2010

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 259/2010

8.9.2010

Úrskurður nr. 259/2010                                                                

ÚRSKURÐUR YFIRSKATTANEFNDAR

Ár 2010, miðvikudaginn 8. september, er tekið fyrir mál nr. 55/2009; krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um að A, kt. [...], verði gerð sekt vegna meintra brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Gylfi Knudsen og Valdimar Guðnason. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi, dags. 11. febrúar 2009, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A, kt. [...], fyrir brot á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með áorðnum breytingum, og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum, framin vegna rekstrarársins 2006.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

„A, sem stjórnarmanni og framkvæmdastjóra með prókúruumboð X ehf., kt. [...], (nú þrotabú) er gefið að sök eftirfarandi:

1. Vanræksla á skilum skattframtals og fylgigögnum þess. Vanframtaldar rekstrartekjur. Möguleg rekstrargjöld.

A, sem stjórnarmanni og framkvæmdastjóra með prókúruumboð, er gefið að sök að hafa, fyrir hönd X ehf., að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, vanrækt að standa skattstjóranum í Reykjavík skil á skattframtali, vegna álagningar opinberra gjalda, gjaldárið 2007, vegna rekstrarársins 2006. Með því vanrækti hann fyrir hönd félagsins að gera grein fyrir rekstrartekjum þess samtals að fjárhæð kr. 17.018.474. Möguleg rekstrargjöld vegna rekstrarársins 2006 námu samtals kr. 7.619.265.

Framangreind háttsemi A leiddi ekki til ákvörðunar lægri tekjuskattsstofn félagsins og þar með lægri tekjuskatts en vera bar að teknu tilliti til áætlunar skattstjóra kr. 11.500.000.

Starfsemi félagsins fólst í [...].

Sú háttsemi A sem lýst hefur verið hér að framan brýtur í bága við ákvæði 90. gr., sbr. B. lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með áorðnum breytingum.

Varðar framanlýst háttsemi A sekt samkvæmt 6. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

2. Vanræksla á skilum á virðisaukaskattsskýrslum á lögmæltum tíma. Vanræksla á skilum á virðisaukaskattsskýrslum. Vanframtalin skattskyld velta og útskattur. Mögulegur innskattur.

A, sem stjórnarmanni og framkvæmdastjóra með prókúruumboð, er gefið að sök að hafa, fyrir hönd X ehf., að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, vanrækt að standa skattstjóranum í Reykjavík skil á virðisaukaskattsskýrslum vegna virðisaukaskatts-skyldrar starfsemi félagsins vegna uppgjörstímabilanna janúar–febrúar til og með júlí–ágúst rekstrarárið 2006. Þá er A gefið að sök að hafa, fyrir hönd félagsins, vanrækt að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum uppgjörstímabilin september–október og nóvember–desember rekstrarárið 2006. Með síðastnefndri háttsemi vanframtaldi A fyrir hönd X ehf. skattskylda veltu og útskatt vegna uppgjörstímabilanna september-október og nóvember-desember 2006. Samkvæmt niðurstöðu rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins nemur vanframtalin skattskyld velta vegna þeirra uppgjörstímabila samtals kr. 9.355.659 og vanframtalinn útskattur samtals kr. 2.292.135. Þá nemur mögulegur innskattur vegna framangreindra uppgjörstímabila samtals kr. 642.056.

Sundurliðast vanframtalin skattskyld velta, útskattur og mögulegur innskattur, samkvæmt fyrirliggjandi gögnum svo sem hér greinir:

 

Rekstrarár

 

Uppgjörstímabil

Vanframtalin skattskyld velta Vanframtalinn útskattur Mögulegur innskattur
2006 september – október 3.591.862 880.005 469.994
2006 nóvember – desember 5.763.797 1.412.130 172.062
Samtals kr.   9.355.659 2.292.135 642.056

Sú háttsemi A sem hér hefur verið lýst brýtur í bága við ákvæði 1. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 24. gr., sbr. aðalreglur 1. gr., 2. gr., 1. tl. 1. mgr. 3. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. og 2. mgr. 13. gr., 1. mgr. 14. gr., 1. mgr. 16. gr.  og 19. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.

Varðar framanlýst háttsemi A sekt samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995.

Við endurákvörðun á virðisaukaskatti vegna framangreinds árs hefur X ehf. verið gert að sæta álagi á vangreiddan virðisaukaskatt á grundvelli 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, kr. 90.492, er komi til frádráttar við ákvörðun sektarfjárhæðar.

Þess er krafist að A verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 11. febrúar 2009, sem fylgdi kröfugerðinni.

II.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 13. febrúar 2009, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef hann vildi ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál hans og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 2. mgr. 110. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 2. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Engar athugasemdir hafa borist frá gjaldanda.

III.

1. Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 11. febrúar 2009, er gerð sú krafa að gjaldanda, A, verði sem fyrirsvarsmanni X ehf., kt. [...], gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, vegna meintra brota hans á skattalögum í rekstri greinds einkahlutafélags. Gjaldandi hefur átt þess kost að koma að vörnum fyrir yfirskattanefnd í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins, en engar athugasemdir hafa borist. Þar sem gjaldandi hefur ekki gert athugasemdir við meðferð máls þessa fyrir yfirskattanefnd verður að líta svo á að hann mæli því ekki í gegn að það sæti sektarmeðferð fyrir nefndinni.

2. Sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins í máli þessu er byggð á niðurstöðum rannsóknar embættisins á bókhaldi og skattskilum X ehf. vegna rekstrarársins 2006, sbr. skýrslu um rannsóknina, dags. 23. júní 2008. Rannsókn þessi hófst formlega hinn 15. apríl 2008 og beindist að bókhaldi og skattskilum félagsins vegna greinds rekstrarárs. Samkvæmt samþykktum X ehf. var tilgangur félagsins [...] Vegna rannsóknarinnar var tekin skýrsla af gjaldanda hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins hinn 14. maí 2008 og var rannsóknin m.a. byggð á upplýsingum sem þar komu fram, bókhaldsgögnum X ehf., virðisaukaskattsskýrslum félagsins svo og upplýsingum frá fyrirtækjaskrá og úr upplýsingakerfum ríkisskattstjóra. Með bréfi, dags. 2. júní 2008, sendi skattrannsóknarstjóri gjaldanda skýrslu um rannsóknina sem þá lá fyrir, dags. 30. maí 2008, og gaf honum kost á að tjá sig um efni hennar áður en ákvörðun yrði tekin um framhald málsins. Engar athugasemdir bárust skattrannsóknarstjóra ríkisins og var lokaskýrsla embættisins efnislega samhljóða hinni fyrri að viðbættum kafla um lok rannsóknarinnar

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 23. júní 2008, voru helstu niðurstöður rannsóknarinnar teknar saman með svofelldum hætti:

„Niðurstöður rannsóknar á bókhaldi og skattskilum skattaðila fyrir rekstrarárið 2006 eru:

·1  Skattframtali og ársreikningi hefur ekki verið skilað.

·2  Virðisaukaskattsskýrslum fyrir uppgjörstímabilin janúar-febrúar, mars-apríl, maí-júní og júlí-ágúst 2006 var ekki skilað á lögmæltum tíma.

·3  Virðisaukaskattsskýrslum fyrir uppgjörstímabilin september-október og nóvember-desember 2006 hefur ekki verið skilað.

·4  Bókhald hefur ekki verið fært.

·5  Skattskyld velta og útskattur eru vantalin.

·6  Möguleg rekstrargjöld samkvæmt fyrirliggjandi bókhaldsgögnum eru kr. 7.619.265 og mögulegur innskattur kr. 1.708.843.“

Þá gerði skattrannsóknarstjóri ríkisins tölulega grein fyrir niðurstöðum rannsóknarinnar í töflum í niðurlagi skýrslu sinnar. Þar kom fram að skattskyld velta X ehf. rekstrarárið 2006 væri vantalin um 9.355.657 kr. og útskattur um 2.292.135 kr. Rekstrartekjur sama ár væru vantaldar um 17.018.474 kr., en möguleg rekstrargjöld næmu 7.619.265 kr. og mögulegur innskattur 1.708.843 kr.

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins var mál X ehf. sent ríkisskattstjóra til meðferðar, sbr. 6. mgr. 103. gr., sbr. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 5. mgr. 39. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. bréf skattrannsóknarstjóra, dags. 24. júní 2008. Á grundvelli rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins og í framhaldi af bréfi til þrotabús X ehf., dags. 5. september 2008, og svarbréfi, dags. 17. september 2008, tók ríkisskattstjóri áður álögð opinber gjöld X ehf. gjaldárið 2007 og virðisaukaskatt árið 2006 til endurákvörðunar með úrskurði um endurákvörðun, dags. 15. október 2008. Í úrskurði ríkisskattstjóra kom fram að hinn 15. júlí 2008 hefði embættinu borist erindi umboðsmanns X ehf. um að álagning opinberra gjalda félagsins gjaldárin 2006 og 2007 yrði byggð á meðfylgjandi skattframtölum félagsins árin 2006 og 2007. Ríkisskattstjóri tók fram að skattframtal fyrra ársins hefði verið sent skattstjóranum í Reykjavík til meðferðar, en skattframtal árið 2007 væri tekið til afgreiðslu ásamt skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 23. júní 2008. Samkvæmt úrskurðinum féllst ríkisskattstjóri á að leggja hið innsenda skattframtal X ehf. árið 2007 til grundvallar álagningu opinberra gjalda félagsins það gjaldár, enda væri framtalið í samræmi við niðurstöður rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins. Fram kom að hagnaður af rekstri samkvæmt skattframtali félagsins árið 2007 næmi 1.911.183 kr. en að teknu tilliti til ónotaðs taps frá fyrri árum ákvarðaðist yfirfæranlegt tap 815.981 kr. Þá var skattskyld velta X ehf. árið 2006 hækkuð um 4.934.905 kr. og kom fram að sú ákvörðun væri byggð á niðurstöðum skattrannsóknarstjóra ríkisins og jafnframt í samræmi við leiðréttingarskýrslu virðisaukaskatts sem fylgt hefði innsendu skattframtali X ehf. árið 2007. Af hálfu þrotabús X ehf. voru heimilaðar málskotsleiðir vegna þessa úrskurðar ríkisskattstjóra ekki nýttar.

3. Fram kemur í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 23. júní 2008, að þar sem ekki hafi verið talið fram til skatts árið 2007 af hálfu X ehf. hafi félagið sætt áætlun skattstjóra á skattstofnum við almenna álagningu opinberra gjalda það ár og hafi tekjuskattsstofn verið áætlaður 10.000.000 kr. auk álags samkvæmt 1. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 að fjárhæð 1.500.000 kr. Í skýrslunni er rakin sú skýring gjaldanda, A, sbr. skýrslutöku 14. maí 2008, að tímaleysi og veikindi endurskoðanda X ehf. væri orsök þess að skattframtali félagsins árið 2007 hefði ekki verið skilað, en gjaldandi hefði reynt að ýta á eftir gerð þess. Þá kemur fram í skýrslu skattrannsóknarstjóra að virðisaukaskattsskýrslum fyrir uppgjörstímabilin janúar-febrúar til og með júlí-ágúst 2006 hafi ekki verið skilað á lögmæltum tíma og er gerð grein fyrir þeirri skýringu gjaldanda að trassaskap hans hafi verið um að kenna. Loks kemur fram að virðisaukaskattsskýrslum fyrir uppgjörstímabilin september-október og nóvember-desember 2006 hafi ekki verið skilað og rakinn sá framburður gjaldanda við skýrslutöku 14. maí 2008 að hann hefði talið að skýrslum þessum hefði verið skilað og að hann hafi ekki aðra skýringu en að þetta hafi misfarist hjá sér.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins er gerð grein fyrir skattskyldri veltu X ehf. að fjárhæð 17.018.474 kr. rekstrarárið 2006 og er í því sambandi byggt á tekjuskráningargögnum félagsins og öðrum bókhaldsgögnum. Þá kemur fram að vantalin velta uppgjörstímabilin september-október og nóvember desember 2006 nemi samtals 9.355.657 kr. Þá er fjallað í rannsóknarskýrslunni um rekstrartekjur félagsins rekstrarárið 2006 að fjárhæð 17.018.474 kr.

Í kafla um rannsókn á rekstrargjöldum og innskatti X ehf. kemur fram að samkvæmt fyrirliggjandi bókhaldsgögnum félagsins vegna rekstrarársins 2006 nemi rekstrargjöld 7.619.265 kr. auk reiknaðs endurgjalds fyrirsvarsmanns félagsins 2.743.233 kr. og annarra launagreiðslna 2.575.261 kr. Þá er gerð grein fyrir innskatti að fjárhæð 1.708.843 kr.

Gjaldandi, A, staðfesti við skýrslutöku 14. maí 2008 að hann hefði verið framkvæmdastjóri og stjórnarmaður X ehf. og hefði stjórnað daglegum rekstri félagsins á árinu 2006. Aðspurður um færslu bókhalds félagsins greindi gjaldandi frá því að endurskoðandi félagsins, B, hefði veikst haustið 2006 og ekki hefði verið unnið í bókhaldinu frá þeim tíma, en gjaldandi hefði sjálfur séð um útgáfu sölureikninga í forriti á netinu þar sem þeir hefðu verið bókaðir. Við skýrslutökuna voru útgefnir sölureikningar X ehf. árið 2006 lagðir fyrir gjaldanda og kannaðist gjaldandi við alla sölureikningana og sagði að þeir hefðu allir fengist greiddir. Þá voru lögð fyrir gjaldanda gögn um rekstrarkostnað og innskatt X ehf. og samantekt skattrannsóknarstjóra ríkisins á fjárhæð rekstrargjalda og innskatts árið 2006. Gerði gjaldandi ekki athugasemdir við samantekt skattrannsóknarstjóra ríkisins.

4. Sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins í máli þessu er í fyrsta lagi byggð á því að gjaldandi hafi sem fyrirsvarsmaður X ehf. vanrækt að standa skil á skattframtali félagsins árið 2007 á lögmæltum tíma án þess þó að sú vanræksla hafi leitt til ákvörðunar lægri tekjuskattsstofns félagsins gjaldárið 2007 en vera bar. Í öðru lagi byggir kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins á því að gjaldandi hafi vanrækt að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum tvö uppgjörstímabil árið 2006 og þannig vantalið skattskylda veltu um samtals 9.355.659 kr. og virðisaukaskatt til greiðslu um 1.650.079 kr. (útskattur 2.292.135 kr. að frádregnum innskatti 642.056 kr.) auk þess sem vanrækt hafi verið að standa skil á öðrum virðisaukaskattsskýrslum ársins 2006 á lögmæltum tíma.

Fyrir liggur að ekki var talið fram til skatts af hálfu X ehf. árið 2007 innan tilskilins framtalsfrests, en skattframtal félagsins það ár barst ríkisskattstjóra hinn 15. júlí 2008. Eins og rakið er að framan féllst ríkisskattstjóri með úrskurði um endurákvörðun, dags. 15. október 2008, á að leggja hið innsenda skattframtal X ehf. árið 2007 til grundvallar álagningu opinberra gjalda félagsins það gjaldár í stað áætlunar skattstofna. Samkvæmt úrskurðinum var yfirfæranlegt tap gjaldárið 2007 ákvarðað 815.981 kr.

Við meðferð máls þessa hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins gaf gjaldandi skýringar á því hvers vegna framtalsskyldu vegna X ehf. var ekki sinnt innan tilskilins framtalsfrests árið 2007 og verður að telja að þar komi fram atriði sem hafi þýðingu við mat á því hvort refsiskilyrðum sé fullnægt í tilviki hans eða horfi eftir atvikum til málsbóta við ákvörðun refsingar vegna meintrar vanrækslu samkvæmt fyrri lið kröfugerðar skattrannsóknarstjóra ríkisins, m.a. þegar litið er til þess tíma sem leið frá lokum framtalsfrests lögaðila árið 2007 þar til skattframtal X ehf. var sent ríkisskattstjóra. Ekki voru þessi atvik rannsökuð sérstaklega af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins og í greinargerð skattrannsóknarstjóra ríkisins til yfirskattanefndar, dags. 11. febrúar 2009, eru látið við það sitja að reifa skýringar gjaldanda án frekari umfjöllunar. Að svo vöxnu verður byggt á skýringum gjaldanda um ástæður síðbúinna framtalsskila. Rétt er að fram komi að almennt geta framteljendur ekki losnað undan ábyrgð sinni á því að skattframtal berist skattstjóra á réttum tíma með því að fela öðrum gerð þess og skil, þótt telja verði að til þess geti komið að viðurlögum verði ekki beitt vegna atvika sem varða sérfróðan aðstoðarmann skattaðila við gerð skattframtals, sbr. til hliðsjónar m.a. úrskurð ríkisskattanefndar nr. 814/1982, sem varðar beitingu álags vegna síðbúinna framtalsskila, en úrskurður þessi er birtur á bls. 256-257 í úrskurðasafni nefndarinnar vegna uppkveðinna úrskurða á árunum 1981 og 1982. Eins og málið er vaxið samkvæmt framansögðu, auk þess sem ekki liggur annað fyrir en að um einstakt tilvik síðbúinna framtalsskila sé að ræða, verður gjaldanda ekki gerð sekt á þeim grundvelli sem krafist er í fyrri lið kröfugerðar skattrannsóknarstjóra ríkisins.

Vegna þess þáttar í kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins sem byggir á því að gjaldandi hafi vanrækt skil á virðisaukaskattsskýrslum X ehf. vegna uppgjörstímabilanna janúar-febrúar til og með júlí-ágúst 2006 fyrr en að lögmæltum tíma liðnum skal tekið fram að ekkert kemur fram um það í rannsóknarskýrslu hvenær umræddum skýrslum var skilað, en ráðið verður að það hafi í öllum tilvikum verið löngu fyrir upphaf skattrannsóknarinnar. Ekki liggur annað fyrir en að skil hafi verið gerð á virðisaukaskatti samkvæmt skýrslum þessum. Eins og atvikum er hér farið og með hliðsjón af ákvæði 4. mgr. 37. gr. A reglugerðar nr. 373/2001, um framkvæmd skatteftirlits og skattrannsókna, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 334/2006, þykir ekki tilefni til viðurlagabeitingar vegna dráttar á skilum umræddra skýrslna umfram álag samkvæmt ákvæðum 27. gr. laga nr. 50/1988.

Við skýrslutöku af gjaldanda, sem fram fór hjá skattrannsóknarstjóra 14. maí 2008, komu ekki fram viðhlítandi skýringar gjaldanda, A, á því að hann hefði ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum X ehf. og innheimtum virðisaukaskatti vegna seldrar þjónustu félagsins uppgjörstímabilin september-október og nóvember-desember 2006. Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins er gerð grein fyrir meintri vantalinni skattskyldri veltu að fjárhæð 9.355.657 kr. rekstrarárið 2005 og útskatti að fjárhæð 2.292.135 kr. vegna þessara tveggja uppgjörstímabila. Er niðurstaða um þetta atriði byggð á tekjuskráningargögnum X ehf. og framburði gjaldanda, A, við skýrslutöku 14. maí 2008. Að þessu athuguðu þykir bera að leggja til grundvallar í úrskurði þessum að skattskyld velta X ehf. umrædd uppgjörstímabil hafi numið fyrrgreindri fjárhæð. Gjaldandi afhenti skattrannsóknarstjóra kostnaðargögn vegna rekstrar X ehf. og eru niðurstöður rannsóknar skattrannsóknarstjóra um innskatt byggðar á þeim. Ekkert hefur komið fram í málinu sem gefur tilefni til þess að tekið verði tillit til innskatts með hærri fjárhæð en greinir í rannsóknarskýrslu.

Samkvæmt framansögðu telst hafa verið leitt í ljós með rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins að skil voru ekki gerð á virðisaukaskattsskýrslum og virðisaukaskatti X ehf. uppgjörstímabilin september-október og nóvember-desember 2006 þrátt fyrir skattskylda veltu í rekstri félagsins samkvæmt því sem rakið er að framan. Eins og fram er komið var í framhaldi af rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins lögð fram leiðréttingarskýrsla virðisaukaskatts vegna rekstrar X ehf. árið 2006 og voru fjárhæðir í skýrslunni vegna fyrrgreindra uppgjörstímabila í samræmi við niðurstöður skattrannsóknarstjóra. Tekið skal fram að gögn málsins þykja bera með sér að skil voru ekki gerð á virðisaukaskatti samkvæmt leiðréttingarskýrslu félagsins, sbr. m.a. úrskurð ríkisskattstjóra um endurákvörðun, dags. 15. október 2008, en hinn [...] ágúst 2008 var bú félagsins tekið til gjaldþrotaskipta.

Gjaldandi, A, var stjórnarmaður og framkvæmdastjóri X ehf. á þeim tíma sem málið varðar og bar ábyrgð á því að skil væru gerð á virðisaukaskattsskýrslum félagsins og virðisaukaskatti í samræmi við ákvæði 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Með stoð í gögnum málsins, m.a. framburði gjaldanda við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins, þykir fullsannað að gjaldandi hafi með saknæmum hætti vanrækt þessar skyldur sínar að því er varðar virðisaukaskattsskil X ehf. umrædd uppgjörstímabil á árinu 2006, en vangreiddur virðisaukaskattur að teknu tilliti til innskatts telst nema 1.650.079 kr. Af þessum sökum ber að ákvarða gjaldanda, A, sekt samkvæmt 6. mgr., sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995.

Eins og lög nr. 50/1988 hljóða eftir breytingar, sem á þeim voru gerðar með lögum nr. 42/1995, skal sekt aldrei vera lægri en sem nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin eða vanrækt var greiðsla á. Við ákvörðun sektar ber að taka tillit til álags samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988. Þá þykir bera að taka tillit til þess að dráttur hefur orðið á meðferð málsins án þess að gjaldanda verði um kennt. Að þessu virtu þykir sekt gjaldanda hæfilega ákveðin 3.100.000 kr. til ríkissjóðs.

Úrskurðarorð:

Gjaldandi, A, greiði sekt að fjárhæð 3.100.000 kr. til ríkissjóðs.

 

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum