Ákvarðanir ríkisskattstjóra

Ákvörðun 10/2022 um stjórnvaldssekt (uppfært)

7.12.2022

Uppfært 31.3.2023 í samræmi við 3. mgr. 53. gr. pþl. – Sentor ehf. hefur höfðað mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur til ógildingar á ákvörðun þessari. Ákvörðunin verður uppfærð með niðurstöðu málsins þegar hún liggur fyrir.

Þann 2. desember 2022 ákvað ríkisskattstjóri að leggja stjórnvaldssekt á Sentor ehf., kt. 480506-0810, (hér eftir félagið), vegna brots á ákvæðum laga nr. 140/2018, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka (hér eftir pþl.).

Félagið telst hafa brotið gegn eftirfarandi ákvæði laga nr. 140/2018:

  • Hafa ekki framkvæmt aukna áreiðanleikakönnun í samræmi við 2. mgr. 17. gr. pþl. og telst það brot varða við 7. og 11. tölul. 1. mgr. 46. gr. pþl.

Embættið hafði áður lagt fyrir félagið úrbótakröfu þar sem félaginu var gert að bæta aðferðir og verklag við framkvæmd aukinnar áreiðanleikakönnunar. Ákvörðun þessi er tilkomin vegna þess að félagið framkvæmdi ekki aukna áreiðanleikakönnun í samræmi við kröfur sem gerðar eru í lögum nr. 140/2018 og vegna þess að úrbótakröfu sem embættið lagði fyrir félagið telst ekki fullnægt.

Með ákvörðun þessari hefur ríkisskattstjóri lagt á félagið stjórnvaldssekt að fjárhæð 1.500.000 kr.

Málavextir

Með bréfi ríkisskattstjóra, dags. 7. janúar 2022, var lagt fyrir félagið að framkvæma úrbætur á verkferlum félagsins með því að framkvæma áreiðanleikakönnun á viðskiptamönnum sem fullnægja skilyrðum 8. gr. pþl. í samræmi við 10. gr. pþl., afla fullnægjandi upplýsinga um raunverulega eigendur í öllum tilvikum þar sem það á við, sbr. e-lið 1. mgr. 10. gr. pþl., framkvæma könnun í öllum tilvikum á því hvort viðskiptamenn hafi stjórnmálaleg tengsl, sbr. 17. gr. pþl. og með því að framkvæma aukna áreiðanleikakönnun í samræmi við ákvæði laganna í þeim tilvikum sem það á við, sbr. 13. gr. pþl. Einnig var lagt fyrir félagið að kanna við upphaf viðskiptasambands hvort viðskiptamenn sæti alþjóðlegum þvingunaraðgerðum, sbr. 3. mgr. 7. gr. laga nr. 64/2019, um frystingu fjármuna og skráningu aðila á lista yfir þvingunaraðgerðir í tengslum við fjármögnun hryðjuverka og útbreiðslu gereyðingarvopna (hér eftir frystingarlög). Tiltekið var enn fremur að ríkisskattstjóri myndi beita stjórnvaldssekt í samræmi við ákvæði 46. gr. pþl. yrði aðili ekki við úrbótakröfu embættisins innan tilskilins frests.

Ríkisskattstjóri gerði úttekt á úrbótakröfu embættisins á starfsstöð félagsins, dags. 13. júní 2022. Við framkvæmd úttektarinnar varð m.a. ljóst að félagið hafi að mestu leyti gert fullnægjandi úrbætur á framkvæmd áreiðanleikakannana á viðskiptamönnum. Rakning eignarhalds lögaðila taldist fullnægjandi. Athugasemdir voru gerðar við könnun og skjölun á stjórnmálalegum tengslum og könnun á alþjóðlegum þvingunaraðgerðum. Í einu tilviki var viðskiptamaður skráður með stjórnmálaleg tengsl en aukin áreiðanleikakönnun var ekki framkvæmd í samræmi við 17. gr. pþl. Við lok úttektarinnar var samantekt á henni kynnt fyrirsvarsmönnum félagsins, sem ábyrgðarmaður peningaþvættis hjá félaginu skrifaði undir.

Með bréfi embættisins, dags. 4. júlí 2022, tilkynnti ríkisskattstjóri að embættið hefði í hyggju að leggja á félagið stjórnvaldssekt í ljósi þess að félagið hafði ekki fullnægt skilyrðum úrbótakröfunnar. Gerðar voru athugasemdir við almenna framkvæmd áreiðanleikakönnunar en einnig voru gerðar athugasemdir við eftirlit félagsins með viðskiptamönnum með stjórnmálaleg tengsl, framkvæmd aukinnar áreiðanleikakönnunar hjá viðskiptamönnum sem og uppflettingar viðskiptamanna á alþjóðlegum þvingunarlistum. Hafi því verið um að ræða ítrekað brot.

Í andmælum félagsins við fyrirhugaða beitingu stjórnvaldssektar komu fram andmæli við því að félagið hafi ekki skjalað athugun sína um stjórnmálaleg tengsl viðskiptamanns og að skjölun á framkvæmd aukinnar áreiðanleikakönnunar hafi verið ábótavant. Þá komu fram andmæli við því að ekki hafi legið fyrir staðfest athugun á því hvort aðili sem sagður var erlendur viðskiptamaður væri á alþjóðlegum þvingunarlistum.

Með bréfi ríkisskattstjóra, dags. 3. október 2022, féllst embættið á hluta af andmælum félagsins er varðaði fyrirhugaða beitingu stjórnvaldssektar vegna framkvæmdar áreiðanleikakönnunar á erlendum viðskiptamanni félagsins. Embættið tilkynnti félaginu á ný um fyrirhugaða beitingu stjórnvaldssektar vegna framkvæmdar aukinnar áreiðanleikakönnunar og lækkaði fjárhæð fyrirhugaðrar stjórnvaldssektar í ljósi þeirra andmæla félagsins sem tekin voru til greina.

Í andmælum félagsins við bréfi ríkisskattstjóra ítrekaði það fyrri málatilbúnað sinn við athugasemdir embættisins um að félagið hafi ekki skjalað athugun sína um stjórnmálaleg tengsl viðskiptamanns og að skjölun á framkvæmd aukinnar áreiðanleikakönnunar hafi verið ábótavant. Félagið gerði kröfu um að fallið yrði frá fyrirhugaðri beitingu stjórnvaldssektar.

Ákvörðun ríkisskattstjóra

Við úttekt á úrbótakröfu ríkisskattstjóra kom í ljós tilvik þar sem viðskiptamaður sem telst til nánustu fjölskyldu einstaklings í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla hafði svarað því játandi að hafa stjórnmálaleg tengsl á eyðublaði fyrir áreiðanleikakönnun. Í því sambandi vísast til 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. pþl. en þar kemur m.a. fram að fulltrúar í stjórn, framkvæmdastjórn eða eftirlitsstjórn fyrirtækja í eigu ríkis teljist háttsettir einstaklingar í opinberri þjónustu og þá kemur þar jafnframt fram að börn teljist til nánustu fjölskyldu umræddra einstaklinga. Aukin áreiðanleikakönnun var þó ekki framkvæmd á umræddum viðskiptamanni í samræmi við 2. mgr. 17. gr. pþl. Ekki var skjalfest hvaða yfirmaður félagsins hafi samþykkt að stofnað væri til viðskiptasambandsins og ekki var gerð könnun á uppruna fjár, sbr. a- og b-lið 2. mgr. 17. gr. pþl. Þá voru engar upplýsingar skráðar um það á grundvelli hvaða gagna könnun á uppruna fjár hafði verið gerð.

Embættinu þótti ekki tilefni til að falla frá fyrirhugaðri beitingu stjórnvaldssektar vegna brota á 7. og 11. tölul. 1. mgr. 46. gr. pþl.

Athygli félagsins var vakin á heimild til sáttargerðar í málinu skv. 1. mgr. 47. gr. pþl., sbr. reglur ríkisskattstjóra nr. 1132/2020, dags. 20. nóvember 2020, um sáttagerðir samkvæmt lögum nr. 140/2018, sem birtust í B-deild Stjórnartíðinda dags. 23. nóvember 2020. Félagið óskaði ekki eftir því að gera sátt.

Sektarfjárhæð

Ríkisskattstjóri getur lagt stjórnvaldssektir á eftirlitsskylda aðila sé brotið gegn þeim ákvæðum sem tilgreind eru í 1. mgr. 46. gr. pþl. Stjórnvaldssektir á hendur aðilum sem falla undir i–u-liði 1. mgr. 2. gr. pþl., geta numið frá 500.000 krónum til 500.000.000 króna, sbr. 5. mgr. 46. gr. pþl. Við ákvörðun um fjárhæð stjórnvaldssekta skal taka tillit til sjónarmiða sem fram koma í 44. gr. a. pþl.

Í samræmi við 44. gr. a. pþl. var við mat á fjárhæð sektar litið til málavaxta og ítrekunaráhrifa brots frá því sem inntak úrbótakröfu ríkisskattstjóra laut að, eða nánar tiltekið vegna eftirlits félagsins með viðskiptamönnum með stjórnmálaleg tengsl og framkvæmd aukinnar áreiðanleikakönnunar hjá viðskiptamönnum sem sannanlega hafa slík tengsl.

Með ákvörðun ríkisskattstjóra er Sentor ehf. gert að greiða stjórnvaldssekt að fjárhæð 1.500.000 kr.

Með vísan til 53. gr. pþl. og reglna ríkisskattstjóra nr. 1131/2020, um opinbera birtingu stjórnsýsluviðurlaga samkvæmt lögum nr. 140/2018, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, er meginreglan sú að birta skuli opinberlega stjórnsýsluviðurlög.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum