2014

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 11/2014

5.2.2014

Úrskurður nr. 11/2014

ÚRSKURÐUR YFIRSKATTANEFNDAR

Ár 2014, miðvikudaginn 5. febrúar, er tekið fyrir mál nr. 33/2013; krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um að A, kt. [...], verði gerð sekt vegna meintra brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Anna Dóra Helgadóttir og Sverrir Örn Björnsson. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I

Með bréfi, dags. 24. janúar 2013, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A, kt. [...], fyrir brot á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, lögum nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, allra með áorðnum breytingum, framin vegna rekstraráranna 2006, 2007 og 2008.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

„A er gefið að sök eftirfarandi:

1. Skil á efnislega röngum skattframtölum. Vanframtaldar rekstrartekjur.

A er gefið að sök að hafa, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, staðið skattstjóranum í Reykjavík skil á efnislega röngum skattframtölum fyrir gjaldárin 2007, 2008 og 2009 vegna rekstraráranna 2006, 2007 og 2008 með því að vanframtelja rekstrartekjur sínar af sölustörfum fyrir heildverslun um kr. 1.928.140 rekstrarárið 2006, um kr. 1.322.100 rekstarárið 2007 og um kr. 1.081.300 rekstrarárið 2008.

Leiddi háttsemi A til ákvörðunar lægri tekjuskatts- og útsvarsstofna hennar en vera bar vegna framangreindra tekjuára og þar með ákvörðunar lægri tekjuskatts og útsvars svo sem hér greinir:  

Rekstrarár Vanframtalinn tekjuskatts- og útsvarsstofn, kr. Hækkun tekjuskatts, kr. Hækkun útsvars, kr.
2006 1.928.140 457.933                23,75% tekjuskattur af vanframtöldum stofni: 1.928.140 kr. * 0,2275 = 457.933 kr. Persónuafsláttur þegar fullnýttur á móti tekjuskatti af framtöldum tekjum öll árin. 251.237                13,03 % útsvar af vanframtöldum stofni: 1.928.140 kr. * 0,1303 = 251.237 kr.
2007 1.322.100 300.778                22,75 % tekjuskattur af vanframtöldum stofni: 1.322.100 kr. * 0,2275 = 300.778 kr. 172.270                13,03 5 útsvar af vanframtöldum stofni: 1.322.100 kr. * 0,1303 = 172.240 kr.
2008 1.081.300 245.996                22,75 % tekjuskattur af vanframtöldum stofni: 1.081.300 kr. * 0,2275 = 245.996 kr. 140.893                13,03 % útsvar af vanframtöldum stofni: 1.081.300 kr. * 0,1303 = 140.893 kr.
Samtals kr. 4.331.540 1.004.707 564.400

Sú háttsemi A sem lýst hefur verið hér að framan brýtur í bága við ákvæði 90. gr., sbr. B-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 22. og 19. gr. og 1. mgr. 21. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, beggja með áorðnum breytingum.

Við væntanlega endurákvörðun skattstofna vegna rekstraráranna 2006, 2007 og 2008 mun A að líkum verða gert að sæta álagningu tekjuskatts og útsvars á álag á vanframtalda skattstofna samkvæmt 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með áorðnum breytingum, er komi til frádráttar við ákvörðun sektarfjárhæðar.

Varðar framanrakin háttsemi A sekt samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, með áorðnum breytingum.

2. Vanframtalin virðisaukaskattsskyld velta og vangoldinn innheimtur útskattur. Vanskil virðisaukaskattsskýrslna. Mögulegur innskattur.

A er gefið að sök að hafa alfarið vanrækt að gera innheimtumanni ríkissjóðs grein fyrir virðisaukaskattsskyldri veltu í sjálfstæðri starfsemi sinni við störf fyrir heildverslun á rekstrarárunum 2006, 2007 og 2008, sem og að hafa vanrækt að tilkynna atvinnurekstur sinn til skráningar hjá ríkisskattstjóra. Þá er A og gefið að sök að hafa vanrækt að standa innheimtumanni ríkissjóðs skil á virðisaukaskatti sem hún innheimti í umræddri starfsemi. Ennfremur er A gefið að sök að hafa vanrækt að standa innheimtumanni ríkissjóðs skil á virðisaukaskattsskýrslum fyrir uppgjörstímabilin frá og með mars – apríl til og með nóvember – desember rekstrarárið 2006 og fyrir öll uppgjörstímabil rekstraráranna 2007 og 2008. Vanframtalinn virðisaukaskattur til innheimtumanns ríkissjóðs vegna greindrar starfsemi A á rekstrarárunum 2006, 2007 og 2008 nemur samtals kr. 1.060.979. Ekki komu fram nein gögn sem sýndu fram á að um innskatt hefði verið að ræða. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins er fjárhæðin sundurliðuð sem hér greinir: 

Rekstrarár Uppgjörstímabil Vanframtalinn útskattur kr.
2006 mars - apríl 137.298
2006 maí - júní 0
2006 júlí - ágúst 180.587
2006 september - október  
2006 nóvember - desember 154.509
Samtals kr.   472.394
2007 janúar - febrúar 0
2007 mars - apríl 184.265
2007 maí - júní 0
2007 júlí - ágúst 0
2007 september - október 139.401
2007 nóvember - desember 0
Samtals kr.   323.666
2008 janúar - febrúar 140.459
2008 mars - apríl 0
2008 maí - júní 0
2008 júlí - ágúst 107.310
2008 september - október 17.150
2008 nóvember - desember 0
Samtals kr.   264.919
Samtals öll árin, kr.   1.060.979

Það er mat skattrannsóknarstjóra ríkisins, byggt á gögnum málsins, að ofangreindu hafi A komið til leiðar með saknæmum hætti, að því er frekast verður séð af ásetningi eða í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi.

Telst þessi háttsemi A brjóta í bága við ákvæði 1. mgr. 5. gr., 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr., sbr. aðalreglur 1. gr., 2. gr. 1. tl. 1. mgr. 3. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. og 2. mgr. 13. gr., 1. mgr. 14. gr. og 19. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.

Framangreind háttsemi varðar A sekt samkvæmt 1. og 3. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.

Þess er krafist að A verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 24. janúar 2013, sem fylgdi kröfugerðinni.

II

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 29. janúar 2013, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef hún vildi ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál hennar og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 4. mgr. 110. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 4. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Var svarfrestur upphaflega ákveðinn til 18. mars 2013, en að beiðni umboðsmanns gjaldanda var fresturinn framlengdur tvívegis og í síðara skiptið til 22. apríl 2013. Engar athugasemdir hafa borist frá gjaldanda.

III

1. Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 24. janúar 2013, er gerð sú krafa að gjaldanda, A, verði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, þar sem hún hafi staðið skil á röngum skattframtölum árin 2007, 2008 og 2009 með því að vantelja rekstrartekjur sínar af sölustörfum fyrir heildverslun rekstrarárin 2006, 2007 og 2008. Þá er gerð krafa um ákvörðun sektar samkvæmt ákvæðum 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sem byggir á því að gjaldandi hafi vanrækt að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum og virðisaukaskatti tilgreind uppgjörstímabil á árunum 2006, 2007 og 2008 svo sem nánar er rakið í kröfubréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins. Gjaldandi hefur átt þess kost að koma að vörnum fyrir yfirskattanefnd í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins, en engar athugasemdir hafa borist. Þar sem gjaldandi hefur ekki gert athugasemdir við meðferð máls þessa fyrir yfirskattanefnd verður að líta svo á að hún mæli því ekki í gegn að það sæti sektarmeðferð fyrir nefndinni.

2. Sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins í máli þessu er byggð á niðurstöðum rannsóknar embættisins á bókhaldi og skattskilum gjaldanda vegna rekstraráranna 2006, 2007 og 2008, sbr. skýrslu um rannsóknina, dags. 8. mars 2012. Rannsókn þessi hófst formlega 1. nóvember 2011 og tók til tekna og gjalda gjaldanda vegna sjálfstæðrar starfsemi hennar við sölustörf umrædd ár. Vegna rannsóknarinnar kom gjaldandi til skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins dagana 21. mars 2011, 3. nóvember 2011 og 29. nóvember 2011. Þá voru teknar skýrslur af B 23. mars 2011 og 1. september 2011, C 20. janúar 2012 og af D 13. janúar 2012. Var rannsókn í máli gjaldanda byggð á upplýsingum sem fram komu við skýrslutökur þessar auk þess sem byggt var á innsendum skattframtölum gjaldanda fyrir rekstrarárin 2006, 2007 og 2008, sölureikningum frá X slf., upplýsingum og gögnum frá bönkum og fjármálafyrirtækjum og upplýsingum úr upplýsingakerfum skattyfirvalda. Með bréfi, dags. 15. febrúar 2012, sendi skattrannsóknarstjóri gjaldanda skýrslu um rannsóknina, dags. 9. febrúar 2012, og gaf henni kost á að tjá sig um efni hennar áður en ákvörðun yrði tekin um framhald málsins. Af hálfu gjaldanda voru engar athugasemdir gerðar og var lokaskýrsla skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 8. mars 2012, efnislega samhljóða hinni fyrri að viðbættum kafla um lok rannsóknarinnar.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 8. mars 2012, voru helstu niðurstöður rannsóknarinnar teknar saman með svofelldum hætti:

„Niðurstöður rannsóknar á bókhaldi og skattsskilum skattaðila vegna rekstraráranna 2006, 2007 og 2008 eru:  

·1  Skattaðili skilaði skattframtölum.

·2  Skattaðila bar að skrá sig á virðisaukaskattsskrá.

·3  Skattaðila bar að gefa út reikninga í eigin nafni.

·4  Skattaðila bar að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum.

·5  Skattskyld velta, útskattur og rekstrartekjur eru vantalin.

·6  Bókhald var ekki fært.

·7  Varðveislu bókhaldsgagna er ábótavant.

·8  Skattaðili hefur ekki afhent gögn um rekstrargjöld eða innskatt.“

Þá gerði skattrannsóknarstjóri ríkisins tölulega grein fyrir niðurstöðum rannsóknarinnar í töflu í niðurlagi skýrslu sinnar. Þar kom fram að vantaldar rekstrartekjur gjaldanda væru taldar nema 1.928.140 kr. rekstrarárið 2006, 1.322.100 kr. rekstrarárið 2007 og 1.081.300 kr. rekstrarárið 2008. Þá væri skattskyld velta gjaldanda vantalin um sömu fjárhæðir umrædd ár svo og næmi vangreiddur útskattur 472.394 kr. fyrsta árið, 323.666 kr. annað árið og 264.919 kr. þriðja árið.

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins var mál gjaldanda sent ríkisskattstjóra til meðferðar með vísan til 6. mgr. 103. gr., sbr. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 2. mgr. 39. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. bréf skattrannsóknarstjóra, dags. 9. mars 2012. Í greinargerð skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 24. janúar 2013, kemur fram að ríkisskattstjóri hafi ekki kveðið upp úrskurð í máli gjaldanda og sé endurákvörðunarþætti málsins því ekki lokið.

3. Fram kemur í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 8. mars 2012, að gjaldandi hafi staðið skil á skattframtölum árin 2007, 2008 og 2009. Við skýrslutöku 3. nóvember 2011 kvaðst gjaldandi telja að hún hefði ásamt dóttur sinni annast gerð skattframtala árin 2007 og 2008 og að tilgreindur sérkunnáttumaður hefði annast gerð skattframtals árið 2009. Væru skattframtölin byggð á launaseðlum og öðrum forskráðum upplýsingum. Við skýrslutöku hinn 29. nóvember 2011 greindi gjaldandi frá því að skattframtölin væru röng þar sem hún hefði ekki lagt fram gögn um þær tekjur sem hún hefði fengið frá X slf. Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins er tekið fram að gjaldandi hafi ekki verið með opið virðisaukaskattsnúmer á rannsóknartímabilinu og hafi hún ekki skilað inn virðisaukaskattsskýrslum vegna uppgjörstímabila á árunum 2006, 2007 og 2008. Er í þessu sambandi rakinn sá framburður gjaldanda við skýrslutökur hjá skattrannsóknarstjóra dagana 3. og 29. nóvember 2011 að gjaldandi hefði ekki skilað inn virðisaukaskattsskýrslum þar sem hún hefði ætlað að einfalda sér lífið. Þá hafi hún ekki gert sér grein fyrir því að hún ætti að vera á virðisaukaskattsskrá og ætti að skila virðisaukaskattsskýrslum til skattyfirvalda. Sagði gjaldandi að ekkert bókhald hefði verið skráð vegna tekna hennar og að hún ætti ekki nein bókhaldsgögn.

Í kafla um rannsókn á rekstrartekjum kemur fram að skattrannsóknarstjóri ríkisins hafi aflað átta sölureikninga við rannsókn málsins. Var einn reikningur útgefinn í nafni B og sjö útgefnir í nafni D. Í skýrslunni er rakið að við skýrslutöku hafi komið fram af hálfu gjaldanda að hún hefði afhent X slf. umrædda sölureikninga vegna vinnu sinnar fyrir félagið á rekstrarárunum 2006, 2007 og 2008. Hefði gjaldandi greitt útgefendum sölureikninganna fjárhæð virðisaukaskatts sem tilgreindur væri á reikningunum. Fyrrgreindir sölureikningar að fjárhæð samtals 5.392.519 kr. ásamt ljósritum af 25 ávísunum, sem reikningarnir voru greiddir með og gjaldandi framseldi í bönkum og fjármálastofnunum, voru lagðir fyrir gjaldanda við skýrslutökur hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins. Staðfesti gjaldandi að reikningarnir væru vegna starfa hennar fyrir X slf. og að hún hefði fengið greitt með ávísunum. Staðfesti gjaldandi að hafa fengið reikningana hjá B og D og greitt þeim fjárhæð virðisaukaskatts sem tilgreindur væri á reikningunum. Kvaðst gjaldandi hafa gert þetta til að einfalda líf sitt. Henni hefðu þótt upphæðirnar lágar til að byrja með og það hefði verið spurning hvort hún hefði þurft að borga skatt af þessu. Sagðist gjaldandi ekki hafa talið sig stunda sjálfstæða atvinnustarfsemi heldur hafa verið í vinnu hjá B og D. Þá viðurkenndi gjaldandi að skattframtöl hennar umrædd gjaldár væru röng þar sem ekki hefðu verið taldar fram tekjur sem hún hefði haft frá X slf. Við skýrslutöku af D 13. janúar 2012 sagði D að gjaldandi hefði unnið fyrir hann við hreingerningar 2006 eða 2007 og hefði hann greitt henni „svart“. Hún hefði síðan fengið vinnu hjá X slf. og hann hefði látið henni í té reikninga þegar hún hefði óskað eftir því. Við skýrslutöku af C hjá X slf. hinn 20. janúar 2012 kom fram að hvorki B né D hefðu komið að ráðningu gjaldanda hjá X slf. og kannaðist C ekkert við þá. Sagði C gjaldanda og sambýlismann hennar hafa viljað hafa þetta fyrirkomulag með framlagningu reikninga frá B og D og hefði gjaldandi krafist þess að fá greitt í ávísunum. Var það niðurstaða skattrannsóknarstjóra ríkisins að gjaldandi hefði innt af hendi þá vinnu sem reikningar, gefnir út í nafni B og D, bæru með sér. Hefði gjaldandi verið ráðin til verksins og aðkoma B og D einvörðungu verið í því skyni að gjaldandi kæmist hjá greiðslu lögboðinna skatta vegna starfsemi sinnar. Ekkert samband hafi verið á milli gjaldanda og B annars vegar og gjaldanda og D hins vegar sem hafi gefið gjaldanda ástæðu til að ætla að hún væri launamaður hjá þeim. Gjaldanda hafi því borið að skrá sig á virðisaukaskattsskrá og gefa út reikninga í eigin nafni vegna þeirrar vinnu sem hún innti af hendi og fékk greitt fyrir. Þá hafi gjaldanda borið að gera grein fyrir skattskyldri veltu og útskatti á skýrslum til skattyfirvalda vegna starfsemi sinnar.

4. Gjaldandi hefur sem fyrr segir ekki gert athugasemdir í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins og við skýrslutökur, sem fram fóru hjá skattrannsóknarstjóra vegna rannsóknar málsins, kom fram viðurkenning hennar á því að hún hefði ekki gert grein fyrir öllum tekjum sínum á árunum 2006, 2007 og 2008 í skattframtölum árin 2007, 2008 og 2009, svo og að hún hefði ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum og innheimtum virðisaukaskatti vegna seldrar þjónustu á árunum 2006, 2007 og 2008. Í máli því, sem hér er til meðferðar, er um að tefla kröfugerð um ákvörðun sektar á hendur gjaldanda samkvæmt þar tilgreindum ákvæðum 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sem gera ráð fyrir því að sektarákvörðun sé bundin þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin. Verður því að taka afstöðu til þess hvort skattrannsóknarstjóri ríkisins hafi með skattrannsókn sinni sýnt fram á hverju skattfjárhæð, sem undan var dregin, hafi að minnsta kosti numið. Allan vafa í því sambandi verður að meta gjaldanda í hag, sbr. grundvallarreglu 108. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála.

Eins og fram er komið byggja tölulegar niðurstöður skattrannsóknarstjóra ríkisins um rekstrartekjur og skattskylda veltu gjaldanda rekstrarárin 2006, 2007 og 2008 á fjárhæð sölureikninga í nafni B og D á hendur X slf., sem gjaldandi hefur viðurkennt að hafi verið gefnir út vegna vinnu hennar við sölustörf hjá heildversluninni, en einnig eru niðurstöður studdar við afrit af ávísunum frá X slf. sem gjaldandi framseldi í bönkum og fjármálastofnunum. Umræddir sölureikningar og ávísanir voru lagðar fyrir gjaldanda við skýrslutökur hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins og staðfesti gjaldandi sem fyrr segir við skýrslutöku 29. nóvember 2011 að hafa afhent umrædda sölureikninga vegna vinnu sinnar og fengið greitt fyrir með ávísunum. Samkvæmt þessu og að virtum gögnum málsins að öðru leyti þykir ekkert komið fram sem gefur tilefni til annars en að miða við fjárhæðir rekstrartekna og skattskyldrar veltu samkvæmt skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins.

Samkvæmt framansögðu verður byggt á því að rekstrartekjur og skattskyld velta gjaldanda hafi numið 1.928.140 kr. rekstrarárið 2006, 1.322.100 kr. rekstrarárið 2007 og 1.081.300 kr. rekstrarárið 2008. Gjaldandi gerði enga grein fyrir þessum tekjum í skattframtölum sínum árin 2007, 2008 og 2009. Ekkert hefur komið fram í málinu sem gefur tilefni til þess að tekið verði tillit til rekstrarkostnaðar og innskatts.

Fullsannað þykir samkvæmt því sem að framan er rakið og að öðru leyti með stoð í gögnum málsins að gjaldandi, A, hafi á saknæman hátt vanrækt að telja fram í skattframtölum sínum árin 2007, 2008 og 2009 tekjur af atvinnurekstri sínum eða sjálfstæðri starfsemi með fyrrgreindum fjárhæðum sem skattskyldar voru samkvæmt B-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. og 19. gr. og 21. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga. Telst vanálagður tekjuskattur nema 457.933 kr. gjaldárið 2007, 300.778 kr. gjaldárið 2008 og 245.996 kr. gjaldárið 2009. Vanálagt útsvar nam 251.237 kr. fyrsta árið, 172.270 kr. annað árið og 140.893 kr. þriðja árið. Hinar röngu upplýsingar í skattframtölum gjaldanda leiddu samkvæmt framansögðu til lægri álagningar opinberra gjalda hennar en vera bar gjaldárin 2007, 2008 og 2009 þannig að brot gjaldanda varða við 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga.

Þá þykir fullsannað að gjaldandi, sem skyld var til þess að standa skil á virðisaukaskatti, sbr. 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, hafi vanrækt að standa skil á virðisaukaskatti og virðisaukaskattsskýrslum fyrir uppgjörstímabilin mars-apríl, maí-júní, júlí-ágúst, september-október og nóvember-desember 2006 og öll uppgjörstímabil virðisaukaskatts árin 2007 og 2008. Telst gjaldandi hafa vanrækt að gera grein fyrir skattskyldri veltu að fjárhæð 4.331.540 kr. umrædd uppgjörstímabil og virðisaukaskatti til greiðslu að fjárhæð 1.060.979 kr., sbr. sundurliðun í kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins. Þá var leitt í ljós með rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins að gjaldandi vanrækti að tilkynna skattyfirvöldum um virðisaukaskattsskylda starfsemi sína á umræddum árum, þrátt fyrir lagaskyldu samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1988. Framangreind háttsemi varðar gjaldanda sekt samkvæmt 1. og 3. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995, enda verður að telja að huglægum refsiskilyrðum samkvæmt þessum lagaákvæðum sé fullnægt.

Ákvarða ber gjaldanda, A, sekt samkvæmt framangreindum ákvæðum 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 og 1. og 3. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995. Samkvæmt breytingum á refsiákvæðum skattalaga, sem gerðar voru með lögum nr. 42/1995 og tóku gildi 9. mars 1995, skal sekt aldrei vera lægri en sem nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin, þó að teknu tilliti til álags. Að þessu virtu og málsatvikum að öðru leyti þykir sekt gjaldanda hæfilega ákveðin 3.800.000 kr. til ríkissjóðs og 1.000.000 kr. til borgarsjóðs Reykjavíkur.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Gjaldandi, A, greiði sekt að fjárhæð 3.800.000 kr. til ríkissjóðs og 1.000.000 kr. til borgarsjóðs Reykjavíkur.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum