2014

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 45/2014

26.2.2014

Úrskurður nr. 45/2014

ÚRSKURÐUR YFIRSKATTANEFNDAR

Ár 2014, miðvikudaginn 26. febrúar, er tekið fyrir mál nr. 172/2013; krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um að A, kt. [...], verði gerð sekt vegna meintra brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Sverrir Örn Björnsson og Kristinn Gestsson. Upp er kveðinn svofelldur

úrskurður:

I

Með bréfi, dags. 23. apríl 2013, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A, kt. [...], fyrir brot á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og lögum nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, allra með áorðnum breytingum, framin vegna rekstraráranna 2007 og 2008.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

„A er gefið að sök eftirfarandi:

1. Skil á efnislega röngum skattframtölum. Vanframtaldar rekstrartekjur.

A er gefið að sök að hafa, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, staðið skattstjóranum í Reykjavík skil á efnislega röngum skattframtölum gjaldárin 2008 og 2009, vegna rekstraráranna 2007 og 2008, með því að vanrækja að gera grein fyrir rekstrartekjum sínum sem til eru komnar vegna sjálfstæðrar starfsemi A sem fólgin var í málningarvinnu.  

Framangreind háttsemi leiddi til ákvörðunar lægri tekjuskatts- og útsvarsstofna hans en vera bar umrædd gjaldár og þar með til ákvörðunar lægri tekjuskatts og útsvars, svo sem hér segir: 

Reiknaður tekjuskattur og útsvar

 

Rekstrarár

Vanframtalinn tekjuskatts- og útsvarsstofn

 

Tekjuskattur

 

Útsvar

2007 3.513.195                 Vanframtaldar rekstrartekjur kr. 3.516.008 – iðnaðarmálagjald kr. 2.813 (3.516.008*0,08%) = 3.513.195. 413.452                 3.513.195 * 22,75% = 799.252 – persónuafsláttur 385.800 = 413.452. 457.769                 3.513.195 * 13,03% = 457.769.
2008 4.369.301                 Vanframtaldar rekstrartekjur kr. 4.372.799 – iðnaðarmálagjald kr. 3.498 (4.372.799*0,08%) = 4.369.301. 994.016                 4.369.301 * 22,75% = 994.016. 569.320                 4.369.301 * 13,03% = 569.320.
Samtals bæði árin kr. 7.882.496 1.407.468 1.027.089

Sú háttsemi A sem lýst hefur verið hér að framan brýtur í bága við ákvæði 90. gr., sbr. B. lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 22. gr. og 19. gr. og 1. mgr. 21. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, hvorra tveggja með áorðnum breytingum. 

Varðar framanlýst háttsemi A sekt samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga.

2. Vanræksla á tilkynningu um virðisaukaskattsskylda starfsemi. Vanræksla á skilum á virðisaukaskattsskýrslum. Vanframtalin skattskyld velta og útskattur.

A er gefið að sök að hafa, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, vanrækt að tilkynna skattstjóranum í Reykjavík um virðisaukaskattsskylda starfsemi sína, sem fólst í málningarvinnu, og vanrækt að standa skattstjóranum í Reykjavík skil á virðisaukaskattsskýrslum vegna virðisaukaskattsskyldrar starfsemi sinnar, vegna uppgjörstímabilanna mars–apríl til og með nóvember–desember rekstrarárið 2007 og janúar–febrúar til og með september–október rekstrarárið 2008. Nemur vanframtalin skattskyld velta samtals kr. 7.888.807 og vanframtalinn útskattur samtals kr. 1.932.758. Sundurliðast vanframtalin skattskyld velta og virðisaukaskattur svo sem hér greinir:

 

Rekstrarár

 

Uppgjörstímabil

Vanframtalin skattskyld velta Vanframtalinn útskattur
2007 mars – apríl 80.321 19.679
2007 maí – júní 931.727 228.273
2007 júlí – ágúst 771.406 188.994
2007 sept. – okt. 586.987 143.812
2007 nóv. – des. 1.145.567 280.664
Samtals kr.   3.516.008 861.422
2008 jan. – feb. 957.949 234.698
2008 mars – apríl 872.550 213.775
2008 maí – júní 817.650 200.324
2008 júlí – ágúst 769.000 188.405
2008 sept. – okt. 955.650 234.134
Samtals kr.   4.372.799 1.071.336
Samtals bæði árin kr.   7.888.807 1.932.758

Sú háttsemi A sem hér hefur verið lýst brýtur í bága við ákvæði 1. mgr. 5. gr., 1. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 24. gr. sbr. aðalreglur 1. gr., 2. gr., 1. tl. 1. mgr. 3. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. mgr. 13. gr., 1. mgr. 14. gr. og 19. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum. 

Varðar framanlýst háttsemi A sekt samkvæmt 1. og 3. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.

Við endurákvörðun skattstofna vegna rekstraráranna 2007 og 2008 hefur A verið gert að sæta álagningu skatts á álag á vanframtalinn skattstofn skv. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, kr. 589.863 og vegna vangreidds virðisaukaskatts skv. 27. gr. laga nr. 50/1998, um virðisaukaskatt kr. 193.276 er komi til frádráttar við ákvörðun sektarfjárhæðar. 

Þess er krafist að A verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 23. apríl 2013, sem fylgdi kröfugerðinni.

II

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 23. apríl 2013, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef hann vildi ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál hans og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 4. mgr. 110. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 4. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Engar athugasemdir hafa borist frá gjaldanda.

III

1. Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 23. apríl 2013, er gerð sú krafa að gjaldanda, A, verði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, 22. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, og 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Gjaldandi hefur átt þess kost að koma að vörnum fyrir yfirskattanefnd í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins, en engar athugasemdir hafa borist. Þar sem gjaldandi hefur ekki gert athugasemdir við meðferð máls þessa fyrir yfirskattanefnd verður að líta svo á að hann mæli því ekki í gegn að það sæti sektarmeðferð fyrir nefndinni.

2. Sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins í máli þessu er byggð á niðurstöðum rannsóknar embættisins á bókhaldi og skattskilum gjaldanda vegna rekstraráranna 2007 og 2008, sbr. skýrslu um rannsóknina, dags. 13. desember 2011. Rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins hófst formlega hinn 26. maí 2011 og beindist að skattskilum gjaldanda vegna sjálfstæðrar starfsemi hans við húsamálun á rannsóknartímabilinu. Vegna rannsóknarinnar kom gjaldandi til skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins dagana 27. maí 2011, 9. júní 2011 og 28. júní 2011. Þá voru teknar skýrslur af B, C, D, E og F vegna málsins. Var rannsóknin einkum byggð á upplýsingum sem fram komu við skýrslutökur þessar, svo og var byggt á reikningum gefnum út í nafni B á hendur X ehf. og Y ehf. auk annarra gagna. Með bréfi, dags. 14. nóvember 2011, sendi skattrannsóknarstjóri gjaldanda skýrslu um rannsóknina, sem þá lá fyrir, dags. 11. nóvember 2011, og gaf honum kost á að tjá sig um efni hennar. Athugasemdir voru ekki gerðar af hálfu gjaldanda. Í framhaldi af þessu tók skattrannsóknarstjóri ríkisins saman nýja skýrslu um rannsóknina, dags. 13. desember 2011, sem var efnislega samhljóða hinni fyrri að viðbættum kafla um lok rannsóknarinnar.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 13. desember 2011, voru helstu niðurstöður rannsóknarinnar dregnar saman með svofelldum hætti:

„Niðurstöður rannsóknar á bókhaldi og skattskilum skattaðila vegna rekstraráranna 2007 og 2008 eru:

·1  Skattaðili skilaði skattframtölum fyrir gjaldárin 2008 og 2009.

·2  Skattaðila bar að skrá sig á virðisaukaskattsskrá.

·3  Skattaðila bar að gefa út reikninga í eigin nafni.

·4  Skattaðila bar að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum.

·5  Skattskyld velta, útskattur og rekstrartekjur eru vantalin.

·6  Bókhald var ekki fært.

·7  Varðveislu bókhaldsgagna er ábótavant.

·8  Skattaðili hefur ekki afhent gögn um rekstrargjöld eða innskatt.“

Þá gerði skattrannsóknarstjóri ríkisins tölulega grein fyrir niðurstöðum rannsóknarinnar í töflu í niðurlagi skýrslu sinnar. Þar kom fram að skattskyld velta gjaldanda væri vantalin um 4.377.431 kr. rekstrarárið 2007 og um 5.444.136 kr. rekstrarárið 2008.

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins var mál gjaldanda sent ríkisskattstjóra til meðferðar, sbr. 6. mgr. 103. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 2. mgr. 39. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. bréf skattrannsóknarstjóra, dags. 16. desember 2011. Á grundvelli rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins og í framhaldi af bréfi til gjaldanda, dags. 4. janúar 2013, sem gjaldandi svaraði ekki, tók ríkisskattstjóri áður álögð opinber gjöld gjaldanda gjaldárin 2008 og 2009 og virðisaukaskatt árin 2007 og 2008 til endurákvörðunar með úrskurði um endurákvörðun, dags. 13. febrúar 2013. Breytingar ríkisskattstjóra vörðuðu í fyrsta lagi endurákvörðun virðisaukaskatts gjaldanda uppgjörstímabilin mars-apríl, maí-júní, júlí-ágúst, september-október og nóvember-desember 2007 og janúar-febrúar, mars-apríl, maí-júní, júlí-ágúst og september-október 2008. Var skattskyld velta gjaldanda ákvörðuð 3.516.008 kr. rekstrarárið 2007 (útskattur 861.422 kr.) og 4.372.799 kr. rekstrarárið 2008 (útskattur 1.071.336 kr.). Á vangreiddan virðisaukaskatt bætti ríkisskattstjóri álagi samkvæmt 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, að fjárhæð 86.142 kr. fyrra árið og 107.134 kr. seinna árið.  Í öðru lagi endurákvarðaði ríkisskattstjóri tekjuskatt og útsvar gjaldanda gjaldárin 2008 og 2009. Hækkaði tekjuskatts- og útsvarsstofn gjaldanda úr 0 kr. í 3.516.008 kr. gjaldárið 2008 og úr 1.261.192 kr. í 5.633.991 kr. gjaldárið 2009 vegna vanframtalinna tekna gjaldanda. Á vantalda skattstofna gjaldanda bætti ríkisskattstjóri 25% álagi samkvæmt heimild í 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 og nam álag 879.002 kr. fyrra árið og 1.093.200 kr. seinna árið. Gjaldandi nýtti sér ekki heimilaðar málskotsleiðir vegna þessa úrskurðar ríkisskattstjóra.

3. Fram kemur í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 13. desember 2011, að gjaldandi hafi staðið skil á skattframtölum árin 2008 og 2009 vegna tekjuáranna 2007 og 2008, en að bókhald hafi ekki verið fært. Þá kemur fram að gjaldandi hafi ekki verið með opið virðisaukaskattsnúmer á þeim árum sem voru til rannsóknar og því ekki skilað inn virðisaukaskattsskýrslum vegna uppgjörstímabila árin 2007 og 2008. Við skýrslutökur af gjaldanda hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins hafi komið fram að gjaldandi teldi sig ekki hafa verið með sjálfstæðan rekstur heldur í vinnu hjá B. Hann hefði greitt allan virðisaukaskattinn til systur B, F, og hefði hann af þeim sökum ekki verið með opið virðisaukaskattsnúmer og ekki skilað virðisaukaskattsskýrslum.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins er rakið að undir rannsókn málsins hafi 25 reikninga verið aflað sem gefnir hafi verið út í nafni B, en við rannsókn á skattskilum B hefði vaknað upp grunur um að hann hefði verið að selja reikninga bæði til einstaklinga og fyrirtækja. Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins hinn 27. maí 2011 voru lagðir fyrir gjaldanda 14 sölureikningar útgefnir í nafni B á hendur X ehf. að fjárhæð samtals 6.500.767 kr. Þrír sölureikningar að fjárhæð samtals 1.056.631 kr. voru útgefnir árið 2007 og 11 reikningar að fjárhæð 5.444.136 kr. voru útgefnir árið 2008. Sagði gjaldandi að reikningarnir væru vegna vinnu sinnar fyrir X ehf. Hefði B boðist til að gera reikninga fyrir gjaldanda og standa skil á skatti vegna þeirra, en gjaldandi myndi þá greiða lægri skatt. Kvaðst gjaldandi hafa afhent F andvirði virðisaukaskatts samkvæmt reikningunum eða um 24-25% af reikningsupphæð. Sagðist gjaldandi hafa fengið reikninga hjá F eftir þörfum, hann hefði hringt í hana og hitt hana til að nálgast reikninga. Hefðu reikningarnir verið greiddir inn á bankareikning gjaldanda. Við skýrslutöku 28. júní 2011 voru lagðir fyrir gjaldanda 10 reikningar útgefnir í nafni B á hendur Y ehf. að fjárhæð samtals 3.320.800 kr. rekstrarárið 2007. Kvað gjaldandi ferlið hafa verið eins varðandi þá reikninga eins og varðandi reikninga X ehf. og taldi hann sig hafa fengið allt greitt frá G. Sagðist gjaldandi hafa haft þennan háttinn á til að greiða lægri skatta. Er rakið í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins að komið hafi í ljós við rannsókn málsins að gjaldandi hefði ekki talið sig þurfa að gera grein fyrir tekjum vegna reikninganna í framtali sínu vegna þess að hann hefði verið búinn að láta B hafa peninga fyrir skattinum. Sagði gjaldandi við skýrslutökur að það hefði hljómað ágætlega að þurfa ekki að greiða svona háa skatta. Hann hefði ekki litið á sig sem launamann því hann hefði ekki fengið neina launaseðla frá B og þá hefði hann heldur ekki litið á sig sem verktaka því hann hefði ekki verið með virðisaukaskattsnúmer. Hefði hann talið þetta vera í lagi þar sem hann hefði afhent B virðisaukaskattinn.

Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins hinn 11. maí 2011 staðfesti fyrirsvarsmaður X ehf., C, að hann hefði útbúið umboð sem heimilaði gjaldanda að fá greiðslur vegna reikninganna inn á bankareikning sinn og hefði gjaldandi aflað undirritana á umboðið.

B sagði við skýrslutökur dagana 23. mars 2011 og 1. september 2011 að hann hefði ekki málað fyrir X ehf. sjálfur, heldur hefði hann verið með málara á sínum snærum. Aðspurður sagðist B ekki hafa gert reikningana sjálfur, heldur hefði hann afhent þriðja aðila heftið undirritað. Neitaði B að upplýsa hver það hefði verið og hver hefði unnið vinnuna. Sagðist B bera alla ábyrgðina á þessu sjálfur. Aðspurður kvaðst B ekki ætla að draga framburð F í efa og sagðist telja að sá sem gæfi út reikning fengi vaskinn. Staðfesti B að hafa gefið reikningana á Y ehf. út, en neitaði að upplýsa um hver hefði unnið vinnuna.

Við skýrslutöku af F hinn 12. ágúst 2011 staðfesti hún að hafa látið gjaldanda fá reikninga og hefði hún fyllt út alla reikninga B í bókhaldi X ehf. og alla nema reikninga nr. 15 og 37 í bókhaldi Y ehf. Teldi hún sig aðeins hafa tekið við greiðslum frá gjaldanda í tvö eða þrjú skipti vegna virðisaukaskattsins, en hún teldi að gjaldandi hefði afhent B peninginn beint. Neitaði F að hafa fengið greitt fyrir sinn þátt í málinu og sagðist hún hafa verið að hjálpa B sem hefði verið í mikilli neyslu í gegnum árin.

Þá er rakið í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins að komið hafi fram í samtali við G við rannsókn málsins að B hefði ekki komið að ráðningu gjaldanda til hans í vinnu. Einnig bendi framburðir E og D hjá X ehf. til þess að B hafi ekki komið að ráðningu gjaldanda í vinnu hjá því félagi.

Í niðurlagi umfjöllunar skattrannsóknarstjóra ríkisins um rekstrartekjur og skattskylda veltu gjaldanda kemur fram það mat embættisins að gjaldandi hafi innt af hendi þá vinnu sem reikningar gefnir út í nafni B beri með sér. Hafi gjaldandi verið ráðinn til verksins og aðkoma B einvörðungu verið í því skyni að komast hjá greiðslu lögboðinna skatta vegna starfsemi gjaldanda. Ekkert samband hafi verið á milli B og gjaldanda sem bendi til eða hafi gefið gjaldanda ástæðu til að ætla að hann væri launamaður hjá B. Hafi gjaldanda því borið að skrá sig á virðisaukaskattsskrá og gefa út reikninga í eigin nafni vegna þeirrar vinnu sem hann hefði innt af hendi og fengið greitt fyrir. 

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins er sérstaklega fjallað um rannsókn á rekstrargjöldum og innskatti. Er gerð grein fyrir þeim framburði gjaldanda við skýrslutökur af honum að gjaldandi hefði sjálfur lagt til vinnuföt, en ekki útvegað pensla eða málningu. Þá ætti gjaldandi engin gögn um rekstrargjöld, en ef svo væri væru þau hjá bókaranum. Kvaðst gjaldandi ætla að kanna það atriði, en engin gögn um rekstrargjöld eða innskatt bárust skattrannsóknarstjóra ríkisins, eftir því sem fram kemur í skýrslunni.

4. Telja verður að leitt hafi verið í ljós með rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins að gjaldandi hafi haft með höndum sjálfstæða starfsemi við húsamálun á árunum 2007 og 2008, en ekki gert grein fyrir tekjum sínum af þeirri starfsemi í skattframtölum árin 2008 og 2009, svo og að hann hafi ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum og innheimtum virðisaukaskatti vegna seldrar þjónustu á árunum 2007 og 2008. Í máli því, sem hér er til meðferðar, er um að tefla kröfugerð um ákvörðun sektar á hendur gjaldanda samkvæmt þar tilgreindum ákvæðum 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sem gera ráð fyrir því að sektarákvörðun sé bundin þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin. Verður því að taka afstöðu til þess hvort skattrannsóknarstjóri ríkisins hafi með skattrannsókn sinni sýnt fram á hverju skattfjárhæð, sem undan var dregin, hafi að minnsta kosti numið. Allan vafa í því sambandi verður að meta gjaldanda í hag, sbr. grundvallarreglu 108. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála.

Eins og fram er komið byggja tölulegar niðurstöður skattrannsóknarstjóra ríkisins á rekstrartekjum og skattskyldri veltu gjaldanda rekstrarárin 2007 og 2008 á reikningum sem gefnir voru út í nafni B á hendur X ehf. og Y ehf. Á þessum grundvelli er í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins gerð grein fyrir vantöldum rekstrartekjum og vantalinni skattskyldri veltu að fjárhæð 4.377.431 kr. rekstrarárið 2007 og 5.444.136 kr. rekstrarárið 2008, en fjárhæðir þessar virðast fyrir handvömm skattrannsóknarstjóra ríkisins innihalda útskatt og ættu með réttu að vera 3.516.008 kr. rekstrarárið 2007 og 4.372.799 kr. rekstrarárið 2008, sbr. og fjárhæðir í kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins. Skilja verður framburð gjaldanda við skýrslutökur hjá skattrannsóknarstjóra dagana 27. maí 2011, 9. júní 2011 og 28. júní 2011 þannig að af hans hálfu sé viðurkennt að tekjur hans af málningarvinnu hafi numið þeim fjárhæðum sem fyrrgreind gögn bera með sér. Gjaldandi hefur ekki gert athugasemdir í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins. Samkvæmt þessu og að virtum gögnum málsins að öðru leyti þykir ekkert komið fram sem gefur tilefni til annars en að miða við fjárhæðir rekstrartekna og skattskyldrar veltu samkvæmt skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins að teknu tilliti til leiðréttinga vegna misritunar á fjárhæðum. Í skattframtali gjaldanda árið 2008 vegna tekjuársins 2007 voru engar tekjur taldar fram. Í skattframtali árið 2009 vegna tekjuársins 2008 gerði gjaldandi grein fyrir tekjum frá Z hf. að fjárhæð 1.313.744 kr. Samkvæmt þessu gerði gjaldandi ekki grein fyrir umræddum tekjum af sjálfstæðri starfsemi sinni í skattframtölum árin 2008 og 2009. Teljast vantaldar tekjur í skattframtölum kæranda því nema 3.516.008 kr. gjaldárið 2008 og 4.372.799 kr. gjaldárið 2009.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið og að öðru leyti með stoð í gögnum málsins þykir bera að fallast á ályktun skattrannsóknarstjóra ríkisins um að gjaldandi hafi með saknæmum hætti staðið skil á efnislega röngum skattframtölum árin 2008 og 2009 með því að vanrækja að telja fram tekjur af atvinnurekstri sínum eða sjálfstæðri starfsemi með fyrrgreindum fjárhæðum sem skattskyldar voru samkvæmt B-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. og 19. gr. og 21. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga. Hinar röngu upplýsingar í skattframtölum gjaldanda gjaldárin 2008 og 2009 leiddu til lægri álagningar opinberra gjalda hans en vera bar umrædd gjaldár, svo sem greinir í kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins, þannig að brot gjaldanda varða við 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga.

Þá þykir fullsannað með stoð í gögnum málsins að gjaldandi, sem skyldur var til þess að standa skil á virðisaukaskatti, sbr. 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, hafi vanrækt að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum uppgjörstímabilin mars-apríl, maí-júní, júlí-ágúst, september-október og nóvember-desember 2007 og janúar-febrúar, mars-apríl, maí-júní, júlí-ágúst og september-október 2008 og þannig vanrækt að gera grein fyrir virðisaukaskatti til greiðslu samtals að fjárhæð 1.932.758 kr. umrædd uppgjörstímabil, sbr. sundurliðun í kröfubréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins. Þá var leitt í ljós með rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins að gjaldandi vanrækti að tilkynna skattyfirvöldum um virðisaukaskattsskylda starfsemi sína á umræddum árum, þrátt fyrir lagaskyldu samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1988. Varðar þetta gjaldanda sekt samkvæmt 1. og 3. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995, enda verður að telja að huglægum refsiskilyrðum samkvæmt þessum lagaákvæðum sé fullnægt.

Ákvarða ber gjaldanda, A, sekt samkvæmt framangreindum ákvæðum 2. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 og 1. og 3. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995. Samkvæmt breytingum á refsiákvæðum skattalaga, sem gerðar voru með lögum nr. 42/1995 og tóku gildi 9. mars 1995, skal sekt aldrei vera lægri en sem nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin, þó að teknu tilliti til álags. Við ákvörðun sektar ber að taka tillit til skatts af álagi samkvæmt 108. gr. laga nr. 90/2003 svo og álags samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988. Að þessu virtu og málsatvikum að öðru leyti þykir sekt gjaldanda hæfilega ákveðin 6.300.000 kr. til ríkissjóðs og 1.900.000 kr. til borgarsjóðs Reykjavíkur.

Úrskurðarorð:

Gjaldandi, A, greiði sekt að fjárhæð 6.300.000 kr. til ríkissjóðs og 1.900.000 kr. til borgarsjóðs Reykjavíkur.

 

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum