2010

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 399/2010

29.12.2010

Úrskurður nr. 399/2010

ÚRSKURÐUR YFIRSKATTANEFNDAR

Ár 2010, miðvikudaginn 29. desember, er tekið fyrir mál nr. 206/2009; krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um að A, kt. [...], og B, kt. [...], verði gerð sekt vegna meintra brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Sverrir Örn Björnsson og Valdimar Guðnason. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi, dags. 18. maí 2009, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A, kt. [...], og B, kt. [...], fyrir brot á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum, framin vegna uppgjörstímabilanna júlí-ágúst til og með nóvember-desember 2007.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

 

„A, sem prókúruhafa og daglegum stjórnanda X ehf., (nú þrotabú) og B, sem stjórnarmanni, prókúruhafa og daglegum stjórnanda félagsins, er gefið að sök eftirfarandi:

Vanræksla á skilum á virðisaukaskattsskýrslum. Vanframtalin skattskyld velta og útskattur. Mögulegur innskattur.

A, sem prókúruhafa og daglegum stjórnanda og B, sem stjórnarmanni, prókúruhafa og daglegum stjórnanda, er gefið að sök að hafa, fyrir hönd X ehf, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, vanrækt að standa skattstjóranum í Reykjanesumdæmi skil á virðisaukaskattsskýrslum, uppgjörstímabilin júlí–ágúst, september–október og nóvember–desember rekstrarárið 2007. Með því að standa ekki skil á virðisaukaskattsskýrslum tímabilin september–október og nóvember–desember rekstrarárið 2007 vanframtöldu A og B fyrir hönd X ehf. skattskylda veltu og útskatt vegna framangreindra uppgjörstímabila. Samkvæmt niðurstöðu rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins nemur vanframtalin skattskyld velta samtals kr. 24.412.108 og vanframtalinn útskattur samtals kr. 5.980.967. Þá nemur mögulegur innskattur vegna framangreindra uppgjörstímabila samtals kr. 4.774.588.

Sundurliðast vanframtalin skattskyld velta, útskattur og mögulegur innskattur, samkvæmt fyrirliggjandi gögnum svo sem hér greinir:

 

Rekstrarár

 

Uppgjörstímabil

Vanframtalin skattskyld velta Vanframtalinn útskattur Mögulegur innskattur
2007 september - október 8.381.901 2.053.566 1.488.287
2007 nóvember - desember 16.030.207 3.927.401 3.286.301
Samtals kr.   24.412.108 5.980.967 4.774.588

Sú háttsemi A og B sem hér hefur verið lýst brýtur í bága við ákvæði 1. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 24. gr., sbr. aðalreglur 1. gr., 2. gr., 1. tl. 1. mgr. 3. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. og 2. mgr. 13. gr., 1. mgr. 14. gr., 1. mgr. 16. gr. og 19. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.

Varðar framangreind háttsemi A og B sekt samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995.

Við ákvörðun sektarfjárhæðar komi álag kr. 103.394 á vangreiddan virðisaukaskatt á grundvelli 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, til frádráttar.

Þess er krafist að A og B verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 18. maí 2009, sem fylgdi kröfugerðinni.

II.

Með bréfum yfirskattanefndar, dags. 20. maí 2009, var gjaldendum veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef þeir vildu ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál þeirra og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 2. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Með bréfi, mótt. 6. júlí 2009, hefur gjaldandi, B, lagt fram vörn í máli þessu. Þar rekur hann aðdraganda að stofnun X ehf. og greinir frá starfsemi félagsins og samstarfsörðugleikum við hinn eiganda félagsins, A.

Engar athugasemdir hafa borist frá gjaldanda, A.

III.

1. Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 18. maí 2009, er gerð sú krafa að gjaldendum, B og A, verði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með því að gjaldendur hafi sem fyrirsvarsmenn X ehf. vanrækt að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum tilgreind uppgjörstímabil árið 2007 og með því vanframtalið skattskylda veltu og útskatt. Gjaldandi, B, hefur lagt fram vörn í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins. Gjaldanda, A, hefur verið veitt færi á að koma að vörnum fyrir yfirskattanefnd í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra, en engar athugasemdir hafa borist frá honum. Þar sem gjaldandi hefur ekki gert athugasemdir við meðferð máls þessa fyrir yfirskattanefnd verður að líta svo á að hann mæli því ekki í gegn að það sæti sektarmeðferð fyrir nefndinni.

2. Sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins í máli þessu er byggð á niðurstöðum rannsóknar embættisins á bókhaldi og skattskilum X ehf. vegna rekstrartímabilsins júlí til og með desember 2007, sbr. skýrslu um rannsóknina, dags. 26. ágúst 2008. Rannsókn þessi hófst formlega hinn 5. maí 2008 og beindist að bókhaldi og virðisaukaskattsskilum X ehf. Skráður tilgangur félagsins á þessu tímabili var pípulagnir, þ.e. lagning vatnsröra og hreinlætistækja og lagningar og viðgerðir á ofnum og lögnum fyrir húshitun í byggingar og mannvirki og annað er því tengdist. Einnig kaup og sala á vörum til pípu- og hitalagna og búnaði til þeirra, kaup, sala og rekstur fasteigna og lánastarfsemi. Vegna rannsóknar málsins voru teknar skýrslur af gjaldendum hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins, sbr. skýrslutöku af gjaldanda, A, hinn 29. maí 2008, og af gjaldanda, B, hinn 30. maí 2008. Var rannsóknin byggð á upplýsingum sem komu fram við skýrslutökur þessar, bókhaldsgögnum X ehf., gögnum frá fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra og upplýsingum úr upplýsingakerfum skattyfirvalda. Með bréfum, dags. 11. júní 2008, sendi skattrannsóknarstjóri gjaldendum skýrslu um rannsóknina, sem dagsett var sama dag, og gaf þeim kost á að tjá sig um efni hennar áður en ákvörðun yrði tekin um framhald málsins. Með bréfi, dags. 28. júlí 2008, bárust andmæli við skýrslu skattrannsóknarstjóra frá umboðsmanni gjaldanda, B. Í bréfinu kom fram að ósætti væri milli fyrirsvarsmanna félagsins, B og A, svo sem nánar var rakið, sem hefði m.a. leitt til þess að skil hefðu ekki verið gerð á virðisaukaskattsskýrslum og virðisaukaskatti félagsins fyrr en gjaldandi hefði beitt sér í málinu. Hefði gjaldandi greitt virðisaukaskattsskuldina sjálfur, enda hefðu ekki verið fjármunir í félaginu til þess. Bréfinu fylgdi m.a. hreyfingalisti bókhalds X ehf. Í umfjöllun skattrannsóknarstjóra ríkisins um framkomin andmæli, sbr. kafla 2.6. í lokaskýrslu, dags. 26. ágúst 2008, kom fram að ekki væru gerðar athugasemdir við fært bókhald X ehf. og væri viðeigandi köflum skýrslunnar breytt til samræmis við það. 

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 26. ágúst 2008, voru helstu niðurstöður rannsóknarinnar dregnar saman með svofelldum hætti:

„Niðurstöður rannsóknar á bókhaldi og skattsskilum skattaðila fyrir rekstrartímabilið frá júlí til og með desember árið 2007 eru:

·1   Virðisaukaskattskýrslum fyrir uppgjörstímabilin júlí-ágúst, september-október og nóvember-desember 2007 hefur ekki verið skilað.

·2   Fært bókhald hefur ekki fengist afhent.

·3   Skattskyld velta og útskattur eru vantalin.

·4   Mögulegur innskattur er samtals kr. 4.947.023 á uppgjörstímabilunum júlí-ágúst, september-október og nóvember-desember 2007.“

Þá gerði skattrannsóknarstjóri ríkisins tölulega grein fyrir niðurstöðum rannsóknarinnar í töflu í niðurlagi skýrslu sinnar. Þar kom fram að vantalin skattskyld velta X ehf. rekstrarárið 2007 væri talin nema 24.412.108 kr., vantalinn útskattur 5.980.967 kr., en mögulegur innskattur væri 4.947.023 kr. greint ár.

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins var mál X ehf. sent ríkisskattstjóra til meðferðar, sbr. 5. mgr. 39. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. bréf skattrannsóknarstjóra, dags. 26. ágúst 2008. Með bréfi, dags. 16. september 2008, tilkynnti ríkisskattstjóri að athugun embættisins hefði leitt í ljós að virðisaukaskattsskil félagsins hefðu verið leiðrétt hinn 6. ágúst 2008 og væru nú í samræmi við niðurstöður skattrannsóknarstjóra ríkisins. Af þeim sökum hefði ríkisskattstjóri ekki í hyggju að nýta sér heimild til endurákvörðunar samkvæmt fyrrgreindu ákvæði 5. mgr. 39. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

3. Fram kemur í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 26. ágúst 2008, að ekki hafi verið staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum X ehf. uppgjörstímabilin júlí-ágúst til og með nóvember-desember 2007. Bókhald félagsins hafi verið fært eftir að rannsókn skattrannsóknarstjóra hófst, en fyrirliggjandi séu sölureikningar á númerabilinu 1-18. Eru niðurstöður skattrannsóknarstjóra ríkisins um fjárhæð skattskyldrar veltu X ehf. umrædd uppgjörstímabil byggðar á sölureikningum félagsins vegna seldrar vinnu og efniskostnaðar á tímabilinu október, nóvember og desember 2007. Voru útgefnir reikningar að fjárhæð samtals 30.393.075 kr. og taldist skattskyld velta því nema 24.412.108 kr. og útskattur 5.980.967 kr. Í kafla um rannsókn á innskatti X ehf. kemur fram að samkvæmt færðu bókhaldi félagsins nemi mögulegur innskattur samtals 4.947.023 kr. á rekstrartímabilinu júlí til og með desember 2007.

Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 29. maí 2008 kom fram af hálfu gjaldanda, A, að hann hefði verið varamaður í stjórn X ehf. og að Y ehf., félag í hans eigu, hefði átt helming í fyrrnefnda félaginu. Félagið hefði verið stofnað vegna ákveðins verks fyrir Z en ekki hefði orðið af því að félagið tæki að sér fleiri verk sökum ágreinings þeirra B. Þá hefði daglegur rekstur félagsins verið í höndum þeirra B. Taldi gjaldandi bókhald hafa verið fært og vísaði í því sambandi á B þar sem hann hefði haldið utan um bókhaldsgögn félagsins, en sjálfur hefði hann aldrei fengið að sjá bókhaldsgögnin. Aðspurður um ástæðu þess að virðisaukaskattsskýrslum fyrir uppgjörstímabilin júlí-ágúst, september-október og nóvember-desember 2007 var ekki skilað sagði gjaldandi að B hefði verið með öll bókhaldsgögn og að hann hefði borið ábyrgð á því að skila virðisaukaskattsskýrslum. Kvaðst gjaldandi ítrekað hafa spurt B að því hvort hann væri búinn að skila virðisaukaskattsskýrslunum en fengið þau svör að hann varðaði ekkert um gögnin. Sagðist gjaldandi hafa fengið fé frá félaginu til að greiða undirverktökum, en hann vissi ekki í hvað aðrir fjármunir félagsins hefðu farið. Gjaldandi staðfesti að 18 sölureikningar í nafni X ehf., samtals að fjárhæð 30.393.075 kr., sem lagðir voru fyrir hann við skýrslutökuna væru vegna rekstrar félagsins og að þeir hefðu fengist greiddir.

Gjaldandi, B, kom til skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins hinn 30. maí 2008. Þar kom fram að félag í hans eigu, W ehf., hefði átt helming í X ehf. á móti Y ehf., félagi í eigu A. Kvað gjaldandi þá A hafa átt að bera jafna ábyrgð á starfsemi félagsins. Félagið hefði ekki haft neina launamenn heldur hefðu starfsmenn Y ehf. og W ehf. unnið að útboðnu verki og hefðu reikningar verið gefnir út vegna þessa. A hefði átt að sjá um bókhald félagsins en ekki valdið því hlutverki. Bókhald hefði verið fært í Excel og hefði starfsmaður á skrifstofu félagsins séð um það. Mistök gjaldanda hefðu valdið því að virðisaukaskattsskýrslum fyrir uppgjörstímabilin júlí-ágúst, september-október og nóvember-desember 2007 var ekki skilað. Hann hefði haldið að það væri búið að skila núllskýrslu fyrir tímabilið júlí-ágúst 2007 þar sem starfsemi félagsins hafi í raun ekki verið byrjuð, en hann hefði ekki getað staðið skil á skýrslum vegna september-október og nóvember-desember 2007 þar sem gögn hefði vantað frá A. Kvaðst gjaldandi hafa talið að innskattur væri hærri en útskattur á þessu tímabili. Fyrir gjaldanda voru lagðir 18 sölureikningar útgefnir í nafni X ehf., samtals að fjárhæð 30.393.075 kr., og staðfesti hann að þeir væru vegna rekstrar félagsins og að þeir hafi fengist greiddir.

4. Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995, er refsivert ef skattskyldur maður afhendir eigi á lögmæltum tíma virðisaukaskattsskýrslu eða virðisaukaskatt sem hann hefur innheimt eða honum borið að innheimta. Samkvæmt fortakslausum ákvæðum nefndra laga og með stoð í dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands, sbr. m.a. dóma Hæstaréttar 27. febrúar 1997 (H 1997:789), 25. september 1997 (H 1997:2446), 14. janúar 1999 (H 1999:79), 18. febrúar 1999 (H 1999:544 og 550), 10. júní 1999 (H 1999:2645) og 30. mars 2000 (H 2000:1422), geta fyrirsvarsmenn lögaðila unnið til refsingar með því einu að láta ógert að skila umræddum gjöldum í ríkissjóð á tilskildum tíma, enda sé huglægum refsiskilyrðum fullnægt.

Gjaldandi, B, var stjórnarmaður og prókúruhafi X ehf. á þeim tíma sem málið varðar. Gjaldandi, A, var varamaður í stjórn og prókúruhafi X ehf. á þeim tíma sem málið varðar. Við skýrslutökur af gjaldendum hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins kom fram að báðir hefðu þeir annast daglegan rekstur félagsins og haft með höndum fjárráð þess. Verður samkvæmt þessu að telja að gjaldendur hafi báðir borið ábyrgð á því að skil væru gerð á virðisaukaskattsskýrslum félagsins og virðisaukaskatti í samræmi við ákvæði 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, enda hefur því ekki verið mótmælt af þeirra hálfu. Því telst sektarkröfu skattrannsóknarstjóra réttilega beint að báðum gjaldendum í samræmi við ákvæði 6. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988.

Sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins í máli þessu er byggð á því að gjaldendur hafi sem fyrirsvarsmenn X ehf. vanrækt að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum félagsins þrjú uppgjörstímabil árið 2007 á lögmæltum tíma og að vegna þessarar vanrækslu hafi skattskyld velta vegna tveggja þessara tímabila verið vantalin um 24.412.108 kr. og útskattur um 5.980.967 kr., en mögulegur innskattur nemi 4.774.588 kr.

Samkvæmt gögnum málsins stóðu gjaldendur ekki skil á virðisaukaskattsskýrslum X ehf. fyrir uppgjörstímabilin júlí-ágúst, september-október og október-nóvember 2007 á lögmæltum tíma og gerðu því ekki grein fyrir virðisaukaskatti sem þeim bar að standa skil á vegna félagsins, sbr. 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988, fyrr en gjaldandi, B, afhenti skattstjóra virðisaukaskattsskýrslur vegna greindra uppgjörstímabila hinn 28. júlí 2008. Samkvæmt því sem fram kemur í bréfi umboðsmanns hans til skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 28. júlí 2008, greiddi gjaldandi virðisaukaskattsskuld félagsins þann dag úr eigin vasa.

Fyrir liggur að áður en rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins lauk hinn 26. ágúst 2008 endurákvarðaði skattstjóri virðisaukaskatt X ehf. árið 2007 í samræmi við innsendar virðisaukaskattsskýrslur félagsins vegna þeirra uppgjörstímabila sem rannsókn skattrannsóknarstjóra tók til. Samkvæmt þessu er ekki rétt með farið í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins að virðisaukaskattsskýrslum vegna greindra tímabila hafi ekki verið skilað. Þá verður raunar ekki heldur séð að sú niðurstaða rannsóknarinnar, að fært bókhald hafi ekki fengist afhent, sbr. niðurstöðukafla skýrslunnar, eigi við rök að styðjast, enda kemur fram í skýrslunni að bókhaldið hafi verið fært eftir að rannsókn hófst, sbr. einnig gögn með bréfi umboðsmanns gjaldanda, B, dags. 28. júlí 2008, til skattrannsóknarstjóra ríkisins. Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins er engin grein gerð fyrir því hvort og þá hvenær skil hafi verið gerð á virðisaukaskatti samkvæmt umræddum virðisaukaskattsskýrslum, en í fyrrgreindu bréfi umboðsmanns gjaldanda, B, til skattrannsóknarstjóra ríkisins er þess getið að skil hafi verið gerð á greiðslum í samræmi við skýrslurnar og vísað til fylgiskjals með bréfinu því til staðfestingar. Þess skal getið að tilvísað fylgiskjal er ekki meðal fylgiskjala í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins. Eins og málið liggur fyrir verður byggt á því að virðisaukaskattur hafi verið greiddur í samræmi við skýrslur X ehf., auk álags og dráttarvaxta, áður en rannsókn málsins lauk hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins. Við rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins komu ekki fram neinir annmarkar á tekjuskráningargögnum X ehf. og tekjuskráningu eða grundvelli skattskila félagsins og hefur ríkisskattstjóri ekki talið ástæðu til endurákvörðunar á virðisaukaskatti félagsins rekstrarárið 2007 í framhaldi af rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins.

Eins og fram er komið greindi gjaldandi, A, frá því við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins að B hefði borið ábyrgð á því að skil væru gerð á virðisaukaskatti X ehf. Af hálfu gjaldanda, B, kom fram sú skýring við skýrslutöku að mistök sín hefðu valdið því að virðisaukaskattsskýrslum einkahlutafélagsins fyrir uppgjörstímabilin júlí-ágúst til og með nóvember-desember 2007 var ekki skilað á lögmæltum tíma þar sem hann hefði talið að félagið ætti inneign í virðisaukaskatti vegna viðkomandi uppgjörstímabila. Frekari skýringar komu fram í bréfi umboðsmanns gjaldanda til skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 28. júlí 2008, svo og í vörn gjaldanda fyrir yfirskattanefnd. Þessar skýringar gjaldanda hagga því ekki að fyrirsvarsmönnum félagsins bar að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum á lögmæltum tíma. Samkvæmt því sem rakið hefur verið telst sannað að gjaldendur hafi látið undir höfuð leggjast að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum og virðisaukaskatti fyrir framangreind uppgjörstímabil á þeim tíma sem þeim var það skylt, sbr. 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988. Verður talið að fullnægt sé þeim huglægu refsiskilyrðum sem fram koma í 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995, og ber að ákvarða gjaldendum sekt samkvæmt þessu lagaákvæði vegna þeirrar vanrækslu sem að framan greinir.

Samkvæmt breytingum á refsiákvæðum skattalaga, sem gerðar voru með lögum nr. 42/1995 og tóku gildi 9. mars 1995, skal sekt aldrei vera lægri en sem nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin, þó að teknu tilliti til álags. Við ákvörðun sektarfjárhæðar þykir með hliðsjón af ákvæði 4. mgr. 37. gr. A reglugerðar nr. 373/2001, um framkvæmd skatteftirlits og skattrannsókna, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 334/2006, mega taka tillit til þess að í tengslum við rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á bókhaldi X ehf. stóð gjaldandi, B, skil á virðisaukaskattsskýrslum og virðisaukaskatti vegna félagsins sem reyndist vera í samræmi við niðurstöður rannsóknarinnar. Þykir því vera skilyrði til þess að færa fésekt niður fyrir lögbundið lágmark sektarrefsingar, sbr. 8. tölul. 1. mgr. 74. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá ber að líta til þess að dráttur hefur orðið á meðferð málsins án þess að gjaldendum verði um kennt. Þegar höfð eru í huga lagarök, sem búa að baki framangreindu ákvæði 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um lágmarks- og margfeldissektir, með tilliti til háttsemi gjaldenda og afleiðinga hennar, þykir rétt að ákveða sektarfjárhæð í máli þessu heildstætt en með tiltekinni skiptingu milli gjaldenda. Samkvæmt framansögðu og að teknu tilliti til álags samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 þykir sekt gjaldenda hæfilega ákveðin 500.000 kr. til ríkissjóðs sem skiptist þannig milli þeirra að gjaldandi, B, greiði sekt að fjárhæð 250.000 kr. og gjaldandi, A, greiði sekt að fjárhæð 250.000 kr.

Úrskurðarorð:

Gjaldandi, B, greiði sekt að fjárhæð 250.000 kr. til ríkissjóðs. Gjaldandi, A, greiði sekt að fjárhæð 250.000 kr. til ríkissjóðs.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum