2010

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 25/2010

17.2.2010

Úrskurður nr. 25/2010                                                                

ÚRSKURÐUR YFIRSKATTANEFNDAR

Ár 2010, miðvikudaginn 17. febrúar, er tekið fyrir mál nr. 260/2008; krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um að A, kt. [...], verði gerð sekt vegna meintra brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Ragnheiður Snorradóttir og Valdimar Guðnason. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi, dags. 4. nóvember 2008, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A, kt. [...], fyrir brot á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, bæði með áorðnum breytingum, framin vegna rekstraráranna 2005 og 2006.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

„A er gefið að sök eftirfarandi:

1. Vanræksla á skilum á skattframtölum. Vanframtaldar rekstrartekjur. Möguleg rekstrargjöld.

A er gefið að sök að hafa, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, staðið skattstjóranum í Reykjanesumdæmi skil, á skattframtölum og fylgigögnum þeirra vegna álagningar opinberra gjalda, gjaldárin 2006 og 2007, vegna rekstraráranna 2005 og 2006. Með því vanrækti hann að gera grein fyrir rekstrartekjum sínum að fjárhæð kr. 4.904.839 vegna rekstrarársins 2005 og kr. 4.926.731 vegna rekstrarársins 2006, sem til eru komnar vegna starfa A sem [...] Möguleg rekstrargjöld námu kr. 3.856.712 vegna rekstrarársins 2005 og kr. 3.024.000 vegna rekstrarársins 2006. Skattstjórinn í Reykjanesumdæmi áætlaði tekjuskatts- og útsvarsstofna A vegna rekstrarársins 2005 kr. 2.700.000, auk álags kr. 385.380 og vegna rekstrarársins 2006 kr. 3.100.000, auk álags kr. 231.375. A stóð skil á skattframtali vegna rekstrarársins 2005 eftir lögboðinn framtalsfrest og eftir að rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins hófst, eða þann 7. nóvember 2007.

Framangreind háttsemi A leiddi ekki til ákvörðunar lægri tekjuskatts- og útsvarsstofna hans en vera bar vegna rekstraráranna 2005 og 2006.

Sú háttsemi A sem lýst hefur verið hér að framan brýtur í bága við ákvæði 90. gr., sbr. B lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 22. gr. og 19. gr. og 1. mgr. 21. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga.

Varðar framanlýst háttsemi A sekt samkvæmt 6. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

2. Vanræksla á tilkynningu um virðisaukaskattsskylda starfsemi. Vanræksla á skilum á virðisaukaskattsskýrslum.  Vanframtalin skattskyld velta og útskattur. Mögulegur innskattur.

A er gefið að sök, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, að hafa vanrækt að tilkynna um virðisaukaskattsskylda starfsemi sína til skattyfirvalda og að hafa vanrækt að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum vegna virðisaukaskattsskyldrar starfsemi sinnar til skattstjórans í Reykjanesumdæmi vegna allra uppgjörstímabila rekstraráranna 2005 og 2006 og vanframtelja með því skattskylda veltu og virðisaukaskatt. Samkvæmt niðurstöðu skattrannsóknarstjóra ríkisins nemur vanframtalin skattskyld velta samtals kr. 9.831.570 og vanframtalinn útskattur samtals kr. 2.408.733. Mögulegur innskattur nemur samtals kr. 25.842. A stóð skil á virðisaukaskattsskýrslum vegna allra uppgjörstímabila rekstrarársins 2005 eftir að rannsókn skattrannsóknarstjóra hófst, eða þann 8. nóvember 2007.

Sundurliðast vanframtalin skattskyld velta og virðisaukaskattur svo sem hér greinir:

 

Rekstrarár

 

Uppgjörs-tímabil

Vantalin skattskyld velta Vanframtalinn útskattur Vanframtalinn innskattur
2005 jan. – feb. 636.927 156.047 2.885
2005 mar. – apr. 682.316 167.167 2.200
2005 maí – jún. 851.148 208.530 4.849
2005 júl. – ágú. 791.908 194.018 1.951
2005 sept. – okt. 1.057.608 259.115 5.176
2005 nóv. – des. 884.932 216.807 8.781
Samtals kr.   4.904.839 1.201.684 25.842
2006 jan. – feb. 762.075 186.707 0
2006 mar. – apr. 808.937 198.190 0
2006 maí – jún. 693.964 170.021 0
2006 júl. – ágú. 855.262 209.540 0
2006 sept. – okt. 701.918 171.969 0
2006 nóv. – des. 1.104.575 270.622 0
Samtals kr.   4.926.731 1.207.049 0
Samtals bæði árin kr.   9.831.570 2.408.733 25.842

 Sú háttsemi A sem hér hefur verið lýst brýtur í bága við ákvæði 1. mgr. 5. gr., 1. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 24. gr., sbr. aðalreglur 1. gr., 2. gr., 1. tl. 1. mgr. 3. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. mgr. 13. gr., 1. mgr. 14. gr. og 19. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum. 

Varðar framanlýst háttsemi A sekt samkvæmt 1. og 3. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.

Þess er krafist að A verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 4. nóvember 2008, sem fylgdi kröfugerðinni.

II.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 5. nóvember 2008, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef hann vildi ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál hans og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 2. mgr. 110. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 2. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Engar athugasemdir hafa borist frá gjaldanda.

III.

1. Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 4. nóvember 2008, er gerð sú krafa að gjaldanda, A, verði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Gjaldandi hefur átt þess kost að koma að vörnum fyrir yfirskattanefnd í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins, en engar athugasemdir hafa borist. Þar sem gjaldandi hefur ekki gert athugasemdir við meðferð máls þessa fyrir yfirskattanefnd verður að líta svo á að hann mæli því ekki í gegn að það sæti sektarmeðferð fyrir nefndinni.

2. Sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins í máli þessu er byggð á niðurstöðum rannsóknar embættisins á bókhaldi og skattskilum gjaldanda vegna rekstraráranna 2005 og 2006, sbr. skýrslu um rannsóknina, dags. 15. febrúar 2008. Rannsókn þessi hófst formlega hinn 24. október 2007 og beindist bæði að rekstrartekjum og rekstrargjöldum gjaldanda svo og að virðisaukaskattsskilum hans vegna sjálfstæðrar starfsemi við [...] á rannsóknartímabilinu. Vegna rannsóknarinnar voru teknar skýrslur af gjaldanda hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins dagana 5. desember 2007 og 18. janúar 2008 og var rannsóknin byggð á upplýsingum sem þar komu fram, en einnig var byggt á bókhaldi og bókhaldsgögnum gjaldanda, sölureikningum, skattframtali og ársreikningi gjaldanda og virðisaukaskattsskýrslum svo og upplýsingakerfi ríkisskattstjóra. Með bréfi, dags. 28. janúar 2008, sendi skattrannsóknarstjóri gjaldanda skýrslu um rannsóknina, sem dagsett var sama dag, og gaf honum kost á að tjá sig um efni hennar áður en ákvörðun yrði tekin um framhald málsins. Engar athugasemdir voru gerðar af hálfu gjaldanda og var lokaskýrsla skattrannsóknarstjóra ríkisins efnislega samhljóða hinni fyrri að viðbættum kafla um lok rannsóknarinnar.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 15. febrúar 2008, voru helstu niðurstöður rannsóknarinnar teknar saman með svofelldum hætti:

„Niðurstöður rannsóknar á bókhaldi og skattskilum skattaðila fyrir rekstrarárin 2005 og 2006 eru:

·1  Vanrækt var að standa skil á skattframtali og ársreikningi.

·2  Vanrækt var að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum.

·3  Bókhald vegna rekstrarársins 2005 hefur verið fært.

·4  Bókhald hefur ekki fengist afhent vegna rekstrarársins 2006.

·5  Skattskyld velta, útskattur og rekstrartekjur eru vantaldar rekstrarárin 2005 og 2006.

·6  Skattaðili stóð skil á skattframtali, ársreikningi og virðisaukaskatts-skýrslum vegna rekstrarársins 2005, eftir að rannsókn hófst.“

Þá gerði skattrannsóknarstjóri ríkisins tölulega grein fyrir niðurstöðum rannsóknarinnar í töflu í niðurlagi skýrslu sinnar. Þar kom fram að skattskyld velta gjaldanda væri vantalin um 4.904.839 kr. rekstrarárið 2005 og 4.926.731 kr. rekstrarárið 2006 og rekstrartekjur um sömu fjárhæðir greind ár. Rekstrargjöld að meðtöldu reiknuðu endurgjaldi væru að fjárhæð 3.856.712 kr. rekstrarárið 2005 og 3.024.000 kr. rekstrarárið 2006. Innskattur rekstrarárið 2005 næmi 25.842 kr. Þá var gerð grein fyrir fjárhæð vangreidds útskatts og vantalins reiknaðs endurgjalds.

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins var mál gjaldanda sent ríkisskattstjóra til meðferðar, sbr. m.a. 6. mgr. 103. gr., sbr. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 5. mgr. 39. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. bréf skattrannsóknarstjóra, dags. 15. febrúar 2008. Á grundvelli rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins og í framhaldi af bréfi til gjaldanda, dags. 14. maí 2008, sem gjaldandi svaraði ekki, tók ríkisskattstjóri áður álögð opinber gjöld gjaldanda gjaldárið 2007 og virðisaukaskatt árið 2006 til endurákvörðunar með úrskurði um endurákvörðun, dags. 27. júní 2008. Fram kom að gjaldandi hefði staðið skil á skattframtali sínu árið 2006 meðan á rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins stóð og hefði skattstjóri athugasemdalaust fallist á að leggja hið innsenda skattframtal til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldanda gjaldárið 2006. Þá hefði gjaldandi staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum fyrir árið 2005. Þætti ekki ástæða til að hrófla við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2006 eða ákvörðun virðisaukaskatts gjaldanda vegna rekstrarársins 2005. Breytingar ríkisskattstjóra vörðuðu samkvæmt þessu í fyrsta lagi endurákvörðun virðisaukaskatts kæranda árið 2006 vegna ákvörðunar skattskyldrar veltu í 24,5% skattþrepi að fjárhæð samtals 4.926.731 kr. uppgjörstímabilin janúar-febrúar til og með nóvember-desember 2006. Ekki féllst ríkisskattstjóri á neinn innskatt til frádráttar útskatti gjaldanda. Samkvæmt úrskurði ríkisskattstjóra varð virðisaukaskattur gjaldanda því 1.207.049 kr. árið 2006. Á þá fjárhæð bætti ríkisskattstjóri álagi samkvæmt 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, að fjárhæð 120.705 kr. Í öðru lagi ákvarðaði ríkisskattstjóri gjaldanda reiknað endurgjald vegna greiðslutímabilanna janúar til og með desember 2006 að fjárhæð samtals 3.024.000 kr. Fram kom að samkvæmt því og að teknu tilliti til ónýtts persónuafsláttar væri vangreidd skilaskyld staðgreiðsla gjaldanda samkvæmt ákvæðum laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, samtals 1.095.415 kr. árið 2006. Álag vegna vangreiddrar staðgreiðslu, sbr. 1. og 2. tölul. 2. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987, nam samtals 390.299 kr. Í þriðja lagi ákvarðaði ríkisskattstjóri stofn gjaldanda til tryggingagjalds gjaldárið 2007 að fjárhæð 3.205.440 kr. og tók í því sambandi tillit til 6% mótframlags vinnuveitanda í lífeyrissjóð, sbr. 6. og 7. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald. Var tryggingagjald ákvarðað 185.592 kr. gjaldárið 2007. Í fjórða lagi endurákvarðaði ríkisskattstjóri tekjuskatt og útsvar gjaldanda gjaldárið 2007. Í því sambandi kom fram að byggt væri á fjárhæð rekstrartekna 4.926.731 kr., reiknaðs endurgjalds 3.024.000 kr., tryggingagjalds 185.592 kr. og mótframlags í lífeyrissjóð 181.440 kr. Þannig næmi hagnaður af rekstri 1.535.699 kr. rekstrarárið 2006. Að teknu tilliti til áætlaðs skattstofns lækkaði tekjuskatts- og útsvarsstofn gjaldanda úr 7.100.000 kr. í 4.559.699 kr. eða um 2.540.301 kr. og 15% álag samkvæmt 1. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 lækkaði úr 831.375 kr. í 683.955 kr. Gjaldandi nýtti sér ekki heimilaðar málskotsleiðir vegna þessa úrskurðar ríkisskattstjóra.

3. Fram kemur í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 15. febrúar 2008, að gjaldandi hafi ekki talið fram til skatts gjaldárin 2006 og 2007 innan tilskilins framtalsfrests og hafi skattstjóri áætlað tekjuskatts- og útsvarsstofn gjaldanda við almenna álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2006 og 2007 með 2.700.000 kr. fyrra árið og 3.100.000 kr. síðara árið og ákvarðað álag 385.380 kr. fyrra árið og 231.375 kr. það síðara. Skattframtali gjaldanda árið 2006 hafi verið skilað hinn 7. nóvember 2007, þ.e. eftir að rannsókn hafi verið hafin á skattskilum hans. Þá hafi gjaldandi staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum vegna allra uppgjörstímabila ársins 2005. Gjaldandi hafi afhent bókhaldsgögn sín vegna ársins 2005 og hafi verið um fært bókhald að ræða. Bókhaldsgögn hafi ekki fengist afhent vegna rekstrarársins 2006. Fyrirliggjandi séu tvö form sölureikninga, annars vegar á númerabilinu 115-223 og hins vegar á númerabilinu 251-253, en í fyrra sölureikningsheftið vanti 21 sölureikning til að númeraröð sé samfelld. Við skýrslutöku greindi gjaldandi frá því að seinagangur bókara hefði valdið síðbúnum framtalsskilum gjaldárið 2006, en að því er varðaði gjaldárið 2007 kom fram að gjaldandi hefði afhent bókara bókhaldsgögn sín fyrir rekstrarárið 2006 og hefði bókarinn átt að standa skil á skattframtali og ársreikningi fyrir hönd gjaldanda. Gjaldandi staðfesti að fyrirliggjandi virðisaukaskattsskýrslur væru vegna rekstrar síns og taldi að þær væru réttar. Trassaskapur hefði valdið síðbúnum skilum á virðisaukaskattsskýrslum.

Niðurstöður skattrannsóknarstjóra ríkisins um rekstrartekjur og skattskylda veltu gjaldanda rekstrarárin 2005 og 2006 byggja á umræddum sölureikningum gjaldanda, nánar tiltekið 34 sölureikningum frá árinu 2005 og 26 frá árinu 2006, samtals að fjárhæð 6.106.523 kr. fyrra árið og 6.133.780 kr. síðara árið, sem allir eru á hendur X ehf. nema tveir sölureikningar árið 2006 sem eru á hendur Y ehf. Tekið er fram í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins að ekki verði talið að vöntun sölureikninga gefi tilefni til að meta ætlaðan undandrátt í samræmi við 3. mgr. 16. gr. reglugerðar nr. 373/2001, um framkvæmd skatteftirlits og skattrannsókna, m.a. þar sem rannsókn á bankareikningi gjaldanda hafi ekki leitt í ljós neinar innborganir vegna viðskipta sem gætu talist ótekjufærð.

Á grundvelli þessara gagna er í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins gerð grein fyrir rekstrartekjum og skattskyldri veltu gjaldanda að fjárhæð 4.904.839 kr. rekstrarárið 2005 og 4.926.731 kr. rekstrarárið 2006 og að skattskyld velta og rekstrartekjur séu vantaldar um þá fjárhæð. Fram kemur að samkvæmt innsendu skattframtali gjaldanda árið 2006 og virðisaukaskattsskýrslum vegna rekstrarársins 2005 séu rekstrartekjur og skattskyld velta tilgreind 5.018.172 kr., þ.e. nokkru hærri en samkvæmt sölureikningum, en það sé mat skattrannsóknarstjóra að lægri fjárhæðin sé rétt.

Í kafla um rannsókn á rekstrargjöldum og innskatti gjaldanda er greint frá því að samkvæmt fyrirliggjandi skattframtali og ársreikningi fyrir árið 2005 séu rekstrargjöld gjaldanda samtals 3.856.712 kr. og innskattur 25.842 kr. og við skýrslutöku hafi gjaldandi staðfest að ekki sé um frekari rekstrarkostnað eða innskatt að ræða en þar komi fram. Aðspurður kvaðst gjaldandi hafa stofnað til rekstrargjalda á árinu 2006 en hann hefði afhent bókara sínum bókhaldsgögn vegna þess árs og yrði bókarinn að svara nánar um það hvort um slík gjöld væri að ræða. Samkvæmt skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins var því beint til bókara gjaldanda, B, að afhenda bókhaldsgögn gjaldanda vegna rekstraráranna 2005 og 2006, en aðeins bárust gögn vegna ársins 2005.

4. Sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins í máli þessu er tvíþætt og má ráða af fyrirsögn fyrri liðar kröfugerðarinnar og umfjöllun í meðfylgjandi greinargerð að hann varði vanrækslu á skilum á skattframtölum árin 2006 og 2007 innan lögboðins framtalsfrests þau ár og að vegna þessarar vanrækslu hafi rekstrartekjur verið vantaldar um þargreinda fjárhæð en jafnframt hafi verið til að dreifa mögulegum rekstrargjöldum. Þetta kemur hins vegar ekki skýrt fram í meginmáli kröfugerðarinnar og virðist lýsing á ætlaðri refsiverðri háttsemi hafa brenglast í kröfugerðinni. Verður því naumast talið að fullnægt sé áskilnaði 37. gr. reglugerðar nr. 373/2001, um framkvæmd skatteftirlits og skattrannsókna, varðandi efni kröfugerðar til yfirskattanefndar. Að svo vöxnu er þessum lið kröfugerðar skattrannsóknarstjóra ríkisins vísað frá yfirskattanefnd.

Síðari liður kröfugerðar skattrannsóknarstjóra ríkisins byggir á því að gjaldandi hafi vanrækt skil á virðisaukaskattsskýrslum vegna allra uppgjörstímabila áranna 2005 og 2006 og því vantalið skattskylda veltu um samtals 9.831.570 kr. og virðisaukaskatt um 2.382.891 kr. Eins og tekið er fram í kröfugerðinni stóð gjaldandi skil á virðisaukaskattsskýrslum vegna uppgjörstímabila ársins 2005 hinn 8. nóvember 2007 eða stuttu eftir að rannsókn skattrannsóknarstjóra hófst.

Gjaldandi hefur sem fyrr segir ekki gert athugasemdir í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins og við skýrslutöku, sem fram fór hjá skattrannsóknarstjóra vegna rannsóknar málsins, kom fram viðurkenning gjaldanda á því að hann hefði ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum og innheimtum virðisaukaskatti vegna seldrar þjónustu á árinu 2006 svo og kom fram að virðisaukaskattsskýrslum vegna ársins 2005 var skilað hinn 8. nóvember 2007. Í máli því, sem hér er til meðferðar, er um að tefla kröfugerð um ákvörðun sektar á hendur gjaldanda m.a. samkvæmt þar tilgreindum ákvæðum 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sem gera ráð fyrir því að sektarákvörðun sé bundin þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin. Verður því að taka afstöðu til þess hvort skattrannsóknarstjóri ríkisins hafi með skattrannsókn sinni sýnt fram á hverju skattfjárhæð, sem undan var dregin, hafi að minnsta kosti numið. Allan vafa í því sambandi verður að meta gjaldanda í hag, sbr. grundvallarreglu 108. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, sbr. áður 45. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála.

Eins og fram er komið eru tölulegar niðurstöður samkvæmt rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á bókhaldi og skattskilum gjaldanda vegna áranna 2005 og 2006 byggðar á útgefnum sölureikningum gjaldanda sem skattrannsóknarstjóri aflaði vegna rannsóknar málsins. Virðisaukaskattur er tilgreindur á öllum sölureikningum gjaldanda og nemur skattskyld velta samkvæmt þeim 4.904.839 kr. rekstrarárið 2005 og 4.926.731 kr. rekstrarárið 2006. Sölureikningar þessir voru lagðir fyrir gjaldanda við skýrslutökur hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 5. desember 2007 og 18. janúar 2008 og staðfesti gjaldandi að hafa gefið út umrædda sölureikninga og að þeir hefðu allir fengist greiddir. Er óumdeilt að um sé að ræða tekjur af sjálfstæðri starfsemi, svo sem byggt er á í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins án þess að athugasemdir hafi komið fram af hálfu gjaldanda. Samkvæmt þessu og að virtum gögnum málsins að öðru leyti þykir ekkert komið fram sem gefur tilefni til annars en að miða við þá fjárhæð rekstrartekna og skattskyldrar veltu sem greinir í niðurstöðum skattrannsóknarstjóra ríkisins. Ekkert hefur komið fram um hugsanlegan innskattsfrádrátt gjaldanda árið 2006.

Samkvæmt gögnum málsins liggur fyrir að gjaldandi, sem skyldur var til þess að standa skil á virðisaukaskatti, sbr. 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, stóð ekki á tilskildum tíma skil á virðisaukaskattsskýrslum og virðisaukaskatti fyrir þau uppgjörstímabil sem sektarkrafa tekur til. Framangreind háttsemi varðar gjaldanda sekt samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995, enda verður að telja að huglægum refsiskilyrðum samkvæmt þessum lagaákvæðum sé fullnægt. Takmarkaðar upplýsingar eru í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins um tildrög þess að gjaldandi var felldur af grunnskrá virðisaukaskatts hinn 14. mars 2005, en við skýrslutöku 5. desember 2007 neitaði gjaldandi því að hafa haft vitneskju um afskráninguna. Eins og þessi þáttur málsins liggur fyrir verður gjaldanda ekki gerð sekt vegna vanrækslu á tilkynningarskyldu samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1988.

Samkvæmt breytingum á refsiákvæðum skattalaga, sem gerðar voru með lögum nr. 42/1995 og tóku gildi 9. mars 1995, skal sekt aldrei vera lægri en sem nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin, þó að teknu tilliti til álags. Við ákvörðun sektarfjárhæðar þykir með hliðsjón af ákvæði 4. mgr. 37. gr. A reglugerðar nr. 373/2001, um framkvæmd skatteftirlits og skattrannsókna, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 334/2006, mega taka tillit til þess að í tengslum við rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins stóð gjaldandi skil á virðisaukaskattsskýrslum vegna uppgjörstímabila á árinu 2005 sem reyndust vera í samræmi við meginþátt rannsóknarinnar og verður að ganga út frá því að hann hafi jafnframt staðið skil á virðisaukaskatti samkvæmt skýrslunum, enda kemur ekki annað fram í gögnum málsins. Því þykja skilyrði til þess að færa fésekt niður fyrir lögbundið lágmark sektarrefsingar, sbr. 8. tölul. 1. mgr. 74. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá ber að líta til þess að dráttur hefur orðið á meðferð málsins án þess að gjaldanda verði um kennt. Að þessu virtu, málsatvikum að öðru leyti og að teknu tilliti til álags samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 þykir sekt gjaldanda hæfilega ákveðin 2.000.000 kr. til ríkissjóðs.

Úrskurðarorð:

Gjaldandi, A, greiði sekt að fjárhæð 2.000.000 kr. til ríkissjóðs.

 

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum