2015

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 156/2015

20.5.2015

Úrskurður nr. 156/2015

ÚRSKURÐUR YFIRSKATTANEFNDAR

Ár 2015, miðvikudaginn 20. maí, er tekið fyrir mál nr. 292/2014; krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um að A, kt. [...], verði gerð sekt vegna meintra brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

úrskurður:

I.

Með bréfi, dags. 20. nóvember 2014, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A, kt. [...], fyrir brot á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum, framin vegna rekstraráranna 2009 til og með 2012.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

A er gefið að sök eftirfarandi:

Vanræksla á skilum á virðisaukaskattsskýrslum. Vanframtalin skattskyld velta og útskattur.

A er gefið að sök, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, að hafa vanrækt að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum til skattyfirvalda vegna allra uppgjörstímabila rekstrarárin 2009 til og með 2012 og vanframtelja með því skattskylda veltu og útskatt vegna sjálfstæðrar starfsemi hans, sem fólst í akstri sendibíls. Samkvæmt rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins nemur vanframtalin skattskyld velta samtals kr. 24.203.869 og vanframtalinn útskattur samtals kr. 6.142.055. Mögulegur innskattur nemur samtals kr. 1.152.322.

Sundurliðast vanframtalin skattskyld velta og virðisaukaskattur svo sem hér greinir: 

Rekstrarár Uppgjörstímabil Vanframtalin skattskyld velta, kr. Vanframtalinn útskattur, kr. Innskattur, kr.
2009 jan. - feb. 319.718 78.331 69.066
2009 mars - apríl 435.985 106.816 92.772
2009 maí - júní 434.522 106.458 41.005
2009 júlí - ágúst 644.096 157.804 68.720
2009 sept. - okt. 638.811 156.509 20.529
2009 nóv. - des. 520.402 127.498 22.793
Samtals kr.   2.993.534 733.416 314.885
2010 jan. - feb. 790.064 201.466 20.418
2010 mars - apríl 754.520 192.405 29.410
2010 maí - júní 880.744 224.589 19.592
2010 júlí - ágúst 1.040.489 265.325 45.549
2010 sept. - okt. 1.186.898 302.659 25.847
2010 nóv. - des. 855.131 218.060 13.058
Samtals kr.   5.507.846 1.404.504 153.874
2011 jan. - feb. 576.055 146.894 18.283
2011 mars - apríl 942.757 240.403 34.275
2011 maí - júní 1.050.335 267.836 52.979
2011 júlí - ágúst 2.287.089 583.208 244.315
2011 sept. - okt. 860.503 219.428 51.168
2011 nóv. - des. 985.092 251.198 33.427
Samtals kr.   6.701.831 1.708.967 434.447
2012 jan. - feb. 986.653 251.597 61.838
2012 mars - apríl 1.163.426 296.674 36.523
2012 maí - júní 1.739.761 443.639 25.305
2012 júlí - ágúst 2.279.947 581.386 54.856
2012 sept. - okt. 239.203 60.997 50.646
2012 nóv. - des. 2.591.668 660.875 19.948
Samtals kr.   9.000.658 2.295.168 249.116
Samtals öll árin kr. 24.203.869 6.142.055 1.152.322

Sú háttsemi A sem hér hefur verið lýst brýtur í bága við ákvæði 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr., sbr. aðalreglur 1. gr., 2. gr., 1. tl. 1. mgr. 3. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. mgr. 13. gr., 1. mgr. 14. gr. og 19. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.

Varðar framanlýst háttsemi A sekt samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.

Þess er krafist að A verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 20. nóvember 2014, sem fylgdi kröfugerðinni.

II.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 21. nóvember 2014, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef hann vildi ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál hans og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 4. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Engar athugasemdir hafa borist frá gjaldanda.

III.

1. Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 20. nóvember 2014, er gerð sú krafa að gjaldanda, A, verði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Gjaldandi hefur átt þess kost að koma að vörnum fyrir yfirskattanefnd í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins, en engar athugasemdir hafa borist. Þar sem gjaldandi hefur ekki gert athugasemdir við meðferð máls þessa fyrir yfirskattanefnd verður að líta svo á að hann mæli því ekki í gegn að það sæti sektarmeðferð fyrir nefndinni.

2. Sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins í máli þessu er byggð á niðurstöðum rannsóknar embættisins á bókhaldi og virðisaukaskattsskilum gjaldanda vegna rekstraráranna 2009 til og með 2012, sbr. skýrslu um rannsóknina, dags. 27. júní 2014, þar sem fram kom að á rannsóknartímabilinu hefði gjaldandi starfað sjálfstætt við akstur sendibíls. Rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins hófst formlega hinn 11. nóvember 2013. Var rannsóknin einkum byggð á upplýsingum sem fram komu við skýrslutöku af gjaldanda 12. mars 2014, upplýsingum sem fram komu við skýrslutöku af B 10. mars 2014, sölureikningum og gjaldagögnum gjaldanda, upplýsingum frá ríkisskattstjóra og upplýsingum úr upplýsingakerfum ríkisskattstjóra. Með bréfi, dags. 16. maí 2014, sendi skattrannsóknarstjóri gjaldanda skýrslu um rannsóknina sem þá lá fyrir, dags. 15. maí 2014, og gaf honum kost á að tjá sig um efni hennar. Athugasemdir voru ekki gerðar af hálfu gjaldanda. Í framhaldi af þessu tók skattrannsóknarstjóri ríkisins saman nýja skýrslu um rannsóknina, dags. 27. júní 2014, sem var efnislega samhljóða hinni fyrri að viðbættum kafla um lok rannsóknarinnar.

Fram kemur í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 27. júní 2014, að gjaldandi hafi ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum vegna allra uppgjörstímabila áranna 2009, 2010, 2011 og 2012. Er í þessu sambandi rakinn sá framburður gjaldanda við skýrslutöku 12. mars 2014 að hann hefði talið að skýrslurnar væru í skilum, en að sambýliskona hans hefði séð um fjármálahlið rekstrarins. Þá kemur fram að við skýrslutöku af sambýliskonu gjaldanda, B, hinn 10. mars 2014, hafi B ekki getað skýrt hvers vegna ekki hefði verið staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum. Jafnframt kemur fram í skýrslunni að virðisaukaskattsnúmeri gjaldanda hafi verið lokað 30. júní 2011. Sé fyrirliggjandi að gjaldandi hafi gefið út sölureikninga á númerabilinu 576-954, en sölureikninga nr. 830, 851-875 og 923 vanti til að söluröð geti talist samfelld. Við skýrslutökuna 12. mars 2014 voru fyrirliggjandi sölureikningar gjaldanda rekstrarárin 2009, 2010, 2011 og 2012 lagðir fyrir hann og staðfesti gjaldandi að þeir væru vegna sjálfstæðrar starfsemi hans og að hann hefði gefið þá út. Taldi gjaldandi að hann hefði fengið alla sölureikningana greidda að fullu. Við skýrslutöku af B kom það sama fram, en hún sagði að þau hefðu einu sinni þurft að fara með einn reikning í innheimtu án þess þó að hún myndi hvort það hefði verið á rannsóknartímabilinu. Við fyrrnefnda skýrslutöku af gjaldanda var lagður fyrir hann launamiði vegna launa 2012, gefinn út af X ehf. að fjárhæð 15.000 kr., en gjaldandi hafi ekki kannast við að hafa unnið fyrir félagið. Er tekið fram í skýrslunni að þann 23. apríl 2014 hafi B afhent sölureikning nr. 836 vegna viðskiptanna og að í tölvupósti frá bókara X ehf. hafi komið fram að reikningurinn sé bókaður sem greiddur. Sé umræddur sölureikningur/launamiði því hluti af niðurstöðum skýrslunnar. Þá er tekið fram að fullnægjandi skýringar hafi fengist á innborgunum inn á bankareikning skattaðila og telji skattrannsóknarstjóri ríkisins ekki ástæðu til að leggja mat á ætlaðan undandrátt vegna vöntunar sölureikninga, en komið hafi fram af hálfu gjaldanda að hugsanlega hafi eitt reikningshefti ekki verið notað. Við skýrslutökuna sagðist gjaldandi ekki hafa hugmynd um hvernig innheimtum virðisaukaskatti hefði verið ráðstafað. Sagði B aðspurð við sama tilefni að það hefði alltaf átt að stofna sér reikning vegna virðisaukaskattsins, en að innheimtur virðisaukaskattur hefði bara farið inn á bankareikninginn og þaðan út í rekstur heimilisins. Var það niðurstaða rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins að skattskyld velta hefði verið vantalin í tilviki gjaldanda um 2.993.534 kr. rekstrarárið 2009 (útskattur 733.416 kr.), 5.507.846 kr. rekstrarárið 2010 (útskattur 1.404.504 kr.), 6.701.831 kr. rekstrarárið 2011 (útskattur 1.708.967 kr.) og um 9.000.658 kr. rekstrarárið 2012 (útskattur 2.295.168 kr.).

Í kafla um rannsókn á innskatti gjaldanda er greint frá því að gjaldandi hafi afhent skattrannsóknarstjóra ríkisins fjórar fylgiskjalamöppur með gjaldagögnum vegna rekstraráranna 2009 til og með 2012. Er rakinn sá framburður sambýliskonu gjaldanda, B, að gjaldandi hafi mögulega haft frekari kostnað vegna vinnubifreiðar sem hann hefði notað, en bifreiðin hefði verið skráð á föður gjaldanda. Tekið er fram að engin frekari gögn hafi verið afhent embætti skattrannsóknarstjóra ríkisins vegna umræddrar bifreiðar. Þá er rakið að við skýrslutökur hafi verið lögð fyrir gjaldanda og B gögn sem afhent hefðu verið vegna símakostnaðar. Var þar um að ræða gögn vegna símanúmers gjaldanda, símanúmers vegna posa gjaldanda, símanúmers vegna 3G-nets sem gjaldandi kvaðst hafa verið með vegna vinnu sinnar og símanúmers B. Kvaðst B hafa notað eigin síma talsvert vegna rekstrar gjaldanda og staðfesti gjaldandi þetta við skýrslutöku. Sagði gjaldandi að gróft reiknað gæti notkun hennar verið um 70% og er miðað við það hlutfall í niðurstöðum skattrannsóknarstjóra ríkisins. Var það niðurstaða skattrannsóknarstjóra ríkisins að mögulegur innskattur gjaldanda næmi samkvæmt þessu 314.885 kr. rekstrarárið 2009, 153.874 kr. rekstrarárið 2010, 434.447 kr. rekstrarárið 2011 og 249.116 kr. rekstrarárið 2012.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 27. júní 2014, eru helstu niðurstöður rannsóknarinnar dregnar saman með svofelldum hætti:

„Niðurstöður rannsóknar á bókhaldi og virðisaukaskattsskilum skattaðila eru:

·    Ekki hafa verið staðin skil á virðisaukaskattsskýrslum vegna rekstraráranna 2009 til og með 2012.

·    Virðisaukaskattsnúmeri skattaðila var lokað 30. júní 2011.

·    Skattskyld velta er vantalin.

·    Útskattur er vantalinn.“

Þá er gerð töluleg grein fyrir niðurstöðum rannsóknarinnar í töflu í niðurlagi skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins. Þar kemur fram að skattskyld velta gjaldanda sé vantalin um 2.993.534 kr. rekstrarárið 2009, 5.507.846 kr. rekstrarárið 2010, 6.701.831 kr. rekstrarárið 2011 og um 9.000.658 kr. rekstrarárið 2012. Þá sé útskattur vantalinn um samtals 6.142.055 kr. greind ár, en mögulegur innskattur nemi 1.152.322 kr.

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins var mál gjaldanda sent ríkisskattstjóra til meðferðar, sbr. 2. mgr. 39. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. bréf skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 30. júní 2014. Á grundvelli rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins og í framhaldi af bréfi til gjaldanda, dags. 19. ágúst 2014, sem gjaldandi svaraði ekki, endurákvarðaði ríkisskattstjóri með úrskurði, dags. 10. september 2014, virðisaukaskatt gjaldanda árin 2009, 2010, 2011 og 2012. Samkvæmt úrskurðinum var skattskyld velta ákvörðuð 2.993.534 kr. rekstrarárið 2009, 5.507.846 kr. rekstrarárið 2010, 6.701.831 kr. rekstrarárið 2011 og 9.000.658 kr. rekstrarárið 2012 og hækkaði um 9.203.869 kr. frá áætlun ríkisskattstjóra. Útskattur gjaldanda varð samkvæmt þessu samtals 6.142.055 kr. og hækkaði um 2.377.055 kr. frá áætlun ríkisskattstjóra. Nam innskattur gjaldanda 1.152.322 kr. samkvæmt úrskurðinum. Kom fram að fjárhæðirnar væru í samræmi við niðurstöður skattrannsóknarstjóra ríkisins. Þá ákvarðaði ríkisskattstjóri gjaldanda álag samkvæmt 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988. Gjaldandi nýtti sér ekki heimilaðar málskotsleiðir vegna þessa úrskurðar ríkisskattstjóra.

3. Telja verður að leitt hafi verið í ljós með rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins að gjaldandi hafi haft með höndum sjálfstæða starfsemi við akstur sendibifreiðar á árunum 2009 til og með 2012, en ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum og innheimtum virðisaukaskatti vegna seldrar þjónustu umrædd ár. Í máli þessu er um að tefla kröfugerð um ákvörðun sektar á hendur gjaldanda samkvæmt þar tilgreindum ákvæðum 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sem gera ráð fyrir því að sektarákvörðun sé bundin þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin. Verður því að taka afstöðu til þess hvort skattrannsóknarstjóri ríkisins hafi með skattrannsókn sinni sýnt fram á hverju skattfjárhæð, sem undan var dregin, hafi að minnsta kosti numið. Allan vafa í því sambandi verður að meta gjaldanda í hag, sbr. grundvallarreglu 108. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála.

Eins og rakið er að framan eru tölulegar niðurstöður samkvæmt rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á skattskilum gjaldanda vegna áranna 2009, 2010, 2011 og 2012 byggðar á útgefnum sölureikningum gjaldanda. Á þessum grundvelli er í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins gerð grein fyrir meintri vantalinni skattskyldri veltu að fjárhæð 2.993.534 kr. rekstrarárið 2009, 5.507.846 kr. rekstrarárið 2010, 6.701.831 kr. rekstrarárið 2011 og 9.000.658 kr. rekstrarárið 2012. Af hálfu gjaldanda, A, hefur ekki verið vefengt að tekjur hans hafi numið þeim fjárhæðum sem sölureikningar þessir bera með sér. Samkvæmt þessu og að virtum gögnum málsins þykir ekkert komið fram sem gefur tilefni til annars en að miða við þær fjárhæðir innheimts virðisaukaskatts sem gögn málsins bera með sér. Af hálfu gjaldanda hefur ekkert komið fram um frekari tilefni til frádráttar innskatts en samkvæmt rannsókn skattrannsóknarstjóra. Verður því byggt á niðurstöðum rannsóknarskýrslu um þann þátt málsins.

Fullsannað þykir samkvæmt því sem að framan er rakið og að öðru leyti með stoð í gögnum málsins, m.a. framburði gjaldanda við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins, að gjaldandi, sem skyldur var til þess að standa skil á virðisaukaskatti, sbr. 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988, hafi á saknæman hátt vanrækt að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum öll uppgjörstímabil áranna 2009, 2010, 2011 og 2012 og þannig vanrækt að gera grein fyrir virðisaukaskatti til greiðslu samtals að fjárhæð 4.989.733 kr. umrædd uppgjörstímabil, sbr. sundurliðun í kröfubréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins. Varðar þetta gjaldanda sekt samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995.

Ákvarða ber gjaldanda, A, sekt samkvæmt framangreindum ákvæðum 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995, vegna vanrækslu á skilum virðisaukaskatts og virðisaukaskattsskýrslna sem að framan greinir. Samkvæmt breytingum á refsiákvæðum skattalaga, sem gerðar voru með lögum nr. 42/1995 og tóku gildi 9. mars 1995, skal sekt aldrei vera lægri en sem nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin, þó að teknu tilliti til álags. Að teknu tilliti til álags samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 þykir sekt gjaldanda hæfilega ákveðin 9.500.000 kr. til ríkissjóðs.

Úrskurðarorð:

Gjaldandi, A, greiði sekt að fjárhæð 9.500.000 kr. til ríkissjóðs. 

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum