2020

Dómur Landsréttar 8 maí 2020 í máli nr. 20/2019

8.5.2020

Dómur föstudaginn 8. maí 2020. 

Mál nr. 20/2019: 
Ákæruvaldið 
(Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari) 
gegn 
Júlíusi Vífli Ingvarssyni 

(Hörður Felix Harðarson lögmaður)

Lykilorð 
Peningaþvætti. Fyrning. Afturvirkni laga. Skilorð. 

Útdráttur 
J var sakfelldur fyrir peningaþvætti samkvæmt 1. og 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa á árunum 2010 til 2014 geymt ávinning af skattalagabroti inni á erlendum bankareikningi í sínu nafni og ráðstafað þeim fjármunum á árinu 2014 inn á nýjan bankareikning sem var í eigu vörslusjóðs sem J var rétthafi að. Í dómi Landsréttar kom fram að hafið væri yfir vafa að sá hluti þeirra fjármuna sem hefðu verið inni á umræddum bankareikningum og ákært væri fyrir hefði verið ólögmætur ávinningur af skattalagabroti J samkvæmt 262. gr. almennra hegningarlaga og það hefði ekki þýðingu að frumbrotið sem ávinningurinn stafaði frá hefði verið fyrnt þegar rannsókn málsins hófs. Þá var ekki fallist á varnir J um að brot hans gegn 264. gr. almennra hegningarlaga hefði ekki verið refsivert sökum þess að sjálfsþvætti samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins hefði ekki verið refsivert samkvæmt lögum á þeim tíma þegar ávinningurinn féll til eða að brotið hefði verið fyrnt þegar ákæra var gefin út í málinu. Var refsing J ákveðin fangelsi í 10 mánuði en fullnustu refsingarinnar var frestað skilorðsbundið í tvö ár. 


Dómur Landsréttar

Mál þetta dæma landsréttardómararnir Davíð Þór Björgvinsson og Jóhannes Sigurðsson og Björg Thorarensen, settur landsréttardómari.

Málsmeðferð og dómkröfur aðila 
1 Ríkissaksóknari skaut málinu til Landsréttar 21. desember 2018 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 18. desember 2018 í málinu nr. S-486/2018. 

2 Ákæruvaldið krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms um sakfellingu ákærða auk refsiþyngingar. 

3 Ákærði krefst sýknu af kröfum ákæruvaldsins. 

Málsatvik og sönnunarfærsla
 

4 Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði sakfelldur fyrir peningaþvætti samkvæmt 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 fyrir að hafa árin 2010 til 2014 geymt ávinning af skattalagabroti inni á bankareikningi sínum í UBS banka á Ermasundseyjunni Jersey og ráðstafað þeim fjármunum á árinu 2014 inn á bankareikning hjá Julius Bär í Sviss sem var í eigu vörslusjóðsins […] en ákærði, eiginkona hans og börn voru rétthafar sjóðsins. Hinn ólögmæti ávinningur var talinn felast í því að tekjuskattur og útsvar höfðu ekki verið greidd af tekjum sem voru inni á umræddum bankareikningum en þær námu að andvirði 131 til 146 milljónir króna í bandaríkjadölum, evrum og sterlingspundum. Samkvæmt ákæru var fjárhæð hins ólögmæta ávinnings á bilinu 49 til 57 milljónir króna vegna skatta sem ákærði kom sér undan að greiða og vextir af því fé sem hann þvættaði með þessum hætti. 

5 Fyrir héraðsdómi lýsti ákærði því að fjármunirnir sem voru inni á reikningnum í UBS banka og síðar Julius Bär stöfuðu frá umboðslaunum sem hlutafélagið A hefði fengið frá erlendum birgjum félagsins á árunum 1982 til 1993. Samkvæmt skýrslu ákærða fyrir héraðsdómi og skýrslum hans hjá skattrannsóknarstjóra fóru umboðslaunin inn á reikninga sem voru í sameiginlegri eigu ákærða, foreldra hans og tveggja bræðra. Á árunum 2004 og 2005 hafi fjármunirnir verið aðgreindir og hans hluti þeirra runnið inn á reikning ákærða í UBS banka. Ákærði hefur staðfest fyrir héraðsdómi að hann hafi ekki talið þá fjármuni sem runnu til hans fram sem tekjur til skatts í framtölum. Þá staðfesti ákærði fyrir héraðsdómi að þær fjárhæðir sem tilgreindar eru í ákæru hafi verið inni á bankareikningunum og að fjármununum hafi verið ráðstafað með þeim hætti sem þar greinir. Er framburður ákærða í samræmi við gögn málsins um hreyfingar á bankareikningunum. Þótt ákærði hafi viðurkennt að hafa ekki talið tekjurnar fram telur hann skattskylduna ekki ljósa og hefur hann mótmælt því að hinn ólögmæti ávinningur hafi numið þeim fjárhæðum sem greinir í ákæru. 

6 Svo sem nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi vísaði skattrannsóknarstjóri máli vegna ætlaðra brota ákærða á skattalögum og almennum hegningarlögum til héraðssaksóknara 5. janúar 2017. Rannsókn á meintum brotum ákærða hófst 29. apríl 2016 og lauk henni 29. desember 2016. Fyrsta skýrslutaka af ákærða hjá skattrannsóknarstjóra fór fram 6. september 2016. Ákæra var gefin út í málinu 28. júní 2018. 

7 Um málsatvik vísast að öðru leyti til hins áfrýjaða dóms. 

Niðurstaða 

8 Ákærði heldur því fram að alvarlegir annmarkar hafi verið á rannsókn málsins sem eigi að leiða til frávísunar þess án kröfu. Hann gerir þó ekki kröfu um frávísun en telur að sýkna eigi í málinu vegna þessara annmarka. Annmarkarnir á rannsókninni séu meðal annars þeir að honum hafi ekki verið skipaður sá verjandi sem hann hafði óskað eftir við rannsókn málsins. Með dómi Hæstaréttar 31. ágúst 2017 í máli nr. 539/2017 var staðfest niðurstaða héraðsdóms um niðurfellingu skipunar umrædds verjanda og kemur vörn þessi því ekki til frekari skoðunar. Þá hefur ákærði bent á að hann hafi ekki fengið rétt til þess að andmæla ákvörðun skattrannsóknarstjóra um fyrirhugaða refsimeðferð og að honum hafi ekki verið kynnt að hann væri grunaður um peningaþvættisbrot við skattrannsóknina. Ekki er fallist á með ákærða að þessir meintu annmarkar við skattrannsókn á máli hans geti leitt til frávísunar málsins eða sýknu af kröfum ákæruvaldsins. Að endingu telur ákærði að við meðferð málsins hjá héraðssaksóknara hafi verið brotið gegn rétti hans til réttlátrar málsmeðferðar þar sem héraðssaksóknari hafi tjáð sig opinberlega um mál hans meðan á rannsókn þess stóð. Svör embættis héraðssaksóknara við spurningum fjölmiðla um mál hans hafi verið ósönn og ærumeiðandi. Mál hans hafi verið dregið inn í umfjöllun fjölmiðla um svokölluð Panamaskjöl og leitt til mikils fjölmiðlafárs. Ekki verður talið að ákærði hafi sýnt fram á í málinu að svör héraðssaksóknara við spurningum fjölmiðla eða þátttaka hans í umræðum um sambærileg mál hafi farið út fyrir þau mörk sem eðlileg geta talist. Verður málinu því hvorki vísað frá af þeim sökum né leiðir það til sýknu. 

9 Ákærði byggir sýknukröfu sína á því að ætlað skattalagabrot sem á að hafa myndað hinn ólögmæta ávinning og byggt er á í ákæru sé órannsakað og ósannað. Eins og áður er rakið byggist ákæran á því að hinn ólögmæti ávinningur hafi verið á bilinu 49-57 milljónir króna. Ekki liggur fyrir í málinu útreikningur á því hvernig umrædd fjárhæð er fundin. Við málflutning upplýsti ákæruvaldið að fjárhæð hins ólögmæta ávinnings væri fengin með því að reikna 38% tekjuskatt og útsvar á fjárhæðirnar á reikningunum á tímabilinu 2010 til 2014 en sú prósenta væri lægsta hlutfall tekjuskatts og útsvars á þessu tímabili. Þá væri ljóst samkvæmt 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt að fjármunirnir sem ákærði fékk inn á reikning sinn væru tekjur sem bæri að greiða tekjuskatt og útsvar af. Ákærði telur að í öllu falli sé útreikningur ákæruvaldsins allt of hár og ef miðað væri við þá fjármuni sem ákærði fékk árið 2005 væri fjármagnstekju- eða tekjuskattur af þeirri fjárhæð 6 til 24 milljónir. Ákærði mótmælir þeirri afstöðu ákæruvaldsins að það virðist hvíla á honum að sanna hver hafi verið uppruni fjármunanna og að ekki hafi verið um skattskyldar tekjur að ræða. Með vísan til meginreglu 70. gr. stjórnarskrárinnar, 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 108. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verði slík byrði ekki lögð á ákærða og hvers kyns vafi í þessum efnum verði ekki metinn honum í óhag. 

10 Í 1. mgr. 264. gr. hegningarlaga er áskilið að um ávinning sé að ræða af refsiverðu broti samkvæmt lögum. Þegar litið er til eðlis og tilgangs ákvæðisins þykir hins vegar ekki verða gerð sú krafa að fyrir liggi hvaða brot sé nákvæmlega um að ræða, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 8. nóvember 2001 í máli nr. 200/2001. Verður að meta í ljósi atvika hverju sinni hvort sýnt sé nægilega fram á að ávinningur sé ekki af lögmætum toga heldur stafi frá refsiverðu broti á lögum sem felur þó ekki í sér að sönnunarbyrði sé lögð á ákærða í andstöðu við meginreglu 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. einnig til hliðsjónar ákvörðun Mannréttindadómstóls Evrópu 2. maí 2017 í máli nr. 23572/07. Fyrir liggur að ákærði hefur viðurkennt að hafa ekki talið fram til skatts sem tekjur þá fjármuni sem hann fékk, hvort sem miðað er við árin 1982 til 1993 þegar umboðslaun voru greidd inn á sameiginlega reikninga foreldra og bræðra eða þegar fjármunirnir voru aðgreindir á árinu 2005. Telja verður ljóst að um hafi verið að ræða skattskyldar tekjur hér á landi samkvæmt 7. gr. laga nr. 90/2003 og hefur ákærði ekki hnekkt því. Er því hafið yfir vafa að sá hluti af þeim fjármunum sem voru inni á umræddum bankareikningum og ákært er fyrir meðferð á hafi verið ólögmætur ávinningur af skattalagabroti. Hefur ekki þýðingu í þessu sambandi að frumbrotið sem ávinningurinn stafaði frá hafi verið fyrnt þegar rannsókn málsins hófst. Miðað við þær fjárhæðir ávinnings sem um er að tefla verður brotið talið meiri háttar samkvæmt 262. gr. almennra hegningarlaga. 

11 Vörn ákærða byggist í annan stað á því að peningaþvættisbrotið sé einnig fyrnt þar sem fyrningarfrestur hafi byrjað að líða er frumbrotið var fullframið og ákærði tileinkaði sér þá fjármuni sem hann stóð ekki skil á til skattyfirvalda. Fyrningarfrestur hafi því í síðasta lagi byrjað að líða fyrir lok árs 2005. Þar sem fyrsta skýrslutaka af ákærða hjá skattrannsóknarstjóra fór fram 6. september 2016 hafi brotið verið fyrnt hvort sem miðað er við fimm eða tíu ára fyrningarfrest. Einnig byggist vörn ákærða á því að sjálfsþvætti samkvæmt 2. mgr. 264. gr. hafi ekki verið refsivert þegar ávinningurinn féll til og því ekki heimilt að refsa honum fyrir það brot vegna grundvallarreglunnar um bann við afturvirkni refsilaga. 

12 Í athugasemdum í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 10/1997, þar sem bætt var inn nýju ákvæði um þvættisbrot í 264. gr. almennra hegningarlaga, var tekið fram að breytingin væri gerð til að innleiða alþjóðlegar skuldbindingar á sviði refsiréttar um að gera þvætti ávinnings af afbrotum skýrlega refsivert brot í landslöggjöf. Skuldbinding þessi fólst í samningi Sameinuðu þjóðanna gegn ólöglegri verslun með fíkniefni og skynvilluefni frá 20. desember 1988 og samningi Evrópuráðsins um þvætti, leit, hald og upptöku ávinnings af afbrotum frá 8. nóvember 1990. Í athugasemdunum er jafnframt vísað til þess markmiðs framangreindra samninga að ná til og gera upptækan ágóða af afbrotum og að þeir sem fremja brotin eða aðrir geti ekki leynt, komið undan eða notið ávinningsins af þeim. Þannig sé helsta markmið samninganna tveggja að uppræta aðalhvatann að afbrotum og glæpastarfsemi, ávinninginn sem fæst með brotunum. Með hinu nýja ákvæði í 264. gr. laganna var þvætti ávinnings af öllum brotum á almennum hegningarlögum gert sjálfstætt refsivert brot. Byggðist verknaðarlýsing ákvæðisins þó á því að um væri að ræða viðtöku, öflun, aðstoð við að breyta ávinningi eða stuðla á annan sambærilegan hátt að því að tryggja ávinning af broti sem annar hefði framið. Með sömu lögum bættist ákvæði í þrenn sérrefsilög, það er áfengislög, lyfjalög og tollalög, sem lýstu þvætti af ávinningi brota á þeim lögum refsivert með vísan til verknaðarlýsingar í hinni nýju 264. gr. almennra hegningarlaga. 

13 Með 7. gr. laga nr. 149/2009 sem tóku gildi 1. janúar 2010 voru gerðar ýmsar breytingar á 264. gr. almennra hegningarlaga. Verknaðarlýsing peningaþvættis var gerð ítarlegri og einnig var hún rýmkuð þannig að ákvæðið taki til þvættis af refsiverðum brotum á öllum lögum. Samkvæmt ákvæðinu er maður sem tekur við, nýtir eða aflar sér eða öðrum ávinnings af broti á almennum hegningarlögum eða af refsiverðu broti á öðrum lögum, eða meðal annars umbreytir slíkum ávinningi, flytur hann, sendir, geymir, aðstoðar við afhendingu hans, leynir honum eða upplýsingum um uppruna hans, eðli, staðsetningu eða ráðstöfun ávinnings sekur um peningaþvætti. Loks var mælt fyrir um í 2. mgr. ákvæðisins að þegar sá sem framið hefur frumbrot og fremur jafnframt brot samkvæmt 1. mgr. skuli hann sæta sömu refsingu og þar er getið og er þar vísað til svokallaðs sjálfsþvættis. Þannig varð sjálfsþvætti lagt að jöfnu við þvætti ávinnings af frumbrotum annarra samkvæmt 1. mgr. 264. gr. laganna. Í athugasemdum í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 149/2009 segir meðal annars að við túlkun einstakra verknaðarþátta í þvættisbroti verði sem fyrr að horfa til þess að peningaþvætti sé í megindráttum hver sú starfsemi sem lýtur að því að fela uppruna og eiganda fjár sem er ávinningur af brotastarfsemi. 

14 Sem fyrr segir kom ávinningur sá sem mál þetta lýtur að upprunalega frá brotum á 262. gr. almennra hegningarlaga sem voru að mestu leyti framin af ákærða áður en fyrrgreind lög nr. 149/2009 sem gerði sjálfsþvætti refsivert tóku gildi 1. janúar 2010. Eftir það tímamark var ávinningurinn eins og áður er rakið áfram varðveittur á erlendum bankareikningum í nafni ákærða og síðan fluttur árið 2014 á nýjan bankareikning í eigu vörslusjóðs sem ákærði var rétthafi að. Þau sjónarmið sem eiga við um auðgunarbrot, að brot teljist fullframið og fyrningarfrestur byrji að líða við tileinkun verðmæta, eiga eðli máls samkvæmt ekki við sjálfstætt brot eins og peningaþvætti sem getur staðið yfir í langan tíma. Eins og ráðið verður af framangreindum lögskýringargögnum með 264. gr. almennra hegningarlaga byggist verknaðarlýsing þvættisbrota meðal annars á starfsemi eða tilteknu ástandi sem skapast í kjölfar frumbrots, og sjálfstætt brot felist í því að varðveita, flytja, umbreyta eða leyna ávinningi af afbrotum. Fyrir liggur að umræddur ávinningur ákærða stafaði frá broti á almennum hegningarlögum og var óslitið áfram sérgreindur í vörslum hans. Þar sem háttsemin sem ákært er fyrir átti sér stað á árunum 2010 til 2014 eftir gildistöku laga nr. 149/2009 var þvættisbrot sem ákært er fyrir því refsivert. Fær þessi skýring jafnframt stoð í dómi Hæstaréttar 27. september 2012 í máli nr. 122/2012, þar sem ákærða var gerð refsing fyrir sjálfsþvætti ávinnings samkvæmt núgildandi 264. gr. almennra hegningarlaga, vegna brota á lyfjalögum þótt sá ávinningur hefði runnið frá brotum sem framin voru bæði fyrir og eftir gildistöku laga nr. 149/2009. Verður samkvæmt þessu ekki fallist á varnir ákærða um að brotið hafi ekki verið refsivert eða að það hafi verið fyrnt þegar ákæra var gefin út í málinu. 

15 Ákærði byggir vörn sína einnig á því að skilyrði sjálfsþvættis samkvæmt 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga sé ekki uppfyllt í málinu. Ákærði hafi ekki ráðstafað ávinningnum í kjölfar frumbrotsins eða reynt að leyna honum eða greina hann frá því. Svo sem áður er rakið er peningaþvættisbrot sjálfstætt brot sem felur meðal annars í sér að sá sem geymir fjármuni eða flytur þá og veit að þeir eru ávinningur af öðrum brotum er sekur um þvættisbrot. Í málinu er sannað að ákærði geymdi ávinninginn og flutti hann á milli bankareikninga og er því skilyrði 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. uppfyllt. 

16 Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu ákærða og heimfærslu brota hans til refsiákvæðis. Jafnframt er staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um refsingu ákærða og skilorðsbindingu hennar svo og um greiðslu sakarkostnaðar.

17 Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins fyrir Landsrétti þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns sem tilgreind eru með virðisaukaskatti eins nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð: 

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins 2.995.407 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Harðar Felix Harðarsonar lögmanns, 2.900.000 krónur. 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. desember 2018 

Mál þetta, sem dómtekið var 3. desember síðastliðinn, var höfðað með ákæru héraðssaksóknara, útgefinni 28. júní síðastliðinn, á hendur Júlíusi Vífli Ingvarssyni, kt. […], […], Reykjavík, „fyrir peningaþvætti, með því að hafa árin 2010 til 2014 geymt á bankareikningi sínum nr. […] hjá UBS banka á Ermarsundseyjunni Jersey, andvirði 131 til 146 milljóna króna, í bandaríkjadölum, evrum og sterlingspundum, sem að hluta voru ávinningur refsiverðra brota, þar sem um var að ræða tekjur sem ákærða höfðu hlotnast nokkrum árum fyrr, en ekki talið fram til skatts, og því ekki greitt tekjuskatt og útsvar af í samræmi við ákvæði skattalaga, ásamt vöxtum af því fé, og hafa árið 2014 ráðstafað umræddum fjármunum af fyrrnefndum bankareikningi hjá UBS banka inn á bankareikning nr. […], hjá bankanum Julius Bär í Sviss, sem tilheyrði vörslusjóðnum […], en rétthafar vörslusjóðsins voru ákærði, eiginkona hans og börn. Fjárhæð hins ólögmæta ávinnings, þ.e. þeir skattar sem ákærði kom sér undan að greiða og vextir af því fé, sem ákærði þvætti með þessum hætti, var á bilinu 49 til 57 milljónir króna.
Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“ 

Ákærði neitar sök og krefst sýknu. Hann krefst þess að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði. 

II

Með bréfi 5. janúar 2017 vísaði skattrannsóknarstjóri til héraðssaksóknara máli vegna ætlaðra brota ákærða á skattalögum og almennum hegningarlögum. Í bréfinu segir að samkvæmt gögnum málsins hafi ákærði átt „fjármuni á erlendum bankareikningum a.m.k. frá árinu 2005, fyrst hjá UBS á Jersey, en frá árinu 2014 hjá Julius Bär í Sviss í nafni […], skrásettu í Panama. Uppruni umræddra fjármuna er ekki að fullu ljós en rannsókn hefur leitt í ljós líkindi fyrir því að fjármunirnir hafi komist í umráð skattaðila á árinu 2005 eða fyrr. Í skýrslutöku af skattaðila sagði hann fjármunina komna til af samningum, þóknunum og viðskiptum vegna starfa sinna hjá A ehf., fyrirtæki er var í eigu og rekstri skattaðila og fjölskyldu hans um langt árabil. Staðfesti skattaðili í skýrslutöku að ekki hefði verið greiddur skattur af fjármununum.“

Í næsta kafla er rakinn framburður ákærða og kemur þar fram lýsing hans á málavöxtum. 

III

Við aðalmeðferð kannaðist ákærði við að í ákæru væri rétt skýrt frá fjárhæðum og bankareikningum og hvernig peningum hefði verið ráðstafað milli bankareikninga.
Ákærði kvaðst hafa hafið störf hjá nefndu hlutafélagi 1982 en hann hefði reyndar komið að rekstri þess fyrir þann tíma. Hann kvaðst hafa starfað hjá félaginu samfellt í 22 ár. Spurður um uppruna þeirra fjármuna sem hann geymdi á framangreindum reikningi á Jersey og flutti síðar til Sviss kvað hann að um hafi verið að ræða þóknanir og umboðslaun. Þetta hefðu verið greiðslur sem samið hefði verið um í tengslum við viðskiptasamninga, til hliðar við þá, eins og ákærði komst að orði. Hann kvað þetta hafa verið mjög algengt á níunda áratug síðustu aldar að nota umboðsgreiðslur. Þetta hefði verið vegna mikillar verðbólgu hér á landi á þeim tíma. Þessar umboðsgreiðslur hefðu verið almennar á þessum tíma en lagst af á tíunda áratugnum meðan ákærði var enn starfandi hjá félaginu. Ákærði var spurður hvort hann hefði talið þessar tekjur fram til skatts og kvaðst hann ekki hafa uppfyllt framtalsskyldu, eins og hann orðaði það. Hann tók hins vegar fram að framtalsskylda og skattskylda væri ekki það sama. Hvernig þessir fjármunir myndu verða skattlagðir kvaðst hann ekki geta sagt til um, enda ekki sérfræðingur í því eins og hann orðaði það. Hann kvaðst ekki hafa talið þessa fjármuni fram þegar þeir komust í hans vörslu frá félaginu. Hver skattskyldan væri kvaðst hann ekki geta fullyrt um. 

IV

Ágreiningslaust er í málinu að ákærði átti fjármuni á reikningi í UBS banka er síðar voru færðir inn á reikning í banka í Sviss. Er ekki ágreiningur um að þessu er rétt lýst í ákæru. Þá hefur ákærði viðurkennt að hafa ekki talið þessa fjármuni fram til skatts hér á landi. Í framburði sínum lýsti hann uppruna fjárins, eins og rakið var. Ekki er ágreiningur um þessi atriði og heldur ekki að fjármunirnir hafi orðið til á þeim tímum sem ákærði greindi frá og rakið var. Ákærða er gefið að sök að hafa brotið gegn 1., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga. Í 1. mgr. segir að hver sem taki við, nýti eða afli sér eða öðrum ávinnings af broti á lögunum eða af refsiverðu broti á öðrum lögum, eða meðal annars umbreyti slíkum ávinningi, flytji hann, sendi, geymi, aðstoði við afhendingu hans, leyni honum eða upplýsingum um uppruna hans, eðli, staðsetningu eða ráðstöfun ávinnings skuli sæta refsingu. Í 2. mgr. segir að sá sem fremji frumbrot og fremji jafnframt brot á 1. mgr. skuli sæta refsingu eins og segi í 1. mgr. 

Ákærða bar að telja þessa fjármuni fram til skatts og greiða af þeim skatta samkvæmt gildandi skattalögum á hverjum tíma. Þetta gerði hann ekki og er þar af leiðandi hluti fjármunanna ávinningur af broti hans á skattalögum. Meðhöndlun ákærða á þessum fjármunum, eins og henni er lýst í ákærunni, var honum því refsiverð samkvæmt nefndri 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga. Með því að ákærði framdi einnig frumbrotið, það er brot gegn skattalögum, hefur hann jafnframt brotið gegn 2. mgr. greinarinnar. 

Ekki er ástæða til að draga í efa framburð ákærða um að nú sé langt síðan hann braut gegn skattalögum. Á þeim tíma sem liðinn er hefur hann hins vegar geymt nefnda fjármuni á bankareikningum og flutt þá á milli reikninga. Síðast gerði hann þetta á árinu 2014, eins og greinir í ákæru og ákærði hefur kannast við. Samkvæmt þessu er brot ákærða ófyrnt og hafnar dómurinn því að sýkna hann vegna fyrningar. 

Samkvæmt framanrituðu verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákærunni og er brot hans þar rétt fært til refsiákvæða. Ákærða hefur ekki áður verið refsað. Refsing hans er hæfilega ákveðin tíu mánaða fangelsi sem bundin skal skilorði eins og í dómsorði greinir. 

Loks verður ákærði dæmdur til að greiða málsvarnarlaun verjanda síns sem ákveðin eru með virðisaukaskatti í dómsorði, en annan kostnað leiddi ekki af málinu.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kveður upp dóminn. 

D ó m s o r ð: 

Ákærði, Júlíus Vífill Ingvarsson, sæti fangelsi í tíu mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveim árum frá deginum í dag að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. 

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Harðar Felix Harðarsonar lögmanns, 5.433.370 krónur.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum