2009

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 305/2009

9.12.2009

Úrskurður nr. 305/2009

ÚRSKURÐUR YFIRSKATTANEFNDAR

Ár 2009, miðvikudaginn 9. desember, er tekið fyrir mál nr. 165/2008; krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um að A, kt. [...], verði gerð sekt vegna meintra brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Sverrir Örn Björnsson og Kristinn Gestsson. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi, dags. 20. júní 2008, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A, kt. [...], fyrir brot á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, lögum nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum, framin vegna rekstraráranna 2001, 2002, 2003 og 2004.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

„A er gefið að sök eftirfarandi:

1. Skil á efnislega röngum skattframtölum og fylgigögnum þeirra. Vanframtaldar rekstrartekjur.

A er gefið að sök að hafa, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, staðið skil á efnislega röngum skattframtölum og fylgigögnum þeirra til skattstjórans í Reykjanesumdæmi vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárin 2002, 2003, 2004 og 2005 vegna rekstraráranna 2001, 2002, 2003 og 2004, með því að vanframtelja rekstrartekjur um kr. 1.697.090 vegna rekstrarársins 2001, um kr. 1.536.808 vegna rekstrarársins 2002, kr. 737.475 vegna rekstrarársins 2003 og kr. 840.000 vegna rekstrarársins 2004, sem til eru komnar vegna sjálfstæðrar starfsemi A sem fólst í ræstingum.

Framangreind háttsemi A leiddi til ákvörðunar lægri tekjuskatts- og útsvarsstofna hennar en vera bar gjaldárin 2002, 2003, 2004 og 2005, vegna rekstraráranna 2001, 2002, 2003 og 2004 og þar með til ákvörðunar lægri tekjuskatts og útsvars, svo sem hér segir: 

Reiknaður tekjuskattur og útsvar

 

Rekstrarár

Vanframtalinn tekjuskatts- og útsvarsstofn

 

Tekjuskattur

 

Útsvar

2001 1.613.939 Vanframtaldar rekstrartekjur kr. 1.697.090 – hækkun á tryggingagjaldi skv. úrskurði ríkisskattstjóra kr. 83.151 = 1.613.939

401.876               

1.613.939 * 26,08% = 420.915 – ónýttur persónuafsláttur kr. 19.039 = 401.876

204.970               

1.613.939 * 12,70% = 204.970

2002 1.461.973 Vanframtaldar rekstrartekjur kr. 1.536.808 – hækkun á tryggingagjaldi skv. úrskurði ríkisskattstjóra kr. 74.835 = 1.461.973

376.458               

1.461.973 * 25,75% = 376.458

185.671               

1.461.973 * 12,70% = 185.671

2003

698.301               

Vanframtaldar rekstrartekjur 737.475hækkun á tryggingagjaldiskv. úrskurði ríkisskattstjóra kr. 39.174 = 698.301

179.813               

698.301 * 25,75% = 179.813

88.684  

698.301 * 12,70% = 88.684

2004

795.359               

Vanframtaldar rekstrartekjur 840.000 – hækkun á tryggingagjaldi skv. úrskurði ríkisskattstjóra kr. 44.641 = 795.359

204.805               

795.359 * 25,75% = 204.805

103.635               

795.359 * 13,03% = 103.635

Samtals kr. 4.569.572 1.162.952 582.960

Sú háttsemi A sem lýst hefur verið hér að framan brýtur í bága við ákvæði 90. gr., sbr. B. lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. 

Varðar framanlýst háttsemi A sekt samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga.

Við ákvörðun skattstofna vegna rekstraráranna 2001, 2002, 2003 og 2004 hefur A verið gert að sæta álagningu skatts á álag á vanframtalinn skattstofn samkvæmt 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með áorðnum breytingum, kr. 332.086, er komi til frádráttar við ákvörðun sektarfjárhæðar.

2. Skil á efnislega röngum virðisaukaskattsskýrslum. Vanræksla á skilum á virðisaukaskattsskýrslum. Vanframtalin skattskyld velta og útskattur.

A er gefið að sök að hafa, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, staðið skattyfirvöldum skil á efnislega röngum virðisaukaskattsskýrslum vegna virðisaukaskattsskyldrar starfsemi sinnar, vegna allra uppgjörstímabilanna rekstrarárið 2001 og að hafa vanrækt að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum vegna allra uppgjörstímabila rekstraráranna 2002, 2003 og 2004 og vanframtelja með því skattskylda veltu og virðisaukaskatt (útskatt) vegna sjálfstæðrar starfsemi sinnar við skúringar.

Samkvæmt niðurstöðu skattrannsóknarstjóra ríkisins nemur vanframtalin skattskyld velta samtals kr. 4.811.373 og vanframtalinn útskattur samtals kr. 1.178.795. Sundurliðast vantalin skattskyld velta og virðisaukaskattur (útskattur) svo sem hér greinir: 

 

Rekstrarár

 

Uppgjörstímabil

Vantalin skattskyld velta Vantalinn útskattur
2001 janúar - febrúar 129.000 31.605
2001 mars – apríl 198.000 48.510
2001 maí – júní 252.000 61.740
2001 júlí - ágúst 297.000 72.765
200 sept – okt 347.300 85.090
2001 nóv – des 473.790 116.080
Samtals kr.   1.697.090 415.790
2002 janúar – febrúar 246.076 60.289
2002 mars - apríl 394.300 96.605
2002 maí – júní 347.101 85.041
2002 júlí – ágúst 300.392 73.598
2002 sept – okt 198.000 48.510
2002 nóv – des 50.939 12.481
Samtals kr.   1.536.808 376.524
2003 janúar – febrúar 132.000 32.340
2003 mars - apríl 132.000 32.340
2003 maí – júní 132.000 32.340
2003 júlí – ágúst 209.475 51.321
2003 sept – okt 132.000 32.340
2003 nóv – des 0 0
Samtals kr.   737.475 180.681
2004 janúar – febrúar 140.000 34.300
2004 mars – apríl 140.000 34.300
2004 maí – júní 140.000 34.300
2004 júlí - ágúst 140.000 34.300
2004 september – október 140.000 34.300
2004 nóvember - desember 140.000 34.300
Samtals kr.   840.000 205.800
Samtals öll árin kr. 4.811.373 1.178.795  

Sú háttsemi A sem hér hefur verið lýst brýtur í bága við ákvæði 1. mgr. 5. gr., 1. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 24. gr. sbr. aðalreglur 1. gr., 2. gr., 1. tl. 1. mgr. 3. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. mgr. 13. gr., 1. mgr. 14. gr. og 19. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum. 

Varðar framanlýst háttsemi A sekt samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.

Við endurákvörðun á virðisaukaskatti vegna framangreindra rekstrarára hefur A verið gert að sæta álagi á vangreiddan virðisaukaskatt á grundvelli 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, kr. 117.881, er komi til frádráttar við ákvörðun sektarfjárhæðar.

Þess er krafist að A verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 20. júní 2008, sem fylgdi kröfugerðinni.

II.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 23. júní 2008, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef hún vildi ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál hennar og yrði þá málið endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 2. mgr. 110. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 2. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Engar athugasemdir hafa borist frá gjaldanda.

III.

1. Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 20. júní 2008, er gerð sú krafa að gjaldanda, A, verði gerð sekt samkvæmt þar greindum ákvæðum 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Gjaldandi hefur átt þess kost að koma að vörnum fyrir yfirskattanefnd í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins, en engar athugasemdir hafa borist. Þar sem gjaldandi hefur ekki gert athugasemdir við meðferð máls þessa fyrir yfirskattanefnd verður að líta svo á að hún mæli því ekki í gegn að það sæti sektarmeðferð fyrir nefndinni.

2. Skattrannsóknarstjóri ríkisins hóf hinn 8. júní 2006 rannsókn á bókhaldi og skattskilum gjaldanda vegna sjálfstæðrar starfsemi hennar við ræstingar rekstrarárin 2001, 2002, 2003 og 2004 og lauk rannsókninni með skýrslu, dags. 15. maí 2007. Vegna rannsóknarinnar tók skattrannsóknarstjóri ríkisins skýrslur af gjaldanda dagana 9. nóvember 2006 og 13. febrúar 2007, svo og var tekin skýrsla af B, fyrrverandi eiginmanni gjaldanda, sbr. skýrslutöku 12. desember 2006, og af vitnunum C og D, sbr. skýrslutökur 14. mars 2007 og 11. apríl 2007. Var rannsóknin m.a. byggð á upplýsingum sem komu fram við skýrslutökur þessar, sölureikningum í nafni gjaldanda, gögnum um innborganir á bankareikning gjaldanda og upplýsingum úr upplýsingakerfi ríkisskattstjóra. Með bréfum, dags. 25. apríl 2007, sendi skattrannsóknarstjóri gjaldanda og B skýrslu um rannsóknina, sem dagsett var þann dag, og gaf þeim kost á að tjá sig um efni hennar áður en ákvörðun yrði tekin um framhald málsins. Engar athugasemdir voru gerðar af hálfu gjaldanda eða B og var lokaskýrsla skattrannsóknarstjóra ríkisins efnislega samhljóða hinni fyrri að viðbættum kafla um lok rannsóknarinnar.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 15. maí 2007, var gerð grein fyrir rannsókn embættisins á bókhaldi og skattskilum gjaldanda. Í lokakafla skýrslunnar voru helstu niðurstöður rannsóknarinnar dregnar saman með svofelldum hætti:

„Niðurstöður rannsóknar á bókhaldi og skattskilum A fyrir rekstrarárin 2001, 2002, 2003 og 2004 eru: 

·1   Röngum skattframtölum hefur verið skilað.

·2   Staðið hefur verið skil á röngum virðisaukaskattsskýrslum á rekstrarárunum 2001 og 2002.

·3   Engum virðisaukaskattsskýrslum hefur verið skilað fyrir rekstrarárin 2002 og 2004.

·4   Bókhaldi hefur ekki verið haldið til haga né fært.

·5   Tekjuskráning er ófullnægjandi.

·6   Skattskyld velta, útskattur og rekstrartekjur eru vantalin.“

Þá gerði skattrannsóknarstjóri ríkisins tölulega grein fyrir niðurstöðum rannsóknarinnar í töflu í niðurlagi skýrslu sinnar. Samkvæmt henni var skattskyld velta gjaldanda vantalin um 1.697.090 kr. rekstrarárið 2001, 1.536.808 kr. rekstrarárið 2002, 734.475 kr. rekstrarárið 2003 og 840.000 kr. rekstrarárið 2004 og rekstrartekjur vantaldar um sömu fjárhæðir umrædd rekstrarár.

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins var mál gjaldanda sent ríkisskattstjóra til meðferðar, sbr. 6. mgr. 103. gr., sbr. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 5. mgr. 39. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. bréf skattrannsóknarstjóra, dags. 16. maí 2007. Á grundvelli rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins og í framhaldi af bréfi til gjaldanda, dags. 16. ágúst 2007, sem gjaldandi svaraði ekki, tók ríkisskattstjóri áður álögð opinber gjöld gjaldanda gjaldárin 2002, 2003, 2004 og 2005 til endurákvörðunar með úrskurði um endurákvörðun, dags. 27. september 2007, svo og endurákvarðaði ríkisskattstjóri virðisaukaskatt gjaldanda uppgjörstímabilin janúar-febrúar 2001 til og með nóvember-desember 2004 og ákvarðaði álag vegna vangreiddrar skilaskyldrar staðgreiðslu tekjuskatts og útsvars staðgreiðsluárin 2001, 2002, 2003 og 2004. Samkvæmt úrskurðinum var skattskyld velta gjaldanda ákvörðuð 1.697.090 kr. rekstrarárið 2001, 1.536.808 kr. rekstrarárið 2002, 737.475 kr. rekstrarárið 2003 og 840.000 kr. rekstrarárið 2004 og kom fram í úrskurði ríkisskattstjóra að þær fjárhæðir væru í samræmi við niðurstöður skattrannsóknarstjóra ríkisins. Ekki var um innskattsfrádrátt að ræða og ákvarðaðist virðisaukaskattur til greiðslu því 415.790 kr. fyrsta árið, 376.524 kr. annað árið, 180.681 kr. þriðja árið og 205.800 kr. það fjórða auk álags samkvæmt 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988. Við ákvörðun tekjuskatts- og útsvarsstofna gjaldanda gjaldárin 2002, 2003, 2004 og 2005 byggði ríkisskattstjóri á niðurstöðum skattrannsóknarstjóra ríkisins um fjárhæð rekstrartekna umrædd rekstrarár og tók tillit til frádráttar tryggingagjalds, sem ákvarðað var með úrskurðinum, að fjárhæð 83.151 kr. gjaldárið 2002, 74.835 kr. gjaldárið 2003, 39.174 kr. gjaldárið 2004 og 44.641 kr. gjaldárið 2005. Samkvæmt þessu varð hækkun tekjuskatts- og útsvarsstofna gjaldanda 1.323.719 kr. gjaldárið 2002, 1.093.503 kr. gjaldárið 2003, 698.301 kr. gjaldárið 2004 og 795.359 kr. gjaldárið 2005 auk álags samkvæmt 1. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Gjaldandi nýtti sér ekki heimilaðar málskotsleiðir vegna þessa úrskurðar ríkisskattstjóra.

3. Fram kemur í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 15. maí 2007, að engar rekstrartekjur séu tilgreindar í skattframtölum gjaldanda árin 2002, 2003, 2004 og 2005. Engin skattskyld velta sé tilgreind í virðisaukaskattsskýrslum gjaldanda vegna uppgjörstímabilanna janúar-febrúar til og með nóvember-desember 2001 eða í skýrslu vegna ársins 2002. Gjaldandi hafi ekki skilað virðisaukaskattsskýrslum vegna áranna 2003 og 2004 og skráningarnúmeri gjaldanda hafi verið lokað miðað við 31. desember 2004. Engin bókhaldsgögn hafi verið varðveitt vegna sjálfstæðrar starfsemi gjaldanda utan afrit af sölureikningum hennar á hendur X ehf. sem B afhenti við skýrslutöku 12. desember 2006. Í skýrslunni er gerð grein fyrir þeim framburði gjaldanda við skýrslutöku 9. nóvember 2006, þegar hún var spurð um skattskil hennar, að B, fyrrverandi eiginmaður hennar, hefði alfarið séð eða átt að sjá um rekstur hennar. Við skýrslutöku 12. desember 2006 gat B ekki svarað því af hverju ekki hefði verið gerð grein fyrir rekstrartekjum gjaldanda í skattframtölum hennar. Gjaldandi greindi frá því við skýrslutöku 9. nóvember 2006 að hún hefði gefið út sölureikninga vegna vinnu sinnar á árunum 2001 og 2002, en B hefði gefið út sölureikninga í nafni gjaldanda á árinu 2004. Sölureikningar á árinu 2004 hefðu verið vegna vinnu gjaldanda fram til maí það ár, en B hefði tekið við rekstrinum frá og með júní 2004.

Niðurstöður skattrannsóknarstjóra ríkisins um fjárhæð rekstrartekna gjaldanda og skattskyldrar veltu árin 2001, 2002, 2003 og 2004 byggja á umræddum sölureikningum greind ár, samtals að fjárhæð 1.122.745 kr. árið 2001, 983.175 kr. árið 2002 og 1.045.800 kr. árið 2004, og gögnum um innborganir á bankareikning gjaldanda að fjárhæð 990.135 kr. árið 2001, 868.907 kr. árið 2002 og 918.156 kr. árið 2003. Er vísað til framburðar C og D því til stuðnings að innborganir þessar séu vegna sjálfstæðrar starfsemi gjaldanda. Að því er varðar rekstrarárið 2004 er vísað til þess að gjaldandi hafi greint frá því við skýrslutöku að hún hefði unnið fram í maí 2004, en þá hefði B tekið við rekstrinum. B hafi staðfest í skýrslutöku að hafa tekið við rekstrinum frá og með júní 2004, en það hafi verið gert með vitund gjaldanda. Ljóst sé að gefnir hafi verið út sölureikningar í nafni gjaldanda og með samþykki hennar. Líti skattrannsóknarstjóri ríkisins svo á að gjaldandi hefði átt að gera grein fyrir þeim tekjum sem innheimtar hafi verið í hennar nafni og að umræddur rekstur hafi verið á hendi gjaldanda allt rekstrarárið 2004.

Í kafla um rannsókn á rekstrargjöldum og innskatti er vísað til þess að við skýrslutöku 9. nóvember 2006 hafi gjaldandi aðspurð ekki talið sig hafa borið neinn kostnað vegna sjálfstæðrar starfsemi sinnar. Rekstrargjöld séu því engin.

4. Í máli því, sem hér er til meðferðar, er um að tefla kröfugerð um ákvörðun sektar á hendur gjaldanda samkvæmt þar tilgreindum ákvæðum 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sem gera ráð fyrir því að sektarákvörðun sé bundin þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin. Verður því að taka afstöðu til þess hvort skattrannsóknarstjóri ríkisins hafi með skattrannsókn sinni sýnt fram á hverju skattfjárhæð, sem undan var dregin, hafi að minnsta kosti numið. Allan vafa í því sambandi verður að meta gjaldanda í hag, sbr. grundvallarreglu 108. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, sbr. áður 45. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála.

Eins og fram er komið eru tölulegar niðurstöður samkvæmt rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins, sem liggur til grundvallar sektarkröfu í máli þessu, um rekstrartekjur gjaldanda og skattskylda veltu rekstrarárin 2001, 2002, 2003 og 2004 annars vegar byggðar á útgefnum sölureikningum í nafni gjaldanda árin 2001, 2002 og 2004 og hins vegar á gögnum um innborganir á bankareikning gjaldanda árin 2001, 2002 og 2003 sem taldar voru vegna sjálfstæðrar starfsemi gjaldanda. Umræddir sölureikningar eru að fjárhæð 1.122.745 kr. árið 2001, 983.175 kr. árið 2002 og 1.045.800 kr. árið 2004 og innborganir námu 990.135 kr. árið 2001, 868.907 kr. árið 2002 og 918.156 kr. árið 2003. Á þessum grundvelli er í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins gerð grein fyrir meintum vantöldum rekstrartekjum og skattskyldri veltu að fjárhæð 1.697.090 kr. rekstrarárið 2001, 1.536.808 kr. rekstrarárið 2002, 737.475 kr. rekstrarárið 2003 og 840.000 kr. rekstrarárið 2004. Umræddir sölureikningar voru lagðir fyrir gjaldanda við skýrslutökur hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 9. nóvember 2006 og 13. febrúar 2007 og staðfesti gjaldandi að hafa gefið út sölureikninga á hendur X ehf. og Z hf. á árunum 2001 og 2002 vegna vinnu sinnar við ræstingar og þegið greiðslur samkvæmt þeim. Þykir samkvæmt þessu og gögnum málsins að öðru leyti nægilega fram komið að greiðslur samkvæmt sölureikningum þessum frá árunum 2001 og 2002 séu vegna sjálfstæðrar starfsemi gjaldanda. Að því er varðar sölureikninga á hendur X ehf. frá árinu 2004 kom fram af hálfu gjaldanda við skýrslutökuna 9. nóvember 2006 að fyrrverandi eiginmaður hennar, B, hefði gefið sölureikningana út. Kvaðst gjaldandi hafa unnið fram í maí 2004. Þá hefði B tekið við og hefði hún ekki þegið greiðslur vegna sölureikninganna eftir þann tíma. Við skýrslutökuna 13. febrúar 2007 var gjaldandi spurð að því hvort það hefði verið „gert með vitund hennar að B hafi tekið yfir reksturinn í júní 2004“, sbr. spurningu nr. 14, og staðfesti gjaldandi að það hefði verið með vitund hennar. Hvað sem líður greindri reikningsútgáfu í nafni gjaldanda frá og með júní 2004 og upplýsingum um það að gjaldandi hafi vitað af yfirtöku B á þeim rekstri sem hún taldist hafa haft með höndum – en upp úr því er lagt í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins – verður ekki talið óyggjandi að telja beri tekjur af ræstingavinnu samkvæmt sölureikningum í nafni gjaldanda frá og með júní 2004 til tekna gjaldanda, enda hefur ekki verið hnekkt skýringum gjaldanda um að hún hafi ekki unnið við starfsemina eftir þann tíma og ekki fengið greiðslur samkvæmt sölureikningum nema fram í maí 2004. Við skýrslutökuna 13. febrúar 2007 var gjaldandi beðin um skýringar á innborgunum frá Y ehf., C og E á árunum 2001, 2002 og 2003, en gjaldandi kvaðst ekki geta svarað spurningum um þessar innborganir. Samkvæmt framburði vitnanna C og D var hér um að ræða greiðslur vegna ræstingavinnu gjaldanda fyrir W ehf.

Samkvæmt framansögðu og að virtum gögnum málsins að öðru leyti verður byggt á niðurstöðum skattrannsóknarstjóra ríkisins um fjárhæð rekstrartekna og skattskyldrar veltu gjaldanda rekstrarárin 2001, 2002 og 2003 svo og tímabilið janúar til og með maí 2004. Ekki þykir á hinn bóginn nægilega traustur grundvöllur undir niðurstöðu um tekjur og skattskylda veltu gjaldanda á tímabilinu júní til og með desember 2004 og verður því ekki litið til þeirrar fjárhæðar í málinu. Verður því miðað við rekstrartekjur og skattskylda veltu að fjárhæð 350.000 kr. rekstrarárið 2004. Engin gögn komu fram við rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins um rekstrarkostnað og innskatt gjaldanda og hefur ekkert komið fram af hálfu gjaldanda varðandi hugsanlega frádráttarliði.

Samkvæmt því sem að framan er rakið taldi gjaldandi ekki fram í skattframtölum sínum árin 2002, 2003, 2004 og 2005 tekjur af atvinnurekstri sínum eða sjálfstæðri starfsemi sem skattskyldar voru samkvæmt B-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. áður lög nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. og 19. og 21. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga. Að teknu tilliti til niðurstöðu að því er varðar rekstrarárið 2004 og frádráttarliða, sem litið er til í kröfubréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, telst vantalinn tekjuskatts- og útsvarsstofn nema 1.613.939 kr. gjaldárið 2002, 1.461.973 kr. gjaldárið 2003, 698.301 kr. gjaldárið 2004 og 305.359 kr. gjaldárið 2005. Samkvæmt framansögðu er um að ræða ítrekaðar rangfærslur í skattskilum gjaldanda þrátt fyrir að gjaldandi hafi á þessu tímabili gefið út allmarga sölureikninga vegna veittrar þjónustu. Eins og atvikum málsins er háttað samkvæmt framansögðu verður talið að fullnægt sé í tilviki gjaldanda þeim huglægu refsiskilyrðum sem fram koma í 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Hinar röngu upplýsingar í skattframtölum gjaldanda leiddu til lægri álagningar opinberra gjalda hennar en vera bar gjaldárin 2002, 2003, 2004 og 2005, þannig að brot gjaldanda varða við 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga. Nánar tiltekið nam vanálagður tekjuskattur 401.876 kr. gjaldárið 2002, 376.458 kr. gjaldárið 2003, 179.813 kr. gjaldárið 2004 og 78.630 kr. gjaldárið 2005, en vanálagt útsvar nam 204.970 kr. fyrsta árið, 185.671 kr. annað árið, 88.684 kr. þriðja árið og 39.788 kr. fjórða árið.

Þá þykir fullsannað með stoð í gögnum málsins, m.a. framburði gjaldanda við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins, að gjaldandi, sem skyld var til þess að standa skil á virðisaukaskatti, hafi á saknæman hátt vanrækt að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum og innheimtum virðisaukaskatti öll uppgjörstímabil áranna 2001, 2002 og 2003 og uppgjörstímabilin janúar-febrúar, mars-apríl og maí-júní 2004 þannig að vangreiddur virðisaukaskattur nam samtals 415.790 kr. árið 2001, 376.524 kr. árið 2002, 180.681 kr. árið 2003 og 85.750 kr. árið 2004. Varðar þetta gjaldanda sekt samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995.

5. Ákvarða ber gjaldanda, A, sekt samkvæmt framangreindum ákvæðum 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 og 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995. Samkvæmt breytingum á refsiákvæðum skattalaga, sem gerðar voru með lögum nr. 42/1995 og tóku gildi 9. mars 1995, skal sekt aldrei vera lægri en sem nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin, þó að teknu tilliti til álags. Þá þykir bera að líta til þess að gjaldandi gekkst greiðlega við brotum sínum og að nokkur dráttur hefur orðið á meðferð málsins án þess að gjaldanda verði um kennt. Að þessu virtu og málsatvikum að öðru leyti og að teknu tilliti til skatts af álagi samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 og álags samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 þykir sekt gjaldanda hæfilega ákveðin 3.800.000 kr. til ríkissjóðs og 900.000 kr. til bæjarsjóðs Fjarðabyggðar.

Úrskurðarorð:

Gjaldandi, A, greiði sekt að fjárhæð 3.800.000 kr. til ríkissjóðs og 900.000 kr. til bæjarsjóðs Fjarðabyggðar.

 

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum