2011

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 35/2011

16.2.2011

Úrskurður nr. 35/2011

 

ÚRSKURÐUR YFIRSKATTANEFNDAR

Ár 2011, miðvikudaginn 16. febrúar, er tekið fyrir mál nr. 38/2010; krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um að A, kt. [...], verði gerð sekt vegna meintra brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Sverrir Örn Björnsson og Valdimar Guðnason.  Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi, dags. 9. febrúar 2010, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A, kt. [...], fyrir brot á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, lögum nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, allra með áorðnum breytingum, framin vegna rekstraráranna 2006 og 2007.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

„A er gefið að sök eftirfarandi:

1. Skil á efnislega röngum skattframtölum. Vanframtaldar rekstrartekjur. Möguleg rekstrargjöld.

A er gefið að sök að hafa, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, staðið skattstjóranum í Reykjavík skil á efnislega röngum skattframtölum, vegna álagningar opinberra gjalda, gjaldárin 2007 og 2008, vegna rekstraráranna 2006 og 2007. Með því vanrækti hann að gera grein fyrir rekstrartekjum samtals að fjárhæð kr. 2.365.099 vegna fyrrgreindra rekstrarára. Möguleg rekstrargjöld námu samtals kr. 707.870.

Leiddi háttsemi A til ákvörðunar lægri tekjuskatts- og útsvarsstofns hans en vera bar vegna rekstraráranna 2006 og 2007 og þar með ákvörðunar lægri tekjuskatts og útsvars, svo sem hér greinir:

Reiknaður tekjuskattur og útsvar

 

Rekstrarár

Vanframtalinn tekjuskatts- og útsvarsstofn Tekjuskattur Útsvar
2006 659.986                Vanframtaldar rekstrartekjur kr. 1.285.252 – möguleg rekstrargjöld kr. 625.266 = 659.986. 156.747                 659.986 * 23,75% = 156.747. 85.996   659.986 * 13,03 = 85.996.
2007 860.694                Vanframtaldar rekstrartekjur kr. 1.079.847 – möguleg rekstrargjöld kr. 82.604 – ónýttur persónuafsláttur kr. 136.549 = 860.694. 195.808                 860.694 * 22,75% = 195.808. 112.148                860.694 * 13,03% = 112.148.
Samtals kr. 1.520.680 352.555 198.144

Sú háttsemi A sem lýst hefur verið hér að framan brýtur í bága við ákvæði 90. gr., sbr. B lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 22. gr., 19. gr. og 1. mgr. 21. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga.

Varðar framanlýst háttsemi A sekt samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga.

Við ákvörðun skattstofna vegna rekstraráranna 2006 og 2007 hefur A verið gert að sæta álagningu skatts á álag á vanframtalinn skattstofn samkvæmt 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með áorðnum breytingum, kr. 104.425, er komi til frádráttar við ákvörðun sektarfjárhæðar.

2. Vanræksla á að tilkynna um virðisaukaskattsskylda starfsemi. Vanræksla á skilum á virðisaukaskattsskýrslum. Vanframtalin skattskyld velta og útskattur. Mögulegur innskattur.

A er gefið að sök, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, að hafa vanrækt að tilkynna um virðisaukaskattsskylda starfsemi sína til skattyfirvalda, en hann opnaði virðisaukaskattsnúmer 1.. júní 2005, en því var lokað frá og með 2. júní 2005. Þá var virðisaukaskattsnúmerið opnað á ný þann 6. júní 2007, en lokað aftur degi síðar. Þá er A gefið að sök að hafa vanrækt að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum til skattstjórans í Reykjavík vegna uppgjörstímabilanna mars–apríl til og með september–október rekstrarárið 2006 og maí–júní til og með september–október rekstrarárið 2007 og vanframtelja með því skattskylda veltu og virðisaukaskatt. Samkvæmt niðurstöðu skattrannsóknarstjóra ríkisins nemur vanframtalin skattskyld velta samtals kr. 2.848.136 og vanframtalinn útskattur samtals kr. 697.788. Mögulegur innskattur nemur samtals kr. 132.432.

Sundurliðast vanframtalin skattskyld velta og virðisaukaskattur svo sem hér greinir:

 

Rekstrarár

 

Uppgjörstímabil

Vanframtalin skattskyld velta Vanframtalinn útskattur Mögulegur innskattur
2006 mars - apríl 0 0 6.865
2006 maí – júní 865.187 211.968 97.808
2006 júlí - ágúst 858.776 210.398 14.749
2006 sept. – okt. 44.326 10.859 0
Samtals kr.   1.768.289 433.225 119.422
2007 maí – júní 202.707 49.663 12.223
2007 júlí - ágúst 824.948 202.112 787
2007 sept. – okt. 52.192 12.788 0
Samtals kr.   1.079.847 264.563 13.010
Samtals öll árin kr. 2.848.136 697.788 132.432  

Sú háttsemi A sem hér hefur verið lýst brýtur í bága við ákvæði 1. mgr. 5. gr., 1. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 24. gr. sbr. aðalreglur 1. gr., 2. gr., 1. tl. 1. mgr. 3. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. mgr. 13. gr., 1. mgr. 14. gr. og 19. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum. 

Varðar framanlýst háttsemi A sekt samkvæmt 1. og 3. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.

Við endurákvörðun á virðisaukaskatti vegna rekstraráranna 2006 og 2007 hefur A verið gert að sæta álagi á vangreiddan virðisaukaskatt á grundvelli 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, kr. 56.536, er komi til frádráttar við ákvörðun sektarfjárhæðar.

Þess er krafist að A verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 9. febrúar 2010, sem fylgdi kröfugerðinni.

II.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 16. febrúar 2010, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef hann vildi ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál hans og yrði þá málið endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 2. mgr. 110. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 2. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Engar athugasemdir hafa borist frá gjaldanda.

III.

1. Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 9. febrúar 2010, er þess krafist að gjaldanda, A, verði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, þar sem hann hafi staðið skil á röngum skattframtölum árin 2007 og 2008 með því að vantelja tekjur af atvinnurekstri sínum rekstrarárin 2006 og 2007. Þá er gerð krafa um ákvörðun sektar samkvæmt ákvæðum 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sem byggir á því að gjaldandi hafi vanrækt að tilkynna um virðisaukaskattskylda starfsemi og vanrækt að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum og virðisaukaskatti árin 2006 og 2007 svo sem nánar er rakið í kröfubréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins. Gjaldandi hefur átt þess kost að koma að vörnum fyrir yfirskattanefnd í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins, en engar athugasemdir hafa borist. Þar sem gjaldandi hefur ekki gert athugasemdir við meðferð máls þessa fyrir yfirskattanefnd verður að líta svo á að hann mæli því ekki í gegn að það sæti sektarmeðferð fyrir nefndinni.

2. Sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins í máli þessu er byggð á niðurstöðum rannsóknar embættisins á bókhaldi og skattskilum gjaldanda vegna rekstraráranna 2006 og 2007, sbr. skýrslu um rannsóknina, dags. 15. maí 2009. Rannsókn þessi hófst formlega 28. maí 2008 og tók til tekna og gjalda kæranda vegna sjálfstæðrar starfsemi hans við garðyrkjustörf umrædd ár. Vegna rannsóknarinnar kom gjaldandi til skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins dagana 9. júní 2008 og 5. nóvember 2008. Þá var hinn 11. júlí 2008 tekin skýrsla af B, kt. [...], vegna málsins. Var rannsókn í máli gjaldanda byggð á upplýsingum sem fram komu við skýrslutökur þessar en einnig var byggt á sölureikningum gjaldanda, bókhaldsgögnum, upplýsingum úr upplýsingakerfum skattyfirvalda, upplýsingum frá fjármálastofnunum og upplýsingum frá viðskiptavinum gjaldanda. Með bréfi, dags. 30. apríl 2009, sendi skattrannsóknarstjóri gjaldanda skýrslu um rannsóknina, sem dagsett var sama dag, og gaf honum kost á að tjá sig um efni hennar áður en ákvörðun yrði tekin um framhald málsins. Af hálfu gjaldanda voru engar athugasemdir gerðar og var lokaskýrsla skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 15. maí 2009, efnislega samhljóða hinni fyrri að viðbættum kafla um lok rannsóknarinnar.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 15. maí 2009, voru helstu niðurstöður rannsóknarinnar teknar saman með svofelldum hætti:

„Niðurstöður rannsóknar á bókhaldi og skattsskilum skattaðila fyrir rekstrarárin 2006 og 2007 eru:

·1   Skattframtölum hefur verið skilað.

·2   Virðisaukaskattskýrslum hefur ekki verið skilað.

·3   Bókhald hefur ekki verið fært.

·4   Skattskyld velta er vantalin.

·5   Útskattur er vantalinn.

·6   Rekstrartekjur eru vantaldar.

·7   Rekstrargjöld eru kr. 625.266 rekstrarárið 2006 og kr. 82.604 rekstrarárið 2007.

·8   Innskattur er kr. 119.422 rekstrarárið 2006 og kr. 13.010 rekstrarárið 2007.“

Þá gerði skattrannsóknarstjóri ríkisins tölulega grein fyrir niðurstöðum rannsóknarinnar í töflu í niðurlagi skýrslu sinnar. Þar kom fram að skattskyld velta gjaldanda væri vantalin um 1.768.289 kr. rekstrarárið 2006 og um 1.079.847 kr. rekstrarárið 2007 og útskattur um 433.225 kr. fyrra árið og um 264.563 kr. það síðara. Rekstrartekjur væru vantaldar um 1.285.252 kr. rekstrarárið 2006 og um 1.079.847 kr. rekstrarárið 2007. Þá var gerð grein fyrir rekstrargjöldum og innskatti umrædd ár samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar.

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins var mál gjaldanda sent ríkisskattstjóra til meðferðar með vísan til 6. mgr. 103. gr., sbr. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 5. mgr. 39. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. bréf skattrannsóknarstjóra, dags. 18. maí 2009. Á grundvelli rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins og í framhaldi af bréfi til gjaldanda, dags. 3. september 2009, sem ekki var svarað af hans hálfu, tók ríkisskattstjóri áður álögð opinber gjöld gjaldanda gjaldárin 2007 og 2008 og virðisaukaskatt árin 2006 og 2007 til endurákvörðunar með úrskurði um endurákvörðun, dags. 7. október 2009. Samkvæmt úrskurðinum var skattskyld velta gjaldanda í 24,5% skattþrepi ákvörðuð 1.768.289 kr. árið 2006 og 1.079.847 kr. árið 2007 og útskattur 433.225 kr. fyrra árið og 264.563 kr. síðara árið. Þá var innskattur ákvarðaður 119.422 kr. árið 2006 og 13.010 kr. árið 2007. Við þannig ákvarðaðan virðisaukaskatt að fjárhæð samtals 313.803 kr. árið 2006 og 251.553 kr. árið 2007 bætti ríkisskattstjóri álagi samkvæmt 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988. Breytingar ríkisskattstjóra að því er varðaði almenn skattskil gjaldanda voru þær að hreinar tekjur af atvinnurekstri voru ákvarðaðar 1.148.023 kr. í skattframtali árið 2007 og 997.243 kr. í skattframtali árið 2008 auk þess sem felldar voru niður framtaldar tekjur í lið 2.3 í skattframtali árið 2007 frá tveimur tilgreindum aðilum að fjárhæð samtals 488.037 kr. Hækkun stofns til tekjuskatts og útsvars varð því 659.986 kr. gjaldárið 2007 og 997.243 kr. gjaldárið 2008. Við þær fjárhæðir bætti ríkisskattstjóri 25% álagi með vísan til 108. gr. laga nr. 90/2003. Af hálfu gjaldanda var málskotsréttur vegna endurákvörðunar ríkisskattstjóra ekki nýttur.

3. Fram kemur í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 15. maí 2009, að gjaldandi hafi staðið skil á skattframtölum árin 2007 og 2008, þar sem fyrra árið hafi verið tilgreindar tekjur frá X að fjárhæð 413.337 kr. og frá Z að fjárhæð 74.700 kr. en að öðru leyti hafi gjaldandi ekki talið fram tekjur af sjálfstæðri starfsemi. Gjaldandi hafi ekki verið á virðisaukaskattsskrá eða staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum árin 2006 og 2007.

Vegna rannsóknar málsins afhenti gjaldandi sölureikninga, sem hann gaf út á árunum 2006 og 2007, úr þremur sölureikningsheftum. Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins greinir frá því að við athugun á sölureikningum gjaldanda og bankareikningum ásamt launamiðum hafi komið í ljós að í nokkrum tilvikum voru innborganir viðskiptavina og/eða launamiðar hærri en afhentir sölureikningar gjaldanda. Því hafi verið aflað gagna frá viðskiptavinum gjaldanda og hafi þar komið fram sölureikningar úr að minnsta kosti tveimur sölureikningsheftum og kvittanir. Einn viðskiptavinur gjaldanda hafi greint frá því að þessi gögn hefðu verið afhent við verklok en síðar hefði hann fengið nýjan reikning vegna sömu viðskipta. Er sú ályktun dregin af þessu í skýrslunni að gjaldandi hafi afhent nokkrum viðskiptavinum sínum sölureikninga við verklok og síðan aðra sölureikninga vegna sömu viðskipta síðar. Fram kemur í skýrslunni að alls vanti tíu sölureikninga til þess að númeraröð þeirra sé samfelld en ekki þyki tilefni til að leggja mat á ætlaðar vantaldar tekjur gjaldanda vegna vöntunar sölureikninga.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins er vísað til þess að við skýrslutöku af gjaldanda 5. nóvember 2008 hafi gjaldandi staðfest að hafa gefið út sölureikninga, sem hann hefði afhent vegna rannsóknarinnar, og kom fram að gjaldandi teldi sig hafa fengið þá alla greidda. Þá er í skýrslunni fjallað sérstaklega um viðskipti gjaldanda við sex aðila og gerð grein fyrir skýringum gjaldanda vegna gagna sem aflað hafði verið frá þessum aðilum. Í fyrsta lagi var um að ræða sölureikning í nafni gjaldanda að fjárhæð 5.000 kr. sem aflað var hjá Y ehf. Upplýsti gjaldandi að reikningur þessi væri vegna auglýsingar sem hann hefði leikið í en hann vissi ekki hvort hann hefði fengið reikninginn greiddan. Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins er vísað til innborgunar frá Y ehf. og komist að þeirri niðurstöðu að um sé að ræða rekstrartekjur gjaldanda en ekki virðisaukaskattsskylda veltu. Í öðru lagi voru lögð fyrir gjaldanda gögn sem bárust frá húsfélaginu Þ. Í skýrslunni er byggt á þeim upplýsingum gjaldanda að reikningar nr. 15 og 17 og greiðslukvittun nr. 46 vörðuðu rekstur hans og að hann hefði fengið greitt samkvæmt því sem þessi gögn bæru með sér en að reikningar nr. 35 og 8 ættu ekki við rök að styðjast. Í þriðja lagi voru lögð fyrir gjaldanda gögn frá húsfélaginu Æ. Gjaldandi staðfesti að hafa fengið reikning nr. 24 og kvittanir nr. 24 og 30 greiddar en sagði að reikningur nr. 40, sem hann hafði afhent skattrannsóknarstjóra, hefði ekki verið greiddur. Líklega hefði hann gefið út sölureikninga þar sem greiðslukvittun væri ekki löglegt plagg, en af og frá væri að hann hefði fengið greitt tvisvar fyrir sama verkið. Voru reikningur nr. 24 og kvittanir nr. 24 og 30 hluti af tölulegum niðurstöðum skattrannsóknarstjóra en ekki reikningur nr. 40. Í fjórða lagi voru lögð fyrir gjaldanda gögn sem bárust frá X. Gjaldandi staðfesti að reikningar nr. 26, 27 og 29 væru vegna starfsemi sinnar, en reikningar nr. 43, 44 og 48, sem hann hafði afhent skattrannsóknarstjóra, hefðu ekki fengist greiddir. Byggði skattrannsóknarstjóri ríkisins á umræddum sölureikningum frá  en leit fram hjá reikningum nr. 43, 44 og 48. Í fimmta lagi voru lögð fyrir gjaldanda gögn frá Ö ehf. Var þar um að ræða sölureikninga nr. 13 og 18, svo og kom fram að greiðslur frá Ö ehf. inn á bankareikning gjaldanda voru í samræmi við þá reikninga. Var niðurstaða rannsóknarinnar sú að sölureikningar nr. 13 og 18 sýndu tekjur gjaldanda af viðskiptum við þennan aðila og lágu þeir til grundvallar tölulegum niðurstöðum skýrslunnar en ekki sölureikningur nr. 15 sem gjaldandi hafði sjálfur afhent. Þá voru í sjötta lagi lögð fyrir gjaldanda gögn frá Z. Var þar um að ræða alls átta kvittanir og fjóra sölureikninga. Gjaldandi staðfesti að kvittanirnar væru vegna starfsemi sinnar og að hann hefði fengið greitt samkvæmt þeim. Sölureikningarnir hefðu hins vegar ekki verið greiddir, enda hefði gjaldandi ekki fengið greitt tvisvar fyrir sama verkið. Sagði gjaldandi sennilegt að hann hefði gefið út reikningana þar sem greiðslukvittun væri ekki löglegt plagg. Byggði skattrannsóknarstjóri ríkisins niðurstöðu sína, að því er varðaði viðskipti gjaldanda við umræddan aðila, á fyrrgreindum kvittunum en ekki á sölureikningum gjaldanda.

Samkvæmt framansögðu byggði skattrannsóknarstjóri ríkisins niðurstöður sínar annars vegar á afhentum sölureikningum gjaldanda og hins vegar á kvittunum eða sölureikningum frá viðskiptavinum hans. Taldist skattskyld velta samkvæmt þessum gögnum nema 1.768.289 kr. rekstrarárið 2006 og 1.079.847 kr. rekstrarárið 2007 og útskattur því samtals 697.788 kr. greind ár.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins er sérstaklega fjallað um rannsókn á sambandi gjaldanda við B. Er vísað til framburðar gjaldanda við skýrslutöku 9. júní 2008 þess efnis að hann hefði starfað við garðyrkjuvinnu árin 2006 og 2007, þ.e. garðslátt, trjáklippingar og fleira tilfallandi, ásamt B og hefði reksturinn verið undir nafninu W. Þeir B hefðu séð um reksturinn í sameiningu en gjaldandi séð um útgáfu allra sölureikninga og þeir verið greiddir inn á bankareikning gjaldanda. Þeir hefðu ekki unnið saman að öllum verkum í nafni W en þegar svo hefði verið hefði B fengið helming tekna. B hefði fengið greitt í reiðufé. Gjaldandi gat ekki gert grein fyrir þeim verkum sem þeir B hefðu unnið að saman.

Við skýrslutöku 11. júlí 2008 greindi B frá því að hann hefði aðstoðað gjaldanda við reksturinn með ráðgjöf en þó í einhverjum tilvikum komið að vinnu. Kvaðst B í einu tilviki hafa tekið að sér að vinna tilgreint verk sem W hefði verið búið að taka að sér og hefði hann þá gefið út reikning í eigin nafni vegna þeirrar vinnu. Ætlaði B að kanna aðkomu sína að öðrum verkum í nafni W og koma upplýsingum þar um til skattrannsóknarstjóra ríkisins.

Í skýrslu sinni tekur skattrannsóknarstjóri ríkisins fram að engin gögn  hafi borist frá B eða gjaldanda sem sýndu fram á að B hefði verið launamaður hjá gjaldanda eða komið að öðru leyti að rekstri hans. Þá hefðu engin gögn borist um uppgjör milli þeirra. Er vísað til þess að gjaldandi hafi aðspurður ekki getað svarað því hvort hann hefði haft starfsmenn í vinnu og þá hvað þeir hefðu heitið. Þá kemur fram að við rannsókn á bankareikningum gjaldanda hafi ekki komið fram neinar upplýsingar um greiðslur til B.

Í kafla um rannsókn á rekstrargjöldum og innskatti kemur fram að samkvæmt gögnum sem gjaldandi hafi afhent vegna rannsóknar málsins og upplýsingum hans við skýrslutöku nemi möguleg rekstrargjöld gjaldanda 625.266 kr. rekstrarárið 2006 og 82.604 kr. rekstrarárið 2007, og mögulegur innskattur 119.422 kr. fyrra árið og 13.010 kr. síðara árið.

4. Gjaldandi hefur sem fyrr segir ekki gert athugasemdir í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins og við skýrslutökur, sem fram fóru hjá skattrannsóknarstjóra vegna rannsóknar málsins, kom fram viðurkenning hans á því að hann hefði ekki gert grein fyrir tekjum af atvinnurekstri sínum eða sjálfstæðri starfsemi í skattframtölum árin 2007 og 2008 og ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum og innheimtum virðisaukaskatti vegna seldrar þjónustu á árunum 2006 og 2007. Í máli því, sem hér er til meðferðar, er um að tefla kröfugerð um ákvörðun sektar á hendur gjaldanda samkvæmt þar tilgreindum ákvæðum 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sem gera ráð fyrir því að sektarákvörðun sé bundin þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin. Verður því að taka afstöðu til þess hvort skattrannsóknarstjóri ríkisins hafi með skattrannsókn sinni sýnt fram á hverju skattfjárhæð, sem undan var dregin, hafi að minnsta kosti numið. Allan vafa í því sambandi verður að meta gjaldanda í hag, sbr. grundvallarreglu 108. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála.

Eins og fram er komið eru tölulegar niðurstöður samkvæmt rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á skattskilum gjaldanda vegna rekstraráranna 2006 og 2007 byggðar á útgefnum sölureikningum gjaldanda sem gjaldandi afhenti við rannsókn málsins og á sölureikningum og öðrum gögnum sem aflað var hjá viðskiptavinum gjaldanda. Á þessum grundvelli er í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins gerð grein fyrir meintri vantalinni skattskyldri veltu gjaldanda að fjárhæð 1.768.289 kr. rekstrarárið 2006 og 1.079.847 kr. rekstrarárið 2007. Í skattframtali gjaldanda árið 2007 voru tilgreindar tekjur frá X að fjárhæð 413.337 kr. og frá Z að fjárhæð 74.700 kr. en að öðru leyti gerði gjaldandi ekki grein fyrir tekjum af sjálfstæðri starfsemi sinni í skattframtölum árin 2007 og 2008. Að teknu tilliti til greiðslur frá Y ehf. 5.000 kr. töldust vantaldar tekjur í skattframtölum kæranda því nema 1.285.252 kr. gjaldárið 2007 og 1.079.847 kr. gjaldárið 2008. Af hálfu gjaldanda er viðurkennt að tekjur hans af garðyrkjustörfum hafi numið þeim fjárhæðum sem fyrrgreind gögn bera með sér, sbr. framburð gjaldanda við skýrslutökur hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 9. júní 2008 og 5. nóvember 2008. Að því virtu sem fram kom við rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á þætti B í rekstri gjaldanda, sem gjaldandi hefur ekki gert athugasemdir við, verður ekki séð að tekjur þessar tilheyri B að neinu leyti. Samkvæmt þessu og að virtum gögnum málsins að öðru leyti þykir ekkert komið fram sem gefur tilefni til annars en að miða við fjárhæðir rekstrartekna og skattskyldrar veltu samkvæmt skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins.

Gjaldandi afhenti skattrannsóknarstjóra ríkisins kostnaðargögn vegna sjálfstæðrar starfsemi sinnar á árunum 2006 og 2007 og eru niðurstöður rannsóknar skattrannsóknarstjóra um rekstrarkostnað og innskatt byggðar á þeim. Ekkert hefur komið fram í málinu sem gefur tilefni til þess að tekið verði tillit til rekstrarkostnaðar og innskatts með hærri fjárhæð en greinir í rannsóknarskýrslu.

Samkvæmt því sem að framan greinir þykir sannað með stoð í gögnum málsins, m.a. framburði gjaldanda við skýrslutökur hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins, að gjaldandi hafi á saknæman hátt vanrækt að telja fram í skattframtölum sínum árin 2007 og 2008 tekjur af atvinnurekstri sínum eða sjálfstæðri starfsemi með fyrrgreindum fjárhæðum sem skattskyldar voru samkvæmt B-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. og 19. og 21. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga. Undandreginn tekjuskatts- og útsvarsstofn telst hafa numið 659.986 kr. gjaldárið 2007 og 997.243 kr. gjaldárið 2008 en röng fjárhæð er tilgreind síðara árið í kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins. Samkvæmt þessu telst vanálagður tekjuskattur nema 156.747 kr. gjaldárið 2007 en að teknu tilliti til persónuafsláttar reiknast ekki tekjuskattur gjaldárið 2008 þrátt fyrir vantaldar tekjur. Hins vegar hafði gjaldanda við almenna álagningu opinberra gjalda það gjaldár verið ákvarðaður ónýttur persónuafsláttur til greiðslu útsvars að fjárhæð 90.770 kr. sem ekki átti rétt á sér nema að óverulegu leyti miðað við það sem nú liggur fyrir um tekjur gjaldanda. Vanálagt útsvar telst nema 85.996 kr. gjaldárið 2007 og 129.941 kr. gjaldárið 2008. Er síðarnefnda fjárhæðin ekki rétt tilgreind í kröfugerð. Hinar röngu upplýsingar í skattframtölum gjaldanda leiddu samkvæmt framansögðu til lægri álagningar opinberra gjalda hans en vera bar gjaldárin 2007 og 2008, þannig að brot gjaldanda varða við 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga.

Þá þykir fullsannað að gjaldandi, sem skyldur var til þess að standa skil á virðisaukaskatti, sbr. 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, hafi vanrækt að standa skil á virðisaukaskatti og virðisaukaskattsskýrslum fyrir uppgjörstímabilin mars-apríl til og með september-október 2006 og maí-júní til og með september-október 2007. Telst gjaldandi hafa vanrækt að gera grein fyrir skattskyldri veltu að fjárhæð 2.848.136 kr. umrædd uppgjörstímabil og virðisaukaskatti til greiðslu að fjárhæð 565.356 kr. að teknu tilliti til innskatts, sbr. sundurliðun í kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins. Þá var leitt í ljós með rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins að gjaldandi vanrækti að tilkynna skattstjóra um virðisaukaskattsskylda starfsemi sína á umræddum árum, þrátt fyrir lagaskyldu samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1988. Framangreind háttsemi varðar gjaldanda sekt samkvæmt 1. og 3. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995, enda verður að telja að huglægum refsiskilyrðum samkvæmt þessum lagaákvæðum sé fullnægt.

Ákvarða ber gjaldanda, A, sekt samkvæmt framangreindum ákvæðum 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 og 1. og 3. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995. Samkvæmt breytingum á refsiákvæðum skattalaga, sem gerðar voru með lögum nr. 42/1995 og tóku gildi 9. mars 1995, skal sekt aldrei vera lægri en sem nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin, þó að teknu tilliti til álags. Við ákvörðun sektar ber að taka tillit til skatts af álagi samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 svo og álags samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988. Gjaldandi gekkst greiðlega við brotum sínum. Þá þykir bera að taka tillit til þess að nokkur dráttur hefur orðið á meðferð málsins án þess að gjaldanda verði um kennt. Að þessu virtu og málsatvikum að öðru leyti þykir sekt gjaldanda hæfilega ákveðin 1.500.000 kr. til ríkissjóðs og 375.000 kr. til borgarsjóðs Reykjavíkur.

Úrskurðarorð:

Gjaldandi, A, greiði sekt að fjárhæð 1.500.000 kr. til ríkissjóðs og 375.000 kr. til borgarsjóðs Reykjavíkur.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum