2014

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 9/2014

5.2.2014

Úrskurður nr. 9/2014

ÚRSKURÐUR YFIRSKATTANEFNDAR

Ár 2014, miðvikudaginn 5. febrúar, er tekið fyrir mál nr. 86/2013; krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um að A, kt. [...], verði gerð sekt vegna meintra brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Anna Dóra Helgadóttir og Sverrir Örn Björnsson. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I

Með bréfi, dags. 28. febrúar 2013, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A, kt. [...], fyrir brot á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, og lögum nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, beggja með áorðnum breytingum, framin vegna rekstraráranna 2005, 2006 og 2007.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

„A er gefið að sök eftirfarandi:

Skil á efnislega röngum skattframtölum.  Vanframtaldar launatekjur. Vanframtaldar rekstrartekjur.

A er gefið að sök að hafa, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, staðið skattstjóranum í Reykjavík skil á efnislega röngum skattframtölum gjaldárin 2006 til og með 2008, vegna rekstraráranna 2005 til og með 2007, með því að vanrækja að gera grein fyrir launatekjum sínum sem til eru komnar vegna starfa hennar fyrir X ehf. og rekstrartekjum sínum sem til eru komnar vegna starfa hennar fyrir Y ehf. og Z ehf.

Framangreind háttsemi A leiddi til ákvörðunar lægri tekjuskatts- og útsvarsstofna hennar en vera bar gjaldárin 2006 til og með 2008, vegna rekstraráranna 2005 til og með 2007 og þar með til ákvörðunar lægri tekjuskatts og útsvars, svo sem hér segir:                                                                        

Rekstrarár Vanframtalin tekjuskatts- og útsvarsstofn, kr. Tekjuskattur, kr. Útsvar, kr.
2005 2.163.140 535.377 281.857
2006 2.269.771 539.071 295.751
2007 610.061 138.789 79.491
Samtals kr. 5.042.972 1.213.237 657.099

Sú háttsemi A sem lýst hefur verið hér að framan brýtur í bága við ákvæði 90. gr., sbr. A. og B. lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 22. gr. og 19. gr. og 1. mgr. 21. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga.

Varðar framanlýst háttsemi A sekt samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga.

Við ákvörðun skattstofna vegna rekstraráranna 2005, 2006 og 2007 hefur A verið gert að sæta álagningu skatts á álag á vanframtalinn tekjuskattsstofn samkvæmt 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með áorðnum breytingum, kr. 452.365, er komi til frádráttar við ákvörðun sektarfjárhæðar.

Þess er krafist að A verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 28. febrúar 2013, sem fylgdi kröfugerðinni.

II

Forsaga máls þessa er sú að með bréfi til yfirskattanefndar, dags. 17. mars 2011, gerði skattrannsóknarstjóri ríkisins þá kröfu að gjaldanda yrði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 110. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, fyrir að hafa staðið skil á efnislega röngum skattframtölum gjaldárin 2006, 2007 og 2008 með því að vanrækja að gera grein fyrir launatekjum sínum er til væru komnar vegna starfa hennar fyrir X ehf. og rekstrartekjum sínum er til væru komnar vegna starfa hennar fyrir Y ehf. og Z ehf. að fjárhæð samtals 5.042.972 kr.

Með ábyrgðarbréfi yfirskattanefndar, dags. 22. mars 2011, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins. Var bréfið endursent yfirskattanefnd með því að þess hefði ekki verið vitjað. Reynt var að koma fram birtingu fyrir gjaldanda eftir ákvæðum b-liðar 1. mgr. 83. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, með bréfi yfirskattanefndar, dags. 28. apríl 2011, en birting tókst ekki.

Með úrskurði yfirskattanefndar nr. 172/2011, sem kveðinn var upp hinn 15. júní 2011, var kröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins um ákvörðun sektar á hendur gjaldanda vísað frá yfirskattanefnd þar sem afstaða gjaldanda til meðferðar málsins lægi ekki fyrir, sbr. 4. mgr. 110. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins var máli gjaldanda vísað til meðferðar hjá embætti sérstaks saksóknara, sbr. bréf, dags. 11. ágúst 2011. Með bréfi, dags. 6. febrúar 2013, endursendi embætti sérstaks saksóknara málið til skattrannsóknarstjóra ríkisins á þeim forsendum að gjaldandi hefði staðfest við lögreglu að hún vildi hlíta afgreiðslu yfirskattanefndar á málinu, sbr. meðfylgjandi yfirlýsingu gjaldanda til embættis sérstaks saksóknara, dags. 4. febrúar 2013, þess efnis.

III

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 5. mars 2013, var gjaldanda að nýju veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins. Engar athugasemdir hafa borist frá gjaldanda.

IV

1. Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 28. febrúar 2013, er gerð sú krafa að gjaldanda, A, verði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Gjaldandi hefur átt þess kost að koma að vörnum fyrir yfirskattanefnd í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins, en engar athugasemdir hafa borist. Fyrirliggjandi er staðfesting gjaldanda við lögreglu á því að hún hlíti því að mál þetta sæti sektarmeðferð fyrir yfirskattanefnd.

2. Sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins í máli þessu er byggð á niðurstöðum rannsóknar embættisins á skattskilum gjaldanda vegna rekstraráranna 2005, 2006 og 2007, sbr. fyrirliggjandi skýrslu um rannsóknina, dags. 26. nóvember 2009. Rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins, sem ákveðin var í framhaldi af ábendingu frá skattstjóranum í Reykjavík, hófst formlega hinn 19. febrúar 2009. Vegna rannsóknarinnar kom gjaldandi til skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins dagana 6. mars 2009, 25. mars 2009 og 30. júní 2009, en skýrslur voru einnig teknar af B hinn 24. febrúar 2009 og C hinn 3. apríl 2009 vegna málsins. Var rannsókn í máli gjaldanda byggð á upplýsingum sem fram komu við skýrslutökur þessar, svo og var byggt á skattframtölum gjaldanda, sölureikningum sem gjaldandi gaf út á Z ehf. og Y ehf., sölureikningum útgefnum í nafni C á Y ehf., launaseðlum X ehf. útgefnum á C, upplýsingum frá Barnavernd Reykjavíkur, upplýsingum frá meðferðarheimilinu W, upplýsingum frá stuðningsheimilinu Ö, upplýsingum frá Íslandsbanka hf. og upplýsingum úr upplýsingakerfum skattyfirvalda. Með bréfi, dags. 7. október 2009,  sendi skattrannsóknarstjóri ríkisins gjaldanda og umboðsmanni hennar skýrslu embættisins, dags. 6. október 2009, sem þá lá fyrir um rannsóknina og var gjaldanda veittur kostur á að koma að athugasemdum við skýrsluna. Af hálfu gjaldanda voru engar athugasemdir gerðar og var lokaskýrsla skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 26. nóvember 2009, efnislega samhljóða hinni fyrri að viðbættum kafla um lok rannsóknarinnar.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 26. nóvember 2009, voru helstu niðurstöður rannsóknarinnar dregnar saman með svofelldum hætti:

„Niðurstöður rannsóknar á bókhaldi og skattskilum skattaðila vegna rekstraráranna 2005, 2006 og 2007 eru:

·1  Staðið hefur verið skil á skattframtölum.

·2  Ekki hefur verið staðið skila [sic] á virðisaukaskattsskýrslu vegna uppgjörstímabilsins júlí-ágúst 2007.

·3  Bókhald hefur ekki verið fært.

·4  Varðveislu bókhaldsgagna er ábótavant.

·5  Skattaðili hefur vanrækt að gera grein fyrir verktakagreiðslum að fjárhæð kr. 3.938.600 (204.700+3.733.900) frá Y ehf. á skattframtölum sínum vegna rekstraráranna 2005, 2006 og 2007.

·6  Skattaðili hefur vanrækt að gera grein fyrir tekjum vegna verktöku að fjárhæð kr. 315.661 (344.000-28.339) frá Z ehf. á skattframtali sínu vegna rekstrarársins 2007.

·7  Útskattur skattaðila árið 2007 er kr. 28.339.

·8  Ekki eru fyrirliggjandi gögn vegna rekstrargjalda eða innskatts skattaðila.

·9  Skattaðili hefur vanrækt að gera grein fyrir launatekjum að fjárhæð kr. 788.711 frá X ehf. á skattframtölum sínum vegna rekstraráranna 2005 og 2006.

·10  Skattaðili hefur innt af hendi vinnu og fengið greitt fyrir hana í nafni dóttur sinnar að því er virðist í þeim tilgangi að komast hjá lögbundnum skattgreiðslum.“

Samkvæmt tölulegum niðurstöðum skýrslunnar, sem gerð var grein fyrir í töflu í niðurstöðukafla skýrslunnar, voru vantaldar rekstrartekjur taldar nema samtals 4.254.261 kr. rekstrarárin 2005, 2006 og 2007 og vantaldar launatekjur samtals 788.711 kr. tekjuárin 2005 og 2006. Þá var vantalinn útskattur talinn nema 28.339 kr. rekstrarárið 2007.

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins var mál gjaldanda sent ríkisskattstjóra til meðferðar, sbr. 6. mgr. 103 gr., sbr. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. bréf skattrannsóknarstjóra, dags. 27. nóvember 2009. Á grundvelli rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins og í framhaldi af boðunarbréfi ríkisskattstjóra til gjaldanda, dags. 17. febrúar 2010, sem ekki var svarað af hennar hálfu, tók ríkisskattstjóri áður álögð opinber gjöld gjaldanda gjaldárin 2006, 2007 og 2008 til endurákvörðunar með úrskurði um endurákvörðun, dags. 21. apríl 2010. Í úrskurðinum kom fram að um væri að ræða vantaldar rekstrar- og launatekjur gjaldanda. Með úrskurðinum hækkaði ríkisskattstjóri tekjuskatts- og útsvarsstofna gjaldanda úr 1.065.657 kr. í 3.769.582 kr. gjaldárið 2006, úr 2.327.202 kr. í 5.164.416 kr. gjaldárið 2007 og úr 1.931.466 kr. í 2.694.042 kr. gjaldárið 2008. Þá bætti ríkisskattstjóri 25% álagi á hækkun skattstofna, sbr. heimild í 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Gjaldandi nýtti sér ekki heimilaðar málskotsleiðir vegna þessa úrskurðar ríkisskattstjóra.

3. Fram kemur í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 26. nóvember 2009, að gjaldandi hafi staðið skil á skattframtölum árin 2006, 2007 og 2008. Í skýrslunni kemur fram skattframtölin hafi verið borin undir hana við skýrslutöku 6. mars 2009 og hafi gjaldandi sagt skattframtölin vera rétt þó svo að hún hefði gleymt að gera grein fyrir tekjum frá Z ehf. Þá er tekið fram að gjaldandi hafi á tímabilinu gefið út sölureikning með virðisaukaskatti á Z ehf. 1. ágúst 2007 að fjárhæð 144.000 kr., þar af virðisaukaskattur 28.339 kr., en ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslu uppgjörstímabilið júlí-ágúst 2007. Þá kemur fram í skýrslunni að bókhald hafi ekki verið fært vegna sjálfstæðrar starfsemi gjaldanda. Sagði gjaldandi aðspurð við skýrslutöku hinn 6. mars 2009 að hún teldi að afritum af sölureikningum, sem hún hefði gefið út, hefði verið hent. Hinn 10. mars 2009 afhenti gjaldandi reikningshefti með 50 sölureikningum. Tveir sölureikningar höfðu verið gefnir út á Z ehf. en 48 reikningar voru ónotaðir. Undir rannsókn málsins afhenti Y ehf. afrit af sölureikningum sem gjaldandi gaf út á félagið á árinu 2007, en einn sölureikning vantaði til að númeraröð sölureikninga væri samfelld. Við skýrslutöku 6. mars 2009 sagði gjaldandi að hún hefði ekki gefið þennan reikning út, hún hefði týnt honum eða fyllt hann rangt út. Y ehf. afhenti embætti skattrannsóknarstjóra ríkisins einnig afrit af sölureikningum sem gefnir voru út á félagið í nafni C, dóttur gjaldanda, en sex sölureikninga vantaði til þess að númeraröð þessara sölureikninga væri samfelld. Við skýrslutöku 25. mars 2009 sagði gjaldandi að hún hefði ekki gefið umrædda sex sölureikninga út. Hún hefði fyllt einhverja reikninga vitlaust út og þá hefði hún lánað systur sinni og vinkonu sölureikninga. Taldi skattrannsóknarstjóri ríkisins ekki ástæðu til að leggja mat á ætlaðan undandrátt vegna vöntunar sölureikninga þar sem fjöldi þessara reikninga væri lítill miðað við heildarfjölda sölureikninga og ekkert hefði komið í ljós við rannsókn málsins sem benti til þess að sölureikningarnir hefðu verið gefnir út.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins er sérstakur kafli um rannsókn skattrannsóknarstjóra á dvalarstað C, dóttur gjaldanda. Þar kemur fram að í tölvupósti frá nafngreindum félagsráðgjafa hjá Barnavernd Reykjavíkur segi að C hafi verið vistuð á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans frá 1. desember 2004 til 1. mars 2005 og hafi hún verið nemandi í Brúarskóla frá þeim tíma fram á vor. Þá hafi C verið á meðferðarheimilinu W frá 5. júlí 2005 til 31. desember 2006, en í byrjun janúar 2007 hafi hún farið á fósturheimili í Þ og þaðan á heimili á vegum Reykjavíkurborgar að Ö um miðjan febrúar 2007. Þá hafi hún aftur farið á W í lok mars 2007 og verið formlega útskrifuð þaðan í apríl 2008. Í fríum og leyfum hafi hún dvalið á heimilinu á Ö. Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 3. apríl 2009 staðfesti C að framangreindar upplýsingar væru réttar. Við skýrslutökuna voru bornar undir C upplýsingar frá meðferðarheimilinu W og stuðningsheimilinu Ö um dvalartíma hennar þar og sagðist hún ekki muna dagsetningar nákvæmlega en efaðist ekki um að upplýsingarnar væru réttar. Kvaðst C ekkert hafa verið að bera út á meðan hún dvaldist á umræddum stöðum.

Þá er í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins gerð grein fyrir rannsókn skattrannsóknarstjóra á bankareikningi í nafni C. Á yfirlitum yfir reikninginn vegna áranna 2005, 2006 og 2007 koma m.a. fram úttektir úr hraðbönkum á höfuðborgarsvæðinu á sama tíma og C dvaldist á meðferðarheimilinu W. Við skýrslutöku sagði C að hún hefði ekki notað þennan reikning heldur móðir sín og að móðir hennar hefði tekið af henni debetkortið þegar hún fékk það og afhent henni aftur fjórum dögum fyrir skýrslutökuna. Í skýrslunni kemur fram að Y ehf. hafi greitt samtals 3.733.900 kr. inn á umræddan bankareikning og sé sú fjárhæð í samræmi við heildarfjárhæð sölureikninga sem gefnir hafi verið út á Y ehf. í nafni C á sama tímabili. Þá hafi X ehf. greitt samtals 767.175 kr. inn á reikninginn á árunum 2005 og 2006 og sé sú fjárhæð í samræmi við útborguð laun samkvæmt launaseðlum sem X ehf. hafi gefið út á C umrædd ár. Útborganir af bankareikningum til gjaldanda séu samtals 2.497.000 kr. á árunum 2005 og 2006 en engar útborganir séu til gjaldanda á árinu 2007. Aðrar útborganir séu að mestu úttektir úr hraðbönkum. Aðspurð um þessar greiðslur sagði gjaldandi við skýrslutöku að C hafi framkvæmt greiðslurnar því hún hefði væntanlega viljað hjálpa gjaldanda.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins er gerð grein fyrir rannsókn skattrannsóknarstjóra á verktakagreiðslum til gjaldanda frá Y ehf. og Z ehf. Þar kemur fram að gjaldandi hafi staðfest við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins að hafa gefið út sölureikninga að fjárhæð samtals 204.700 kr. á Y ehf. á árinu 2007 og að þeir hefðu fengist greiddir að fullu. Aðspurð um sölureikninga á hendur Y ehf. og X ehf., sem gefnir voru út í nafni C á árunum 2005, 2006 og 2007, sbr. gögn frá Y ehf., að fjárhæð samtals 3.733.900 kr., sagðist gjaldandi kannast við sölureikningana og að hún hefði gert þá fyrir dóttur sína. Kvaðst gjaldandi hafa unnið vinnuna að hálfu á móti dóttur sinni. Við skýrslutöku sagði C að móðir sín hefði gert reikningana og notað nafnið sitt þegar hún var að bera út. Sagði C að móðir sín hefði séð um að bera út og fengið alla þá peninga sem fengust greiddir fyrir útburðinn. Við skýrslutöku af B, starfsmanni X ehf., hinn 24. febrúar 2009, sagðist B ávallt hafa haft samskipti við gjaldanda vegna þeirrar vinnu sem væri að baki umræddum sölureikningum. Þá kemur fram í skýrslunni að gjaldandi hafi staðfest við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins að tveir sölureikningar, sem hún hafi gefið út á Z ehf. að fjárhæð samtals 344.000 kr. á árinu 2007, hafi fengist greiddir að fullu. Fram kom að virðisaukaskattur að fjárhæð 28.339 kr. var tilgreindur á öðrum þessara sölureikninga. Kvaðst gjaldandi ekki hafa fengið launamiða frá Z ehf. og því hefði hún gleymt að telja tekjurnar fram. Var það niðurstaða rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins að gjaldandi hefði vanrækt að gera grein fyrir verktakagreiðslum að fjárhæð samtals 3.938.600 kr. (204.700 kr. + 3.733.900 kr.) frá Y ehf. í skattframtölum árin 2006, 2007 og 2008 og vanrækt framtal verktakagreiðslna að fjárhæð samtals 315.661 kr. (344.000 kr. – 28.339 kr.) frá Z ehf. í skattframtali sínu árið 2008. Þá taldi skattrannsóknarstjóri ríkisins að gjaldanda hefði borið að standa skil á innheimtum virðisaukaskatti af Z ehf. að fjárhæð 28.339 kr. árið 2007.

Í kafla um rannsókn á rekstrargjöldum og innskatti gjaldanda er greint frá því að engin gögn hafi komið fram um möguleg rekstrargjöld eða innskatt gjaldanda. Er vísað til þeirra skýringa gjaldanda við skýrslutöku að hún hefði þurft að nota bifreið og síma vegna vinnunnar, en hún gæti ekki afhent nein gögn sem sýndu fram á kostnað hennar.

Þá er í skýrslunni gerð grein fyrir rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á launatekjum gjaldanda. Þar kemur fram að við skýrslutöku af gjaldanda hafi afrit af launaseðlum, sem aflað var hjá X ehf., ásamt samantekt yfir þá, verið lögð fyrir gjaldanda. Á launaseðlunum er C tilgreind sem launþegi og X ehf. sem launagreiðandi. Voru heildarlaun samkvæmt launaseðlunum 425.540 kr. árið 2005 og 363.171 kr. árið 2006. Kvaðst gjaldandi kannast við launaseðlana og sagði C hafa unnið þá vinnu sem lægi að baki launagreiðslunum. Við skýrslutöku greindi B, starfsmaður X ehf., frá því að hún hefði ávallt haft samskipti við gjaldanda vegna þeirrar vinnu sem lægi að baki launaseðlunum. Var þessi framburður borinn undir gjaldanda við skýrslutöku og sagði gjaldandi að B hefði oftast, en ekki alltaf, haft samband við sig vegna þessa. Í skýrslutökum hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins var gjaldandi beðinn um skýringar á því hvernig C gæti verið launamaður hjá X ehf. á sama tíma og hún hefði dvalist á stofnunum. Sagði gjaldandi að þegar C hefði verið á stofnunum hefði gjaldandi unnið fyrir hana, en þegar C hafi ekki verið í vistun hafi hún dvalist hjá sér og hjálpað sér að bera út. Í skýrslunni er tekið fram að á launaseðlunum sé ekki að finna upplýsingar um hvaða daga vinnan hafi verið innt af hendi en tímabilið nái yfir 515 daga. Af þessum 515 dögum hefði C dvalið samtals 312 daga á stofnunum. Var það niðurstaða rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins að gjaldandi hefði starfað hjá X ehf. á árunum 2005 og 2006 og þegið laun fyrir þau störf í nafni dóttur sinnar, C. Hefði gjaldandi þannig vanrækt að gera grein fyrir launatekjum að fjárhæð 788.711 kr. í skattframtölum sínum vegna þessara rekstrarára.

4. Í máli því, sem hér er til meðferðar, er um að tefla kröfugerð um ákvörðun sektar á hendur gjaldanda samkvæmt þar tilgreindum ákvæðum 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sem gera ráð fyrir því að sektarákvörðun sé bundin þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin. Verður því að taka afstöðu til þess hvort skattrannsóknarstjóri ríkisins hafi með skattrannsókn sinni sýnt fram á hverju skattfjárhæð, sem undan var dregin, hafi að minnsta kosti numið. Allan vafa í því sambandi verður að meta gjaldanda í hag, sbr. grundvallarreglu 108. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála.

Eins og fram er komið byggði skattrannsóknarstjóri ríkisins tölulegar niðurstöður sínar um vantaldar tekjur gjaldanda tekjuárin 2005, 2006 og 2007 á sölureikningum sem gjaldandi gaf út á Y ehf. að fjárhæð samtals 204.700 kr. og Z ehf. að fjárhæð samtals 315.661 kr. (344.000 -–28.339) og á sölureikningum sem gefnir voru út í nafni C á Y ehf. og X ehf. að fjárhæð samtals 3.733.900 kr. Einnig var byggt á launaseðlum sem X ehf. gaf út á C að fjárhæð samtals 788.711 kr., auk þess sem stuðst var við gögn um innborganir á bankareikninga gjaldanda og C á umræddum árum. Af hálfu gjaldanda var viðurkennt við skýrslutökur hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins að hún hefði vanrækt að telja fram tekjur frá Y ehf. að fjárhæð 204.700 kr. og Z ehf. að fjárhæð 315.661 kr. í skattframtali árið 2008. Að því er varðaði vinnu fyrir Y ehf. og X ehf. samkvæmt sölureikningum í nafni C og launaseðlum til C, sem mun hafa falist í útburði dagblaða og auglýsingaefnis, kom fram af hálfu gjaldanda að þær mæðgur hefðu báðar sinnt umræddri vinnu. Kvaðst gjaldandi telja að vinnuframlag hefði skipst til helminga milli þeirra. Í máli þessu um ákvörðun sektar á hendur gjaldanda þykir rétt að byggja á framburði gjaldanda um þetta atriði.

Samkvæmt framangreindu er viðurkennt af hálfu gjaldanda að vinnuframlag hennar hafi staðið að baki greiðslum árið 2005 frá Y ehf. að fjárhæð 868.800 kr. og frá X ehf. að fjárhæð 212.770 kr., svo sem þykir að öðru leyti hafa verið leitt í ljós með rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins. Telst hér vera um að ræða tekjur gjaldanda, en hún gerði ekki grein fyrir þeim í skattframtali sínu árið 2006. Einnig telst komið fram í málinu að gjaldandi hafi ekki talið fram í skattframtali sínu árið 2007 tekjur frá Y ehf. að fjárhæð 953.300 kr. og frá X ehf. að fjárhæð 181.586 kr. Loks viðurkennir gjaldandi að hún hafi ekki talið fram í skattframtali sínu árið 2008 tekjur frá Y ehf. að fjárhæð 249.550 kr. og frá Z ehf. að fjárhæð 315.661 kr. Engin gögn komu fram við rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins um rekstrarkostnað og innskatt gjaldanda og hefur ekkert það komið fram af hálfu gjaldanda varðandi hugsanlega frádráttarliði sem gefur tilefni til frekari lækkunar á fjárhæðum sem að framan greinir. Verður því miðað við að vantaldar tekjur gjaldanda hafi numið framangreindum fjárhæðum, þ.e. samtals 1.081.570 kr. tekjuárið 2005, 1.134.886 kr. tekjuárið 2006 og 565.211 kr. tekjuárið 2007.

Fullsannað þykir samkvæmt því sem að framan er rakið og að öðru leyti með stoð í gögnum málsins að gjaldandi, A, hafi á saknæman hátt vanrækt að telja fram í skattframtölum sínum árin 2006, 2007 og 2008 launatekjur og tekjur af atvinnurekstri sínum eða sjálfstæðri starfsemi með fyrrgreindum fjárhæðum, sem skattskyldar voru samkvæmt ákvæðum 1. tölul. A-liðar og B-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. og 19. og 21. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, er leiddi til lægri álagningar opinberra gjalda hennar en vera bar, þannig að varði við 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga. Telst vanálagður tekjuskattur nema 267.689 kr. gjaldárið 2006, 269.535 kr. gjaldárið 2007 og 128.586 kr. gjaldárið 2008, en vanálagt útsvar nam 140.929 kr. fyrsta árið, 147.876 kr. annað árið og 73.647 kr. þriðja árið.

5. Ákvarða ber gjaldanda, A, sekt samkvæmt framangreindum ákvæðum 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003. Samkvæmt breytingum á refsiákvæðum skattalaga, sem gerðar voru með lögum nr. 42/1995 og tóku gildi 9. mars 1995, skal sekt aldrei vera lægri en sem nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin, þó að teknu tilliti til álags. Við ákvörðun sektar ber að taka tillit til skatts af álagi samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Að þessu virtu og málsatvikum að öðru leyti þykir sekt gjaldanda hæfilega ákveðin 1.300.000 kr. til ríkissjóðs og 700.000 kr. til borgarsjóðs Reykjavíkur.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Gjaldandi, A, greiði sekt að fjárhæð 1.300.000 kr. til ríkissjóðs og 700.000 kr. til borgarsjóðs Reykjavíkur.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum