2012

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 567/2012

14.11.2012

Úrskurður nr. 567/2012

ÚRSKURÐUR YFIRSKATTANEFNDAR

Ár 2012, miðvikudaginn 14. nóvember, er tekið fyrir mál nr. 123/2012; krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um að A, kt. [...], verði gerð sekt vegna meintra brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Anna Dóra Helgadóttir og Sverrir Örn Björnsson. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi, dags. 22. mars 2012, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A, kt. [...], fyrir brot á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, framin vegna rekstraráranna 2008 og 2009.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

„A, sem stjórnarmanni, daglegum stjórnanda og prókúruhafa X ehf., kt., (nú þrotabú), er gefið að sök eftirfarandi:

Vangoldinn innheimtur virðisaukaskattur. Vanræksla á afhendingu virðisaukaskattsskýrslna á lögmæltum tíma.

A er gefið að sök að hafa vanrækt að standa innheimtumanni ríkissjóðs skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri X ehf. (nú þrotabú) vegna uppgjörstímabilanna janúar-febrúar, mars-apríl, maí-júní, september-október og nóvember-desember rekstrarárið 2008 og janúar-febrúar, mars-apríl, maí-júní og júlí-ágúst rekstrarárið 2009. Þá er honum gefið að sök að hafa vanrækt að standa innheimtumanni ríkissjóðs skil á virðisaukaskattsskýrslum vegna fyrrgreindra uppgjörstímabila, á lögmæltum tíma. Vangoldinn innheimtur virðisaukaskattur til innheimtumanns ríkissjóðs vegna framangreindra uppgjörstímabila nemur samtals kr. 5.117.312. Fjárhæðin sundurliðast svo sem hér greinir:

Rekstrarár  Uppgjörstímabil Vangoldinn virðisaukaskattur til innheimtumanns ríkissjóðs kr.
2008 jan. – feb. 1.068.795
2008 mars – apríl 67.350
2008 maí – júní 997.452
2008 sept. – okt. 843.663
2008 nóv. – des. 95.035
Samtals kr.   3.072.295
2009 jan. – feb. 490.934
2009 mars – apríl 180.359
2009 maí – júní 659.843
2009 júlí – ágúst 713.881
Samtals kr.   2.045.017
Samtals bæði árin kr.   5.117.312

Það er mat skattrannsóknarstjóra ríkisins, byggt á gögnum málsins, að þetta hafi A gert á saknæman hátt, að því er frekast verður séð af ásetningi eða í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi.

Telst þessi háttsemi A brjóta í bága við ákvæði 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr., sbr. aðalreglur 1. gr., 2. gr., 1. tl. 1. mgr. 3. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. og 2. mgr. 13. gr., 1. mgr. 14. gr. og 19. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.

Framangreind háttsemi varðar A sekt samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.

Þess er krafist að A verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 22. mars 2012, sem fylgdi kröfugerðinni.

II.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 26. apríl 2012, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef hann vildi ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál hans og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 4. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Var bréf þetta birt gjaldanda eftir ákvæðum b-liðar 1. mgr. 83. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, í framhaldi af því að hann vitjaði ekki ábyrgðarbréfs nefndarinnar, dags. 23. mars 2012, um sama efni. Engar athugasemdir hafa borist frá gjaldanda.

III.

Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 22. mars 2012, er gerð sú krafa að gjaldanda, A, verði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, þar sem hann hafi sem fyrirsvarsmaður X ehf., nú þrotabú, vanrækt að standa skil á virðisaukaskatti félagsins þau uppgjörstímabil árin 2008 og 2009 sem greinir í bréfinu. Gjaldandi hefur átt þess kost að koma að vörnum fyrir yfirskattanefnd í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins, en engar athugasemdir hafa borist. Þar sem gjaldandi hefur ekki gert athugasemdir við meðferð máls þessa fyrir yfirskattanefnd verður að líta svo á að hann mæli því ekki í gegn að það sæti sektarmeðferð fyrir nefndinni.

Skattrannsóknarstjóri ríkisins hóf hinn 6. október 2011 rannsókn á skattskilum X ehf. er beindist að skilum félagsins á innheimtum virðisaukaskatti vegna rekstraráranna 2008 og 2009. Skráður tilgangur X ehf. á þessu tímabili var almenn verktakastarfsemi í jarðvegsvinnu, innflutningur, lánastarfsemi og rekstur fasteigna og annar skyldur rekstur. Samkvæmt gögnum málsins var bú X ehf. tekið til gjaldþrotaskipta hinn 2. maí 2011. Vegna rannsóknarinnar kom gjaldandi til skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins þann 28. október 2011. Með bréfum, dags. 2. nóvember 2011, sendi skattrannsóknarstjóri skiptastjóra þrotabús X ehf. og gjaldanda skýrslu um rannsóknina sem þá lá fyrir, dags. 1. nóvember 2011, og gaf þeim kost á að tjá sig um efni hennar. Athugasemdir voru ekki gerðar og tók skattrannsóknarstjóri ríkisins í framhaldi af þessu saman nýja skýrslu um rannsóknina, dags. 18. nóvember 2011, sem var efnislega samhljóða hinni fyrri að viðbættum kafla um lok rannsóknarinnar.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 18. nóvember 2011, segir að rannsókn á skattskilum X ehf. hafi einkum verið byggð á upplýsingum sem fram hafi komið við fyrrgreinda skýrslutöku, virðisaukaskattsskýrslum, upplýsingum frá fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra og tekjubókhaldi ríkissjóðs, sbr. fylgiskjöl með skýrslunni, en þar er um að ræða yfirlit um greiðslur X ehf. vegna staðgreiðslu opinberra gjalda, virðisaukaskatts og opinberra gjalda.

Fram kemur í skýrslunni að rannsókn á virðisaukaskattsskilum X ehf. hafi falist í því að bera fjárhæð innheimts virðisaukaskatts samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum félagsins saman við greiðslur þess til innheimtumanns ríkissjóðs og er rakin sú niðurstaða rannsóknarinnar að fyrrum fyrirsvarsmaður félagsins hafi ekki staðið skil á virðisaukaskatti vegna félagsins innan lögboðins frests uppgjörstímabilin janúar-febrúar, mars-apríl, maí-júní, september-október og nóvember-desember 2008 og janúar-febrúar til og með júlí-ágúst 2009 að fjárhæð samtals 5.117.312 kr. Fram kemur í skýrslunni að greiddar hafi verið 11.827 kr. inn á höfuðstól virðisaukaskatts vegna umræddra uppgjörstímabila. Þá hafi verið vanrækt að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum X ehf. á lögmæltum tíma öll framangreind uppgjörstímabil.

Við skýrslutöku þann 28. október 2011 kom fram af hálfu gjaldanda að hann hefði stofnað X ehf. og hefði hann séð um daglegan rekstur og fjármál félagsins. Gjaldandi staðfesti að virðisaukaskattsskýrslur X ehf. vegna fyrrgreindra uppgjörstímabila árin 2008 og 2009, sem lagðar voru fyrir hann við skýrslutökuna, væru byggðar á bókhaldsgögnum félagsins og gæfu rétta mynd af rekstri þess að því undanskildu að eitthvað væri um tapaðar kröfur. Tilgreindi gjaldandi þrjá aðila í þessu sambandi og sagði að kröfur á einn þeirra væru í lögfræðiinnheimtu hjá Y ehf. á Þ. Gjaldanda var kynnt að samkvæmt gögnum málsins næmi virðisaukaskattur X ehf., sem ekki hefði verið greiddur á lögmæltum tíma, samtals 5.117.312 kr. og sagði gjaldandi að fjárhæðin hlyti að vera rétt. Sagði gjaldandi að innheimtum virðisaukaskatti hefði ekki verið skilað vegna fjárskorts og hefði innheimtur virðisaukaskattur farið í reksturinn. Sagði gjaldandi að engin sérstök ákvörðun hefði verið tekin um að skila ekki innheimtum virðisaukaskatti til ríkissjóðs. Gjaldandi kvaðst ekki hafa óskað eftir því við innheimtumann ríkissjóðs að greiðslum X ehf. til innheimtumanns yrði ráðstafað með tilteknum hætti.

Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995, er refsivert ef skattskyldur maður afhendir eigi á lögmæltum tíma virðisaukaskattsskýrslu eða virðisaukaskatt sem hann hefur innheimt eða honum borið að innheimta. Samkvæmt fortakslausum ákvæðum nefndra laga og með stoð í dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands, sbr. m.a. dóma Hæstaréttar 27. febrúar 1997 (H 1997:789), 25. september 1997 (H 1997:2446), 14. janúar 1999 (H 1999:79), 18. febrúar 1999 (H 1999:544 og 550), 10. júní 1999 (H 1999:2645) og 30. mars 2000 (H 2000:1422), geta fyrirsvarsmenn lögaðila unnið til refsingar með því einu að láta ógert að skila umræddum gjöldum í ríkissjóð á tilskildum tíma, enda sé huglægum refsiskilyrðum fullnægt.

Gjaldandi, A, var stjórnarmaður og prókúruhafi X ehf. á þeim tíma sem mál þetta varðar. Við skýrslutöku staðfesti gjaldandi að hafa annast daglegan rekstur og fjármál félagsins. Verður samkvæmt framansögðu að telja að gjaldandi hafi sem fyrirsvarsmaður X ehf. borið ábyrgð á skilum virðisaukaskatts X ehf. og er sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins því réttilega beint að gjaldanda.

Til grundvallar niðurstöðu skattrannsóknarstjóra ríkisins um vangreidda fjárhæð virðisaukaskatts árin 2008 og 2009 liggja virðisaukaskattsskýrslur sem gjaldandi hefur staðfest að varði rekstur einkahlutafélagsins, sbr. skýrslutöku af gjaldanda 28. október 2011, þar sem einnig kom fram af hálfu gjaldanda að skýrslurnar gæfu rétta mynd af rekstrinum að því undanskildu að eitthvað hefði verið um að gefnir hefðu verið út reikningar á tímabilinu sem ekki hefðu fengist greiddir. Sagðist gjaldandi muna eftir að þeir aðilar sem ekki hefðu greitt útgefna reikninga væru B, verktakafélag í Reykjavík þar sem fyrirsvarsmaður væri maður að nafni C og Z ehf. Sagðist gjaldandi ekki vita til þess að reikningarnir hefðu verið afskrifaðir í bókhaldinu. Sagði gjaldandi kröfur á B vera í lögfræðiinnheimtu hjá Y ehf. á Þ. Í skýrslu sinni tók skattrannsóknarstjóri ríkisins fram að ekki lægi fyrir réttur og tæmandi listi yfir útistandandi viðskiptakröfur skattaðila, sem unnt væri að leggja til grundvallar við rannsókn á því hverjar krafnanna kynnu að vera sannanlega tapaðar í skilningi laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 5. mgr. 13. gr. laganna, sbr. og dóm Hæstaréttar Íslands frá 16. mars 2011 í málinu nr. 121/2011, en að öðru leyti fjallaði skattrannsóknarstjóri ríkisins ekki um útistandandi viðskiptakröfur X ehf. eða hvort tilefni væri til að líta til þeirra í málinu.

Samkvæmt framansögðu komu fram við rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins vísbendingar um að X ehf. hefði átt útistandandi kröfur sem ekki hefðu fengist greiddar og að líta yrði á umræddar kröfur sem tapaðar í skilningi 2. tölul. 5. mgr. 13. gr. laga nr. 50/1988. Þegar litið er til úrskurðaframkvæmdar í hliðstæðum málum verður að telja að sköpum geti skipt um niðurstöðu um sektarkröfu á hendur gjaldanda hvort skilyrði frádráttar samkvæmt framangreindu lagaákvæði hafi verið til staðar á þeim tíma sem hér um ræðir, sbr. einnig sjónarmið í dómi Hæstaréttar Íslands 31. maí 2007 í málinu nr. 392/2006. Þetta var sem fyrr segir ekki rannsakað af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins, þrátt fyrir að skýringar gjaldanda hafi gefið tilefni til. Vegna tilvísunar skattrannsóknarstjóra ríkisins til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 121/2011 skal tekið fram að í dómi Hæstaréttar kemur fram að fram hafi farið í því máli rannsókn á fjárhæð krafna viðkomandi aðila, sem töldust tapaðar, áður en ákæra var gefin út og einnig undir rekstri málsins í héraði. Eru atvik því með öðrum hætti en í tilviki gjaldanda. Samkvæmt því, sem hér hefur verið rakið, verður að telja, þrátt fyrir að gjaldandi hafi ekki mótmælt tölulegum niðurstöðum í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, að ekki hafi verið lagður nægur grundvöllur fyrir sektarákvörðun í máli þessu. Samkvæmt þessu er sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins vísað frá yfirskattanefnd.

Úrskurðarorð:

Sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er vísað frá yfirskattanefnd.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum