Undantekningar á staðgreiðsluskyldu fjármagnstekna

Lögaðilar með heimilisfesti erlendis sem hafa tekjur af íslenskum hlutabréfum, stofnbréfum eða öðrum réttindum til hlutdeildar í hagnaði af rekstri íslenskra fyrirtækja ber að greiða tekjuskatt af tekjunum. Á það m.a. við um söluhagnað hlutabréfa og vaxtatekjur við innlausn skuldabréfa. 

Skattskylda en ekki staðgreiðsluskylda

Lengst af voru framangreindar tekjur alltaf staðgreiðsluskyldar. Hinn 13. maí 2020 tók í gildi sú breyting að söluhagnaður hlutabréfa og stofnbréfa og vaxtatekjur við innlausn skuldabréfa urðu undanþegnar staðgreiðslu. Reglan gildir um öll hlutabréf og þau skuldabréf sem eru skráð í verðbréfamiðstöð í aðildarríki OECD, EES/ESB eða Færeyjum. Tekjurnar eru eftir sem áður skattskyldar á Íslandi kveði tvísköttunarsamningur ekki á um annað.

Breytingin leiðir til þess að eigendur tekna sem undanþegnar eru staðgreiðslu ber að skila skattframtali á Íslandi séu tekjurnar hér skattskyldar eða, eftir atvikum að sækja um undanþágu á grundvelli tvísköttunarsamnings kveði hann á um að þær skuli einungis skattlagðar í heimilisfestisríki eiganda. Mikilvægt er því að vera upplýstur um það hvar bréfin eru skráð og hvað ákvæði viðeigandi tvísköttunarsamnings kveður á um.

Þegar tvísköttunarsamningur er ekki fyrir hendi er greiddur skattur samkvæmt gildandi skattprósentu hverju sinni.

Skattprósentur 2022
Söluhagnaður hlutabréfa 20%
Vaxtatekjur af skuldabréfum12%

Hvernig veit ég hvar bréfin mín eru skráð?

Ef hlutabréf íslenskra félaga eru skráð í erlendri verðbréfamiðstöð kann það að vera tilgreint á heimasíðu félagsins. Ef svo er ekki er rétt að beina fyrirspurn til viðkomandi félags.

Hvernig get ég fundið út hvort ríki er í OECD eða EES/ESB?

Listi yfir aðildarríki Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) er aðgengilegur á vef stofnunarinnar (www.oecd.org).

Listi yfir aðildarríki Efnahags- og framfarastofnunarinnar

Listi yfir aðildarríki Evrópusambandsins (ESB) er aðgengilegur á vef sambandsins (www.europa.eu)

Listi yfir aðildarríki Evrópusambandsins

Aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins (EES) eru öll aðildarríki Evrópusambandsins auk Íslands, Noregs og Liechtenstein.

Gilda ákvæði tvísköttunarsamnings um mínar tekjur?

Auðvelt er að ganga úr skugga um hvort í gildi er tvísköttunarsamningur á milli Íslands og annars ríkis þar sem hægt er að nálgast þá á vef Skattsins.

Tvísköttunarsamningar sem Ísland er aðili að

Félög sem heimilisföst eru í ríkjum sem Ísland hefur ekki gert tvísköttunarsamning við greiða fullan skatt af söluhagnaði hlutabréfa í íslenskum félögum. Sama á við um vaxtatekjur við innlausn íslenskra skuldabréfa, sé greiðandi vaxtanna heimilisfastur á Íslandi.

Ef enginn tvísköttunarsamningur er í gildi við heimilisfestisríki félags ber ætíð að gera grein fyrir tekjunum á skattframtali. Sé í gildi tvísköttunarsamningur fer eftir ákvæðum hans hvort og hvernig ber að haga skilum.

Hvað á ég að gera ef ég er með söluhagnað af hlutabréfum?

Hvað þarf að gera og hvaða skattareglur gilda er mismunandi eftir því hvort tvísköttunarsamningur er fyrir hendi og hvað ákvæði gildandi samnings kveða á um.

Ef enginn tvísköttunarsamningur er við heimilisfestisríki ber að skila skattframtali. Engin undantekning er á því. Tekjurnar eru skattlagðar samkvæmt gildandi skattprósentu hverju sinni.

Ef tvísköttunarsamningur er við heimilisfestisríki

Það fer eftir ákvæðum einstakra tvísköttunarsamninga hvort þörf er á því að skila skattframtali. Í flestum tilvikum er söluhagnaður íslenskra hlutabréfa skattskyldur í heimilisfestisríki viðkomandi. Til að komast undan skattlagningu á Íslandi þarf sérstaklega að sækja um undanþágu á grundvelli gildandi tvísköttunarsamnings. Það er gert með eyðublaði RSK 5.42. Almennt ber að sækja um undanþágu fyrir lok tekjuárs. Sótt er um undanþágu árlega.

Eyðublöð

Sérstakar reglur kunna að gilda um söluhagnað þegar eignarhlutur í fasteignafélögum er seldur. Hægt er að sjá hvort slíkar reglur eiga við á yfirliti um framtalsskyldan söluhagnað af hlutabréfum. Ef skattprósentan er 0% samkvæmt yfirlitinu ber að sækja um undanþágu með fyrrnefndu eyðublaði RSK 5.42. Sé undanþágan samþykkt á ekki að gera grein fyrir tekjunum á skattframtali. Ef skattprósentan er ekki 0% þarf að gera grein fyrir tekjunum á framtali.

Yfirlit yfir framtalsskyldan söluhagnað af hlutabréfum

Hvað á ég að gera ef ég hef vaxtatekjur af innlausn íslenskra skuldabréfa?

Hvað þarf að gera og hvaða skattareglur gilda er mismunandi eftir því hvort tvísköttunarsamningur er fyrir hendi og hvað ákvæði gildandi samnings kveða á um.

Ef enginn tvísköttunarsamningur er við heimilisfestisríki ber að skila skattframtali. Engin undantekning er á því. Tekjurnar eru skattlagðar samkvæmt gildandi skattprósentu hverju sinni.

Ef tvísköttunarsamningur er við heimilisfestisríki

Ef í gildi er tvísköttunarsamningur við Ísland á þeim tíma sem tekjurnar falla til þarf að skoða samninginn sérstaklega hvað varðar hvort skila beri skattframtali og greiða beri skatt á Íslandi og hversu hár hann er. Í einhverjum tilvikum eru vaxtatekjur við innlausn á íslenskum skuldabréfum skattskyldar í heimilisfestisríki viðkomandi.

Á yfirliti yfir skattprósentur af vaxtatekjum við innlausn á íslenskum skuldabréfum er hægt að sjá hvort greiða ber skatta á Íslandi af tekjunum. Ef skattprósentan samkvæmt yfirlitinu er 0% ber ekki að greiða skatt og ekki þarf að skila inn skattframtali vegna teknanna. Til að komast undan skattlagningu á Íslandi þarf að sækja um undanþágu hérlendis á grundvelli gildandi tvísköttunarsamnings. 

Yfirlit yfir skattprósentur af vaxtatekjum við innlausn á íslenskum skuldabréfum

Sótt er um undanþágu með eyðublaði RSK 5.42. Almennt ber að sækja um undanþágu fyrir lok tekjuárs. Sótt er um undanþágu árlega. 

Eyðublöð

Hvernig skila ég skattframtali á Íslandi?

Tvennt þarf að vera fyrir hendi svo unnt sé að skila skattframtali á Íslandi. Annars vegar þarf viðkomandi að hafa kennitölu og hins vegar þarf að vera búið að opna fyrir skattframtal viðkomandi með skráningu þess á skattgrunnskrá Skattsins. Þeir sem eiga íslenska kennitölu nota hana við framtalsskil. Þau félög sem eiga ekki kennitölu þurfa að sækja um kennitölu hjá Skattinum með eyðublaðinu RSK 17.04. Eingöngu íslenskur banki eða fjármálafyrirtæki getur sótt um kennitöluna fyrir hönd félagsins og er mikilvægt að áreiðanleikakönnun vegna peningaþvættis og fjármögnunar hryðjuverka hafi farið fram. Þá skal tekið fram í reitnum „Ástæða þess að sótt er um kennitölu á Íslandi” að sótt sé um vegna lögaðila með framtalsskyldar fjármagnstekjur á Íslandi. Tekið skal fram að skráningargjald vegna kennitölunnar er 5.000 kr. 

Eyðublöð

Lögaðilar eiga að skila skattframtali rekstraraðila, RSK 1.04. Er framtalinu skilað rafrænt á þjónustusíðu Skattsins, skattur.is. Mikilvægt er að framtalið sé fyllt út á fullnægjandi hátt svo það sé skilatækt. Á forsíðu framtalsins er mikilvægt að hakað sé í viðeigandi reiti í kössunum „Framtal unnið af” og „Áritun löggilts endurskoðanda á ársreikning”. Þá þarf að koma fram hver atvinnugrein skattaðila er auk tegund rekstrar. Gera skal grein fyrir skattskyldum vaxtatekjum i reit 3610 og færa skal söluhagnað af hlutabréfum í reit 3632.

Sé umræddur skattaðili félag, sem hafði tekjur af sölu hlutabréfa, og uppfyllir skilyrði 9. tl. a 31. gr. laga nr. 90/2003, skal sama fjárhæð og var færð í reit 3632 jafnframt færð til frádráttar í reit 4027. 

Þjónustusíða

Með framtali skal fylgja skattskylduvottorð frá skattyfirvöldum í heimilisfestisríki framteljanda sem staðfestir að hann falli undir ákvæði tvísköttunarsamnings milli Íslands og viðkomandi ríkis auk kvittanna vegna framtaldra viðskipta. Er þar bæði óskað eftir kvittunum vegna sölunnar sem mynduðu hina framtalsskyldu tekjur, auk kvittunar vegna kaupa umræddra bréfa. 

Hvernig veit ég hvað ég á að borga og hvernig borga ég skattinn?

Álagning lögaðila er birt í lok október ár hvert. Eru álagningarseðlar birtir á þjónustuvef Skattsins (www.skattur.is). Einnig er hægt að hafa samband við upplýsingaver Skattsins í síma 442-1000 og fá upplýsingar um greiðslustöðu. 

Vangreiddan skatt skal greiða inn á eftirfarandi reikning:

Reikningsnúmer: 0101-26-85002
Kennitala: 540269-6029
IBAN: IS91 0101 2608 5002 5402 6960 29
SWIFT (BIC): NBIIISRE
Kvittun: 85002@skatturinn.is

Hvað get ég gert ef ég er ósáttur við álagninguna?

Álagning lögaðila er kæranleg til Skattsins í einn mánuð eftir að álagning hefur verið birt, sbr. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Þá er hægt að óska eftir leiðréttingu álagningar til Skattsins allt að sex tekjuár aftur í tímann, sbr. 2. mgr. 101. gr. sömu laga.

Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar?

Skattskylda – 7. og 8. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt

Skattskylduvottorð – 4. gr. í viðeigandi samningi

Staðgreiðsluskylda – 6. tölul. 5. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda

Umfjöllun um söluhagnað í tvísköttunarsamningum – 13. gr. í viðeigandi samningi

Umfjöllun um vaxtatekjur í tvísköttunarsamningum – 11. gr. í viðeigandi samningi

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum