Skráning á virðisaukaskattsskrá
Tilkynning um starfsemi - Umsókn um VSK-númer
Tilkynna skal virðisaukaskattsskyldan atvinnurekstur til ríkisskattstjóra eigi síðar en átta dögum áður en starfsemi hefst. Tilkynningin skal gerð á eyðublaði RSK 5.02. Ríkisskattstjóri úthlutar virðisaukaskattsnúmeri (VSK-númeri) og sendir staðfestingu skráningar.
Athugið að aðili sem skráir sig á virðisaukaskattsskrá ber að jafnaði einnig að skrá sig á launagreiðandaskrá sé hann ekki skráður þar fyrir.
Jafnframt skal tilkynna breytingar sem verða á starfsemi atvinnurekstrar eftir skráningu, svo sem tekin er upp ný starfsemi af öðru tagi en skráning hefur tekið til eða rekstur seldur eða yfirtekinn af öðrum skráðum aðila.
Breyting á starfsemi
Tilkynna þarf um breytingar á starfsemi eigi síðar en átta dögum eftir að breyting á sér stað.
Dæmi um breytingar sem tilkynna þarf:
- Breyting á tegund starfsemi
- Breyting á heimilisfangi starfsstöðvar
- Rekstur er seldur eða yfirtekinn. Þá lýkur starfsemi fyrri rekstraraðila og nýr tekur við.
- Breytingar á reiknuðu endurgjaldi eða minnkun á starfshlutfalli.
Ef starfsemi fer ekki fram á skráðu lögheimili aðila þarf að tilkynna um heimilisfang starfsstöðvar þegar sótt er um skráningu. Einnig ber að tilkynna ef breyting verður á heimilisfangi starfsstöðvar.
Gerð er grein fyrir öllum breytingum á eyðublaði RSK 5.02 Tilkynningu til launagreiðenda- og virðisaukaskattsskrár.
Tilkynning um lok starfsemi - Loka VSK-númeri
Virðisaukaskattsskyldur aðili skal tilkynna ríkisskattstjóra um lok starfsemi. Tilkynningin skal gerð með eyðublaði RSK 5.04 ekki síðar en átta dögum fyrir lok starfseminnar.
Við lok starfsemi skal telja vörubirgðir, vélar, tæki og aðra rekstrarfjármuni til skattskyldrar veltu hvort sem þeir hafa verið seldir eða ekki og er meginreglan sú að miða skuli skattverð við gangverð þeirra verðmæta. Verðmæti rekstrarfjármuna skal einnig koma fram á eyðublaðinu. Tilgreina þarf framangreinda rekstrafjármuni með veltu á virðisaukaskattsskýrslu á því uppgjörstímabili sem starfsemi lýkur.
Þegar aðili sem skráður er í ársskil á virðisaukaskatti lýkur starfsemi ber að skila virðisaukaskattsskýrslu fyrir þann hluta ársins sem liðinn er á næsta gjalddaga tveggja mánaða skila. Til dæmis ef starfsemi lýkur í júlí ber að skila skýrslu fyrir janúar-júlí á júlí-ágúst tímabilinu sem er með gjalddaga 5. október þar á eftir.
Skila þarf RSK 10.01 skýrslu á pappír í þessum tilvikum, skanna og undirrita hana og senda í tölvupósti á tölvupóstfangið skatturinn@skatturinn.is.
Leiðbeiningar um útfyllingu á RSK 5.02 og RSK 5.04
Upplýsingar sem þurfa að koma fram á tilkynningu RSK 5.02 um skráningu og endurskráningu
A liður - Umsókn um skráningu
- Dagsetning skráningar eða breytingar.
Athugið að starfsemi telst almennt hefjast þegar gjöld byrja að myndast vegna starfseminnar, ekki þegar fyrstu tekjur verða.
B liður - Um skattaðilann
- Nafn skráningaraðila
- Kennitala
- Lögheimili
- Símanúmer
- Tölvupóstfang
- Annað sem við á
C liður - Um starfsemina – VSK skráning
- Nákvæmar upplýsingar um virðisaukaskattsskylda starfsemi aðila, hvort sem er sala á vöru eða þjónustu.
- Upplýsingar um undanþegna starfsemi sé um hana að ræða.
- Heimilisfang starfsstöðvar.
- Upplýsingar um það hvenær reiknað er með að fyrstu tekjur verði af starfseminni.
- Áætlaðar tekjur og kostnaður á fyrstu tólf
mánuðum starfseminnar.
Ef rekstrarkostnaður er hærri en tekjur í þessum lið þarf að senda inn rekstraráætlun þar sem sýnt er fram á hvenær búast megi við að tekjur verði hærri en gjöld. Ríkisskattstjóri getur þá metið hvort skilyrði skráningar séu uppfyllt. - Upplýsingar um tekjuskráningu. Velja þarf þá tekjuskráningu sem við á.
D liður - Tegund starfsemi
· Hér þarf að velja viðmiðunarflokk reiknaðs endurgjalds og tegund starfs.
· Athuga að haka þarf við reiti í gula kassanum ef við á.
E liður - Lögaðilar - áætlaðar launagreiðslur og /eða reiknað endurgjald í rekstri lögaðila
Eftirfarandi upplýsingar þurfa lögaðilar að skrá (ath einstaklingar skrá í F lið):
· Áætlaða dagsetningu fyrstu launagreiðslu
· Áætlaðar launagreiðslur á mánuði
· Nafn og kennitölu einstaklings með eignarhlutdeild
· Eignarhlutdeild í prósentum
· Viðmiðunarflokk reiknaðs endurgjalds
· Reiknað endurgjald ársins
· Reiknað endurgjald rekstraraðila á mánuði og frá og með hvaða mánuði
F liður - Sjálfstætt starfandi einstaklingar – áætlað reiknað endurgjald og/eða greidd laun
· Viðmiðunarflokkur reiknaðs endurgjalds
· Reiknað endurgjald ársins
· Reiknað endurgjald á mánuði og frá og með hvaða mánuði
· Reiknað endurgjald ársins hjá maka (ef við á)
· Reiknað endurgjald á mánuði hjá maka og frá og með hvaða mánuði (ef við á)
· Áætluð dagsetning fyrstu launagreiðslu til annarra (ef við á)
· Áætlaðar launagreiðslur á mánuði til annarra (ef við á)
· Haka í viðeigandi reit ef engar launagreiðslur eru til annarra einungis reiknað endurgjald
G liður - Erlendis búsettur launagreiðandi eða sendiráð
Hér þarf að skrá ef við á:
· Nafn
· Kennitala (hjá þeim sem eru skráðir á Íslandi)
· Lögheimili
· Tölvupóstfang
Athugasemdir
Hér skal skrá hér athugasemdir ef frekari skýringa er þörf.
Afrit af undirrituðu eyðublaði skal senda á netfangið skatturinn@skatturinn.is.
Upplýsingar sem þurfa að koma fram á tilkynningu RSK 5.04 um afskráningu
A liður - Um skattaðilann
- Nafn skráningaraðila
- Kennitala
- Lögheimili
- Símanúmer
- Tölvupóstfang
- Annað sem við á
B liður - Afskráning
Haka í viðeigandi reit eftir því sem við á:
- Launagreiðendaskrá, dagsetning síðustu launagreiðslu.
- Virðisaukaskattsskrá, dagsetning rekstrarloka.
- Gistináttaskattsskrá, dagsetning rekstrarloka.
C liður - Sala eða yfirtaka á starfsemi
Ef starfsemi hefur verið seld eða yfirtekin af öðrum aðila, í heild eða hluta þarf að fylla út eftirfarandi upplýsingar:
- Verðmæti birgða
- Verðmæti fasteigna
- Verðmæti rekstrarfjámuna
- Yfirtekin leiðréttingarkvöð
- Nafn og kennitala þess sem yfirtekur starfsemi
- Kaupsamningur þarf að fylgja með og jafnframt samþykki nýs eiganda hafi hann yfirtekið leiðréttingarkvöð vegna innskatts.
D liður - Rekstri hætt án kaupa eða yfirtöku
Rekstri hætt án kaupa eða yfirtöku annars aðila á rekstrinum eða hluta hans þarf að fylla út eftirfarandi upplýsingar:
- Verðmæti eigna (sundurliðun fylgi).
- Ef engar eignir eru eftir í rekstrinum þarf að haka við reitinn engar vörubirgðir, vélar, tæki eða aðrir rekstrarfjármunir eru eftir í rekstrinum.
- Athugið að það þarf að telja til skattskyldrar veltu sölu eða afhendingu á rekstrarfjármunum og/eða vörubirgðum þegar aðili tilkynnir sig út af virðisaukaskattsskrá með síðustu virðisaukaskattsskýrslu.
E liður - Leiðrétting innskatts
Leiðrétting innskatts vegna breyttra forsendna, þá þarf að fylla út eftirfarandi upplýsingar:
- Haka við ef um leiðréttingu innskatts vegna breyttra forsendna er að ræða. (sundurliðun leiðréttingar þarf að fylgja).
- Haka við ef leiðréttingarskylda er yfirtekin af öðrum aðila. (Þinglýst samþykki nýs rekstraraðila með fjárhæð leiðréttingarskyldu skal fylgja).
- Haka við ef leiðréttingarskylda er ekki fyrir hendi eða hún fyrnd.
Athugið að það telst breyting á forsendum fyrir fengnum innskatti ef skattaðili sem naut fullrar eða hlutfallslegrar heimildar til innsköttunar þegar eign var keypt eða þegar verk var unnið en eignin er síðan seld, leigð eða tekin til annarrar notkunar þar sem skattaðili ber enga eða minni heimild til innsköttunar.
F liður - Athugasemdir
- Ef skattaðili vill koma á framfæri einhverjum athugasemdum er það gert hér.
Afrit af undirrituðu eyðublaði skal senda á netfangið skatturinn@skatturinn.is.
Fyrirfram skráning
Sé rekstur á þróunar- eða undirbúningsstigi þar sem fjárfesting er veruleg og tekjur munu ekki skila sér þegar á fyrstu uppgjörstímabilum er hægt að sækja um fyrirfram skráningu að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.
Tímabil fyrirfram skráningar
Fyrirfram skráning gildir í tólf mánuði, en aðili sem skráður hefur verið fyrirfram skráningu getur fengið skráningu í tólf mánuði til viðbótar hjá ríkisskattstjóra, þyki staðfest að forsendur skráningar séu óbreyttar frá upphaflegri skráningu. Þyki eðlilegt að starfsemin hafi ekki skilað tekjum innan þess tíma getur ríkisskattstjóri veitt aðila áframhaldandi skráningu til allt að tíu ára, mest tvö ár í senn.
Skilyrði fyrirfram skráningar
- Að um sé að ræða atvinnustarfsemi sem miðar að rekstrarhagnaði eftir eðlilegan uppbyggingartíma.
- Að fjárfesting aðila í varanlegum rekstrarfjármunum, þar með talið fasteignum og ræktun eða vörubirgðum, sé veruleg á sama tíma og eðlilegt sé vegna eðlis starfseminnar að hún skili ekki rekstrartekjum.
- Að fyrirsjáanlegt sé að starfsemin muni skila tekjum
- Ekki er nægjanlegt að aðili hafi verulegan kostnað af virðisaukaskatti vegna almenns rekstrarkostnaðar.
Umsókn og nauðsynleg fylgigögn
- Viðskiptaáætlun, sem nær til þess tíma sem áætlað er að verkefnið skili hagnaði.
- Upplýsingar um í hvaða varanlegu
rekstrarfjármunum eða vörubirgðum er verið að fjárfesta (þ.m.t. fasteignir
og ræktun)
Hér þarf einnig að veita upplýsingar um hvernig þær fjárfestingar varða sölu á virðisaukaskattsskyldri vöru vinnu eða þjónustu.
- Staðfesting með gögnum að fyrirsjáanlegt sé að starfsemin muni skila tekjum t.d. með samningi um vilyrði fyrir kaupum á vöru.
- Staðfesting á að verkefnið hafi verið fjármagnað.
Ríkisskattstjóri áskilur sér rétt til þess að óska eftir frekari gögnum sé þeirra þörf til að meta skilyrði til skráningar.
Uppfylli aðili ekki öll skilyrðin er möguleiki að leggja fram tryggingu í formi skilyrðislausrar sjálfskuldarábyrgðar banka.
Umsókn um fyrirfram skráningu skal senda í tölvupósti til Skattsins á skatturinn@skatturinn.is.
Framlenging fyrirfram skráningar
Sé óskað eftir framlengingu fyrirfram skráningar skal senda tölvupóst á skatturinn@skatturinn.is, þar sem fram kemur nafn og kennitala.
Gögn með umsókn um framlengingu
- Uppfærð viðskiptaáætlun, sem nær til þess tíma sem áætlaði er að verkefnið skili hagnaði.
- Listi yfir þá varanlegu rekstrarfjármuni eða
vörubirgðir sem fjárfest hefur verið í (þ.m.t. fasteignir og ræktun) og
upplýsingar um hvort fyrirhugaðar eru frekari fjárfestingar og þá hvaða?
Hér þarf einnig að veita upplýsingar um hvernig þær fjárfestingar varða sölu á virðisaukaskattsskyldri vöru vinnu eða þjónustu. - Staðfesting með gögnum að fyrirsjáanlegt sé að starfsemin muni skila tekjum t.d. með samningi um vilyrði fyrir kaupum á vöru.
- Staðfesting á að verkefnið hafi verið fjármagnað.
Ríkisskattstjóri áskilur sér rétt til þess að óska eftir frekari gögnum sé þeirra þörf til að meta skilyrði til skráningar.
Sérstök skráning vegna byggingar atvinnuhúsnæðis til leigu eða sölu
Við byggingu fasteignar á eigin lóð eða leigulóð og sölu hennar til aðila sem skráður er á virðisaukaskattsskrá er hægt að sækja um sérstaka skráningu til ríkisskattstjóra.
Aðeins er hægt að fá sérstaka skráningu vegna byggingar atvinnuhúsnæðis.
Gögn og upplýsingar sem þurfa að fylgja með umsókn um sérstaka skráningu
Nauðsynlegar upplýsingar
Senda þarf inn skriflega umsókn þar sem eftirfarandi upplýsingar koma fram:
- Nafn, kennitala, símanúmer og netfang umsækjanda.
- Staðsetning, fermetrafjöldi og fastanúmer húsnæðis.
- Upphafsdagur sérstakrar skráningar og hvenær áætlað er að byggingarframkvæmdum ljúki miðað við áætlun verksins.
- Upplýsingar um byggingaraðila, m.a. hvort
eigin starfsmenn eða aðkeyptir verktakar muni sjá um bygginguna.
Ef eigin starfsmenn byggja fasteignina ber byggingaraðila að reikna útskatt af starfseminni skv. reglugerð um virðisaukaskatt af byggingarstarfsemi. - Hver áætluð nýting fasteignarinnar er eftir fermetrafjölda, svo sem hvort húsnæðið hafi verið selt eða leigt virðisaukaskattsskyldum aðila.
- Sundurliðuð kostnaðaráætlun vegna byggingarinnar.
- Ef um afturvirka skráningu er að ræða þarf að skila virðisaukaskattsskýrslum vegna gjaldfallinna uppgjörstímabila ásamt hreyfingarlistum innskatts fyrir öll tímabilin. Ekki er opið fyrir rafræn skil aftur í tímann vegna afturvirkrar skráningar og því þarf að senda skýrslurnar á pappírsforminu RSK 10.01.
Byggingaraðili hefur þegar selt eignina
- Skriflegur og fullgildur kaupsamningur byggingaraðila og skráðs aðila um fasteignina, eða þinglýstur lóðarleigusamningur um lóðina.
- Afrit samþykktra teikninga af fasteigninni og skráningartöflu.
- Yfirlýsing kaupanda um ætluð not hans á fasteigninni.
- Yfirlýsing kaupanda um að hann skuldbindi
sig til yfirtöku á kvöð um leiðréttingu innskatts, ef breyting verður á
notkun fasteignar sem hefði í för með sér breytingu á frádráttarrétti.
Bent skal á að kaupandi verður að vera skráður aðili á virðisaukaskattsskrá til að geta yfirtekið leiðréttingarkvöð.
Nauðsynlegt er að tilgreina fjárhæð yfirtekinnar leiðréttingarkvaðar eða áætla fjárhæð hennar. - Framangreindum yfirlýsingum um ætluð not og yfirtöku á kvöð um leiðréttingu innskatts skal þinglýsa á viðkomandi fasteign.
- Ef um afturvirka skráningu er að ræða þarf að skila virðisaukaskattsskýrslum vegna gjaldfallinna uppgjörstímabila ásamt hreyfingarlistum innskatts fyrir öll tímabilin. Ekki er opið fyrir rafræn skil aftur í tímann vegna afturvirkrar skráningar og því þarf að senda skýrslurnar á pappírsforminu RSK 10.01.
Nánari upplýsingar um reglur varðandi kvöð um leiðréttingu innskatts
Byggingaraðili hefur ekki selt eignina
Hafi byggingaraðili ekki gert samning um sölu atvinnurekstrarhúsnæði í lok fyrsta uppgjörstímabils eftir að framkvæmdir hófust, getur hann fengið sérstaka skráningu, enda sé um atvinnuhúsnæði að ræða sem ætlað er til nota fyrir atvinnurekstur skráðs aðila á virðisaukaskattsskrá.
Í þeim tilvikum þarf byggingaraðili að leggja fram:
- Tryggingu fyrir áætluðum virðisaukaskatti af byggingarkostnaði í formi skilyrðislausrar sjálfskuldarábyrgðar banka. Frumrit ábyrgðar skal senda til Skattsins í Katrínartún 6.
- Afrit samþykktra teikninga af fasteigninni og skráningartöflu.
- Ef um afturvirka skráningu er að ræða þarf að skila virðisaukaskattsskýrslum vegna gjaldfallinna uppgjörstímabila ásamt hreyfingarlistum innskatts fyrir öll tímabilin. Ekki er opið fyrir rafræn skil aftur í tímann vegna afturvirkrar skráningar og því þarf að senda skýrslurnar á pappírsforminu RSK 10.01.
Byggingaraðili ætlar að leigja út atvinnurekstrarhúsnæði
- Sækja um frjálsa skráningu og leggja virðisaukaskatt á leigufjárhæð.
- Leggja fram skriflegan húsaleigusamning.
- Þinglýst yfirlýsing leigutaka þess efnis að hann samþykki frjálsa skráningu leigusala þarf að fylgja með umsókn.
- Frjáls skráning verður að gilda í a.m.k. tvö ár.
Skilyrði fyrir niðurfellingu ábyrgðar
Uppfylla þarf eitthvert eftirtalinna atriða og leggja fram eftirfarandi gögn til að fá ábyrgðina niðurfellda:
- Að virðisaukaskattsskyldur aðili kaupi
fasteignina og yfirtaki virðisaukaskattskvöðina. Leggja þarf fram
kaupsamning og þinglýstri yfirtöku á kvöð á fasteignina ásamt þinglýstri
yfirlýsingu um virðisaukaskattsskyld not.
Ef kaupandinn er einungis með frjálsa skráningu verður sú skráning að ná yfir viðkomandi fasteign. - Að fá frjálsa skráningu sem tekur til viðkomandi fasteignar.
- Að byggingaraðili taki fasteignina undir eigin virðisaukaskattsskyldan rekstur.
- Greiða virðisaukaskattskvöðina að fullu. Leiðrétta þarf virðisaukaskattsskýrslu rafrænt og senda greiðslustaðfestingu fyrir greiðslu leiðréttingarkvaðarinnar í tölvupósti.
- Upplýsingar um stöðu
virðisaukaskattskvaðar ásamt yfirliti um útreikning hennar.
Koma þarf fram framreiknuð fjárhæð kvaðarinnar miðað við byggingarvísitölu og fyrningu til samræmis við reglur um mannvirki í reglugerð um innskatt.
Athugið að einungis er felld niður ábyrgð af þeim hluta húsnæðis sem uppfyllir skilyrði niðurfellingar ábyrgðar.
Senda þarf umsókn ásamt ofangreindum gögnum í tölvupósti á skatturinn@skatturinn.is.
Frjáls skráning vegna langtímaleigu fasteigna í atvinnuskyni
Sá sem í atvinnuskyni leigir fasteign eða hluta fasteignar getur sótt um frjálsa skráningu til ríkisskattstjóra. Frjáls skráning getur ekki tekið til húsnæðis sem nýtt er að öllu leyti eða að hluta sem íbúðarhúsnæði.
Upplýsingar með umsókn um frjálsa skráningu
- Nafn umsækjanda, heimilisfang og kennitala.
- Staðsetning, fastanúmer og fermetrafjöldi leiguhúsnæðisins.
- Upphafsdagur frjálsrar skráningar, sem getur verið frá umsóknardegi eða þegar leigutaki tekur eignina í notkun eftir að umsókn berst.
Gögn með umsókn um frjálsa skráningu
- Skriflegur húsaleigusamningur.
- Undirrituð yfirlýsing leigutaka um að hann samþykki fyrir sína hönd frjálsa skráningu og þar með greiðslu virðisaukaskatts af leigugjaldi, samþykki leigutaka þarf að vera þinglýst.
- Ef hið leigða atvinnuhúsnæði hefur nýlega skipt um eigendur, er óskað eftir að eigandi/eigendur sýni fram á eignarhald með kaupsamningi eða afsali eða áritun leigusamnings.
- Ef um afturvirka skráningu er að ræða þarf að skila virðisaukaskattsskýrslum vegna gjaldfallinna uppgjörstímabila. Ekki er opið fyrir rafræn skil aftur í tímann vegna afturvirkrar skráningar og því þarf að senda skýrslurnar á pappírsforminu RSK 10.01.
Athugið að berist tilskilin gögn og upplýsingar ekki með umsókn má búast við að umsókn verði vísað frá. Þegar öll gögn og upplýsingar berast er unnt að sækja um að nýju.
Vakin er athygli á að frjáls skráning er að lágmarki til tveggja ára. Ef leigusamningurinn er ótímabundinn þarf félagið að senda inn undirritaða yfirlýsingu þess efnis að fyrirhugað sé að leigja út eignina í tvö ár hið skemmsta.
Taka ber fram að frjáls skráning nær ekki til innskatts vegna byggingar húsnæðis eða verulegra endurbóta. Í þeim tilvikum ber að sækja um sérstaka skráningu.
Senda þarf umsókn ásamt ofangreindum gögnum í tölvupósti á skatturinn@skatturinn.is.
Breyting á frjálsri skráningu
Ef að það er nýr leigutaki í atvinnuhúsnæði sem skráð er frjálsri skráningu þarf að tilkynna um það til Skattsins með uppfærðum gögnum þ.e. leggja fram nýja leigusamninga og þinglýstar yfirlýsingar leigutaka fyrir frjálsri skráningu.
Við eigendaskipti á atvinnuhúsnæði sem skráð er frjálsri skráningu þarf að leggja fram gögn til sönnunar á aðilaskiptum á leigusamningi t.d. kaupsamning.
Framangreind gögn skal senda til Skattsins í tölvupósti á tölvupóstfangið skatturinn@skatturinn.is.
Samskráning hlutafélaga/einkahlutafélaga
Ríkisskattstjóri getur heimilað að tvö eða fleiri skráningarskyld hlutafélög og einkahlutafélög, verði samskráð. Með samskráningu er öllum innheimtum virðisaukaskatti móður- og dótturfélaga innan samstæðunnar skilað í nafni móðurfélagsins í stað hvers og eins félags.
Skilyrði samskráningar
- Að móðurfélag eigi ekki minna en 90% hlutafjár í dótturfélögum eða annarra dótturfélaga sem einnig taka þátt í samskráningunni.
- Að öll félögin séu með sama reikningsár.
- Samskráning skal vera í nafni móðurfélagsins.
- Samskráningin skal að lágmarki standa í fimm ár.
- Ef samskráningu er slitið er ekki heimilt að fallast á slíka skráningu að nýju fyrr en að liðnum fimm árum frá því að fyrri samskráningu var slitið.
Umsókn um samskráningu og gögn með umsókn
- Beiðni um samskráningu skal senda í til Skattsins eigi síðar en átta dögum fyrir upphaf fyrsta reikningsárs sem samskráningu er ætlað að taka til.
- Breytingar á forsendum samskráningar, svo sem breytt eignarhald, skal tilkynna eigi síðar en átta dögum eftir að breyting á sér stað.
- Gögn sem staðfesta að eignarhald móðurfélags sé a.m.k. 90% á dótturfélagi/dótturfélögum.
- Staðfestingu á að öll félögin hafi sama reikningsár.
- Dótturfélög þurfa að vera á virðisaukaskattsskrá, sé dótturfélagið ekki þegar á virðisaukaskattsskrá þarf að senda inn RSK 5.02.
Athugið að með samskráningu falla á móðurfélagið allar skyldur varðandi uppgjör, skil og álagningu virðisaukaskatts vegna allra þeirra félaga sem samskráð eru. Öll bera félögin þó óskipta ábyrgð á greiðslu virðisaukaskatts á grundvelli samskráningarinnar.
Slit á samskráningu
Samskráning þarf að hafa staðið í a.m.k. 5 ár til þess að hægt sé að slíta samskráningu.
Umsókn um skráningu ásamt upplýsingum og gögnum skal senda á netfangið skatturinn@skatturinn.is.
Afturvirk skráning
Í ákveðnum tilvikum má fallast á afturvirka skráningu. Hafi aðila t.d. verið synjað um skráningu en síðar kemur í ljós að hann uppfyllir skilyrði skráningar eða leggur fram tryggingu. Í slíkum tilvikum er ríkisskattstjóra heimilt að skrá aðila afturvirkt til þess dags sem telja verður upphafsdag rekstrar.
Áður en hægt er að fallast á afturvirka skráningu þarf að skila virðisaukaskattsskýrslum vegna þeirra tímabila ársins sem fallin eru í gjalddaga ásamt hreyfingarlistum innskatts fyrir öll tímabilin. Ekki er opið fyrir rafræn skil aftur í tímann vegna afturvirkrar skráningar og því þarf að senda skýrslurnar á pappírsforminu RSK 10.01.
Gjaldþrot - þrotabú
Afskráning af VSK-skrá vegna gjaldþrots
Skiptastjóra ber að tilkynna ríkisskattstjóra sérstaklega ef skráður aðili er tekinn til gjaldþrotaskipta eigi síðar en átta dögum eftir að bú aðila er tekið til gjaldþrotaskipta. Í tilkynningu þarf að koma fram:
- Dagsetning gjaldþrotaúrskurðar
- Nafn skiptastjóra
Úrskurður um gjaldþrot þarf að fylgja með tilkynningunni ásamt skipan skiptastjóra komi það ekki fram í úrskurðinum.
Senda skal ofangreind gögn í tölvupósti á skatturinn@skatturinn.is.
Skráning þrotabúa á VSK-skrá
Skipaður skiptastjóri búsins skal tilkynna um VSK-skylda starfsemi þrotabúsins séu eignir svo sem birgðir, aðrir rekstrarfjármunir eða önnur verðmæti í þrotabúinu, sem stendur til að selja úr búinu eða ef leiðréttingarskylda er fyrir hendi á þegar fengnum innskatti. Gögn og upplýsingar sem þurfa að fylgja:
- RSK 5.02, útfyllt og undirritað
- Dagsetning gjaldþrotaúrskurðar
- Nafn skiptastjóra
- Gjaldþrotaúrskurður
Þrotabú er skráningarskylt þótt starfsemi þess felist aðeins í sölu eða ráðstöfun eigna, auk hinna eiginlegu gjaldþrotaskipta. Við skráningu þrotabús á virðisaukaskattsskrá er númer hins gjaldþrota aðila afskráð en þrotabúið fær úthlutað nýju VSK-númeri á kennitölu hins gjaldþrota aðila. Ef kröfur eru greiddar eða tryggðar að fullu og þrotamaður fær bú sitt afhent að nýju er hægt að óska eftir endurskráningu á VSK-skrá á fyrra skráningar númeri sé gjaldþrot dregið til baka. Þannig getur þrotamaður haldið áfram starfsemi sinni með sama VSK-númer, fái hann umráð yfir búi sínu að nýju.
Ef einstaklingur heldur áfram starfsemi, þrátt fyrir gjaldþrotið, er um nýja starfsemi að ræða í skilningi laganna og er aðila skylt að tilkynna starfsemi sína á nýjan leik til skráningar.
Hafi hinn gjaldþrota aðili eingöngu haft með höndum starfsemi sem undanþegin er virðisaukaskatti er þrotabúið undanþegið skráningarskyldu og gildir það einnig um þá sem sérstaklega eru undanþegnir skráningarskyldu skv. lögum um virðisaukaskatt.
Ofangreind gögn og afrit af undirrituðu eyðublaði skal senda á netfangið skatturinn@skatturinn.is.
Góðgerðarstarfsemi
Góðgerðarstarfsemi er undanþegin virðisaukaskatti, enda renni hagnaður af henni að öllu leyti til lögaðila sem er með skráningu á almannaheillaskrá hjá Skattinum.
Skilyrði undanþágunnar eru einnig að starfsemin sé á ábyrgð og fjárhagslegri áhættu aðila sem hefur með höndum góðgerðarstarfsemi og að hann hafi fengið staðfestingu Skattsins um að framangreind skilyrði séu uppfyllt.
Umsókn um undanþágu má senda á netfangið skatturinn@skatturinn.is.
Undanþága samkvæmt þessari málsgrein tekur eingöngu til eftirtalinnar starfsemi:
- Basarsölu, merkjasölu og annarrar hliðstæðrar sölu, þ.m.t. sölu í netverslun, enda vari starfsemin ekki lengur en í 5 daga í hverjum mánuði eða í 25 daga sé um árlegan atburð að ræða.
- Söfnunar og sölu verðlítilla notaðra muna, enda sé einungis selt til skattskyldra aðila.
- Sölu nytjamarkaða á notuðum munum sem seljandi hefur fengið afhenta án endurgjalds.
- Sölu listaverka, enda falli listaverkin undir tollskrárnúmer 9701.1000–9703.0000.
Eftirtalin starfsemi telst til almannaheilla:
- Mannúðar- og líknarstarfsemi
- Æskulýðs- og menningarmálastarfsemi
- Starfsemi björgunarsveita, landssamtaka björgunarsveita og slysavarnadeilda og einstakra félagseininga sem starfa undir merkjum samtakanna
- Vísindaleg rannsóknarstarfsemi
- Starfsemi sjálfstæðra háskólasjóða og annarra menntasjóða
- Neytenda- og forvarnastarfsemi
- Starfsemi þjóðkirkjunnar, þjóðkirkjusafnaða og annarra skráðra trú- og lífsskoðunarfélaga
Umboðsmaður erlendra aðila
Umboðsmenn sem eru í fyrirsvari fyrir erlenda aðila sem stunda virðisaukaskattskylda starfsemi geta sótt um skráningu á virðisaukaskattsskrá með eyðublaðinu RSK 5.02. Umboðsmaður er ábyrgur fyrir því að skila virðisaukaskattsskýrslum og standa skil á innheimtum virðisaukaskatti í ríkissjóð fyrir erlenda aðilann sem hann er umboðsmaður fyrir.
Eyðublaði RSK 5.02 skal senda undirritað af erlenda aðilanum og umboðsmanni eða fyrirsvarsmanni hans á netfangið skatturinn@skatturinn.is.
Einföld skráning (VOES)
VOES stendur fyrir „Value Added Tax on Electronic Services“ eða virðisaukaskattur á rafrænt afhenta þjónustu.
Á við um erlend atvinnufyrirtæki með heimilisfesti eða fasta starfstöð erlendis sem selja þjónustu sem veitt er rafrænt.
Einföld skráning (VOES) er sértæk skráning sem gildir um viðskipti um rafrænt afhenta þjónustu frá seljanda til endanlegs neytanda (B2C). Tilgangurinn er að ná til seljanda sem hafa lítil eða engin afskipti að sölunni heldur fer salan fram að miklu leyti sjálfvirkt í gegnum stafræn sölutorg.
Félög í einfaldri skráningu eru alltaf í tveggja mánaða skilum á virðisaukaskatti.
Takmarkanir:
- Félög skráð í einfaldri skráningu er ekki heimilt að færa virðisaukaskatt af aðföngum sínum til innskatts.
- Ekki er heimilt að telja virðisaukaskatt af reikningum útgefnum af VOES aðilum til innskatts, þar sem félag með VOES skráningu á einungis að leggja virðisaukaskatt á sölu til endanlegs neytanda en ekki til fyrirtækja í atvinnurekstri.
- Félög eiga ekki rétt á einfaldri skráningu ef þau eru með fasta starfsstöð á Íslandi
Hvar er sótt um?
Fara þarf inn á vefinn voes.rsk.is til að óska eftir einfaldri skráningu (VOES).
Leiðbeiningar - umsókn um einfalda skráningu (VOES)
Á vefnum voes.rsk.is þarf að smella á hnappinn: „Apply for registration“.
Á næstu opnunarmynd er tölvupóstfang skráð inn.
Í kjölfarið berst í tölvupósti linkur sem leiðir umsækjanda á umsóknarsíðu.
Í skráningarmyndinni þarf að skrá inn eftirfarandi atriði:
- Nafn félagsins
- Tiltaka ef félag gengur undir öðru nafni (e. Trading name)
- Heimilisfang
- Póstnúmer
- Borg/bær
- Sýsla/svæði
- Land
- Tegund starfsemi
- Nafn tengiliðar
- Tölvupóstfang
- Vefslóð
- TIN númer (Tax Identification number)
Haka þarf við starfsemi:
- Rafrænt afhent þjónusta
- Erlend ferðaskrifstofa
- Áskrift af dagblöðum eða tímaritum á pappírsformi til neytanda á Íslandi
Ennfremur þarf að skrá:
- Frekari upplýsingar um virðisaukaskattskylda starfsemi á Íslandi
- Upphafsdagsetning virðisaukaskattskyldrar starfsemi á Íslandi
- Áætluð sala næstu 12 mánuðum starfsemi
Viðhengi
- Í umsókn þarf að fylgja með fyrirtækjavottorð um skráningu félagsins í sínu upprunalandi
- Önnur gögn ef við á, t.d. ef félag hefur breytt um nafn en skráningarvottorð félagsins sýnir eldra nafn
Því næst er smellt á senda umsókn. Í kjölfarið kemur tölvupóstur að umsókn sé móttekin. Staðfesting á skráningu er send á sama tölvupóstfang séu öll gögn fullnægjandi.
Skýrslum er skilað í gegnum RSK - Value Added Tax on Electronic Services eða á þjónustuvef Skattsins. Fyrirtækið skráir sig inn með notendanafni og VSK veflykli.
Aðilar undanþegnir skráningarskyldu
Aðilar sem eingöngu selja vöru eða þjónustu sem undanþegin er virðisaukaskatti eru ekki skráningarskyldir.
Slíkur rekstur getur orðið skráningarskyldur ef seldar eru skattskyldar vörur eða þjónusta. Til dæmis ber íþróttafélagi ekki að skrá sig vegna íþróttastarfsemi sinnar, en það gæti orðið skráningarskylt vegna auglýsingasölu eða sælgætissölu.
Starfsemi undanþegin virðisaukaskatti
- Heilbrigðiþjónusta
- Félagsleg þjónusta
- Skólar og menntastofnanir
- Menningarstarfsemi
- Íþróttastarfsemi
- Almenningssamgöngur
- Póstþjónusta
- Fasteignaleiga
- Fjármála- og tryggingastarfsemi
- Happdrætti og getraunastarfsemi
- Starfsemi rithöfunda og tónskálda og sambærileg listastarfsemi
- Útfarar- og prestsþjónusta
Velta undir mörkum
Þau sem selja skattskylda vöru eða þjónustu fyrir 2.000.000 kr. eða minna á hverju tólf mánaða tímabili frá því að starfsemin hefst. Aðila ber að skrá sig um leið og tekjur án virðisaukaskatts fara yfir kr. 2.000.000 og er það þá reikningurinn sem fer yfir þá fjárhæð sem á að vera með virðisaukaskatti.
Undanþága
þessi er valkvæð þ.e. aðili sem sér fram á að selja vörur eða þjónustu fyrir
lægri fjárhæð en 2.000.000 kr. á hverju 12 mánaða tímabili er heimilt að skrá
sig á virðisaukaskattsskrá strax og nýta þar með þann virðisaukaskatt sem
leggst á aðföng til starfseminnar, sem innskatt, séu skilyrði til skráningar uppfyllt að öðru
leyti.
Aðili sem skráður er á virðisaukaskattsskrá skal alltaf innheimta
virðisaukaskatt af sölu.
Ítarefni
Leiðbeiningar
Leiðbeiningar um skráningu á virðisaukaskattsskrá
Leiðbeiningar um virðisaukaskatt
Hvar finn ég reglurnar?
Skattskyldir aðilar – 3. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt
Skráningarskylda – 5. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt
Skráningarskylda – reglugerð nr. 515/1996, um skráningu virðisaukaskattsskyldra aðila
Aðilar undanþegnir skráningarskyldu – 4. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt
Afturvirk skráning – 5. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt
Afturvirk skráning – 7. gr. reglugerðar nr. 515/1996, um skráningu virðisaukaskattsskyldra aðila
Frjáls skráning – 6. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt
Frjáls skráning – reglugerð nr. 577/1989, um frjálsa og sérstaka skráningu vegna leigu eða sölu á fasteign
reglugerð um virðisaukaskatt af byggingarstarfsemi, með síðari breytingum
Sérstök skráning – 6. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt
Sérstök skráning – reglugerð nr. 577/1989, um frjálsa og sérstaka skráningu vegna leigu eða sölu á fasteign
Sérstök skráning – reglugerð nr. 576/1989, um virðisaukaskatt af byggingarstarfsemi
Fyrirfram skráning – 4. og 5.gr. reglugerðar nr. 515/1996, um skráningu virðisaukaskattsskyldra aðila
Afskráning - 5. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt
Afskráning – 11. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt
Afskráning – 8. og 9. gr. reglugerðar nr. 515/1996, um skráningu virðisaukaskattsskyldra aðila
Gjaldþrotabú, skráning – 5. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt
Samskráning – 5. gr. a. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt
Skattskyld eigin not – 2. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt
Skattskyld eigin not – reglugerð nr. 562/1989, um virðisaukaskatt af eigin þjónustu og úttekt til eigin nota innan óskattskyldra fyrirtækja og stofnana
Undanþegin starfsemi – 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt
Almennar reglur um innskatt – 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt
Virðisaukaskattsskvöð og leiðréttingarskylda innskatts - Reglugerð um innskatt 192/1993
Skil á virðisaukaskatti - Reglugerð um framtal og skil á virðisaukaskatti nr. 667/1995
Almannaheillafélög – 9. tölulið 4. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003
Innskattur - 15. gr. og 16. gr. laga um virðisaukaskatt
Skráning einfaldri skráningu (VOES) - 5. gr. B. laga um virðisaukaskatt
Eyðublöð
RSK 5.02 - Tilkynningu til launagreiðenda- og virðisaukaskattsskrár
RSK 5.04 - Tilkynningu um lok starfsemi, virðisaukaskattur, gistináttaskattur og/eða staðgreiðsla
RSK 10.01 - Virðisaukaskattsskýrsla