2015

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 217/2015

8.7.2015

Úrskurður nr. 217/2015

ÚRSKURÐUR YFIRSKATTANEFNDAR

Ár 2015, miðvikudaginn 8. júlí, er tekið fyrir mál nr. 315/2014; krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um að A, kt. [...], verði gerð sekt vegna meintra brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

úrskurður:

I.

Með bréfi, dags. 2. desember 2014, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A, kt. [...], fyrir brot á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, og lögum nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, bæði með áorðnum breytingum, framin vegna tekjuársins 2007.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

„A er gefið að sök eftirfarandi:

Skil á efnislega röngu skattframtali. Vanframtaldar tekjur.

A er gefið að sök að hafa, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, staðið skattyfirvöldum skil á efnislega röngu skattframtali, gjaldárið 2008, vegna tekjuársins 2007, með því að vanframtelja tekjur sínar, samtals að fjárhæð kr. 4.812.952, sem til eru komnar vegna greiðslna frá X.

Leiddi háttsemi A til ákvörðunar lægri tekjuskatts- og útsvarsstofns hans en vera bar vegna tekjuársins 2007 og þar með ákvörðunar lægri tekjuskatts og útsvars, svo sem hér greinir:  

Reiknaður tekjuskattur og útsvar

Tekjuár Vanframtaldar tekjur Tekjuskattur Útsvar
2007 4.812.952 1.094.947   Vanframtaldar tekjur kr. 4.812.952 * 22,75% = 1.094.946. 627.128   4.812.952 * 13,03 % = 627.128.
Samtals kr. 4.812.952 1.094.947 627.128

Sú háttsemi A sem lýst hefur verið hér að framan brýtur í bága við ákvæði 90. gr., sbr. 1. tölul. A. lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 22. gr. og 19. gr. og 1. mgr. 21. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, beggja með áorðnum breytingum.

Varðar framanlýst háttsemi A sekt samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, beggja með áorðnum breytingum.

Við endurákvörðun ríkisskattstjóra á stofni A til tekjuskatts og útsvars gjaldárið 2008, sem framkvæmd var með úrskurði, dags. 13. nóvember 2013, hefur A verið gert að sæta álagningu skatts á álag á vanframtalinn skattstofn samkvæmt 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með áorðnum breytingum, kr. 430.519, er komi til frádráttar við ákvörðun sektarfjárhæðar.

Þess er krafist að A verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 2. desember 2014, sem fylgdi kröfugerðinni.

II.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 9. desember 2014, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef hann vildi ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál hans og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 4. mgr. 110. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Með bréfi, dags. 11. febrúar 2015, hefur umboðsmaður gjaldanda lagt fram vörn í máli þessu. Þar er þess aðallega krafist að sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins verði vísað frá yfirskattanefnd, en til vara er þess krafist að gjaldanda verði ekki gerð sekt. Þá er gerð krafa um að málskostnaður gjaldanda verði greiddur úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.

Í bréfi umboðsmanns gjaldanda eru málavextir raktir. Aðalkrafa gjaldanda um frávísun sektarkröfunnar er í fyrsta lagi byggð á því að óhæfilegur dráttur hafi orðið á meðferð málsins og vísar umboðsmaður gjaldanda í þessu sambandi til 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, málshraðareglu 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og reglu 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, sbr. og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, um réttláta málsmeðferð fyrir dómi, sbr. lög nr. 62/1994, um mannréttindasáttmála Evrópu. Hafi rannsókn á skattskilum gjaldanda hafist 14. desember 2012 og lokið 24. september 2013. Það sé síðan ekki fyrr en rúmum 14 mánuðum eftir lok rannsóknarinnar sem farið sé fram á sekt í málinu. Í öðru lagi byggir aðalkrafa gjaldanda á því að ekki verði gerð sekt tvisvar vegna sömu brota, sbr. m.a. 4. gr. 7. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. og lög nr. 62/1994, en gjaldanda hafi þegar verið refsað fyrir skattalagabrot með ákvörðun ríkisskattstjóra um að gera honum 25% álag á endurákvarðaða skatta. Í þriðja lagi byggir aðalkrafa á því að kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins sé áfátt. Sé vantalinn skattstofn ekki rökstuddur sérstaklega heldur tekinn beint upp úr úrskurði ríkisskattstjóra um endurákvörðun frá 13. nóvember 2013, en ekki sé tekið tillit til ýmissa þátta sem leiða eigi til lækkunar þessarar fjárhæðar. Þannig hafi gjaldandi aðeins fengið framtalin laun greidd að hluta, þ.e. að framtalin laun á skattframtali 2008 frá Z ehf. hafi numið 4.446.723 kr. en gjaldandi hafi aðeins fengið 2.447.242 kr. greiddar frá félaginu, en þar af hafi 1.321.582 kr. verið greiðsla vegna útlagðs kostnaðar vegna ferðalaga gjaldanda á vegum Y hf. Hafi gjaldandi ákveðið að kæra ekki úrskurð ríkisskattstjóra um endurákvörðun þar sem hann hafi ekki getað lagt fram reikninga máli sínu til stuðnings því langt hafi verið um liðið frá atvikum málsins. Skattrannsóknarstjóri ríkisins eigi að hafa aðgang að slíkum gögnum sem stutt geti mál gjaldanda, en hann hafi í engu fjallað um þetta atriði í kröfugerð sinni.

Til stuðnings varakröfu um að gjaldanda verði ekki gerð sekt í málinu er byggt á því að háttsemi gjaldanda við framtalsgerð gjaldárið 2008 verði ekki jafnað til ásetnings eða stórkostlegs hirðuleysis samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003. Hafi gjaldandi talið að sú fjárhæð sem hann hafi fengið væri greiðsla á níu mánaða uppsagnarfresti hans hjá Y hf. og að réttilega hefði verið haldið eftir staðgreiðslu af þeirri greiðslu eins og átt hafi við um fyrri launagreiðslur. Ráðningarsamningur hafi verið munnlegur og hafi gjaldandi því verið óviss um rétt sinn samkvæmt samningnum, en sá starfssamningur sem getið er í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, sbr. fskj. 10.4-10.6 með skýrslu skattrannsóknarstjóra, gilti aðeins frá 27. desember 2005 til 31. mars 2006 og hafi gjaldandi aldrei fengið að sjá þann samning sem honum hafi verið kynntur af skattrannsóknarstjóra. Hafi gjaldandi ekki haft neinn ásetning til að leyna þeim greiðslum  sem hann fékk 9. maí og 27. ágúst 2007 en hann hafi talið greiðslurnar vera forskráðar [á skattframtal] eins og gilt hafi um önnur laun hans. Hafi einfaldlega verið um yfirsjón að ræða af hálfu gjaldanda. Þá beri að líta til þess að gjaldandi hafi verið samvinnuþýður við rannsókn málsins. Fjárhæðir í málinu séu ekki það háar, en um sé að ræða tvær innborganir frá X, þ.e. annars vegar innborgun 9. maí 2007 að fjárhæð 1.321.582 kr. sem hafi verið vegna dagpeninga og ferðakostnaðar, og hins vegar innborgun 27. ágúst 2007 að fjárhæð 3.491.952 kr. sem hafi verið vegna launa í uppsagnarfresti, enda ljóst að Y hf. hafi afþakkað vinnuframlag starfsmanna eftir að reksturinn var seldur úr félaginu.

Til stuðnings málskostnaðarkröfu vísar umboðsmaður gjaldanda til þess að gjaldandi hafi þurft að leggja út í kostnað til þess að verjast málatilbúnaði skattrannsóknarstjóra ríkisins og boðar umboðsmaður að upplýsingar um málskostnað verði sendar á síðari stigum málsins. 

Með bréfi umboðsmanns gjaldanda til yfirskattanefndar fylgir afrit af flugmiða, útgefnum á nafn gjaldanda, frá Íslandi til R 16. maí 2007 og frá R til Íslands 21. maí 2007.

III.

1. Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 2. desember 2014, er gerð sú krafa að gjaldanda, A, verði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og lögum nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, þar sem hann hafi staðið skil á röngu skattframtali árið 2008 með því að vanrækja að telja fram í skattframtalinu tekjur frá X tekjuárið 2007. Gjaldandi hefur lagt fram athugasemdir sínar í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins.

2. Sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins í máli þessu er byggð á niðurstöðum rannsóknar embættisins á skattskilum gjaldanda vegna tekjuáranna 2006 og 2007, sbr. skýrslu um rannsóknina, dags. 24. september 2013. Rannsókn þessi hófst formlega hinn 14. desember 2012. Vegna rannsóknarinnar kom gjaldandi til skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins hinn 26. mars 2013, en skýrslur voru einnig teknar af B hinn 5. apríl 2013 og C hinn 16. apríl 2013 vegna málsins. Var rannsókn í máli gjaldanda einkum byggð á upplýsingum sem fram komu við skýrslutökur þessar, auk þess sem byggt var á skattframtölum gjaldanda, bankareikningum gjaldanda, gögnum frá W hf. (áður Y hf.) og upplýsingum úr upplýsingakerfum skattyfirvalda. Með bréfi, dags. 30. ágúst 2013, sendi skattrannsóknarstjóri gjaldanda skýrslu um rannsóknina, dags. sama dag, sem þá lá fyrir, og gaf honum kost á að tjá sig um efni hennar. Með bréfi, dags. 13. september 2013, lagði verjandi gjaldanda fram athugasemdir við skýrsluna. Í framhaldi af þessu tók skattrannsóknarstjóri ríkisins saman lokaskýrslu sína um rannsókn á máli gjaldanda, dags. 24. september 2013, þar sem andmæli tilnefnds verjanda voru rakin og tekið fram að gerðar hefðu verið breytingar á umfjöllun og tölulegum niðurstöðum í köflum 4.1, 4.4, 5.1 og 5.2 í skýrslunni. Að öðru leyti var lokaskýrsla skattrannsóknarstjóra ríkisins um rannsóknina efnislega samhljóða hinni fyrri að viðbættum kafla um lok rannsóknarinnar.

Í skýrslunni voru helstu niðurstöður rannsóknarinnar dregnar saman með svofelldum hætti:

„Niðurstöður rannsóknar á skattskilum og tekjum skattaðila eru:

·1 Staðin hafa verið skil á skattframtölum gjaldáranna 2007 og 2008, vegna tekjuáranna 2006 og 2007.

·2 Greiðslur þær sem skattaðili fær frá X á árinu 2007 eru launatekjur.

·3 Skattaðili hefur vantalið launatekjur sínar á skattframtali gjaldársins 2008, vegna tekjuársins 2007.

·4 Skattframtal skattaðila gjaldárið 2008, vegna tekjuársins 2007, er efnislega rangt.“

Samkvæmt tölulegum niðurstöðum skýrslunnar, sem gerð var grein fyrir í töflu í niðurstöðukafla skýrslunnar, voru vantaldar tekjur gjaldanda taldar nema 4.812.952 kr. árið 2007.

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins var mál gjaldanda sent ríkisskattstjóra til meðferðar, sbr. 6. mgr. 103 gr., sbr. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. bréf skattrannsóknarstjóra, dags. 30. september 2013. Á grundvelli rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins og í framhaldi af boðunarbréfi ríkisskattstjóra til gjaldanda, dags. 17. október 2013, tók ríkisskattstjóri áður álögð opinber gjöld gjaldanda gjaldárið 2008 til endurákvörðunar með úrskurði um endurákvörðun, dags. 13. nóvember 2013. Samkvæmt úrskurðinum hækkaði stofn gjaldanda til tekjuskatts og útsvars um 4.812.952 kr. gjaldárið 2008, eða úr 6.132.619 kr. í 10.945.571 kr. Í úrskurðinum kom fram að um væri að ræða vantaldar launatekjur gjaldanda sem hann hefði fengið frá , félagi skráðu á Ö. Þá bætti ríkisskattstjóri 25% álagi á vanframtalinn stofn gjaldanda til tekjuskatts og útsvars samkvæmt heimild í 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Gjaldandi nýtti sér ekki heimilaðar málskotsleiðir vegna þessa úrskurðar ríkisskattstjóra.

3. Fram kemur í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 24. september 2013, að gjaldandi hafi staðið skil á skattframtölum vegna tekjuáranna 2006 og 2007.

Í skýrslunni er umfjöllun um greiðslu að fjárhæð USD 19.163 eða 1.168.943 kr. sem gjaldandi fékk greidda inn á bankareikning sinn frá X hinn 10. janúar 2006. Er tekið fram að fallist sé á athugasemdir sem gerðar voru við niðurstöðu frumskýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins um að þar hafi verið um laun vegna vinnu gjaldanda árið 2005 að ræða.

Við skýrslutöku af gjaldanda 24. september 2013 var lögð fyrir hann útprentun af tölvupóstsamskiptum gjaldanda og B hjá W hf. frá 24. ágúst 2007, en í tölvupósti B til nokkurra aðila, þar á meðal gjaldanda, kom m.a. fram: „Gott væri að þið senduð mér póst um hvort þið viljið fá þetta frá erlendu félagi eða Y. Einnig upplýsingar um banka- og reikningsnúmer sem þið viljið að þetta fari inn á.“ Orðsendingunni svaraði gjaldandi þannig: „Erlendu félagi á reikning [...]; kt [...] Svo vil ég þakka kærlega fyrir mig.“ Aðspurður um þetta og hvort hann hefði talið greiðslu þessa fram í skattframtali sínu sagði gjaldandi að um laun í uppsagnarfresti hjá W hf. hefði verið að ræða og sagðist gjaldandi reikna með að upplýsingar um þessa greiðslu hefðu verið forskráðar í skattframtal eins og önnur laun. Við skýrslutöku af B hinn 5. apríl 2013 kvaðst B ekki muna eftir þessum samskiptum og gat ekki skýrt hvers vegna greiðslurnar kæmu frá erlendu félagi. Við skýrslutöku af C, fyrirsvarsmanni W hf., hinn 16. apríl 2013, kvaðst C telja að þessi greiðsla væri viðbótargreiðsla sem samið hafi verið um að starfsfólk W hf. fengi við sölu félagsins til Z ehf., en gat ekki gefið skýringar á því hvers vegna starfsfólkinu hefði verið gefinn kostur á að fá greiðsluna frá erlendu félagi.

Við skýrslutökuna af gjaldanda var lagt fyrir hann yfirlit yfir bankareikning hans nr.[...] vegna tímabilsins 3. janúar 2006 til 31. desember 2007 og vísað til þess að þar kæmu fram tvær greiðslur á árinu 2007 frá X að fjárhæð samtals 4.812.952 kr., þ.e. nánar tiltekið greiðsla að fjárhæð 1.321.582 kr. hinn 9. maí 2007 og greiðsla að fjárhæð 3.491.370 kr. hinn 27. ágúst 2007. Sagði gjaldandi að fyrri greiðslan væru dagpeningar eða fyrirgreiðsla vegna dvalar á Þ og V, en síðari greiðslan væru laun vegna uppsagnarfrests hjá W hf. Er rakið í skýrslunni að í skattframtali gjaldanda vegna tekjuársins 2007 sé gerð grein fyrir dagpeningum að fjárhæð 142.440 kr. vegna dvalar gjaldanda í Evrópu á tímabilinu 10.-24. júlí 2007, en gjaldandi fékk umrædda fjárhæð greidda í dagpeninga frá Æ ehf. samkvæmt launamiða sem gefinn var út á gjaldanda af félaginu. Samkvæmt skattframtalinu fékk gjaldandi 1.347.952 kr. greiddar í laun frá W á árinu 2007 og 4.466.723 kr. frá Z ehf., en ekki er gerð grein fyrir frekari dagpeningagreiðslum. Þá er ekki gerð grein fyrir greiðslum sem gjaldandi fékk frá X í skattframtalinu. Aðspurður um hvers vegna ekki hafi verið gerð grein fyrir umræddum greiðslum sagði gjaldandi að hann hefði talið að allar launatekjur hans væru forskráðar í framtöl hans vegna tekjuáranna 2006 og 2007 og að umræddar greiðslur hefðu verið þar á meðal. Er rakið í skýrslunni að W hf. sé umboðsaðili X og hafi félögin sama heimilisfang hér á landi. Þá séu upplýsingar sem sendar hafi verið til fyrirtækjaskrár um hið erlenda félag komnar frá W hf.

4. Til stuðnings aðalkröfu sinni um frávísun sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins vísar umboðsmaður gjaldanda til þess í bréfi til yfirskattanefndar, dags. 11. febrúar 2015, að vegna ákvæða 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu verði gjaldanda, sem gert hafi verið að sæta álagi á vantalda skattstofna samkvæmt þargreindum ákvæðum skattalaga, ekki gerð refsing samkvæmt refsiákvæðum sömu laga vegna sömu háttsemi. Hvað þessa málsástæðu varðar skal tekið fram að í dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands hefur það ekki verið talið fara í bága við bann við endurtekinni málsmeðferð að manni, sem sætt hefur álagsbeitingu vegna vantalins skattstofns, sé síðan í öðru máli gerð refsing vegna brots á viðkomandi skattalögum, sbr. dóm Hæstaréttar frá 5. júní 2014 í máli nr. 538/2013, sbr. einnig dóma réttarins frá 22. september 2010 í máli nr. 371/2010, 23. janúar 2014 í máli nr. 323/2013, 15. maí 2014 í máli nr. 465/2013 og 22. maí 2014 í máli nr. 416/2013. Verður málinu því ekki vísað frá yfirskattanefnd á þessum grundvelli.

Af hálfu umboðsmanns gjaldanda er í fyrrgreindu bréfi jafnframt fundið að drætti á meðferð málsins hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins. Samkvæmt lokamálsgrein 110. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. áður 108. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, fyrnist sök samkvæmt 109. gr. laganna á sex árum miðað við upphaf rannsóknar á vegum skattrannsóknarstjóra ríkisins, enda verði ekki óeðlilegar tafir á rannsókn máls eða ákvörðun refsingar. Ákvæðið þykir bera að skýra þannig að upphaf fyrningarfrests miðist við lok framtalsfrests viðkomandi árs, en hann rofni þegar rannsókn hefst á vegum skattrannsóknarstjóra ríkisins eða önnur hliðstæð rannsókn á vegum stjórnvalds, sbr. athugasemdir í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 40/1978, sbr. síðar lög nr. 75/1981, enda sé ekki um að ræða óeðlilegar tafir á rannsókn máls eða ákvörðun refsingar. Rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á máli gjaldanda hófst 14. desember 2012 og lauk með skýrslu embættisins, dags. 24. september 2013. Verður ekki talið að neinar tafir hafi orðið á rannsókn málsins hjá skattrannsóknarstjóra. Hins vegar liðu rúmlega þrettán mánuðir frá því að skattrannsóknarstjóri ríkisins móttók andmæli umboðsmanns gjaldanda vegna tilkynningar um fyrirhugaða ákvörðunartöku um refsimeðferð, sbr. bréf umboðsmannsins, dags. 24. október 2013, og þar til skattrannsóknarstjóri vísaði málinu til sektarmeðferðar hjá yfirskattanefnd. Ekki hafa komið fram skýringar á þeim drætti á meðferð málsins. Tekið skal fram að endurákvörðunarþætti málsins lauk hinn 13. nóvember 2013 með úrskurði ríkisskattstjóra, en gjaldandi nýtti sér ekki heimilar málskotsleiðir vegna úrskurðarins. Þótt taka megi undir athugasemdir umboðsmanns gjaldanda um að skattrannsóknarstjóri ríkisins hafi ekki að öllu leyti gætt að málshraða í tilviki gjaldanda verður ekki talið að slíkar tafir hafi verið á máli þessu að niðurlagsákvæði 8. mgr. 110. gr. laga nr. 90/2003 eigi við. Telst fyrning því hafa verið rofin við upphaf rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins 14. desember 2012. Þá voru ekki liðin sex ár frá lokum framtalsfrests vegna tekjuársins 2007. Með hliðsjón af framangreindu teljast brot gjaldanda ekki vera fyrnd að neinu leyti. Að öðru leyti kemur dráttur á málsmeðferð til athugunar við ákvörðun sektar.

Til stuðnings aðalkröfu sinni ber umboðsmaður gjaldanda því einnig við að rökstuðning vanti varðandi vantalinn skattstofn. Vísar umboðsmaður til þess að fjárhæð vantalins skattstofns sé tekin athugasemdalaust upp úr úrskurði ríkisskattstjóra um endurákvörðun, dags. 13. nóvember 2013, og ekki sé tekið tillit til ýmissa þátta sem kunni að leiða til lækkunar þessarar fjárhæðar. Hvað þessa viðbáru varðar skal tekið fram að kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins byggir á niðurstöðum rannsóknar embættisins á skattskilum gjaldanda, sbr. skýrslu skattrannsóknarstjóra, dags. 24. september 2013, þar sem raktar eru niðurstöður rannsóknar skattrannsóknarstjóra um að vantaldar launtekjur gjaldanda árið 2007 hefðu numið 4.812.952 kr., svo sem rakið hefur verið. Þá verður jafnframt ekki talið að neina þýðingu hafi þótt útborguð laun gjaldanda frá Z ehf. séu lægri en framtalin laun hans frá félaginu, svo sem umboðsmaður gjaldanda gerir að atriði í málinu, þegar tekið hefur verið tillit til staðgreiðslu opinberra gjalda. Verður sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins ekki vísað frá yfirskattanefnd á þessum grundvelli.

5. Óumdeilt er að gjaldandi tók við þeim greiðslum sem um ræðir í máli þessu, en gjaldandi hefur borið því við að hann hafi talið greiðslurnar vera forskráðar í skattframtal. Við rannsókn málsins, sbr. og það sem fram kemur í málsvörn gjaldanda til yfirskattanefndar, hefur verið staðfest af hálfu gjaldanda að um starfstengdar greiðslur hafi verið að ræða, þ.e. að sú greiðsla sem hann fékk 27. ágúst 2007, að fjárhæð 3.491.370 kr., frá X, hafi verið greiðsla launa í uppsagnarfresti vegna vinnu hans fyrir W hf., og að sú greiðsla sem gjaldandi fékk 9. maí 2007 að fjárhæð 1.321.582 kr., frá sama aðila, séu dagpeningar eða greiðsla útlagðs kostnaðar vegna vinnutengdra ferða gjaldanda fyrir W hf. Til stuðnings þessari málsvörn gjaldanda varðandi greiðsluna frá 9. maí 2007 fylgdi með bréfi umboðsmanns gjaldanda til yfirskattanefndar afrit af flugmiða, útgefnum á nafn gjaldanda, frá Íslandi til R 16. maí 2007 og frá R til Íslands 21. maí 2007. Í bréfinu er hins vegar engin umfjöllun um umrætt fylgiskjal og verður ekki ráðið af gögnum málsins, þ.m.t. framburði gjaldanda við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins, að ferð þessi hafi tengst vinnu hans eða að gjaldandi hafi borið kostnað vegna ferðarinnar. Samkvæmt þessu hafa engin gögn verið lögð fram og engar nánari skýringar gefnar af hálfu gjaldanda sem þykja geta stutt það að greiðslunni frá 9. maí 2007 hafi verið ætlað að mæta slíkum kostnaði og um ræðir í 1. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum. Tekið skal fram að af hálfu gjaldanda var ekki brugðist við bréfi ríkisskattstjóra, dags. 17. október 2013, þar sem honum voru boðaðar breytingar á áður álögðum opinberum gjöldum gjaldárið 2008, svo og neytti gjaldandi ekki kæruréttar til yfirskattanefndar vegna úrskurðar ríkisskattstjóra um endurákvörðun, dags. 13. nóvember 2013. Eins og málið liggur fyrir samkvæmt framansögðu verður ekki talið að neitt hafi komið fram sem gefur tilefni til annars en að byggja í máli þessu um sektarákvörðun á hendur gjaldanda á niðurstöðu í skýrslu skattrannsóknarstjóra um fjárhæð vantalinna tekna gjaldanda.

Fullsannað þykir samkvæmt því sem að framan er rakið og að öðru leyti með stoð í gögnum málsins að gjaldandi, A, hafi ekki gert grein fyrir skattskyldum tekjum samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 að fjárhæð 4.812.952 kr. í skattframtali árið 2008. Eins og atvikum málsins er háttað samkvæmt framansögðu verður talið að fullnægt sé í tilviki gjaldanda þeim huglægu refsiskilyrðum sem fram koma í 109. gr. laga nr. 90/2003. Hinar röngu upplýsingar í skattframtali gjaldanda leiddu til lægri álagningar opinberra gjalda hans en vera bar gjaldárið 2008, þannig að brot gjaldanda varða við 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, sbr. og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995. Nánar tiltekið nam vanálagður tekjuskattur 1.094.947 kr. og vanálagt útsvar 627.128 kr. gjaldárið 2008.

Ákvarða ber gjaldanda, A, sekt samkvæmt framangreindum ákvæðum 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003. Samkvæmt breytingum á refsiákvæðum skattalaga, sem gerðar voru með lögum nr. 42/1995 og tóku gildi 9. mars 1995, skal sekt aldrei vera lægri en sem nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin, þó að teknu tilliti til álags. Við ákvörðun sektarfjárhæðar er til þess að líta að annmarkar á skattskilum gjaldanda, sem um ræðir í málinu, taka eingöngu til eins gjaldárs, þótt um allverulega fjárhæð sé að ræða. Þá er langur tími liðinn frá því að gjaldandi framdi brot sitt, en dráttur hefur orðið á meðferð málsins án þess að gjaldanda verði um kennt, svo sem fram er komið. Af þessum ástæðum og með hliðsjón af dómaframkvæmd, sbr. m.a. sjónarmið í dómi Hæstaréttar Íslands 9. október 2003 í máli nr. 112/2003, að því er greindan drátt varðar, þykir rétt að ákvarða sekt gjaldanda u.þ.b. helming þess sem ella hefði orðið. Að þessu virtu og málsatvikum að öðru leyti og að teknu tilliti til álags samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 þykir sekt gjaldanda hæfilega ákveðin 1.200.000 kr. til ríkissjóðs og 750.000 kr. til bæjarsjóðs Garðabæjar.

6. Umboðsmaður gjaldanda hefur gert kröfu um að gjaldanda verði úrskurðaður málskostnaður úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum máls þessa þykja ekki vera til staðar lagaskilyrði til þess að ákvarða gjaldanda málskostnað. Kröfu þess efnis er því hafnað.

Úrskurðarorð:

Gjaldandi, A, greiði sekt að fjárhæð 1.200.000 kr. til ríkissjóðs og 750.000 kr. til bæjarsjóðs Garðabæjar. Málskostnaðarkröfu gjaldanda er hafnað.

 

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum