2020

Dómur Landsréttar 18. desember 2020 í máli nr. 318/2019

18.12.2020

Dómur föstudaginn 18. desember 2020. Mál nr. 318/2019:

Ákæruvaldið

(Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Hallgrími Egilssyni og

(Páll Rúnar M. Kristjánsson lögmaður)

Magnúsi Sigurðssyni

(Elva Ósk S. Wiium lögmaður)

Lykilorð

Virðisaukaskattur. Bókhald. Sekt.

Útdráttur

H og M voru sakfelldir fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum og lögum um bókhald í rekstri einkahlutafélagsins T ehf., H sem stjórnarmaður og framkvæmdastjóri félagsins en M sem daglegur stjórnandi þess. Brotin frömdu þeir með því að hafa á nánar tilgreindum tímabilum annars vegar ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum félagsins og virðisaukaskatti sem innheimtur var eða innheimta bar í rekstri þess og hins vegar með því að hafa ekki fært tilskilið bókhald fyrir félagið í samræmi við kröfur laga nr. 145/1994 um bókhald og vanrækt að varðveita fylgiskjöl og önnur bókhaldsgögn vegna starfsemi félagsins. Var refsing H og M hvors fyrir sig ákveðin fangelsi í fjóra mánuði en fullnustu hennar var frestað og skyldi hún falla niður að tveimur árum liðnum héldu þeir almennt skilorð. Þá var hvor þeirra um sig einnig dæmdur til að greiða 8.400.000 króna sekt í ríkissjóð og skyldi fimm mánaða fangelsi koma í stað sektarinnar yrði hún ekki greidd.

Dómur Landsréttar

Mál þetta dæma landsréttardómararnir Arnfríður Einarsdóttir, Jóhannes Sigurðsson og Oddný Mjöll Arnardóttir.

Málsmeðferð og dómkröfur aðila

1 Ríkissaksóknari skaut málinu til Landsréttar með áfrýjunarstefnum 16. apríl 2019, þar af annarri í samræmi við yfirlýsingu ákærða Hallgríms um áfrýjun. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 5. apríl 2019 í málinu nr. S-[…]/2019.

2 Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um sakfellingu ákærða Hallgríms og að ákærði Magnús verði sakfelldur í samræmi við ákæru. Þá er þess krafist að refsing ákærða Hallgríms verði þyngd og að ákærða Magnúsi verði gerð refsing.

3 Ákærði Hallgrímur krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa.

4 Ákærði Magnús krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms en til vara að honum verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa og að refsing verði bundin skilorði að öllu leyti.

Málsatvik og sönnunarfærsla

5 Samkvæmt tilkynningu sem móttekin var hjá ríkisskattstjóra 22. júní 2016 seldi ákærði Magnús ákærða Hallgrími alla eignarhluti í einkahlutafélaginu Tóku 25. maí 2016. Frá þeim degi tók ákærði Hallgrímur sæti í stjórn félagsins og sem framkvæmdastjóri þess með prókúru. Meðal gagna málsins er framsalssamningur 25. maí 2016 um alla hluti í framangreindu félagi sem undirritaður er af báðum ákærðu. Í

2. gr. samningsins greinir að kaupverðið hafi verið 150.000 krónur. Í 3. gr. samningsins kemur fram að afhendingardagur sé 25. maí 2016 og að áhættuskil vegna réttinda og skuldbindinga félagsins miðist við þann dag. Samkvæmt 4. gr. samningsins er afhending hlutanna háð þeim ófrávíkjanlegu skilyrðum að ákærði Hallgrímur taki ákærða Magnús og tengda aðila úr stjórn félagsins og skipti um framkvæmdastjóra.

6 Skattrannsóknarstjóri ríkisins hóf rannsókn á bókhaldi og virðisaukaskattsskilum Tóku ehf. í mars 2017, í kjölfar tilkynningar frá skiptastjóra í þrotabúi félagsins. Tók rannsóknin til tímabilsins 1. júlí 2016 til 31. október sama ár. Við rannsóknina var tekin skýrsla af ákærða Hallgrími 11. september 2017 og af ákærða Magnúsi 24. október sama ár.

7 Hjá skattrannsóknarstjóra greindi ákærði Hallgrímur svo frá að hann hefði tekið við félaginu frá ákærða Magnúsi sumarið 2016 en að Magnús og hans fólk hefði annast daglegan rekstur þess. Kvaðst hann hafa gert ráð fyrir því að bókhald hefði verið fært. Jafnframt kvaðst hann ekki vita hvers vegna virðisaukaskatti hefði ekki verið skilað. Þá greindi hann frá því að ákærði Magnús hefði haft samband og beðið hann að koma og kvitta undir virðisaukaskattsskýrslur en kvaðst þá hafa sagt að Magnús væri með prókúru og aðgang að skattinum og gæti annast virðisaukaskattsskil rafrænt. Kvaðst Hallgrímur eftir þetta hafa talið að virðisaukaskattsskýrslum hefði verið skilað.

8 Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra kaus ákærði Magnús að svara ekki spurningum rannsakanda um daglega stjórn félagsins, bókhald og virðisaukaskattsskil. Eftir að skýrslutöku lauk óskaði hann eftir því að hún yrði hafin á ný og greindi þá svo frá að Hallgrímur hefði tekið við rekstrinum og verið meðvitaður um tölur og það sem var að gerast. Hallgrímur hefði komið að starfsemi félagsins í byggingariðnaði en hann hefði ætlað að „koma miklu sterkar inn í þetta“. Spurður um daglega stjórnun rekstrarins svaraði Magnús: „Dagleg stjórnun á verkamönnunum, byggingariðnaði var ég sko.“ Rekstur félagsins hefði aftur á móti verið „hálfgerð óreiða“ og enginn sérstakur séð um hann.

9 Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi var málinu vísað til rannsóknar hjá embætti héraðssaksóknara. Framburði ákærðu við rannsókn málsins þar, sem og framburði þeirra í héraði, er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Jafnframt er þar reifaður framburður A fyrir dómi en hún vann á skrifstofu Tóku ehf. á umræddu tímabili.

10 Við reifun hins áfrýjaða dóms á framburði ákærðu er því að bæta að í héraði kvaðst Hallgrímur bæði hafa sent A fyrirmæli um útgáfu reikninga vegna sinnar vinnu og um greiðslur vegna þeirra til sín. Jafnframt athugast að þegar Magnús var spurður fyrir dómi um samskipti ákærðu varðandi virðisaukaskattsskil kvaðst hann hafa bent Hallgrími á að það þyrfti að fara yfir gögn og senda inn virðisaukaskattsskýrslu. Kvaðst hann hafa verið „[b]ara að minna hann á að þetta væri ekki í lagi“. Veflykill hefði verið á skrifstofu félagsins en ekki hefði verið hægt að nota hann ef skýrslu væri skilað of seint því þá þyrfti að skrifa undir skýrsluna. Einnig kvað hann Hallgrím ekki hafa haft aðgangsorð inn á reikningakerfi félagsins. Hjá héraðssaksóknara staðfesti Magnús að hann hefði séð um að skrifa út reikninga fyrir vinnu Hallgríms og greiða Hallgrími samkvæmt þeim. Jafnframt greindi hann svo frá að félagið hefði ekki verið vel statt þegar Hallgrímur tók það yfir og hefði innheimtur virðisaukaskattur af reikningum vegna starfsemi Magnúsar runnið til rekstrarins. Þá hefði hann verið í persónulegum ábyrgðum fyrir yfirdráttarheimild á bankareikningi félagsins. Spurður að því hvenær Hallgrímur hefði tekið við rekstrinum kvað Magnús þá hafa ætlað að vinna að því markmiði. Í raun væri engin dagsetning til sem miða mætti við í því sambandi.

11 Við aðalmeðferð málsins í Landsrétti voru spilaðar í hljóði og mynd upptökur af framburði ákærðu fyrir héraðsdómi. Auk þess var spilaður hluti upptöku af framburði vitnisins A. Þá gáfu ákærðu báðir viðbótarskýrslu.

12 Fyrir Landsrétti kvaðst ákærði Hallgrímur hafa talið að starfsmaður á skrifstofu félagsins hefði séð um allt. Hann kvaðst ekkert hafa þekkt til starfsemi ákærða Magnúsar í byggingariðnaði og ekki hafa skoðað bókhaldsgögn félagsins þegar hann keypti það. Hann hefði óskað eftir greiðslum vegna eigin útseldu vinnu hjá A en kvaðst ekki hafa gert sér grein fyrir því að hann fékk virðisaukaskattinn af þeim reikningum greiddan til sín líka. Hallgrímur greindi einnig svo frá að hann hefði ekki tekið ákvörðun um greiðslur frá félaginu að öðru leyti og að Magnús hefði tekið ákvarðanir að því er varðaði eigin rekstur. Ekki hefði verið rætt hvaða greiðslur Magnús skyldi fá frá félaginu fyrir vinnu sína en Hallgrímur kvaðst hafa gengið út frá því að þær yrðu óbreyttar frá því sem áður var.

13 Fyrir Landsrétti kvaðst ákærði Magnús hafa annast samskipti við verkkaupa sem og efniskaup og greiðslu reikninga vegna starfsemi félagsins í byggingariðnaði. Hefði Hallgrímur ekki komið að þeim málum. Spurður hvort A hefði haft umboð til þess að greiða reikninga án þess að ráðfæra sig við Magnús kvað hann það hafa verið rætt á fundi með henni og Hallgrími í upphafi að fyrirkomulag yrði eins og verið hefði áður. Laun allra, þar á meðal Magnúsar sjálfs, yrðu óbreytt og efnisreikningar og laun yrðu greidd. Hallgrímur hefði samþykkt það og Magnús ekki beðið hann um leyfi fyrir einstökum greiðslum af fjármunum félagsins. Aðeins hefði verið um efniskaup að ræða í einu verki, að öðru leyti hefði starfsemin gengið nokkuð sjálfvirkt vegna þess að einungis hefði verið um útselda tímavinnu starfsmanna að ræða. Magnús hefði séð um að samþykkja tímafjölda starfsmanna eftir atvikum og ekki hefði þurft að ganga á eftir greiðslu reikninga sem félagið gaf út þar sem þeir hefðu einfaldlega verið greiddir af verkkaupum. Magnús kvaðst jafnframt aðeins hafa greitt sér útlagðan kostnað af reikningum félagsins auk þess sem hann hefði fengið greidd laun. Þá greindi hann svo frá að þegar Hallgrímur tók við félaginu hefðu hvílt á því skuldir vegna virðisaukaskatts og staðgreiðslu opinberra gjalda en farið hefði verið yfir skuldstöðu félagsins með Hallgrími. Spurður hver hefði gefið fyrirmæli um að þær skuldir yrðu greiddar eftir að Hallgrímur tók formlega við rekstri félagsins kvaðst Magnús ekki telja að þær hefðu verið greiddar nema að litlu leyti.

Niðurstaða

14 Ákæru í máli þessu er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Í héraði var ákærði Hallgrímur sakfelldur samkvæmt ákæru en ákærði Magnús sýknaður. Ákærðu neita báðir sök í málinu og vísa hvor á annan um ábyrgð á virðisaukaskattsskilum og bókhaldi félagsins Tóku ehf. á umræddu tímabili. Þá vísa þeir hvor um sig til þess að vegna aðkomu hins að málefnum félagsins hafi þeir ekki haft ásetning til brotanna sem þeim eru gefin að sök í ákæru.

15 Samkvæmt samningi ákærðu um kaup Hallgríms á öllum hlutum í félaginu miðuðust kaupin og áhættuskil vegna réttinda og skuldbindinga félagsins við 25. maí 2016. Sama dag skyldi ákærði Hallgrímur taka formlega við stjórn félagsins af ákærða Magnúsi og var tilkynnt um það til ríkisskattstjóra 22. júní sama ár. Fyrir Landsrétti greindi ákærði Magnús svo frá að á þessum tíma hefðu hvílt á félaginu skuldir vegna vangoldins virðisaukaskatts og staðgreiðslu opinberra gjalda. Við skýrslutöku í héraði lýsti hann því að bókhaldsstofan, sem hefði sinnt færslu bókhalds félagsins, hefði verið hætt að taka við bókhaldsgögnum frá félaginu vegna skulda þess við hana þegar Hallgrímur tók formlega við stjórn félagsins.

16 Í ákærulið 1 er ákærðu gefið að sök að hafa, vegna uppgjörstímabilanna júlí-ágúst og september-október 2016, hvorki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum né virðisaukaskatti sem innheimtur var eða innheimta bar í rekstri félagsins. Framburður ákærða Magnúsar um það hvort hann hafi annast daglegan rekstur félagsins á þeim tíma hefur verið reikull. Ákærðu bar aftur á móti saman um það fyrir dómi að þrátt fyrir þá breytingu að Hallgrímur tæki formlega við stjórn félagsins hefði starfsemi þess í byggingariðnaði átt að vera óbreytt þangað til Magnús hefði lokið ákveðnum verkum. Af gögnum málsins er jafnframt ljóst að sú starfsemi var umtalsvert umfangsmeiri en starfsemi Hallgríms. Enn fremur verður af framburði beggja ákærðu fyrir dómi ráðið að Magnús hafi áfram haft prókúru á bankareikning félagsins og aðgang að bókhaldskerfi og veflykli þess vegna skattskila og að Hallgrímur hefði ekki aflað sér sambærilegs aðgangs. Jafnframt staðfestu báðir að þeir hefðu rætt sín á milli um virðisaukaskattsskil en kváðust hvor um sig hafa bent hinum á að annast þau. Verður við úrlausn málsins lagt til grundvallar að svo hafi verið. Jafnframt er ljóst að hvorugur þeirra sinnti virðisaukaskattsskilum á tímabilinu sem ákært er fyrir. Gögn málsins bera aftur á móti með sér að árið 2016 hafi virðisaukaskattsskýrslum verið skilað fram til þess tíma. Verður samkvæmt framangreindu lagt til grundvallar að ákærði Magnús hafi staðið fyrir þeim skýrsluskilum þrátt fyrir að Hallgrímur hefði þá áður tekið formlega við stjórn félagsins. Enn fremur ber ákærðu saman um að laun Magnúsar hjá félaginu hefðu átt að vera óbreytt þrátt fyrir að það yrði selt Hallgrími, sem fer illa saman við þann framburð Magnúsar að við það hafi verkefni hans og ábyrgð breyst í grundvallaratriðum. Samkvæmt öllu framangreindu verður framburður Magnúsar um að hann hafi ekki borið ábyrgð á daglegum rekstri félagsins metinn ótrúverðugur og þykir ekki unnt að leggja hann til grundvallar við úrlausn málsins. Á hinn bóginn er jafnframt ljóst af framburði ákærða Hallgríms og vitnisins A, sem og af gögnum málsins, að Hallgrímur hafi einnig gefið henni fyrirmæli um útgáfu reikninga og greiðslur til sín auk þess sem hann hafi gengið eftir því, vegna eigin útseldu vinnu, að viðskiptamenn félagsins greiddu útgefna reikninga.

17 Samkvæmt ákærulið 2 er ákærðu gefið að sök að hafa ekki fært tilskilið bókhald fyrir félagið í samræmi við kröfur laga nr. 145/1994 um bókhald og vanrækt að varðveita bókhaldsgögn vegna starfsemi þess frá og með júlí til og með október 2016. Í framburði sínum í héraði bar ákærðu saman um að eftir að Hallgrímur tók formlega við stjórn félagsins hefði hvorugur þeirra tryggt að framangreint yrði gert.

18 Staðfest er sú niðurstaða hins áfrýjaða dóms að sannað sé með gögnum málsins að hvorki hafi verið staðin skil á virðisaukaskattsskýrslum né innheimtum virðisaukaskatti vegna þeirra uppgjörstímabila er greinir í ákærulið 1 og að fjárhæðir séu þar rétt greindar. Jafnframt er sannað með gögnum málsins að bókhald félagsins hafi ekki verið fært né bókhaldsgögn varðveitt í samræmi við kröfur laga nr. 145/1994 á því tímabili er greinir í ákærulið 2.

19 Með framburði beggja ákærðu fyrir dómi verður jafnframt talið sannað að á þeim tíma sem ákæra tekur til hafi þeir undir hatti Tóku ehf. hvor um sig stundað sjálfstæða starfsemi sem var ótengd starfsemi hins og að hvorugur hafi skipt sér af rekstri hins. Hafi þeir því í raun báðir annast stjórn félagsins en auk þess bar ákærða Hallgrími vegna formlegrar stöðu sinnar hjá félaginu að sjá til þess að bókhald þess og virðisaukaskattsskil væru jafnan í réttu og góðu horfi, sbr. 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Verður jafnframt lagt til grundvallar við úrlausn málsins að þeim hafi í ljósi framangreinds og samskipta sinna um virðisaukaskattsskil félagsins báðum hlotið að vera ljóst að yfirgnæfandi líkur væru á því að bókhaldi félagsins og virðisaukaskattsskilum væri ekki sinnt af hinum. Verða ákærðu því báðir taldir hafa af ásetningi gerst sekir um þá háttsemi sem þeim er gefin að sök í ákæru og eru brot þeirra þar rétt heimfærð til refsiákvæða.

20 Ákærði Hallgrímur hefur ekki áður sætt refsingu og ákærði Magnús ekki áður gerst sekur um brot sem áhrif hefur við ákvörðun refsingar hans í máli þessu. Með vísan til þess og atvika málsins þykir refsing ákærða Hallgríms hæfilega ákveðin í hinum áfrýjaða dómi og rétt að gera ákærða Magnúsi sömu fangelsisrefsingu. Rétt þykir að fangelsisrefsing beggja verði bundin skilorði eins og nánar greinir í dómsorði. Auk þess verður ákærðu gert að greiða sekt í ríkissjóð, sem að virtu sektarlágmarki 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt ákveðst 16.800.000 krónur. Ákærðu bera að jöfnu ábyrgð á því broti gegn 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, sem þeir hafa samkvæmt framansögðu verið sakfelldir fyrir. Verður þeim því í samræmi við dómvenju hvorum um sig gert að greiða helming framangreindrar sektarfjárhæðar.

21 Eftir þessum úrslitum verða ákærðu hvor um sig dæmdir til að greiða málsvarnarlaun verjenda sinna eins og þau voru ákveðin í héraði. Annan sakarkostnað, eins og hann var ákveðinn í héraði, skulu ákærðu greiða óskipt.

22 Um áfrýjunarkostnað fer samkvæmt því sem í dómsorði greinir en málsvarnarlaun verjenda ákærðu eru ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti.

Dómsorð:

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um fangelsisrefsingu ákærða Hallgríms Egilssonar og skilorðsbindingu hennar skulu vera óröskuð.

Ákærði Magnús Sigurðsson sæti fangelsi í fjóra mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá uppsögu dóms þessa haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærðu greiði hvor um sig 8.400.000 krónur í sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í fimm mánuði.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um greiðslu málsvarnarlauna skipaðs verjanda ákærða Hallgríms í héraði skal vera óraskað.

Ákærði Magnús greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns í héraði, eins og þau voru ákveðin í hinum áfrýjaða dómi.

Annan sakarkostnað í héraði, eins og hann var ákveðinn í hinum áfrýjaða dómi, greiði ákærðu óskipt.

Ákærði Hallgrímur greiði helming málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns fyrir Landsrétti, Páls Rúnars M. Kristjánssonar lögmanns, sem alls eru ákveðin 1.700.000 krónur, en að öðru leyti greiðist þau úr ríkissjóði.

Ákærði Magnús greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Landsrétti, Elvu Óskar S. Wiium lögmanns, 1.550.000 krónur.

Ákærði Magnús greiði annan áfrýjunarkostnað málsins, 91.392 krónur, þar af 45.696 krónur óskipt með ákærða Hallgrími.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. apríl 2019

Árið 2019, föstudaginn 5 apríl, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Guðjóni St. Marteinssyni héraðsdómara, kveðinn upp dómur í málinu nr. S-9/2019: Ákæruvaldið gegn Hallgrími Egilssyni og Magnúsi Sigurðssyni en málið var dómtekið 18. f.m.

Málið er höfðað með ákæru héraðssaksóknara, dagsettri 10. janúar 2019, á hendur:

„Hallgrími Egilssyni, kt. […] […], Mosfellsbæ

og

Magnúsi Sigurðssyni, kt. […] […], Sveitarfélaginu Árborg

fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum og lögum um bókhald í rekstri einkahlutafélagsins Tóka, kt. […], nú afskráð, Hallgrími sem stjórnarformanni og framkvæmdastjóra félagsins og Magnúsi sem daglegum stjórnanda þess frá 22. júní 2016 til 4. janúar 2017 þegar bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta:

1. Með því að hafa eigi staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum félagsins vegna uppgjörstímabilanna júlí- ágúst og september-október rekstrarárið 2016 og fyrir að hafa eigi staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var eða innheimta bar í rekstri félagsins vegna sömu uppgjörstímabila í samræmi við IX. kafla laga

nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, samtals að fjárhæð kr. 8.363.727 sem sundurliðast sem hér greinir:

Árið 2016
júlí – ágúst kr. 4.937.460
september - október kr. 3.426.267
Samtals kr. 8.363.727

2. Fyrir að hafa ekki fært tilskilið bókhald fyrir félagið í samræmi við kröfur laga nr. 145/1994 um bókhald og vanrækt að varðveita fylgiskjöl og önnur bókhaldsgögn vegna starfsemi félagsins frá og með júlí til og með október rekstrarárið 2016.Brot ákærðu samkvæmt 1. tölulið ákæru teljast varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Brot ákærðu samkvæmt 2. tölulið ákæru teljast varða við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 36. gr. og 1. og 2. tölulið 1. mgr. 37. gr. laga nr. 145/1994, um bókhald.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Verjandi ákærða Hallgríms krefst aðallega sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa og að refsivist, ef dæmd verður, verði skilorðsbundin. Þess er krafist að allur sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun samkvæmt reikningi, verði greiddur úr ríkissjóði.

Verjandi ákærða Magnúsar krefst aðallega sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa og að refsivist, ef dæmd verður, verði skilorðsbundin. Þess er krafist að allur sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun samkvæmt tímaskýrslu, verði greiddur úr ríkissjóði.

Samkvæmt bréfi Skattrannsóknarstjóra ríkisins, dagsettu 28. mars 2018, var máli þessu vísað til rannsóknar hjá Héraðssaksóknara. Tekin var skýrsla af ákærða Hallgrími hjá Héraðssaksóknara 17. október 2018 og af ákærða Magnúsi 30. október 2018. Verður framburður þeirra þar rakinn síðar eins og ástæða þykir.

Nú verður rakinn framburður ákærðu og vitnisburður fyrir dómi og hjá lögreglu eins og ástæða þykir.

Ákæruliður 1

Ákærði Hallgrímur neitar sök. Hann kvaðst hafa verið skráður stjórnarformaður og framkvæmdastjóri Tóka ehf. á þeim tíma sem í ákæru greinir, en hann kvaðst ekki hafa komið að daglegum rekstri félagsins, sem meðákærði Magnús hefði annast. Ákærði kvaðst hafa þurft á einkahlutafélagi að halda vegna rekstrar síns á þessum tíma. Hann kvað þá meðákærða hafa þekkst lengi og meðákærði, sem hefði verið að hætta hjá félaginu og til stóð að flyttist úr landi, hefði boðið sér félagið til kaups, sem úr varð og keypti ákærði félagið af meðákærða hinn 25. maí 2016. Á þeim tíma hefði meðákærði enn verið með verkefni í gangi sem hann hefði ætlað að ljúka við. Ákærði kvaðst ekki hafa vitað hvert umfang verkefnanna sem meðákærða átti ólokið var, og hann hefði ekki kynnt sér það, en hann kvaðst enga þekkingu hafa haft á þeim sviðum sem félagið starfaði á, en það hefði ekki verið sú starfsemi sem ákærði hugðist yfirtaka með samningnum. Meðákærði hefði verið með starfsmenn í vinnu, sem önnuðust bókhald og fleira, og velta meðákærða í byggingarstarfseminni hefði verið margföld velta ákærða. Meðákærði hefði þannig verið daglegur stjórnandi en ákærði hefði ekki haft prókúru á reikning félagsins og ekki haft aðgang að reikningakerfi félagsins til að gefa út reikninga. Ákærði kvaðst ekki hafa haft forsendur til að meta hvort fjárhæðin sem í þessum kafla ákæru greinir væri rétt. Ákærði kvaðst hafa átt að taka alfarið við rekstri félagsins er meðákærði hefði lokið verkefnum sínum sem lýst var. Ekki hefði verið fastákveðið hvenær það yrði, en hefði átt að gerast fljótlega, að hanns sögn.

Ákærði Hallgrímur kvaðst ekki hafa haft reynslu af rekstri og hann hefði ekki, á þeim tíma sem í ákæru greinir, gert sér ljóst hvaða ábyrgð fælist í því að gerast framkvæmdastjóri í einkahlutafélagi. Hann hefði gert sér grein fyrir því síðar. Hann kvaðst jafnframt hafa gert ráð fyrir því að samkomulag þeirra með ákærða Magnúsar stæði. Samkomulagið hefði verið um það að meðákærði sæi um daglegan rekstur og útgáfu reikninga og annaðist skil virðisaukaskatts, enda hefði hann haft veflykil skattstjóra til að gera það. Þetta fyrirkomulag hefði átt að standa þar til meðákærði kláraði sín mál og hætti hjá félaginu. Spurður um það hvers vegna ákærði hefði ekki aflað sér veflykils og aðgangs að bankareikningi félagsins, eftir að hann tók við því sem eigandi og framkvæmdastjóri, kvaðst ákærði ekki vita það. Síðar kvaðst ákærði ekki hafa séð tilgang í því að hafa aðgang að bankareikningi félagsins á þessum tíma, þar sem sér hefði verið greitt það sem hann átti að fá. Meðákærði hefði annast daglegan rekstur og ákærði ekki komið þar nærri. Spurður hvort ákærði hefði gengið á eftir því við meðákærða að hann sinnti daglegum rekstri sem fólst í samkomulagi þeirra og þá að annast skil á virðisaukaskattsskýrslum og á innheimtum virðisaukaskatti, kvað ákærði meðákærða eitt sinn hafa beðið sig að rita undir virðisaukaskattsskýrslu og hann þá bent meðákærða á að hann gæti gert þetta rafrænt, sem ákærði kvaðst hafa reiknað með að meðákærði hefði gert en hann hefði ekki gengið úr skugga um að meðákærði hefði sinnt þessu. Aðspurður kvaðst ákærði hafa reiknað með því að meðákærði fengi greitt fyrir að annast daglegan rekstur félagsins, eins og áður, og ítrekaði það sem áður er fram komið um að ákærði hefði enga aðkomu haft að daglegum rekstri félagsins. Hann gæti ekki svarað því hvers vegna virðisaukaskattsskýrslum var ekki skilað uppgjörstímabilin tvö sem lýst er í ákærunni og heldur ekki hvers vegna virðisaukaskattinum sem í ákæru greini var ekki skilað. Spurður um ábyrgð á því að hvorki var skilað virðisaukaskattsskýrslum né virðisaukaskatti, eins og ákært er fyrir, kvaðst ákærði hafa reiknað með því að meðákærði sinnti þessu hvoru tveggja í samræmi við samkomulag þeirra um að meðákærði annaðist daglegan rekstur.

Samkvæmt vottorði fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra var ákærði Hallgrímur skráður með prókúru hjá félaginu en ákærði kvað meðákærða hafa verið með prókúru þótt hún væri ekki formlega skráð. Spurður hver hefði gefið út reikninga vegna vinnu ákærða kvaðst hann hafa sent upplýsingar í síma um það hvern ætti að rukka, eins og gögn málsins beri með sér. Meðákærði hefði verið meðvitaður um þessa reikningsútgáfu og taldi ákærði að A, starfsmaður hjá Magnúsi, hefði annast útgáfu reikninganna sem um ræðir, en A og/eða meðákærði hefðu verið þeir aðilar sem gáfu út reikninga fyrir vinnu hjá Tóka ehf.

Ákærði Magnús neitar sök. Hann kvaðst hafa annast verklega starfsemi félagsins á þeim tíma sem í ákærunni greinir og séð um að verkefnin sem unnin voru gengju. Hann kvaðst hafa talið meðákærða hafa átt að annast skil virðisaukaskattsskýrslna og virðisaukaskatts. Ákærði kvaðst ekki hafa athugasemdir varðandi fjárhæðir í þessum ákærulið. Frá 1. júlí 2016 hefði ákærði annast verkstjórn og það að ljúka við verkefni á vegum félagsins. Spurður um aðkomu að fjármálastjórn félagsins á þessum tíma kvaðst ákærði hafa keypt inn efni vegna framkvæmda. Hann kvað A, starfsmann félagsins, hafa gefið út reikninga fyrir félagið og hann hefði sent henni upplýsingar sem þurfti um starfsmenn vegna útgáfu reikninga. Hann hefði ekki gefið A fyrirmæli um útgáfu reikninga vegna vinnu meðákærða. Hann kvað samskipti þeirra hafa verið án sinnar aðkomu, að því er hann minnti.

Ákærði var hjá lögreglu spurður um daglega fjármálastjórn hjá félaginu og færslu bókhalds og skattskil á þessum tíma. Þar greindi ákærði svo frá að hann hefði séð um daglegan rekstur. Spurður um þetta fyrir dómi kvaðst ákærði hafa verið að tala um verkefnastjórnun sem hefði falist í því að taka við tímum frá starfsmönnum og að koma þeim upplýsingum áleiðis, svo hægt yrði að gefa út reikninga. Allt hafi þetta verið í því skyni að ákærði uppfyllti skyldur sínar samkvæmt samningi þeirra meðákærða frá 25. maí 2016, er hann seldi meðákærða félagið og sem ákærði taldi sig hafa uppfyllt, og skýrði hann þetta. Spurður um samkomulag sem meðákærði lýsti, þess efnis að ákærði hefði átt að annast daglegan rekstur félagsins á þessum tíma og m.a. skil virðisaukaskattsskýrslna og innheimts virðisaukaskatts, vísaði ákærði til samnings þeirra meðákærða frá 25. maí 2016, sem væri samkomulagið sem gert var og kvaðst ákærði hafa staðið í þeirri meiningu að þá hefði meðákærði tekið við félaginu. Hefði meiningin verið sú að meðákærði tæki félagið yfir á öðrum tíma hefði samningurinn verið gerður þá, að sögn ákærða. Hann hefði samkvæmt þessu ekki átt að sinna daglegri fjármálastjórn félagsins og/eða að annast skil virðisaukaskattsskýrslna eða innheimts virðisaukaskatts eða að sjá um það sem laut að bókhaldi. Hann kannist ekki við annað samkomulag. Ákærði kvaðst hafa haft prókúru en reiknað með því að meðákærði færi í bankann og fengi prókúru, sem hann hefði getað gert án aðkomu ákærða.

Við skýrslutöku hjá lögreglu greindi ákærði svo frá að meðákærði hefði aðgang að bankareikningum félagsins í gegnum ákærða. Spurður um þetta fyrir dómi kvað hann meðákærða hafa getað, með sinni aðstoð eða A, komist inn í kerfið. Spurður um það hver hefði sinnt daglegri fjármálastjórn hjá félaginu frá 1. júlí 2016 kvaðst ákærði telja að ríkt hefði stjórnleysi en hann hefði ekki átt að sinna þessu. Spurður um ástæðu þess að hann seldi félagið, fyrst hann hafði með höndum umfangsmikla starfsemi, kvað hann ástæðuna þá að stór hluti verktakastarfseminnar hefði séð um sig sjálfur, eins og ákærði bar og skýrði nánar. Ákærði hefði ekki ætlað að ljúka verkum sem þessir verktakar sinntu heldur hefði hann einkum ætlað að ljúka einu verki, auk nokkurra minni verkefna. Hann kvaðst ekki hafa gefið út reikninga vegna þessara verkefna heldur hefði tölvupóstur verið sendur og A eða aðrir sem unnu fyrir félagið hefðu gefið út reikninga, en þetta hefði verið gert samkvæmt samkomulagi þeirra meðákærða, eftir því sem helst mátti skilja ákærða, enda hefði meðákærði vitað af verkefnunum sem um ræðir en ákærði kvaðst hafa talið sig hafa gert meðákærða grein fyrir verkefnunum sem unnin voru og tengdust félaginu.

Við skýrslutöku hjá lögreglunni greindi ákærði svo frá að hann hefði gefið út reikninga og rekið á eftir því að þeir fengjust greiddir og hann hefði skrifað reikninga fyrir vinnu meðákærða Hallgríms og allt hefði þetta verið gert í samstarfi við hann. Spurður um þetta fyrir dómi kvaðst ákærði hafa sett upp planið, eins og hann bar, og séð um að tölvupóstur og upplýsingar bærust svo unnt væri að gefa út reikninga. Aðspurður kvað hann meðákærða hafa átt að sjá um skil virðisaukaskattsskýrslna og innheimts virðisaukaskatts þau tímabil sem ákæran tekur til. Þetta hefði ekki verið í sínum verkahring.

Ákæruliður 2

Ákærði Hallgrímur neitar sök og kvað neitun sína og afstöðu til þessa sakarefnis hina sömu og rakin var varðandi ákærulið 1. Ákærði Hallgrímur kvað meðákærða og A, starfsmenn félagsins, hafa átt að halda bókhaldið og varðveita gögn vegna þess. Hann kvaðst ekki hafa gengið eftir því að bókhaldið yrði fært, en hann hefði gert ráð fyrir því að það væri gert og kvaðst enga aðkomu hafa haft að færslu þess og hann vissi ekki hvers vegna það var ekki fært. Hann hefði ekki haft aðgang að bókhaldi félagsins.

Ákærði Magnús neitar sök og kvað hið sama eiga við um skyldur meðákærða og rakið var í ákærulið 1 að framan. Félagið hefði orðið gjaldþrota og hann vissi ekki hvað varð um bókhaldsgögn. Spurður um það hvers vegna gögnunum hefði ekki verið komið til bókhaldsskrifstofu sem annaðist bókhaldið kvað hann ástæðuna þá að félagið hefði ekki getað greitt fyrir færslu þess og bókhaldsstofan því hætt að taka við gögnum.

Vitnið A kvaðst hafa unnið sem verktaki hjá Tóka ehf. á þeim tíma sem í ákæru greinir og hún hefði á tímabilinu gefið út reikninga fyrir félagið og sinnt öðrum verkefnum samkvæmt beiðni frá öðrum hvorum ákærðu. Hún hefði ekki innheimt reikninga fyrir félagið þótt hún kynni að hafa hringt og spurt hvenær greiðslu væri að vænta vegna einstakra reikninga. Hún kvaðst nokkrum sinnum hafa fengið aðgang að bankareikningi félagsins, gegnum ákærða Magnús, þegar hún var beðin um að greiða reikninga frá Hallgrími, en hún vissi ekki hvort hann hefði haft aðgang að bankareikningi félagsins á þessum tíma. Hún hefði á þessu tímabili unnið samkvæmt fyrirmælum beggja ákærðu. Spurð hvort munur hefði verið á fyrirmælum ákærðu kvað hún ákærðu báða hafa beðið sig að gera reikninga og að þeir hefðu báðir verið í sambandi við sig vegna þeirra.

Vitnið A var spurð um bókhald félagsins og kvaðst hún hafa prentað út reikninga og haldið til haga, en hún hefði ekki annast færslu bókhaldsins.

Vitnið A kvaðst þannig hafa unnið fyrir félagið samkvæmt fyrirmælum frá öðrum hvorum ákærða hverju sinni. Hún hefði ekki annast skattskil félagsins og hún vissi ekki hvort einhver breyting hefði orðið á fyrirkomulagi skattskila er fyrirtækið var selt ákærða Hallgrími í maí 2016. Hún kvaðst hafa greitt reikninga frá báðum ákærðu, inn á reikning hvors um sig, samkvæmt fyrirmælum, en hún myndi ekki hvort reikningarnir voru greiddir með virðisaukaskatti.

Niðurstaða. Ákæruliðir 1 og 2.

Samkvæmt gögnum málsins barst ríkisskattstjóra tilkynning um breytingu á stjórn, prókúru og eignarhaldi Tóka ehf. hinn 22. júní 2016. Þar kemur fram að ákærði Magnús hafi selt ákærða Hallgrími alla eignarhluti í félaginu og væri félagið að fullu í eigu ákærða Hallgríms, sem í sömu tilkynningu er sagður vera stjórnarformaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi félagsins. Ákærðu hafa báðir borið að samskipti þeirra hafi farið eftir samningi þeirra um félagið sem dagsettur er 25. maí 2016 er ákærði Hallgrímur keypti félagið af ákærða Magnúsi. Í 3. gr. samnngsins segir m.a. að afhendingardagur sé 26. maí 2016 og að áhættuskil vegna réttinda og skuldbindinga félagsins, opinberra gjalda o.s.frv. skuli miðast við þann dag.

Eins og rakið var hefur ákærði Hallgrímur borið að ákærðu hafi til viðbótar samningnum sem lýst var gert með sér samkomulag um að ákærði Magnús annaðist daglegan rekstur félagsins þann tíma sem ákæran tekur til og samkvæmt því samkomulagi hafi það verið í hans verkahring að annast skil virðisaukaskattsskýrslna og innheimts virðisaukaskatts og annast færslu bókhalds á sama tíma.

Ákærði Magnús neitar þessu og segir ekki annað samkomulag hafa verið gert en það sem kveðið er á um í skriflegum samningi þeirra sem rakinn var. Það hafi því ekki verið í sínum verkahring að annast skil virðisaukaskattsskýrslna, innheimts virðisaukaskatts eða að sjá um færslu bókhalds. Sín stjórnun hafi lotið að verklegum framkvæmdum en ekki að daglegri fjármálastjórn hjá félaginu.

Að þessu og öðru því sem rakið hefur verið og öðrum gögnum málsins virtum er ósannað, gegn neitun ákærða Magnúsar, að hann hafi verið daglegur stjórnandi hjá félaginu og sem slíkur haft þær skyldur að annast skil virðisaukaskattsskýrslna og innheimts virðisaukaskatts og að annast færslu bókhalds eins og lýst er í ákæru, sem væri í andstöðu við skriflegt samkomulag ákærðu sem lýst var. Samkvæmt þessu ber að sýkna ákærða Magnús af háttseminni sem í ákæru greinir.

Sannað er með gögnum málsins að hvorki voru staðin skil á virðisaukaskattsskýrslum né á innheimtum virðisaukaskatti tímabilin sem í 1. lið ákæru greinir og eru fjárhæðir þar rétt greindar. Þá liggur einnig fyrir samkvæmt gögnum málsins að bókhald var ekki fært tímabilin sem í 2. lið ákæru grenir.

Ákærði Hallgrímur var á því tímabili sem í ákæru greinir stjórnarformaður og framkvæmdastjóri félagsins, eins og lýst er í ákæru. Vegna stöðu sinnar hjá félaginu bar ákærða Hallgrími m.a. að sjá til þess að nægilegt eftirlit væri haft með bókhaldi þess og að annast daglegan rekstur félagsins, en í því fólst m.a. að sjá um að virðisaukaskattsskýrslum og innheimtum virðisaukaskatti væri skilað á réttum tíma. Er í þessu sambandi vísað til dómaframkvæmdar í sambærilegum málum og til 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Ákærði Hallgrímur sinnti ekki þessum skyldum sínum og hefur hann því gerst sekur um brotin sem hann er ákærður fyrir í ákæru og eru brotin þar rétt færð til refsiákvæða.

Ákærði hefur ekki áður gerst brotlegur við lög. Að öllu framarituðu virtu þykir refsing hans hæfilega ákvörðuð fangelsi í 4 mánuði sem fresta skal fullnustu eins og í dómsorði greinir.

Auk refsivistar ber að dæma ákærða Hallgrím til greiðslu sektar í ríkissjóð. Eins og sakarefni málsins er háttað þykir ekki fært að miða sekt við lágmark sektarfjárhæðar samkvæmt lögum nr. 50/1988. Að þessu virtu er ákærða gert að greiða 25.100.000 króna sekt í ríkissjóð og komi 330 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá uppsögu dómsins að telja.

Ákærði Hallgrímur greiði 105.400 krónur vegna útlagðs sakarkostnaðar ákæruvaldsins.

Ákærði Hallgrímur greiði 1.264.800 króna málsvarnarlaun Áslaugar Gunnlaugsdóttur lögmanns.

Ríkissjóður greiði 579.700 króna málsvarnarlaun Elvu Óskar Wiium lögmanns, skipaðs verjanda ákærða Magnúsar.

Sigríður Árnadóttir aðstoðarsaksóknari flutti málið fyrir ákæruvaldið. Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð:

Ákærði, Magnús Sigurðsson, er sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.

Ákærði, Hallgrímur Egilsson, sæti fangelsi í 4 mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar skilorðsbundið í 2 ár frá birtingu dómsins að telja og falli refsing hans niður að þeim tíma liðnum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Þá greiði ákærði Hallgrímur 25.100.000 króna sekt í ríkissjóð og komi 330 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá uppsögu dómsins að telja.

Ákærði Hallgrímur greiði 105.400 krónur vegna útlagðs sakarkostnaðar ákæruvaldsins.

Ákærði Hallgrímur greiði 1.264.800 króna málsvarnarlaun Áslaugar Gunnlaugsdóttur lögmanns. Ríkissjóður greiði 579.700 króna málsvarnarlaun Elvu Óskar Wiium lögmanns.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum