Gistináttaskattur
Almennt um gistináttaskatt
Gistináttaskattur er sérstakur skattur sem lagður er á hverja selda gistináttaeiningu. Slík eining er skilgreind sem leiga á gistiaðstöðu í allt að einn sólarhring. Með gistiaðstöðu er átt við herbergi, húsnæði eða svæði sem leigt er út í þeim tilgangi að þar sé dvalið yfir nótt, að svefnaðstaða sé fyrir hendi eða hægt sé að koma henni fyrir og leigan sé almennt til skemmri tíma en eins mánaðar.
Skatturinn skal lagður á af hálfu rekstraraðila hótela,
gistiheimila, tjaldsvæða og annarra sem veita slíka þjónustu.
Fjárhæð gistináttaskatts
Fyrir sölu á gistiaðstöðu skal frá áramótum innheimta gistináttaskatt sem hér segir:
- Fyrir hótel, gistiheimili og aðra gististaði sem hafa rekstrarleyfi í flokki II–IV samkvæmt lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald - 800 kr.
- Fyrir gistiaðstöðu á tjaldstæði og vegna stæða fyrir húsbíla, tjaldvagna, fellihýsi og hjólhýsi - 400 kr.
- Fyrir hvern dvalargest um borð í skemmtiferðaskipi. Sjá nánari upplýsingar um skemmtiferðaskip
Skil á gistináttaskatti eru rafræn. Með rafrænum skilum stofnast krafa í heimabanka við skil skýrslu.
Gistináttaeining er leiga á gistiaðstöðu (gistirými) í allt að einn sólarhring. Gistirýmið er húsnæði eða svæði sem leigt er út í þeim tilgangi að þar sé dvalið yfir nótt, svefnaðstaða sé fyrir hendi eða hægt sé að koma henni fyrir og leigan sé almennt til skemmri tíma en eins mánaðar, svo sem hús, íbúðir og herbergi. Afmarka verður hverju sinni það gistirými sem verið er að leigja út. Almennt er ekki miðað við einstakling, en gistirýmið er þó í ákveðnum tilvikum afmarkað við svefnrými fyrir hvern einstakling fyrir sig. Tilhögun greiðslu ræður ekki úrslitum í þessu sambandi.
Hótel
Herbergi á
hótelum teljast til gistináttaeininga í þessu sambandi. Ef hótel leigja út
íbúðir teljast þær hver og ein gistináttaeining.
Gistiheimili
Herbergi sem
leigð eru sérstaklega út teljast til gistináttaeininga. Ef hvert
rúm/svefnpokapláss er leigt út sérstaklega telst hvert og eitt þeirra gistináttaeining.
Ef gistiheimili er leigt út í heilu lagi er um eina gistináttaeiningu að ræða.
Í slíkum tilvikum er þannig ekki miðað við fjölda gistirýma, þótt almennt séu
þau leigð út sérstaklega.
Íbúðir og orlofshús
Hver íbúð
telst gistináttaeining ef hún er leigð út í einu lagi. Ef fleiri en ein íbúð er
í húsnæði telst hver íbúð fyrir sig sem gistináttaeining sem miða skal skattlagninguna
við. Á það einnig við þó að báðar eða allar íbúðirnar í húsnæðinu séu leigðar
sama aðila. Ef herbergi í íbúð eru leigð sérstaklega telst hvert herbergi
gistináttaeining.
Tjaldsvæði
Á tjaldsvæðum
er stæðið undir hvert tjald gistirýmið. Stæði fyrir húsbíla, tjaldvagna,
fellihýsi og hjólhýsi eru með sama hætti það gistirými sem miða ber innheimtu
gistináttaskatts við. Tjaldsvæði í heild sinni telst ekki gistirými í þessu
sambandi.
Skemmtiferðaskip
Frá 1. janúar
2024 ber rekstraraðilum skemmtiferðaskipa að standa skil á gistináttaskatti vegna
seldra gistináttaeininga á meðan það dvelur í höfn hér á landi eða annars staðar
á tollsvæði ríkisins.
Nánari upplýsingar
Uppgjör og gjalddagar
Rafræn skil á gistináttaskatti eru gerð á þjónustuvef Skattsins. Þegar skýrslu er skilað stofnast krafa sem hægt er að greiða í vefbanka gjaldanda. Á skattur.is er einnig hægt að gera leiðréttingar og fá yfirlit. Þeir sem eru í rafrænum skilum fá sendar áminningar um eindaga í tölvupósti, auk orðsendinga og annarra tilkynninga.
Uppgjörstímabil
gistináttaskatts hjá virðisaukaskattsskyldum aðilum, þ.e. rekstraraðila hótela,
gistiheimila, tjaldstæða og skemmtiferðaskipa sem notuð eru í
virðisaukaskattsskylda starfsemi, eru tveir mánuðir:
Tímabil | Gjalddagi |
---|
janúar- febrúar | 5. apríl |
mars -apríl | 5. júní |
maí -júní | 5. ágúst |
júlí - ágúst | 5. október |
september - október | 5. desember |
nóvember - desember | 5. febrúar |
Gjalddagi er fimmti dagur annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabils. Beri gjalddaga upp á helgidag eða almennan frídag færist hann yfir á næsta virka dag á eftir.
Skýrslu um fjölda farþega skemmtiferðaskips í innanlandssiglingum á uppgjörstímabilinu á að skila rafrænt á þjónustuvef Skattsins ásamt því að og standa skil
á greiðslu skattsins til innheimtumanns ríkissjóðs.
Uppgjörstímabil innviðagjalds telst vera sá tími sem skipið er innan tollsvæðis Íslands hverju sinni. Gjalddagi er sjö dögum eftir að skip yfirgefur tollsvæði Íslands.
Nánari upplýsingar
Undanþágur
Ekki skal
innheimta gistináttaskatt í eftirfarandi tilvikum:
- við sölu gistingar sem ekki ber
virðisaukaskatt samkvæmt lögum um virðisaukaskatt, nema í tilviki
skemmtiferðaskipa.
- við sölu gistingar til dvalargesta um borð í
skemmtiferðaskipi ef skipið leggst að höfn og fyrir liggur með sannanlegum
hætti að skipið hafi verið í nauðum statt vegna áreksturs, sjóskemmda,
veikinda eða ófriðar.
- fyrir gistiaðstöðu sem áhöfn skipsins og
annað starfsfólk þess hefur til umráða um borð í skipinu.
Heimagisting
Heimagisting
er gisting gegn endurgjaldi á lögheimili einstaklings eða í einni annarri
fasteign sem hann hefur til persónulegra nota og er í hans eigu. Hún fellur undir
rekstrarleyfi í flokki I samkvæmt lögum um veitingastaði, gististaði og
skemmtanahald.
Séu skilyrði
heimagistingar uppfyllt ber ekki að leggja gistináttaskatt á sölu
gistináttaeininga. Skilyrðin eru
m.a.
- að aðili hafi leyfi til reksturs slíkrar gistingar
- að fjöldi seldra
gistinátta á almanaksári sé ekki umfram 90 daga
- að heildarsöluverð gistinátta
sé ekki umfram 2.000.000 kr. á almanaksári
Uppfylli aðili
ekki framangreind skilyrði, og að því gefnu að honum beri að skrá starfsemi
sína á virðisaukaskattsskrá, ber honum að innheimta gistináttaskatt af seldum
gistináttaeiningum og standa skil á honum í ríkissjóð.
Hverjum þeim sem skattskyldur er samkvæmt lögum um gistináttaskatt ber að tilkynna starfsemi sína áður en hún hefst til skráningar hjá ríkisskattstjóra á stofnskrá gistináttaskatts.
Á tilkynningu um gistináttaskattsskylda starfsemi skal tilgreina:
- upphafsdag starfsemi
- lokadag starfsemi (ef við á)
- fjölda gistirýma sundurliðað eftir tegund gistiaðstöðu
Endurskráning
Þeir aðilar
sem voru á stofnskrá gistináttaskatts áður en hann var afnuminn tímabundið
þurfa að skrá sig á hana að nýju.
Við
tilkynningu inn á stofnskrá gistináttaskatts skal skrá heildarfjölda gistirýma sem í boði eru, sundurliðað eftir
flokkum, svo sem fjölda húsa í útleigu eða fjölda herbergja í útleigu.
Hús, íbúðir og sumarbústaðir
Þegar hús,
íbúðir, sumarbústaðir eða aðrar sambærilegar einingar sem leigðar eru út í
heilu lagi þarf ekki að skrá fjölda gistirýma, aðeins fjölda húsa.
Tjaldsvæði
Gera þarf
grein fyrir áætluðum hámarksfjölda tjaldstæða eða gistináttaeininga á tjaldsvæði. Stæði undir tjaldvagna,
fellihýsi og húsbíla falla hér undir. Ef fjöldi tjaldstæða liggur ekki fyrir
skal færa hér fjölda tjalda sem mest hefur verið á tjaldstæðinu í einu.
Svefnpokapláss
Í tilviki skála, farfuglaheimila og annarra staða sem bjóða gistingu í stökum rúmum og svefnpokaplássum skal færa heildarfjölda rúma og svefnpokaplássa sem eru til útleigu.
Tilgreina skal heildarfjölda annarra gistirýma en húsa, herbergja, tjaldstæða, rúma og svefnpokaplássa. Jafnframt skal tilgreina hvers eðlis þau eru.
Þegar gistináttaeining er seld en síðar afbókuð skal
gistináttaskattur falla niður.
Hafi
gistináttaskattur verið innheimtur hjá þeim sem afbókar eininguna, skal hann
endurgreiddur til kaupanda.
Ekki
skiptir máli hvort seljandi haldi eftir hluta eða öllu andvirði greiðslunnar.
Hafi seljandi innheimt gistináttaskattinn og ógerlegt er að koma við
endurgreiðslu til kaupanda, skal seljandi þó skila þeim gistináttaskatti í
ríkissjóð.
Ítarefni