Stefna um hagnýtingu gervigreindar
Gervigreind er þegar byrjuð að umbreyta atvinnugreinum, þjónustu og ákvarðanatöku um allan heim. Tæknin nær yfir breið svið, allt frá sjálfvirkni í þjónustu og spálíkönum til greiningar á stórum gagnasöfnum og vinnslu náttúrulegs máls. Með aukinni getu gervigreindar til að læra, aðlagast og skila niðurstöðum á sífellt flóknari sviðum opnast ný tækifæri og um leið nýjar áskoranir, sérstaklega fyrir hið opinbera.
Í opinberri stjórnsýslu gegnir gervigreind lykilhlutverki að bæta skilvirkni, þjónustu og stefnumótun. Með því að nýta gögn á markvissan hátt geta stofnanir tekið upplýstari ákvarðanir, brugðist hraðar við, forgangsraðað betur og einfaldað samskipti við almenning. Gervigreind býður einnig upp á nýjar leiðir til að tryggja jöfnuð í þjónustu og koma auga á frávik eða ójöfnuð sem annars færi fram hjá mönnum.
Hagnýting gervigreindar kallar á varkárni og ábyrgð. Opinberar stofnanir bera sérstaka skyldu til að tryggja að nýting gervigreindar sé gagnsæ og í samræmi við lög og reglur, persónuvernd og réttlætiskennd. Ákvarðanir sem teknar eru með aðstoð gervigreindar þurfa að vera rekjanlegar, útskýrðar og réttlætanlegar gagnvart almenningi og fyrirtækjum, sérstaklega þegar þær hafa áhrif á réttindi eða skyldur viðkomandi.
Í þessu samhengi þarf hið opinbera sérstaklega að huga að:
- Gagnasöfnun og gæði gagna.
- Persónuvernd og annarri löggjöf um gervigreind.
- Rekjanleika og útskýranleika.
- Þekkingu, menntun og stjórnskipulagi.
Þegar gervigreind er nýtt með þessum hætti er hún öflugt tæki í þágu betri þjónustu, jafnræðis og skilvirkni í opinberri stjórnsýslu.
Framtíðarsýn
Skatturinn er leiðandi í nýtingu gervigreindar í íslenskri stjórnsýslu. Með markvissri þróun og ábyrgri innleiðingu gervigreindartækni mun Skatturinn bæta þjónustu við almenning og fyrirtæki, auka skilvirkni og bæta árangur í eftirliti, rannsóknum og tollgæslu, og stuðla þannig að gagnsæi og jafnræði við framkvæmd skatta- og tollalaga.
Fagmennska, öryggi og traust eru lykilatriði við hagnýtingu gervigreindar. Til að tryggja að gervigreind sé nýtt á ábyrgan hátt er nauðsynlegt að starfsfólk búi yfir viðeigandi þekkingu og hæfni.
Grundvallarreglur
Grundvallarreglur Skattsins við þróun og notkun gervigreindar má finna hér: Stefna um þróun og notkun gervigreindar hjá Skattinum. Reglurnar eru leiðbeinandi í öllum aðstæðum þegar Skatturinn hagnýtir gervigreind. Gerð þessarar stefnu tók mið af grundvallarreglunum.
Áherslumál 2025-2027
Aukin skilvirkni og sjálfvirkni í þjónustu
Skatturinn mun nýta gervigreind í þeim tilgangi að auka sjálfvirkni og skilvirkni í þjónustu við viðskiptavini. Með rafrænni, sjálfvirkri afgreiðslu algengra erinda dregur úr álagi á starfsfólk og afgreiðslutími styttist. Jafnframt verður lögð áhersla á persónusniðna þjónustu, sem tekur mið af þörfum og aðstæðum hvers og eins viðskiptavinar. Með þessum hætti verða samskipti við Skattinn skilvirkari og markvissari.
Bætt skatt- og tolleftirlit
Gervigreind verður nýtt til að stytta afgreiðslutíma í endurskoðunarferlum og við samtímaeftirlit með því að greina gögn hraðar og nákvæmar. Líkön og reiknirit verða þróuð til að greina frávik í gögnum og veita stofnuninni betri möguleika á að bregðast tímanlega við mistökum eða svikum. Þannig verður endurskoðun og eftirlit markvissara, sanngjarnara og skilvirkara.
Persónuvernd, gagnsæi og siðferðileg notkun gervigreindar
Skatturinn notar gervigreind með skýrum siðferðislegum viðmiðum og í samræmi við lög um persónuvernd. Skatturinn hefur sett sér innri reglur um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, ásamt siðareglum gagnavísindadeildar Skattsins. Farið verður eftir settum reglum um notkun gervigreindar og tryggt að öll úrvinnsla upplýsinga sé gagnsæ, rekjanleg og auðskiljanleg fyrir viðskiptavini.
Efling þekkingar og færni starfsfólks
Til að tryggja árangursríka og ábyrga innleiðingu gervigreindar verður starfsfólki boðið upp á fræðslu og þjálfun. Haldin verða námskeið um tækifæri, áskoranir og ábyrgð sem felst í notkun gervigreindar í opinberri stjórnsýslu. Faghópur um gervigreind innan Skattsins veitir forystu og faglegt aðhald við þróun, innleiðingu og reglulegt eftirlit með beitingu þessarar tækni. Með þessu verður einnig lagður grunnur að menningu nýsköpunar og stöðugra umbóta í starfsemi stofnunarinnar.
Eftirfylgni og ábyrgð
Svið stafrænna umbóta ber ábyrgð á eftirfylgni stefnunnar og vinnur náið með fag- og stoðsviðum Skattsins að framkvæmd hennar.
Gildistími
Stefnan gildir fyrir tímabilið 2025-2027 og er endurskoðuð a.m.k. árlega.
Samþykkt í framkvæmdastjórn 11. júní 2025
