Ákvörðun 3/2024 um stjórnvaldssekt og niðurfellingu sáttar
Þann 4. júlí 2024 ákvað ríkisskattstjóri að leggja stjórnvaldssekt á Fold uppboðshús ehf., kt. 431199-2629 (hér eftir félagið), vegna brota gegn ákvæðum laga nr. 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka (hér eftir oftast pþl.) og laga nr. 68/2023 um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða og frystingu fjármuna (hér eftir oftast þfl.). Með ákvörðuninni er einnig felld úr gildi sáttargerð á milli ríkisskattstjóra og félagsins, dags. 2. september 2022, sbr. ákvörðun ríkisskattstjóra nr. 9/2022.
Með sáttargerð aðila viðurkenndi félagið að hafa brotið gegn ákvæðum laga nr. 140/2018 og samþykkti að greiða stjórnvaldssekt að fjárhæð 250.000 kr. Samhliða sáttargerð aðila lagði ríkisskattstjóri fyrir félagið að gera nánar tilgreindar úrbætur með úrbótakörfu sem var ófrávíkjanlegur hluti sáttargerðar.
Ákvörðun ríkisskattstjóra er tilkomin vegna þess að félagið hefur ekki starfað í samræmi við ákvæði laganna og framkvæmdi ekki fullnægjandi úrbætur í samræmi við úrbótakröfu embættisins. Félagið uppfyllti því ekki skilyrði sáttargerðar þess við ríkisskattstjóra. Ákvörðun ríkisskattstjóra tekur bæði til brota sem fjallað var um í sátt ríkisskattstjóra og félagsins og brota sem embættið varð áskynja um við úttekt ríkisskattstjóra á úrbótakröfu félagsins.
Félagið telst hafa brotið gegn 3., 4., 7., 11., 16., og 20. tölul. 1. mgr. 46. gr. pþl. og 2. tölul. 1. mgr. 30. gr. þfl. með því að:
- Hafa ekki framkvæmt áreiðanleikakönnun í öllum tilvikum í samræmi við 8. og 10. gr. pþl., sem teljast brot gegn 3. og 4. tölul. 1. mgr. 46. gr. pþl.
- Áreiðanleikakannanir á viðskiptamönnum voru ekki framkvæmdar í samræmi við 10. gr. pþl., sem telst brot gegn 4. tölul. 1. mgr. 46. gr. pþl.
- Hafa ekki sannað deili á viðskiptamönnum í samræmi við a-lið 1. mgr. 10. gr. pþl., sem telst brot gegn 4. tölul. 1. mgr. 46. gr. pþl.
- Fullnægjandi upplýsinga um raunverulegan eiganda var ekki aflað í samræmi við 1. mgr. 10. gr. pþl., sem telst brot gegn 4. tölul. 1. mgr. 46. gr. pþl.
- Ekki var framkvæmd athugun á því hvort viðskiptamaður hafi stjórnmálaleg tengsl samkvæmt 1. mgr. 17. gr. pþl., sem telst brot gegn 11. tölul. 1. mgr. 46. gr. pþl.
- Aukin áreiðanleikakönnun var ekki framkvæmd á viðskiptamanni í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla í samræmi við 13. gr. og 17. gr. pþl., sem telst brot gegn 7. og 11. tölul. 1. mgr. 46. gr. pþl.
- Afrit af gögnum og upplýsingum vegna áreiðanleikakannana voru ekki varðveitt í samræmi við a-lið 1. mgr. 28. gr. pþl., sem telst brot gegn 16. tölul. 1. mgr. 46. gr. pþl.
- Hafa ekki innleitt stefnur, reglur og verkferla sem stuðla að samræmdum starfsaðferðum og góðri framkvæmd laganna í samræmi við 3. mgr. 34. gr. pþl., sem telst brot gegn 20. tölul. 1. mgr. 46. gr. pþl.
- Ekki var framkvæmd skimun á því hvort viðskiptamenn sæti alþjóðlegum þvingunaraðgerðum, sbr. 2. og 3. mgr. 13. gr. þfl., sem telst brot gegn 2. tölul. 1. mgr. 30. gr. þfl., sbr. áður 2. og 3. mgr. 7. gr. laga nr. 64/2019, sem taldist brot gegn 2. tölul. 1. mgr. 20. gr. sömu laga.
Með ákvörðun embættisins hefur ríkisskattstjóri lagt á félagið stjórnvaldssekt að fjárhæð 1.850.000 kr.
Málavextir, málsástæður og lagarök
Samkvæmt p-lið 1. mgr. 2. gr. pþl. falla listmunasalar eða listmunamiðlarar, þar á meðal listmunagallerí og uppboðshús, þegar um er að ræða viðskipti í einni greiðslu eða fleiri sem virðast tengjast hver annarri, að fjárhæð 10.000 evrur eða meira miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni, undir gildissvið laganna og telst vera tilkynningarskyldur aðili í skilningi þeirra. Samkvæmt 11. tölul. 1. mgr. 3. gr. þfl. er tilkynningarskyldur aðili samkvæmt lögunum skilgreindur sem aðili sem fellur undir 2. gr. pþl.
Ríkisskattstjóri hefur eftirlit með því að tilkynningarskyldir aðilar sem falla undir l–u-liði 1. mgr. 2. gr. pþl. fari að ákvæðum laganna og reglum og reglugerðum settum á grundvelli þeirra, sbr. 2. mgr. 38. gr. pþl. Þá hefur ríkisskattstjóri eftirlit með því að sömu tilkynningarskyldir aðilar fari að ákvæðum 10. og 13. gr. þfl., sbr. 2. mgr. 26. gr. þfl.
Aðdragandi ákvörðunar þessarar er að eftir vettvangsathugun á starfsstöð félagsins var því tilkynnt að embættið hygðist leggja á félagið stjórnvaldssekt að fjárhæð 500.000 kr. vegna brota gegn ákvæðum laga nr. 140/2018. Í framhaldi þess var með ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 2. september 2022, gerð sátt á milli ríkisskattstjóra og félagsins, sbr. ákvörðun embættisins nr. 9/2022. Í sáttinni fólst að félagið viðurkenndi að hafa brotið gegn eftirfarandi lagaákvæðum með því að:
- Hafa ekki framkvæmt áreiðanleikakönnun í öllum tilvikum í samræmi við 8. og 10. gr. pþl. og töldust þau brot varða við 3. tl. 1. mgr. 46. gr. pþl.
- Hafa ekki aflað upplýsinga um raunverulegan eiganda í öllum tilvikum í samræmi við e-lið 1. mgr. 10. gr. pþl. og töldust þau brot varða við 4. tl. 1. mgr. 46. gr. pþl.
- Hafa ekki sannað deili á viðskiptamönnum í samræmi við a-lið 1. mgr. 10. gr. pþl. og töldust þau brot varða við 4. tl. 1. mgr. 46. gr. pþl.
- Hafa ekki framkvæmt athugun á stjórnmálalegum tengslum í samræmi við 1. mgr. 17. gr. pþl. og töldust þau brot varða við 7. og 11. tl. 1. mgr. 46. gr. pþl.
Með sáttargerðinni samþykkti félagið að greiða stjórnvaldssekt að fjárhæð 250.000 kr., þ.e. sem nam 50% af fyrirhugaðri sektarfjárhæð sem félaginu hafði verið tilkynnt um.
Samhliða sáttgerðinni lagði ríkisskattstjóri fyrir félagið úrbótakröfu á grundvelli 1. mgr. 44. gr. pþl. og 1. mgr. 18. gr. þágildandi laga nr. 64/2019. Úrbótakrafan taldist vera ófrávíkjanlegur hluti af sáttargerðinni og ef ekki væru framkvæmdar fullnægjandi úrbætur teldist það brot gegn sáttargerðinni, sbr. 1. mgr. 5. gr. reglna ríkisskattstjóra nr. 1132/2020, um sáttagerðir samkvæmt lögum nr. 140/2018. Í úrbótakröfunni kom fram að ríkisskattstjóri færi fram á að félagið færi að ákvæðum laganna. Lagt var fyrir félagið að framkvæma áreiðanleikakönnun á núverandi og nýjum viðskiptasamböndum sem falla undir gildissvið laga nr. 140/2018 með fullnægjandi hætti í samræmi við ákvæði 8. og 10. gr. pþl. Þá var lagt fyrir félagið að kanna stjórnmálaleg tengsl og framkvæma aukna áreiðanleikakönnun þegar það ætti við í samræmi við ákvæði 13. – 17. gr. pþl. Að lokum var lagt fyrir félagið að útbúa og starfa í samræmi við skriflegan verkferil, sbr. 1. og 3. mgr. 7. gr. þágildandi laga nr. 64/2019. Þá kom fram að ef fullnægjandi úrbætur væru ekki gerðar innan tilgreinds frests myndi ríkisskattstjóri beita auknum viðurlögum í samræmi við ákvæði laga nr. 140/2018 og þágildandi laga nr. 64/2019.
Við úttekt ríkisskattstjóra varð ekki annað séð en að félagið hafði ekki framkvæmt fullnægjandi úrbætur í samræmi við úrbótakröfu embættisins. Félagið hafði ekki framkvæmt áreiðanleikakannanir á viðskiptamönnum sínum með fullnægjandi hætti í samræmi við ákvæði laga nr. 140/2018, þá sérstaklega hvað varðar könnun með sjálfstæðum hætti á því hvort viðskiptamenn félagsins hefðu stjórnmálaleg tengsl, öflun aukinna upplýsinga og gæði upplýsinga þegar viðskiptamaður reyndist hafa slík tengsl. Þá væri verklag félagsins og framkvæmd við könnun á því hvort viðskiptamenn og raunverulegir eigendur sæti alþjóðlegum þvingunaraðgerðum ófullnægjandi sem og verklag um hvaða aðgerða skyldi gripið til reyndist viðskiptamaður eða raunverulegir eigendur sæta þvingunaraðgerðum.
Með bréfi ríkisskattstjóra var félaginu tilkynnt að ekki yrði annað séð en að félagið hefði ekki framkvæmt fullnægjandi úrbætur í samræmi við úrbótakröfu þess og því ekki uppfyllt skilyrði sáttargerðar félagsins við ríkisskattstjóra, sbr. ákvörðun embættisins nr. 9/2022. Ríkisskattstjóri hygðist því fella niður sáttargerð embættisins við félagið og leggja á það stjórnvaldssekt, að fjárhæð 1.850.000 kr., vegna þeirra brota félagsins sem fjallað var um í sáttargerð og vegna þeirra brota sem embættið varð áskynja um við úttekt á úrbótakröfu félagsins.
Í andmælum félagsins við fyrirhugaðri beitingu stjórnvaldssektar var farið yfir framkvæmd félagsins á áreiðanleikakönnunum í þeim tilvikum sem ríkisskattstjóri gerði athugasemdir og fjallað um leiðbeiningarskyldu sem hvílir á Skattinum sem stjórnvald. Helstu andmæli félagsins að mati ríkisskattstjóra voru:
- Varðandi viðskiptamann í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla kom fram að í ljósi starfs viðkomandi hafi félaginu þótt frekari áreiðanleikakönnun óþörf.
- Varðandi áreiðanleikakönnun þar sem viðskiptamaður hafði sjálfur svarað spurningu neitandi hvort viðkomandi væri í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla kom fram að félagið hafi ekki þótt ástæða til að draga það í efa og var því ekki kannað frekar.
- Varðandi viðskiptamann þar sem viðkomandi hafði ekki verið skimaður gagnvart þvingunarlistum kom fram að ekki hafi þótt tilefni til þess að kanna hvort viðskiptamaður sætti alþjóðlegum þvingunaraðgerðum þar sem ríkisföng aðilans væru ekki lönd sem teldust áhættusöm ríki. Þá kom fram að nú væri búið að fletta viðkomandi upp sem leiddi í ljós að viðskiptamaðurinn sætti ekki þvingunaraðgerðum.
- Varðandi könnun á raunverulegum eiganda í tilviki lögaðila kom fram að reynt hefði verið að afla upplýsinga um hinn eiganda félagsins en ekki fundist aðrar upplýsingar en nafn hans. Þar af leiðandi hefði félagið ekki getað beint áreiðanleikakönnun að honum.
- Varðandi leiðbeiningarskyldu var talið að ríkisskattstjóri hefði ekki uppfyllt skyldur sínar sem ætti að leiða til þess að fella bæri niður fyrirhugaða niðurfellingu sáttargerðar og fella niður beitingu stjórnvaldssektar.
Ákvörðun ríkisskattstjóra
Ríkisskattstjóri getur lagt stjórnvaldssektir á eftirlitsskylda aðila sé brotið gegn þeim ákvæðum sem tilgreind eru í 1. mgr. 46. gr. pþl. og 1. mgr. 30. gr. þfl. Stjórnvaldssektir á hendur aðilum sem falla undir i–u-liði 1. mgr. 2. gr. pþl., geta numið frá 500.000 krónum til 500.000.000 króna, sbr. 5. mgr. 46. gr. pþl. og 5. mgr. 30. gr. þfl. Við ákvörðun um tegund og umfang viðurlaga samkvæmt XII. kafla pþl., þ.m.t. fjárhæð stjórnvaldssekta, skal taka tillit til sjónarmiða sem fram koma í a–i-liðum 1. mgr. 44. gr. a pþl., sbr. einnig 2. mgr. 30. gr. þfl.
Við úttekt á úrbótakröfu ríkisskattstjóra kom í ljós að félagið hafði ekki fullnægt skilyrðum úrbótakröfu embættisins með því að hafa ekki framkvæmt áreiðanleikakannanir á viðskiptamönnum sínum með fullnægjandi hætti í samræmi við ákvæði laga nr. 140/2018. Töldust brot félagsins gegn lögunum varða stjórnvaldssekt, sbr. 3., 4., 11., 16., 19. og 20. tölul. 1. mgr. 46. gr. pþl.
Að mati ríkisskattstjóra þóttu framkomin andmæli félagsins ekki gefa tilefni til að falla frá fyrirhugaðri ákvörðun í heild eða að hluta. Félagið hafði ekki framkvæmt fullnægjandi úrbætur innan þess tíma sem leið frá úrbótakröfu embættisins þar til úttekt ríkisskattstjóra á henni fór fram, en hluti þeirra brota sem ríkisskattstjóri varð áskynja um við úttekt úrbótakröfu voru atriði sem félaginu var sérstaklega gert að framkvæma úrbætur á, t.d. framkvæmd aukinnar áreiðanleikakönnunar. Ætlaðar málsbætur félagsins í andmælabréfi þess báru með sér grundvallarmisskilning um að skyldur tilkynningaskyldra aðila samkvæmt lögunum ættu aðeins við þegar eitthvað í fari viðskiptanna eða viðskiptamannsins gæfi sérstaklega tilefni til að ætla að hætta sé á peningaþvætti, fjármögnun hryðjuverka eða að þörf væri á frystingu fjármuna. Tilkynningarskyldum aðilum bæri að afla tilskilinna upplýsinga og gagna vegna sérhverra viðskipta sem falla undir gildissvið laganna, auk þess sem í lögákveðnum tilvikum bæri að uppfylla auknar kröfur og afla frekari gagna, s.s. þegar viðskiptamaður væri í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla. Þá hafnaði ríkisskattstjóri því að annmarkar hefðu verið á leiðbeiningarskyldu embættisins, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Í samræmi við 44. gr. a pþl. og 2. mgr. 30. gr. þfl. leit ríkisskattstjóri til þess við mat á fjárhæð sektar að félagið gerði ekki fullnægjandi úrbætur eftir úrbótakröfu embættisins, sem var ófrávíkjanlegur viðauki með sáttargerð við félagið vegna fyrri brota þess. Þá var litið til þess að ákvörðunin tekur bæði til þeirra brota félagsins sem fjallað var um í sáttargerð ríkisskattstjóra við félagið og þeirra brota sem embættið varð áskynja um við úttekt á úrbótakröfu félagsins. Einnig var litið til þess að þrátt fyrir að félaginu hafði verið veittur rúmur frestur hafði félagið enn ekki lokið við að innleiða viðunandi úrbætur þegar úttekt á úrbótakröfunni fór fram. Þá hefði félagið sýnt samstarfsvilja og veitt ríkisskattstjóra greiðan aðgang að öllum umbeðnum upplýsingum. Auk framangreinds leit ríkisskattstjóri til fjárhagsstöðu félagsins eins og hún birtist í ársreikningum félagsins fyrir árin 2021 og 2022. Að lokum var litið til þess að starfsemi félagsins fellur ekki að öllu leyti undir gildissvið laganna vegna fjárhæðarmarka sem mælt er fyrir um í p-lið 1. mgr. 2. gr. pþl. og þess að hluti veltu félagsins inniheldur m.a. skilagjald til umbjóðenda.
Með ákvörðun ríkisskattstjóra var sáttargerð ríkisskattstjóra og Fold uppboðshús ehf., dags. 2. september 2022, sbr. ákvörðun embættisins nr. 9/2022, felld úr gildi og Fold uppboðshús ehf. gert að greiða stjórnvaldssekt að fjárhæð 1.850.000 kr.
Samkvæmt 53. gr. pþl., 36. gr. þfl. og reglum ríkisskattstjóra nr. 1131/2020, um opinbera birtingu stjórnsýsluviðurlaga samkvæmt lögum nr. 140/2018, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, er meginreglan sú að birta skuli opinberlega stjórnsýsluviðurlög sem ákveðin eru í samræmi við 46.–47. og 50.–51. gr. pþl. og 30. og 31. gr. þfl.