Annáll tollasögu

Tollheimta og gæsla

Upphaf tollheimtu á Íslandi má rekja allt til ársins 1872 þegar í gildi gekk konungleg tilskipun um innheimtu tolls af áfengum drykkjum öðrum en áfengu öli. Þá annaðist bæjarfógetaembættið í Reykjavík tollheimtuna. Árið 1911 voru svo sett heildartollalög þar sem lagður var tollur á áfengi, öl, gosdrykki, tóbak, kaffi, te, sykur, sýróp, súkkulaði, kakó, brjóstsykur og konfekt.

Árið 1917 voru samþykkt lög frá Alþingi sem sögðu að stofna skyldi sérstaka tollgæslu fyrir Reykjavík og í apríl 1918 var fyrsti tollvörðurinn ráðinn til starfa. Embætti tollstjórans í Reykjavík var svo sett á stofn með lögum nr. 67/1928 sem tóku gildi 1. janúar 1929 og var Jón Hermannsson fyrsti tollstjórinn í Reykjavík. Síðan hafa gegnt starfinu Torfi Hjartarson, Björn Hermannsson, Snorri Olsen og nú Sigurður Skúli Bergsson.

Í upphafi var aðstaða tollgæslunnar nær engin en um mitt ár 1920 var fyrsta tollvarðstofan tekin í notkun í hafnarpakkhúsinu. 1934 var svo flutt í nýbyggt Hafnarhús og tollgæslan fékk skrifstofu, varðstofu og geymslur. Árið 1960 voru starfsmenn tollstjórans í Reykjavík orðnir 50 talsins og ljóst að bæta þyrfti aðstöðu embættisins til muna. Þá var ráðist í að byggja Tollhúsið við Tryggvagötu og var það tekið í notkun 1971.

Árið 2007 var tollumdæmum fækkað úr 26 í átta og umdæmi tollstjórans í Reykjavík stækkað. Eftir þessa breytingu náði það frá Straumsvík norður í Gilsfjörð og féllu undir það tollumdæmi sýslumannanna í Hafnarfirði, Kópavogi, Akranesi, Borgarnesi og Búðardal og tollumdæmi sýslumanns Snæfellinga.

Þann 1. janúar 2009 tóku gildi lög númer 147/2008 um breytingu á tollalögunum númer 88/2005 og fleiri lögum. Eftir breytinguna er Ísland eitt tollumdæmi sem heyrir undir embætti tollstjóra. Við gildistöku laganna tók embætti tollstjórans í Reykjavík við réttindum og skyldum gagnvart öllum tollvörðum sem voru starfandi hjá öðrum tollembættum í landinu. Jafnframt breyttist heiti embættisins frá sama tíma í Tollstjóri.

Í dag starfa hjá Tollstjóra um 180 manns og fer starfsemin fram á þremur stöðum í Reykjavík, auk starfsstöðva á Akureyri, Eskifirði, Ísafirði, Keflavíkurflugvelli, Selfossi, Seyðisfirði og Vestmannaeyjum.

.

1929-1969

1929

Tollverðir á kajanum

Tollstjóraembættið í Reykjavík varð til við skiptingu lögreglustjóraembættisins í Reykjavík. Fyrsti tollstjórinn var Jón Hermannsson, áður lögreglustjóri, en hann lét af embætti 1943. Hlutverk embættisins var þá eins og nú tollgæsla ásamt innheimtu á tollum og sköttum fyrir ríkissjóð.

1932

Tollgæslu var sinnt við erfiðar aðstæður fyrstu árin, en tollvörðum fjölgaði og vöruskoðunardeild, sem fylgdist með innflutningi, var stofnuð 1932.

1934

Tollgæslan fékk mun betri aðstöðu í Hafnarhúsinu sem þá var nýbyggt. Þar var póstafgreiðsla og fór tollgæslan þá líka að sinna eftirlit með póstflutningi til landsins.

1943

Torfi Hjartarson skipaður tollstjóri í Reykjavík. Torfi gegndi embættinu árin 1943 til 1972.

1967

Nemar í Tollskólanum

Tollskóla fyrir tollverði og tollendurskoðendur var komið á fót í tollstjóratíð Torfa Hjartarsonar.

.