Ákvarðanir ríkisskattstjóra

Ákvörðun 9/2024 um niðurfellingu sáttagerðar og beitingu stjórnvaldssektar

19.12.2024

Þann 4. desember 2024 ákvað ríkisskattstjóri að leggja stjórnvaldssekt á Kasa fasteignir ehf. (hér eftir félagið), kt. 5008061330, vegna brota gegn ákvæðum laga nr. 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka (hér eftir oftast pþl.). Með ákvörðuninni var einnig felld úr gildi sáttargerð á milli ríkisskattstjóra og félagsins, dags. 23. janúar 2023, sbr. ákvörðun ríkisskattstjóra nr. 1/2023.

Með sáttargerð aðila viðurkenndi félagið að hafa brotið gegn ákvæðum laga nr. 140/2018 og samþykkti að greiða stjórnvaldssekt að fjárhæð 250.000 kr. Samhliða sáttargerð aðila lagði ríkisskattstjóri fyrir félagið að gera nánar tilgreindar úrbætur með úrbótakörfu sem var ófrávíkjanlegur hluti sáttargerðar.

Ákvörðun ríkisskattstjóra er tilkomin vegna þess að félagið hefur ekki starfað í samræmi við ákvæði laganna og framkvæmdi ekki fullnægjandi úrbætur í samræmi við úrbótakröfu embættisins. Félagið uppfyllti því ekki skilyrði sáttargerðar þess við ríkisskattstjóra. Ákvörðun ríkisskattstjóra tekur bæði til brota sem fjallað var um í sátt ríkisskattstjóra og félagsins og brota sem embættið varð áskynja um við úttekt ríkisskattstjóra á úrbótakröfu félagsins.

Félagið telst hafa brotið gegn 3., 4., 7., 8. og 11. tölul. 1. mgr. 46. gr. pþl. með því að:

  • Hafa ekki framkvæmt áreiðanleikakönnun í öllum tilvikum í samræmi við 8. og 10. gr. pþl., sem taldist brot gegn 3. tölul. 1. mgr. 46. gr. pþl. og var það fyrra brot úr sátt félagsins og ríkisskattstjóra.
  • Ekki var gerð krafa um að viðskiptamaður sannaði á sér deili í samræmi við a-lið 1. mgr. 10. gr. pþl., sem telst brot gegn 4. tölul. 1. mgr. 46. gr. pþl. og var það ítrekað brot úr sátt félagsins og ríkisskattstjóra.
  • Ekki var gerð krafa um að lögaðili sannaði á sér deili í samræmi við b-lið 1. mgr. 10. gr. pþl., sem telst brot gegn 4. tölul. 1. mgr. 46. gr. pþl.
  • Fullnægjandi upplýsinga um raunverulegan eiganda var ekki aflað í samræmi við e-lið 1. mgr. 10. gr. pþl., sem telst brot gegn 4. tölul. 1. mgr. 46. gr. pþl. og var það ítrekað brot úr sátt félagsins og ríkisskattstjóra.
  • Aukin áreiðanleikakönnun var ekki framkvæmd á viðskiptamanni sem tengist áhættusömu eða ósamvinnuþýðu ríki í samræmi við 13. gr. og 14. gr. pþl., sem telst brot gegn 7. og 8. tölul. 1. mgr. 46. gr. pþl.
  • Ekki var framkvæmd fullnægjandi athugun á því hvort viðskiptamaður væri í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla samkvæmt 1. mgr. 17. gr. pþl., sem telst brot gegn 11. tölul. 1. mgr. 46. gr. pþl.
  • Ekki var framkvæmd athugun á því hvort raunverulegur eigandi væri í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla samkvæmt 1. mgr. 17. gr. pþl., sem telst brot gegn 11. tölul. 1. mgr. 46. gr. pþl.
  • Aukin áreiðanleikakönnun var ekki framkvæmd í tilvikum þar sem raunverulegur eigandi sagðist vera í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla í samræmi við 13. gr. og 17. gr. pþl., sem telst brot gegn 7. og 11. tölul. 1. mgr. 46. gr. pþl.

Með ákvörðun embættisins lagði ríkisskattstjóri stjórnvaldssekt á félagið að fjárhæð 1.300.000 kr.

Málavextir, málsástæður og lagarök

Með vísan til n-liðar 1. mgr. 2. gr. pþl. falla fasteignasölur, bifreiðaumboð, fasteigna-, fyrirtækja-, skipa- og bifreiðasalar og fasteignafélög, hvort sem starfsemi snýst um beina leigu eða sölu þessara félaga á fasteignum, undir gildissvið laganna.

Samkvæmt 11. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 68/2023 um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða og frystingu fjármuna er tilkynningarskyldur aðili samkvæmt lögunum skilgreindur sem aðili sem fellur undir 2. gr. pþl.

Ríkisskattstjóri hefur eftirlit með því að tilkynningarskyldir aðilar sem falla undir l–u-liði 1. mgr. 2. gr. pþl. fari að ákvæðum laganna og reglum og reglugerðum settum á grundvelli þeirra, sbr. 2. mgr. 38. gr. pþl. Þá hefur ríkisskattstjóri eftirlit með því að sömu tilkynningarskyldir aðilar fari að ákvæðum 10. og 13. gr. laga nr. 68/2023, sbr. 2. mgr. 26. gr. laganna.

Aðdragandi ákvörðunar ríkisskattstjóra var að eftir vettvangsathugun á starfsstöð félagsins var því tilkynnt að embættið hygðist leggja á félagið stjórnvaldssekt að fjárhæð 500.000 kr. vegna brota gegn ákvæðum laga nr. 140/2018. Í framhaldi þess var með ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 23. janúar 2023, gerð sátt á milli ríkisskattstjóra og félagsins, sbr. ákvörðun embættisins nr. 1/2023. Í sáttinni fólst að félagið viðurkenndi að hafa brotið gegn eftirfarandi lagaákvæðum með því að:

  • Hafa ekki framkvæmt áreiðanleikakönnun í öllum tilvikum í samræmi við 8. og 10. gr. pþl. og töldust þau brot varða við 3. tl. 1. mgr. 46. gr. pþl.
  • Hafa ekki aflað upplýsinga um raunverulegan eiganda í öllum tilvikum í samræmi við e-lið 1. mgr. 10. gr. pþl. og töldust þau brot varða við 4. tl. 1. mgr. 46. gr. pþl.
  • Hafa ekki sannað deili á viðskiptamönnum í samræmi við a-lið 1. mgr. 10. gr. pþl. og töldust þau brot varða við 4. tl. 1. mgr. 46. gr. pþl.

Með sáttargerðinni samþykkti félagið að greiða stjórnvaldssekt að fjárhæð 250.000 kr., þ.e. sem nam 50% af fyrirhugaðri sektarfjárhæð sem félaginu hafði verið tilkynnt um.

Með viðauka við sátt ríkisskattstjóra og félagsins, dags. 23. janúar 2023, setti ríkisskattstjóri fram kröfur um úrbætur af hálfu félagsins. Viðaukinn taldist vera ófrávíkjanlegur hluti af sátt aðila. Fram kom að ríkisskattstjóri færi fram á að félagið færi að ákvæðum laganna. Lagt var fyrir félagið að framkvæma áreiðanleikakönnun á öllum viðskiptamönnum félagsins, þar með talda fyrirsvarsmenn lögaðila, í samræmi við ákvæði 8. og 10. gr. pþl. Að lokum var lagt fyrir félagið að útbúa og starfa í samræmi við skriflegan verkferil, sbr. 1. og 3. mgr. 7. gr. þágildandi laga nr. 64/2019. Þá kom fram að ef fullnægjandi úrbætur væru ekki gerðar innan tilgreinds frests myndi ríkisskattstjóri beita auknum viðurlögum í samræmi við ákvæði laga nr. 140/2018 og þágildandi laga nr. 64/2019.

Úttekt ríkisskattstjóra á úrbótakröfu fór fram með gagnaöflun þar sem ríkisskattstjóri kannaði framkvæmd áreiðanleikakannana af hálfu félagsins í ákveðnum viðskiptum.

Í ákveðnum tilvikum var persónuskilríkja einstaklinga eða vottorðs lögaðila úr fyrirtækjaskrá ekki aflað fyrr en eftir að viðskipti fóru fram og eftir að ríkisskattstjóri hafði tilkynnt félaginu um fyrirhugaða úttekt á úrbótakröfu. Í sumum tilvikum var umræddra gagna aflað sama dag og athugun ríkisskattstjóra fór fram. Áreiðanleikakannanir voru því ekki framkvæmdar og nauðsynlegra gagna var ekki aflað áður en viðskipti áttu sér stað, líkt og skylt er samkvæmt a- og b-lið 1. mgr. 10. gr. pþl. Samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 46. gr. pþl. geta brot gegn 10. gr. pþl. varðað stjórnvaldssekt.

Í öllum tilvikum þar sem áreiðanleikakönnun var framkvæmd á lögaðilum voru ekki til staðar upplýsingar um raunverulega eigendur, en samkvæmt e-lið 1. mgr., 2. og 4. mgr. 10. gr. pþl. skal tilkynningarskyldur aðili gera kröfu um að fyrir liggi fullnægjandi upplýsingar um raunverulegan eiganda og sannreyna þær. Samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 46. gr. pþl. geta brot gegn 10. gr. pþl. varðað stjórnvaldssekt.

Í öllum tilvikum þar sem um var að ræða viðskiptamenn sem tengdust áhættusömu eða ósamvinnuþýðu ríki var aukin áreiðanleikakönnun ekki framkvæmd í samræmi við þær auknu kröfur sem eru gerðar í 13. og 14. gr. pþl., sbr. einnig 4. mgr. 10. gr. laganna. Í umræddum tilvikum var um að ræða viðskiptamenn sem voru ríkisborgarar ríkja sem töldust vera áhættusöm eða ósamvinnuþýð í skilningi 14. gr. pþl. á þeim tíma sem viðskipti fóru fram. Við framkvæmd áreiðanleikakönnunar sýndi kerfið sem félagið notast við samt sem áður að þjóðerni viðkomandi væri íslenskt. Samkvæmt 13. og 14. gr. hvílir á tilkynningarskyldum aðilum fortakslaus skylda til að framkvæma aukna áreiðanleikakönnun þegar tengsl við áhættusöm ríki eru fyrir hendi og ber félagið endanlega ábyrgð á því að koma auga á tilvik þar sem slík tengsl fyrir hendi og framkvæma aukna áreiðanleikakönnun þegar svo ber undir. Ekki varð séð að í umræddum tilvikum hafi félagið uppfyllt þær kröfur sem lagðar eru á tilkynningarskylda aðila samkvæmt 13. gr. og 1. mgr. 14. gr. pþl. Samkvæmt 7. og 8. tölul. 1. mgr. 46. gr. pþl. geta brot gegn 13. og 14. gr. pþl. varðað stjórnvaldssekt.

Í sumum tilvikum var ófullnægjandi könnun á því hvort viðskiptamaður eða raunverulegur eigandi væri í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla. Þar af voru tilvik þar sem könnun fór fram eftir að viðskipti áttu sér og eftir að ríkisskattstjóri hafði tilkynnt félaginu um fyrirhugaða úttekt á úrbótakröfu. Í ákveðnum tilvikum var einungis kannað hvort sá sem kom fram fyrir hönd lögaðila væri í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla og ekki var kannað hvort aðrir raunverulegir eigendur viðkomandi lögaðila væru í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla, en samkvæmt 1. mgr. 17. gr. pþl. skal kanna hvort viðskiptamaður eða raunverulegur eigandi sé í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla. Þá voru dæmi um tilvik þar sem leitað var í erlendum gagnagrunni eftir kennitölum viðkomandi, en ekki varð annað séð en að umræddur gagnagrunnur geti ekki skilað niðurstöðum þegar leitað er eftir íslenskum kennitölum. Að mati ríkisskattstjóra hafði félagið því ekki uppfyllt skyldur sínar samkvæmt 1. mgr. 17. gr. pþl. um að hafa viðeigandi kerfi, ferla og aðferðir til að meta hvort viðskiptamaður eða raunverulegur eigandi sé í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla. Samkvæmt 11. tölul. 1. mgr. 46. gr. pþl. geta brot gegn 17. gr. pþl. varðað stjórnvaldssekt.

Þá voru tilvik þar sem viðskiptamaður sagðist vera í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla. Í þeim tilvikum var aukin áreiðanleikakönnun ekki framkvæmd . Var framkvæmd áreiðanleikakönnunar þar af leiðandi ekki í samræmi við þær auknu kröfur sem eru gerðar í 13. og 17. gr. pþl., sbr. einnig 4. mgr. 10. gr. laganna og 6. og 7. gr. reglugerðar nr. 745/2019 um áreiðanleikakönnun vegna aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Ekki varð séð að gripið hafi verið til viðeigandi ráðstafana til að kanna uppruna auðs viðkomandi og uppruna þeirra fjármuna sem notaðir voru í viðskiptunum, sbr. b-lið 2. mgr. 17. gr. pþl., s.s. með því að óska eftir virðisaukaskattsskýrslum eða ársreikningum, líkt og nefnt er í dæmaskyni um gögn sem nota má til að staðfesta uppruna fjármuna í b-lið 1. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 745/2019. Samkvæmt 7. og 11. tölul. 1. mgr. 46. gr. pþl. geta brot gegn 13. og 17. gr. pþl. varðað stjórnvaldssekt.

Eftir úttekt ríkisskattstjóra á úrbótakröfu félagsins varð ekki annað séð en að félagið hafi ekki framkvæmt fullnægjandi úrbætur í samræmi við úrbótakröfu embættisins. Félagið hafði ekki framkvæmt áreiðanleikakannanir á viðskiptamönnum sínum með fullnægjandi hætti í samræmi við ákvæði peningaþvættislaga, þá sérstaklega hvað varðar framkvæmd áreiðanleikakönnunar áður en viðskipti fara fram, könnun á raunverulegu eignarhaldi og framkvæmd aukinnar áreiðanleikakönnunar þegar viðskiptamaður hefur tengsl við áhættusamt ríki og þegar raunverulegur eigandi var í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla.

Að mati ríkisskattstjóra hafði félagið því ekki uppfyllt skilyrði sáttargerðar félagsins við ríkisskattstjóra, þar sem félagið viðurkenndi að hafa brotið gegn ákvæðum laganna og samþykkti að greiða sekt, sbr. ákvörðun ríkisskattstjóra nr. 1/2023. Í sáttargerðinni kom fram að félagið bryti gegn samkomulaginu ef það greiddi ekki umsamda sektarfjárhæð, lyki ekki úrbótum í samræmi við viðauka við samkomulagið, gaf rangar upplýsingar um málsatvik eða leyndi upplýsingum sem máli skipta. Þá kom fram að yrði félagið uppvíst að því að brjóta gegn samkomulaginu gæti ríkisskattstjóri fellt það úr gildi og tekið málið til meðferðar á ný.

Í samræmi við framangreint tilkynnti ríkisskattstjóri að embættið hygðist fella úr gildi sáttargerð embættisins við félagið og leggja á það stjórnvaldssekt vegna þeirra brota félagsins sem fjallað var um í sáttargerð og vegna þeirra brota sem embættið varð áskynja um við úttekt á úrbótakröfu félagsins.

Að mati ríkisskattstjóra vörðuðu framangreind brot félagsins, og þau brot sem fjallað var um í sáttargerð ríkisskattstjóra og félagsins, stjórnvaldssekt, sbr. 3., 4., 7., 8. og 11. tölul. 1. mgr. 46. gr. pþl.

Félagið andmælti ekki fyrirhugaðri ákvörðun ríkisskattstjóri en óskaði eftir lækkun á sektarfjárhæð með nánar tilteknum rökstuðningi.

Að mati ríkisskattstjóra þóttu framkomnar athugasemdir ekki breyta afstöðu embættisins til málsins eða sektarfjárhæðar. Ríkisskattstjóri hafði metið tegund og umfang viðurlaga að teknu tilliti til atriða sem nefnd eru í a–i-liðum 1. mgr. 44. gr. a. pþl. og að mati embættisins var ekki hægt að fallast á að athugasemdir félagsins ættu að leiða til lækkunar á sektarfjárhæð.

Að mati ríkisskattsstjóra var ljóst að félagið hafði ekki starfað í samræmi við ákvæði laganna og félagið ekki framkvæmt fullnægjandi úrbætur með hliðsjón af úrbótakröfu ríkisskattstjóra. Félagið hafði því ekki uppfyllt skilyrði sáttagerðar þess við ríkisskattstjóra, dags. 23 janúar 2023, sbr. ákvörðun ríkisskattstjóra nr. 1/2023.

Samkvæmt öllu framansögðu ákvað ríkisskattstjóri að fella niður sáttagerð ríkisskattstjóra við félagið og leggja á það stjórnvaldssekt vegna þeirra brota félagsins sem fjallað var um í sáttargerð og vegna þeirra brota sem ríkisskattstjóri varð áskynja um við úttekt á úrbótakröfu félagsins. Að mati ríkisskattstjóra vörðuðu framangreind brot félagsins og þau brot sem fjallað var um í sáttargerð ríkisskattstjóra og félagsins, stjórnvaldssekt, sbr. 3., 4., 7., 8. og 11. tölul. 1. mgr. 46. gr. pþl.

Ákvörðun

Ríkisskattstjóri getur lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn þeim ákvæðum sem tilgreind eru í 1. mgr. 46. gr. pþl. Stjórnvaldssektir á hendur aðilum sem falla undir i–u-liði 1. mgr. 2. gr. pþl., geta numið frá 500.000 krónum til 500.000.000 króna, sbr. 5. mgr. 46. gr. pþl. Við ákvörðun um tegund og umfang viðurlaga samkvæmt XII. kafla pþl., þ.m.t. fjárhæð stjórnvaldssekta, skal taka tillit til sjónarmiða sem fram koma í a–i-liðum 1. mgr. 44. gr. a pþl.

Við mat á fjárhæð sektar leit ríkisskattstjóri til fyrri brota félagsins og þess að einnig væri um ítrekuð brot að ræða, en félagið gerði ekki fullnægjandi úrbætur eftir úrbótakröfu embættisins, sem var ófrávíkjanlegur viðauki með sáttargerð við félagið vegna fyrri brota þess. Þá var litið til þess að ákvörðunin tæki bæði til þeirra brota félagsins sem fjallað var um í sáttargerð ríkisskattstjóra við félagið og þeirra brota sem embættið varð áskynja um við athugun á framkvæmd áreiðanleikakannana af hálfu félagsins vegna úttektar á úrbótakröfu félagsins. Sérstaklega var litið til þess að annmarkar voru á framkvæmd í þeim tilvikum sem lögin mæla fyrir um að framkvæma skal auknar áreiðanleikakannanir, þ.e. bæði í tilvikum viðskiptamanna með tengsl við áhættusöm eða ósamvinnuþýð ríki og raunverulegra eigenda í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla. Að mati ríkisskattstjóra höfðu annmarkar við framkvæmd aukinna áreiðanleikakannana umtalsvert vægi þar sem almennt er um að ræða áhættusamari viðskiptamenn en ella samkvæmt skilgreiningu laga. Af þeim sökum gera lög og reglur auknar kröfur til gæða og umfangs upplýsinga við framkvæmd aukinna áreiðanleikakannana. Einnig var litið til þess að þrátt fyrir að félaginu hafi verið veittur rúmur frestur til að verða við úrbótakröfu ríkisskattstjóra hafði félagið ekki innleitt viðunandi úrbætur þegar úttekt á úrbótakröfunni fór fram. Að lokum leit ríkisskattstjóri til fjárhagsstöðu félagsins eins og hún birtist í ársreikningum félagsins fyrir árin 2022 og 2023.

Með ákvörðun embættisins var sáttagerð ríkisskattstjóra og Kasa fasteignir ehf., dags. 23. janúar 2023, sbr. ákvörðun ríkisskattstjóra nr. 1/2023, felld úr gildi og Kasa Fasteignir ehf. gert að greiða stjórnvaldssekt að fjárhæð 1.300.000 kr.

Samkvæmt 53. gr. pþl., 36. gr. þfl. og reglum ríkisskattstjóra nr. 1131/2020, um opinbera birtingu stjórnsýsluviðurlaga samkvæmt lögum nr. 140/2018, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, er meginreglan sú að birta skuli opinberlega stjórnsýsluviðurlög sem ákveðin eru í samræmi við 46.–47. og 50.–51. gr. pþl. og 30. og 31. gr. þfl. 

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum