

Ákæruliður B

27
Eins og rakið hefur verið er ákærði í þessum ákærulið annars vegar borinn sökum um að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum 36 ehf. fyrir nánar tilgreind uppgjörstímabil árið 2014 og að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri félagsins á sama tímabili samtals að fjárhæð 1.371.519 krónur. Hins vegar er ákærða gefið að sök að hafa látið undir höfuð leggjast að færa tilskilið bókhald einkahlutafélagsins rekstrarárið 2014. Ákærði krefst þess aðallega að þessum ákærulið verði vísað frá dómi en til vara að hann verði sýknaður af sakargiftum. Röksemdir hans fyrir báðum kröfunum eru samtvinnaðar. Vísar hann til þess að sakargögn málsins eigi að nokkru leyti rætur að rekja til rannsóknar á málum annarra aðila sem ekki hafi verið yfirheyrðir í þágu rannsóknar á máli ákærða. Þá séu ekki lögð fram gögn sem styðja að hann hafi haft með skattskil félagsins að gera eða vörslu bókhaldsgagna. Jafnframt hafi félagið ekki haft með höndum neina starfsemi og aðkoma hans að því hafi í reynd verið svokölluð útfararþjónusta. Hafi vinna fyrir húsfélagið [...] ekki verið unnin á vegum félagsins auk þess sem samskipti félagsins við E ehf. og B hafi ekki falið í sér virðisaukaskattsskyld viðskipti.

28
Ákærði hefur ekki fært viðhlítandi rök fyrir því að málatilbúnaður ákæruvaldsins sé haldinn einhverjum þeim formannmörkum er leitt geti til þess að málinu verði vísað frá dómi. Málsvarnir ákærða sem að framan greinir lúta í öllum aðalatriðum að því hvort ákæruvaldið hafi fullnægt skilyrðum 108. gr. og 109. gr. laga nr. 88/2008 um sönnun sakargifta á hendur honum. Takist ákæruvaldinu ekki slík sönnun leiðir það til sýknu en ekki frávísunar. Því ber að hafna aðalkröfu ákærða um frávísun málsins.

29
Samkvæmt tilkynningu til fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra um breytingu á stjórn 36 ehf. tók C, bróðir ákærða, við stjórnarformennsku í félaginu 24. mars 2014 og ákærði varð varamaður í stjórn þess. D lét þá af setu í stjórn félagsins en var áfram skráður prókúruhafi uns tilkynnt var um afturköllun hans á því umboði 15. september 2014. Í athugasemdum í tilkynningunni kemur fram að D hafi talið sig vera „löngu kominn frá stjórn og prókúru" félagsins. Tilkynnt var um úrsögn C úr stjórn félagsins til fyrirtækjaskrár 25. september 2014. Skráð staða ákærða hjá félaginu var óbreytt uns það var tekið til gjaldþrotaskipta 17. september 2015.

30
Leggja verður til grundvallar að 36 ehf. hafi verið skattskyldur aðili í skilningi II. kafla laga nr. 50/1988. Ákæruliður B lýtur að gjaldatímabilunum maí-júní, júlí-ágúst og september-október 2014. Greiða bar virðisaukaskatt vegna fyrsta tímabilsins 5. ágúst, þess næsta 5. október og þess síðasta 5. desember 2014, sbr. 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988. Við skýrslugjöf hjá skattrannsóknarstjóra kvaðst ákærði hafa verið eigandi 36 ehf. allt árið 2014 og hafa stýrt því en bróðir hans hafi verið skráður stjórnarformaður að beiðni ákærða. Staðfesti ákærði þetta í skýrslutöku hjá héraðssaksóknara, en þar kvað hann C ekki hafa komið formlega að rekstri félagsins. Fyrir héraðsdómi bar ákærði á annan veg. Kvaðst hann ekki hafa tekið við félaginu fyrr en í október eða nóvember 2014 og verið „útfararstjóri, ekkert annað".

31
Í málinu liggur fyrir samþykkt tilboð 21. maí 2014, sem ákærði skrifaði undir fyrir hönd 36 ehf., í málningarvinnu fyrir húsfélagið [...]. Fyrir dómi kannaðist ákærði við þennan gerning. Kvaðst hann hafa unnið þá vinnu sem um var samið og fengið greitt fyrir hana inn á sinn eigin reikning. Þá kannaðist hann einnig við að hafa gefið út fimm reikninga á hendur B. Sendandi þeirra var í öllum tilvikum félagið 36 ehf. og er elsti reikningurinn frá 3. september 2014. Gögn málsins gefa því til kynna að ákærði hafi komið fram fyrir hönd 36 ehf. og skuldbundið félagið nokkru fyrr en hann sagði fyrir dómi að hann hefði tekið við rekstri þess. Er það enn fremur í samræmi við framburð hans á rannsóknarstigi. Því ber að fallast á með ákæruvaldinu að sannað sé að ákærði hafi verið daglegur stjórnandi 36 ehf. og að á honum hafi hvílt skylda til þess að sjá til þess að félagið skilaði virðisaukaskattsskýrslum og virðisaukaskatti af skattskyldri veltu félagsins á þeim uppgjörstímabilum sem ákæruliður B tiltekur. Getur hann ekki borið við vanþekkingu á þessum skyldum sínum.

32
Framangreindur samningur við húsfélagið [...] var gerður fyrir hönd 36 ehf. Ekkert er fram komið í málinu sem styður þá málsvörn ákærða að hann hafi þrátt fyrir það unnið verkið í eigin atvinnustarfsemi en ekki í nafni félagsins. Ákærði hefur staðfest að verkið var innt af hendi og greiddar voru samtals 897.200 krónur fyrir það í samræmi við samninginn. Þessi sala var hluti af skattskyldri veltu 36 ehf. að fjárhæð 714.901 króna og bar ákærða að sjá til þess að tekið væri mið af henni í virðisaukaskattsskilum félagsins vegna uppgjörstímabilsins maí-júní 2014 en virðisaukaskattur af þeirri veltu hafi átt að nema 182.299 krónum.

33
Ákærði gaf út fyrrgreinda reikninga á hendur B vegna sölu 36 ehf. á þjónustu samtals að fjárhæð 3.359.827 krónur og innheimti við það virðisaukaskatt að fjárhæð 682.674 krónur. Ekkert er fram komið sem styður að vinna samkvæmt þessum reikningum hafi ekki verið innt af hendi. Voru viðskiptin hluti af virðisaukaskattsskyldri veltu 36 ehf. að fjárhæð 2.677.153 krónur og hvíldi á ákærða skylda til þess að taka mið af þeirri veltu í virðisaukaskattsskilum félagsins vegna uppgjörstímabilsins september-október 2014.

34
Á tímabilinu frá 11. júní til 27. desember 2014 voru einnig gefnir út níu reikningar af hálfu 36 ehf. á hendur E ehf. Heildarfjárhæð þessara reikninga nam 20.437.200 krónum, þar af 4.152.579 krónum í virðisaukaskatt. Eins og rakið hefur verið leiddi rannsókn á bókhaldi E ehf. í ljós að einungis lítill hluti reikningsfjárhæðanna hafði verið greiddur 36 ehf. Komist var að þeirri niðurstöðu af hálfu skattrannsóknarstjóra að 36 ehf. hefði að minnsta kosti átt að standa skil á virðisaukaskatti vegna þjónustu sem félagið seldi E ehf. og hafði fengið greitt fyrir. Ákæran er reist á sömu forsendum en þar er á því byggt að standa hafi átt skil á virðisaukaskatti af sölu félagsins til E ehf. að fjárhæð samtals 2.493.000 krónur. Þar af hafi virðisaukaskattur numið samtals 506.546 krónum en skattskyld velta verið 1.986.454 krónur. Ekkert liggur fyrir um að vinna sem liggur að baki útgáfu reikninganna að því leyti hafi ekki verið innt af hendi af hálfu 36 ehf. Þessi viðskipti voru því einnig hluti af virðisaukaskattskyldri veltu félagsins og var ákærða sem daglegum stjórnanda þess skylt að taka mið af henni við virðisaukaskattsskil félagsins að fjárhæð 756.972 krónur vegna uppgjörstímabilsins maí-júní 2014 og að fjárhæð 1.229.482 krónur vegna uppgjörstímabilsins júlí-ágúst 2014. Hefði virðisaukaskattur vegna þessara viðskipta átt að nema 193.028 krónum á fyrra tímabilinu og 313.518 krónur á því síðara.

35
Ekki voru staðin skil á virðisaukaskattsskýrslum 36 ehf. á framangreindum uppgjörstímabilum virðisaukaskatts árið 2014. Eins og áður segir bar ákærði sem daglegur stjórnandi félagsins ábyrgð á því að það væri gert. Þá liggur fyrir að á þessum tímabilum nam virðisaukaskattsskyld velta félagsins samtals að minnsta kosti 5.378.508 krónum og vanframtalinn útskattur samtals 1.371.519 krónum sem skiptist á uppgjörstímabil eins og í ákæru greinir. Rannsókn málsins leiddi ekki í ljós innskatt hjá félaginu sem unnt var að draga frá útskatti. Framangreind háttsemi sem ákærði bar ábyrgð á varðar refsingu samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 og var brot hans fullframið á síðasta gjalddaga virðisaukaskattsins 5. desember 2014. Samkvæmt framansögðu ber að staðfesta niðurstöðu um sakfellingu ákærða fyrir vanskil á virðisaukaskattsskýrslum og virðisaukaskatti árið 2014 samkvæmt ákærulið B.

36
Í 3. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga segir að verknaður teljist meiri háttar brot samkvæmt 1. og 2. mgr. sömu greinar ef brotið lýtur að verulegum fjárhæðum, ef verknaður er framinn með sérstaklega vítaverðum hætti eða við aðstæður sem auka mjög saknæmi brotsins, svo og ef maður, sem til refsingar skal dæma fyrir eitthvert þeirra brota sem um getur í 1. eða 2. mgr., hefur áður verið dæmdur sekur fyrir sams konar brot eða eitthvert annað brot sem undir þau ákvæði fellur. Í athugasemdum í frumvarpi því er varð að lögum nr. 39/1995, sem lögfesti núgildandi 262. gr. almennra hegningarlaga, kemur fram að hvert þeirra atriða sem tilgreind eru í 3. mgr. nægi til þess að sakfella megi fyrir brot gegn greininni. Í ljósi þess að ákærði hefur áður verið fundinn sekur um meiriháttar skattalaga- og bókhaldsbrot, og að teknu tillit til þess að fjárhæð reikninganna á hendur E ehf. var umtalsverð, en þeir taldir að verulegu leyti tilhæfulausir, er á það fallist að með framangreindri háttsemi samkvæmt ákærulið B hafi ákærði brotið gegn 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.

37
Eins og áður segir er ákærði í ákærulið B einnig borinn sökum um að hafa látið undir höfuð leggjast að færa tilskilið bókhald félagsins 36 ehf. Bar ákærða sem daglegum stjórnanda félagsins að sjá til þess að bókhaldið væri fært í samræmi við kröfur laga nr. 145/1994, um bókhald. Þeirri skyldu sinnti ákærði ekki og með því bakað hann sér refsiábyrgð samkvæmt þeim refsiákvæðum sem greinir í ákæru um þennan ákærulið. Ber því að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms hvað það varðar.

Viðurlög og sakarkostnaður

38
Samkvæmt framansögðu hefur ákærði verið sakfelldur fyrir meiri háttar skattalagabrot í rekstri Listflísa ehf. árið 2008 samkvæmt ákærulið A og er það brot hegningarauki samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga við brot þau sem hann var dæmdur fyrir með fyrrgreindum dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra 15. desember 2010, sem og við brot á 4. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga sem hann var sakfelldur fyrir í Héraðsdómi Reykjaness 8. mars 2018 og auðgunarbrot sem hann var sakfelldur fyrir í tveimur dómum héraðsdóms 27. júní 2011 og 24. september 2010. Þá hefur ákærði að nýju verið dæmdur fyrir meiri háttar skattalaga- og bókhaldsbrot á árinu 2014. Þau brot ber að virða sem hegningarauka við brot það sem ákærði var dæmdur fyrir í framangreindum héraðsdómi 8. mars 2018, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga. Með vísan til sakaferils ákærða, sbr. 5. tölulið 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga, og að teknu tilliti til 77. gr. sömu laga, er fangelsisrefsing ákærða hæfilega ákveðin í hinum áfrýjaða dómi, en ekki er efni til þess að skilorðsbinda þá refsingu. Með vísan til forsendna héraðsdóms er jafnframt staðfest ákvæði hans um sektarrefsingu ákærða og vararefsingu hennar.

39
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest. Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Gunnar Rúnar Gunnarsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 899.770 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar lögmanns, 843.200 krónur. 12

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 22. maí 2018

Mál þetta, sem dómtekið var þann 27. mars sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurlandi, dagsettri 8. mars 2017 á hendur ákærða, Gunnari Rúnari Gunnarssyni, kt. […], til heimilis að […]:

„A

090-2013-00120

fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum sem framkvæmdastjóra og stjórnarmanni einkahlutafélagsins Listflísar, kt. […], nú gjaldþrota, með því að hafa:

1 Staðið skil á efnislega rangri virðisaukaskattsskýrslu einkahlutafélagsins fyrir uppgjörstímabilið september – október rekstrarárið 2008 og fyrir að hafa eigi staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri félagsins vegna sama uppgjörstímabils, í samræmi við IX. kafla laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, samtals að fjárhæð kr. 3.185.000.

B

300-2016-00080

fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum sem daglegur stjórnandi 36 ehf., kt. […], nú gjaldþrota, með því að hafa:

1 Eigið staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum einkahlutafélagsins fyrir uppgjörstímabilin maí – júní til og með september – október rekstrarárið 2014 og fyrir að hafa eigi staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri félagsins vegna sömu uppgjörstímabila, í samræmi við IX. kafla laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, samtals að fjárhæð kr. 1.371.519 sem sundurliðast sem hér greinir :

maí – júní kr. 375.327

júlí – ágúst kr. 313.518

september – október kr. 682.674

kr. 1.371.519

2. Látið undir höfuð leggjast að færa tilskilið bókhald einkahlutafélagsins í samræmi við kröfur laga nr. 145/1994 um bókhald, vegna starfsemi einkahlutafélagsins rekstrarárið 2014.

Framangreind brot ákærða samkvæmt A og B lið ákæru teljast varða við:

a) 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995 og 3. gr. laga nr. 134/2005, að því er varðar 1. tölulið A og B liðar ákæru.

b) 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig 1. tölulið 1. mgr. 37. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 145/1994 um bókhald, sbr. 1. gr. laga nr. 37/1995, að því er varðar 2. tölulið B liðar ákæru

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar."

Ákærði krefst þess að ákærulið A verði vísað frá dómi en hann verði sýknaður af ákærulið B. 13

Málavextir

Ákæruliður A

Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins til embættis sérstaks saksóknara dagsettu 13. nóvember 2013 var málefnum ákærða vísað til rannsóknar, en ákærði var fyrirsvarsmaður skattaðilans Listflísa ehf. sem þá hafði verið tekið til gjaldþrotaskipta. Hafði skattrannsóknarstjóri tekið ákvörðun um að rannsaka bókhald og virðisaukaskattskil skattaðilans vegna rekstrartímabilsins 1. ágúst 2008 til og með 1. desember sama ár. Í bréfinu kemur fram að ákærða hafi með bréfi dagsettu 4. mars 2013 verið tilkynnt að hafin væri rannsókn á virðisaukaskattskilum skattaðilans. Hafi verið óskað eftir því að afhent yrði fært bókhald og fylgiskjöl svo og öll önnur gögn er varði reksturinn á ofangreindu rekstrartímabili. Hafi rannsóknin síðan verið afmörkuð við tímabilið 1. september 2008 til og með 31. október sama ár. Í skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra hafi ákærði sagt að bókhald hefði ekki verið fært og gæti hann ekki afhent bókhaldsgögn skattaðilans. Talið var að ákærði hefði af ásetningi eða af stórkostlegu hirðuleysi staðið skil á rangri virðisaukaskattskýrslu fyrir hönd skattaðila vegna ofangreinds uppgjörstímabils og með því vanframtalið skattskylda veltu og virðisaukaskatt. Samkvæmt niðurstöðu skattrannsóknarstjóra hafi vanframtalin skattskyld velta numið samtals 13.000.000 krónum og vanframtalinn útskattur samtals 3.185.000 krónum, en ekki séu fyrirliggjandi gögn vegna mögulegs innskatts. Þá hafi ákærða verið gefið að sök að hafa ekki fært tilskilið bókhald, en bókhaldsgögn hafi ekki fengist afhent. Ákærði mun á þeim tíma sem um ræðir hafa verið stjórnarmaður skattaðilans og framkvæmdastjóri hans með prókúru frá 20. febrúar 2008 og hafi starfsemi skattaðilans verið fólgin í viðgerðum og viðhaldi. Í skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra mun ákærði hafa skýrt svo frá að bókhald hefði ekki verið fært vegna trassaskapar. Ákærði kannaðist við að hafa skilað svokallaðri núll-skýrslu vegna uppgjörstímabilsins september-október 2008 og þá staðfesti hann að hafa gefið út reikning dagsettan 28. október 2008 að fjárhæð 16.185.000 krónur. Hann kvaðst ekki hafa fengið reikninginn greiddan en innheimta hans hefði ekki verið reynd til þrautar. Ákærði kvaðst á þessum tíma hafa verið í neyslu og hafi hann talið kostnað skattaðila hafa verið umfram tekjur. Ákærði mun ekki hafa afhent nein gögn um innskattsbær rekstrargjöld.

Ákæruliður B 

Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins til embættis héraðssaksóknara dagsettu 13. júní 2016 var málefnum ákærða vísað til rannsóknar, en ákærði var fyrirsvarsmaður skattaðilans 36 ehf. sem þá hafði verið tekið til gjaldþrotaskipta. Hafði skattrannsóknarstjóri tekið ákvörðun um að rannsaka bókhald og virðisaukaskattskil skattaðilans vegna rekstrartímabilsins maí-júní til og með nóvember-desember rekstrarárið 2014. Í bréfinu kemur fram að ákærða hafi verið tilkynnt símleiðis þann 27. maí 2015 að hafin væri rannsókn á virðisaukaskattskilum skattaðilans og hafi hann móttekið tilkynningu þar að lútandi þann 1. júní sama ár. Hafi rannsókn leitt í ljós að skattaðili hefði skilað efnislega röngum virðisaukaskattskýrslum vegna ofangreindra uppgjörstímabila, bókhald hafi ekki verið afhent og varðveislu bókhaldsgagna hafi verið ábótavant. Þá hafi gögn um innskattsbær rekstrargjöld ekki verið afhent. Hafi rannsóknin leitt í ljós að vanframtalin skattskyld velta hafi numið samtals 5.425.918 krónum og að vanframtalinn útskattur hafi numið samtals 1.383.609 krónum. Samkvæmt gögnum málsins var C skráður stjórnarformaður skattaðila frá 1. janúar 2014 en með tilkynningu þann 24. mars sama ár verður hann einnig framkvæmdastjóri og prókúruhafi. Hann mun hafa sagt sig úr stjórninni með tilkynningu dagsettri 25. september 2014 en ákærði er skráður varamaður frá 1. janúar sama ár. Ákærði skýrði svo frá í skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra að C væri bróðir hans en ákærði hefði sjálfur stýrt félaginu allan tímann, verið eini raunverulegi stjórnandi þess og séð um allt sem hafi viðkomið rekstri þess.

Framburður ákærða og vitna fyrir dómi

Ákærði skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði verið skráður stjórnarmaður með prókúru fyrir fyrirtækið Listflísar ehf. Hann kvaðst á þessum tíma hafa verið í neyslu og myndi hann því lítið eftir þessum tíma. Hann kvað fyrirtækið engan rekstur hafa stundað og engum skattskýrslum hafi verið skilað. Ákærði kannaðist við að hafa gefið út reikning á hendur A að fjárhæð 16.185.000 krónur. Hann kvað 14

reikninginn hafa verið tilbúning og hafi hann ekki verið greiddur að öðru leyti en því en að hann hafi fengið 300.000 krónur. Ákærði kvaðst hafa tekið við félaginu 36 ehf. af bróður sínum í október eða nóvember 2014, en fyrirtækið hafi verið á leiðinni í þrot. Ákærði kannaðist við að hafa verið í varastjórn félagsins frá því í september sama ár. Hann kvað engan rekstur hafa verið í félaginu og hefði hann verið svokallaður útfararstjóri félagsins. Hann kvaðst á þessum tíma einnig hafa verið í neyslu. Hann kannaðist við að virðisaukaskattskýrslum hafi ekki verið skilað. Hann kvaðst hafa gefið út reikninga og fengið fíkniefni í staðinn. Ákærði gerði ekki athugasemdir við þá reikninga sem lagðir hafa verið fram í málinu vegna [...]. Ákærði kannaðist ekki við að hafa fengið greiðslur frá E ehf., að öðru leyti en því að hann hafi fengið 200.000-300.000 krónur greiddar, en um fíkniefnaviðskipti hafi verið að ræða. Ákærði kannaðist við að hafa gefið út reikninga á hendur B og hafi þeir verið greiddir að hluta með peningum og að hluta með vörum. Ákærði kvaðst hafa verið metinn [...] og hafi hann því ekki vitað hvað hann væri að gera á tímabili.

Vitnið A skýrði svo frá í símaskýrslu fyrir dómi að ákærði og félag hans Listflísar ehf. hafi unnið fyrir hann á grundvelli tilboðs og hafi reikningur þar að lútandi verið greiddur. Þá kannaðist hann við að hafa fengið virðisaukaskatt að hluta til endurgreiddan.

Reynt var að taka símaskýrslu af vitninu B en í miðri skýrslutöku sleit vitnið símtalinu og svaraði síðan ekki hringingu til þess og virtist sem síminn hefði verið stilltur á talhólf eða slökkt á honum. Vitnið kannaðist við þá 5 reikninga sem 36 ehf. gaf út á hendur honum og þá staðfesti hann að vinna sem þar hafi verið greind hafi verið unnin. Hann kvaðst hafa greitt reikningana með peningum.

Niðurstaða

Ákærði krefst þess að ákærulið A verði vísað frá dómi og byggir á því að engri virðisaukaskattskýrslu hafi verið skilað. Á dómskjali nr. 4, bls. 33 sést að svokallaðri núllskýrslu hefur verið skilað. Eru því engin efni til þess að vísa þessum ákærulið frá dómi.

Ákærði hefur við rannsókn málsins og fyrir dómi kannast við að hafa verið fyrirsvarsmaður félaganna Listflísa ehf. og 36 ehf. en hann kvað hvorugt þessara félaga hafa stundað rekstur og engum skattskýrslum hafi verið skilað. Þá er upplýst í málinu að bókhaldsgögn hafi ekki verið afhent. Ákærði kannaðist við þá reikninga sem mál þetta snýst um en þeir hafi ýmist verið tilbúningur, ekki verið greiddir eða notaðir í fíkniefnaviðskiptum, en ákærði hefur borið að hann hafi verið í neyslu fíkniefna á þessum tíma. Vitnið A kannaðist við að ákærði og félag hans Listflísar ehf. hafi unnið fyrir hann á grundvelli tilboðs og hafi reikningur þar að lútandi verið greiddur. Þá kannaðist vitnið B við þá 5 reikninga sem 36 ehf. gaf út á hendur honum og þá staðfesti hann að vinna sem þar hafi verið greind hafi verið unnin.

Eins og stöðu ákærða innan ofangreindra félaga var háttað og með vísan til 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög bar honum að sjá til þess að starfsemi félaganna væri í réttu horfi og þá bar honum að tryggja að félögin inntu af hendi lögboðin gjöld og jafnframt að bókhald yrði fært í samræmi við lög. Ákærði hefur að mestu leyti kannast við vanrækslu sína að þessu leyti og engin sannfærandi rök færð fyrir sýknukröfu sinni. Telur dómurinn því sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar þykir rétt færð til refsiákvæða.

Samkvæmt framlögðu sakavottorði ákærða hefur hann 14 sinnum áður verið sakfelldur fyrir refsiverðan verknað og nær sakaferillinn aftur til ársins 1995. Síðast var ákærði dæmdur 8. mars sl. í fjögurra mánaða fangelsi fyrir brot gegn 4. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga. Þann 27. júní 2011 var ákærði dæmdur í tveggja mánaða fangelsi fyrir brot gegn 1. mgr. 248. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 22. gr. laganna. Þann 15. desember 2010 var ákærði dæmdur í 2 mánaða fangelsi og til greiðslu 11.000.000 kr. fésektar fyrir brot gegn 262. gr. almennra hegningarlaga og fleiri brot. Þar áður hlaut ákærði 6 mánaða fangelsisrefsingu samkvæmt dómi 24. september 2010 fyrir fjársvik og umboðssvik. Þá var ákærði sakfelldur en ekki gerð sérstök refsing fyrir gripdeild, fjársvik og skjalafals með dómi 3. október 2008. Þá var ákærði dæmdur í 3 mánaða fangelsi fyrir fjársvik þann 25. október 2002, 30 daga fangelsi fyrir skjalafals þann 11. október 2000, 30 daga fangelsi fyrir fjársvik þann 16. janúar 1997, 8 mánaða fangelsi fyrir skjalafals og þjófnað þann 18. júlí 1995 og 4 mánaða fangelsi fyrir skjalafals, fjársvik og tilraun til 15

þjófnaðar þann 23. mars 1995. Þess utan hefur ákærði verið dæmdur í fangelsi í 6 ár og 10 mánuði samtals fyrir kynferðisbrot með samtals þremur dómum, auk dóma fyrir umferðarlagabrot.

Brot þau sem fjallað er um í A-lið ákærunnar voru framin áður en fjórir síðastgreindir dómar gengu og verður því höfð hliðsjón af ákvæðum 78. gr. almennra hegningarlaga við ákvörðun refsingar ákærða. Með hliðsjón af þessu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði. Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 varða brot gegn ákvæðunum sekt sem aldrei skal vera lægri en nemur tvöfaldri fjárhæð vanskilanna og ekki hærri en tífaldri fjárhæðinni. Brot ákærða voru stórfelld og verður því miðað við þrefalda fjárhæð vanskila. Verður ákærði því jafnframt dæmdur til að greiða 13.600.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa en sæta ella fangelsi í 7 mánuði.

Þá ber með vísan til 1. mgr. 233. gr., sbr. 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Kristjáns Stefánssonar lögmanns, 2.200.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp dóm þennan. Dómsuppkvaðning hefur dregist fram yfir lögbundinn frest en dómari og málflytjendur töldu ekki þörf endurflutnings.

Dómsorð:

Ákærði, Gunnar Rúnar Gunnarsson, sæti fangelsi í 6 mánuði.

Ákærði greiði jafnframt 13.600.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa en sæti ella fangelsi í 7 mánuði.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Kristjáns Stefánssonar lögmanns, 2.200.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum