2009

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 330/2009

30.12.2009

Úrskurður nr. 330/2009

ÚRSKURÐUR YFIRSKATTANEFNDAR

Ár 2009, miðvikudaginn 30. desember, er tekið fyrir mál nr. 259/2008; krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um að A, kt. [...], verði gerð sekt vegna meintra brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Ragnheiður Snorradóttir og Valdimar Guðnason. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi, dags. 4. nóvember 2008, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A, kt. [...], fyrir brot á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með áorðnum breytingum, framin vegna rekstrarársins 2005.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

„A, sem stjórnarmanni, framkvæmdastjóra og prókúruhafa X ehf., nú þrotabú, er gefið að sök eftirfarandi:

Vangoldin afdregin staðgreiðsla opinberra gjalda launamanna. Vanræksla á afhendingu skilagreina á lögmæltum tíma.

A er gefið að sök að hafa vanrækt að standa innheimtumanni ríkissjóðs skil á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda launamanna X ehf. vegna greiðslutímabilanna janúar, febrúar, mars, júlí, ágúst og september rekstrarárið 2005. Þá er honum gefið að sök að hafa vanrækt að standa skil á skilagreinum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda vegna framangreindra greiðslutímabila á lögmæltum tíma. Vangoldin afdregin skilaskyld staðgreiðsla opinberra gjalda launamanna X ehf. vegna framangreindra greiðslutímabila, að teknu tilliti til staðgreiðslu fyrirsvarsmanns X ehf., A, nemur samtals kr. 7.601.418. Fjárhæðin sundurliðast svo sem hér greinir:

Tekjuár Greiðslutímabil Vangoldin skilaskyld staðgreiðsla kr.
2005 janúar 103.654
2005 febrúar 103.654
2005 mars 152.708
2005 júlí 1.177.162
2005 ágúst 1.078.710
2005 september 4.985.530
Samtals kr.   7.601.418

Það er mat skattrannsóknarstjóra ríkisins, byggt á gögnum málsins, að þetta hafi A gert á saknæman hátt, að því er frekast verður séð af ásetningi eða í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi.

Telst þessi háttsemi A brjóta í bága við ákvæði 1. og 2. mgr. 20. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 16. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með áorðnum breytingum, sbr. aðalreglur 1.-3. gr., 1. tl. 5. gr., 1. mgr. 7. gr og 1. og 3. mgr. 8. gr. þeirra laga.

Framangreind háttsemi varðar A sekt samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með áorðnum breytingum.

Þess er krafist að A verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 4. nóvember 2008, sem fylgdi kröfugerðinni.

II. 

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 4. nóvember 2008, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef hann vildi ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál hans og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 2. mgr. 31. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Með bréfi, dags. 19. janúar 2009, hefur umboðsmaður gjaldanda lagt fram vörn í málinu. Þar er þess krafist að gjaldanda verði ekki gerð sekt í málinu og að málskostnaður gjaldanda verði greiddur úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd. Farið er fram á að málið verði flutt munnlega fyrir yfirskattanefnd.

Í bréfi umboðsmanns gjaldanda er gerð grein fyrir aðdraganda að stofnun X ehf. sem hafi verið dótturfélag sænsks félags, Z, sem m.a. hafi verið í eigu íslensks félags, Y hf. Þar sem dótturfélagið X ehf. hafi verið að fullu í eigu hins sænska móðurfélags, Z, hefði verið ákveðið að sömu menn væru í stjórnum félaganna og stjórnarfundir sameiginlegir. Það hefði leitt til þess að gjaldandi sat í stjórn dótturfélagsins X ehf. en honum hefði einnig verið falin framkvæmdastjórn. X ehf. var því rekið sem sjálfstæð rekstrareining en sem kostnaðarstaður fyrir Z. Helstu verkefni X ehf. hefðu falist í vinnu við hugbúnað í eigu Z og vinnu fyrir sænska viðskiptamenn þess. Auk þess hafi verið unnið fyrir íslenska viðskiptamenn X ehf. og það skilað félaginu smávægilegum tekjum.

Hinir sænsku eigendur hefðu ekki staðið við samninga um að lána fjármuni og greiða upp skuldir Y ehf. og einnig hafi Z greitt lítið sem ekkert til X ehf., þrátt fyrir mikla vinnu í þess þágu. Er þetta rakið ítarlega í bréfi umboðsmanns gjaldanda og gerð grein fyrir tilraunum til að ná samkomulagi um greiðslur frá hinum sænsku aðilum. Þá kemur fram að þegar útséð hafi verið um samkomulag hafi verið ákveðið að ráðstafa öllum tekjum X ehf., sem tilkomnar hafi verið vegna viðskipta við íslenska aðila, til greiðslu skatta, en einnig hafi gjaldandi lánað félaginu eina milljón króna til að greiða skattskuldir þess. Hinn 1. október 2005 hafi framkvæmdastjóri Z sagt gjaldanda upp störfum sem framkvæmdastjóra X ehf. Jafnframt hafi gjaldandi ritað undir tilkynningu um úrsögn úr stjórn.

Frá desember 2005 hafi gjaldandi ekki haft afskipti af málefnum X ehf. fyrir utan það að hafa margsinnis reynt að fá Z til að ganga frá greiðslum á skattskuldum X ehf. Ábyrgðarbréf hafi verið send öllum stjórnarmönnum X ehf. þar sem þeir hafi eindregið verið hvattir til að ganga frá greiðslu opinherra gjalda á Íslandi vegna félagsins, en engin viðbrögð hafi orðið af þeirra hálfu. Bú Z hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta í júlí 2006.

Umboðsmaður gjaldanda tekur fram að gjaldandi byggi kröfu sína um að honum verði ekki ákvörðuð sekt á því að fyrir hendi séu verulegar málsbætur, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, en fyrir því séu margháttuð rök.

Í fyrsta lagi bendir umboðsmaður gjaldanda á að hinir sænsku aðilar hafi m.a. unnið í umboði sænsku kirkjunnar og einn stjórnarmanna í Z og jafnframt X ehf. hafi verið lögmaður sem hafi starfað hjá sænskum skattyfirvöldum. Gjaldandi hafi því talið sig geta treyst þessum aðilum. Þó svo að gjaldanda hafi verið falin framkvæmdastjórn hafi hann ekki haft umboð stjórnarinnar til að ráðstafa fjármunum félagsins, þar sem X ehf. hefði verið rekið sem kostnaðarstaður fyrir hið sænska móðurfélag Z sem hefði alfarið haft með höndum framkvæmdastjórn, þ.m.t. stjórn fjármála félagsins.

Í öðru lagi bendir umboðsmaðurinn á að gjaldandi hafi gert margítrekaðar tilraunir til að fá Z til að greiða fyrir vinnu starfsmanna X ehf. í þágu fyrrnefnds félags, sbr. hér að framan, en staðgreiðsluskuldin hafi verið tilkomin vegna þeirrar vinnu. Þá ítrekar gjaldandi að hann hafi verið leystur undan störfum sem framkvæmdastjóri og honum vikið úr stjórn X ehf. í lok ársins 2005 og því ekki haft tök á því að koma að lausn skattamála félagsins eftir það. Gjaldandi hafi þó skorað á Z að greiða skattskuld X ehf. eftir fyrrgreint tímamark. Þá bendir gjaldandi einnig á að hann hafi greitt af sjálfsdáðum eina milljón króna úr eigin vasa inn á skattskuldir X ehf.

Í þriðja lagi geri gjaldandi alvarlegar athugasemdir við að eingöngu hann, einn stjórnarmanna af fjórum, sé dreginn til ábyrgðar vegna skattskulda X ehf. Telur gjaldandi að af stjórnarmönnum félagsins beri hann minnsta ábyrgð á því hvernig skattskuldir X ehf. hafi myndast, sbr. framangreinda umfjöllun. Gjaldandi hafi skorað á skattrannsóknarstjóra ríkisins að rannsaka hlut annarra stjórnarmanna í þessu máli og látið honum í té ýmsar upplýsingar um þá. Telur gjaldandi að jafnræðis sé ekki gætt í þessu máli þegar aðrir stjórnarmenn sleppi með skrekkinn þar sem þeir séu sænskir ríkisborgarar og búsettir þar í landi.

Þá bendir gjaldandi á að skilagreinar vegna staðgreiðslu og tryggingagjalds hafi verið skilað á grundvelli umsaminna launakjara, en hluti launanna hafi hins vegar aldrei verið greiddur og sé enn ógreiddur. Sennilega hafi launakröfum ekki verið lýst í þrotabú X ehf. vegna þess að bú félagsins hafi ekki verið tekið til gjaldþrotaskipta fyrr en rúmu ári eftir að félagið lagði upp laupana. Launþegar hafi þá verið búnir að gefa kröfur sínar upp á bátinn og þess vegna ekki gert neinn reka að því að lýsa kröfum sínum í þrotabúið. Það sé því skoðun gjaldanda að sú fjárhæð sem lögð sé til grundvallar í málinu sé of há, enda hafi engin staðgreiðsla verið dregin af launum sem ekki hafi verið greidd.

Að lokum byggir gjaldandi á því að vanskil á afdreginni staðgreiðslu hafi öðru fremur mátt rekja til greiðsluörðugleika sem hafi verið tilkomnir vegna vanefnda Z, sænsks móðurfélags X ehf. Ekki hafi verið um neina tilraun til undanskots að ræða og því ekki eiginleg skattsvik.

Með bréfi formanns yfirskattanefndar, dags. 26. nóvember 2009, var umboðsmanni gjaldanda tilkynnt að beiðni hans um munnlegan málflutning í málinu hefði verið synjað. Gjaldanda var jafnframt veittur 14 daga frestur til að leggja fram frekari gögn í málinu. Engar frekari athugasemdir hafa borist.

III.

Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 4. nóvember 2008, er gerð sú krafa að gjaldanda, A, verði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með því að hann hafi sem fyrirsvarsmaður X ehf., vanrækt að standa skil á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda vegna launamanna félagsins tiltekin greiðslutímabil árið 2005. Gjaldandi hefur lagt fram athugasemdir sínar í tilefni af kröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins.

Skattrannsóknarstjóri ríkisins hóf 11. maí 2007 rannsókn á skattskilum X ehf. er beindist að skilum félagsins á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda greiðslutímabilin janúar, febrúar, mars, júlí, ágúst og september 2005. Vegna rannsóknarinnar var tekin skýrsla af gjaldanda, A, hjá embætti skattrannsóknarstjóra ríkisins hinn 18. júní 2007. Með bréfi, dags. 15. febrúar 2008, sendi skattrannsóknarstjóri gjaldanda skýrslu um rannsóknina, sem dagsett var sama dag, og gaf honum kost á að tjá sig um efni hennar. Gjaldandi gerði athugasemdir við skýrslu skattrannsóknarstjóra með bréfi, dags. 27. febrúar 2008, og lauk rannsókn skattrannsóknarstjóra í framhaldi af því með nýrri skýrslu um rannsóknina, dags. 6. mars 2008, sem var efnislega samhljóða hinni fyrri, sbr. kafla um lok rannsóknarinnar þar sem fjallað var um framkomnar athugasemdir gjaldanda og tekið fram að þær þættu ekki gefa tilefni til breytinga á skýrslunni.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 6. mars 2008, segir að rannsókn á skattskilum X ehf. hafi einkum verið byggð á upplýsingum sem fram hafi komið við fyrrgreinda skýrslutöku, upplýsingum frá fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra, staðgreiðsluskilagreinum og sundurliðunum X ehf., launahreyfingum úr bókhaldi, launaseðlum svo og tekjubókhaldi ríkissjóðs, sbr. fylgiskjöl með skýrslunni, en þar er um að ræða yfirlit um greiðslur X ehf. vegna staðgreiðslu opinberra gjalda, virðisaukaskatts og opinberra gjalda.

Fram kemur í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins að rannsókn embættisins á staðgreiðsluskilum X ehf. hafi m.a. falist í því að bera fjárhæðir afdreginnar staðgreiðslu samkvæmt staðgreiðsluskilagreinum og sundurliðunum félagsins saman við greiðslur þess til innheimtumanns ríkissjóðs. Í skýrslunni er gerð grein fyrir þeirri niðurstöðu rannsóknarinnar að fyrrum fyrirsvarsmaður X ehf. hafi ekki staðið skil á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda vegna launamanna félagsins greiðslutímabilin janúar, febrúar, mars, júlí, ágúst og september 2005, samtals að fjárhæð 9.126.017 kr. Fram kemur að greiddar hafi verið alls 328.235 kr. inn á höfuðstól staðgreiðsluskuldar vegna þeirra uppgjörstímabila sem rannsóknin taki til. Þá er tekið fram að afdregin staðgreiðsla af launum fyrirsvarsmanns X ehf., A, nemi samtals 1.524.599 kr. greiðslutímabilin júlí, ágúst og september 2005. Einnig kemur fram í niðurstöðum skýrslunnar að staðgreiðsluskilagreinum fyrir tímabil, sem um ræðir í málinu, hafi ekki verið skilað á lögmæltum tíma til innheimtumanns ríkissjóðs.

Samkvæmt gögnum málsins var bú X ehf. tekið til gjaldþrotaskipta hinn 31. janúar 2008.

Gjaldandi, A, greindi frá því við skýrslutöku, sem fram fór hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 18. júní 2007, að hann hefði verið framkvæmdastjóri X ehf. til 1. desember 2005. Gjaldandi kannaðist við skilagreinar staðgreiðslu vegna þeirra greiðslutímabila sem rannsóknin tók til og kvað þær vera byggðar á launabókhaldi félagsins. Skýrslurnar væru hins vegar ekki í samræmi við launagreiðslur þar sem um vangreidd laun væri að ræða að hluta til. Gjaldandi sagðist ekki muna nákvæma skýringu á því hvers vegna staðgreiðsluskilagreinum fyrir umrædd greiðslutímabil hefði ekki verið skilað á lögmæltum tíma til skattyfirvalda. Gjaldanda var kynnt að samkvæmt gögnum málsins næmi vangreidd staðgreiðsla vegna launamanna X ehf. samtals 9.126.018 kr. umrædd greiðslutímabil og gerði hann ekki athugasemdir af því tilefni. Aðspurður um það hvort launamenn hefðu fengið laun greidd að fullu samkvæmt launaseðlum og á réttum tíma, þrátt fyrir að staðgreiðslu opinberra gjalda væri ekki skilað til ríkissjóðs, svaraði gjaldandi að laun hefðu ekki verið greidd að fullu. Kvaðst gjaldandi telja að útistandandi laun væru u.þ.b. 10.000.000 kr., m.a. vegna fimm launamanna, sem gjaldandi tilgreindi, auk gjaldanda sjálfs. Kvaðst gjaldandi geta lagt fram upplýsingar úr bókhaldi félagsins yfir útistandandi laun. Þá kom fram af hálfu gjaldanda að vegna vanskila verkkaupa hefðu ekki verið til peningar til að greiða staðgreiðslu, en engin ákvörðun hefði verið tekin um að standa ekki skil á þessum gjöldum. Vísaði gjaldandi til sérstakrar greinargerðar, sem hann lagði fram við skýrslutökuna, um nánari skýringar á erfiðleikum X ehf. og samskipti við erlenda eigendur og stjórnarmenn félagsins. Gjaldandi kvaðst ekki hafa óskað eftir því við innheimtumann að greiðslum X ehf. yrði ráðstafað með sérstökum hætti.

Samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995, er refsivert ef launagreiðandi innir ekki af hendi þær greiðslur vegna launamanna sem hann hefur haldið eftir eða honum borið að halda eftir. Samkvæmt fortakslausum ákvæðum nefndra laga og með stoð í dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands, sbr. m.a. dóma Hæstaréttar 27. febrúar 1997 (H 1997:789), 25. september 1997 (H 1997:2446), 14. janúar 1999 (H 1999:79), 18. febrúar 1999 (H 1999:544 og 550), 10. júní 1999 (H 1999:2645) og 30. mars 2000 (H 2000:1422), geta fyrirsvarsmenn lögaðila unnið til refsingar með því einu að láta ógert að skila umræddum gjöldum í ríkissjóð á tilskildum tíma, enda sé huglægum refsiskilyrðum fullnægt.

Gjaldandi, A, var framkvæmdastjóri X ehf. á þeim tíma sem mál þetta varðar og annar tveggja prókúruhafa félagsins. Gjaldandi bar því ábyrgð á daglegum rekstri félagsins, þar á meðal fjárreiðum, og var til þess bær að taka ákvörðun um hvaða kröfur á hendur félaginu skyldu greiddar og hverjar ekki. Samkvæmt framangreindu telst gjaldandi hafa borið ábyrgð á skilum staðgreiðslu opinberra gjalda X ehf. og er sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins því réttilega beint að gjaldanda.

Samkvæmt bréfi umboðsmanns gjaldanda til yfirskattanefndar, dags. 19. janúar 2009, er vörn gjaldanda m.a. byggð á því að þótt skilagreinar vegna staðgreiðslu og tryggingagjalds hafi verið útbúnar á grundvelli umsaminna launagreiðslna hafi hluti launa aldrei verið greiddur starfsmönnum og sé enn um ógreidd laun að ræða. Þá kemur fram að sennilega hafi launakröfum ekki verið lýst í þrotabú X ehf. vegna þess að bú félagsins hafi ekki verið tekið til gjaldþrotaskipta fyrr en rúmu ári eftir að félagið hætti starfsemi og hafi launþegar þá verið búnir að gefa launakröfur sínar upp á bátinn og því ekki lýst þeim í þrotabúið.

Eins og fyrr greinir kemur fram í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 6. mars 2008, sem sektarkrafa í máli þessu er byggð á, að rannsókn málsins hafi m.a. verið fólgin í samanburði fjárhæða afdreginnar staðgreiðslu, sem gerð var grein fyrir í staðgreiðsluskilagreinum X ehf., við upplýsingar frá innheimtumanni ríkissjóðs um skil félagsins á afdreginni staðgreiðslu. Þá er vísað til þess í skýrslunni að launahreyfingar í bókhaldi X ehf., sem borist hafi frá löggiltum endurskoðanda hjá W hf. með tölvupósti hinn 10. janúar 2008, séu í samræmi við innsendar skilagreinar. Vegna framburðar gjaldanda við skýrslutöku 18. júní 2007 um að laun hefðu ekki verið greidd að fullu, er tekið fram í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins að engar kröfur hefðu borist skiptastjóra þrotabús X ehf. né Ábyrgðarsjóði launa vegna vangoldinna launa. Í þeim kafla skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, sem fjallar um lok rannsóknarinnar, er gerð grein fyrir athugasemdum sem gjaldandi gerði af þessu tilefni í andmælabréfi sínu, dags. 27. febrúar 2008, um að talið hefði verið að frestur til að senda inn kröfur vegna vangoldinna launa hefði verið liðinn þegar félagið var komið í gjaldþrotameðferð. Er áréttað í skýrslu skattrannsóknarstjóra að launahreyfingar samkvæmt bókhaldi X ehf. séu í samræmi við innsendar staðgreiðsluskilagreinar og að rannsókn á ógreiddum launum hafi einnig falist í athugun á því hvort gerðar hafi verið kröfur til Ábyrgðarsjóðs launa eða í þrotabú félagsins. Þá hafi engin gögn verið lögð fram sem sýni fram á að laun vegna rannsóknartímabilsins hafi verið ógreidd.

Viðbárur gjaldanda um ógreidd laun í rekstri X ehf. hafa verið margáréttuð í máli þessu, bæði í greinargerð gjaldanda, dags. 14. júní 2007, sem hann lagði fram við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 18. sama mánaðar, í skýrslutökunni sjálfri og í andmælabréfi til skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 27. febrúar 2008, auk þess sem þau eru áréttuð í bréfi umboðsmanns gjaldanda til yfirskattanefndar, dags. 19. janúar 2009. Þá kom hið sama fram við skýrslutöku af gjaldanda hjá skiptastjóra þrotabús X ehf. sem fram fór 4. júní 2007. Ástæða er til þess að taka fram að bókhald X ehf. vegna rekstrarársins 2005, sem vísað er til í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, sbr. fskj. nr. 9.1-9.6 með skýrslunni, tekur eingöngu til launahreyfinga, svo sem kemur fram í tölvupósti löggilts endurskoðanda, dags. 10. janúar 2008, þar sem einnig er tekið fram að einungis launavinnsla fyrir félagið hafi verið færð í gagnagrunni endurskoðunarstofunnar. Annað bókhald hafi verið fært á miðlægum gagnagrunni hjá Æ, en lokað hafi verið fyrir aðgang stofunnar að þeim grunni í desember 2005 þegar hún hafi látið af störfum fyrir félagið. Þannig eru engar upplýsingar í umræddum bókhaldsfærslum, sem vísað er til í rannsóknarskýrslu, um greiðslur á ákvörðuðum launum. Þá verður gegn mótmælum gjaldanda ekki talið að sú staðreynd að launakröfum var ekki lýst í þrotabú X ehf. eða kröfur gerðar til Ábyrgðarsjóðs launa beri óyggjandi með sér að engum ógreiddum launum vegna annarra starfsmanna en gjaldanda sjálfs hafi verið til að dreifa við rekstrarlok félagsins.

Eins og málið liggur fyrir samkvæmt framansögðu verður gegn mótmælum gjaldanda ekki talið að sýnt hafi verið fram á grundvöll fyrir ákvörðun sektar á hendur gjaldanda samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 vegna vanrækslu á skilum afdreginnar staðgreiðslu opinberra gjalda launamanna X ehf.

Sektarkrafa er einnig byggð á því að gjaldandi hafi ekki staðið skil á skilagreinum staðgreiðslu fyrir greiðslutímabilin janúar til og með september 2005 á lögmæltum tíma. Eins og að framan greinir var gjaldandi spurður við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins um ástæðu þess að skilagreinum fyrir þessi greiðslutímabil hefði ekki verið skilað og svaraði gjaldandi því einu til að hann myndi ekki nákvæma skýringu á því. Þar sem gjaldandi hefur engar athugasemdir gert við niðurstöðu rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins um að ekki hafi verið staðin skil á umræddum skilagreinum og með hliðsjón af framburði hans, sem að framan er rakinn, verður að telja sannað að gjaldandi hafi látið undir höfuð leggjast að standa skil á staðgreiðsluskilagreinum fyrir framangreind greiðslutímabil á þeim tíma sem honum var það skylt, sbr. 2. mgr. 20. gr. laga nr. 45/1987. Verður talið að fullnægt sé þeim huglægu refsiskilyrðum sem fram koma í 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995, og ber að ákvarða gjaldanda sekt samkvæmt þessu lagaákvæði vegna þeirrar vanrækslu sem að framan greinir, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 25. mars 1999 (H 1999:1455). Þykir sekt gjaldanda hæfilega ákveðin 100.000 kr. til ríkissjóðs.

Umboðsmaður gjaldanda hefur gert kröfu um að gjaldanda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum máls þessa þykja ekki vera til staðar lagaskilyrði til þess að ákvarða gjaldanda málskostnað. Kröfu þess efnis er því hafnað. 

Úrskurðarorð:

Gjaldandi, A, greiði sekt að fjárhæð 100.000 kr. til ríkissjóðs. Málskostnaðarkröfu gjaldanda er hafnað.

 

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum