2010

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 21/2010

17.2.2010

Úrskurður nr. 21/2010                                                                

ÚRSKURÐUR YFIRSKATTANEFNDAR

Ár 2010, miðvikudaginn 17. febrúar, er tekið fyrir mál nr. 239/2008; krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um að A, kt. [...], og B, kt. [...], verði gerð sekt vegna meintra brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Ragnheiður Snorradóttir og Kristinn Gestsson. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi, dags. 16. október 2008, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A, kt. [...], og B, kt. [...], fyrir brot á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, bæði með áorðnum breytingum, framin vegna rekstrarársins 2004.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

„A, sem framkvæmdastjóra og prókúruhafa og B, sem stjórnarformanni X ehf. (afskráð), er gefið að sök eftirfarandi:

1. Skil á efnislega röngum virðisaukaskattsskýrslum. Vanframtalin skattskyld velta og virðisaukaskattur. Offramtalinn innskattur.

A og B er gefið að sök að hafa, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, staðið skattstjóranum í Reykjanesumdæmi skil á efnislega röngum virðisaukaskattsskýrslum vegna virðisaukaskattsskyldrar starfsemi X ehf. (afskráð) vegna uppgjörstímabilanna janúar–febrúar til og með nóvember–desember rekstrarárið 2004. Með því voru skattskyld velta og útskattur offramtalin vegna uppgjörstímabilanna janúar–febrúar og mars–apríl rekstrarárið 2004 og vanframtalin vegna uppgjörtímabilanna maí–júní, september–október og nóvember–desember rekstrarárið 2004. Nemur vanframtalin skattskyld velta samtals kr. 12.957.329 og vanframtalinn útskattur samtals kr. 3.174.433. Þá var innskattur offramtalinn vegna uppgjörstímabilanna janúar–febrúar, maí–júní, júlí–ágúst og nóvember–desember rekstrarárið 2004 og vanframtalinn vegna uppgjörstímabilanna mars–apríl og september–október rekstrarárið 2004. Á virðisaukaskattsskýrslum sem skilað var vegna rekstrarársins 2004 var innskattur tilgreindur kr. 6.913.974. Í skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins voru lögð fyrir A kostnaðargögn sem embætti skattrannsóknarstjóra ríkisins fékk afhent, en samkvæmt þeim nam innskattur skattaðila samtals kr. 3.651.111 vegna þess rekstrarárs. Kvað A að um frekari innskatt hefði verið að ræða í rekstri skattaðila og að gögn þess efnis væri að finna í þeim gögnum sem lögð hefðu verið fram undir rannsókn málsins. Rannsókn leiddi í ljós að fullnægjandi gögn væru að baki innskatti að fjárhæð kr. 4.308.777. Þar sem ekki voru til staðar fullnægjandi skjöl að öðru leyti, nemur offramtalinn innskattur því samtals kr. 2.605.197.

Sundurliðast vanframtalin skattskyld velta og útskattur sem og offramtalinn innskattur svo sem hér greinir:

Rekstrarárið

2004

Vanframtalin skattskyld velta Vanframtalinn útskattur Offramtalinn innskattur
janúar - febrúar -216.628 -53.188 2.553.041
mars - apríl -1.991.209 -487.845 -181.248
maí - júní 12.472.352 3.055.726 19.146
júlí - ágúst 0 0 70.362
september - október 999.112 244.783 -71.385
nóvember - desember 1.693.702 414.957 215.281
Samtals kr. 12.957.329 3.174.433 2.605.197

Sú háttsemi A og B sem hér hefur verið lýst brýtur í bága við ákvæði 1. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 24. gr., sbr. aðalreglur 1. gr., 2. gr., 1. tl. 1. mgr. 3. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. mgr. 13. gr., 1. mgr. 14. gr. og 19. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.

Varðar framanlýst háttsemi A og B sekt samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995.

Þess er krafist að A og B verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 16. október 2008, sem fylgdi kröfugerðinni.

II.

Með bréfum, dags. 16. október 2008, var gjaldendum veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef þeir vildu ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál þeirra og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 2. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Engar athugasemdir hafa borist frá gjaldendum.

III.

1. Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 16. október 2008, er gerð sú krafa að gjaldendum, A og B, verði sem fyrirsvarsmönnum X ehf. gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, vegna meintra brota þeirra á skattalögum í rekstri greinds einkahlutafélags. Gjaldendur hafa átt þess kost að koma að vörnum fyrir yfirskattanefnd í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins, en engar athugasemdir hafa borist. Þar sem gjaldendur hafa ekki gert athugasemdir við meðferð máls þessa fyrir yfirskattanefnd verður að líta svo á að þeir mæli því ekki í gegn að það sæti sektarmeðferð fyrir nefndinni.

2. Sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins í máli þessu er byggð á niðurstöðum rannsóknar embættisins á bókhaldi og skattskilum X ehf. (áður Y ehf.) vegna rekstrarársins 2004, sbr. skýrslu um rannsóknina, dags. 9. ágúst 2007. Rannsókn þessi, sem hófst formlega hinn 15. mars 2006, beindist einkum að bókhaldi, tekjuskráningu og virðisaukaskattsskilum X ehf. umrætt rekstrarár, en á því ári var starfsemi félagsins aðallega fólgin í innflutningi og sölu á rafmagnsvörum, raflagnaefni og tilheyrandi, auk almennrar rafverktöku, svo og rak félagið heildsölu um áfengi fyrstu mánuði ársins. Vegna rannsóknarinnar tók skattrannsóknarstjóri ríkisins skýrslur af gjaldendum, A og B, hinn 17. október 2006, svo og var tekin skýrsla af C, verkstjóra hjá X ehf. og hluthafa í félaginu, sbr. skýrslutöku 17. október 2006. Var rannsóknin m.a. byggð á upplýsingum sem fram komu við greindar skýrslutökur, á sölureikningum og öðrum bókhaldsgögnum X ehf. vegna rekstrarársins 2004, gögnum frá viðskiptavinum X ehf. og á upplýsingakerfum ríkisskattstjóra. Með bréfum, dags. 16. janúar 2007, sendi skattrannsóknarstjóri gjaldendum og skiptastjóra þrotabús X ehf. skýrslu, dags. 12. janúar 2007, sem þá lá fyrir um rannsóknina og gaf þeim kost á að tjá sig um efni hennar. Skrifleg andmæli bárust ekki, en í framhaldi af fundi gjaldanda, A, með starfsmönnum skattrannsóknarstjóra ríkisins, þar sem ýmsar athugasemdir voru gerðar af hálfu gjaldanda við rannsóknina, ákvað skattrannsóknarstjóri að afla gagna um kaup X ehf. á aðföngum frá helstu birgjum félagsins, sbr. umfjöllun um þá framhaldsrannsókn og athugasemdir gjaldanda í lokaskýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 9. ágúst 2007. Leiddi framhaldsrannsóknin og andmæli gjaldanda ekki til annarra breytinga á niðurstöðum fyrri skýrslu en þeirra að útskattur lækkaði um 88.554 kr.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 9. ágúst 2007, voru helstu niðurstöður rannsóknarinnar teknar saman með svofelldum hætti:

„Helstu niðurstöður rannsóknar á bókhaldi og virðisaukaskattsskilum skattaðila vegna rekstrarársins 2004 eru sem hér segir:

·1  Bókhald vegna maí-desember er ófært.

·2  Skattskyld velta og útskattur skattaðila er vantalin.

·3  Innskattur er oftalinn.“

Þá gerði skattrannsóknarstjóri ríkisins tölulega grein fyrir niðurstöðum rannsóknarinnar í töflu í niðurlagi skýrslu sinnar. Þar kom fram að skattskyld velta X ehf. væri vantalin um 12.957.329 kr. og útskattur um 3.174.433 kr. og innskattur oftalinn um 2.605.197 kr. rekstrarárið 2004.

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins var mál X ehf. sent ríkisskattstjóra til meðferðar, sbr. 6. mgr. 103. gr., sbr. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 5. mgr. 39. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. bréf skattrannsóknarstjóra, dags. 10. ágúst 2007. Á grundvelli rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins og í framhaldi af bréfi til skiptastjóra þrotabús X ehf., dags. 30. janúar 2008, sem ekki var svarað af hálfu þrotabúsins, tók ríkisskattstjóri virðisaukaskatt X ehf. uppgjörstímabilin janúar-febrúar til og með nóvember-desember 2004 til endurákvörðunar með úrskurði um endurákvörðun, dags. 27. júní 2008. Samkvæmt úrskurðinum var skattskyld velta X ehf. í 24,5% skattþrepi hækkuð úr 29.352.825 kr. í 42.310.154 kr. umrædd uppgjörstímabil eða um 12.957.329 kr. og útskattur samkvæmt því um 3.174.433 kr. Einnig var innskattur lækkaður úr 6.913.974 kr. í 4.308.777 kr. eða um 2.605.197 kr. Virðisaukaskattur X ehf. árið 2004 hækkaði samkvæmt þessu um 5.779.630 kr. Á þá fjárhæð bætti ríkisskattstjóri álagi samkvæmt 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, að fjárhæð 577.963 kr.

3. Fram kemur í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 9. ágúst 2007, að skil hafi verið gerð á virðisaukaskattsskýrslum X ehf. vegna allra uppgjörstímabila virðisaukaskatts árið 2004 og var skattskyld velta tilgreind 29.352.825 kr. og útskattur 7.191.555 kr. samkvæmt skýrslunum en innskattur nam 6.913.974 kr.

Samkvæmt samantekt skattrannsóknarstjóra ríkisins á útgefnum sölureikningum X ehf. rekstrarárið 2004 var heildarfjárhæð þeirra 46.591.810 kr. en þar af var einn bakfærður sölureikningur að fjárhæð 4.362.303 kr. og sala undanþegin virðisaukaskatti 495.720 kr. Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins er sérstaklega fjallað um ellefu sölureikninga sem X ehf. gaf út á hendur Z ehf. á rekstrarárinu 2004, þar af níu kreditreikninga, að fjárhæð samtals –18.478.160 kr.  Rakið er að í viðskiptamannayfirliti frá Z ehf. vegna rekstraráranna 2000-2005 sé aðeins að finna tvo þessara reikninga, þ.e. tvo kreditreikninga að fjárhæð samtals 7.535.805 kr. Þá kemur fram í skýrslu skattrannsóknarstjóra að samkvæmt bókhaldi Z ehf. hafi X ehf. fengið greitt umfram útgefna reikninga 1.540.467 kr. í árslok 2002, 9.540.467 kr. í árslok 2003 og 11.840.467 kr. í árslok 2004. Þannig hafi X ehf. fengið í lok hvers árs greidda alla útgefna sölureikninga til Z ehf. Greiðslustaða samkvæmt bókhaldi Z ehf. styðji því ekki að kreditreikningar frá árinu 2004 stafi af því að reikningar útgefnir 2002 og 2003 hafi ekki fengist samþykktir. Einnig er í skýrslunni vísað til þess að samkvæmt framburði gjaldanda, A, við skýrslutöku 17. október 2006 hafi Z ehf. neitað að taka við umræddum kreditreikningum. Tekið er fram að samkvæmt bókhaldi Z virðist einhvers konar lokauppgjör hafa farið fram milli aðila á árinu 2005. Þá kemur fram í skýrslunni að á fundi gjaldanda með starfsmönnum skattrannsóknarstjóra ríkisins hinn 13. mars 2007 hafi hann sagt að kreditreikningarnir á Z ehf. hafi verið gerðir í góðri trú, en eftir á að hyggja hafi verið um mistök að ræða.

Niðurstaða rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins um þennan þátt málsins er sú að af ellefu sölureikningum í bókhaldi X ehf. fyrir rekstrarárið 2004, sem varði viðskipti við Z ehf., séu níu sölureikningar, samtals að fjárhæð –10.942.355 kr., tilhæfulausir.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins er vikið að sölureikningum að fjárhæð 136.447 kr. sem samkvæmt framburði gjaldanda, A, hafi ekki fengist greiddir að fullu. Engin gögn hafi verið lögð fram um að þessar viðskiptakröfur séu tapaðar. Því sé byggt á því í niðurstöðum skýrslunnar að umræddir sölureikningar hafi fengist greiddir.

Að teknu tilliti til umræddra tilhæfulausra kreditreikninga á hendur Z ehf. að fjárhæð 10.942.355 kr., auk ógilds sölureiknings og sölu sem undanþegin sé virðisaukaskatti, er það niðurstaða skattrannsóknarstjóra ríkisins að heildarfjárhæð sölureikninga X ehf. árið 2004 hafi numið 52.676.142 kr. (46.591.810 kr. – 495.720 kr. + 10.942.355 kr. – 4.362.303 kr.). Skattskyld velta X ehf. rekstrarárið 2004 reiknast þannig 42.310.154 kr. samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar og telst vantalin skattskyld velta því nema 12.957.329 kr.

 Í kafla um rannsókn á innskatti X ehf. kemur fram að samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum félagsins árið 2004 sé innskattur 6.913.974 kr. en samkvæmt fyrirliggjandi bókhaldsgögnum X ehf., m.a. gögnum sem gjaldandi, A, hafi lagt fram við skýrslutöku, nemi innskattur samtals 4.308.777 kr. svo sem nánar er rakið tölulega. Innskattur hafi verið offærður fjögur uppgjörstímabil ársins 2004 og vanfærður tvö tímabil, en samtals sé innskattur offærður um 2.605.197 kr. í virðisaukaskattsskýrslum X ehf. árið 2004. Í umfjöllun í skýrslunni um fund gjaldanda, A, með starfsmönnum skattrannsóknarstjóra ríkisins hinn 13. mars 2007 kemur fram að gjaldandi hafi haldið því fram að við gerð virðisaukaskattsskýrslna árið 2004 hafi innskattur verið tilgreindur í samræmi við fyrirliggjandi bókhaldsgögn og því ættu skýrslurnar að vera réttar hvað innskatt varðaði. Af þessu tilefni hafi verið farið fram á það við 18 aðila, sem selt hefðu X ehf. aðföng á árinu 2004, að þeir létu í té upplýsingar um viðskipti við félagið. Samkvæmt hreyfingalistum, sem borist hefðu frá öllum aðilunum, væri ekki um að ræða viðskipti til viðbótar þeim sem fyrirliggjandi gögn bæru með sér. Fjárhæð innskatts breyttist því ekki.

Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 17. október 2006 staðfesti gjaldandi, A, að hann væri framkvæmdastjóri X ehf. og ætti þriðjung hlutafjár í félaginu. Færsla bókhalds X ehf. hefði verið í höndum tilgreinds starfsmanns sem vegna veikinda hefði ekki getað fært bókhald vegna alls ársins 2004. Bókhaldsgögn hefðu verið varðveitt á starfsstöð X ehf. Við skýrslutökuna voru útgefnir sölureikningar X ehf. árið 2004 lagðir fyrir gjaldanda ásamt samantekt skattrannsóknarstjóra á þeim og staðfesti gjaldandi að sölureikningarnir vörðuðu rekstur X ehf. Fjórir tilgreindir aðilar og sjálfsagt einhverjir fleiri hefðu ekki greitt að fullu þá sölureikninga sem gefnir hefðu verið út á þá. Þá væri mögulegt að sölureikningur nr. 6409 hefði verið ógiltur og gefinn út nýr sölureikningur vegna sama aðila (V). Aðspurður um viðskipti við Z ehf. á árinu 2004, sbr. fyrirliggjandi gögn þar um, sagði gjaldandi að Z ehf. hefði neitað að taka við þessum kreditreikningum, en þeir hefðu verið gefir út á móti sölureikningum frá árunum 2002 og 2003 sem hefðu verið tekjufærðir í bókhaldi X ehf. á þeim tíma. Gjaldandi kvaðst ekki geta afhent hreyfingalista bókhalds X ehf. vegna tekjuáranna 2002 og 2003 þar sem tölvu með bókhaldi félagsins hefði verið stolið í innbroti árið 2003. Kvaðst gjaldandi telja að efni þessara sölureikninga væri rétt. Gjaldandi var spurður um skýringar á því að innskattur væri hærri samkvæmt innsendum virðisaukaskattsskýrslum X ehf. en samkvæmt fyrirliggjandi kostnaðargögnum og sagði gjaldandi að um frekari innskatt tekjuárið 2004 hefði verið að ræða og afhenti þrjár bókhaldsmöppur með gögnum. Gjaldandi kannaðist við virðisaukaskattsskýrslur X ehf. uppgjörstímabilin janúar-febrúar til og með nóvember-desember 2004 og kvaðst hafa annast gerð þeirra og undirritað þær. Skýrslurnar væru byggðar á sölureikningum X ehf. og öðrum bókhaldsgögnum félagsins og taldi gjaldandi að skýrslurnar gæfu rétta mynd af rekstri X ehf.

Við skýrslutöku, sem fram fór hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 17. október 2006, sagðist gjaldandi, D, hafa starfað sem rafvirki hjá X ehf. auk þess að vera stjórnarformaður félagsins. Vegna gjaldþrots gjaldanda hefði hann ekki átt hlut í félaginu, en dóttir gjaldanda hefði verið hluthafi. A hefði stjórnað daglegum rekstri félagsins, en gjaldandi og C hefðu tekið meiriháttar ákvarðanir um reksturinn með A. Gjaldandi vissi ekki hvort bókhald X ehf. hefði verið fært, en bókhaldsgögnin hefðu verið geymd á skrifstofu félagsins. Gjaldandi kvaðst ekki hafa komið nálægt tekjuskráningu og innheimtu skatta og ekkert vitað um útgáfu sölureikninga, þar á meðal vegna viðskipta við Z ehf., svo og kvaðst gjaldandi ekkert vita um tilgreindan innskatt, enda hefði hann ekkert komið nálægt bókhaldsmálum félagsins.

C sagðist við skýrslutöku 26. október 2006 hafa starfað sem verkstjóri hjá X ehf., en hann væri einn eigenda félagsins og sæti í stjórn þess sem meðstjórnandi. A hefði stjórnað daglegum rekstri félagsins. C kvaðst ekkert vita um útgáfu sölureikninga X ehf. eða innskattsfrádrátt félagsins, enda hefði hann ekki séð um þau mál.

4. Samkvæmt því sem rakið hefur verið kom fram við rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins að níu sölureikningar (kreditreikningar), samtals að fjárhæð –10.942.355 kr., sem X ehf. gaf út á hendur Z ehf. á árinu 2004, voru ekki færðir í bókhaldi Z ehf. Er það niðurstaða rannsóknarinnar að um sé að ræða lækkun á skattskyldri veltu X ehf. á árinu 2004 með útgáfu tilhæfulausra kreditreikninga. Meint vantalin skattskyld velta af þessum sökum nemur 8.789.039 kr. Heildarfjárhæð vantalinnar skattskyldrar veltu samkvæmt niðurstöðum rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins nemur á hinn bóginn 12.957.329 kr., sbr. einnig kröfugerð embættisins í máli þessu. Ráðið verður af skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins og fylgiskjölum með henni að fjárhæð, sem þarna ber á milli, þ.e. 4.168.290 kr., sé fengin með samanburði skattskyldrar veltu samkvæmt öðrum útgefnum sölureikningum X ehf. á árinu 2004 við tilgreinda skattskylda veltu í virðisaukaskattsskýrslum félagsins á því ári, en meðal fylgiskjala með skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins er ljósrit af sölureikningum X ehf. og yfirlit um þá. Í skýrslu skattrannsóknarstjóra er þó engin sérstök umfjöllun um þennan þátt rannsóknarinnar og við skýrslutökur af gjaldendum voru þeir engra spurninga spurðir um ástæður fyrir því að ekki virtist hafa verið gerð grein fyrir allri sölu samkvæmt sölureikningum, öðrum en þeim sem taldir voru tilhæfulausir, í virðisaukaskattsskilum félagsins. Að svo vöxnu verður ekki talið að fullnægjandi grundvöllur hafi verið lagður að sektarákvörðun vegna greinds mismunar 4.168.290 kr. Er þessum þætti í kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins því hafnað.

Að því er varðar umrædda kreditreikninga á hendur Z ehf. er þess að geta að í raun lýtur þessi þáttur málsins að fimm kreditreikningum, þ.e. nr. 6368, 6369, 6370, 6371 og 6376, að fjárhæð samtals 10.934.922 kr., sem allir eru dagsettir 30. júní 2004. Vegna annarra reikninga, sem skattrannsóknarstjóri ríkisins fellir hér undir, skal tekið fram að kreditreikningur nr. 6366 felur í sér bakfærslu á sölureikningi nr. 6215 og kreditreikningur nr. 6375 er bakfærsla á sölureikningi nr. 6374 (að teknu tilliti til augljósrar misritunar fjárhæðar), svo sem kemur fram í þeim, en enginn þessara reikninga var færður í bókhaldi Z ehf. Samkvæmt texta fyrrgreindra fimm kreditreikninga er kreditreikningur nr. 6368 vegna sölureikninga nr. 3784 og 3151, kreditreikningur nr. 6369 er vegna sölureikninga nr. 3146, 3210 og 3274, kreditreikningur nr. 6370 er vegna sölureiknings nr. 6145, kreditreikningur nr. 6371 er vegna sölureiknings nr. 6148 og kreditreikningur nr. 6376 er vegna „áðurgerður reikn. að upphæð kr. 6.000.000,-“ án frekari skýringa, sbr. einnig áritun á sölureikningi nr. 6374. Þess ber að geta að þrír umræddra sölureikninga, sem þannig voru bakfærðir með kreditreikningum í júní 2004, voru ekki færðir í bókhaldi Z ehf. fyrr en í upphafi árs 2005, sbr. fyrirliggjandi hreyfingalista úr viðskiptamannabókhaldi þess fyrirtækis, þ.e. sölureikningar nr. 6145, 6148 og 6151, sem gefnir voru út á árinu 2003, og gildir raunar hið sama um fleiri sölureikninga X ehf. frá árunum 2002 og 2003. Miðað við það sem fyrir liggur samkvæmt bókhaldi Z ehf. um greiðslur til X ehf. hafa umræddir reikningar þó að öllu leyti verið greiddir þegar á árinu 2003 og fyrri hluta árs 2004, enda voru greiðslur umfram bókfærða reikninga 9.540.467 kr. í árslok 2003 og 11.840.467 kr. í árslok 2004, en fjárhæð óbókaðra reikninga nam 9.897.399 kr. að teknu tilliti til tveggja kreditreikninga frá árinu 2004. Verður því ekki séð að ágreiningur hafi verið um greiðsluskyldu kaupanda, Z ehf., hvað sem líður síðbúnum færslum í bókhaldi kaupanda, eða að kaupandi hafi ekki veitt viðtöku eða skilað keyptum vörum eða þjónustu þannig að tilefni geti hafa verið til útgáfu umræddra fimm kreditreikninga í júní 2004.

Eins og fyrr greinir gaf gjaldandi, A, þær skýringar við skýrslutöku af honum, sem fram fór 17. október 2006, að Z ehf. hefði neitað að taka við umræddum kreditreikningum. Kreditreikningarnir hefðu verið gefnir út á móti sölureikningum frá árunum 2002 og 2003 og kvaðst gjaldandi telja að efni þeirra væri rétt. Engar skýringar komu fram við skýrslutöku af gjaldanda, B. Þá kemur fram í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins að á fundi gjaldanda, A, með starfsmönnum embættisins hinn 13. mars 2007, þar sem hann gerði munnlegar athugasemdir við frumskýrslu, hafi gjaldandi sagt að kreditreikningarnir hefðu verið gefnir út í góðri trú, en eftir á að hyggja hefði verið um mistök að ræða.

Samkvæmt framansögðu hafa gjaldendur, sem voru fyrirsvarsmenn X ehf., ekki gefið aðrar skýringar á útgáfu umræddra kreditreikninga en að mistök hafi verið gerð, sbr. greinda frásögn í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins af fundi með gjaldanda, A, sem ekki hefur verið mótmælt af hans hálfu. Ekki hefur nánar komið fram af hálfu gjaldanda í hverju meint mistök hafi verið fólgin eða af hvers völdum þau hafi verið, en raunar hafa engar athugasemdir verið gerðar af hálfu gjaldenda vegna sektarkröfu sem hér er til meðferðar.

Samkvæmt framansögðu þykir ekkert komið fram í málinu sem gefur tilefni til annars en að miða við að um hafi verið að ræða vantalda skattskylda veltu í virðisaukaskattsskilum X ehf. árið 2004 vegna útgáfu tilefnislausra kreditreikninga að fjárhæð 10.934.922 kr. Vantalin skattskyld velta af þeim sökum telst nema 8.783.069 kr. og vantalinn útskattur 2.151.853 kr.

Samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum X ehf. vegna uppgjörstímabila á árinu 2004 var innskattur 6.913.974 kr., en samkvæmt kostnaðargögnum, sem fram komu við rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins var ekki til að dreifa hærri innskattsfrádrætti en 4.308.777 kr. Mismunur nemur 2.605.197 kr. sem að mestu leyti er vegna uppgjörstímabilsins janúar-febrúar 2004. Við rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins kom fram að skattskil hefðu verið byggð á færðu bókhaldi uppgjörstímabilin janúar-febrúar og mars-apríl 2004, en samantekt tekna og gjalda í Excel-skjölum lágu til grundvallar uppgjöri virðisaukaskatts önnur tímabil ársins. Samkvæmt fyrirliggjandi hreyfingalista yfir skattreikninga í bókhaldi X ehf. fyrir janúar og febrúar 2004 var útskattur 6.495.894 kr. og innskattur 1.553.708 kr. Útskattur í virðisaukaskattsskýrslu fyrir uppgjörstímabilið janúar-febrúar 2004 er í samræmi við bókhald, þ.e. 6.495.894 kr., en innskattur er færður 4.553.708 kr. í virðisaukaskattsskýrslu, þ.e. 3.000.000 kr. hærri en samkvæmt bókhaldi. Samkvæmt rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins telst innskattur hafa verið 2.000.667 kr. umrætt tímabil, þ.e. 2.553.041 kr. lægri en samkvæmt innsendri virðisaukaskattsskýrslu.

Af hálfu gjaldenda hafa engar skýringar komið fram á því að innskattur var færður hærri í virðisaukaskattsskýrslum X ehf. árið 2004 en sönnur hafa verið færðar á með kostnaðargögnum, sbr. lokamálsgrein 20. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Þá hefur ekkert komið fram af hálfu gjaldenda um frekari frádráttarliði sem taka bæri tillit til í málinu. Að svo vöxnu verður talið að sýnt hafi verið fram á það með rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins að innskattur hafi verið offærður í virðisaukaskattsskilum X ehf. um 2.605.197 kr. árið 2004.

5. Eins og fram er komið gerir skattrannsóknarstjóri ríkisins kröfu um að gjaldendum, A og B, verði báðum gerð sekt vegna tilgreindra brota á skattalögum, sbr. kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 16. október 2008, þar sem kemur fram að kröfur þessar séu settar fram á hendur gjaldanda, A, sem fyrrum framkvæmdastjóra og prókúruhafa X ehf. og gjaldanda, B, sem fyrrum stjórnarformanni félagsins. Af hálfu skattrannsóknarstjóra hefur ekki komið fram nánari greinargerð um grundvöll kröfugerðar á hendur báðum gjaldendum.

Að framan er gerð grein fyrir því sem fram kom við skýrslutökur af gjaldendum um þátt þeirra í stjórnun X ehf. á þeim tíma sem hér skiptir máli og um störf þeirra hjá félaginu. Gjaldandi, A, var framkvæmdastjóri félagsins og sá um daglegan rekstur þess. Samkvæmt framburði hans annaðist hann m.a. gerð virðisaukaskattsskýrslna sem í málinu greinir. Gjaldandi, B, var stjórnarformaður félagsins og starfaði sem rafvirki hjá því. Gjaldandi kvaðst ekkert hafa komið að tekjuskráningu, innheimtu tekna eða bókhaldsmálum félagsins. Gjaldendur voru sammála um að meiriháttar ákvarðanir í rekstrinum hefðu verið teknar af þeim sameiginlega ásamt C.

Að virtum framburði gjaldenda hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins, sem að framan er rakinn, og með hliðsjón af gögnum málsins að öðru leyti þykir ljóst að gjaldandi, A, hafði með höndum daglega stjórn X ehf. á þeim tíma sem mál þetta varðar, þar á meðal annast tekjuskráningu og uppgjör virðisaukaskatts. Sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er því réttilega beint að gjaldanda í samræmi við ákvæði 6. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Sem stjórnarformanni X ehf. bar gjaldanda, B, að afla sér vitneskju um rekstur félagsins, svo og að annast um að starfsemi þess væri jafnan í réttu og góðu horfi, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Sé misbrestur á því að fyrirsvarsmaður fyrirtækis sinni ábyrgðarskyldu sinni, kann sú vanræksla að baka honum refsiábyrgð, enda sé honum kunnugt um refsiverð brot í tengslum við rekstur fyrirtækisins eða hann hefur að öðru leyti sýnt af sér saknæman eftirlitsskort. Ekkert er komið fram í gögnum málsins um að gjaldanda hafi verið kunnugt um þá misbresti sem á rekstrinum voru. Þótt gjaldandi kunni að hafa sýnt af sé nokkurt gáleysi vegna skorts á eftirliti með rekstrinum, verður að telja ósannað að hann hafi uppfyllt þær auknu gáleysiskröfur sem virðisaukaskattslög gera vegna refsiverðra brota gegn lögunum. Af þessum ástæðum þykir ekki rétt að gera gjaldanda, B, sekt í máli þessu.

6. Samkvæmt framansögðu teljast virðisaukaskattsskil X ehf. vegna rekstrarársins 2004 hafa verið rangfærð með þeim hætti að ákvarða beri gjaldanda, A, sekt samkvæmt 6. mgr., sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995, vegna vanframtalinnar skattskyldrar veltu  8.789.039 kr. og útskatts af þeim sökum að fjárhæð 2.151.853 kr., svo og vegna offærðs innskatts að fjárhæð 2.605.197 kr., eða vangreidds virðisaukaskatts samtals að fjárhæð 206.176 kr.

Samkvæmt breytingum á refsiákvæðum skattalaga, sem gerðar voru með lögum nr. 42/1995 og tóku gildi 9. mars 1995, skal sekt aldrei vera lægri en sem nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin, þó að teknu tilliti til álags. Við ákvörðun sektar ber að taka tillit til þess að nokkur dráttur hefur orðið á meðferð málsins án þess að gjaldanda verði um kennt. Að þessu gættu, málsatvikum að öðru leyti og að teknu tilliti til álags samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 þykir sekt gjaldanda hæfilega ákveðin 9.000.000 kr. til ríkissjóðs.

Úrskurðarorð:

Gjaldandi, A, greiði sekt að fjárhæð 9.000.000 kr. til ríkissjóðs. Gjaldanda, B, verður ekki gerð sekt í máli þessu.

 

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum