2015

Úrskurður yfirskattanefndar nr. 236/2015

2.9.2015

Úrskurður nr. 236/2015

ÚRSKURÐUR YFIRSKATTANEFNDAR

Ár 2015, miðvikudaginn 2. september, er tekið fyrir mál nr. 321/2014; krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um að A, kt. [...], verði gerð sekt vegna meintra brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Kristinn Gestsson. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi, dags. 4. desember 2014, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A, kt. [...], fyrir brot á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, og lögum nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, beggja með áorðnum breytingum, framin vegna tekjuársins 2007.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

A er gefið að sök eftirfarandi:

Skil á efnislega röngu skattframtali. Vanframtaldar tekjur.

A er gefið að sök að hafa, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, staðið skattyfirvöldum skil á efnislega röngu skattframtali gjaldárið 2008, vegna tekjuársins 2007, og með því vanframtalið tekjur sínar, samtals að fjárhæð kr. 8.760.719, sem til eru komnar vegna starfa A sem skipaeftirlitsmanns hjá X hf., kt. [...], og yfirmanns tæknimála hjá Z ehf., kt. [...].

Leiddi háttsemi A til ákvörðunar lægri tekjuskatts- og útsvarsstofns hans en vera bar gjaldárið 2008, vegna tekjuársins 2007, og þar með ákvörðunar lægri tekjuskatts og útsvars, svo sem hér greinir:     

Reiknaður tekjuskattur og útsvar

Tekjuár Vanframtaldar tekjur kr. Tekjuskattur  kr. Útsvar  kr.
2007 8.760.719 1.993.064  Vanframtaldar tekjur kr. 8.760.719 * 22,75% = kr. 1.993.064. 1.141.522  Kr. 8.760.719 * 13,03 % = kr. 1.141.522.
Samtals kr. 8.760.719 1.993.064 1.141.522

Sú háttsemi A sem lýst hefur verið hér að framan brýtur í bága við ákvæði 90. gr., sbr. 1. tölul. A. liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 22. gr. og 19. gr. og 1. mgr. 21. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, beggja með áorðnum breytingum.

Varðar framanlýst háttsemi A sekt samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, beggja með áorðnum breytingum.

Við endurákvörðun ríkisskattstjóra á stofni A (sic) til tekjuskatts og útsvars gjaldárið 2008, sem framkvæmd var með úrskurði, dags. 2. apríl 2014, á grundvelli niðurstaðna framangreindrar skýrslu, hefur A verið gert að sæta álagningu tekjuskatts og útsvars á álag á vangoldinn skattstofn samkvæmt 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með áorðnum breytingum, samtals kr. 783.646, er komi til frádráttar við ákvörðun sektarfjárhæðar.

Þess er krafist að A verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 4. desember 2014, sem fylgdi kröfugerðinni.

II.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 9. desember 2014, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef hann vildi ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál hans og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 4. mgr. 110. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Með bréfi, dags. 26. janúar 2015, hefur umboðsmaður gjaldanda lagt fram vörn í máli þessu. Þar er þess krafist að sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins verði hafnað og að málskostnaður gjaldanda verði greiddur úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.

Í bréfi umboðsmanns gjaldanda eru málavextir raktir. Byggir umboðsmaður gjaldanda kröfu sína í fyrsta lagi á því að ekki liggi fyrir sönnun á því að gjaldandi hafi átt bankareikning í W og móttekið greiðslu sem í málinu greinir. Hafi gjaldandi ekki afhent skattrannsóknarstjóra nein gögn varðandi bankareikninginn þar sem engin gögn hafi verið til. Beri að túlka allan vafa í þessum efnum gjaldanda í vil. Í öðru lagi er byggt á því að rannsakendur hafi ekki gætt nægjanlega að því að rannsaka hugarfar sakbornings og hvatir hans til brots, hvort hann hafi framið brot af ásetningi eða eftir atvikum af gáleysi og ef um tilraun sé að ræða hvort hann hafi horfið af sjálfsdáðum frá henni. Vísar umboðsmaður gjaldanda til 3. mgr. 54. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, í þessum efnum. Hafi gjaldandi ekki vitað betur en að allir skattar hafi verið greiddir af launum hans, þar með talið þeim greiðslum sem komið hafi inn á bankareikninga hans og eiginkonu hans á árinu 2007 frá Y og Þ. Hafi gjaldandi jafnframt lýst því yfir að hann viti ekki hvers vegna Y hafi innt þessar greiðslur af hendi, sem hann hefði talið að hefðu átt að koma frá fyrrum vinnuveitanda hans, Æ hf., sem umbun fyrir góða sölu. Dragi rannsókn skattrannsóknarstjóra ekkert fram um huglæga afstöðu gjaldanda og uppfylli rannsóknin því ekki skilyrði fyrir því að refsa gjaldanda vegna meintra vankanta á framtalsgerð. Í þriðja lagi er byggt á því að gjaldanda verði ekki gerð sekt tvisvar vegna sömu brota, sbr. m.a. 4. gr. 7. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. og lög nr. 62/1994, en gjaldanda hafi þegar verið refsað fyrir skattalagabrot með ákvörðun ríkisskattstjóra um að gera honum álag á endurákvarðaða skatta. Þessu til stuðnings vísar umboðsmaður gjaldanda til dóms héraðsdóms Reykjaness frá 5. júní 2014 í máli S-111/2014, ákvörðunar Evrópudómstólsins frá 26. febrúar 2013 í máli C-617/10 og tveggja dóma Mannréttindadómstóls Evrópu frá 20. maí 2014.

III.

1. Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 4. desember 2014, er gerð sú krafa að gjaldanda, A, verði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, þar sem hann hafi staðið skil á röngu skattframtali árið 2008 með því að vanrækja að telja fram í skattframtalinu tekjur frá Y og Þ tekjuárið 2007. Gjaldandi hefur lagt fram athugasemdir sínar í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins.

2. Sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins í máli þessu er byggð á niðurstöðum rannsóknar embættisins á skattskilum gjaldanda vegna tekjuársins 2007, sbr. skýrslu um rannsóknina, dags. 27. desember 2013. Rannsókn þessi hófst formlega hinn 19. febrúar 2013. Vegna rannsóknarinnar kom gjaldandi til skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins dagana 18. apríl, 4. júlí og 16. ágúst 2013, en skýrslur voru einnig teknar af B hinn 5. apríl 2013 og C hinn 4. desember 2012 og 16. apríl 2013 vegna málsins. Var rannsókn í máli gjaldanda einkum byggð á upplýsingum sem fram komu við skýrslutökur þessar, auk þess sem byggt var á skattframtali gjaldanda, upplýsingum frá fjármálastofnunum, gögnum frá X hf. (áður Æ hf.) og upplýsingum úr upplýsingakerfum skattyfirvalda. Með bréfi, dags. 12. september 2013, sendi skattrannsóknarstjóri gjaldanda skýrslu um rannsóknina, dags. 11. september 2013, sem þá lá fyrir, og gaf honum kost á að tjá sig um efni hennar. Gjaldandi fór fram á að fá að kynna sér tvo tölvupósta sem byggt var á við rannsóknina og kom gjaldandi í húsakynni skattrannsóknarstjóra í því skyni og til að horfa á upptökur af skýrslutökum af sér. Gerði gjaldandi nokkrar athugasemdir við endurrit af skýrslutöku sem fram fór 18. apríl 2013 og var endurrit skýrslutökunnar leiðrétt í samræmi við athugasemdir gjaldanda. Þá vakti gjaldandi athygli á því að fylgiskjal vantaði í skýrsluna. Hinn 25. október 2013 lagði gjaldandi fram bréflegar athugasemdir við skýrsluna. Í framhaldi af þessu tók skattrannsóknarstjóri ríkisins saman nýja skýrslu um rannsóknina, dags. 27. desember 2013, sem var efnislega samhljóða hinni fyrri að viðbættum fylgiskjölum nr. 15-21 og kafla um lok rannsóknarinnar þar sem tekið var fram að framkomin andmæli þættu ekki gefa tilefni til breytinga á skýrslunni.

Í skýrslunni voru helstu niðurstöður rannsóknarinnar dregnar saman með svofelldum hætti:

„Niðurstöður rannsóknar á skattskilum og tekjum skattaðila eru:

·1  Staðið hefur verið skil á skattframtali vegna tekjuársins 2007.

·2  Greiðslur þær sem skattaðili og maki hans fengu frá Y á árinu 2007 eru launatekjur skattaðila.

·3  Greiðslur þær sem skattaðili fékk frá Þ á árinu 2007 eru launatekjur.

·4  Skattaðili hefur vantalið launatekjur sínar á skattframtali tekjuársins 2007.

·5  Skattframtal skattaðila vegna tekjuársins 2007 er efnislega rangt.“

Samkvæmt tölulegum niðurstöðum skýrslunnar, sem gerð var grein fyrir í töflu í niðurstöðukafla skýrslunnar, voru vantaldar tekjur gjaldanda taldar nema 8.760.719 kr. árið 2007.

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins var mál gjaldanda sent ríkisskattstjóra til meðferðar, sbr. 6. mgr. 103 gr., sbr. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. bréf skattrannsóknarstjóra, dags. 30. desember 2013. Á grundvelli rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins og í framhaldi af boðunarbréfi ríkisskattstjóra til gjaldanda, dags. 12. febrúar 2014, tók ríkisskattstjóri áður álögð opinber gjöld gjaldanda gjaldárið 2008 til endurákvörðunar með úrskurði um endurákvörðun, dags. 2. apríl 2014. Samkvæmt úrskurðinum hækkaði tekjuskatts- og útsvarsstofn gjaldanda um 8.760.719 kr. gjaldárið 2008, eða úr 8.550.813 kr. í 17.311.532 kr. Í úrskurðinum kom fram að um væri að ræða vantaldar launatekjur gjaldanda frá tveimur erlendum félögum, Y og Þ. Ríkisskattstjóri bætti 25% álagi á vanframtalinn skattstofn gjaldanda samkvæmt heimild í 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Gjaldandi nýtti sér ekki heimilaðar málskotsleiðir vegna þessa úrskurðar ríkisskattstjóra.

3. Fram kemur í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 27. desember 2013, að gjaldandi hafi staðið skil á skattframtali árið 2008 vegna tekjuársins 2007. Er rakið að framtaldar launatekjur gjaldanda frá X hf. og Z ehf. nemi samtals 8.926.959 kr.

Við skýrslutöku af gjaldanda 18. apríl 2013 var lagt fyrir hann yfirlit yfir bankareikning hans nr. [...], en samkvæmt yfirlitinu fékk gjaldandi greiddar 1.200.000 kr. frá Y hinn 13. ágúst 2007. Sagði gjaldandi að hann teldi að með þessari innborgun hefði hann verið að fá umbun vegna góðrar sölu útgerðarreksturs X hf. og að hann hefði fengi þessa fjárhæð greidda eins og hver önnur laun. Aðspurður um tvær innborganir frá Þ, að fjárhæð 984.595 kr. hinn 3. október 2007 og 482.057 kr. hinn 3. desember 2007, sagðist gjaldandi telja að um laun og dagpeninga hefði verið að ræða. Aðspurður um greiðslu að fjárhæð 753.619 kr. frá Y inn á bankareikning eiginkonu gjaldanda nr. [...], sagðist gjaldandi reikna með að um væri að ræða greiðslu fyrir vinnu sína sem hefði átt að vera talin fram í skattframtali hans. Við skýrslutökuna var lögð fyrir gjaldanda útprentun af tölvupóstsamskiptum hans við B hjá X hf. frá 9. ágúst 2007, þar sem gjaldandi tilgreinir hvernig hann vilji fá þær greiðslur sem hann eigi inni, en þar kemur fram að greiða eigi 1.200.000 kr. inn á bankareikning gjaldanda nr. [...] og rest inn á bankareikning nr. [...], kt. [...], sem er bankareikningur og kennitala eiginkonu gjaldanda. Taldi gjaldandi að þetta hlyti að vera hluti af fyrrnefndri umbun hans vegna sölu á útgerðarrekstri X hf. Ennfremur var lagður fyrir gjaldanda við skýrslutökuna tölvupóstur sem B sendi gjaldanda og starfsmanni V í W 24. ágúst 2007 með netfangið [...], en í póstinum kemur fram að tilefni póstsins sé að tengja gjaldanda og umræddan D saman þar sem gjaldandi sé að leita eftir viðskiptum svipað og aðrir landmenn X hf. Um þetta sagði gjaldandi að hann hefði unnið mikið erlendis frá árinu 2003 og taldi hann sig hafa stofnað reikning hjá V í W í tengslum við það. Var gjaldanda gefinn frestur til að afhenda gögn vegna bankareiknings þessa. Þá var lagður fyrir gjaldanda tölvupóstur sem B sendi fyrrnefndum D hjá V í W hinn 5. september 2007, en í tölvupóstinum er B að láta vita af greiðslu frá Y að fjárhæð 405.883 evrur, en þar af séu 61.333 evrur vegna gjaldanda, þ.e. 5.340.448 kr. (61.333 x 87,0730). Kvaðst gjaldandi ekki kannast við þessa greiðslu.

Við skýrslutöku af B, fyrirsvarsmanni X hf., hinn 5. apríl 2013, var B spurður um greiðslur af bankareikningum Y. Kvaðst B kannast við nöfn viðtakenda og sagði að um verktakagreiðslur hefði verið að ræða. Við skýrslutökur af C, fyrirsvarsmanni X hf., sem fram fóru dagana 4. desember 2012 og 16. apríl 2013, neitaði C að tjá sig um greiðslur af reikningum Y.

Niðurstaða rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins var sú að greiðslur frá Y og Þ inn á bankareikninga gjaldanda og maka hans á árinu 2007 að fjárhæð 1.200.000 kr., 753.619 kr., 984.595 kr. og 482.057 kr. væru vantaldar launatekjur. Þá væri það mat skattrannsóknarstjóra ríkisins að gjaldandi hefði átt bankareikning hjá V í W og fengið greiddar 5.340.448 kr. inn á reikninginn sem væru hluti af launakjörum hans hjá X hf. og síðar hjá Z ehf. Næmu vantaldar launatekjur gjaldanda samkvæmt þessu samtals 8.760.719 kr.

4. Til stuðnings kröfu sinni um að sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins verði hafnað vísar umboðsmaður gjaldanda m.a. til þess að vegna ákvæða 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu verði gjaldanda, sem gert hafi verið að sæta álagi á vantalda skattstofna samkvæmt þargreindum ákvæðum skattalaga, ekki gerð refsing samkvæmt refsiákvæðum sömu laga vegna sömu háttsemi. Hvað þessa viðbáru varðar skal tekið fram að í dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands hefur það ekki verið talið fara í bága við bann við endurtekinni málsmeðferð að manni, sem sætt hefur álagsbeitingu vegna vantalins skattstofns, sé síðan í öðru máli gerð refsing vegna brots á viðkomandi skattalögum, sbr. dóm Hæstaréttar frá 5. júní 2014 í máli nr. 538/2013, sbr. einnig dóma réttarins frá 22. september 2010 í máli nr. 371/2010, 23. janúar 2014 í máli nr. 323/2013, 15. maí 2014 í máli nr. 465/2013 og 22. maí 2014 í máli nr. 416/2013. Verður málinu því ekki vísað frá yfirskattanefnd á þessum grundvelli.

5. Í máli því, sem hér er til meðferðar, er um að tefla kröfugerð um ákvörðun sektar á hendur gjaldanda samkvæmt þar tilgreindum ákvæðum 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sem gera ráð fyrir því að sektarákvörðun sé bundin þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin. Verður því að taka afstöðu til þess hvort skattrannsóknarstjóri ríkisins hafi með skattrannsókn sinni sýnt fram á hverju skattfjárhæð, sem undan var dregin, hafi að minnsta kosti numið. Allan vafa í því sambandi verður að meta gjaldanda í hag, sbr. grundvallarreglu 108. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála.

Af hálfu gjaldanda er því hafnað að hann hafi verið eigandi bankareiknings í V í W og fengið greidd laun inn á slíkan reikning. Í bréfi umboðsmanns gjaldanda til yfirskattanefndar, dags. 26. janúar 2015, er þetta áréttað og tekið fram að túlka skuli allan vafa um þetta gjaldanda í hag. Af þessu tilefni er ástæða til að víkja nánar að því sem fram kom við rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á þessum þætti málsins. Eins og fram er komið var við skýrslutöku af gjaldanda hinn 18. apríl 2013 lagt fyrir hann fskj. nr. 10.2 með skýrslu skattrannsóknarstjóra, en þar er um að ræða tölvupóst frá B, fyrirsvarsmanni X hf., til „D“ hjá V í W þar sem fram kemur að B vilji koma á sambandi milli gjaldanda og „D“, og að gjaldandi vilji fá viðskipti svipað og aðrir „landmenn“. Þegar gjaldandi var spurður að því til hvaða viðskipta væri vísað í tölvupóstinum sagði gjaldandi að hann hafi unnið svo mikið erlendis og þá hefði þetta verið spurning um að hafa reikning erlendis til að geta nýtt þegar hann væri erlendis. Aðspurður hvort reikningur hefði verið stofnaður fyrir hann erlendis sagði gjaldandi: „Ég held það, ég þyrfti nú bara að gá að því.“ Þegar gjaldandi var spurður að því hvort það hefði verið í V sagði gjaldandi: „Já ég held það.“ Þá var gjaldandi spurður hvort hann myndi eftir að það hafi verið stofnaður reikningur og sagði gjaldandi: „Jú ég held ég hafi stofnað reikning, já.“ Síðar við skýrslutökuna viðhafði gjaldandi eftirfarandi ummæli þegar rannsóknarmaður sagði við gjaldanda að stærsti hluti vantalinna tekna hans væru þessar fimm milljónir sem þeir teldu að hefðu farið inn á hinn meinta reikning gjaldanda í W: „Já, já. En ég eins og ég segi, þetta, ég bara hef ekki hugmynd um þetta og ég þarf líka að skoða það, ég hélt að ég hefði ekki fengið neina stóra greiðslu inn á reikninginn í W. Ég þarf bara að vita hvernig yfirlitin ... Hvort ég geti fundið þau.“ Eftir skýrslutökuna mun gjaldandi hafa greint frá því í símtali við starfsmann skattrannsóknarstjóra ríkisins að hann hefði ekki stofnað bankareikning í W. Gæti hann því ekki lagt fram nein gögn um slíkan reikning. Við skýrslutöku 4. júlí 2013 var gjaldandi að nýju spurður um greiðslu að fjárhæð 61.333 evrur sem getið væri um í tölvupósti B til V í W og hvort hann hefði átt reikning hjá þeim banka. Áréttaði gjaldandi að hann myndi ekki til þess að hafa stofnað bankareikning í W. Þá kvaðst hann ekki kannast við umrædda innborgun. Þetta ítrekaði gjaldandi í bréfi sínu til skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 25. október 2013.

Auk fyrrgreinds tölvupósts frá fyrirsvarsmanni X hf. liggur fyrir tölvupóstur frá 5. september 2007 frá sama aðila til fyrrgreinds D hjá V í W um að Y hafi sent greiðslu þann 3. september að fjárhæð 405.883 evrur og að 61.333 evrur af þessari fjárhæð séu vegna gjaldanda, sbr. fskj. nr. 10.3 með skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins. Samkvæmt samantekt skattrannsóknarstjóra á greiðslum Y á erlenda bankareikninga, sem byggðar voru á yfirliti yfir SWIFT greiðslur og greiðslufyrirmæli, sbr. fskj. nr. 10.4, greiddi Y 405.883 evrur til V í W hinn 3. september 2007, eða 35.341.450 kr. miðað við gengi 87,0730, sbr. og gögn um greiðslu þessa, sbr. fskj 10.6-10.7 með skýrslu skattrannsóknarstjóra. Að virtum þessum gögnum þykir hafið yfir allan vafa að launagreiðandi gjaldanda hafi ráðstafað greiðslu að fjárhæð 61.333 evrur eða 5.340.448 kr., sem taldist tilheyra gjaldanda og greidd var af bankareikningi Y, inn á bankareikning í V í W. Ekki verður staðhæft, gegn neitun gjaldanda, að síðarnefndur bankareikningur hafi verið í nafni hans, en allt að einu þykir verða að leggja til grundvallar í málinu að þessir fjármunir hafi verið vegna gjaldanda og að honum hafi verið þeir tiltækir. Af hálfu gjaldanda eru ekki bornar brigður á að aðrar greiðslur, sem í málinu greinir, hafi verið vantaldar tekjur, en þar er um að ræða innborganir á bankareikning gjaldanda að fjárhæð 1.200.000 kr. frá Y hinn 13. ágúst 2007 og að fjárhæð 984.595 kr. hinn 3. október 2007 og 482.057 kr. hinn 3. desember 2007 frá Þ, svo og greiðslu að fjárhæð 753.619 kr. frá Y inn á bankareikning eiginkonu gjaldanda. Tekið skal fram af hálfu gjaldanda var ekki brugðist við bréfi ríkisskattstjóra, dags. 12. febrúar 2014, þar sem honum voru boðaðar breytingar á áður álögðum opinberum gjöldum gjaldárið 2008, svo og neytti gjaldandi ekki kæruréttar til yfirskattanefndar vegna úrskurðar ríkisskattstjóra um endurákvörðun, dags. 2. apríl 2014, en með úrskurði þessum voru allar framangreindar greiðslur skattlagðar hjá honum sem laun.

Eins og málið liggur fyrir samkvæmt framansögðu verður ekki talið að neitt hafi komið fram sem gefur tilefni til annars en að byggja í máli þessu um sektarákvörðun á hendur gjaldanda á niðurstöðu í skýrslu skattrannsóknarstjóra um fjárhæð vantalinna tekna gjaldanda.

Fullsannað þykir samkvæmt því sem að framan er rakið og að öðru leyti með stoð í gögnum málsins að gjaldandi, A, hafi ekki gert grein fyrir skattskyldum tekjum samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 að fjárhæð 8.760.719 kr. í skattframtali árið 2008. Eins og atvikum málsins er háttað samkvæmt framansögðu verður talið að fullnægt sé í tilviki gjaldanda þeim huglægu refsiskilyrðum sem fram koma í 109. gr. laga nr. 90/2003. Hinar röngu upplýsingar í skattframtali gjaldanda leiddu til lægri álagningar opinberra gjalda hans en vera bar gjaldárið 2008, þannig að brot gjaldanda varða við 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, sbr. og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995. Nánar tiltekið nam vanálagður tekjuskattur 1.993.064 kr. og vanálagt útsvar 1.141.522 kr. gjaldárið 2008.

Ákvarða ber gjaldanda, A, sekt samkvæmt framangreindum ákvæðum 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003. Samkvæmt breytingum á refsiákvæðum skattalaga, sem gerðar voru með lögum nr. 42/1995 og tóku gildi 9. mars 1995, skal sekt aldrei vera lægri en sem nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin, þó að teknu tilliti til álags. Við ákvörðun sektarfjárhæðar er til þess að líta að annmarkar á skattskilum gjaldanda, sem um ræðir í málinu, taka eingöngu til eins gjaldárs, þótt um allverulega fjárhæð sé að ræða. Þá er langur tími liðinn frá því að gjaldandi framdi brot sitt, en dráttur hefur orðið á meðferð málsins án þess að gjaldanda verði um kennt. Af þessum ástæðum og með hliðsjón af dómaframkvæmd, sbr. m.a. sjónarmið í dómi Hæstaréttar Íslands 9. október 2003 í máli nr. 112/2003, að því er greindan drátt varðar, þykir rétt að ákvarða sekt gjaldanda u.þ.b. helming þess sem ella hefði orðið. Að þessu virtu og málsatvikum að öðru leyti og að teknu tilliti til álags samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 þykir sekt gjaldanda hæfilega ákveðin 2.200.000 kr. til ríkissjóðs og 1.300.000 kr. til bæjarsjóðs Hveragerðis.

6. Umboðsmaður gjaldanda hefur gert kröfu um að gjaldanda verði úrskurðaður málskostnaður úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum máls þessa þykja ekki vera til staðar lagaskilyrði til þess að ákvarða gjaldanda málskostnað. Kröfu þess efnis er því hafnað.

Úrskurðarorð:

Gjaldandi, A, greiði sekt að fjárhæð 2.200.000 kr. til ríkissjóðs og 1.300.000 kr. til bæjarsjóðs Hveragerðis. Málskostnaðarkröfu gjaldanda er hafnað.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum