2010

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 24/2010

17.2.2010

Úrskurður nr. 24/2010                                                                

ÚRSKURÐUR YFIRSKATTANEFNDAR

Ár 2010, miðvikudaginn 17. febrúar, er tekið fyrir mál nr. 135/2008; krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um að X ehf., kt. [...], og A, kt. [...], verði gerð sekt vegna meintra brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Ragnheiður Snorradóttir og Valdimar Guðnason. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi, dags. 7. maí 2008, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál X ehf., kt. [...], og A, kt. [...], fyrir brot á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum, framin vegna rekstrarársins 2005.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra segir:

A, sem stjórnarmanni, framkvæmdastjóra og prókúruhafa X ehf., er gefið að sök eftirfarandi:

1. Skil á efnislega röngu skattframtali.

A, sem stjórnarmanni, framkvæmdastjóra og prókúruhafa, er gefið að sök að hafa, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, staðið skil á efnislega röngu skattframtali fyrir hönd X ehf. til skattstjórans í Reykjanesumdæmi vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2006, vegna rekstrarársins 2005.

Samkvæmt fyrirsvarsmanni skattaðila fólst starfsemi félagsins í [...] á höfuðborgarsvæðinu.

Framangreind háttsemi A leiddi ekki til þess að tekjuskattsstofn X ehf. var ákvarðaður lægri en vera bar umrætt gjaldár.

Sú háttsemi A sem lýst hefur verið hér að framan brýtur í bága við ákvæði 90. gr., sbr. B. lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Varðar framanlýst háttsemi A sekt samkvæmt 6. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Þá varða brot þessi X ehf. sekt samkvæmt 8. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

2. Vanræksla á tilkynningu um virðisaukaskattsskylda starfsemi. Skil á efnislega rangri virðisaukaskattsskýrslu. Vanframtalin skattskyld velta og útskattur. Mögulegur innskattur.

A er gefið að sök að hafa, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, vanrækt að tilkynna um virðisaukaskattsskylda starfsemi sína til skattstjórans í Reykjanesumdæmi. Þá er A gefið að sök að hafa, fyrir hönd skattaðila, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta stórkostlegu hirðuleysi, staðið skattstjóranum í Reykjanesumdæmi skil á efnislega rangri virðisaukaskattsskýrslu vegna uppgjörstímabilanna mars–apríl til og með nóvember–desember rekstrarárið 2005. Með því var skattskyld velta vanframtalin um samtals kr. 4.944.777 og útskattur um samtals kr. 1.211.470. Mögulegur innskattur nemur samtals kr. 225.159.

Sundurliðast vanframtalin skattskyld velta, útskattur og innskattur svo sem hér greinir:

 

Rekstrarár

 

Uppgjörstímabil

Vanframtalin skattskyld velta Vanframtalinn útskattur Mögulegur innskattur
2005 mars – apríl 385.542 94.458 20.456
2005 maí – júní 1.399.396 342.851 62.057
2005 júlí – ágúst 1.526.103 373.897 127.065
2005 sept. – okt. 1.148.595 281.405 6.964
2005 nóv. – des. 485.141 118.859 8.617
Samtals kr.   4.944.777 1.211.470 225.159

 Sú háttsemi A sem hér hefur verið lýst brýtur í bága við ákvæði 1. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 24. gr., sbr. aðalreglur 1. gr., 2. gr., 1. tl. 1. mgr. 3. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. mgr. 13. gr., 1. mgr. 14. gr. og 19. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.

Framangreind háttsemi A varðar hann sekt skv. 1. og 3. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Þá varða þessi brot X ehf. sekt samkvæmt 8. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988.

Við endurákvörðun á virðisaukaskatti vegna rekstrarársins 2005 hefur skattaðila verið gert að sæta álagi á vangreiddan virðisaukaskatt á grundvelli 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, kr. 98.631, er komi til frádráttar við ákvörðun sektarfjárhæðar.

Þess er krafist að A og X ehf. verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 7. maí 2008, sem fylgdi kröfugerðinni.

II.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 9. maí 2008, var gjaldendum veitt færi á að skila vörn í tilefni að framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef þeir vildu ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál þeirra og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 2. mgr. 110. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 2. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Engar athugasemdir hafa borist frá gjaldendum.

III.

1. Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 7. maí 2008, er gerð sú krafa að gjaldanda, A, verði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, þar sem hann hafi sem fyrirsvarsmaður X ehf., kt. [...], látið í té rangar upplýsingar í skattframtali einkahlutafélagsins árið 2006. Einnig krefst skattrannsóknarstjóri ríkisins þess að gjaldanda verði ákvörðuð sekt samkvæmt ákvæðum 40. gr laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með því hann hafi staðið skil á röngum virðisaukaskattskýrslum vegna félagsins fyrir tilgreind uppgjörstímabil virðisaukaskatts árið 2005 og þannig vantalið skattskylda veltu um 4.944.777 kr. Þá er þess krafist að X ehf. verði gerð sekt af sömu ástæðum. Gjaldendur hafa átt þess kost að koma að vörnum fyrir yfirskattanefnd í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins, en engar athugasemdir hafa borist. Þar sem gjaldendur hafa ekki gert athugasemdir við meðferð máls þessa fyrir yfirskattanefnd verður að líta svo á að þeir mæli því ekki í gegn að það sæti sektarmeðferð fyrir nefndinni.

2. Sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins í máli þessu er byggð á niðurstöðum rannsóknar embættisins á bókhaldi og skattskilum X ehf. vegna rekstrarársins 2005, sbr. skýrslu um rannsóknina, dags. 17. apríl 2007. Rannsókn þessi, sem hófst formlega 2. nóvember 2006 í framhaldi af tilkynningu frá skattstjóranum í Reykjanesumdæmi um að skattskilum X ehf. væri ábótavant, beindist upphaflega að tímabilinu október 2004 til og með desember 2005, en síðar var rannsóknin afmörkuð við rekstrarárið 2005. Samkvæmt samþykktum X ehf. var tilgangur félagsins [...] Vegna rannsóknarinnar voru teknar skýrslur af fimm viðskiptamönnum X ehf. svo og af gjaldanda, A, og var rannsóknin byggð á upplýsingum sem þar komu fram, en einnig var byggt á bókhaldsgögnum X ehf. og innsendum skattskilagögnum félagsins, bankareikningum og upplýsingakerfum ríkisskattstjóra. Með bréfum, dags. 28. mars 2007, sendi skattrannsóknarstjóri gjaldendum skýrslu, dags. 28. mars 2007, sem þá lá fyrir um rannsóknina, og gaf þeim kost á að tjá sig um efni hennar áður en ákvörðun yrði tekin um framhald málsins. Engar athugasemdir bárust skattrannsóknarstjóra ríkisins og var lokaskýrsla skattrannsóknarstjóra ríkisins efnislega samhljóða hinni fyrri að viðbættum kafla um lok rannsóknarinnar.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 17. apríl 2007, voru helstu niðurstöður rannsóknarinnar teknar saman með svofelldum hætti:

„Niðurstöður rannsóknar á bókhaldi og skattskilum X ehf. fyrir rekstrarárið 2005 eru:

·1  Upprunalegt skattframtal var rangfært.

·2  Upprunaleg virðisaukaskattsskýrsla var rangfærð.

·3  Bókhald var ekki fært á réttum tíma.

·4  Skattskyld velta og útskattur eru vantalin.

·5  Rekstrartekjur og rekstrargjöld eru vantalin.

·6  Reiknað endurgjald forsvarsmanns X ehf., A, er vantalið.“

Þá gerði skattrannsóknarstjóri ríkisins tölulega grein fyrir niðurstöðum rannsóknarinnar í töflum í niðurlagi skýrslu sinnar. Þar kom fram að skattskyld velta X ehf. rekstrarárið 2005 væri vantalin um 4.994.777 kr. og rekstrartekjur um sömu fjárhæð. Innskattur næmi 225.159 kr. og rekstrargjöld 4.853.396 kr. rekstrarárið 2005. Þá var gerð grein fyrir fjárhæð vantalins reiknaðs endurgjalds forráðamanns X ehf.

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins var mál X ehf. sent ríkisskattstjóra til meðferðar, sbr. m.a. 6. mgr. 103. gr., sbr. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 5. mgr. 39. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. bréf skattrannsóknarstjóra, dags. 18. apríl 2007. Á grundvelli rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins og í framhaldi af bréfi til X ehf., dags. 22. ágúst 2007, sem ekki var svarað af hálfu félagsins, tók ríkisskattstjóri áður álögð opinber gjöld X ehf. gjaldárið 2006 og virðisaukaskatt árið 2005 til endurákvörðunar með úrskurði um endurákvörðun, dags. 1. nóvember 2007. Breytingar ríkisskattstjóra vörðuðu í fyrsta lagi endurákvörðun virðisaukaskatts X ehf. árið 2005 vegna ákvörðunar skattskyldrar veltu í 24,5% skattþrepi að fjárhæð samtals 4.944.777 kr. uppgjörstímabilin mars-apríl til og með nóvember-desember 2005. Að teknu tilliti til innskatts að fjárhæð 225.159 kr. varð virðisaukaskattur X ehf. því 986.311 kr. árið 2005. Á þá fjárhæð bætti ríkisskattstjóri álagi samkvæmt 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, að fjárhæð 98.631 kr. Í öðru lagi ákvarðaði ríkisskattstjóri skilaskylda staðgreiðslu X ehf. vegna reiknaðs endurgjalds fyrirsvarsmanns félagsins að fjárhæð 3.300.000 kr. og kom fram að samkvæmt því og að teknu tilliti til ónýtts persónuafsláttar væri vangreidd skilaskyld staðgreiðsla félagsins samkvæmt ákvæðum laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, samtals 1.187.117 kr. árið 2005. Álag vegna vangreiddrar staðgreiðslu, sbr. 1. tölul. 2. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987, nam samtals 118.703 kr. Í þriðja lagi ákvarðaði ríkisskattstjóri stofn X ehf. til tryggingagjalds gjaldárið 2006 að fjárhæð 3.531.000 kr. og tók í því sambandi tillit til 7% mótframlags vinnuveitanda í lífeyrissjóð, sbr. 6. og 7. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald. Var tryggingagjald ákvarðað 202.326 kr. gjaldárið 2006. Í fjórða lagi endurákvarðaði ríkisskattstjóri tekjuskatt X ehf. gjaldárið 2006. Í því sambandi kom fram að byggt væri á fjárhæð rekstrartekna 4.944.777 kr. og rekstrargjalda 4.853.396 kr. Þættu þessar fjárhæðir síst um skör fram, „enda liggur fyrir breytt framtal gjaldanda sem lagt verður til grundvallar við endurákvörðunina rétt eins og skattrannsóknarstjóri ríkisins hefur lagt framtalið til grundvallar við rannsókn sína“, svo sem sagði í úrskurðinum. Yfirfæranlegt tap X ehf. gjaldárið 2006 lækkaði samkvæmt þessu um 34.741 kr. Í fimmta og síðasta lagi ákvarðaði ríkisskattstjóri stofn til iðnaðarmálagjalds að fjárhæð 4.944.777 kr. auk álags samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 134/1993, um iðnaðarmálagjald. Af hálfu X ehf. voru heimilaðar málskotsleiðir vegna þessa úrskurðar ríkisskattstjóra ekki nýttar.

3. Fram kemur í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 17. apríl 2007, að í skattframtali X ehf. árið 2006 hafi engar tekjur eða gjöld verið tilgreind og samkvæmt virðisaukaskattsskýrslu félagins fyrir árið 2005 hafi engin skattskyld velta verið í rekstri félagsins. Hinn 2. febrúar 2007 hafði endurskoðandi félagsins, B, staðið skil á nýju og leiðréttu skattframtali árið 2006 ásamt leiðréttingarskýrslu virðisaukaskatts vegna ársins 2005. Í skýrslunni kemur fram um aðdraganda að hinum leiðréttu skattskilum að við upphaf rannsóknar embættisins, þegar gjaldanda, A, hafi sem fyrirsvarsmanni X ehf. verið tilkynnt um rannsóknina, hafi hann sagt að félagið hefði engan rekstur haft með höndum fyrr en á árinu 2006. Honum hafi þá verið grein frá því að samkvæmt bankaupplýsingum væri um einhvern rekstur að ræða og hafi gjaldandi þá beðið um frest til að taka saman gögn og upplýsingar varðandi reksturinn. Gjaldandi hafi síðan afhent skattrannsóknarstjóra ríkisins bréf, dags. 14. nóvember 2006, varðandi reksturinn, en þar sem bréfið hafi ekki þótt veita nægar upplýsingar um starfsemi X ehf. með tilliti til innborgana á bankareikning félagsins hafi skattrannsóknarstjóri ríkisins ákveðið að hafa samband við þá aðila sem lagt hefðu fjármuni inn á bankareikning X ehf. Gjaldanda hafi síðan verið gerð grein fyrir því að niðurstöður þeirra rannsóknaraðgerða væru ekki í samræmi við greint bréf. Í framhaldinu hafi gjaldandi óskað eftir því að endurskoðandi félagins færi yfir fyrirliggjandi gögn og að skilað yrði inn nýju og leiðréttu framtali, svo sem gert hafi verið hinn 2. febrúar 2007. Þá kemur fram í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins að bókhald X ehf. hafi ekki verið fært á réttum tíma, en hin endurgerðu skattskil séu byggð á færðu bókhaldi. Samkvæmt upplýsingum gjaldanda, A, hafi sökum kæruleysis hans ekki verið gefnir út sölureikningar vegna seldrar vinnu á vegum félagsins og þannig engin tekjuskráning verið hjá félaginu.

Niðurstöður skattrannsóknarstjóra ríkisins um fjárhæð rekstrartekna X ehf. og virðisaukaskattskyldrar veltu byggja á gögnum um innborganir á bankareikning félagsins frá tíu aðilum, samtals að fjárhæð 6.156.248 kr., sbr. sundurliðun í rannsóknarskýrslu, dags. 17. apríl 2007, og á leiðréttu skattframtali X ehf. árið 2006. Í skýrslunni er rakið að fimm viðskiptavinir X ehf. hafi komið til skýrslutöku þar sem þeir hafi staðfest að hafa átt viðskipti við félagið, þ.e. keypt vinnu og efni vegna [...] o.fl., og lagt greiðslur inn á bankareikning félagsins án þess að hafa fengið afhentan sölureikning. Haft hafi verið samband við aðra viðskiptavini X ehf. með tölvupósti og í síma, en ekki er í skýrslunni fjallað sérstaklega um svör þeirra aðila. Á grundvelli þessara upplýsinga og í samræmi við leiðrétt skattframtal X ehf. árið 2006 er í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins gerð grein fyrir vantöldum rekstrartekjum og skattskyldri veltu X ehf. að fjárhæð 4.944.777 kr. rekstrarárið 2005 og vantöldum útskatti að fjárhæð 1.211.470 kr.

Í kafla um rannsókn á rekstrargjöldum og innskatti X ehf. er greint frá því að samkvæmt leiðréttu skattframtali félagsins árið 2006 nemi rekstrargjöld 4.853.396 kr. en engin rekstrargjöld séu tilgreind í upphaflegu skattframtali. Innskattur sé 225.159 kr. samkvæmt leiðréttingarskýrslu virðisaukaskatts. Niðurstaða um þennan þátt rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins byggir á hinum endurgerðu skattgögnum.

Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 8. febrúar 2007 kom fram af hálfu gjaldanda, A, að hann væri eini eigandi X ehf. og hefði verið framkvæmdarstjóri félagsins allt árið 2005. Starfsemi félagsins hefði falist í [...] á höfuðborgarsvæðinu. Engin tekjuskráning hefði verið hjá félaginu, en sökum kæruleysis gjaldanda hefðu ekki verið gefnir út sölureikningar. Félagið hefði haft menn í vinnu, en gjaldandi ætti ekki til nein gögn um þá og gæti því ekki gefið neinar upplýsingar um þá. Gjaldandi kvaðst telja að endurgert skattframtal félagsins árið 2006 gæfi rétta mynd af rekstri félagsins. Upphaflegt skattframtal vegna rekstrarársins 2005 hefði verið byggt á upplýsingum sem gjaldandi hefði gefið endurskoðanda félagsins. Gjaldandi staðfesti að hafa undirritað virðisaukaskattsskýrslu X ehf. vegna ársins 2005 og kvað skýrsluna ekki byggja á neinum gögnum. Væri kæruleysi gjaldanda um að kenna. Þá hefði kæruleysi gjaldanda valdið því að hann hefði ekki opnað virðisaukaskattsnúmer fyrir X ehf. fyrr en í ágúst 2005. Gjaldandi sagði að um væri að ræða meiri rekstrargjöld hjá X ehf. rekstrarárið 2005 en fram kæmi í skattframtali félagsins, en engin gögn þar að lútandi væru til. Gjaldandi tók fram að frá og með janúar 2006 hefði rekstur X ehf. verið í góðu horfi og gerð skil á skattgreiðslum frá þeim tíma.

4. Samkvæmt fyrri lið kröfugerðar skattrannsóknarstjóra ríkisins í máli þessu er krafist sektarákvörðunar á hendur gjaldanda, A, samkvæmt 6. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og á hendur gjaldanda, X ehf., samkvæmt 8. mgr. sömu lagagreinar. Samkvæmt greindu ákvæði 6. mgr. 109. gr. skal sá sem hefur „af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi vanrækt að gegna skyldu sinni samkvæmt ákvæðum 90., 92. eða 94. gr. ... sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum“. Meintri refsiverðri háttsemi er hins vegar lýst þannig í kröfugerðinni að gjaldandi, A, hafi staðið skil á efnislega röngu skattframtali vegna X ehf. árið 2006, sem og er í samræmi við niðurstöður rannsóknar embættisins, en óumdeilt er að skil voru gerð á skattframtali vegna félagsins umrætt ár innan tilskilins framtalsfrests. Efnislýsing meints brots gjaldanda er því ekki í samræmi við það lagaákvæði sem brotið er talið varða við og verður kröfugerðin því óskýr. Af þessum ástæðum er fyrri lið kröfugerðar skattrannsóknarstjóra ríkisins vísað frá yfirskattanefnd.

5. Samkvæmt því sem rakið hefur verið þykir hafa verið leitt í ljós með rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins að virðisaukaskattsskýrsla X ehf. vegna ársins 2005, sem barst skattstjóra 6. febrúar 2006, hafi verið röng, enda var engin skattskyld velta tilgreind í skýrslunni þrátt fyrir sölu félagsins á vörum og skattskyldri þjónustu á árinu 2005. Í máli því, sem hér er til meðferðar, er um að tefla kröfugerð um ákvörðun sektar á hendur gjaldendum samkvæmt þar tilgreindum ákvæðum 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sem gera ráð fyrir að sektarákvörðun sé bundin þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin. Verður því að taka afstöðu til þess hvort skattrannsóknarstjóri ríkisins hafi með skattrannsókn sinni sýnt fram á hverju skattfjárhæð, sem undan var dregin, hafi að minnsta kosti numið. Allan vafa í því sambandi verður að meta gjaldendum í hag, sbr. grundvallarreglu 108. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, sbr. áður 45. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála.

Eins og fram er komið eru tölulegar niðurstöður rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins á bókhaldi og skattskilum X ehf. að því er varðar vangreiddan virðisaukaskatt annars vegar byggðar á gögnum um innborganir á bankareikning félagsins á árinu 2005 og hins vegar á leiðréttingarskýrslu virðisaukaskatts vegna rekstrarársins 2005 sem fylgdi endurgerðu skattframtali X ehf. árið 2006. Engin skattskyld velta, útskattur eða innskattur var tilgreindur í upphaflegri virðisaukaskattsskýrslu félagsins árið 2005, en fyrrgreinda leiðréttingarskýrslu lagði gjaldandi fram í tengslum við rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins ásamt endurgerðu skattframtali X ehf. árið 2006 og var í skýrslunni tilgreind skattskyld velta í samræmi við það sem fram var komið við rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins, m.a. með skýrslutökum af viðskiptamönnum X ehf., en gjaldanda mun hafa verið gerð grein fyrir svörum þeirra og öðrum fyrirliggjandi gögnum um greiðslur til X ehf. Við skýrslutöku af gjaldanda 8. febrúar 2007 staðfesti hann að hið endurgerða skattframtal og leiðréttingarskýrsla virðisaukaskatts gæfi rétta mynd af rekstri X ehf. Samkvæmt þessu og að virtum gögnum málsins að öðru leyti þykir ekkert komið fram sem gefur tilefni til annars en að miða við þá fjárhæð skattskyldrar veltu sem greinir í niðurstöðum skattrannsóknarstjóra ríkisins.

Af hálfu gjaldenda hafa ekki verið gerðar athugasemdir við niðurstöðu skattrannsóknarstjóra ríkisins varðandi innskatt X ehf. rekstrarárið 2005, en í þeim efnum er byggt á bókhaldi og leiðréttingarskýrslu félagsins, svo sem fyrr segir.

Gjaldandi, A, var stjórnarmaður og prókúruhafi X ehf. á þeim tíma sem málið varðar og bar ábyrgð á því að skil væru gerð á virðisaukaskattsskýrslum félagsins og virðisaukaskatti í samræmi við ákvæði 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Með stoð í gögnum málsins, m.a. framburði gjaldanda við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins, þykir fullsannað að gjaldandi hafi með saknæmum hætti staðið skil á rangri virðisaukaskattsskýrslu X ehf. árið 2005 vegna vanframtalinnar skattskyldrar veltu að fjárhæð 4.944.777 kr. og með því vanrækt greiðslu á virðisaukaskatti að fjárhæð 986.311 kr. að teknu tilliti til innskatts. Framangreind háttsemi varðar gjaldanda sekt eftir 6. mgr., sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995.

Samkvæmt breytingum á refsiákvæðum skattalaga, sem gerðar voru með lögum nr. 42/1995 og tóku gildi 9. mars 1995, skal sekt aldrei vera lægri en sem nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin, þó að teknu tilliti til álags. Eins og fram er komið var í tengslum við rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins lögð fram leiðréttingarskýrsla virðisaukaskatts vegna rekstrar X ehf. árið 2004 og ekki liggur annað fyrir en að gerð hafi verið skil á virðisaukaskatti samkvæmt henni áður en mál þetta var sent yfirskattanefnd til meðferðar. Til þess er hins vegar að líta að hin leiðréttu skattskil voru augljóslega ekki byggð á viðhlítandi grundvelli, enda engum tekjuskráningargögnum til að dreifa, heldur virðast eingöngu hafa verið stuðst við fyrirliggjandi rannsóknargögn skattrannsóknarstjóra ríkisins um tekjur í rekstrinum, svo sem rakið er að framan. Að þessu virtu þykja ekki skilyrði til þess að færa fésekt niður fyrir lögbundið lágmark sektarrefsingar. Að þessu virtu, málsatvikum að öðru leyti og að teknu tilliti til álags samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 þykir sekt gjaldanda hæfilega ákveðin 1.900.000 kr. til ríkissjóðs.

Upplýst hefur verið í máli þessu að bú X ehf. hefur verið tekið til gjaldþrotameðferðar. Að því virtu og svo sem mál þetta liggur fyrir þykja ekki efni til að gera félaginu sekt vegna framangreindra brota á skattalögum.

Úrskurðarorð:

Gjaldandi, A, greiði sekt að fjárhæð 1.900.000 kr. til ríkissjóðs. Þrotabúi X ehf. verður ekki gerð sekt í máli þessu.

 

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum