2010

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 335/2010

10.11.2010

Úrskurður nr. 335/2010

ÚRSKURÐUR YFIRSKATTANEFNDAR

Ár 2010, miðvikudaginn 10. nóvember, er tekið fyrir mál nr. 366/2009; krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um að A, kt. [...], verði gerð sekt vegna meintra brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Sverrir Örn Björnsson og Valdimar Guðnason. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi, dags. 21. október 2009, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A, kt. [...], fyrir brot á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum, framin vegna rekstraráranna 2000, 2001, 2002, 2003, 2004, 2005, 2006 og 2008.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

„A er gefið að sök eftirfarandi:

Vangoldinn innheimtur virðisaukaskattur. Vanræksla á afhendingu virðisaukaskattsskýrslna á lögmæltum tíma.

A er gefið að sök að hafa vanrækt að standa innheimtumanni ríkissjóðs skil á virðisaukaskatti sem hún innheimti í starfsemi sinni, sem fólst í vinnu við kvikmyndagerð, vegna uppgjörstímabilanna mars–apríl, maí–júní, júlí–ágúst, september–október og nóvember–desember rekstrarárið 2000, janúar–febrúar, mars–apríl, júlí–ágúst, september–október og nóvember–desember rekstrarárið 2001, janúar–febrúar, maí–júní, september–október og nóvember–desember rekstrarárið 2002, janúar–febrúar rekstrarárið 2003 til og með nóvember–desember rekstrarárið 2006 og mars–apríl rekstrarárið 2008. Þá er A gefið að sök að hafa vanrækt að standa innheimtumanni ríkissjóðs, á lögmæltum tíma, skil á virðisaukaskattsskýrslum vegna uppgjörstímabilanna mars–apríl, maí–júní, júlí–ágúst, september–október og nóvember–desember rekstrarárið 2000, janúar–febrúar, mars–apríl, maí–júní, júlí–ágúst, september–október og nóvember–desember rekstrarárið 2001, janúar–febrúar, mars–apríl, maí–júní, júlí–ágúst, september–október og nóvember–desember rekstrarárið 2002, janúar–febrúar til og með nóvember–desember rekstrarárið 2003, janúar–febrúar til og með september–október rekstrarárið 2004, janúar–febrúar til og með nóvember–desember rekstrarárið 2005, janúar–febrúar til og með september–október rekstrarárið 2006 og mars–apríl rekstrarárið 2008.

Vangoldinn innheimtur virðisaukaskattur til innheimtumanns ríkissjóðs vegna framangreindra uppgjörstímabila nemur samtals kr. 4.909.026. Fjárhæðin sundurliðast svo sem hér greinir:

Rekstrarár Uppgjörstímabil Vangoldinn virðisaukaskattur til innheimtumanns ríkissjóðs kr.
2000 mars – apríl 72.030
2000 maí – júní 85.803
2000 júlí – ágúst 51.817
2000 september – október 154.105
2000 nóvember - desember 14.651
Samtals kr.   378.406
2001 janúar – febrúar 28.886
2001 mars – apríl 31.418
2001 maí – júní 0
2001 júlí – ágúst 87.594
2001 september – október 119.720
2001 nóvember - desember 211.435
Samtals kr.   479.053
2002 janúar – febrúar 91.875
2002 mars – apríl 0
2002 maí – júní 30.845
2002 júlí – ágúst 0
2002 september – október 94.080
2002 nóvember - desember 20.535
Samtals kr.   237.335
2003 janúar – febrúar 144.305
2003 mars – apríl 26.963
2003 maí – júní 50.348
2003 júlí – ágúst 158.863
2003 september – október 38.829
2003 nóvember - desember 82.286
Samtals kr.   501.594
2004 janúar – febrúar 165.865
2004 mars – apríl 103.890
2004 maí – júní 137.200
2004 júlí – ágúst 266.829
2004 september – október 238.000
2004 nóvember - desember 21.246
Samtals kr.   933.030
2005 janúar – febrúar 49.257
2005 mars – apríl 231.796
2005 maí – júní 116.920
2005 júlí – ágúst 77.280
2005 september – október 295.751
2005 nóvember - desember 92.037
Samtals kr.   863.041
2006 janúar – febrúar 312.633
2006 mars – apríl 149.650
2006 maí – júní 91.825
2006 júlí – ágúst 263.317
2006 september – október 221.418
2006 nóvember - desember 208.224
Samtals kr.   1.247.067
2008 mars – apríl 269.500
Samtals kr.   269.500
Samtals öll árin   4.909.026

Er það mat skattrannsóknarstjóra ríkisins, byggt á gögnum málsins, að þetta hafi A gert á saknæman hátt, að því er frekast verður séð af ásetningi, eða í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi.

Telst þessi háttsemi A brjóta í bága við ákvæði 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr., samanber aðalreglur 1. gr., 2. gr., 1. tl. 1. mgr. 3. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. og 2. mgr. 13. gr., 1. mgr. 14. gr. og 19. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.

Framanlýst háttsemi A varðar hana sekt samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995.

Þess er krafist að A verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sektum í samræmi við framangreint.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 21. október 2009, sem fylgdi kröfugerðinni.

II.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 22. október 2009, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef hún vildi ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál hennar og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 2. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Með bréfi, dags. 27. nóvember 2009, hefur umboðmaður gjaldanda lagt fram athugasemdir vegna kröfugerðar skattrannsóknarstjóra ríkisins. Í bréfinu er þess aðallega krafist að gjaldanda verði ekki gerð sekt, en til vara er þess krafist að fallið verði frá beitingu fésektarlágmarks samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988. Er í því sambandi vísað til heilsufars gjaldanda, sbr. umsögn sálfræðings, greiðslna gjaldanda inn á skattskuldir sínar og aðstæðna í þjóðfélaginu. Þá er þess krafist sérstaklega að fallið verði frá beitingu sektar vegna rekstraráranna 2000 og 2001, enda séu meint brot vegna þeirra ára fyrnd, sbr. 7. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

III.

Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 21. október 2009, er gerð sú krafa að gjaldanda, A, verði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, þar sem hún hafi í sjálfstæðri starfsemi sinni vanrækt að standa skil á virðisaukaskatti tilgreind uppgjörstímabil árin 2000, 2001, 2002, 2003, 2004, 2005, 2006 og 2008. Gjaldandi hefur lagt fram athugasemdir sínar í tilefni af kröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins.

Skattrannsóknarstjóri ríkisins hóf hinn 30. október 2008 rannsókn á skattskilum gjaldanda er beindist að skilum hennar á innheimtum virðisaukaskatti vegna rekstraráranna 2000, 2001, 2002, 2003, 2004, 2005, 2006 og 2008. Vegna rannsóknarinnar kom gjaldandi til skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins þann 4. desember 2008. Með bréfi, dags. 20. febrúar 2009, sendi skattrannsóknarstjóri gjaldanda skýrslu um rannsóknina, sem dagsett var sama dag, og gaf henni kost á að tjá sig um efni hennar. Með bréfi, dags. 9. mars 2009, gerði skipaður verjandi gjaldanda athugasemdir við skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins. Þá bárust frá endurskoðanda gjaldanda samanburðar- og leiðréttingarskýrslur virðisaukaskatts, ásamt rekstrarskýrslu gjaldanda fyrir árið 2002. Í framhaldi af þessu tók skattrannsóknarstjóri ríkisins saman nýja skýrslu um rannsóknina, dags. 11. mars 2009, þar sem tölulegum niðurstöðum var breytt í samræmi við umrædd gögn vegna ársins 2002. Að öðru leyti var skýrslan efnislega samhljóða hinni fyrri að viðbættum kafla um lok rannsóknarinnar þar sem tekið var fram að fram komin andmæli þættu ekki gefa tilefni til frekari breytinga á skýrslunni.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 11. mars 2009, segir að rannsókn á skattskilum gjaldanda hafi einkum verið byggð á upplýsingum sem fram hafi komið við fyrrgreinda skýrslutöku, virðisaukaskattsskýrslum gjaldanda ásamt samanburðar- og leiðréttingarskýrslum virðisaukaskatts, svo og tekjubókhaldi ríkissjóðs, sbr. fylgiskjöl með skýrslunni, en þar er um að ræða yfirlit um greiðslur gjaldanda vegna staðgreiðslu opinberra gjalda, virðisaukaskatts og opinberra gjalda. Fram kemur í skýrslunni að rannsókn á virðisaukaskattsskilum gjaldanda hafi falist í því að bera fjárhæðir innheimts virðisaukaskatts samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum gjaldanda, þ.m.t. samanburðar- og leiðréttingarskýrslum virðisaukaskatts, og öðrum gögnum saman við greiðslur gjaldanda til innheimtumanns ríkissjóðs. Í skýrslunni er gerð grein fyrir þeirri niðurstöðu rannsóknarinnar að gjaldandi hafi ekki staðið skil á innheimtum virðisaukaskatti innan lögboðins frests vegna uppgjörstímabilanna mars-apríl, maí-júní, júlí-ágúst, september-október og nóvember-desember 2000, janúar-febrúar, mars-apríl, júlí-ágúst, september-október og nóvember-desember 2001, janúar-febrúar, maí-júní, september-október og nóvember-desember 2002, janúar-febrúar til með nóvember-desember 2003, janúar-febrúar til með nóvember-desember 2004, janúar-febrúar til með nóvember-desember 2005, janúar-febrúar til með nóvember-desember 2006 og mars-apríl 2008, samtals að fjárhæð 4.909.026 kr. Fram kemur að greiddar hafi verið 345.267 kr. inn á höfuðstól virðisaukaskattskuldar vegna framangreindra tímabila. Ekki verður ráðið af gögnum málsins að neinir annmarkar á grundvelli fyrirliggjandi virðisaukaskattsskýrslna gjaldanda hafi verið leiddir í ljós við rannsóknina.

Við skýrslutöku þann 4. desember 2008 kom fram af hálfu gjaldanda að sjálfstæð starfsemi hennar hefði falist í kvikmyndagerð. Gjaldandi kannaðist við undirritanir sínar á virðisaukaskattsskýrslum, sem bornar voru undir hana við skýrslutökuna, en skýrsla vegna uppgjörstímabilsins nóvember-desember 2002 var óundirrituð. Gjaldandi kvað tilgreinda sérkunnáttumenn hafa annast gerð virðisaukaskattsskýrslnanna en sjálf hefði hún annast gerð skýrslu vegna nóvember-desember 2006 og skýrslna vegna ársins 2008. Kvað gjaldandi skýrslu vegna mars-apríl 2008 gefa rétta mynd af rekstrinum en hún gæti ekki sagt til um hvort aðrar skýrslur gerðu það. Aðspurð um ástæðu þess að virðisaukaskattsskýrslum var ekki skilað á lögmæltum tíma sagði gjaldandi sig ekki hafa verið í ástandi til að sinna þessum málum á umræddum tíma og vísaði í þessu sambandi til umsagnar sálfræðings sem hún afhenti við skýrslutökuna, sbr. fskj. 9.1 með skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins. Gjaldandi staðfesti undirritanir sínar á samanburðar- og leiðréttingarskýrslur virðisaukaskatts, sem bornar voru undir hana við skýrslutökuna, en leiðréttingarskýrsla vegna ársins 2005 var óundirrituð. Kvaðst gjaldandi ekki gera sér grein fyrir hvort samanburðar- og leiðréttingarskýrslur virðisaukaskatts gæfu rétta mynd af rekstrinum þar sem langt væri um liðið. Gjaldanda var kynnt að samkvæmt gögnum málsins næmi virðisaukaskattur hennar, sem ekki hefði verið greiddur á lögmæltum tíma, samtals 5.004.998 kr. og gerði gjaldandi ekki athugasemdir við þá fjárhæð. Fram kom af hálfu gjaldanda að andlegt ástand hennar hefði orðið til þess að innheimtum virðisaukaskatti var ekki skilað á lögmæltum tíma til innheimtumanns og hefði innheimtur virðisaukaskattur farið í rekstur gjaldanda. Gjaldandi sagðist ekki hafa óskað eftir því við innheimtumann ríkissjóðs að greiðslum vegna skattskulda yrði ráðstafað með tilteknum hætti, en hún hefði talið sig greiða inn á þau tímabil sem hún hefði skilað skýrslum fyrir, þ.e. nóvember-desember 2006 og mars-apríl 2008.

Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995, er refsivert ef skattskyldur maður afhendir eigi á lögmæltum tíma virðisaukaskattsskýrslu eða virðisaukaskatt sem hann hefur innheimt eða honum borið að innheimta. Samkvæmt fortakslausum ákvæðum nefndra laga og með stoð í dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands, sbr. m.a. dóma Hæstaréttar 27. febrúar 1997 (H 1997:789), 25. september 1997 (H 1997:2446), 14. janúar 1999 (H 1999:79), 18. febrúar 1999 (H 1999:544 og 550), 10. júní 1999 (H 1999:2645) og 30. mars 2000 (H 2000:1422), geta skattskyldir aðilar unnið til refsingar með því einu að láta ógert að skila umræddum gjöldum í ríkissjóð á tilskildum tíma, enda sé huglægum refsiskilyrðum fullnægt.

Til grundvallar niðurstöðu skattrannsóknarstjóra ríkisins um vangreidda fjárhæð virðisaukaskatts árin 2000, 2001, 2002, 2003, 2004, 2005, 2006 og 2008 liggja virðisaukaskattsskýrslur og leiðréttingarskýrslur virðisaukaskatts sem gjaldandi hefur ekki vefengt að varði rekstur sinn, sbr. skýrslutöku af gjaldanda 4. desember 2008 og bréf verjanda gjaldanda til skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 9. mars 2009. Hefur ekkert komið fram sem getur gefið tilefni til að ætla annað en að skýrslurnar gefi rétta mynd af rekstri gjaldanda, enda hafa engar athugasemdir verið gerðar af hálfu gjaldanda við niðurstöður í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins varðandi þennan þátt málsins. Að svo vöxnu og að virtum gögnum málsins verður því byggt á fjárhæð vangreidds virðisaukaskatts samkvæmt skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, sbr. og kröfugerð skattrannsóknarstjóra í máli þessu.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins og greinargerð með kröfugerð embættisins til yfirskattanefndar er gerð grein fyrir greiðslum gjaldanda til innheimtumanns ríkissjóðs frá því að skuldir vegna virðisaukaskatts, sem um ræðir í máli þessu, byrjuðu að myndast 5. júní 2000. Þar kemur fram að á tímabilinu 5. júní 2000 til og með 12. ágúst 2009 voru alls greiddar til innheimtumanns ríkissjóðs 2.388.922 kr. vegna virðisaukaskatts gjaldanda. Þar af var 2.360.326 kr. ráðstafað til greiðslu höfuðstóls virðisaukaskatts og er þar að hluta um að ræða greiðslur vegna uppgjörstímabila sem mál þetta varðar, nánar tiltekið 81.450 kr. vegna nóvember-desember 2006 og 263.787 kr. vegna mars-apríl 2008. Eins og mál þetta er lagt fyrir af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins þykir rétt að þessar fjárhæðir, sem gjaldandi stóð samkvæmt framangreindu skil á áður en mál hennar var sent yfirskattanefnd til meðferðar, komi til frádráttar fjárhæð vangreidds virðisaukaskatts samkvæmt kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins, enda er það í samræmi við það sem tíðkast hefur við meðferð hliðstæðra mála fyrir yfirskattanefnd.

Sá hluti greiðslna á umræddu tímabili, sem innheimtumaður ríkissjóðs hefur ráðstafað til greiðslu dráttarvaxta, álags og kostnaðar vegna virðisaukaskatts, nemur 28.596 kr. Þá kemur fram í gögnum málsins að greiðslur til innheimtumanns ríkissjóðs vegna opinberra gjalda gjaldanda, þ.m.t. tryggingagjalds, á þeim tíma sem hér um ræðir, námu 183.249 kr. og var innborgunum að hluta varið til greiðslu dráttarvaxta og kostnaðar. Aðrar greiðslur til innheimtumanns en vegna höfuðstóls virðisaukaskatts námu því 211.845 kr.

Með dómi Hæstaréttar Íslands 2. október 2003 (H 2003:3178), sem varðar hliðstætt mál, var því hafnað að greiðslur, sem innheimtumaður hefur ráðstafað upp í álag, dráttarvexti og kostnað, geti haft áhrif á sakarmat og komið með beinum hætti til frádráttar skattskuld sem viðurlagaákvörðun tekur til. Ekki verður talið að breyting með lögum nr. 134/2005 á refsiákvæðum laga nr. 50/1988 haggi þessari dómaframkvæmd. Með breytingalögum þessum er hins vegar skýrt kveðið á um það að greiðslur skattaðila á verulegum hluta skattfjárhæðar geti að uppfylltum ákveðnum skilyrðum leitt til þess að ákvæði um lágmark sektarrefsingar eigi ekki við. Samkvæmt dómum Hæstaréttar Íslands 30. mars 2006 í málunum nr. 428/2005 og 469/2005 ber að taka í þessu sambandi tillit til innborgana sem ráðstafað hefur verið til greiðslu álags vegna vangreiddrar staðgreiðslu opinberra gjalda starfsmanna og vangreidds virðisaukaskatts, svo og skuli fara á sama hátt með greiðslur vegna staðgreiðslu opinberra gjalda þess fyrirsvarsmanns sem refsiábyrgð sætir. Ekki verður annað séð en að líta megi með hliðstæðum hætti til greiðslna viðkomandi skattaðila sem innheimtumaður hefur ráðstafað upp í dráttarvexti og kostnað, og eftir atvikum til greiðslu á opinberum gjöldum, enda er það í samræmi við úrskurðaframkvæmd fyrir gildistöku laga nr. 134/2005, sbr. og fyrrgreindan dóm Hæstaréttar frá árinu 2003 og aðra dóma í hliðstæðum málum, m.a. H 2000:2387. Eins og mál þetta liggur fyrir þykir því mega taka tillit til fyrrgreindra greiðslna gjaldanda að fjárhæð 211.845 kr.

Samkvæmt framanrituðu þykir nægilega komið fram með stoð í gögnum málsins og framburði gjaldanda við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 4. desember 2008 að gjaldandi hafi vanrækt skyldur sínar, sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, til að standa á tilskildum tíma skil á virðisaukaskatti að fjárhæð 4.563.789 kr. uppgjörstímabilin mars-apríl, maí-júní, júlí-ágúst, september-október og nóvember-desember 2000, janúar-febrúar, mars-apríl, júlí-ágúst, september-október og nóvember-desember 2001, janúar-febrúar, maí-júní, september-október og nóvember-desember 2002, janúar-febrúar til með nóvember-desember 2003, janúar-febrúar til með nóvember-desember 2004, janúar-febrúar til með nóvember-desember 2005, janúar-febrúar til með nóvember-desember 2006 og mars-apríl 2008, sbr. kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 21. október 2009. Tilteknar innborganir teljast hafa verið inntar af hendi vegna virðisaukaskatts gjaldanda á tímabilinu 5. júní 2000 til og með 12. ágúst 2009, sbr. að framan, sem þó breytir ekki því að greiðslur fóru fram eftir eindaga umræddra gjalda. Af hálfu gjaldanda hefur komið fram að andlegir erfiðleikar hafi átt ríkan þátt í vanskilum hennar á virðisaukaskatti. Samkvæmt framansögðu er um að ræða ítrekuð vanskil sem áttu sér stað um langt árabil. Eins og atvikum málsins er háttað samkvæmt framansögðu þykja þær skýringar gjaldanda að öll skattamál hennar hafi verið í ólestri vegna andlegra veikinda ekki fá breytt neinu um refsiábyrgð gjaldanda vegna greindrar vanrækslu á skilum virðisaukaskatts. Vegna þeirrar skýringar gjaldanda að innheimtur virðisaukaskattur hafi runnið í rekstur hennar skal tekið fram að ekki telst tæk varnarástæða að fé hafi ekki verið til í rekstri gjaldanda til að standa skil á umræddum gjöldum, sbr. m.a. fyrrgreindan dóm Hæstaréttar Íslands frá 30. mars 2000 (H 2000:1422).

Af hálfu umboðsmanns gjaldanda er því haldið fram að brot gjaldanda teljist fyrnd að hluta. Samkvæmt 7. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, fyrnist sök samkvæmt 40. gr. laganna á sex árum miðað við upphaf rannsóknar á vegum skattrannsóknarstjóra ríkisins eða rannsóknarlögreglustjóra ríkisins eða hjá löglærðum fulltrúum þeirra gegn skattaðila sem sökunaut, enda verði ekki óeðlilegar tafir á rannsókn máls eða ákvörðun refsingar. Ekki verður séð af gögnum málsins að gjaldandi hafi komið fyrir löglærðan fulltrúa skattrannsóknarstjóra ríkisins þar sem hann hafi verið sakaður um brot gegn skattalögum. Fyrning verður því talin hafa verið rofin er sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins var kynnt gjaldanda með bréfi yfirskattanefndar, dags. 22. október 2009, sbr. fyrningarrofsreglu þá er fram kemur í 3. málsl. 4. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Voru þá liðin meira en sex ár frá gjalddögum uppgjörstímabilanna mars-apríl 2000 til og með júlí-ágúst 2003, sbr. 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988. Til þess er hins vegar að líta að mál þetta varðar brot gjaldanda á lögum um virðisaukaskatt samfellt og vegna allra uppgjörstímabila virðisaukaskatts frá mars-apríl 2000 til og með nóvember-desember 2006, að undanskildum uppgjörstímabilunum maí-júní 2001, mars-apríl og júlí-ágúst 2002, en þessi uppgjörstímabil var samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum engin skattskyld velta í rekstri gjaldanda. Að þessu virtu og með vísan til dóma Hæstaréttar Íslands frá 29. mars 2001 í málinu nr. 18/2001 og frá 24. janúar 2002 í málinu nr. 274/2001 þykir bera að meta brot gjaldanda vegna uppgjörstímabilanna mars-apríl 2000 til og með nóvember-desember 2006 sem framhaldsbrot. Upphaf fyrningarfrests vegna þessara uppgjörstímabila verður því talið 5. febrúar 2007, þ.e. gjalddagi vegna uppgjörstímabilsins nóvember-desember 2006, en sem fyrr segir verður fyrning talin hafa verið rofin þegar málið var kynnt gjaldanda með bréfi yfirskattanefndar, dags. 22. október 2009. Með skírskotun til þessa teljast brot gjaldanda gagnvart lögum um virðisaukaskatt ekki vera fyrnd að neinu leyti.

Með vísan til þess sem rakið hefur verið telst fullnægt þeim huglægu refsiskilyrðum sem fram koma í 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995, og ber að ákvarða gjaldanda, A, sekt samkvæmt þessum lagaákvæðum vegna vanrækslu á skilum virðisaukaskatts sem að framan greinir.

Eins og lög nr. 50/1988 hljóða eftir breytingar, sem á þeim voru gerðar með lögum nr. 42/1995, skal sekt aldrei vera lægri en sem nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem vanrækt var greiðsla á, þó að teknu tilliti til álags. Samkvæmt breytingu á greindum lögum með lögum nr. 134/2005 eiga fésektarákvæði þessi þó ekki við hafi brot einskorðast við að standa ekki skil á réttilega tilgreindum virðisaukaskatti samkvæmt virðisaukaskattsskýrslu, enda hafi verið gerð skil á verulegum hluta skattfjárhæðar eða málsbætur eru miklar. Í tilviki gjaldanda er til þess að líta að virðisaukaskattsskýrslur, eftir atvikum leiðréttingarskýrslur virðisaukaskatts, liggja fyrir vegna allra uppgjörstímabila sem málið varðar og eru fjárhæðir í málinu byggðar á þeim. Sem fyrr segir verður lagt til grundvallar að greiðslur til innheimtumanns ríkissjóðs vegna virðisaukaskatts, sem hér beri að líta til, hafi numið 211.845 kr. Sú fjárhæð svarar til vangreidds virðisaukaskatts gjaldanda vegna fyrstu þriggja uppgjörstímabilanna sem sektarkrafa tekur til og hluta fjárhæðar fjórða uppgjörstímabilsins sem samkvæmt dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands, sbr. fyrrgreinda dóma frá 30. mars 2006, verður þó ekki talinn verulegur hluti fjárhæðarinnar. Verður því talið að sú undantekning frá fésektarlágmarki, sem mælt er fyrir um í lögum nr. 134/2005, taki til vanskila á virðisaukaskatti vegna uppgjörstímabilanna mars-apríl, maí-júní og júlí-ágúst að fjárhæð samtals 209.650 kr. Ekki liggur annað fyrir en að vangreiðsla á virðisaukaskatti vegna annarra tímabila hafi fyrst og fremst stafað af erfiðleikum í rekstri gjaldanda og þeim veikindum hennar sem gerð hefur verið grein fyrir í málinu. Hins vegar varðar mál þetta vanskil á virðisaukaskatti að ekki óverulegri fjárhæð og vegna langs tímabils. Að þessu virtu og með vísan til greindrar dómaframkvæmdar verður því ekki talið að skilyrði um miklar málsbætur, sbr. ákvæði laga nr. 134/2005, eigi hér við. Samkvæmt þessu gilda lágmarksákvæði 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um vanskil virðisaukaskatts að fjárhæð 4.354.109 kr.

Samkvæmt framansögðu og að teknu tilliti til álags samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 þykir sekt gjaldanda hæfilega ákveðin 8.300.000 kr. til ríkissjóðs.

Úrskurðarorð:

Gjaldandi, A, greiði sekt að fjárhæð 8.300.000 kr. til ríkissjóðs.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum