2013

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 305/2013

2.10.2013

Úrskurður nr. 305/2013

ÚRSKURÐUR YFIRSKATTANEFNDAR

Ár 2013, miðvikudaginn 2. október, er tekið fyrir mál nr. 39/2013; krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um að A, kt. [...], B, kt. [...], og X ehf., kt. [...], verði gerð sekt vegna meintra brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Anna Dóra Helgadóttir og Sverrir Örn Björnsson. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi, dags. 30. janúar 2013, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A, kt. [...], B, kt. [...], og X ehf., kt. [...], fyrir brot á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum, framin vegna rekstrarársins 2010.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

„A, B og X ehf. eru talin bera refsiábyrgð vegna eftirfarandi:

Vanræksla á skilum á virðisaukaskattsskýrslum á lögmæltum tíma. Vanframtalin skattskyld velta og útskattur. Mögulegur innskattur.

A og B er gefið að sök að hafa alfarið vanrækt, að því er best verður séð af ásetningi en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, að standa innheimtumanni ríkissjóðs á lögmæltum tíma skil á virðisaukaskattsskýrslum X ehf. vegna uppgjörstímabila rekstrarársins 2010 og að vanframtelja þannig virðisaukaskattsskylda veltu og virðisaukaskatt félagsins. Jafnframt er þeim gefið að sök að hafa vanrækt að standa innheimtumanni ríkissjóðs skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í starfsemi X ehf., sem fólgin var í framleiðslu fiskvinnsluvéla og tengdri þjónustu, vegna uppgjörstímabilanna rekstrarársins 2010. Samkvæmt rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins nemur vanframtalin virðisaukaskattsskyld velta samtals kr. 72.252.838 og vanframtalinn útskattur samtals kr. 18.679.471. Mögulegur innskattur nemur kr. 12.344.292.

Sundurliðast vanframtalin virðisaukaskattsskyld velta, útskattur og mögulegur innskattur svo sem hér greinir:

Rekstrarár Uppgjörstímabil Vanframtalin skattskyld velta kr. Vanframtalinn útskattur kr. Mögulegur innskattur
2010 janúar-febrúar 19.063.773 4.861.262 3.957.953
2010 mars-apríl 21.166.007 5.397.334 2.995.745
2010 maí-júní 3.536.329 901.763 941.291
2010 júlí-ágúst 25.230.773 6.433.847 766.001
2010 september-október 288.170 73.483 1.884.775
2010 nóvember-desember 3.967.786 1.011.782 1.798.527
Samtals kr.   73.252.838 18.679.471 12.344.292

Sú háttsemi sem hér hefur verið lýst brýtur í bága við ákvæði 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr., sbr. aðalreglur 1. gr. og 2. gr., 1. tl. 1. mgr. 3. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. og 2. mgr. 13. gr., 1. mgr. 14. gr. og 19. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.

Umrædd háttsemi varðar þau A og B sekt samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum. Krafa um að X ehf. verði gerð refsing vegna háttseminnar er grundvölluð á 8. mgr. nefndrar 40. gr. laga nr. 50/1988.

X ehf. var með úrskurði ríkisskattstjóra um endurákvörðun virðisaukaskatts félagsins vegna rekstrarársins 2010, upp kveðnum 5. júní 2012, gert að sæta 10% álagi á vangreiddan virðisaukaskatt samkvæmt 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er komi til frádráttar við ákvörðun sektar. Nemur greint álag samtals kr. 897.275.

Þess er krafist að A, B og X ehf. verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 30. janúar 2013, sem fylgdi kröfugerðinni.

II.

Með bréfum yfirskattanefndar, dags. 1. febrúar 2013, var gjaldendum veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef þau vildu ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál þeirra og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 4. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Engar athugasemdir hafa borist frá gjaldendum.

III.

1. Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 30. janúar 2013, er gerð sú krafa að gjaldendum, A og B, verði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með því að gjaldendur hafi sem fyrirsvarsmenn X ehf. vanrækt að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum tilgreind uppgjörstímabil árið 2010 og með því vanframtalið skattskylda veltu og útskatt. Þá er þess krafist að X ehf. verði gerð sekt af sömu ástæðum. Gjaldendur hafa átt þess kost að koma að vörnum fyrir yfirskattanefnd í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins, en engar athugasemdir hafa borist. Þar sem gjaldendur hafa ekki gert athugasemdir við meðferð máls þessa fyrir yfirskattanefnd verður að líta svo á að þau mæli því ekki í gegn að það sæti sektarmeðferð fyrir nefndinni.

2. Sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins í máli þessu er byggð á niðurstöðum rannsóknar embættisins á bókhaldi og skattskilum X ehf. rekstrarárið 2010, sbr. skýrslu um rannsóknina, dags. 15. maí 2012. Rannsókn þessi hófst formlega 25. nóvember 2011 og beindist að bókhaldi og virðisaukaskattsskilum X ehf. Skráður tilgangur félagsins á þessu tímabili var rekstur vélsmiðju og viðgerðarþjónustu, sala efnis og varahluta, rekstur fasteigna og lánastarfsemi. Vegna rannsóknar málsins voru teknar skýrslur af gjaldendum hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins, sbr. skýrslutökur af gjaldanda, A, 8. febrúar 2012, og af gjaldanda, B, 8. febrúar 2012. Var rannsóknin byggð á upplýsingum sem komu fram við skýrslutökur þessar, bókhaldsgögnum X ehf. og upplýsingum úr upplýsingakerfum skattyfirvalda. Með bréfum, dags. 26. apríl 2012, sendi skattrannsóknarstjóri gjaldendum skýrslu um rannsóknina, sem dagsett var sama dag, og gaf þeim kost á að tjá sig um efni hennar áður en ákvörðun yrði tekin um framhald málsins. Engin andmæli bárust og var lokaskýrsla skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 15. maí 2012, efnislega samhljóða hinni fyrri að viðbættum kafla um lok rannsóknarinnar.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 15. maí 2012, voru helstu niðurstöður rannsóknarinnar dregnar saman með svofelldum hætti:

„Niðurstöður rannsóknar á bókhaldi og virðisaukaskattsskilum skattaðila vegna rekstrarársins 2010 eru:

·1   Ekki hafa verið staðin skil á virðisaukaskattsskýrslum vegna allra uppgjörstímabila rekstrarársins 2010. Eftir að rannsókn hófst fengust virðisaukaskattsskýrslurnar afhentar ásamt bókhaldsgögnum skattaðila.

·2   Fært bókhald ásamt bókhaldsgögnum hefur verið afhent.

·3   Gefnir hafa verið út reikningar vegna sölu skattaðila.

·4   Skattskyld velta og útskattur eru vantalin.

·5   Fyrirliggjandi eru gögn um mögulegan innskatt.“

Þá gerði skattrannsóknarstjóri ríkisins tölulega grein fyrir niðurstöðum rannsóknarinnar í töflu í niðurlagi skýrslu sinnar. Þar kom fram að vantalin skattskyld velta X ehf. rekstrarárið 2010 væri talin nema 73.252.838 kr., vantalinn útskattur 18.679.471 kr., en mögulegur innskattur væri 12.344.292 kr. greint ár.

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins var mál X ehf. sent ríkisskattstjóra til meðferðar, sbr. 5. mgr. 39. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. bréf skattrannsóknarstjóra, dags. 31. maí 2012. Með bréfi, dags. 16. júlí 2012, greindi ríkisskattstjóri skattrannsóknarstjóra ríkisins frá því að embættið hefði hinn 5. júní 2012 endurákvarðað virðisaukaskatt gjaldanda á grundvelli innsendra virðisaukaskattsskýrslna frá félaginu. Tók ríkisskattstjóri fram að endurákvörðunin væri í samræmi við niðurstöður rannsóknarskýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins og að ríkisskattstjóri hefði af þessum sökum ekki í hyggju að nýta sér heimild til endurákvörðunar, sbr. 2. mgr. 39. gr. laga nr. 50/1988, á grundvelli skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins.

3. Fram kemur í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 15. maí 2012, að ekki hafi verið staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum X ehf. vegna allra uppgjörstímabila virðisaukaskatts rekstrarárið 2010, en skýrslurnar hafi verið afhentar skattrannsóknarstjóra ríkisins eftir upphaf rannsóknarinnar. Er í þessu sambandi rakinn sá framburður gjaldanda, A, við skýrslutöku 8. febrúar 2012 að mikið hafi verið að gera í fyrirtækinu og vinna við bókhald og skattskil hafi setið á hakanum. Þá hafi gjaldandi verið frá vinnu vegna krabbameins í langan tíma. Þau hafi að lokum séð að þau þyrftu á aðstoð að halda og þá ráðið bókhaldsstofu til að sjá um þessi mál. Af hálfu gjaldanda, B, kom fram við skýrslutöku sama dag að heilsubrestur og tímaskortur hefði valdið því að virðisaukaskattsskýrslum var ekki skilað. Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins kemur fram að bókhald hafi verið fært. Fyrirliggjandi séu afrit sölureikninga á númerabilinu 676-835 en reikninga á númerabilinu 681-694 vanti til að númeraröð sölureikninga sé samfelld. Er greint frá þeirri niðurstöðu skattrannsóknarstjóra ríkisins að ekki þyki tilefni til að áætla tekjur vegna vöntunar sölureikninga.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins er gerð grein fyrir rannsókn á skattskyldri veltu og útskatti X ehf. Er rakið að útgefnir sölureikningar félagsins hafi verið lagðir fyrir gjaldendur, A og B, sem hafi staðfest að þeir væru vegna rekstrarins og að þau teldu að þeir hefðu allir fengist greiddir að fullu, að því undanskildu að gjaldandi, B, taldi einn reikning að fjárhæð 949.650 kr. ekki hafa verið greiddan þar sem ágreiningur hefði verið um fjárhæð reikningsins. Er tekið fram í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins að umræddur sölureikningur sé tekjufærður í bókhaldi X ehf. og að tekið sé tillit til hans í tölulegum niðurstöðum skýrslunnar. Samkvæmt þessu sé það niðurstaða rannsóknarinnar að skattskyld velta X ehf. hafi verið vantalin um 73.252.838 kr. og útskattur um 18.679.471 kr. rekstrarárið 2010.

Í kafla um rannsókn á innskatti X ehf. kemur fram að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum nemi mögulegur innskattur samtals 12.344.292 kr. rekstrarárið 2010.

 4. Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995, er refsivert ef skattskyldur maður afhendir eigi á lögmæltum tíma virðisaukaskattsskýrslu eða virðisaukaskatt sem hann hefur innheimt eða honum borið að innheimta. Samkvæmt fortakslausum ákvæðum nefndra laga og með stoð í dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands, sbr. m.a. dóma Hæstaréttar 27. febrúar 1997 (H 1997:789), 25. september 1997 (H 1997:2446), 14. janúar 1999 (H 1999:79), 18. febrúar 1999 (H 1999:544 og 550), 10. júní 1999 (H 1999:2645) og 30. mars 2000 (H 2000:1422), geta fyrirsvarsmenn lögaðila unnið til refsingar með því einu að láta ógert að skila umræddum gjöldum í ríkissjóð á tilskildum tíma, enda sé huglægum refsiskilyrðum fullnægt.

Gjaldandi, A, var framkvæmdastjóri og prókúruhafi X ehf. og gjaldandi, B, var stjórnarformaður og prókúruhafi félagsins á þeim tíma sem málið varðar. Við skýrslutökur af gjaldendum hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins kom fram að þau hefðu bæði annast daglegan rekstur félagsins og haft með höndum fjárráð þess. Verður samkvæmt þessu að telja að gjaldendur hafi bæði borið ábyrgð á því að skil væru gerð á virðisaukaskattsskýrslum félagsins og virðisaukaskatti í samræmi við ákvæði 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, enda hefur því ekki verið mótmælt af þeirra hálfu. Því telst sektarkröfu skattrannsóknarstjóra réttilega beint að báðum gjaldendum í samræmi við ákvæði 6. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988.

Sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins í máli þessu er byggð á því að gjaldendur hafi sem fyrirsvarsmenn X ehf. vanrækt að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum félagsins öll uppgjörstímabil árið 2010 og að vegna þessarar vanrækslu hafi skattskyld velta vegna þessara tímabila verið vantalin um 73.252.838 kr. og útskattur um 18.679.471 kr., en mögulegur innskattur nemi 12.344.292 kr.

Samkvæmt gögnum málsins stóðu gjaldendur ekki skil á virðisaukaskattsskýrslum X ehf. fyrir uppgjörstímabilin janúar-febrúar til og með nóvember-desember 2010 á lögmæltum tíma og gerðu því ekki grein fyrir virðisaukaskatti sem þeim bar að standa skil á vegna félagsins, sbr. 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988, fyrr en virðisaukaskattsskýrslurnar voru afhentar skattrannsóknarstjóra ríkisins ásamt bókhaldi félagsins vegna rannsóknar embættisins á skattskilum þess. Skýrslurnar virðast hins vegar ekki hafa verið sendar ríkisskattstjóra fyrr en allnokkru síðar, sbr. bréf ríkisskattstjóra, dags. 16. júlí 2012, þar sem kemur fram að embættið hafi endurákvarðað virðisaukaskatt X ehf. hinn 5. júní 2012 á grundvelli innsendra virðisaukaskattsskýrslna félagsins. Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins hefur engin grein verið gerð fyrir því hvort og þá hvenær skil hafi verið gerð á virðisaukaskatti samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum X ehf. Á hinn bóginn verður ráðið af skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, sbr. fskj. nr. 5.1 með skýrslunni, að virðisaukaskattur hafi verið greiddur í samræmi við áætlanir ríkisskattstjóra samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1988. Samkvæmt greindu lagaákvæði skal ríkisskattstjóri áætla skatt af viðskiptum þeirra aðila sem ekki senda skýrslu innan tilskilins tíma, senda enga skýrslu eða ef skýrslu eða fylgigögnum er ábótavant. Skal áætlun vera svo rífleg að eigi sé hætt við að skattfjárhæð sé áætluð lægri en hún er í raun og veru. Eins og málið liggur fyrir verður byggt á því að virðisaukaskattur hafi verið greiddur í samræmi við skýrslur X ehf., auk álags og dráttarvaxta, áður en mál þetta var sent yfirskattanefnd til sektarmeðferðar. Við rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins komu ekki fram neinir þeir annmarkar á tekjuskráningargögnum X ehf. og tekjuskráningu eða grundvelli skattskila félagsins sem hafa gefið skattrannsóknarstjóra ríkisins eða ríkisskattstjóra tilefni til annars en að byggja á gögnum félagsins.

Eins og fram er komið greindu gjaldendur frá því við skýrslutökur hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins að veikindi gjaldanda, A, og tímaskortur hefðu valdið því að virðisaukaskattsskýrslum X ehf. fyrir uppgjörstímabilin janúar-febrúar til og með nóvember-desember 2010 var ekki skilað á lögmæltum tíma. Þessar skýringar gjaldanda hagga því ekki að þeim bar að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum á lögmæltum tíma. Samkvæmt því sem rakið hefur verið telst sannað að gjaldendur hafi látið undir höfuð leggjast að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum og virðisaukaskatti fyrir framangreind uppgjörstímabil á þeim tíma sem þeim var það skylt, sbr. 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988. Verður talið að fullnægt sé þeim huglægu refsiskilyrðum sem fram koma í 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995, og ber að ákvarða gjaldendum sekt samkvæmt þessu lagaákvæði vegna þeirrar vanrækslu sem að framan greinir.

Samkvæmt breytingum á refsiákvæðum skattalaga, sem gerðar voru með lögum nr. 42/1995 og tóku gildi 9. mars 1995, skal sekt aldrei vera lægri en sem nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin, þó að teknu tilliti til álags. Við ákvörðun sektarfjárhæðar þykir með hliðsjón af ákvæði 4. mgr. 37. gr. A reglugerðar nr. 373/2001, um framkvæmd skatteftirlits og skattrannsókna, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 334/2006, mega taka tillit til þess að í tengslum við rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á bókhaldi X ehf. stóðu gjaldendur skil á virðisaukaskattsskýrslum vegna félagsins sem reyndust vera í samræmi við niðurstöður rannsóknarinnar auk þess sem líta ber til þess sem fyrir liggur um greiðslur á virðisaukaskatti vegna félagsins, sbr. að framan. Þykja því vera skilyrði til þess að færa fésekt niður fyrir lögbundið lágmark sektarrefsingar, sbr. 8. tölul. 1. mgr. 74. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þegar höfð eru í huga lagarök, sem búa að baki framangreindu ákvæði 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um lágmarks- og margfeldissektir, með tilliti til háttsemi gjaldenda og afleiðinga hennar, þykir rétt að ákveða sektarfjárhæð í máli þessu heildstætt en með tiltekinni skiptingu milli gjaldenda. Samkvæmt framansögðu og að teknu tilliti til álags samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 þykir sekt gjaldenda hæfilega ákveðin 1.200.000 kr. til ríkissjóðs sem skiptist þannig milli þeirra að gjaldandi, A, greiði sekt að fjárhæð 600.000 kr. og gjaldandi, B, greiði sekt að fjárhæð 600.000 kr.

Að virtum dómi Hæstaréttar 21. júní 1991 (H 1991:1236) og með vísan til 8. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995, þykir rétt að gera X ehf. að greiða greindar sektir in solidum með A og B.

Úrskurðarorð:

Gjaldendur, A og X ehf., greiði in solidum sekt að fjárhæð 600.000 kr. til ríkissjóðs. Gjaldendur, B og X ehf., greiði in solidum sekt að fjárhæð 600.000 kr. til ríkissjóðs. 

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum