2014

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 255/2014

15.10.2014

 Úrskurður nr. 255/2014

ÚRSKURÐUR YFIRSKATTANEFNDAR

Ár 2014, miðvikudaginn 15. október, er tekið fyrir mál nr. 41/2013; krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um að A,  kt. [...], verði gerð sekt vegna meintra brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Sverrir Örn Björnsson og Kristinn Gestsson. Upp er kveðinn svofelldur

úrskurður:

I.

Með bréfi, dags. 30. janúar 2013, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A,  kt. [...], fyrir brot á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, og lögum nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, beggja með áorðnum breytingum, framin vegna tekjuáranna 2005, 2006, 2007 og 2008.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

„A er gefið að sök eftirfarandi:

Skil á efnislega röngum skattframtölum. Vanframtaldar tekjur.

A er gefið að sök að hafa, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, staðið skattyfirvöldum skil á efnislega röngum skattframtölum, gjaldárin 2006 til og með 2009, vegna tekjuáranna 2005 til og með 2008, með því að vanframtelja tekjur sínar, samtals að fjárhæð kr. 16.702.331.

Leiddi háttsemi A til ákvörðunar lægri tekjuskatts- og útsvarsstofna hennar en vera bar vegna gjaldáranna 2006 til og með 2009, vegna tekjuáranna 2005 til og með 2008 og þar með ákvörðunar lægri tekjuskatts og útsvars, svo sem hér greinir:  

Reiknaður tekjuskattur og útsvar

Tekjuár Vanframtaldar tekjur Tekjuskattur Útsvar
2005 4.091.126 1.012.554          Vanframtaldar tekjur kr. 4.091.126 * 24,75% = 1.012.554. 533.074                 4.091.126 * 13,03% = 533.074.
2006 6.115.145 1.452.347          Vanframtaldar tekjur kr. 6.115.145 * 23,75% = 1.452.347. 796.803                 6.115.145 * 13,03% = 796.803.
2007 3.070.079 698.443              Vanframtaldar tekjur kr. 3.070.079 * 22,75% = 698.443. 400.003                 3.070.079 * 13.03% = 400.031.
2008 3.425.981 779.411              Vanframtaldar tekjur kr. 3.425.981 * 22,75% = 779.411. 446.405                 3.425.981 * 13,03% = 446,405.
Samtals kr. 16.702.331 3.942.755 2.176.285

Sú háttsemi A sem lýst hefur verið hér að framan brýtur í bága við ákvæði 90. gr., sbr. 1. tölul. A. lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 22. gr. og 19. gr. og 1. mgr. 21. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, með áorðnum breytingum.

Varðar framanlýst háttsemi A sekt samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, með áorðnum breytingum.

Þess er krafist að A verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 30. janúar 2013, sem fylgdi kröfugerðinni.

II.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 1. febrúar 2013, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef hún vildi ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál hennar og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 4. mgr. 110. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Með bréfi, dags. 20. mars 2013, hefur umboðsmaður gjaldanda lagt fram vörn í málinu. Er þess krafist af hálfu gjaldanda að sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins verði hafnað. Þá er þess krafist að gjaldanda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði.

Í bréfi umboðsmanns gjaldanda er vísað til þess sem áður hafi komið fram af hálfu gjaldanda í málinu, sbr. bréf til skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 22. desember 2011 og 20. mars 2012, en þar sé að finna rök gjaldanda gegn málatilbúnaði skattrannsóknarstjóra. Fyrir liggi að gjaldandi hafi haft aðgang að aukakorti á greiðslukortareikningi B og hafi aukakortið haft sama númer og aðalkort reikningsins. Að beiðni skattrannsóknarstjóra ríkisins hafi gjaldandi merkt við þær færslur sem stafað hafi frá henni og hún notið góðs af vegna handhafar á umræddu korti. Sé þar um óverulegar fjárhæðir að ræða og myndu í öllum tilvikum falla undir tækifærisgjafir hefðu samsvarandi fjárhæðir verið veittar með beinu fjárframlagi. Þá liggi fyrir að færslur þessar hafi bæði af hálfu gjaldanda og eiganda kortsins verið álitnar lán. Greiði gjaldandi lánið til baka með óreglulegum hætti.

III.

1. Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 30. janúar 2013, er gerð sú krafa að gjaldanda, A, verði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, þar sem hún hafi staðið skil á röngum skattframtölum árin 2006, 2007, 2008 og 2009 með því að vanrækja að telja fram í skattframtölunum skattskyldar gjafir sem henni hafi hlotnast með notkun á erlendu greiðslukorti í eigu B. Gjaldandi hefur lagt fram athugasemdir sínir í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins.

2. Sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins í máli þessu er byggð á niðurstöðum rannsóknar embættisins á skattskilum gjaldanda tekjuárin 2005, 2006, 2007 og 2008, sbr. skýrslu um rannsóknina, dags. 8. febrúar 2012. Rannsókn þessi, sem ákveðin var í framhaldi af ábendingu frá ríkisskattstjóra, hófst formlega hinn 26. nóvember 2009. Vegna rannsóknarinnar kom gjaldandi til skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins hinn 8. mars 2010. Var rannsókn í máli gjaldanda m.a. byggð á upplýsingum sem fram komu við skýrslutöku þessa, svo og var byggt á skattframtölum gjaldanda, kreditkortayfirlitum frá Y hf. og upplýsingum í upplýsingakerfum ríkisskattstjóra. Með bréfi, dags. 1. desember 2011, sendi skattrannsóknarstjóri ríkisins gjaldanda skýrslu embættisins, dags. 30. nóvember 2011, sem þá lá fyrir um rannsóknina, og gaf henni kost á að tjá sig um efni skýrslunnar áður en ákvörðun yrði tekin um framhald málsins. Athugasemdir voru gerðar með bréfi tilnefnds verjanda gjaldanda, dags. 22. desember 2011. Í framhaldi af þessu tók skattrannsóknarstjóri ríkisins saman lokaskýrslu sína um rannsóknina, dags. 8. febrúar 2012, þar sem andmæli tilnefnds verjanda voru rakin, gerð grein fyrir upplýsingaöflun um tiltekið atriði og tekið fram að gerðar hefðu verið breytingar á umfjöllun í tilgreindum köflum í skýrslunni. Að öðru leyti var lokaskýrsla skattrannsóknarstjóra ríkisins um rannsóknina efnislega samhljóða hinni fyrri að viðbættum kafla um lok rannsóknarinnar.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 8. febrúar 2012, voru helstu niðurstöður rannsóknarinnar dregnar saman með svofelldum hætti:

„Niðurstöður rannsóknar á skattskilum skattaðila:

·1  Staðin hafa verið skil á efnislega röngum skattframtölum 2006 til og með 2009 vegna tekjuáranna 2005 til og með 2008.

·2  Skattaðili hafði til afnota erlent greiðslukort á rannsóknartímabilinu.

·3  Engin gögn hafa verið lögð fram til staðfestu því að skattaðili hafi í raun fengið lán frá B.

·4  Með andmælabréfi tilnefnds verjanda skattaðila fylgdu kvittanir úr heimabanka. Ekki verður af þeim kvittunum ráðið hver viðtakandi greiðslnanna er eða tilefni þeirra.

·5  Það er mat skattrannsóknarstjóra að úttektir skattaðila af erlendu greiðslukorti séu tekjur hennar sem falli undir ákvæði 4. tl. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. og upphafsákvæði 7. gr. laganna.“

Samkvæmt tölulegum niðurstöðum skýrslunnar, sem gerð var grein fyrir í töflu í niðurstöðukafla skýrslunnar, voru vantaldar tekjur gjaldanda vegna úttekta af greiðslukorti taldar nema 4.091.126 kr. árið 2005, 6.115.145 kr. árið 2006, 3.070.079 kr. árið 2007 og 3.425.981 kr. árið 2008 eða samtals 16.702.331 kr. öll árin.

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins var mál gjaldanda sent ríkisskattstjóra til meðferðar, sbr. 6. mgr. 103 gr., sbr. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. bréf skattrannsóknarstjóra, dags. 13. febrúar 2012. Í framhaldi af boðunarbréfi ríkisskattstjóra til gjaldanda, dags. 9. nóvember 2012, og að fengnu andmælabréfi umboðsmanns gjaldanda, dags. 18. desember 2012, tók ríkisskattstjóri áður álögð opinber gjöld gjaldanda gjaldárin 2006, 2007, 2008 og 2009 til endurákvörðunar á grundvelli rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins. Samkvæmt úrskurði ríkisskattstjóra var tekjuskatts- og útsvarsstofn gjaldanda hækkaður um 4.091.126 kr. gjaldárið 2006, 6.115.145 kr. gjaldárið 2007, 3.070.079 kr. gjaldárið 2008 og 3.425.981 kr. gjaldárið 2009 að viðbættu 25% álagi samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Nam fjárhæð álags 1.022.782 kr. gjaldárið 2006, 1.528.786 kr. gjaldárið 2007, 767.520 kr. gjaldárið 2008 og 856.495 kr. gjaldárið 2009. Vísaði ríkisskattstjóri til þess að fram væri komið með rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins að gjaldandi hefði haft til afnota erlent greiðslukort (aukakort) sem hún hafði fengið hjá vini sínum, B, sem jafnframt hefði borgað úttekt samkvæmt kortinu, en aukakort gjaldanda og aðalkort B bæru sama númer. Taldi ríkisskattstjóri að í raun væri um að ræða gjafir B til gjaldanda sem skattskyldar væru í hendi gjaldanda samkvæmt 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003. Hafnaði ríkisskattstjóri skýringum gjaldanda þess efnis að um lán væri að ræða frá B.

Úrskurði ríkisskattstjóra var skotið til yfirskattanefndar með kæru umboðsmanns gjaldanda, sem barst nefndinni 18. júní 2013, þar sem þess var krafist að úrskurður ríkisskattstjóra yrði felldur úr gildi og að gjaldanda yrði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði. Var krafa gjaldanda í fyrsta lagi reist á því að úttektir hennar vegna notkunar á aukakorti af greiðslukortareikningi B hefðu numið mun lægri fjárhæðum en skattrannsóknarstjóri ríkisins og ríkisskattstjóri teldu, enda hefði að mestu leyti verið um að ræða úttektir B sjálfs. Í öðru lagi var því haldið fram í kærunni að viðurkenndar úttektir gjaldanda hefðu í raun verið lánveitingar B til gjaldanda sem hún hafi þegar endurgreitt að hluta inn á bankareikning B. Með kæru til yfirskattanefndar fylgdi greinargerð B, dags. 18. mars 2013, þar sem fram kom að hann hafi athugað fyrirliggjandi gögn um kortaúttektir og teldi að hann hefði sjálfur tekið út nánast allar fjárhæðir sem þar kæmu fram. Hann hefði borið úttektir saman við úttektarnótur, sem hann hefði haldið til haga, en kannast við aðrar úttektir án þess að hafa kvittanir handbærar. Gjaldandi hefði nýtt sér kort hans í örfáum tilvikum, svo sem nánar var sundurliðað á fylgiskjölum, en þar væri um lán til hennar að ræða. Tók B fram að hér væri að öðru leyti alfarið um einkaneyslu hans að ræða, þegar hann hefði verið í landi, en að jafnaði hefði hann verið fimm mánuði á hafi en sjö mánuði í landi sem dreifst hefði nokkuð jafnt yfir árið. Með kærunni fylgdi jafnframt ljósrit af greiðslukortakvittunum frá árunum 2005, 2006, 2007 og 2008, m.a. vegna peningaúttekta. Einnig fylgdu með kærunni kvittanir úr heimabanka vegna millifærslna gjaldanda á reikning B hjá X á árunum 2009 og 2010. Vegna kærunnar gerði ríkisskattstjóri þá kröfu fyrir hönd gjaldkrefjenda með bréfi, dags. 19. ágúst 2013, að kærunni yrði vísað til ríkisskattstjóra til uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar, enda hefði gjaldandi lagt fram ný gögn og rökstuðning í málinu. Með úrskurði yfirskattanefndar nr. 48/2014, sem kveðinn var upp 12. mars 2014, var kærunni ásamt meðfylgjandi gögnum vísað til ríkisskattstjóra til meðferðar og uppkvaðningar nýs úrskurðar. Vísaði yfirskattanefnd til þess að kæran væri studd gögnum og skýringum sem ekki hefðu legið fyrir við meðferð málsins á fyrri stigum og ríkisskattstjóri því enga afstöðu tekið til. Að þessu athuguðu og með hliðsjón af þeim lagarökum sem búa að baki 12. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, þætti rétt að senda ríkisskattstjóra kæruna til meðferðar og uppkvaðningar nýs úrskurðar, sbr. og kröfugerð ríkisskattstjóra.

3. Fyrir liggur að gjaldandi hafði a.m.k. frá árinu 2006 afnot af erlendu greiðslukorti, útgefnu af X, á greiðslukortareikning B. Var um að ræða aukakort á reikning B sem sjálfur hafði greiðslukort (aðalkort) á sama reikning. Var sama númer á greiðslukortunum og mun ekki hafa verið unnt að greina á milli úttekta samkvæmt þeim. Úttektir hér á landi með greiðslukortunum á því tímabili sem rannsóknin tók til námu samtals 17.409.322 kr., þ.e. 4.703.265 kr. á árinu 2005, 6.190.546 kr. á árinu 2006, 3.075.736 kr. á árinu 2007 og 3.439.775 kr. á árinu 2008. Þar af taldi skattrannsóknarstjóri ríkisins að samtals 706.991 kr. væru úttektir B á umræddum árum hér á landi, en að öðru leyti byggði skattrannsóknarstjóri ríkisins á því að úttektir hefðu tilheyrt gjaldanda, þ.e. 4.091.126 kr. á árinu 2005, 6.115.145 kr. á árinu 2006, 3.070.079 kr. á árinu 2007 og 3.425.981 kr. á árinu 2008.

Við skýrslutöku af gjaldanda, sem fram fór hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 8. mars 2010, greindi hún frá því að þau B væru vinir og að B, sem væri sjómaður á þýskum skipum, hefði verið heima hjá gjaldanda ef hann væri á landinu. Kvaðst gjaldandi ekki telja að þau hefðu verið í sambúð. Eins og rakið er hér að framan var byggt á því í kæru til yfirskattanefndar, mótt. 18. júní 2013, að í fyrsta lagi hefðu úttektir gjaldanda numið mun lægri fjárhæðum en skattrannsóknarstjóri ríkisins og ríkisskattstjóri teldu, enda hefði að mestu leyti verið um að ræða úttektir B sjálfs, og í öðru lagi var því haldið fram í kærunni að viðurkenndar úttektir gjaldanda hefðu í raun verið lánveitingar B til gjaldanda sem hún hafi þegar endurgreitt að hluta inn á bankareikning B. Voru þetta í grundvallaratriðum sömu viðbárur og komu fram af hálfu gjaldanda hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins og við meðferð máls hennar hjá ríkisskattstjóra. Fram kemur í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins að haft hafi verið samband símleiðis við B og hafi hann ætlað að láta embættinu í té gögn um skattgreiðslur sínar erlendis, en engin gögn hefðu borist frá honum. Á hinn bóginn staðfesti B með tölvupósti til skattrannsóknarstjóra ríkisins 8. júní 2010 að hafa veitt gjaldanda lán með þeim hætti að hún hefði haft aukakort af reikningi hans og að gjaldandi hefði endurgreitt lánið að hluta. Frekari skýringar eða gögn frá B varðandi notkun greiðslukorta sem í málinu greinir komu ekki fram við rannsókn málsins. Með kæru til yfirskattanefndar fylgdi á hinn bóginn greinargerð B, dags. 18. mars 2013, svo sem áður segir, þar sem fram kemur að hann telji að athuguðu máli að hann hafi sjálfur tekið út nánast allar fjárhæðir sem komi fram í fyrirliggjandi gögnum um kortaúttektir. Í örfáum tilvikum, sem nánar eru tilgreind, hafi gjaldandi nýtt sér kort hans. Beri að telja þær fjárhæðir sem lán til gjaldanda. Að öðru leyti kemur fram í greinargerð B að hér sé alfarið um einkaneyslu hans að ræða, þegar hann hafi verið í landi, en að jafnaði hafi hann verið fimm mánuði á hafi en sjö mánuði í landi sem dreifst hafi nokkuð jafnt yfir árið. Með kærunni fylgdu frekari gögn, m.a. ljósrit af greiðslukortakvittunum frá árunum 2005, 2006, 2007 og 2008 vegna peningaúttekta, auk kvittana úr heimabanka vegna millifærslna gjaldanda á reikning B hjá X á árunum 2009 og 2010. Til þessara skýringa gjaldanda og B er vísað í bréfi umboðsmanns gjaldanda til yfirskattanefndar, dags. 20. mars 2013.

Eins og fram er komið skattlagði ríkisskattstjóri umræddar fjárhæðir hjá gjaldanda á þeim grundvelli að um skattskyldar gjafir væri að ræða til hennar frá B, sbr. 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Vegna framangreindra skýringa og gagna með kæru til yfirskattanefndar taldi ríkisskattstjóri ástæðu til þeirrar kröfugerðar að máli gjaldanda yrði vísað að nýju til embættisins til nýrrar meðferðar, sbr. úrskurð yfirskattanefndar nr. 48/2014 þar sem sú varð niðurstaðan. Ekki verður ráðið af tiltækum gögnum að ríkisskattstjóri hafi tekið mál gjaldanda til meðferðar að nýju.

Eins og mál gjaldanda liggur fyrir samkvæmt framansögðu og að virtum gögnum málsins, þar á meðal gögnum sem fylgdu kæru til yfirskattanefndar, þykja vera þau vafaatriði í máli þessu að varhugavert sé að byggja á niðurstöðum í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins um vantaldar skattskyldar tekjur gjaldanda gjaldárin 2006, 2007, 2008 og 2009. Samkvæmt þessu verður ekki talið að sýnt hafi verið fram á grundvöll fyrir ákvörðun sektar á hendur gjaldanda samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er því hafnað.

Umboðsmaður gjaldanda hefur gert kröfu um að gjaldanda verði úrskurðaður málskostnaður úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins þykir bera að úrskurða gjaldanda málskostnað á grundvelli þessa lagaákvæðis. Af hálfu gjaldanda hafa hvorki verið lagðir fram reikningar um útlagðan kostnað hennar vegna meðferðar málsins né með öðrum hætti gerð grein fyrir slíkum kostnaði, en ætla verður þó að um slíkan kostnað hafi verið að ræða. Við ákvörðun málskostnaðar verður einungis litið til kostnaðar sem ætla má að varði sérstaklega það mál gjaldanda sem hér er til umfjöllunar fyrir yfirskattanefnd. Með vísan til framanritaðs og lagaskilyrða fyrir greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði þykir málskostnaður hæfilega ákveðinn 40.000 kr.

Úrskurðarorð:

Gjaldanda, A, verður ekki gerð sekt í máli þessu. Málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði ákvarðast 40.000 kr.

 

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum