2010

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 26/2010

17.2.2010

Úrskurður nr. 26/2010                                                                

ÚRSKURÐUR YFIRSKATTANEFNDAR

Ár 2010, miðvikudaginn 17. febrúar, er tekið fyrir mál nr. 134/2008; krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um að A, kt. [...], verði gerð sekt vegna meintra brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Ragnheiður Snorradóttir og Valdimar Guðnason. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi, dags. 7. maí 2008 hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A, kt. [...], fyrir brot á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum, framin vegna rekstrarársins 2005.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

„A, sem fyrrum stjórnarmanni, framkvæmda-stjóra og prókúruhafa X ehf. (nú afskráð), kt. [...], er gefið að sök eftirfarandi:

1. Vanræksla á skilum skattframtals og fylgigagna þess. Vanframtaldar rekstrartekjur. Möguleg rekstrargjöld.

A er gefið að sök að hafa, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, vanrækt að standa skil á skattframtali ásamt fylgigögnum þess, fyrir hönd skattaðila, til skattstjórans í Reykjavík vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2006, vegna rekstrarársins 2005, með því að vanframtelja rekstrartekjur um samtals kr. 23.296.773 vegna rekstrarársins 2005, sem eru til komnar vegna starfsemi skattaðila, sem fólgin var í [...] Möguleg rekstrargjöld skattaðila nema samtals kr. 7.001.102 og reiknað endurgjald fyrirsvarsmanns skattaðila nemur samtals kr. 5.388.000 vegna fyrrgreinds rekstrarárs. Skattstjórinn í Reykjanesumdæmi áætlaði tekjuskattsstofn skattaðila vegna rekstrarársins 2005 kr. 10.000.000, auk álags kr. 1.500.000.             Sjá fskj. 4.4 í meðfylgjandi skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins.

Sú háttsemi A sem lýst hefur verið hér að framan leiddi ekki til ákvörðunar lægri tekjuskattsstofns skattaðila en vera bar rekstrarárið 2005, að teknu tilliti til áætlunar skattstjóra. Sú háttsemi A sem lýst hefur verið hér að framan brýtur í bága við ákvæði 90. gr., sbr. B. lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Varðar framanlýst háttsemi A sekt samkvæmt 6. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

2. Skil á efnislega röngum virðisaukaskattsskýrslum. Vanræksla á skilum á virðisaukaskattsskýrslum. Vantalin skattskyld velta og virðisaukaskattur.

A er gefið að sök, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, að hafa staðið skil á efnislega röngum virðisaukaskattsskýrslum til innheimtumanns ríkissjóðs vegna uppgjörstíma-bilanna janúar–febrúar, mars–apríl og maí–júní rekstrarárið 2005, fyrir hönd skattaðila. Þá er A gefið að sök að hafa vanrækt, fyrir hönd skattaðila, að standa innheimtumanni ríkissjóðs skil á virðisaukaskattsskýrslum vegna virðisaukaskattsskyldrar starfsemi skattaðila vegna uppgjörstímabilanna júlí–ágúst, september–október og nóvember–desember rekstrarárið 2005 og vanframtelja með því skattskylda veltu og virðisaukaskatt. Nemur vanframtalin skattskyld velta samtals kr. 23.296.773 og vanframtalinn útskattur samtals kr. 5.707.710. Mögulegur innskattur nemur samtals kr. 1.680.024.

Sundurliðast vantalin skattskyld velta og virðisaukaskattur svo sem hér greinir:

 

Rekstrarár

 

Uppgjörstímabil

Vantalin skattskyld velta Vantalinn útskattur Mögulegur innskattur
2005 janúar – febrúar 1.916.371 469.511 7.385
2005 mars – apríl 2.827.480 692.733 118.027
2005 maí – júní 2.102.517 515.117 294.362
2005 júlí – ágúst 5.275.670 1.292.539 636.355
2005 sept. – okt. 6.706.018 1.642.974 453.774
2005 nóv. – des. 4.468.717 1.094.836 170.121
Samtals kr.   23.296.773 5.707.710 1.680.024

Sú háttsemi A sem hér hefur verið lýst brýtur í bága við ákvæði 1. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 24. gr., sbr. aðalreglur 1. gr., 2. gr., 1. tl. 1. mgr. 3. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. mgr. 13. gr., 1. mgr. 14. gr. og 19. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.

Varðar framanlýst háttsemi A sekt samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Við endurákvörðun á virðisaukaskatti vegna umræddra uppgjörstímabila rekstrarárið 2005 hefur skattaðila verið gert að sæta álagi á vangreiddan virðisaukaskatt samkvæmt framangreindu á grundvelli 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, kr. 505.300, er komi til frádráttar við ákvörðun sektarfjárhæðar.

Þess er krafist að A verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 7. maí 2008.

II.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 9. maí 2008, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef hann vildi ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál hans og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 2. mgr. 110. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og 2. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Engar athugasemdir bárust frá gjaldanda. Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 8.  júní 2009, var gjaldanda að nýju gefinn kostur á að leggja fram frekari gögn og rökstuðning í málinu í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins. Var í því sambandi vísað til þess að yfirskattanefnd hefði úrskurðað um kæru gjaldanda, dags. 30. nóvember 2007, vegna úrskurðar ríkisskattstjóra um endurákvörðun opinberra gjalda gjaldanda gjaldárið 2006, en umfjöllun yfirskattanefndar um sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins hefði beðið niðurstöðu um endurákvörðunarþátt málsins. Var gjaldanda veittur 20 daga frestur til að koma á framfæri gögnum og athugasemdum vegna sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins. Engar athugasemdir hafa borist frá gjaldanda.

III. 

1. Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 7. maí 2008, er gerð sú krafa að gjaldanda, A, verði sem fyrirsvarsmanni X ehf., kt. [...], gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Gjaldandi hefur átt þess kost að koma að vörnum fyrir yfirskattanefnd í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins, en engar athugasemdir hafa borist. Þar sem gjaldandi hefur ekki gert athugasemdir við meðferð máls þessa fyrir yfirskattanefnd verður að líta svo á að hann mæli því ekki í gegn að það sæti sektarmeðferð fyrir nefndinni.

2. Skattrannsóknarstjóri ríkisins hóf hinn 26. júní 2006 rannsókn á skilum X ehf. á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda og innheimtum virðisaukaskatti vegna tilgreindra greiðslu- og uppgjörstímabila árin 2004, 2005 og 2006, en hinn 2. nóvember 2006 var jafnframt hafin rannsókn á bókhaldi og skattskilum X ehf. rekstrarárið 2005 sem beindist að skattskilagögnum, bókhaldi og tekjuskráningu, skattskyldri veltu, útskatti og rekstrartekjum, svo og rekstrargjöldum og innskatti. Rannsókn þessari, sem samkvæmt framangreindu beindist að skattskilum einkahlutafélagsins rekstrarárið 2005, lauk með skýrslu, dags. 15. mars 2007. Vegna rannsóknarinnar voru teknar skýrslur af gjaldanda, A, sbr. skýrslutökur 8. desember 2006 og 9. febrúar 2007. Var rannsóknin einkum byggð á greindum skýrslutökum af gjaldanda, bókhalds- og skattskilagögnum X ehf. vegna rekstrarársins 2005 og gögnum úr upplýsingakerfum og fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra. Með bréfi dags. 26. febrúar 2007, sendi skattrannsóknarstjóri gjaldanda skýrslu um rannsóknina, sem dagsett var þann dag, og gaf honum kost á að tjá sig um efni hennar. Engar athugasemdir voru gerðar af hálfu gjaldanda og var lokaskýrsla skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 15. mars 2007, efnislega samhljóða hinni fyrri að viðbættum kafla um lok rannsóknarinnar.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 15. mars 2007, voru helstu niðurstöður rannsóknarinnar teknar saman með svofelldum hætti: 

„Niðurstöður rannsóknar á bókhaldi og skattskilum skattaðila fyrir rekstrarárið 2005 eru:

·1  Bókhald hefur ekki verið fært.

·2  Skattskyld velta og útskattur eru vanframtalin.

·3  Rekstrartekjur og rekstrargjöld eru vanframtalin.

·4  Innskattur á innsendum virðisaukaskattsskýrslum er rangfærður.

·5  Virðisaukaskattsskýrslum vegna uppgjörstímabilanna júlí til og með desember rekstrarárið 2005 hefur ekki verið skilað.

·6  Skattframtali og ársreikningi hefur ekki verið skilað.

·7  Reiknað endurgjald forsvarsmanns skattaðila, A, er vanframtalið.“

Þá gerði skattrannsóknarstjóri ríkisins tölulega grein fyrir niðurstöðum rannsóknarinnar í töflu í niðurlagi skýrslu sinnar. Þar kom fram að skattskyld velta X ehf. rekstrarárið 2005 væri vantalin um 23.296.773 kr., útskattur um 5.707.710 kr. og rekstrartekjur um 23.296.773 kr., en möguleg rekstrargjöld væru 7.001.102 kr. og mögulegur innskattur 1.680.024 kr. Vantalið reiknað endurgjald forráðamanns félagsins næmi 5.388.000 kr.

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins var mál X ehf. sent ríkisskattstjóra til meðferðar, sbr. 6. mgr. 103. gr., sbr. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 5. mgr. 39. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. bréf skattrannsóknarstjóra, dags. 15. mars 2007. Á grundvelli rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins og í framhaldi af bréfi til þrotabús X ehf., dags. 11. maí 2007, sem ekki var svarað af þess hálfu, tók ríkisskattstjóri áður álögð opinber gjöld X ehf. gjaldárið 2006 og virðisaukaskatt 2005 til endurákvörðunar með úrskurði um endurákvörðun, dags. 13. september 2007. Samkvæmt úrskurðinum var skattskyld velta X ehf. árið 2005 ákvörðuð 33.130.525 kr. og útskattur 8.116.979 kr. Þá var innskattur rekstrarárið 2005 hækkaður úr 1.670.066 kr. í 1.680.024 kr. eða um 9.958 kr. Ríkisskattstjóri bætti álagi samkvæmt 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 við hækkun virðisaukaskatts samkvæmt framangreindu. Fram kom í úrskurði ríkisskattstjóra að við áætlun skattskyldrar veltu væri byggt á niðurstöðum skattrannsóknarstjóra ríkisins. Þá ákvarðaði ríkisskattstjóri tryggingagjaldsstofn X ehf. 18.532.135 kr. gjaldárið 2006 miðað við áætlaðar launagreiðslur félagsins að fjárhæð 17.483.146 kr., þar á meðal reiknað endurgjald fyrirsvarsmanns félagsins, A, að fjárhæð 2.694.000 kr., svo og ákvarðaði ríkisskattstjóri hækkun skilaskyldrar staðgreiðslu opinberra gjalda og álag vegna vangreiddrar staðgreiðslu vegna reiknaðs endurgjalds fyrirsvarsmanns félagsins. Tekjuskattsstofn X ehf. gjaldárið 2006 var ákvarðaður 7.555.637 kr., þ.e. lækkun um 2.444.363 kr. frá áætlun skattstjóra, auk álags samkvæmt 1. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Af hálfu þrotabús X ehf. var málskotsréttur vegna endurákvörðunar ríkisskattstjóra ekki nýttur.

3. Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 15. mars 2007, kemur fram að gjaldandi, A, hafi verið stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi X ehf. á því tímabili sem rannsóknin tók til. Þá kemur fram að bú félagsins hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta. Tilgangur félagsins samkvæmt samþykktum þess var rekstur [...] Gerð er grein fyrir því í skýrslunni að ekki hafi verið talið fram til skatts vegna X ehf. gjaldárið 2006 og því hafi skattstjóri áætlað tekjuskattsstofn félagsins það gjaldár og var áætlunarfjárhæð 10.000.000 kr. auk álags 1.500.000 kr. Eru raktar þær skýringar gjaldanda, A, sem hafi við skýrslutöku 8. desember 2006 verið spurður um það hvers vegna skattframtalinu hefði ekki verið skilað, að félagið hafi verið í skuld við bókara félagsins sem því hefði ekki viljað gera skattframtal. Samkvæmt skýrslunni voru gerð skil á virðisaukaskattsskýrslum vegna uppgjörstímabilanna janúar-febrúar, mars-apríl og maí-júní 2006, en ekki vegna uppgjörstímabila á síðari hluta ársins. Þá kemur fram að bókhald hafi ekki verið fært vegna rekstrar félagsins, en bókhaldsgögn hafi verið afhent vegna rannsóknarinnar, þar á meðal tekjuskráningargögn, þ.e. útgefnir sölureikningar.

Í kafla um rannsókn á skattskyldri veltu, útskatti og rekstrartekjum X ehf. kemur fram að gefnir hafi verið út sölureikningar í nafni X ehf. og innheimtur virðisaukaskattur í samræmi við þá án þess að gerð hafi verið grein fyrir veltu félagsins að öllu leyti í skýrslum til skattyfirvalda. Um sé að ræða 408 sölureikninga að heildarfjárhæð 41.247.504 kr., þar af skattskyld velta 33.130.525 kr. og útskattur 8.116.979 kr. Samkvæmt innsendum virðisaukaskattsskýrslum félagsins árið 2005 sé skattskyld velta tilgreind 9.833.752 kr. og útskattur 2.409.269 kr. og því sé skattskyld velta vantalin um 23.296.773 kr. og útskattur um 5.707.710 kr. Rekstrartekjur X ehf. séu vantaldar um 23.296.773 kr. rekstrarárið 2005.

Að því er varðar rekstrargjöld og innskatt kemur fram í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins að samkvæmt bókhaldsgögnum X ehf. og upplýsingum gjaldanda við skýrslutöku nemi rekstrargjöld félagsins 7.001.102 kr. rekstrarárið 2005 og innskattur 1.680.024 kr., en í virðisaukaskattsskýrslum ársins (uppgjörstímabilin janúar-febrúar, mars-apríl og maí-júní) sé innskattur tilgreindur 1.670.066 kr. Innskattur X ehf. sé því vantalinn um 9.958 kr. rekstrarárið 2005 en hafi verið rangfærður í innsendum virðisaukaskattsskýrslum félagsins.

Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 8. desember 2006 staðfesti gjaldandi að fyrirliggjandi upplýsingar úr fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra um fyrirsvarsmenn X ehf. væru réttar og ættu við rannsóknartímabilið. Kvaðst gjaldandi hafa verið í ólaunuðu starfi hjá X ehf. en borið ábyrgð á daglegum rekstri félagsins. Starfsemi félagsins hefði falist í [...] Gjaldandi hefði séð um að varðveita bókhaldsgögn, en bókhald félagsins hefði ekki verið fært umrætt ár. Gjaldandi gat ekki svarað því hvers vegna skattframtali X ehf. árið 2006 hefði ekki verið skilað til skattstjóra að öðru leyti en því að félagið skuldaði bókara og hann hefði ekki viljað gera skattframtal nema honum yrði borguð sú skuld. Gjaldandi kvaðst hafa séð um gerð virðisaukaskattsskýrslna X ehf. fyrir uppgjörstímabilin janúar-febrúar, mars-apríl og maí-júní 2005 með aðstoð fyrrverandi starfsmanns. Gjaldandi taldi skýrslurnar vera réttar. Trassaskapur gjaldanda hefði valdið því að virðisaukaskattsskýrslum félagsins fyrir tímabilin júlí-ágúst, september-október og nóvember-desember 2005 var ekki skilað. Við skýrslutöku 9. febrúar 2007 voru útgefnir sölureikningar X ehf. árið 2005 lagðir fyrir gjaldanda og kannaðist gjaldandi við alla sölureikningana og taldi að þeir gæfu rétta mynd af tekjum félagsins. Þá taldi gjaldandi að fyrirliggjandi gögn um rekstrarkostnað X ehf. árið 2005 gæfu rétta mynd af rekstri félagsins umrætt rekstrartímabil og kvaðst ekki vita um frekari kostnaðargögn.

4. Sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins í máli þessu er í fyrsta lagi byggð á því að gjaldandi hafi sem fyrirsvarsmaður X ehf. vanrækt að standa skil á skattframtali félagsins árið 2006 á lögmæltum tíma án þess þó að sú vanræksla hafi leitt til ákvörðunar lægri tekjuskattsstofns félagsins gjaldárið 2006 en vera bar. Í öðru lagi byggir kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins á því að gjaldandi hafi staðið skil á röngum virðisaukaskattsskýrslum þrjú uppgjörstímabil árið 2005 og vanrækt skil á virðisaukaskattsskýrslum önnur þrjú tímabil sama ár og með þessari háttsemi vantalið skattskylda veltu um samtals 23.296.773 kr. og útskatt um 5.707.710 kr. Jafnframt kemur fram í kröfugerðinni að mögulegur innskattur nemi 1.680.024 kr. Í samræmi við þessa framsetningu verður ekki betur séð en að skattrannsóknarstjóri ríkisins miði sektarkröfu sína við vantalinn virðisaukaskatt til greiðslu að fjárhæð samtals 4.027.686 kr. öll uppgjörstímabil ársins 2005 eða sem svarar til vantalins útskatts að frádregnum tilgreindum mögulegum innskatti. Þess er að geta að töluleg niðurstaða rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins, sem liggur til grundvallar skattsektarkröfu, var sú að innskattur X ehf. árið 2005 væri vanfærður um einungis 9.958 kr. Við úrlausn máls þessa verður hins vegar ekki byggt á öðrum tölulegum forsendum, gjaldanda í óhag, en gert er í kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins.

Gjaldandi hefur sem fyrr segir ekki gert athugasemdir í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins og við skýrslutökur, sem fram fóru hjá skattrannsóknarstjóra vegna rannsóknar málsins, kom fram viðurkenning gjaldanda á því að vanrækt hefðu verið skil á virðisaukaskattsskýrslum og innheimtum virðisaukaskatti félagsins vegna seldrar þjónustu árið 2005. Samkvæmt þessu og að virtum gögnum málsins þykir óyggjandi að rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins hafi leitt í ljós vantalda skattskylda veltu og vangreiddan virðisaukaskatt í skattskilum X ehf. árið 2005. Í máli því, sem hér er til meðferðar, er um að tefla kröfugerð um ákvörðun sektar á hendur gjaldanda m.a. samkvæmt ákvæði 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sem gerir ráð fyrir því að sektarákvörðun sé bundin þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin. Verður því að taka afstöðu til þess hvort skattrannsóknarstjóri ríkisins hafi með skattrannsókn sinni sýnt fram á hverju skattfjárhæð, sem undan var dregin, hafi að minnsta kosti numið. Allan vafa í því sambandi verður að meta gjaldanda í hag, sbr. grundvallarreglu 108. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, sbr. áður 45. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála.

Eins og fram er komið eru tölulegar niðurstöður samkvæmt rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á bókhaldi og skattskilum X ehf. fyrir rekstrarárið 2005 byggðar á útgefnum sölureikningum félagsins umrætt ár sem skattrannsóknarstjóri aflaði vegna rannsóknar málsins. Umræddir sölureikningar skattaðila eru að fjárhæð 41.247.504 kr. og reiknuðust rekstrartekjur og skattskyld velta X ehf. í samræmi við það 33.130.525 kr. greint rekstrarár. Að teknu tilliti til tilgreindrar skattskyldrar veltu samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum X ehf. árið 2005, sem nam 9.833.752 kr., reiknaði skattrannsóknarstjóri ríkisins vantalda skattskylda veltu 23.296.773 kr. Er þetta sú fjárhæð sem tilgreind er sem töluleg niðurstaða rannsóknarinnar um vantalda rekstrartekjur og skattskylda veltu og jafnframt byggt á í kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins til yfirskattanefndar. Af hálfu gjaldanda er staðfest að tekjur X ehf. hafi numið þeim fjárhæðum sem fyrrgreind gögn bera með sér, sbr. framburð gjaldanda við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 9. febrúar 2007. Samkvæmt þessu og að virtum gögnum málsins þykir ekkert komið fram sem gefur tilefni til annars en að miða við þær fjárhæðir rekstrartekna og skattskyldrar veltu sem umræddir sölureikningar bera með sér.

Rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á rekstrarkostnaði og innskatti X ehf. var byggð á bókhaldsgögnum félagsins, en samkvæmt þeim var talið að mögulegur innskattur væri 1.680.024 kr. rekstrarárið 2005. Er þetta sú fjárhæð sem byggt er á í kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins. Af hálfu gjaldanda hefur ekkert komið fram um frekari innskattfrádrátt. Verður því byggt á greindri fjárhæð.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telst hafa verið leitt í ljós með rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins að annmarkar voru á innsendum virðisaukaskattsskýrslum X ehf. vegna uppgjörstímabilanna janúar-febrúar, mars-apríl og maí-júní 2005. Þá voru ekki gerð skil á virðisaukaskattsskýrslum og virðisaukaskatti X ehf. uppgjörstímabilin júlí-ágúst, september-október og nóvember-desember 2005 þrátt fyrir skattskylda veltu í rekstri félagsins samkvæmt því sem rakið er að framan. Gjaldandi var stjórnarmaður og framkvæmdastjóri X ehf. á þeim tíma sem málið varðar og bar ábyrgð á því að skil væru gerð á virðisaukaskattsskýrslum félagsins og virðisaukaskatti í samræmi við ákvæði 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Með stoð í gögnum málsins, m.a. framburði gjaldanda við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins, þykir fullsannað að gjaldandi hafi með saknæmum hætti vanrækt þessar skyldur sínar að því er varðar virðisaukaskattsskil X ehf. umrædd uppgjörstímabil á árinu 2005 og telst vangreiddur virðisaukaskattur nema 4.027.686 kr. Af þessum sökum ber að ákvarða gjaldanda sekt samkvæmt 6. mgr., sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995, í samræmi við kröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins samkvæmt 2. lið í kröfugerð embættisins, dags. 7. maí 2008.

Að virtum málsatvikum og að teknu tilliti til álagsbeitingar ríkisskattstjóra þykja ekki efni til ákvörðunar viðurlaga á grundvelli 1. liðar í kröfugerð.

Ákvarða ber gjaldanda, A, sekt samkvæmt framangreindum ákvæðum 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995. Samkvæmt breytingum á refsiákvæðum skattalaga, sem gerðar voru með lögum nr. 42/1995 og tóku gildi 9. mars 1995, skal sekt aldrei vera lægri en sem nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin, þó að teknu tilliti til álags. Við ákvörðun sektar þykir bera að taka tillit til þess að dráttur hefur orðið á meðferð málsins án þess að gjaldanda verði um kennt. Að þessu virtu og að teknu tilliti til álags samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 þykir sekt gjaldanda hæfilega ákveðin 7.600.000 kr. til ríkissjóðs. 

Úrskurðarorð:

Gjaldandi, A, greiði sekt að fjárhæð 7.600.000 kr. til ríkissjóðs.

 

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum