2010

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 18/2010

17.2.2010

Úrskurður nr. 18/2010                                                                 

ÚRSKURÐUR YFIRSKATTANEFNDAR

Ár 2010, miðvikudaginn 17. febrúar, er tekið fyrir mál nr. 234/2008; krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um að A, kt. [...], verði gerð sekt vegna meintra brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Ragnheiður Snorradóttir og Kristinn Gestsson. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi, dags. 15. október 2008, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A, kt. [...], fyrir brot á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum, framin vegna rekstraráranna 2004, 2005 og 2006.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

„A er gefið að sök eftirfarandi:

Vanræksla á að tilkynna um virðisaukaskattsskylda starfsemi. Vanræksla á skilum á virðisaukaskattsskýrslum. Vanframtalin skattskyld velta og útskattur. Mögulegur innskattur.

A er gefið að sök, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, að hafa vanrækt að tilkynna um virðisaukaskattsskylda starfsemi sína til skattyfirvalda. Þá er A gefið að sök að hafa vanrækt að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum til skattstjórans í Reykjavík vegna allra uppgjörstímabila rekstraráranna 2004, 2005 og 2006 og vanframtelja með því skattskylda veltu og virðisaukaskatt. Samkvæmt niðurstöðu skattrannsóknarstjóra ríkisins nemur vanframtalin skattskyld velta samtals kr. 15.127.295 og vanframtalinn útskattur samtals kr. 3.706.174. Mögulegur innskattur nemur samtals kr. 99.112.

Sundurliðast vantalin skattskyld velta og virðisaukaskattur svo sem hér greinir:

 

Rekstrarár

 

Uppgjörstímabil

Vanframtalin skattskyld velta Vanframtalinn útskattur Vanframtalinn innskattur
2004 jan. – feb. 450.450 110.360 1.151
2004 mars – apríl 981.750 240.528 271
2004 maí – júní 698.450 171.119 0
2004 júlí – ágúst 1.197.325 293.343 1.743
2004 sept. – okt. 554.600 135.876 0
2004 nóv. – des. 966.263 236.733 1.104
Samtals kr.   4.848.838 1.187.959 4.269
2005 jan. – feb. 695.250 170.334 2.897
2005 mars – apríl 863.700 211.606 3.121
2005 maí – júní 944.550 231.415 8.099
2005 júlí – ágúst 846.286 207.339 15.147
2005 sept. – okt. 859.264 210.520 33.582
2005 nóv. – des. 907.607 222.362 4.752
Samtals kr.   5.116.657 1.253.576 67.598
2006 jan. – feb. 750.000 183.749 4.368
2006 mars – apríl 830.000 203.350 6.815
2006 maí – júní 815.000 199.675 7.772
2006 júlí – ágúst 841.700 206.216 5.645
2006 sept. – okt. 1.001.700 245.416 1.473
2006 nóv. – des. 923.400 226.233 1.172
Samtals kr.   5.161.800 1.264.639 27.245
Samtals öll árin kr. 15.127.295 3.706.174 99.112  

Sú háttsemi A sem hér hefur verið lýst brýtur í bága við ákvæði 1. mgr. 5. gr., 1. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 24. gr., sbr. aðalreglur 1. gr., 2. gr., 1. tl. 1. mgr. 3. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. mgr. 13. gr., 1. mgr. 14. gr. og 19. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum. 

Varðar framanlýst háttsemi A sekt samkvæmt 1. og 3. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.”

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 15. október 2008, sem fylgdi kröfugerðinni.

II.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 16. október 2008, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef hann vildi ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál hans og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 2. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Engar athugasemdir hafa borist frá gjaldanda.

III.

1. Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 15. október 2008, er gerð sú krafa að gjaldanda, A, verði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Gjaldandi hefur átt þess kost að koma að vörnum fyrir yfirskattanefnd í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins, en engar athugasemdir hafa borist. Þar sem gjaldandi hefur ekki gert athugasemdir við meðferð máls þessa fyrir yfirskattanefnd verður að líta svo á að hann mæli því ekki í gegn að það sæti sektarmeðferð fyrir nefndinni.

2. Sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins í máli þessu er byggð á niðurstöðum rannsóknar embættisins á bókhaldi og skattskilum gjaldanda vegna rekstraráranna 2004, 2005 og 2006, sbr. skýrslu um rannsóknina, dags. 12. nóvember 2007. Rannsókn þessi hófst formlega hinn 11. september 2007 og beindist að bókhaldi og virðisaukaskattsskilum gjaldanda vegna sjálfstæðrar starfsemi hans við [...] á rannsóknartímabilinu. Var rannsóknin einkum byggð á upplýsingum sem fram komu við skýrslutökur af gjaldanda dagana 27. september og 15. október 2007 og á bókhaldsgögnum gjaldanda og upplýsingum úr upplýsingakerfi ríkisskattstjóra. Með bréfi, dags. 25. október 2007, sendi skattrannsóknarstjóri gjaldanda skýrslu, dags. 24. október 2007, sem þá lá fyrir um rannsóknina, og gaf honum kost á að tjá sig um efni hennar. Af hálfu gjaldanda voru engar athugasemdir gerðar og var lokaskýrsla skattrannsóknarstjóra ríkisins efnislega samhljóða hinni fyrri að viðbættum kafla um lok rannsóknarinnar.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 12. nóvember 2007, voru helstu niðurstöður rannsóknarinnar teknar saman með svofelldum hætti:

„Niðurstöður rannsóknar á bókhaldi og skattskilum skattaðila fyrir rekstrarárin  2004, 2005 og 2006 eru:

·1  Virðisaukaskattsskýrslum hefur ekki verið skilað.

·2  Bókhald hefur ekki verið fært.

·3  Skattskyld velta og útskattur eru vanframtalin.

·4  Innskattur er vanframtalinn“

Þá gerði skattrannsóknarstjóri ríkisins tölulega grein fyrir niðurstöðum rannsóknarinnar í töflu í niðurlagi skýrslu sinnar. Þar kom fram að skattskyld velta gjaldanda væri vantalin um 4.848.838 kr. rekstrarárið 2004, 5.116.657 kr. rekstrarárið 2005 og 5.161.800 kr. rekstrarárið 2006 og útskattur um 1.187.959 kr. fyrsta árið, 1.253.576 kr. annað árið og 1.264.639 kr. þriðja árið. Þá væri innskattur vantalinn um 4.269 kr. rekstrarárið 2004, 67.598 kr. rekstrarárið 2005 og 27.245 kr. rekstrarárið 2006.

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins var mál gjaldanda sent ríkisskattstjóra til meðferðar, sbr. 5. mgr. 39. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. bréf skattrannsóknarstjóra, dags. 13. nóvember 2007. Á grundvelli rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins og í framhaldi af bréfi til gjaldanda, dags. 9. apríl 2008, sem gjaldandi svaraði ekki, endurákvarðaði ríkisskattstjóri með úrskurði, dags. 4. júní 2008, virðisaukaskatt gjaldanda árin 2004, 2005 og 2006. Samkvæmt úrskurðinum var skattskyld velta gjaldanda ákvörðuð 4.848.838 kr. rekstrarárið 2004, 5.116.657 kr. rekstrarárið 2005 og 5.161.800 kr. rekstrarárið 2006 og kom fram að þær fjárhæðir væru í samræmi við niðurstöður skattrannsóknarstjóra ríkisins. Að teknu tilliti til innskatts ákvarðaðist virðisaukaskattur til greiðslu 1.183.696 kr. fyrsta árið, 1.185.978 kr. annað árið og 1.237.394 kr. það þriðja auk álags samkvæmt 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988. Gjaldandi nýtti sér ekki heimilaðar málskotsleiðir vegna þessa úrskurðar ríkisskattstjóra.

3. Fram kemur í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 12. nóvember 2008, að gjaldandi hafi ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum vegna rekstraráranna 2004, 2005 og 2006. Þá er greint frá því að samkvæmt virðisaukaskattskerfi ríkisskattstjóra sé lokadagsetning sjálfstæðrar starfsemi gjaldanda 31. desember 1999. Gjaldandi hafi afhent sölureikninga sína og kostnaðarreikninga sem hann hefði varðveitt. Fyrirliggjandi séu 147 sölureikningar gjaldanda, en sölureikninga vanti til þess að um samfellda númeraröð sé að ræða. Tekið er fram að ekki þyki tilefni til að leggja mat á ætlaðan undandrátt vegna vöntunar sölureikninga.

Niðurstöður skattrannsóknarstjóra ríkisins um fjárhæð skattskyldrar veltu gjaldanda árin 2004, 2005 og 2006 byggja á umræddum sölureikningum gjaldanda greind ár, samtals að fjárhæð 6.036.797 kr. árið 2004,  6.370.233 kr. árið 2005 og 6.426.439 kr. árið 2006. Er þá tekið tillit til framburðar gjaldanda um að hann hafi gefið 15.000 kr. afslátt vegna tveggja sölureikninga árið 2005. Samkvæmt því er niðurstaða skattrannsóknarstjóra um þennan þátt sú að skattskyld velta sé vantalin um 4.848.838 kr. árið 2004, 5.116.657 kr. árið 2005 og 5.161.800 kr. árið 2006 og útskattur um 1.187.959 kr. fyrsta árið, 1.253.576 kr. annað árið og 1.264.629 kr. þriðja árið.

Í kafla um rannsókn á rekstrargjöldum og innskatti er vísað til þess að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum gjaldanda og upplýsingum hans við skýrslutöku nemi innskattur 4.269 kr. rekstrarárið 2004, 67.598 kr. rekstrarárið 2005 og 27.245 kr. rekstrarárið 2006.

Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 27. september 2007 kom fram af hálfu gjaldanda að hann hefði starfað við [...] á árunum 2004, 2005 og 2006 og aðallega unnið fyrir X ehf., Y og Z. Hann hefði ekki fært bókhald vegna starfseminnar, en varðveitt útgefna sölureikninga og gögn um rekstrarkostnað. Hann hefði gefið út sölureikninga vegna allrar seldrar þjónustu. Gjaldandi kvað trassaskap hafa valdið því að skil hefðu ekki verið gerð á skattframtölum hans árin 2005, 2006 og 2007. Hann hefði tekið sig af virðisaukaskattsskrá þegar hann gerðist launþegi árið 1999 en vegna trassaskapar ekki skráð sig aftur þegar hann hóf aftur sjálfstæða starfsemi tveimur árum síðar. Við skýrslutökuna voru lögð fyrir gjaldanda afrit sölureikninga sem hann var talinn hafa gefið út á árunum 2004, 2005 og 2006, samtals að fjárhæð 18.848.469 kr., ásamt samantekt skattrannsóknarstjóra ríkisins, og staðfesti gjaldandi að hafa gefið þessa reikninga út og fengið þá flesta greidda. Kvaðst gjaldandi ætla að kanna betur hvaða reikninga hann hefði ekki fengið greidda og koma upplýsingum þar að lútandi til skattrannsóknarstjóra ríkisins eigi síðar en 4. október 2007. Aðspurður um rekstrargjöld vegna öflunar umræddra tekna, sbr. samantekt skattrannsóknarstjóra ríkisins á gjaldafylgiskjölum, sagði gjaldandi að gögn vantaði um símakostnað og að hann ætlaði að afla upplýsinga um þau útgjöld eigi síðar en 4. október 2007.

Við skýrslutöku 15. október 2007 var ný samantekt skattrannsóknarstjóra ríkisins um rekstrargjöld og innskatt gjaldanda lögð fyrir gjaldanda og kvaðst hann ekki gera athugasemdir við samantektina. Aðspurður um sölureikninga sem ekki hefðu fengist greiddir, sbr. framburð gjaldanda við fyrri skýrslutöku, sagðist gjaldandi hafa fengið alla útgefna reikninga greidda að öðru leyti en því að hann hefði gefið samtals 15.000 kr. afslátt vegna tveggja reikninga. Gjaldandi gat ekki afhent sölureikninga sem vantaði til að númeraröð þeirra væri samfelld.

4. Gjaldandi hefur sem fyrr segir ekki gert athugasemdir í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins og við skýrslutökur, sem fram fóru hjá skattrannsóknarstjóra vegna rannsóknar málsins, kom fram viðurkenning gjaldanda á því að hann hefði ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum og innheimtum virðisaukaskatti vegna seldrar þjónustu á árunum 2004, 2005 og 2006. Í máli því, sem hér er til meðferðar, er um að tefla kröfugerð um ákvörðun sektar á hendur gjaldanda samkvæmt þar tilgreindum ákvæðum 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sem gera ráð fyrir því að sektarákvörðun sé bundin þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin. Verður því að taka afstöðu til þess hvort skattrannsóknarstjóri ríkisins hafi með skattrannsókn sinni sýnt fram á hverju skattfjárhæð, sem undan var dregin, hafi að minnsta kosti numið. Allan vafa í því sambandi verður að meta gjaldanda í hag, sbr. grundvallarreglu 108. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, sbr. áður 45. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála.

Eins og rakið er að framan eru tölulegar niðurstöður samkvæmt rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins að því er varðar skattskylda veltu gjaldanda árin 2004, 2005 og 2006 byggðar á útgefnum sölureikningum gjaldanda. Sölureikningar þessir eru að fjárhæð 6.036.797 kr. árið 2004, 6.385.233 kr. árið 2005 og 6.426.439 kr. árið 2006, en í niðurstöðum skattrannsóknarstjóra ríkisins er tekið tillit til þess að gjaldandi hafi gefið 15.000 kr. afslátt af fjárhæð sölureikninga árið 2005. Á þessum grundvelli er í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins gerð grein fyrir meintum vantöldum rekstrartekjum og skattskyldri veltu að fjárhæð 4.848.838 kr. rekstrarárið 2004, 5.116.576 kr. rekstrarárið 2005 og 5.161.800 kr. rekstrarárið 2006. Af hálfu gjaldanda er viðurkennt að tekjur hans hafi numið þeim fjárhæðum sem sölureikningar þessir bera með sér að teknu tilliti til afsláttar, sbr. framburð gjaldanda við skýrslutökur hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 27. september og 15. október 2007. Gjaldandi var ekki skráður í grunnskrá virðisaukaskatts á þeim tíma sem rannsóknin beindist að, en innheimti virðisaukaskatt af seldri vinnu eða þjónustu samkvæmt útgefnum sölureikningum sem þar var tilgreind sem [...] eða hliðstæð þjónusta. Verður að skilja framburð gjaldanda við fyrrgreindar skýrslutökur þannig að hann líti svo á að í öllum tilvikum sé um að ræða tekjur af sjálfstæðri starfsemi, svo sem byggt er á í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins án þess að athugasemdir hafi komið fram af hálfu gjaldanda. Að þessu virtu verður einnig við það miðað í úrskurði þessum að um tekjur af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi hafi verið að ræða. Samkvæmt þessu og að virtum gögnum málsins að öðru leyti þykir ekkert komið fram sem gefur tilefni til annars en að miða við þær fjárhæðir rekstrartekna og skattskyldrar veltu sem greinir í niðurstöðum skattrannsóknarstjóra ríkisins.

Gjaldandi afhenti skattrannsóknarstjóra ríkisins kostnaðargögn vegna sjálfstæðrar starfsemi sinnar og eru niðurstöður rannsóknar skattrannsóknarstjóra um innskatt byggðar á þeim. Ekkert hefur komið fram í málinu sem gefur tilefni til þess að tekið verði tillit til innskatts með hærri fjárhæð en greinir í rannsóknarskýrslu.

Fullsannað þykir samkvæmt því sem að framan er rakið og að öðru leyti með stoð í gögnum málsins, m.a. framburði gjaldanda við skýrslutökur hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins, að gjaldandi, sem skyldur var til þess að standa skil á virðisaukaskatti, sbr. 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988, hafi á saknæman hátt vanrækt að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum öll uppgjörstímabil áranna 2004, 2005 og 2006 og þannig vanrækt að gera grein fyrir virðisaukaskatti til greiðslu samtals að fjárhæð 3.607.062 kr. umrædd uppgjörstímabil, sbr. sundurliðun í kröfubréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, að teknu tilliti til innskatts. Varðar þetta gjaldanda sekt samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995.

Ákvarða ber gjaldanda, A, sekt samkvæmt framangreindum ákvæðum 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995. Samkvæmt breytingum á refsiákvæðum skattalaga, sem gerðar voru með lögum nr. 42/1995 og tóku gildi 9. mars 1995, skal sekt aldrei vera lægri en sem nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin, þó að teknu tilliti til álags. Þá þykir bera að líta til þess að gjaldandi gekkst greiðlega við brotum sínum og að nokkur dráttur hefur orðið á meðferð málsins án þess að gjaldanda verði um kennt. Að þessu virtu og að teknu tilliti til álags samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 þykir sekt gjaldanda hæfilega ákveðin 6.900.000 kr. til ríkissjóðs.

Úrskurðarorð:

Gjaldandi, A, greiði sekt að fjárhæð 6.900.000 kr. til ríkissjóðs.

 

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum