2019

Dómur Landsréttar 23. október 2019 í máli nr. 443/2019

11.11.2019

Úrskurður Landsréttar miðvikudaginn 23. október 2019.

Mál nr. 443/2019:

Ákæruvaldið 
(Björn Þorvaldsson saksóknari)

gegn
X
(Sigurður G. Guðjónsson lögmaður)

Lykilorð 
Kærumál. Skattalög. Álag. Mannréttindasáttmáli Evrópu. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.

Útdráttur 
Felldur var úr gildi úrskurður héraðsdóms þar sem máli ákæruvaldsins gegn X, sem áður hafði sætt álagi skattyfirvalda vegna sömu brota, var vísað frá dómi. Var það niðurstaða Landsréttar að fullnægt væri skilyrðum um nauðsynlega samþættingu málsmeðferðanna í efni og tíma og því ekki brotið gegn 4. gr. 7. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu. 

Úrskurður Landsréttar

Landsréttardómararnir Aðalsteinn E. Jónasson, Hervör Þorvaldsdóttir og Þorgeir Ingi Njálsson kveða upp úrskurð í máli þessu.

Málsmeðferð og dómkröfur aðila 
1 Sóknaraðili skaut málinu til Landsréttar með kæru 29. maí 2019, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. júní sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. maí 2019 í málinu nr. S-[…]/2019 þar sem vísað var frá dómi máli sóknaraðila gegn varnaraðila. Kæruheimild er í t-lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

2 Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

3 Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Málsatvik og sönnunarfærsla 
4 Málsatvik eru í stuttu máli þau að skattrannsóknarstjóri ríkisins hóf rannsókn á skattskilum varnaraðila í desember 2013 og lauk henni með skýrslu 31. maí 2016, sem var sama dag send ríkisskattstjóra til endurákvörðunar á sköttum varnaraðila, sbr. 6. mgr. 103. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt.

5 Með úrskurði 8. júní 2018 hækkaði ríkisskattstjóri tekjuskatts- og útsvarsstofn varnaraðila um 141.726.000 krónur gjaldárið 2008, um 34.302.442 krónur gjaldárið 2010 og um 20.000.000 króna gjaldárið 2011 að viðbættu 25% álagi samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Varnaraðili greiddi upp skattskuld sína ásamt álagi í júlí 2018.

6 Varnaraðili skaut úrskurði ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar með kæru 6. september 2018. Með úrskurði 30. janúar 2019 lækkaði nefndin tekjufærslu ríkisskattstjóra gjaldárið 2008 um 80.250.000 krónur og álag því til samræmis en hafnaði kröfum varnaraðila að öðru leyti.

7 Með bréfi 9. febrúar 2017 beindi skattrannsóknarstjóri máli varnaraðila til rannsóknar hjá embætti héraðssaksóknara. Kom þar fram að málið væri sent á grundvelli fyrirliggjandi gagna um rannsókn á tekjum og skattskilum varnaraðila og rannsókn á bókhaldi og skattskilum Z ehf. Væri það mat skattrannsóknarstjóra að varnaraðili hefði vantalið tekjur að fjárhæð samtals 162.644.772 krónur sem runnið hefðu til hans frá Y ehf. og Z ehf. Varnaraðili gaf skýrslu hjá héraðssaksóknara 15. maí 2018. Að auki voru fjórir einstaklingar yfirheyrðir sem vitni 23. apríl, 7. og 14. maí og 13. september 2018 og tveir sem höfðu réttarstöðu sakborninga í tengslum við rannsókn á skattskilum varnaraðila og Z ehf. Að undanskildu einu vitni höfðu þessir aðilar gefið skýrslu við rannsókn málsins hjá skattrannsóknarstjóra á sínum tíma.

8 Mál þetta var höfðað á hendur varnaraðila með ákæru héraðssaksóknara 14. febrúar 2019 fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum með því að hafa staðið skil á efnislega röngum skattframtölum gjaldárin 2008, 2010 og 2011 vegna tekjuáranna 2007, 2009 og 2010. Sagði í ákæru að ákærði hefði látið undir höfuð leggjast að telja fram á skattframtölum sínum tekjur samtals að fjárhæð 115.778.442 krónur í formi úttekta hans úr einkahlutafélögunum Y og Z sem skattskyldar væru samkvæmt 2. mgr. 4. töluliðar A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og 19. og 21. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Hafi ákærði með því komið sér hjá því að greiða tekjuskatt og útsvar samtals að fjárhæð 43.938.610 krónur. Voru brot ákærða í ákæru talin varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga.

9 Við þingfestingu málsins 22. febrúar 2019 upplýsti verjandi ákærða að gerð yrði krafa um að því yrði vísað frá dómi. Var formleg krafa þar um sett fram í greinargerð ákærða sem lögð var fram við fyrirtöku málsins 6. maí 2019 og var það flutt um hana þegar í þessu sama þinghaldi. Var krafan meðal annars á því byggð að með ákvörðun ríkisskattstjóra um skattálag samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 hefði varnaraðila verið gerð refsing í skilningi 4. gr. 7. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu. Höfðun þessa máls þar sem þess væri krafist að varnaraðila yrði öðru sinni gerð refsing fyrir sömu brotin færi í bága við þetta ákvæði sáttmálans. Með hinum kærða úrskurði var fallist á frávísunarkröfuna á þessum grunni en hún var að auki reist á því að ákæra í málinu væri ekki í samræmi við 152. gr. laga nr. 88/2008 og að við meðferð málsins hefði verið brotið á rétti ákærða til að fella ekki á sig sök.

Niðurstaða 

10 Samkvæmt t-lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 sætir kæru til Landsréttar úrskurður héraðsdóms um að máli sé vísað frá dómi. Samkvæmt gagnályktun frá þessu ákvæði verður ekki skotið til réttarins með kæru úrlausn héraðsdóms þar sem kröfu um frávísun er hrundið. Af þessu leiðir að hér fyrir dómi koma eingöngu til endurskoðunar þær ástæður sem héraðsdómur taldi varða frávísun málsins. Aðrar ástæður koma því ekki til úrlausnar nema því aðeins að þær leiði til frávísunar málsins án kröfu, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 4. apríl 2014 í máli nr. 206/2014.

11 Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. 7. samningsviðauka mannréttindasáttmála Evrópu skal, eins og segir í íslenskri þýðingu málsgreinarinnar, enginn sæta lögsókn eða refsingu að nýju í sakamáli innan lögsögu sama ríkis fyrir brot sem hann hefur þegar verið sýknaður af eða sakfelldur um með lokadómi samkvæmt lögum og sakamálaréttarfari viðkomandi ríkis.

12 Með vísan til dóms Hæstaréttar 21. september 2017 í máli nr. 283/2016, þar sem stuðst var við dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu, verður lagt til grundvallar að meðferð máls varnaraðila hjá skattyfirvöldum og beiting stjórnsýsluviðurlaga í formi álags á vantalda skattstofna, sem vísað er til hér að framan, hafi verið sakamál í skilningi 1. mgr. 4. gr. 7. samningsviðauka mannréttindasáttmálans og enn fremur að með rekstri þess annars vegar og rannsókn héraðssaksóknara, ákæru og málsmeðferð fyrir héraðsdómi hins vegar hafi verið rekin tvö aðskilin mál á hendur varnaraðila vegna sama brots í skilningi samningsviðaukans.

13 Við úrlausn þess hvort um endurtekna málsmeðferð hafi verið að ræða er til þess að líta að í framangreindum dómi Hæstaréttar og í samræmi við umfjöllun í honum um dómaframkvæmd mannréttindadómstólsins er lagt til grundvallar að 4. gr. 7. samningsviðauka mannréttindasáttmálans útiloki ekki að fjallað sé um tiltekið brot í tveimur aðskildum málum ef ákveðnum skilyrðum er fullnægt. Þau skilyrði lúti fyrst og fremst að því að sýnt sé fram á að rekstur málanna hafi verið nægjanlega samþættur eða samtengdur í efni og tíma þannig að sýnt sé fram á að úr hafi orðið ein samþætt heild. Í því felst ekki aðeins að markmiðin sem að er stefnt og aðferðirnar við að ná þeim séu í reynd hvor annarri til fyllingar eða viðbótar, heldur einnig að afleiðingar þess skipulags að landsrétti sem gerir ráð fyrir rekstri tveggja aðskilinna mála séu fyrirsjáanlegar og fullnægi áskilnaði um meðalhóf.

14 Við mat á efnislegum tengslum mála varnaraðila er til þess að líta að þau viðurlög sem honum var gert að sæta hjá skattyfirvöldum og sem standa fyrir dyrum, verði hann sakfelldur í sakamálinu fyrir dómstólum, voru fyrirsjáanleg sem úrræði samkvæmt íslenskum rétti vegna brota á skattalögum. Þá hafði varnaraðili á öllum stigum málsins vitneskju frá skattyfirvöldum um í hvaða farveg mál hans væru lögð. Jafnframt leiðir af 109. gr. laga nr. 90/2003 að við ákvörðun refsingar í sakamálinu skuli tillit tekið til þess álags sem varnaraðili hefur sætt hjá skattyfirvöldum.

15 Í framangreindum dómi Hæstaréttar, þar sem reyndi á málsmeðferð samkvæmt lögum nr. 90/2003, var lagt til grundvallar að málarekstur hjá skattyfirvöldum hafi að markmiði að leiða í ljós annað en það sem lögregla rannsakar og dómstólar dæma um vegna sama skattalagabrots. Að auki væru viðurlög ólík og skilyrði fyrir beitingu þeirra mismunandi. Samkvæmt þessu yrði að leggja til grundvallar hvað hina lagalegu umgjörð varðar að meðferð sakamáls sem leitt getur til sakfellingar skattþegns sé samkvæmt viðmiðum mannréttindadómstólsins hvað efni varðar til fyllingar eða viðbótar málsmeðferð skattyfirvalda. Því var jafnframt slegið föstu að það gæti verið hluti af efnislega samþættri málsmeðferð sem stæðist kröfur 4. gr. 7. samningsviðauka við mannréttindasáttmálann þegar rannsókn lögreglu byggist á rannsókn skattrannsóknarstjóra en nauðsynlegt reynist að afla viðbótargagna um einhverja þætti máls, sem ekki hafa verið rannsakaðir nægilega af skattyfirvöldum. Þá yrði ekki séð að sú rannsókn sem saksóknari ákvað að ráðast í hefði verið ónauðsynleg endurtekning fyrri málsmeðferðar, heldur hefði verið um að ræða rekstur tveggja aðskilinna mála sem mynduðu að efni til eina samþætta heild. Að virtum atvikum þessa máls samkvæmt fyrirliggjandi gögnum þykir mega leggja til grundvallar að sama aðstaða sé að þessu leyti uppi í því. Þá verður ekki talið að farið hafi verið á svig við reglur um meðalhóf við rekstur málanna á hendur varnaraðila.

16 Með vísan til þess sem að framan er rakið telst fullnægt skilyrðinu um nauðsynlega efnislega samþættingu mála varnaraðila hjá annars vegar skattyfirvöldum og hins vegar ákæruvaldi og dómstólum.

17 Við úrlausn um það hvort skilyrðinu um samþættingu í tíma hafi verið fullnægt við rekstur mála skattyfirvalda og ákæruvalds á hendur varnaraðila þarf að leggja mat á framvindu málsmeðferðar út frá viðmiðum samkvæmt dómi Hæstaréttar 21. september 2017 í máli nr. 283/2016 sem áður er getið, úrskurðum Landsréttar 15. maí 2018 í máli nr. 227/2018, 20. júní 2018 í máli nr. 277/2018, 27. september 2018 í máli nr. 455/2018 og 4. október 2018 í máli nr. 456/2018.

18 Heildartími sem rekstur beggja mála varnaraðila hefur þegar tekið er fimm ár og rétt tæpir sex mánuðir og er þá miðað við tímann frá því skattrannsóknarstjóri hóf rannsókn sína 3. desember 2013 þar til hinn kærði úrskurður um frávísun málsins var kveðinn upp 28. maí 2019. Meðferð á máli varnaraðila hjá skattyfirvöldum tók fimm ár og einn mánuð. Ákæra í málinu var gefin út 14. febrúar 2019, hálfum mánuði eftir að endanleg stjórnsýsluákvörðun í því fékkst með úrskurði yfirskattanefndar 30. janúar sama ár.

19 Þegar virtur er sá tími sem rekstur mála varnaraðila var samhliða hjá skattyfirvöldum og lögreglu, ákæruvaldi og dómstólum kemur í ljós að málin voru rekin samhliða í átta og hálfan mánuð, það er frá 15. maí 2018 þegar varnaraðili gaf skýrslu hjá héraðssaksóknara, til 30. janúar 2019 þegar úrskurður yfirskattanefndar var kveðinn upp. Sakamálið hefur verið rekið eitt og sér frá 30. janúar 2019.

20 Af framangreindu er ljóst að óhæfilegur dráttur hefur orðið á rekstri mála á hendur varnaraðila en efnisleg úrlausn héraðsdóms um sakargiftir samkvæmt ákæru liggur enn ekki fyrir. Þessi dráttur getur þó ekki einn og sér ráðið úrslitum við heildarmat þeirra tímaþátta sem þýðingu hafa þegar tekin er afstaða til frávísunarkröfu varnaraðila.

21 Í hæstaréttarmálinu nr. 283/2016, sem leyst var úr með framangreindum dómi réttarins 21. september 2017, var sú staða uppi að ákæra hafði verið gefin út tveimur mánuðum og níu dögum eftir að úrskurður yfirskattanefndar lá fyrir. Hafði málinu verið skotið til nefndarinnar 28. febrúar 2013 og úrskurður kveðinn upp 12. mars 2014. Var talið að þessi staða hefði ekki sett sakborning í óhæfilega óvissu eða valdið óþarfa töfum á málarekstrinum. Í þessu máli liggur samkvæmt framansögðu fyrir að ákæra var gefin út hálfum mánuði eftir að úrskurður yfirskattanefndar gekk. Í tilvitnuðum dómi Hæstaréttar segir jafnframt að mannréttindadómstóllinn hafi lagt til grundvallar að rekstur tveggja aðskilinna mála þurfi ekki að vera algjörlega samhliða frá upphafi til loka, heldur hafi ríkið sem í hlut eigi svigrúm til að reka málin stig af stig þar sem slíkt helgist af hagsmunum um skilvirkni og eðlilegan framgang réttvísinnar í ljósi ólíkra samfélagslegra hagsmuna.

22 Að því virtu sem hér hefur verið rakið er það niðurstaðan að skilyrðinu um nauðsynlega samþættingu í tíma hafi verið fullnægt við rekstur mála ákærða hjá skattyfirvöldum annars vegar og ákæruvaldi og dómstólum hins vegar.

23 Samkvæmt öllu framansögðu hefur með rekstri málanna ekki verið brotið gegn ákvæðum 1. mgr. 4. gr. 7. samningsviðauka mannréttindasáttmálans, sbr. lög nr. 62/1994. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

24 Kærumálskostnaður verður ekki úrskurðaður, sbr. 3. mgr. 237. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurðarorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnislegrar meðferðar.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur þriðjudaginn 28. maí 2019

Málið er höfðað með ákæru héraðssaksóknara, dagsettri 14. febrúar 2019, á hendur: X, kt. [...] Reykjavík Fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum með því að hafa staðið skil á efnislega röngum skattframtölum gjaldárin 2008, 2010 og 2011 vegna tekjuáranna 2007, 2009 og 2010, með því að láta undir höfuð leggjast að telja fram á skattframtölum sínum vegna framangreindra ára, tekjur, samtals að fjárhæð 115.778.442, í formi úttekta ákærða úr félögunum Y ehf. og Z ehf., sem skattskyldar eru samkvæmt 2. mgr. 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. einnig 19. og 21. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, en með því komst ákærði hjá því að greiða tekjuskatt og útsvar samtals að fjárhæð kr. 43.938.610, sem sundurliðast sem hér greinir:

Tekjuárið 2007:

Framtaldar tekjur: kr. 12.532.650

Vantaldar tekjur kr. 61.476.000

Tekjuskattur, skattprósenta 22,75% kr. 13.985.790

Útsvar, útsvarsprósenta 13,03% kr. 8.010.323

Ónýttur persónuafsláttur kr. 0

Vangreiddur tekjuskattur og útsvar tekjuárið 2007 samtals kr. 21.996.113 

Tekjuárið 2009: 

Framtaldar tekjur: kr. 12.174.913

Vantaldar tekjur kr. 34.302.442

Tekjuskattur, skattprósenta 24,10% kr. 8.266.888

Útsvar, útsvarsprósenta 13,03 % kr. 4.469.608

Ónýttur persónuafsláttur kr. 0

Vangreiddur tekjuskattur og útsvar tekjuárið 2009 samtals kr. 12.736.497 

Tekjuárið 2010: 

Framtaldar tekjur: kr. 13.763.236

Vantaldar tekjur kr. 20.000.000

Tekjuskattur, skattprósenta 33% kr. 6.600.000

Vangreitt útsvar, útsvarsprósenta 13,03% kr. 2.606.000
(Tekjustofn yfir 7.800.000)

Ónýttur persónuafsláttur kr. 0

Vangreiddur tekjuskattur og útsvar tekjuárið 2010 samtals kr. 9.206.000 

Samtals vantaldar tekjur árin 2007, 2009 og 2010: kr. 115.778.442
Samtals vangreiddur tekjuskattur og útsvar 2007, 2009 og 2010: kr. 43.938.610
 

Framangreind brot ákærða teljast varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga.“

Ákærði krefst þess að málinu verið vísað frá dómi og að allur sakarkostnaður vegna rannsóknar málsins og dómsmeðferðar, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði. Frávísunarkrafa ákærða er byggð á eftirfarandi málsástæðum:

a) að ákæra málsins og grundvöllur hennar sé ófullnægjandi og sé ekki í samræmi við 152. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

b) að með útgáfu ákæru hafi réttur ákærða til að fella ekki á sig sök verið sniðgenginn og er í því sambandi vísað til 70. gr. stjórnarskrárinnar, 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og meginreglna laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

c) Ne bis in idem.

Ákærði byggir frávísunarkröfu sína, eins og rakið var, m.a. á þeirri málsástæðu að höfðun sakamáls þessa með ákæru, dagsettri 14. febrúar 2019, fari gegn 4. gr. 7. samningsviðauka mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Byggt er á því að ákæra málsins hafi verið gefin út eftir að skattamáli ákærða hafi verið endanlega lokið með úrskurði yfirskattanefndar sem kveðinn var upp 30. janúar 2019, en þar voru opinber gjöld ákærða gjaldaárin 2008, 2010 og 2011, vegna tekjuáranna 2007, 2009 og 2010, endurákvörðuð með álagi, en það eru sömu tímabil og ákæra málsins tekur til. Áður hafði ríkisskattstjóri endurákvarðað opinber gjöld ákærða vegna sömu tímabila og gert honum að greiða 286.557.301 krónu vegna áranna þriggja sem um ræðir, þar af var álag samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, 49.007.110 krónur.

Ákærði byggir á því að úrskurður yfirskattanefndar hafi verið fullnaðarúrskurður á stjórnsýslustigi varðandi gjaldstofn vantalinna skatta ákærða og viðurlög sem beita skal vegna þess, sbr. 1. mgr. 15. gr. laga nr. 30/1992 um yfirskattanefnd.

Í 4. gr. 7. samningsviðauka mannréttindasáttmála Evrópu segir að enginn skuli sæta lögsókn né refsingu að nýju í sakamáli innan lögsögu sama ríkis fyrir brot sem hann hefur þegar verið sýknaður af eða sakfelldur um með lokadómi, samkvæmt lögum og sakamálaréttarfari viðkomandi ríkis. Í dómaframkvæmd hefur þetta verið túlkað svo að endanleg ákvörðun viðurlaga á stjórnsýslustigi nægi og málsmeðferðin þurfi ekki í öllum tilvikum að hafa átt sér stað fyrir dómi, að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Eitt skilyrðanna er að fyrir liggi endanleg ákvörðun um viðurlög sem telja megi refsingu í skilningi mannréttindasáttmála Evrópu. Endurákvörðun ríkisskattstjóra á sköttum ákærða og álagning 25% álags er refsing sem 4. gr. 7. samningsviðauka mannréttindasáttmálans tekur til. Þetta má einnig ráða af dómaframkvæmd.

Eins og rakið var skaut ákærði máli sínu til yfirskattanefndar sem kvað upp úrskurð í málinu 30. janúar 2019, þar sem úrskurði ríkisskattstjóra var hrundið að hluta til, ákærða í vil. Ríkið undi úrskurðinum og lét endurgreiða ákærða ofgreidda skatta og álag en ákærði hafði í júlí 2018 greitt endurákvarðaða skatta með 25% álagi vegna tímabilanna sem ákæran tekur til.

Ákærði reisir kröfu sína um frávísun á því að með úrskurði yfirskattanefndar og málsmeðferð hafi refsing hans orðið endanleg og öðlast neikvæð efnisleg réttaráhrif. Með útgáfu ákæru og þingfestingu sakamáls á hendur honum, 22. febrúar 2019, hafi verið hafin önnur málssókn á hendur ákærða fyrir sömu brot, sem væri í andstöðu við 4. gr. 7. samningsviðauka mannréttindasáttmálans.

Ákæruvaldið andmælti öllum málsátæðum ákærða og taldi samþættingu í tíma nægilega. Því bæri að hafna frávísunarkröfunni.

Niðurstaða 

Af gögnum málsins má ráða að skattamál ákærða hafi verið til meðferðar hjá ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóra, yfirskattanefnd og héraðssaksóknara, í á áttunda ár. Þegar skörun málanna er skoðuð og hversu lengi þau voru rekin samhliða hjá skattyfirvöldum og lögreglu ber að mati dómsins að miða upphafstíma skörunarinnar við það tímamark er ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu og honum kynntar sakargiftir. Önnur viðmiðun er að mati dómsins ótæk, enda hefðu stjórnvöld þá í hendi sér hvernig rannsóknartími skaraðist án þess að nokkur raunveruleg samhliða rannsókn ætti sér stað.

Við mat á tímaþáttum og hvort nægileg samþætting í tíma sé til staðar ber að leggja heildarmat á tímaþættina. Með hliðsjón af hinum gríðarlega langa tíma sem málsmeðferðin hefur tekið er það mat dómsins að ekki hafi verið sýnt fram á það að stjórnvöld hafi gert nægilega mikið til að forðast tvöfalda málsmeðferð þannig að ekki færi í bága við 4. gr. 7. samningsviðauka mannréttindasáttmála Evrópu.

Það er mat dómsins að mikil réttaróvissa sé varðandi það álitaefni sem hér er til meðferðar, þ.e. er að meta skuli hvort uppfyllt sé skilyrðið um nægilega samþættingu í tíma við rekstur máls ákærða hjá skattyfirvöldum annars vegar og ákæruvaldi og dómstólum hins vegar. Það er mat dómsins að ákærði beri að njóta vafans sem leiðir af réttaróvissunni.

Ákærði hafði greitt endurákvarðaða skatta með 25% álagi vegna tímabilanna sem ákæran tekur til meira en hálfu ári fyrir útgáfu ákærunnar.

Að öllu framanrituðu virtu og hinum gríðarlega langa tíma sem mál þetta var til meðferðar hjá skattayfirvöldum og lögreglu, sem lauk með úrskurði yfirskattanefndar 30. janúar 2019, þar sem úrskurðað var um skattamál ákærða vegna sama sakarefnis og ákæra máls þessa snýst um, er það mat dómsins að með málshöfðun þessari hafi verið um endurtekna málsmeðferð að ræða sem fari í bága við 4. gr. 7. samningsviðauka mannréttindasáttmála Evrópu og verður krafa ákærða um frávísum málsins á þessum forsendum því tekin til greina.

Af þessum sökum er óþarfi að fjalla um aðrar málsástæður ákærða fyrir frávísunarkröfunni.

Ríkissjóður greiði Sigurði G. Guðjónssyni lögmanni 3.056.600 króna málsvarnarlaun vegna vinnu verjandans undir rannsókn málsins og dómsmeðferð. Tekið hefur verið tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun þóknunar verjanda.

Úrskurðarorð:

Máli ákæruvaldsins gegn X, nr. S-[...]/2019, er vísað frá dómi. Ríkissjóður greiði 3.056.600 króna málsvarnarlaun Sigurðar G. Guðjónssonar lögmanns.


Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum