2014

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 12/2014

5.2.2014

Úrskurður nr. 12/2014

ÚRSKURÐUR YFIRSKATTANEFNDAR

Ár 2014, miðvikudaginn 5. febrúar, er tekið fyrir mál nr. 32/2013; krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um að A, kt. [...], verði gerð sekt vegna meintra brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Anna Dóra Helgadóttir og Sverrir Örn Björnsson. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I

Með bréfi, dags. 23. janúar 2013, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A, kt. [...], fyrir brot á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með áorðnum breytingum, framin vegna tekjuáranna 2005, 2006, 2007 og 2008.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

„A er gefið að sök eftirfarandi:

Skil á efnislega röngum skattframtölum. Vanframtaldar skattskyldar fjármagnstekjur.

A er gefið að sök að hafa, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, staðið skattstjóranum í Reykjavík skil á efnislega röngum skattframtölum gjaldárin 2006 til og með 2009, vegna tekjuáranna 2005 til og með 2008, með því að vanframtelja arðstekjur sínar, samtals að fjárhæð kr. 32.626.714.

Framangreind háttsemi A leiddi til ákvörðunar lægri tekjuskattsstofna hans en vera bar gjaldárin 2006 til og með 2009, vegna tekjuáranna 2005 til og með 2008 og þar með til ákvörðunar lægri fjármagnstekjuskatts, svo sem hér segir: 

Reiknaður tekjuskattur

Tekjuár Vanframtaldar tekjur Tekjuskattur (10%)
2005 7.475.000 747.500
2006 9.396.873 939.687
2007 7.975.587 797.559
2008 7.779.254 777.925
Samtals kr. 32.626.714 3.262.671

Sú háttsemi A sem lýst hefur verið hér að framan brýtur í bága við ákvæði 90. gr., sbr. C. lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með áorðnum breytingum.

Varðar framanlýst háttsemi A sekt samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Við ákvörðun skattstofna vegna tekjuáranna 2005 til og með 2008 hefur A verið gert að sæta álagningu skatts á álag á vanframtalinn tekjuskattsstofn, samkvæmt 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með áorðnum breytingum, kr. 1.631.335, er komi til frádráttar við ákvörðun sektarfjárhæðar.

Þess er krafist að A verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 23. janúar 2013, sem fylgdi kröfugerðinni. Þar kemur m.a. fram að með bréfi, dags. 16. nóvember 2011, hafi skattrannsóknarstjóri ríkisins vísað máli gjaldanda til rannsóknar lögreglu hjá embætti sérstaks saksóknara. Með bréfi þess embættis, dags. 4. desember 2012, hafi málið verið endursent skattrannsóknarstjóra í ljósi úrskurðar yfirskattanefndar nr. 538/2012 í máli gjaldanda. Umrætt bréf embættis sérstaks saksóknara er meðal gagna málsins ásamt afriti af rannsóknargögnum lögreglu í málinu, þar á meðal samantektir úr skýrslutökum af gjaldanda og vitnum.

II

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 29. janúar 2013, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef hann vildi ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál hans og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 4. mgr. 110. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Með bréfi, dags. 19. febrúar 2013, hefur umboðsmaður gjaldanda lagt fram vörn í máli þessu. Þar er þess krafist að gjaldanda verði ekki gerð sekt í málinu og að málskostnaður gjaldanda verði greiddur úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd. Farið er fram á að málið verði flutt munnlega fyrir yfirskattanefnd.

Í bréfi umboðsmanns gjaldanda er vikið að því að rannsókn málsins hafi hafist hinn 19. nóvember 2009. Hafi málið velkst á milli embætta skattrannsóknarstjóra ríkisins og sérstaks saksóknara, en rannsókn sérstaks saksóknara hafi engum árangri skilað. Hafi gjaldandi haft réttarstöðu sakbornings allan tímann í þessu máli sem varði agnarsmáa hagsmuni. Í úrskurði yfirskattanefndar nr. 538/2012 hafi verið fallist á þrautavarakröfu gjaldanda þannig að umþrættar úttektir teldust vera arðstekjur. Hafi úrskurðurinn verið áfellisdómur yfir rannsókn málsins, enda hafi með honum verið staðfestur skilningur gjaldanda í málinu. Hafi rannsóknaraðgerðir á tíðum farið fram úr hófi og ekki verið réttlætanlegar miðað við umfang málsins. Af málatilbúnaði öllum verði ekki annað ráðið en að um röð mistaka eða handvömm hafi verið að ræða, fremur en eindreginn ásetning eða harðan brotavilja. Hafi skattrannsóknarstjóri ríkisins ekki fært fram lögfulla sönnun fyrir því að saknæmisskilyrði um ásetning eða stórkostlegt gáleysi hafi verið uppfyllt.

Með bréfi formanns yfirskattanefndar, dags. 9. janúar 2014, var hafnað beiðni umboðsmanns gjaldanda um munnlegan flutning máls þessa fyrir nefndinni, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd. Jafnframt var umboðsmanninum gefinn kostur á að leggja fram frekari gögn eða greinargerð í málinu er berast skyldi innan 20 daga frá dagsetningu bréfsins. Ekki hafa borist athugasemdir frá umboðsmanni gjaldanda.

III

1. Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 23. janúar 2013, er gerð sú krafa að gjaldanda, A, verði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Umboðsmaður gjaldanda hefur lagt fram vörn í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins.

2. Sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins í máli þessu er byggð á niðurstöðum rannsóknar embættisins á skattskilum gjaldanda vegna tekjuáranna 2005 til og með 2008, sbr. skýrslu um rannsóknina, dags. 14. desember 2010. Rannsókn þessi hófst formlega hinn 19. nóvember 2009. Vegna rannsóknarinnar kom gjaldandi til skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins dagana 11. mars 2010 og 2. september 2010. Var rannsókn í máli gjaldanda byggð á upplýsingum sem fram komu við skýrslutökur þessar, svo og var byggt á skattframtölum gjaldanda, greiðslukortaupplýsingum og upplýsingum frá viðskiptabanka. Með bréfi, dags. 25. nóvember 2010, sendi skattrannsóknarstjóri ríkisins gjaldanda skýrslu embættisins, dags. sama dag, sem þá lá fyrir um rannsókn þess á máli gjaldanda, og var honum veittur kostur á að koma að athugasemdum við skýrsluna. Engar athugasemdir voru gerðar af hálfu gjaldanda og var lokaskýrsla skattrannsóknarstjóra ríkisins efnislega samhljóða hinni fyrri að viðbættum kafla um lok rannsóknarinnar.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 14. desember 2010, voru helstu niðurstöður rannsóknarinnar dregnar saman með svofelldum hætti:

„Niðurstöður rannsóknar á skattskilum skattaðila vegna tekjuáranna 2005 til og með 2008 eru:

·1  Staðin hafa verið skil á efnislega röngum framtölum.

·2  Skattaðili átti 12% eignarhlut í erlendu félagi, X, sem skrásett er á Bresku Jómfrúreyjum.

·3  Skattaðili hefur vanframtalið tekjur frá X sem hann fékk í formi úttekta af greiðslukorti og innborgana á bankareikning.

·4  Skattaðili hefur talið fram arðgreiðslur frá X tekjuárin 2005 til og með 2007. Ekkert liggur fyrir um að hér hafi verið um skattskyldan arð að ræða heldur hafi hér verið um að ræða tekjur, sem falli undir ákvæði A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. og upphafsákvæði 7. gr. laganna.

·5  Skattrannsóknarstjóri telur að ekki sé heimilt að draga skuld skattaðila við Landsbankann í Lúxemborg frá skattskyldum tekjum hans, sbr. III. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.“

Samkvæmt tölulegum niðurstöðum skýrslunnar, sem gerð var grein fyrir í töflu í niðurstöðukafla skýrslunnar, voru vantaldar tekjur taldar nema samtals 7.475.000 kr. árið 2005, 9.396.873 kr. árið 2006, 7.975.587 kr. árið 2007 og 7.779.254 kr. árið 2008.

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins var mál gjaldanda sent ríkisskattstjóra til meðferðar, sbr. 6. mgr. 103 gr., sbr. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. bréf skattrannsóknarstjóra, dags. 16. desember 2010. Á grundvelli rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins og í framhaldi af boðunarbréfi ríkisskattstjóra til gjaldanda, dags. 18. júlí 2011, sbr. andmæli umboðsmanns gjaldanda af því tilefni með bréfi, dags. 15. september 2011, tók ríkisskattstjóri áður álögð opinber gjöld gjaldanda gjaldárin 2006 til og með 2009 til endurákvörðunar með úrskurði um endurákvörðun, dags. 4. október 2011. Í úrskurðinum byggði ríkisskattstjóri á því að greiðslur, sem gjaldandi fékk frá erlendu félagi, X, sem skráð var á Bresku Jómfrúreyjum, að fjárhæð 9.100.000 kr. gjaldárið 2006, 11.736.873 kr. gjaldárið 2007, 10.315.587 kr. gjaldárið 2008 og 7.779.254 kr. gjaldárið 2009, væru tekjur sem skattskyldar væru á grundvelli hins almenna ákvæðis 9. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og féllu þar með undir almennt skattþrep tekjuskatts, og hafnaði þannig því sjónarmiði gjaldanda, sem fram kom við skýrslutökur hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins, að um væri að ræða arðgreiðslur frá hinu erlenda félagi, þ.e. fjármagnstekjur utan rekstrar. Ríkisskattstjóri bætti 25% álagi á hækkun tekjuskatts- og útsvarsstofna gjaldanda, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Í tengslum við þessar breytingar felldi ríkisskattstjóri niður framtaldar arðgreiðslur frá X að fjárhæð 1.625.000 kr. í skattframtali gjaldanda árið 2006, 2.340.000 kr. í skattframtali gjaldanda árið 2007 og 2.340.000 kr. í skattframtali gjaldanda árið 2008.

Úrskurði ríkisskattstjóra var skotið til yfirskattanefndar með kæru umboðsmanns gjaldanda, dags. 12. desember 2011, þar sem aðallega var gerð krafa um að úrskurður ríkisskattstjóra yrði felldur úr gildi. Til vara var þess krafist að notkun á greiðslukorti og úttektir yrðu skattlagðar sem greiðslur af yfirverðsreikningi, sbr. gagnályktun frá 2. málsl. 4. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og til þrautavara var þess krafist litið yrði á notkun á greiðslukorti og úttektir sem arðgreiðslur, sbr. 4. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Með úrskurði yfirskattanefndar nr. 538/2012, sem kveðinn var upp 17. október 2012, var aðal- og varakröfum gjaldanda hafnað, en fallist á þrautavarakröfu gjaldanda um að virða hinar umdeildu greiðslur frá X til gjaldanda sem arðgreiðslur í skilningi 4. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 1. mgr. 11. gr. sömu laga. Kröfu gjaldanda um breytingar á skattframtölum B, föður gjaldanda, var vísað frá yfirskattanefnd.

3. Fram kemur í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 14. desember 2010, að gjaldandi hafi staðið skil á skattframtölum vegna tekjuáranna 2005 til og með 2008. Í skattframtölunum hafi gjaldandi gert grein fyrir eignarhlut í erlendu félagi, X, með 237.561 kr. í skattframtali árið 2006, 31.000.000 kr. í skattframtali árið 2007, 31.000.000 kr. í skattframtali árið 2008 og 25.863.468 kr. í skattframtali árið 2009. Þá hafi gjaldandi talið fram arð frá félaginu að fjárhæð 1.625.000 kr. fyrsta árið, 2.340.000 kr. annað árið og 2.340.000 kr. þriðja árið, en enginn arður hafi verið talinn fram fjórða árið. Við skýrslutökur dagana 11. mars 2010 og 2. september 2010 hafi gjaldandi greint frá því að hið erlenda félag, X, hefði verið stofnað í kjölfar sölu gjaldanda á eignarhlut sínum í Y til að halda utan um og ávaxta fjármuni vegna sölunnar, en hluthafar og raunverulegir eigendur hafi verið gjaldandi sjálfur með 12% hlut, faðir gjaldanda með 70% hlut og tvær systur gjaldanda með 9% hlut hvor. Hafi gjaldandi verið með bankareikning í Landsbankanum í Lúxemborg og hafi arðgreiðslur frá félaginu verið lagðar inn á bankareikninginn. Í skýrslunni er rakið að gjaldandi hafi notað erlent greiðslukort hér á landi á árunum 2006, 2007 og 2008. Hafi gjaldandi sagt við skýrslutökur að hann hefði fengið sent greiðslukort frá bankanum í kringum 2007, en fram til þess tíma hefðu fjármunir frá X verið lagðir inn á bankareikning. Úttektirnar hefðu verið jafnt í þágu gjaldanda og föður hans. Kom fram í skýrslunni að heildarfjárhæð úttekta af greiðslukortinu hefði numið 11.463.426 kr. og var það niðurstaða skattrannsóknarstjóra ríkisins að helmingur úttektar tilheyrði gjaldanda, þ.e. 5.731.714 kr. Þá er rakið að gjaldandi hafi fengið greiddar inn á bankareikning sinn í Kaupþingi banka hf. samtals 33.200.000 kr. í formi símgreiðslna frá Landsbankanum í Lúxemborg. Aðspurður hafi gjaldandi sagt að um arðgreiðslur væri að ræða. Hafi greiðslurnar verið sameiginlegar arðgreiðslur til hans og föður hans og að þær hefðu allar komið inn á reikning gjaldanda. Hafi gjaldandi ekki millifært yfir á föður sinn því þeir hefðu verið „saman í mjög mörgu“. Hefði gjaldandi m.a. sinnt viðhaldi eigna fyrir föður sinn og að í lok árs hefði farið fram uppgjör þó peningar hafi ekki skipt um hendur. Hafi gjaldandi sagt að það hljómaði vissulega þannig að hann hefði haldið peningunum sem hefðu komið inn á reikninginn, hann hefði ekki verið að vinna á þessum árum og það mætti segja að faðir gjaldanda hefði verið að hjálpa þeim hjónunum, fjölskyldunni, með ýmislegt. Var það niðurstaða rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins að gjaldandi hefði ekki sýnt fram á að greiðslurnar tilheyrðu jafnframt föður gjaldanda og yrði ekki annað ráðið en að um persónulegar tekjur gjaldanda hefði verið að ræða. Við skýrslutökuna 2. september 2010 kvaðst gjaldandi hafa vantalið greiddan arð frá félaginu þó svo að það hafi ekki verið meiningin. Þá er í skýrslunni rakinn sá framburður gjaldanda að hann skuldi Landsbankanum í Lúxemborg um 30.000 evrur. Taldi skattrannsóknarstjóri ríkisins ekki ástæðu til að vefengja umrædda skuld að fjárhæð 4.657.090 kr. en tók fram að ekki væri heimilt að draga skuld þessa frá skattskyldum tekjum, sbr. III. kafla laga nr. 90/2003.

4. Í máli því, sem hér er til meðferðar, er um að tefla kröfugerð um ákvörðun sektar á hendur gjaldanda samkvæmt þar tilgreindum ákvæðum 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sem gera ráð fyrir því að sektarákvörðun sé bundin þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin. Verður því að taka afstöðu til þess hvort skattrannsóknarstjóri ríkisins hafi með skattrannsókn sinni sýnt fram á hverju skattfjárhæð, sem undan var dregin, hafi að minnsta kosti numið. Allan vafa í því sambandi verður að meta gjaldanda í hag, sbr. grundvallarreglu 108. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála.

Við skýrslutökur, sem fram fóru hjá skattrannsóknarstjóra vegna rannsóknar málsins, kom fram viðurkenning gjaldanda á því að hann hefði ekki gert grein fyrir öllum arðstekjum sínum frá X á árunum 2006, 2007, 2008 og 2009 í skattframtölum árin 2007, 2008, 2009 og 2010. Eins og rakið er að framan eru tölulegar niðurstöður samkvæmt rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins byggðar á yfirlitum frá Landsbanka Luxembourg S.A. og Kaupþing Búnaðarbanka hf., síðar Kaupþing banka hf., um greiðslukorta- og bankaviðskipti gjaldanda. Umrædd yfirlit voru lögð fyrir gjaldanda við skýrslutökur dagana 11. mars 2010 og 2. september 2010. Greindi gjaldandi frá því að úttektir samkvæmt greiðslukorti frá Landsbanka Luxembourg S.A. væru sameiginlegar úttektir gjaldanda og föður hans, sem skiptist milli þeirra til helminga, og að notkun greiðslukortsins hefði verið greidd af erlendum bankareikningi sem arðgreiðslur frá X hefðu verið lagðar inn á. Eins og fyrr segir er gengið út frá því í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins að úttektir að hlut gjaldanda hafi numið alls 5.731.714 kr. á árunum 2006, 2007 og 2008. Gjaldandi staðfesti jafnframt að greiðslur sem millifærðar hefðu verið af hinum erlenda bankareikningi inn á bankareikning hans hjá Kaupþing banka hf., alls 33.200.000 kr. á árunum 2006, 2007, 2008 og 2009, væru vegna arðgreiðslna frá X. Á hinn bóginn kom fram af hálfu gjaldanda að hluti þessara greiðslna tilheyrði í raun föður hans, B. Gjaldandi hefði ekki millifært þær fjárhæðir yfir á föður sinn, en árlega hefði farið fram uppgjör þeirra í millum varðandi greiðslurnar, m.a. vegna útlagðs kostnaðar gjaldanda vegna föður síns. Þessum skýringum gjaldanda hafnaði skattrannsóknarstjóri ríkisins og er miðað við það í niðurstöðum rannsóknarskýrslu að umrædd fjárhæð, samtals 33.200.000 kr. fyrrgreind ár, teljist tekjur gjaldanda.

Við meðferð skattamáls gjaldanda, sem lauk með úrskurði yfirskattanefndar nr. 538/2012, var því út af fyrir sig ekki haldið fram af hans hálfu að umræddar greiðslur samkvæmt millifærslum á bankareikning gjaldanda hjá Kaupþing banka hf. tilheyrðu að einhverju leyti föður gjaldanda, sbr. bréf til ríkisskattstjóra, dags. 15. september 2011, og kæru til yfirskattanefndar, dags. 12. desember 2011. Lutu efnislegar röksemdir gjaldanda aðallega að því að um væri að ræða greiðslur af yfirverðsreikningi innborgaðs hlutafjár í bókum X og því ekki skattskyldar tekjur, þannig að fella bæri tekjufærslu ríkisskattstjóra niður, en að því frágengnu var það viðhorf gjaldanda að um fjármagnstekjur væri að ræða. Með úrskurði yfirskattanefndar nr. 538/2012 var tekin afstaða til fyrrgreindrar viðbáru gjaldanda um skattfrjálsa endurgreiðslu hlutafjár og því hafnað að fella tekjufærslu ríkisskattstjóra niður á þeim grundvelli, enda hefðu engin gögn verið lögð fram af hálfu gjaldanda til stuðnings þessum skýringum. Í bréfi umboðsmanns gjaldanda til yfirskattanefndar, dags. 9. febrúar 2013, er ekkert vikið að framangreindum sjónarmiðum gjaldanda og raunar ekki gerðar tölulegar athugasemdir við kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins í málinu.

Samkvæmt því sem rakið hefur verið verður talið liggja fyrir að gjaldandi hafi ekki gert grein fyrir öllum arðgreiðslum frá X í skattskilum sínum, sbr. einnig niðurstöðu í úrskurði yfirskattanefndar nr. 538/2012 þar sem fjallað var um rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á skattskilum gjaldanda. Verður ekki talið að neitt hafi komið fram sem gefur tilefni til annars en að byggja í máli þessu um sektarákvörðun á hendur gjaldanda á niðurstöðu í skýrslu skattrannsóknarstjóra um fjárhæð úttekta að hlut gjaldanda vegna notkunar greiðslukorts og um fjárhæð millifærslna inn á bankareikning gjaldanda. Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 12. desember 2011, var auk fyrrgreindar kröfugerðar gerð krafa um leiðréttingu á framtöldum arðstekjum í skattframtölum B, föður gjaldanda, með tilliti til úrskurðar í máli gjaldanda. Þessari kröfu gjaldanda var vísað frá yfirskattanefnd með því að enginn kæranlegur úrskurður lægi fyrir nefndinni vegna álagningar opinberra gjalda B. Samkvæmt gögnum málsins námu greiðslur frá X inn á bankareikning B 4.699.700 kr. tekjuárið 2005, 4.979.700 kr. tekjuárið 2006, 6.221.198 kr. tekjuárið 2007 og 2.500.000 kr. tekjuárið 2008. Úttektir samkvæmt greiðslukorti að hlut B námu 1.236.873 kr. tekjuárið 2006, 2.715.587 kr. tekjuárið 2007 og 1.779.254 kr. tekjuárið 2008. Framtaldar arðgreiðslur frá X í skattframtölum B árin 2006, 2007 og 2008 voru 8.750.000 kr. fyrsta árið, 12.600.000 kr. það næsta og 12.600.000 kr. það síðasta, en engar arðstekjur voru tilgreindar frá félaginu í skattframtali B árið 2009. Samkvæmt þessu verður ekki betur séð en að B hafi talið fram arð að fjárhæð 4.050.300 kr. í skattframtali árið 2006, 6.383.427 kr. í skattframtali árið 2007 og 3.663.215 kr. í skattframtali árið 2008 umfram fjárhæðir greiðslna til hans og úttekta. Framburður vitna við skýrslutökur hjá embætti sérstaks saksóknara, sbr. endurrit sem eru meðal framlagðra gagna skattrannsóknarstjóra með kröfugerð til yfirskattanefndar, þykir vera til styrktar skýringum gjaldanda um að þeir feðgar hafi litið svo á að hluti greiðslna inn á bankareikning gjaldanda á árunum 2005, 2006 og 2007 vegna arðs frá X hafi tilheyrt föður hans. Þá þykir framburður samkvæmt þessum skýrslutökum styðja skýringar gjaldanda um lækkun hlutafjár X eða greiðslu af yfirverðsreikningi að fjárhæð 5.000.000 kr. á árinu 2008. Í greinargerð skattrannsóknarstjóra ríkisins til yfirskattanefndar er ekkert fjallað um þýðingu þessa vitnisburðar og er raunar ekkert vikið að umræddum upplýsingum í greinargerðinni. Að athuguðum mun á sönnunaraðstöðu í skattamáli annars vegar og sakamáli hins vegar, sbr. m.a. sjónarmið í H 1998:268, þykir því varhugavert, þrátt fyrir að óumdeilt sé að greiðslur þessar hafi allt að einu runnið til gjaldanda, sbr. og niðurstöðu í úrskurði yfirskattanefndar nr. 538/2012, að taka í máli þessu ekki tillit til fyrrgreindra aðstæðna og skýringa gjaldanda. Samkvæmt þessu lækka fjárhæðir vantalinna tekna samkvæmt kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins um 4.050.300 kr. tekjuárið 2005, 6.383.427 kr. tekjuárið 2006, 3.663.215 kr. tekjuárið 2007 og 5.000.000 kr. tekjuárið 2008.

Samkvæmt því, sem að framan er rakið, gerði gjaldandi ekki grein fyrir skattskyldum tekjum samkvæmt 4. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 9/2003 að fjárhæð 3.424.700 kr. í skattframtali árið 2006, 3.013.446 kr. í skattframtali árið 2007, 4.312.372 kr. í skattframtali árið 2008 og 2.779.254 kr. í skattframtali árið 2009, eða samtals 13.529.772 kr. Er þannig um að ræða ítrekaðar rangfærslur í skattskilum gjaldanda greind ár og vegna samkynja atvika öll árin. Eins og atvikum málsins er háttað samkvæmt framansögðu verður talið að fullnægt sé í tilviki gjaldanda þeim huglægu refsiskilyrðum sem fram koma í 109. gr. laga nr. 90/2003. Hinar röngu upplýsingar í skattframtölum gjaldanda leiddu til lægri álagningar opinberra gjalda hans en vera bar gjaldárin 2006, 2007, 2008 og 2009, þannig að brot gjaldanda varða við 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003. Nánar tiltekið nam vanálagður fjármagnstekjuskattur 342.470 kr. gjaldárið 2006, 301.345 kr. gjaldárið 2007, 431.237 kr. gjaldárið 2008 og 277.925 kr. gjaldárið 2009.

Ákvarða ber gjaldanda, A, sekt samkvæmt framangreindum ákvæðum 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003. Samkvæmt breytingum á refsiákvæðum skattalaga, sem gerðar voru með lögum nr. 42/1995 og tóku gildi 9. mars 1995, skal sekt aldrei vera lægri en sem nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin, þó að teknu tilliti til álags. Við ákvörðun sektar þykir bera að taka tillit til þess að dráttur hefur orðið á meðferð málsins án þess að gjaldanda verði um kennt. Að þessu virtu og málsatvikum að öðru leyti og að teknu tilliti til skatts af álagi samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 þykir sekt gjaldanda hæfilega ákveðin 2.200.000 kr. til ríkissjóðs.

5. Umboðsmaður gjaldanda hefur gert kröfu um að gjaldanda verði úrskurðaður málskostnaður úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum máls þessa þykja ekki vera til staðar lagaskilyrði til þess að ákvarða gjaldanda málskostnað. Kröfu þess efnis er því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Gjaldandi, A, greiði sekt að fjárhæð 2.200.000 kr. til ríkissjóðs. Málskostnaðarkröfu gjaldanda er hafnað.

 

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum