2020

Dómur Landsréttar 7. maí 2020 í máli nr. 69/2020

7.5.2020

Úrskurður fimmtudaginn 7. maí 2020. 

Mál nr. 69/2020: 
Ákæruvaldið 
(Ásmunda Björg Baldursdóttir saksóknari) 
gegn 
X
(Óskar Sigurðsson lögmaður) 
og Y 
(Pétur Fannar Gíslason lögmaður) 

Lykilorð 
Kærumál. Skattalög. Mannréttindasáttmáli Evrópu. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi. 

Útdráttur 
Felldur var úr gildi úrskurður héraðsdóms þar sem máli ákæruvaldsins gegn X og Y, sem fyrirsvarsmanna A ehf., var vísað frá dómi á grundvelli þess að skort hefði á skilyrði um nauðsynlega samþættingu málsmeðferða í efni og tíma á hendur þeim vegna meintra skattalagabrota, í trássi við 4. gr. 7. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu. Var það niðurstaða Landsréttar að ekki yrði talið að rannsókn á skattskilum félagsins hefði lokið með skýrslu skattrannsóknarstjóra árið 2014 enda hefði ekki komið til endurákvörðunar gjalda vegna gjaldþrots og afskráningar félagsins, auk þess sem skattrannsóknarstjóri hefði vísað málinu til rannsóknar héraðssaksóknara ári síðar. Tafir á rannsókn málsins þar gætu ekki breytt því. Þá var talið að um tvö aðskilin mál væri að ræða, annars vegar persónuleg skattskil aðila og hins vegar skattskil félagsins, og því hefði það ekki þýðingu að leysa úr því hvort skilyrði um samþættingu málsmeðferða væri til staðar.

Úrskurður Landsréttar 

Landsréttardómararnir Davíð Þór Björgvinsson og Jóhannes Sigurðsson og Hjörtur O. Aðalsteinsson, settur landsréttardómari, kveða upp úrskurð í máli þessu. 

Málsmeðferð og dómkröfur aðila 

1 Sóknaraðili skaut málinu til Landsréttar með kæru 31. janúar 2020, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. febrúar 2020. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 31. janúar 2020 í málinu nr. S-[...]/2019 þar sem vísað var frá dómi máli sóknaraðila gegn varnaraðila. Kæruheimild er í t-lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.  

2 Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt verði fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. 

3 Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Málsatvik og sönnunarfærsla 

4 Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði vísaði skattrannsóknarstjóri máli þessu til héraðssaksóknara 27. október 2015, sem þá hét Embætti sérstaks saksóknara, vegna ætlaðra brota á ákvæðum laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og eftir atvikum ákvæðum almennra hegningarlaga nr. 19/1940. 

5 Héraðssaksóknari höfðaði síðan mál þetta 27. júní 2019 á hendur varnaraðilunum X sem framkvæmdastjóra og Y sem daglegum stjórnanda og stjórnarmanni einkahlutafélagsins A, sem nú hefur verið afskráð, fyrir (i) að hafa ekki staðið skil á skattframtölum einkahlutafélagsins á lögmæltum tíma rekstrarárin 2008 og 2009, vegna gjaldáranna 2009 og 2010 og (ii) að hafa ekki staðið skil á staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts að fjárhæð 16.653.037 krónur en um var að ræða fjármagnstekjuskatt af 166.530.373 króna arðsúthlutun úr einkahlutafélaginu til varnaraðila á rekstrarárinu 2008. Brotin í 1. og 2. tölulið ákæru eru talin varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig 2. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, að því er varðar 1. tölulið ákæru og 2. mgr. 19. gr. laga nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, að því er varðar 2. tölulið ákæru. 

6 Skattrannsóknarstjóri hóf rannsókn á skattskilum einkahlutafélagsins A 11. apríl 2013 á grundvelli bréfs ríkisskattstjóra 3. október 2011. Í niðurstöðum skýrslu skattrannsóknarstjóra kemur fram að félagið hafi vanrækt að standa skil á skattframtölum og ársreikningum vegna rekstraráranna 2008 og 2009 og að hlutafjármiða hafi verið skilað of seint. Jafnframt hafi fjármagnstekjuskatti af arðgreiðslu til skráðra fyrirsvarsmanna félagsins ekki verið skilað til ríkissjóðs. Samtals hafi greiddar arðgreiðslur numið 166.530.373 krónum, þar af hafi 86.845.236 krónur verið greiddar varnaraðilanum Y og 79.685.137 krónur varnaraðilanum X. Vangreiddur fjármagnstekjuskattur vegna arðgreiðslu hafi numið alls 16.653.037 krónum, nánar tiltekið 8.684.524 krónum vegna varnaraðila Y. Þá hafi fært bókhald og bókhaldsgögn ekki verið afhent. Þá kemur fram í skýrslunni að skylda til að skila afdregnum fjármagnstekjuskatti vegna arðgreiðslunnar hafi hvílt á skattaðila og að gjalddagi greiðslu hans hafi verið 15. janúar 2009. Þá var það niðurstaða skattrannsóknarstjóra að á gjalddaga afdregins fjármagnstekjuskatts hafi varnaraðilar verið eigendur að félaginu og prókúruhafar og verið ábyrgir fyrir skattskilum félagsins sem fyrirsvarsmenn þess, auk þess sem þeir hafi verið eigendur í félaginu fram að afskráningu. 

7 Skattrannsóknarstjóri hóf rannsókn 11. apríl 2013 á persónulegum skattskilum varnaraðilans Y vegna tekjuáranna 2008 og 2009. Í niðurstöðukafla skýrslu skattrannsóknarstjóra segir að staðin hafi verið skil á efnislega röngum skattframtölum gjaldárin 2009 og 2010 vegna tekjuáranna 2008 og 2009 og greiðslur frá einkahlutafélaginu B á árinu 2008 hafi verið vanframtaldar. Þá hafi varnaraðili Y ekki staðið skil á staðgreiðslu vegna arðsúthlutunar að fjárhæð 8.684.524 krónur. Í úrskurði ríkisskattstjóra 13. október 2015 um endurákvörðun á opinberum gjöldum gjaldárin 2009 og 2010 var komist að þeirri niðurstöðu að varnaraðili Y hefði vanframtalið tekjur að fjárhæð 22.184.000 krónur frá einkahlutafélaginu B og hækkaði tekjuskatts- og útsvarsstofn hans gjaldárið 2009 um sömu fjárhæð og var 25% álagi, að fjárhæð 5.546.000 krónur, bætt við. Þá var talið að varnaraðilinn hefði oftalið staðgreiðslu af arði frá A ehf. vegna tekjuáranna 2008 til 2009. Í úrskurðinum kemur fram að varnaraðilanum Y hefði átt að vera kunnugt um, sem eiganda að helmingi hlutafjár í A ehf., að staðgreiðslu af arðinum hefði ekki verið skilað af hálfu félagsins. Þannig lækkaði ríkisskattstjóri staðgreiðslu af arði vegna varnaraðila og eiginkonu hans um 280.000 krónur vegna tekjuársins 2008 og um 9.500.000 krónur vegna tekjuársins 2009, vegna samsköttunarreglu 2. töluliðar 1. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003. 

8 Þann 16. desember 2016 vísaði skattrannsóknarstjóri máli varnaraðila Y til yfirskattanefndar til sektarmeðferðar. Með kærunni var honum gefið að sök að hafa skilað efnislega röngu skattframtali gjaldárið 2009 með því að telja ekki fram tekjur frá B ehf. að fjárhæð 22.184.000 krónur. Í úrskurði nefndarinnar 30. mars 2016 nr. 62/2016 varð niðurstaðan sú að líta skyldi á framangreindar greiðslur frá B ehf. sem arðgreiðslur en ekki sem tekjur. Með hliðsjón af því skyldi leggja á varnaraðilann Y sekt að fjárhæð 1.350.000 krónur til ríkissjóðs. 

9 Yfirskattanefnd kvað upp úrskurð nr. 232/2016 í máli varnaraðila 2. nóvember 2016 en hann hafði kært álagningu opinberra gjalda gjaldárin 2009 og 2010. Í úrskurði yfirskattanefndar voru felldar úr gildi breytingar ríkisskattstjóra hvað varðar afdregna staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts vegna arðgreiðslu frá A ehf. til varnaraðila en úrskurður ríkisskattstjóra var staðfestur að öðru leyti. 

Niðurstaða 

10 Í greinargerð sinni til Landsréttar færa varnaraðilar fram ýmsar málsástæður fyrir kröfu sinni um frávísun málsins. Lúta þær í meginatriðum að annmörkum á ákæru, fyrningu sakar, sé hún fyrir hendi, og á því að rannsókn héraðssaksóknara á því hvort saknæmisskilyrði hafi verið uppfyllt sé ábótavant. Er þetta skilmerkilega rakið í úrskurði héraðsdóms. Með vísan til forsendna úrskurðar héraðsdóms verður talið að þessar málsástæður geti ekki leitt til þess að málinu verði vísað frá dómi, enda ættu þær að leiða til sýknu ef fallist yrði á þær. 

11 Þá telja varnaraðilar að óhóflega langur málsmeðferðartími sé í andstöðu við 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Fallast má á með varnaraðilum að mál þetta hefur dregist óhóflega, eins og rakið er í úrskurði héraðsdóms. Aftur á móti verður ekki fallist á að málinu verði vísað frá af þessari ástæðu þótt þetta geti eftir atvikum komið til skoðunar við ákvörðun refsingar verði varnaraðilar sakfelldir, sem og við ákvörðun um hvort refsing skuli skilorðsbundin. 

12 Þá bera varnaraðilar fyrir sig að þeir hafi ekki borið ábyrgð á skattskilum félagsins þar sem félagið hafi verið selt 1. júlí 2009 og þeir þannig ekki borið ábyrgð á skattframtölum þess umrædd tekjuár. Ef fallist yrði á þessa málsástæðu ætti hún að leiða til sýknu. Verður kröfu um frávísun málsins af þessari ástæðu hafnað. 

13 Loks vísa varnaraðilar til þess að málshöfðun héraðssaksóknara sé í andstöðu við 1. mgr. 4. gr. 7. samningsviðauka mannréttindasáttmála Evrópu. Niðurstaða skattrannsóknarstjóra hafi legið fyrir 8. desember 2014. Halda varnaraðilar því fram að réttlætanlegt geti verið að reka bæði stjórnsýslumál og refsimál á hendur sama aðila, enda sé það þá gert í samræmi við þær kröfur sem gerðar séu í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu og Hæstaréttar. Til þess að svo sé verði rekstur málanna að mynda samþætta heild. Í þessu máli hafi hins vegar liðið tæp fjögur ár frá því að stjórnsýslumálinu hafi lokið hjá skattrannsóknarstjóra og þar til ákæra hafi verið gefin út. Þá megi líta til þess að ákvarðanir sem varði meðvarnaraðilann Y hafi legið fyrir vegna sömu atvika og þeir séu nú báðir ákærðir fyrir. Ákærði hafi því haft réttmætar ástæður til að ætla að rannsókn málsins væri endanlega lokið. Brjóti því málsmeðferðin gegn 1. mgr. 4. gr. samningsviðauka nr. 7 við mannréttindasáttmála Evrópu. 

14 Sóknaraðili heldur því á hinn bóginn fram að ákvæði 1. mgr. 4. gr. 7. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu eigi ekki við í málinu. Varnaraðilar hafi ekki sætt neinni refsingu fyrir þá háttsemi sem nú sé ákært fyrir. Þeir sæti ákæru sem fyrirsvarsmenn A ehf. þar sem þeir hafi borið ábyrgð á réttum skattskilum þess. Félagið hafi ekki sætt neinni endurákvörðun eða álagi sem verði jafnað til refsingar í skilningi sáttmálans, enda hafi félagið verið gjaldþrota og verið afskráð. Jafnvel þótt félagið hefði sætt endurákvörðun eða álagi hefði það engin áhrif haft á mál ákærðu þar sem félagið sé sjálfstæð lögpersóna. Varnaraðilar hafi ekki í störfum sínum fyrir félagið persónulega sætt neinni endurákvörðun eða álagi. Varnaraðilinn Y hafi á hinn bóginn sætt endurákvörðun og álagi persónulega vegna sinna eigin persónulegu skattskila. Hér sé um að ræða aðskilda skattaðila, annars vegar félagið og hins vegar varnaraðilann Y persónulega. Varnaraðilinn Y hafi engum viðurlögum sætt til þessa sem skipti hér máli, hvorki sem fyrirsvarsmaður A ehf. né persónulega vegna sinna eigin skattskila. 

15 Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. 7. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu skal enginn sæta lögsókn né refsingu að nýju í sakamáli innan lögsögu sama ríkis fyrir brot sem hann hefur þegar verið sýknaður af eða sakfelldur fyrir með lokadómi samkvæmt lögum og sakamálaréttarfari viðkomandi ríkis. Markmið með ákvæðinu er að koma í veg fyrir málsmeðferð að nýju eftir að annarri er lokið gagnvart sama aðila vegna sömu eða sambærilegra atvika, sbr. meðal annars dóm Landsréttar í máli nr. 4/2018 frá 4. maí 2018.  

16 Mannréttindadómstóll Evrópu hefur kveðið upp fjölda dóma á grundvelli þessa ákvæðis. Í mörgum þeirra reynir á, með líkum hætti og í því máli sem hér er til úrlausnar, samspil stjórnsýsluviðurlaga og refsinga í ljósi reglunnar um bann við tvöfaldri málsmeðferð, sbr. dóm 8. júní 1976 í máli Engel og fleiri gegn Hollandi, ákvörðun 14. september 1999 í máli Ponsetti og Chesnel gegn Frakklandi, ákvörðun 14. september 2004 í máli Rosenquist gegn Svíþjóð, ákvörðun 1. febrúar 2007 í máli Storbråten gegn Noregi, ákvörðun 1. febrúar 2007 í máli Mjelde gegn Noregi, ákvörðun 11. desember 2007 í máli Haarvig gegn Noregi, dóm 10. febrúar 2009 í máli Zolotukhin gegn Rússlandi, dóm 16. júní 2009 í máli Ruotsalainen gegn Finnlandi, dóm 25. júní 2009 í máli Maresti gegn Króatíu, dóm 14. janúar 2010 í máli Tsonyo Tsonev gegn Búlgaríu, dóm 15. nóvember 2016 í máli A og B gegn Noregi og dóm 18. maí 2017 í máli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og fleiri gegn Íslandi. Enn ber að nefna dóm í máli Pirttimaäki gegn Finnlandi frá 20. maí 2014. 

17 Þeir dómar Mannréttindadómstóls Evrópu sem helst ber að taka mið af eru í málum A og B gegn Noregi frá 15. nóvember 2016 og dómur í máli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og fleiri gegn Íslandi frá 18. maí 2017. Fyrrnefndi dómurinn felur í sér að ákvæði 4. gr. 7. samningsviðaukans er skýrt á þann veg að það útiloki ekki beitingu staðlaðs skattálags hjá skattyfirvöldum vegna vangreiðslu skatta í alvarlegri málum þar sem jafnframt gæti verið viðeigandi að efna til saksóknar fyrir refsivert brot. Í slíkum tilvikum þyrfti rekstur málanna þó að vera nægilega tengdur að efni til og í tíma til að úr yrði samþætt heild, allt í því skyni að meðalhófs væri gætt og hin samþætta málsmeðferð legði ekki óhóflegar byrðar á viðkomandi. 

18 Í dómi Hæstaréttar 21. september 2017 í máli nr. 283/2016 er leitast við að beita þeim sjónarmiðum og viðmiðum sem fram koma í þessum dómum Mannréttindadómstóls Evrópu. Í dóminum kemur fram að við mat á því hvort málsmeðferð teljist nægilega samþætt að efni til beri í fyrsta lagi að líta til þess hvort meðferð seinna málsins hafi verið til fyllingar eða viðbótar meðferð hins fyrra, í öðru lagi hvort hin tvíþætta málsmeðferð hafi verið fyrirsjáanleg afleiðing þeirrar háttsemi sem um ræðir, í þriðja lagi hvort leitast hafi verið við af fremsta megni að forðast endurtekna öflun og mat sönnunargagna og í fjórða lagi hvort í síðari málsmeðferðinni hafi verið tekið tillit til þeirra viðurlaga sem áður voru á lögð. 

19 Dómur Mannréttindadómstólsins í máli Pirttimaäki gegn Finnlandi frá 20. maí 2014 hefur einnig sérstaka þýðingu við úrlausn þessa máls. Í málinu sætti kærandi, sem var eigandi og stjórnandi félags sem var sjálfstæð lögpersóna, álagi á vantaldar greiðslur frá félagi í hans eigu til sín persónulega en félögin höfðu áður sætt endurákvörðun og álagi við meðferð skattyfirvalda. Mannréttindadómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að 4. gr. 7. samningsviðauka ætti ekki við í málinu. Kærandi annars vegar og félögin sem voru í hans eign og undir hans stjórn hins vegar væru sjálfstæðir aðilar að lögum. Sambærilega afstöðu er einnig að finna í ákvörðun Mannréttindadómstólsins í máli Isaksen gegn Noregi frá 2. október 2003. Til hliðsjónar er hér einnig dómur Evrópudómstólsins frá 5. apríl 2017 í sameinuðum málum 2117/15 og 350/15 sem varðar skýringu á 50. gr. mannréttindaskrár Evrópusambandsins sem samsvarar 4. gr. 7. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu. 

20 Í því máli sem hér er til úrlausnar hagar svo til að skattrannsóknarstjóri hóf rannsókn á skattskilum A ehf. í apríl 2013 en varnaraðilar voru fyrirsvarsmenn þess eins og að framan er rakið. Í skýrslu skattrannsóknarstjóra komu fram ýmsar athugasemdir við skattskil félagsins vegna tekjuáranna 2008 og 2009. Ekki kom til endurákvörðunar gjalda á félagið þar sem það var gjaldþrota og hafði verið afskráð. Vísaði skattrannsóknarstjóri síðan málinu til rannsóknar lögreglu 27. október 2015. Verður þannig ekki fallist á að skýrsla skattrannsóknarstjóra hafi falið í sér lyktir máls vegna skattskila A ehf. Geta tafir sem urðu á rannsókn málsins eftir það hjá héraðssaksóknara ekki breytt því. 

21 Rannsókn hófst á skattskilum varnaraðilans Y persónulega í apríl 2013. Var honum gert að sæta álagi með úrskurði yfirskattanefndar nr. 232/2016 frá 2. nóvember 2016. Þessi ákvörðun beindist eingöngu að varnaraðila persónulega vegna skattskila hans, en ekki vegna skattskila fyrir félagið. Í þessu máli er varnaraðili ekki ákærður vegna persónulegra skattskila sinna, heldur vegna vanrækslu á réttum skattskilum fyrir félagið. Hafa hvorki hann né meðvarnaraðili hans X áður sætt stjórnsýslumeðferð eða stjórnsýsluviðurlögum sem jafnað verður til refsinga vegna vanrækslu sinnar á skattskilum fyrir félagið. Við þessar aðstæður hefur hér ekki þýðingu að leysa úr því hvort mál sem varðar skattskil varnaraðila persónulega og mál gegn sama varnaraðila sem höfðað er vegna vanrækslu við skattskil A ehf. fullnægi áskilnaði um efnislega samþættingu þar sem um tvö aðskilin mál er að ræða sem varða mismunandi aðila. Af sömu ástæðu hefur ekki þýðingu að leysa úr því hvort málin hjá skattyfirvöldum annars vegar og ákæruvaldi hins vegar voru rekin samhliða. Í samræmi við þetta verður ekki fallist á að vísa beri málinu frá dómi vegna þess að málsókn sóknaraðila fari gegn 1. mgr. 4. gr. 7. gr. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu. 

22 Samkvæmt þessu er öllum þeim málsástæðum sem varnaraðilar hafa reist á kröfu sína um frávísun málsins hafnað. Verður hinn kærði úrskurður fellur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnisúrlausnar. 

23 Kærumálskostnaður verður ekki úrskurðaður, sbr. 3. mgr. 237. gr. laga nr. 88/2008. 

Úrskurðarorð: 

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands föstudaginn 31. janúar 2020

Mál þetta er höfðað með ákæru Héraðssaksóknara, 27. júní 2019, á hendur X, kt. […], […], […] og Y, kt. […], […], […]

„fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum, X sem framkvæmdastjóra og Y sem daglegum stjórnanda og stjórnarmanni einkahlutafélagsins […], kt. […], nú afskráð, með því að hafa: 

1. Eigi staðið skil á skattframtölum einkahlutafélagsins á lögmæltum tíma rekstrarárin 2008 og 2009, vegna gjaldáranna 2009 og 2010.

2. Eigi staðið skil á staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts að fjárhæð kr. 16.653.037, en um var að ræða fjármagnstekjuskatt af kr. 166.530.373 arðsúthlutun úr einkahlutafélaginu til ákærðu á rekstrarárinu 2008.

Framangreind brot ákærðu samkvæmt 1. og 2. tölulið ákæru teljast varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig: a) 2. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, að því er varðar 1. tölulið ákæru. b) 2. mgr. 19. gr. laga nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, að því er varðar 2. tölulið ákæru.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Málið var þingfest 22. ágúst 2019. 
Ákærðu neita báðir sök. 
Af hálfu beggja ákærðu hafa verið lagðar fram greinargerðir þar sem þess er krafist að málinu verði vísað frá dómi. Af hálfu beggja ákærðu er þess jafnframt krafist að allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. hæfileg málsvarnarlaun verjenda þeirra ásamt virðisaukaskatti. 
Af hálfu ákæruvalds er framangreindum kröfum ákærðu um frávísun mótmælt og þess krafist að þeim verði hrundið og að málið fái efnismeðferð. 
Munnlegur málflutningur um frávísunarkröfurnar fór fram 4. nóvember 2019 og voru þær að svo búnu teknar til úrskurðar. Vegna anna dómsins var ekki kveðinn upp úrskurður innan tímamarka 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008 og var munnlegur málflutningur endurtekinn 16. janúar 2020 og málið tekið til úrskurðar á ný. Í þessum úrskurði er einungis fjallað um kröfur ákærðu um frávísun. 

Málavextir 

Með bréfi, dags. 27. október 2015, vísaði Skattrannsóknarstjóri máli þessu til Héraðssaksóknara, sem þá hét Embætti sérstaks saksóknara, vegna meintra brota á ákvæðum laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og eftir atvikum almennra hegningarlaga nr. 19/1940. 

Var málið aðeins sent til saksóknara að því er varðaði ákærða X, en málið var ekki sent sérstaklega til saksóknara vegna ákærða Y, en með bréfi Skattrannsóknarstjóra til hans, dags. 27. október 2015, var honum kynnt að málið yrði sent til rannsóknar lögreglu, en jafnframt að hann væri ekki kærður í málinu af hálfu Skattrannsóknarstjóra, en forræði málsins og allar ákvarðanir um áframhaldandi refsimeðferð á hendur honum yrðu hér eftir í höndum embættis sérstaks saksóknara. Þá er tekið sérstaklega fram í bréfinu að staða ákærða Y sem sakbornings í málinu væri felld niður. 
Í bréfi Skattrannsóknarstjóra segir að málið sé sent á grundvelli fyrirliggjandi gagna um rannsókn á bókhaldi og skattskilum […] ehf., sem nú sé afskráð, sbr. skýrslu Skattrannsóknarstjóra, dags. 27. nóvember 2014. 

Segir í bréfinu að rannsókn Skattrannsóknarstjóra á bókhaldi og skattskilum […] ehf. hafi leitt m.a. í ljós að vanrækt hafi verið að standa skil á skattframtölum og ársreikningum vegna rekstraráranna 2008 og 2009 og að skilað hefði verið hlutafjármiða of seint. Þá hafi rannsóknin leitt í ljós að fjármagnstekjuskattur af arðgreiðslu til skráðra fyrirsvarsmanna félagsins, sem greiddur hafi verið, hafi ekki verið skilað til ríkissjóðs. Samtals hafi greiddar arðgreiðslur numið kr. 166.530.373, þar af kr. 86.845.236 til ákærða Y og kr. 79.685.137 til ákærða X. Vangreiddur fjármagnstekjuskattur vegna arðgreiðslu hafi numið alls kr. 16.653.037, nánar tiltekið kr. 8.864.524 vegna ákærða X. Þá hafi fært bókhald og bókhaldsgögn ekki verið afhent. 

Þá sé það niðurstaða rannsóknarinnar að skilaskylda afdregins fjármagnstekjuskatts vegna arðgreiðslunnar hafi hvílt á skattaðila og að gjalddagi greiðslu hans hafi verið 15. janúar 2009. Ennfremur sé það niðurstaða Skattrannsóknarstjóra að á gjalddaga hins afdregna fjármagnstekjuskatts hafi ákærði X verið eigandi skattaðila og prókúruhafi og verið ábyrgur fyrir skattskilum félagsins sem fyrirsvarsmaður þess. Auk þess hafi hann verið eigandi hlutafjár í skattaðila fram að afskráningu félagsins. Háttsemi ákærða X kunni að varða hann refsingu skv. 2. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 og 2. mgr. 19. gr. laga nr. 94/1996 um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, sbr. og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá segir að með bréfi Skattrannsóknarstjóra, dags. 8. desember 2014, hafi ákærða X verið tilkynnt um fyrirhugaða töku ákvörðunar um refsimeðferð í málinu og honum gefinn frestur til að tjá sig um hana, en það hafi hann ekki gert. 

Um mál ákærða Y hefur verið fjallað í úrskurðum yfirskattanefndar. Í úrskurði Yfirskattanefndar nr. 62/2016, sem kveðinn var upp 30. mars 2016, kemur fram að Skattrannsóknarstjóri hafi vísað máli ákærða Y til sektarmeðferðar hjá nefndinni með bréfi þann 16. desember 2015. Kemur fram í bréfinu að ákærða sé gefið að sök að hafa staðið skil á efnislega röngu framtali gjaldárið 2009 vegna tekjuársins 2008, með því að vanframtelja tekjur sínar sem til séu komnar vegna greiðslna frá […]. ehf. inn á bankareikning ákærða, en ákærði hafi verið hlutareigandi og starfsmaður félagsins, samtals kr. 22.184.000. Varð niðurstaða Yfirskattanefndar að leggja til grundvallar að um arðstekjur hafi verið að ræða og leggja á ákærða sekt að fjárhæð kr. 1.350.000 til ríkissjóðs. 

Þá var fjallað um mál ákærða Y í úrskurði Yfirskattanefndar í málinu nr. 232/2016, sem kveðinn var upp 2. nóvember 2016. Þar kemur fram að ákærði hefði þann 11. janúar 2016 skotið til nefndarinnar úrskurði ríkisskattstjóra 13. október 2015 um endurákvörðun opinberra gjalda hans gjaldárin 2009 og 2010. Endurákvörðun ríkisskattstjóra hafi farið fram í kjölfar rannsóknar Skattrannsóknarstjóra á skattskilum ákærða vegna tekjuáranna 2008 og 2009 sem hafi lokið með skýrslu embættisins 1. desember 2014. Með úrskurðinum hafi ríkisskattstjóri hækkað tekjuskatts- og útsvarsstofn ákærða um kr. 22.184.000 vegna meintrar úthlutunar verðmæta til ákærða frá […]. ehf. Hafi ríkisskattstjóri bætt 25% álagi við hækkun skattstofna. Þá hafi ríkisskattstjóri lækkað tilgreinda staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts í skattframtölum ákærða og eiginkonu hans árin 2009 og 2010 vegna arðgreiðslna frá […] ehf. (áður […] ehf.). Varð niðurstaða nefndarinnar sú að breytingar ríkisskattsjóra hvað snerti afdregna staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts gjaldárin 2009 og 2010 voru felldar úr gildi, en kröfum ákærða a.ö.l. hafnað. Þessi úrskurður var endurupptekinn hjá Yfirskattanefnd með úrskurði í máli nr. 262/2016 14. desember 2016, að því er tók til málskostnaðar og voru ákærða ákvarðaðar kr. 200.000 í málskostnað. 

Í niðurstöðukafla skýrslu Skattrannsóknarstjóra segir að helstu niðurstöður rannsóknar á tekjum og skattskilum skattaðila, sem er […] ehf., vegna rekstraráranna 2008 og 2009 séu að ársreikningum hafi ekki verið skilað, skattframtölum hafi ekki verið skilað, hlutafjármiða hafi verið skilað of seint, bókhald hafi ekki fengist afhent, fylgiskjöl hafi ekki fengist afhent, skilaskylda vegna afdregins fjármagnstekjuskatts vegna arðgreiðslunnar hafi hvílt á skattaðila, gjalddagi greiðslu fjármagnstekjuskatts vegna arðsúthlutunarinnar hafi verið 15. janúar 2009, á gjalddaga afdregins fjármagnstekjuskatts hafi ákærðu báðir verið eigendur skattaðila og prókúruhafar. Ákærði Y hafi að auki verið stjórnarformaður og ákærði X framkvæmdastjóri. Á þeim hafi því hvílt þær að fara með stjórn félagsins sem kveðið sé á um í 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Hafi þeir í samræmi við það borið ábyrgð að lögum á skattskilum vegna rekstrarins. Þá hafi þeir báðir verið eigendur hlutafjár í skattaðila uns skattaðili hafi verið afskráður. Tölulegar niðurstöður séu þær að árið 2008 hafi greiðslur til ákærða Y numið kr. 25.051.177 og til ákærða X kr. 24.235.137, en árið 2009 kr. 61.794.059 til ákærða Y og kr. 55.450.000 til ákærða X. Vangreiddur fjármagnstekjuskattur vegna ársins 2009 hafi numið samtals kr. 16.653.037. 

Hjá Héraðssaksóknara voru teknar skýrslur af ákærðu 1. október 2018 af ákærða X og þann 12. október 2018 af ákærða Y, auk þess að 7. nóvember 2018 var tekin þar skýrsla af Z, eiginkonu ákærða Y, sem kvaðst hafa séð um bókhald félagsins. Ekki verður séð að önnur rannsókn hafi farið fram í málinu hjá Héraðssaksóknara. 

Í skýrslu Skattrannsóknarstjóra er tiltekið að skattaðili sé […] ehf., áður […] ehf. Félagið hafi verið úrskurðað gjaldþrota 16. febrúar 2011 og hafi skiptum lokið 9. nóvember 2012 og félagið verið afskráð 14. nóvember 2012. Í stjórn félagsins frá stofnun 28. janúar 2004 og til 11. júní 2009 hafi báðir ákærðu setið, ákærði Y sem stjórnarmaður og ákærði X sem varamaður en sá síðarnefndi hafi jafnframt verið skráður framkvæmdastjóri og hafi þeir báðir haft prókúru. Samkvæmt fundi 11. júní 2009 hafi Z komið inn í stjórnina sem stjórnarmaður í stað ákærða Y, sem einnig hafi afsalað sér prókúru. Þá segir að samkvæmt fundi 1. júlí 2009 hafi stjórn skattaðila verið þannig skipuð að stjórnarmaður hafi verið Þ, en Æ varamaður. Hafi Æ jafnframt verið skráð sem framkvæmdastjóri og hafi þær báðar haft prókúru. Breytingar á stjórninni, þar sem Þ og Æ hafi verið skráðar í stjórn, hafi borist ríkisskattstjóra 16. október 2009. 

Um eignarhald félagsins segir í skýrslu Skattrannsóknarstjóra að frá stofnun félagsins hafi ákærðu verið eigendur þess og hvor fyrir sig átt 50% hlut. Þann 1. júlí 2009 hafi verið undirritaður kaupsamningur um allt hlutafé í félaginu og nýjir eigendur skráðir þær Þ og Æ, en í kaupsamningi sé ekki tekið sérstaklega fram neitt um eignarhlutföll á milli þeirra. 

Fram kemur að skýrsla hafi verið tekin af Þ og hafi hún skýrt frá því að hún hafi ekki undirritað neitt varðandi inngöngu í stjórn félagsins, ekki hafa keypt neitt hlutafé og ekki hafa haft neina aðkomu að félaginu. Kvað hún að undirskrift á kaupsamningi væri ekki hennar og að hún kannaðist ekkert við seljendurna. Æ skýrði frá því í skýrslutöku hjá Skattrannsóknarstjóra að upplýsingar í vottorði um aðkomu hennar væru rangar og að hún hafi aldrei setið í stjórn í þessu félagi. Undirskrift á kaupsamningi væri ekki hennar og að hún hefði hvorki heyrt um félag þetta né heldur hina ákærðu. Kvaðst Æ hafa talað við Z á þessum tíma og teldi að Z hafi staðið í þeirri trú að Æ væri raunverulegur kaupandi að félaginu, en að Æ hafi sagt Z að hún vissi ekkert um félagið og hefði ekki keypt það. Þá kemur fram að ákærði X hafi borið að hann hafi aldrei hitt Æ eða Þ, en hann hafi hitt Ö sem hafi sýnt áhuga á að kaupa félagið. Hann hafi farið með samninginn, sem Z hefði gert, til Ö og sótt hann undirritaðan af hálfu kaupenda en hann hefði ekki sjálfur verið viðstaddur undirritunina. Þá kemur fram að Z hafi borið um að hún hafi ekki séð Þ eða Æ rita undir kaupsamning og að hún hafi aldrei hitt þær. Hún hafi talað við Æ og Ö í síma á þessum tíma. Ákærði Y kvaðst ekki hafa hitt kaupendur og ekki komið að samningsgerðinni. 
Ekki fór fram nein lögreglurannsókn á þessum meintu eigenda- og stjórnendaskiptum í félaginu.


Málsástæður ákærðu vegna frávísunarkröfu 

Ákærði X 
Almennt lýsir ákærði því að fjölmargt sé við málatilbúnað ákæruvalds að athuga, sem leiði til þess að vísa beri málinu frá dómi. 
Í fyrsta lagi byggir ákærði á því að sök, hafi hún einhvern tíma verið fyrir hendi, hafi augljóslega verið fyrnd við útgáfu ákæru. Þetta eigi við um báða liði ákæru. Eindagi staðgreiðslu fjármagnstekjuskattsins hafi verið 30. janúar 2009 miðað við ákæru og skýrslu skattrannsóknarstjóra. Hafi þannig liðið tæp 11 ár frá broti uns ákært var í málinu. 
Vegna fyrri liðarins vísar ákærði til þess að sök skv. 109. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt fyrnist á 6 árum, en vegna seinni liðarins vísar ákærði til 3. tl. 1. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og að sök fyrnist á 10 árum þegar ekki liggi þyngri refsing en 10 ára fangelsi. Fyrningarfrestur hafi rofnað við formlegt upphaf skattrannsóknarstjóra þann 11. apríl 2013, en sú rannsókn rjúfi þó ekki fyrningarfrest vegna stöðvunar sem orðið hafi í málsmeðferðinni. Þannig hafi niðurstaða Skattrannsóknarstjóra legið fyrir 8. desember 2014 og málinu hafi síðan verið vísað til lögreglu tæpu ári síðar, eða þann 27. október 2015. Þar hafi hins vegar ekkert gerst fyrr en við skýrslutökur í október 2018, en þær hafi ekki bætt neinu við rannsókn málsins og megi ætla að raunverulegur tilgangur þeirra skýrslna hafi verið að freista þess að koma í veg fyrir fyrningu.

Ekki verði betur séð en að rannsókn hafi lokið eða hún stöðvast þann 8. desember 2014. Sé því sök fyrnd í málinu sbr. 8. mgr. 110. gr. laga nr. 90/2003 og 5. mgr. 82. gr. laga nr. 19/1940, hafi sök á annað borð verið fyrir hendi. 
Almennt leiði fyrning til sýknu í sakamáli. Hér liggi hins vegar fyrir að málið sé augljóslega fyrnt og því sé tilhæfulaust að halda áfram með sakamál sem muni aldrei geta leitt til sakfellingar. 
Í annan stað vísar ákærði til þess að með málshöfðuninni sé brotið gegn rétti ákærðu til réttlátrar málsmeðferðar. Sá dráttur sem orðið hafi feli í sér brot gegn grundvallarreglum um réttláta málsmeðferð skv. Stjórnarskrá og Mannréttindasáttmála Evrópu, en jafnframt hafi verið gengið gegn ákvæðum laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. 
Tæp 11 ár hafi liðið frá atvikum uns ákært var í málinu. Skattrannsóknarstjóri hafi haft málið á sínu borði í 1,5 ár áður en hann hafi hafið rannsókn, en rúm 6 ár hafi liðið frá því Skattrannsóknarstjóri hafi byrjað rannsókn og tæp 6 ár síðan ákærði hafi fyrst verið sakaður um refsiverða háttsemi. Aukin heldur hafi lögregla haft málið á sínu borði í 4 ár án þess að aðhafast nokkuð. 
Þá vísar ákærði til þess að með málshöfðun sé brotið gegn 4. gr. samningsviðauka Mannréttindasáttmála Evrópu nr. 7. Niðurstaða Skattrannsóknarstjóra hafi legið fyrir 8. desember 2014. Heimilt geti verið að reka bæði stjórnsýslumál og refsimál á hendur sama aðila, enda sé það þá gert til samræmis við þær kröfur sem gerðar séu í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu og Hæstaréttar. Verði þá að sýna fram á að rekstur málanna sé í samþættri heild. Í þessu máli hafi hins vegar liðið tæp 4 ár frá því að stjórnsýslumálinu hafi lokið hjá Skattrannsóknarstjóra og þar til ákæra hafi verið gefin út. Þá megi líta til þess að ákvarðanir sem varði meðákærða Y hafi legið fyrir vegna sömu atvika og þeir séu nú báðir ákærðir fyrir. Ákærði hafi því haft réttmætar ástæður til að ætla að rannsókn málsins væri endanlega lokið. Brjóti því málsmeðferðin gegn 1. mgr. 4. gr. samningsviðauka Mannréttindasáttmála Evrópu nr. 7. 
Í þriðja lagi vísar ákærði til þess að hvað varðar fyrsta tölulið ákærunnar þá geti ákærði ekki borið ábyrgð á því að skattframtölum […] ehf. hafi ekki verið skilað á lögmæltum tíma rekstrarársins 2008 og 2009, enda hafi ákærði selt félagið 1. júlí 2009 og í kjölfar þess hafi hinir nýju fyrirsvarsmenn félagsins borið á því ábyrgð að skila skattframtölum. Auk þess geti slík háttsemi ekki talist vera meiri háttar brot gegn 2. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 og því ekki við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Einungis sé um að ræða að skila ekki framtölum á lögmæltum tíma, en ekki um það hvort skattframtölum hafi yfirhöfuð verið skilað. 
Í fjórða lagi telur ákærði að hann geti ekki borði á því refsiábyrgð að staðgreiðslu fjármagnstekjuskattsins hafi ekki verið skilað til ríkissjóðs og því beri að vísa málinu frá. Um þetta vísar ákærði til þriggja atriða, þ.e. í fyrsta lagi að upphæðin hafi ekki fallið á gjalddaga fyrr en eftir sölu félagsins, í öðru lagi að félagið hafi haldið staðgreiðslunni eftir og beri því eitt ábyrgð á skilum hennar í ríkissjóð, en í þriðja lagi að daglegur rekstur og bókhald hafi alls ekki verið í höndum ákærða heldur Z sem hafi verið raunverulegur framkvæmdastjóri. 
Í fimmta lagi vísar ákærði ti þess að ákæran fullnægi ekki lagaskilyrðum og bendir á að í ákæru sé ekki lýst með hvaða hætti ákærði beri ábyrgð á sakarefninu. Sakarefnið virðist vera byggt á órökstuddum niðurstöðum Skattrannsóknarstjóra um að hinir ákærðu beri ábyrgð á skuldbindingum sem nýjir fyrirsvarsmenn félagsins hafi sannarlega átt að standa skil á fyrir hönd félagsins. Í ákæru sé ekki minnst einu orði á gildi kaupsamningsins eða annað sem tengist sölu félagsins. Kveður ákærði að hér beri að horfa til c liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála um skýra greiningu á sakarefninu, en ekki verði sakfellt fyrir aðra háttsemi en þar greini, sbr. 1. mgr. 181. gr. sömu laga. Í ákærunni skorti mjög á glögga skilgreiningu sakarefnisins og fullnægi því ekki lagaskilyrðum, en jafnframt bendir ákærði á að sakfelling skv. ákæru fæli í sér viðurkenningu á meintri ólögmætri háttsemi í tengslum við sölu félagsins, sem ekki hafi verið ákært fyrir. Þá komi ekki fram og verði ekki ráðið af ákærunni hvernig hin ætlaða fjárhæð sé fengin en örðugt sé að glöggva sig á því á grundvelli málsgagna. 

Ákærði Y
Af hálfu þessa ákærða er byggt á því að verulega skorti á að ákæra uppfylli skilyrði sakamálalaga nr. 88/2008, einkum c og d liði 1. mgr. 152. gr. laganna. Þá hafi verið brotið alvarlega gegn réttindum ákærða til réttlátrar málsmeðferðar. Þá sé augljóst að sök sé fyrnd í málinu við útgáfu ákæru. 

Í fyrsta lagi vísar ákærði til þess skýrleika ákæru og málsgagna sé ábótavant. Ákærði sé sagður stjórnandi og stjórnarmaður […] ehf., þegar fyrir liggi að hann hafi aldrei komið nálægt stjórnun fjármála, bókhalds, skattskila félagsins eða annarra slíkra mála sem hann hafi enga þekkingu á. Þá liggi fyrir að hann hafi aldrei verið í stjórn […], en hins vegar hafi hann verið í stjórn […] fram til 11. júní 2009 en nafni þess félags muni síðar hafa verið breytt í […] ehf. Hann hafi hins vegar hvorki verið í stjórn þess né með prókúru frá og með 11. júní 2009. 
Ekki sé því lýst í ákæru eða málsgögnum hvenær lögmæltur tími fagaðila hafi verið til skila á skattframtölum lögaðila vegna gjaldáranna 2009 og 2010, en þó sé ljóst að það hafi verið eftir að ákærði hafi vikið úr stjórn félagsins. Ekkert sé vikið að því hvernig ákærði geti borið ábyrgð á þeim skilum enda liggi fyrir að hann hafi hvorki verið í stjórn né með prókúru fyrir félagi frá og með 11. júní 2009 og vandséð að hann geti borið ábyrgð eftir það. Þá sé ljóst í öllu falli að ákærði geti enga ábyrgð borið á skilum félagsins eftir 1. júlí 2009 þegar félagið hafi verið selt öðrum eigendum. 
Vísar ákærði til þess að skv. c lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 séu gerðar tilteknar kröfur til ákæruskjals, en samt sé ekki lýst í ákærunni hvar og hvenær meint brot séu talin framin, auk þess að verulega skorti á lýsingu þeirrar háttsemi sem ákærða sé gefin að sök. 
Þá kveður ákærði að báðir liðir ákæru séu felldir undir 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en þó sé í því ákvæði hvergi vísað til laga nr. 94/1996. Þegar af þeirri ástæðu gangi heimfærsla ákæruliðar nr. 2 ekki upp. Þá sé ljóst að ákvæði 2. mgr. 19. gr. laga nr. 94/1996 taki aðeins til lögaðila og verði brot á þeim lögum ekki heimfærð upp á einstaklinga. 
Þá bendir ákærði á að ekki verði séð að rannsókn á saknæmisskilyrðum hafi farið fram, þrátt fyrir áskilnað 54. gr. laga nr. 88/2008 og 17. gr. reglugerðar nr. 373/2001 um skatteftirlit og skattrannsóknir. 

Í öðru lagi vísar ákærði til þess að við meðferð málsins hafi verið brotið gegn rétti ákærða til réttlátrar málsmeðferðar. Vísar ákærði til 1. mgr. 70. gr. Stjórnarskrárinnar um réttinn til að fá úrlausn innan hæfilegs tíma. Í málinu liggi fyrir að skv. því sem fram hafi komið í úrskurði Yfirskattanefndar séu atvik málsins nokkuð ljós og úrlausnarefnin „hvorki umfangsmikil né sérstaklega flókin.“ Því virðist eina skýring fyrir mjög löngum málsmeðferðartíma vera sú að málið hafi legið óhreyft hjá rannsakendum, fyrst Skattrannsóknarstjóra í 879 daga og svo hjá saksóknara í 1302 daga. Samtals hafi málið legið í dvala án þess að nokkuð væri aðhafst í rannsókn þess í 2181 dag, eða tæplega 6 ár. Þetta sé fyrir utan þann tíma sem virk rannsókn geti talist hafa verið í gangi, eða um 2 ár. Engin gögn hafi bæst við málið frá því að Skattrannsóknarstjóri hafi tekið ákvörðun um að fella niður stöðu ákærða sem sakbornings og kæra einungis meðákærða X, til þáverandi embættis Sérstaks saksóknara. Ekki hafi neitt komið fram um að ákærði, eða annar sakborningur, eigi sök á þeim drætti sem orðið hafi við meðferð málsins og málið sé ekki eitt þeirra mála sem hafi verið sett í bið á meðan beðið hafi verið eftir niðurstöðu svonefndra ne bis in idem mála hjá Mannréttindadómstóli Evrópu. 
Þá bendir ákærði á að hann hafi frá upphafi gert grein fyrir öllum sínum arðgreiðslum og félagið hafi haldið eftir staðgreiðslu og sent inn hlutafjármiða. Hins vegar liggi ekki fyrir neitt um innheimtutilraunir innheimtumanna ríkissjóðs. 

Málsmeðferð hafi ekki verið hraðað svo sem kostur var, sbr. 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 auk þess að í ljósi 3. mgr. 57. gr. sömu laga hafi ekki verið heimilt að taka rannsókn upp á ný gegn ákærða, eftir að Skattrannsóknarstjóri hafði fellt niður stöðu hans sem sakbornings, nema því að eins að ný gögn hefðu komið fram. 

Í þriðja lagi byggir ákærði frávísunarkröfu sína á því að brotið hafi verið gegn 4. mgr. 7. gr. viðauka Mannréttindasáttmála Evrópu, þ.e. gegn ne bis in idem reglu. Yfirvöld hafi tekið mál ákærða fyrir á stjórnsýslustigi, fyrst með úrskurði Ríkisskattstjóra frá árinu 2015 og síðan með úrskurði Yfirskattanefndar frá árinu 2016. Ákærði hafi þar með talið málinu að fullu lokið gagnvart sér. Málsmeðferð á stjórnsýslustigi hafi varðað nákvæmlega sömu atvik og hér sé ákært fyrir, enda byggt á sömu skýrslu Skattrannsóknarstjóra í báðum málum. Ekki geti skipt máli þó að niðurstaða stjórnsýslumeðferðarinnar, þ.e. Yfirskattanefndar, hafi verið sú að ákærði væri ekki persónulega ábyrgur fyrir greiðslu hinnar afdregnu staðgreiðslu af fjármagnstekjum sínum. Meðferð refsimálsins og stjórnsýslumálsins sé ekki nægilega samþætt eða samtengt í efni og tíma til að þessi málsmeðferð sé heimil. Fáheyrt sé að sakamál sé höfðað þremur árum eftir lok stjórnsýslumálsins, þar sem um sé að ræða sömu málsatvik, sama brotamann, sömu hagsmuni og sömu vangreiddu krónur, auk þess að málin séu bæði rekin á grundvelli sömu skýrslunnar. Útilokað hafi verið fyrir ákærða að geta séð það fyrir að hann yrði ákærður eftir að staða hans sem sakbornings var felld niður 27. október 2015 með bréfi Skattrannsóknarstjóra. Frá þeim tíma hafi ákærði ekki heyrt orð af málinu fyrr en hann hafi verið boðaður til skýrslugjafar hjá Héraðssaksóknara seint á árinu 2018. 

Í fjórða lagi byggir ákærði frávísunarkröfu sína á því að meint sök hans sé fyrnd. Vísar ákærði hér til þess að skv. 145. gr. laga nr. 88/2008 skuli ekki sækja mann til sakar ef það sem fram er komið í málinu er ekki talið nægilegt eða líklegt til sakfellis. Samkvæmt þessu beri ákæranda að taka til þess afstöðu, fyrir útgáfu ákæru, hvort sök sé fyrnd. Hér blasi við að meint sök sé fyrnd og því óheimilt að sækja ákærða til sakar. Vísar ákærði til þess að skv. 8. mgr. 110. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt fyrnist sök skv. 109. gr. sömu laga á 6 árum miðað við upphaf rannsóknar hjá Skattrannsóknarstjóra, enda verði ekki óeðlilegar tafir á rannsókn máls eða ákvörðun refsingar. Sömu reglu megi finna í 7. mgr. 20. gr. laga nr. 97/1996 varðandi sök vegna brota á 19. gr. laganna. 
Kveður ákærði ljóst að rannsókn málsins hafi verið þannig að hún geti varla talist slíta fyrningu vegna þeirra tafa sem orðið hafi. Væri undantekningin um óeðlilegar tafir ekki talin eiga við í þessu máli væri hún tilgangslaus. En jafnvel þótt ekki væri litið til þess þá liggi fyrir að málið hafi borist Skattrannsóknarstjóra á árinu 2011 og rannsókn þess hafi byrjað þar 11. apríl 2013, eða rúmum 6 árum áður en ákæran var gefin út. Þannig sé ljóst að allar sakir skv. þeim ákvæðum sem vísað sé til í lögum um tekjuskatt og um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur séu fyrndar við útgáfu ákærunnar og það þótt talið yrði að upphaf rannsóknar myndi nýtt upphaf fyrningar. Þá sé jafn vafalaust að þeir ákæruliðir sem kynnu að verða taldir varða við 262. gr. almennra hegningarlaga nr.19/1940 séu jafnframt fyndir. Samkvæmt 82. gr. þeirra laga teljist fyrningarfrestur frá þeim degi sem refsiverðum verknaði hafi lokið. Í 5. mgr. 82. gr. laganna komi fram að rannsókn rjúfi ekki fyrningarfrest ef rannsóknari hætti rannsókninni, ákærandi ákveði að höfða ekki sakamál gegn sakborningi, eða ákærandi afturkalli ákæru. Stöðvist rannsóknin um óákveðinn tíma þá rjúfi rannsóknin heldur ekki fyrningarfrest. Að mati ákærða sé augljóst að rannsókn þessa máls, sem hafi verið stopp í u.þ.b. 6 ár, án nokkurrar sýnilegrar ástæðu, geti alls ekki talist rjúfa fyrningarfrest. Þá kveður ákærði að jafnvel þótt miðað væri við 10 ára fyrningarfrest þá væri ljóst að meint brot ákærða um skil á afdregnum skatti á fjármagnstekjur, sem ákæruvaldið telji að hafi verið á gjalddaga í janúar 2009, hafi verið fyrnt við útgáfu ákæru í júní 2019. Augljóst sé að gagnvart ákærða, sem hafi farið úr stjórn og afsalað sér prókúru 11. júní 2009, sé öll möguleg sök hans fyrnd við útgáfu ákærunnar. 

Forsendur og niðurstaða 

Eins og að framan greinir byggja ákærðu frávísunarkröfur sínar á nokkrum málsástæðum og eru þær að hluta til sameiginlegar. 
Af hálfu ákærða X er vísað til þess að hann geti ekki borið refsiábyrgð á því að staðgreiðslu hafi ekki verið skilað, en þetta byggir hann á þremur atriðum eins og að ofan greinir. Um þetta er það að segja að þessar röksemdir geta ekki leitt til frávísunar, heldur eru þetta sýknuástæður ef á þær verður fallist. 
Ákærði Y vísar til þess að rannsókn á saknæmisskilyrðum hafi ekki farið fram, svo sem áskilið sé. Um þetta er það að segja að ákæruvaldið hefur mat þess hvenær það telur mál fullrannsakað svo að unnt sé að taka ákvörðun um saksókn. Sú ákvörðun verður ekki endurskoðuð, þannig að jafnvel þó fallist væri á réttmæti athugasemdanna þá geta þær ekki leitt til frávísunar. 

Báðir ákærðu byggja á því að hafi sök verið fyrir hendi þá sé hún fyrnd. Án þess að tekin verði afstaða til þess hvort möguleg sök sé eða hafi verið fyrir hendi, eða hvort hún sé þá fyrnd, þá er það mat dómsins að þessi málsástæða geti ekki leitt til frávísunar. Ákvörðun um saksókn er á hendi ákæruvalds og sú ákvörðun verður almennt ekki endurskoðuð svo sem margsinnis hefur komið fram í dómaframkvæmd. 
Áskilnaður í 145. gr. laga nr. 88/2008 um að ekki skuli höfða mál nema það sem fram er komið sé, að mati handhafa ákæruvalds, nægilegt eða líklegt til sakfellis getur ekki breytt þessu. 

Þá vísa ákærðu til þess að um verulegan, óhæfilegan og óútskýrðan drátt hafi verið að ræða nánast við alla málsmeðferðina, en í ákæru er vísað til ártalanna 2008-2010, en ákæran í málinu er gefin út þann 27. júní 2019 og verður ekki betur séð en að meðferð málsins hafi legið niðri langtímum saman. Augljóslega má fallast á það með ákærðu að mál þetta hafi dregist úr hömlu, án þess að viðhlítandi skýringar sjáist á því í málsgögnum, en ekkert liggur fyrir um að við ákærðu sé að sakast í þeim efnum. Almennt hefur það hins vegar verið svo í dómaframkvæmd að slíkur dráttur á máli leiði ekki til þess að máli verði vísað frá dómi, heldur hafa áhrif slíks dráttar einkum komið fram við ákvörðun refsingar og eftir atvikum skilorðsbindingu á refsingu ef því er að skipta. Hafa ekki verið færð fram fyrir því haldbær rök að í þessu máli geti drátturinn leitt til þess að ákæru verði vísað frá dómi. 

Báðir hafa ákærðu vísað til þess að staða þeirra hafi ekki verið á þann veg að þeir geti borið refsiábyrgð í málinu. Þeir hafi ekki séð um þau atriði sem ákært sé fyrir og beri því að vísa málinu frá dómi af þeim sökum. Ekki verður fallist á að þetta geti leitt til frávísunar. Væri fallist á þetta þá getur þetta aðeins leitt til sýknu, en ekki til þess að vísa beri ákærunni frá dómi. 

Þá vísa báðir ákærðu til þess að ákæran fullnægi ekki kröfum sem gerðar séu til ákæruskjals í 152. gr. laga nr. 88/2008. Um þetta er það að segja að ekki verður séð að ákæra í málinu sé verulega frábrugðin ákærum í öðrum málum af svipuðum toga. Þá koma fram í ákærunni þau atriði sem áskilið er að þar komi fram og lýst er í 152. gr. laga nr. 88/2008. Verður ekki fallist á að vísa ákærunni frá af þessum sökum. 

Loks vísa báðir ákærðu til þess að með málshöfðuninni sé brotið gegn svokallaðri ne bis in idem reglu sem fram kemur í 4. gr. 7. samningsviðauka Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Í téðu ákvæði segir að Enginn skal sæta lögsókn né refsingu að nýju í sakamáli innan lögsögu sama ríkis fyrir brot sem hann hefur þegar verið sýknaður af eða sakfelldur um með lokadómi samkvæmt lögum og sakamálaréttarfari viðkomandi ríkis. 

Vegna þeirra atvika sem mál þetta er sprottið af sættu báðir ákærðu rannsókn hjá Skattrannsóknarstjóra ríkisins. Hófst rannsóknin formlega þann 11. apríl 2013 og leiddi hún til þess að um mál ákærða Y var fjallað í úrskurðum Ríkisskattstjóra og Yfirskattanefndar eins og áður greinir. Í úrskurði Ríkisskattstjóra þann 13. október 2015 var tekjuskatts- og útsvarsstofn ákærða Y gjaldárið 2009 hækkaður um kr. 22.184.000 og bætti auk þess við 25% álagi skv. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Jafnframt var lækkuð tilgreind staðgreiðsla fjármagnstekjuskatts hans og eiginkonu hans, Z, í skattframtölum árin 2009 og 2010, úr kr. 469.108 í kr. 189.108 fyrra árið og úr kr. 10.484.372 í kr. 984.372 síðara árið vegna arðgreiðslu frá […] ehf, sem áður var […] ehf. Hjá Yfirskattanefnd krafðist ákærði þess að á þessu yrðu gerðar tilteknar breytingar en í úrskurði nefndarinnar nr. 232/2016 í máli nr. 16/2016, þann 2. nóvember 2016, var kröfum hans hafnað að öðru leyti en því að breytingar hvað snerti afdregna staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts gjaldárin 2009 og 2010 voru felldar úr gildi. Í úrskurði Yfirskattanefndar nr. 62/2016 í máli nr. 232/2015, þann 30. mars 2016, var ákærða Y gerð sekt að fjárhæð kr. 1.350.000 vegna skattskila sinna sem voru til rannsóknar í rannsókn Skattrannsóknarstjóra ríkisins. 

Ekki verður betur séð en að mál Y hafi þannig rætt refsimeðferð hjá skattyfirvöldum vegna þeirra atvika sem mál þetta er sprottið af og á grundvelli sömu skýrslu Skattrannsóknarstjóra ríkisins og lögð er til grundvallar í máli þessu. Málið var sent til saksóknara með bréfi Skattrannsóknarstjóra 27. október 2015, en tekið var fram í bréfinu að málið væri aðeins sent að því er varðaði ákærða X og var ákærða Y, sama dag, jafnframt sent bréf þess efnis að staða hans sem sakbornings í málinu væri felld niður. Næst virðist ákærði Y hafa heyrt af máli þessu þegar honum var gert að mæta til skýrslugjafar, sem sakborningur, hjá Héraðssaksóknara í október 2018. 

Ákærði X sætti sömu rannsókn hjá Skattrannsóknarstjóra ríkisins og ákærði Y. Honum voru hins vegar ekki gerð viðurlög af hálfu skattyfirvalda, þó svo að hann hafi sætt stöðu sakbornings hjá skattyfirvöldum, allt þar til málið var sent til saksóknara í október 2015 eins og áður segir. Lögreglurannsókn á máli hans hófst þannig eftir að málinu var lokið af hálfu skattyfirvalda hvað hann varðaði. Þó að ákærði X hafi ekki sætt viðurlögum af hálfu skattyfirvalda þá verður ekki litið fram hjá því að hann rætti rannsókn, sem sakborningur í téðri rannsókn sem lýst er í skýrslu Skattrannsóknarstjóra, um langt skeið. Að mati dómsins verður þessu fyllilega jafnað til lögsóknar í skilningi ofangreinds ákvæðis. Má hér m.a. vísa til dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í málum Nykänen gegn Finnlandi og Bendenoun gegn Frakklandi. 

Margsinnis hefur komið fram í dómaframkvæmd að ekki sé útilokað að menn geti sætt tvöfaldri málsmeðferð, annars vegar hjá stjórnvaldi og hins vegar hjá lögreglu, ákæruvaldi og dómstól vegna sömu atvika. Meðal skilyrða fyrir því að slíkt sé heimilt er krafa um að málin sé samþætt í tíma. Að mati dómsins fer því fjarri að þetta skilyrði sé uppfyllt í málinu, en eins og að framan greinir var allri málsmeðferð við skattrannsóknina lokið í október 2015 og úrskurðir Yfirskattanefndar kveðnir upp á árinu 2016, en ákærðu heyrðu fyrst af málinu hjá lögreglu eða saksóknara síðla árs 2018 og var ákæra gefin út í júní 2019 eins og áður segir. 

Af framangreindum orsökum er óhjákvæmilegt að vísa máli þessu frá dómi. 
Rétt er að sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, en ekki er að sjá að um annan kostnað sé að tefla en málsvarnarlaun skipaðra verjenda ákærðu. Þannig greiðist úr ríkissjóði málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða X, Óskars Sigurðssonar lögmanns, kr. 1.428.170 að teknu tilliti til virðisaukaskatts og málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða Y, Péturs F. Gíslasonar lögmanns, kr. 1.886.660 að teknu tilliti til virðisaukaskatts, ásamt aksturskostnaði hans kr. 55.000. 
Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð: 

Máli þessu er vísað frá dómi. 
Úr ríkissjóði greiðast málsvarnarlaun ákærðu, annars vegar málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða X, Óskars Sigurðssonar lögmanns, kr. 1.428.170 og hins vegar málsvarnar laun ákærða Y, Péturs F. Gíslasonar lögmanns, kr. 1.886.660, auk aksturskostnaðar þess verjanda, kr. 55.000.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum