2010

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 334/2010

10.11.2010

Úrskurður nr. 334/2010

ÚRSKURÐUR YFIRSKATTANEFNDAR

Ár 2010, miðvikudaginn 10. nóvember, er tekið fyrir mál nr. 202/2009; krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um að A, kt. [...], verði gerð sekt vegna meintra brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Sverrir Örn Björnsson og Valdimar Guðnason. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi, dags. 14. maí 2009, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A, kt. [...], fyrir brot á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, lögum nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, öll með áorðnum breytingum, framin vegna rekstraráranna 2005 og 2006.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

„A er gefið að sök eftirfarandi:

1. Vanræksla á skilum á skattframtölum. Vanframtaldar rekstrartekjur. Möguleg rekstrargjöld.

A er gefið að sök að hafa, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, vanrækt að standa skattstjóranum í Reykjavík skil á skattframtölum og fylgigögnum þeirra vegna álagningar opinberra gjalda, gjaldárin 2006 og 2007, vegna rekstraráranna 2005 og 2006. Með því vanrækti hann að gera grein fyrir rekstrartekjum sínum að fjárhæð kr. 10.643.642 vegna rekstrarársins 2005 og kr. 11.883.588 vegna rekstrarársins 2006, sem til eru komnar vegna starfa A sem sendibílstjóri. Möguleg rekstrargjöld námu kr. 2.561.611 vegna rekstrarársins 2005 og kr. 2.102.612 vegna rekstrarársins 2006. Skattstjórinn í Reykjavík áætlaði tekjuskatts- og útsvarsstofn A vegna rekstrarársins 2005 kr. 13.400.000, auk álags kr. 2.010.000 og vegna rekstrarársins 2006 kr. 15.500.000, auk álags kr. 2.325.000.

Framangreind háttsemi A leiddi ekki til ákvörðunar lægri tekjuskatts- og útsvarsstofna hans en vera bar vegna rekstraráranna 2005 og 2006 og þar með ekki til ákvörðunar lægri tekjuskatts og útsvars hans að teknu tilliti til áætlana skattstjórans í Reykjavík.

Sú háttsemi A sem lýst hefur verið hér að framan brýtur í bága við ákvæði 90. gr., sbr. B lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 22. gr. og 19. gr. og 1. mgr. 21. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga.

Varðar framanlýst háttsemi A sekt samkvæmt 6. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga.

2. Vanræksla á skilum á virðisaukaskattsskýrslum. Vanframtalin skattskyld velta og útskattur. Mögulegur innskattur.

A er gefið að sök að hafa, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, vanrækt að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum vegna virðisaukaskattsskyldrar starfsemi sinnar til skattstjórans í Reykjavík vegna allra uppgjörstímabila rekstraráranna 2005 og 2006 og vanframtelja með því skattskylda veltu og virðisaukaskatt. Samkvæmt niðurstöðu skattrannsóknarstjóra ríkisins nemur vanframtalin skattskyld velta samtals kr. 22.527.230 og vanframtalinn útskattur samtals kr. 5.721.916. Mögulegur innskattur nemur samtals kr. 132.392.

Sundurliðast vanframtalin skattskyld velta og virðisaukaskattur svo sem hér greinir:

 

Rekstrarár

Uppgjörs-tímabil Vantalin skattskyld velta Vanfram-talinn útskattur Mögulegur innskattur Mögulegur innskattur á grundvelli kostnaðargagna í nafni A Mögulegur innskattur Mögulegur innskattur á grundvelli kostnaðargagna í nafni sambýliskonu A, B
2005 jan. – feb. 1.460.699 371.017 26.042 0
2005 mar. – apr. 1.535.911 390.121 17.405 17.785
2005 maí – jún. 1.779.178 451.910 3.764 247.450
2005 júl. – ágú. 1.911.356 485.485 6.547 108.083
2005 sept. – okt. 1.951.814 495.761 18.276 30.502
2005 nóv. – des. 2.004.684 509.190 4.796 34.441
Samtals kr.   10.643.642 2.703.484 76.830 438.261
2006 jan. – feb. 1.793.201 455.474 29.890 32.060
2006 mar. – apr. 1.776.799 451.306 2.500 48.000
2006 maí – jún. 2.094.892 532.103 4.042 46.937
2006 júl. – ágú. 2.068.972 525.518 2.906 12.738
2006 sept. – okt. 2.045.406 519.534 1.864 32.207
2006 nóv. – des. 2.104.318 534.497 14.360 26.699
Samtals kr.   11.883.588 3.018.432 55.562 198.641
Samtals bæði árin kr. 22.527.230 5.721.916 132.392 636.902  

Sú háttsemi A sem hér hefur verið lýst brýtur í bága við ákvæði 1. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 24. gr. sbr. aðalreglur 1. gr., 2. gr., 1. tl. 1. mgr. 3. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. mgr. 13. gr., 1. mgr. 14. gr. og 19. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.

Varðar framanlýst háttsemi A sekt samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.

Þess er krafist að A verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 14. maí 2009, sem fylgdi kröfugerðinni.

II.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 20. maí 2009, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef hann vildi ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál hans og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 2. mgr. 110. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 2. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Engar athugasemdir hafa borist frá gjaldanda.

III.

1. Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 14. maí 2009, er þess krafist að gjaldanda, A, verði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Gjaldandi hefur átt þess kost að koma að vörnum fyrir yfirskattanefnd í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins, en engar athugasemdir hafa borist. Þar sem gjaldandi hefur ekki gert athugasemdir við meðferð máls þessa fyrir yfirskattanefnd verður að líta svo á að hann mæli því ekki í gegn að það sæti sektarmeðferð fyrir nefndinni.

2. Sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins í máli þessu er byggð á niðurstöðum rannsóknar embættisins á bókhaldi og skattskilum gjaldanda vegna rekstraráranna 2005 og 2006, sbr. skýrslu um rannsóknina, dags. 16. október 2008. Rannsókn þessi hófst formlega hinn 5. maí 2008 og beindist bæði að rekstrartekjum og rekstrargjöldum gjaldanda svo og að virðisaukaskattsskilum hans vegna sjálfstæðrar starfsemi við rekstur sendibifreiðar á rannsóknartímabilinu. Var rannsóknin einkum byggð á upplýsingum sem fram komu við skýrslutökur af gjaldanda dagana 4. júní 2008 og 19. ágúst 2008 og á sölureikningum gjaldanda og upplýsingum úr upplýsingakerfi ríkisskattstjóra. Með bréfi, dags. 27. ágúst 2008, sendi skattrannsóknarstjóri gjaldanda skýrslu, dags 26. ágúst 2008, sem þá lá fyrir um rannsóknina, og gaf honum kost á að tjá sig um efni hennar áður en ákvörðun yrði tekin um framhald málsins. Þann 10. október 2008 afhenti skattaðili yfirlýsingu frá B um að allur kostnaður við rekstur bifreiðarinnar [...], sem hefði verið á hennar nafni, væri vegna atvinnurekstrar gjaldanda. Einnig afhenti gjaldandi greiðslukvittun og tilkynningu um afskráningu af virðisaukaskattsskrá. Í framhaldi af þessu tók skattrannsóknarstjóri saman lokaskýrslu sína um rannsóknina, dags. 16. október 2008, sem var efnislega samhljóða fyrri skýrslunni að viðbættri umfjöllun um umrædd kostnaðargögn.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 16. október 2008, voru helstu niðurstöður rannsóknarinnar teknar saman með svofelldum hætti:

„Niðurstöður rannsóknar skattrannsóknarstjóra á bókhaldi og skattskilum skattaðila fyrir rekstrarárin 2005 og 2006 eru:

·1   Skattframtölum hefur ekki verið skilað.

·2   Virðisaukaskattsskýrslum hefur ekki verið skilað.

·3   Staðgreiðsluskilagreinum hefur ekki verið skilað.

·4   Bókhald hefur ekki verið fært.

·5   Skattskyld velta er vantalin.

·6   Útskattur er vantalinn.

·7   Rekstrartekjur eru vantaldar.

·8   Skattaðili hefur afhent kostnaðargögn á eigin nafni og á nafni sambýliskonu sinnar.

·9   Skattaðili hefur vanrækt að reikna sér endurgjald og skila skilagreinum staðgreiðslu.“

Skattrannsóknarstjóri ríkisins gerði tölulega grein fyrir niðurstöðum rannsóknarinnar í töflu í niðurlagi skýrslu sinnar. Þar kom fram að skattskyld velta gjaldanda væri vantalin um 10.643.642 kr. rekstrarárið 2005 og um 11.883.588 kr. rekstrarárið 2006, svo og væru rekstrartekjur vantaldar um greindar fjárhæðir rekstrarárin 2005 og 2006. Möguleg rekstrargjöld í nafni gjaldanda næmu 383.392 kr. og innskattur 76.830 kr. rekstrarárið 2005 og rekstrargjöld 279.763 kr. og innskattur 55.562 kr. rekstrarárið 2006. Möguleg rekstrargjöld í nafni B, sambýliskonu gjaldanda, næmu 2.178.219 kr. rekstrarárið 2005 og 1.822.849 kr. rekstrarárið 2006 og innskattur 438.261 kr. fyrra árið og 198.641 kr. síðara árið.

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins var mál gjaldanda sent ríkisskattstjóra til meðferðar, sbr. 6. mgr. 103. gr., sbr. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, 5. mgr. 39. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og 3. mgr. 26. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. bréf skattrannsóknarstjóra, dags. 16. október 2008. Í greinargerð skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 14. maí 2009, kemur fram að ríkisskattstjóri hafi ekki kveðið upp úrskurð í máli gjaldanda og sé endurákvörðunarþætti málsins því ekki lokið.

3. Fram kemur í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 16. október 2008, að þar sem gjaldandi hafi ekki talið fram til skatts árin 2005 og 2006 hafi hann sætt áætlun skattstjóra á skattstofnum við almenna álagningu opinberra gjalda þau ár og hafi tekjuskatts- og útsvarsstofn verið áætlaður 13.400.000 kr. gjaldárið 2006 og 15.500.000 kr. gjaldárið 2007 auk álags samkvæmt 1. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 að fjárhæð 2.010.000 kr. fyrra árið og 2.325.000 kr. það síðara. Gjaldandi hafi ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum uppgjörstímabilin janúar-febrúar 2005 til og með nóvember-desember 2006. Er í skýrslunni gerð grein fyrir þeim svörum gjaldanda við skýrslutöku 4. júní 2008 að trassaskapur hafi valdið því að skattskilum var ekki sinnt. Þá kemur fram í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins að gjaldandi hafi ekki fært bókhald vegna sjálfstæðrar starfsemi sinnar. Vegna rannsóknarinnar afhenti gjaldandi bókhaldsgögn dagana 22. maí og 12. júní 2008, en þó ekki tekjuskráningargögn. Aflaði skattrannsóknarstjóri ríkisins sölureikninga gjaldanda frá X ehf. og eru þeir á númerabilinu 284-450. Þá kemur fram að allmarga sölureikninga vanti til að númeraröð þeirra sé samfelld, en ekki séu taldar nægar forsendur til að leggja mat á ætlaðan undandrátt af þeim sökum.

Niðurstöður skattrannsóknarstjóra ríkisins um fjárhæð rekstrartekna og skattskyldrar veltu gjaldanda rekstrarárin 2005 og 2006 byggja á umræddum sölureikningum gjaldanda, samtals að fjárhæð 13.347.126 kr. á árinu 2005 og 14.902.020 kr. á árinu 2006, sem allir eru á hendur X hf. Er vísað til þess að við skýrslutöku hafi gjaldandi staðfest að hafa gefið sölureikningana út og fengið þá greidda. Á grundvelli þessara gagna er í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins gerð grein fyrir skattskyldri veltu gjaldanda að fjárhæð 10.643.642 kr. rekstrarárið 2005 og 11.883.588 kr. rekstrarárið 2006. Jafnframt kemur fram að rekstrartekjur árin 2005 og 2006 hafi verið vantaldar um sömu fjárhæðir.

Í kafla um rannsókn á rekstrargjöldum og innskatti er vísað til þess að samkvæmt framburði gjaldanda við skýrslutöku hafi verulegur hluti kostnaðar vegna sendibílareksturs hans verið í nafni B, sambýliskonu gjaldanda, en hún hafi verið skráður eigandi sendibifreiðar gjaldanda þar sem gjaldandi hafi orðið gjaldþrota fyrir nokkrum árum og því ekki getað keypt bifreiðina í eigin nafni. Staðfesting B hafi borist skattrannsóknarstjóra ríkisins. Í skýrslunni er rakið að kostnaðargögn í nafni gjaldanda eða staðgreidd útgjöld nemi samtals 383.392 kr. rekstrarárið 2005 og 279.763 kr. rekstrarárið 2006 og innskattur 76.830 kr. fyrra árið og 55.562 kr. síðara árið. Kostnaðargögn í nafni sambýliskonu gjaldanda séu að fjárhæð 2.178.219 kr. rekstrarárið 2005 og 1.822.849 kr. rekstrarárið 2006 og innskattur 438.261 kr. fyrra árið og 198.641 kr. síðara árið. Þá er gerð grein fyrir kaupverði bifreiðarinnar [...] og fjárhæð almennrar fyrningar miðað við 35% fyrningarhlutfall, svo og innskatti af kaupverði að teknu tilliti til útskatts vegna seldrar bifreiðar. Eru þær fjárhæðir meðtaldar í samtölu fyrningar og innskatts sem að framan greinir.

4. Gjaldandi hefur sem fyrr segir ekki gert athugasemdir í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins og við skýrslutökur, sem fram fóru hjá skattrannsóknarstjóra vegna rannsóknar málsins, kom fram viðurkenning gjaldanda á því að hann hefði ekki staðið skil á skattframtölum árin 2006 og 2007 og vanrækt skil á virðisaukaskattsskýrslum og innheimtum virðisaukaskatti vegna seldrar þjónustu árin 2005 og 2006. Í máli því, sem hér er til meðferðar, er um að tefla kröfugerð um ákvörðun sektar á hendur gjaldanda m.a. samkvæmt þar tilgreindum ákvæðum 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sem gera ráð fyrir því að sektarákvörðun sé bundin þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin. Verður því að taka afstöðu til þess hvort skattrannsóknarstjóri ríkisins hafi með skattrannsókn sinni sýnt fram á hverju skattfjárhæð, sem undan var dregin, hafi að minnsta kosti numið. Allan vafa í því sambandi verður að meta gjaldanda í hag, sbr. grundvallarreglu 108. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, sbr. áður 45. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála.

Eins og rakið er að framan eru tölulegar niðurstöður samkvæmt rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins, sem liggur til grundvallar sektarkröfu í máli þessu, um rekstrartekjur og skattskylda veltu gjaldanda gjaldárin 2006 og 2007 byggðar á útgefnum sölureikningum gjaldanda. Virðisaukaskattur er tilgreindur á öllum sölureikningum gjaldanda og telst skattskyld velta samkvæmt þeim nema 10.643.642 kr. rekstrarárið 2005 og 11.883.588 kr. rekstrarárið 2006. Sölureikningar þessir voru lagðir fyrir gjaldanda við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 4. júní 2008 og staðfesti gjaldandi að hafa gefið sölureikningana út og að þeir hefðu allir fengist greiddir. Samkvæmt þessu og að virtum gögnum málsins að öðru leyti þykir ekkert komið fram sem gefur tilefni til annars en að miða við þær fjárhæðir rekstrartekna og skattskyldrar veltu sem greinir í niðurstöðum skattrannsóknarstjóra ríkisins.

Gjaldandi afhenti skattrannsóknarstjóra ríkisins kostnaðargögn, sem að miklu leyti eru í nafni sambýliskonu gjaldanda, B, og eru niðurstöður rannsóknar skattrannsóknarstjóra um rekstrarkostnað og innskatt gjaldanda byggðar á þessum gögnum. Er tekið fram í greinargerð skattrannsóknarstjóra ríkisins til yfirskattanefndar, dags. 14. maí 2009, að litið sé svo á að umræddur kostnaður í nafni B varði sjálfstæða starfsemi gjaldanda. Ekkert hefur komið fram í málinu sem gefur tilefni til þess að tekið verði tillit til rekstrarkostnaðar og innskatts með hærri fjárhæðum en greinir í rannsóknarskýrslu, sbr. og kröfugerð í máli þessu.

Sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins í máli þessu er í fyrsta lagi reist á því að gjaldandi hafi vanrækt að standa skil á skattframtölum sínum árin 2006 og 2007 og að vegna þessarar vanrækslu beri að gera gjaldanda sekt samkvæmt 6. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga. Í öðru lagi byggir kröfugerð skattrannsóknarstjóra á því að gjaldandi hafi vanrækt skil á virðisaukaskattsskýrslum uppgjörstímabilin janúar-febrúar til og með nóvember-desember 2005 og janúar-febrúar til og með nóvember-desember 2006 og því vantalið skattskylda veltu um samtals 22.527.230 kr. og virðisaukaskatt um 4.952.622 kr.

Fyrir liggur í málinu að gjaldandi vanrækti að standa skil á skattframtali sínu árið 2007, sbr. 1. mgr. 90. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, innan tilskilins framtalsfrests samkvæmt 93. gr. laganna. Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins var gjaldandi spurður um ástæður fyrir því að hann hefði ekki staðið skattstjóra skil á skattframtali sínu og gaf gjaldandi þá skýringu að trassaskap sínum væri um að kenna. Í 6. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 segir svo: „Hafi maður af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi vanrækt að gegna skyldu sinni samkvæmt ákvæðum 90., 92. eða 94. gr. skal hann sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.“ Með stoð í gögnum málsins, m.a. framburði gjaldanda í skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins, verður talið að nægilega sé fullnægt þeim huglægu refsiskilyrðum sem að framan greinir. Að þessu athuguðu þykir bera að gera gjaldanda sekt eftir nefndu lagaákvæði.

Þá þykir fullsannað með stoð í gögnum málsins, m.a. framburði gjaldanda við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins, að gjaldandi, sem skyldur var til þess að standa skil á virðisaukaskatti, sbr. 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, hafi á saknæman hátt vanrækt að standa skil á virðisaukaskatti og virðisaukaskattsskýrslum fyrir öll uppgjörstímabil áranna 2005 og 2006. Telst gjaldandi hafa vanrækt að gera grein fyrir skattskyldri veltu að fjárhæð 22.527.230 kr. umrædd uppgjörstímabil og virðisaukaskatti til greiðslu að fjárhæð 4.952.622 kr. að teknu tilliti til innskatts. Varðar þetta gjaldanda sekt samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995.

5. Ákvarða ber gjaldanda, A, sekt samkvæmt framangreindum ákvæðum 6. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 og 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995. Samkvæmt breytingum á refsiákvæðum skattalaga, sem gerðar voru með lögum nr. 42/1995 og tóku gildi 9. mars 1995, skal sekt aldrei vera lægri en sem nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin, þó að teknu tilliti til álags. Við ákvörðun sektar ber að taka tillit til álags samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988. Gjaldandi gekkst greiðlega við brotum sínum. Þá þykir bera að taka tillit til þess að nokkur dráttur hefur orðið á meðferð málsins án þess að gjaldanda verði um kennt. Að þessu virtu og málsatvikum að öðru leyti þykir sekt gjaldanda hæfilega ákveðin 9.400.000 kr. til ríkissjóðs.

Úrskurðarorð:

Gjaldandi, A, greiði sekt að fjárhæð 9.400.000 kr. til ríkissjóðs.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum